Í bókinni „Mannlífi mikilla sæva – Staðhverfingabók„, er m.a. lýst hungurástandi því sem ríkti í Grindavík og á Suðurnesjum um miðja 18. öld – á tímum einokunarverslunar Dana.
Ekki verður, í ljósi þess, hjá því komist að skoða tilvist „Tyrkjabyrgjanna“ svonefndu í Sundvörðuhrauni neðan Eldvarpa, en þau virðast fyrst og fremst hafa verið byggð sem fiskbyrgi – og þá mögulegar vistgeymslur til að bregðast við ríkjandi tímabundnu ástandi. Ekki er vitað um aldur þeirra, en hafa ber í huga að fyrr á öldum voru allflestir Grindvíkingar leiguliðar og þurftu því á stundum nauðráð til bjargar. Byrgin gleymdust, en voru uppgötvuð sem minjar í lok 19. aldar. Ekki er ólíklegt að ætla að Grindvíkingar á árabátum Skálholtsstóls hafi stungið undan einum og einum fiski, borið hann upp í hraunið og hlaðið þar byrgi sem geymslur með það fyrir augum að geta sótt hann þangað síðar þegar hungur svarf að fjölskyldunni. Síðar, með breyttum breytanda, urðu byrgin óþörf og gleymdust, enda úr alfaraleið. Byrgin bera öll einkenni fiskibyrgjanna í Strýthólahrauni á Þórkötlustaðanesi, í Slokahrauni vestan Hrauns, við Nótarhól austan Ísólfsskála og á Selatöngum.
Einokunin
„Með tilskipun 20. apríl 1602 gaf konungur þegnum sínum einkaleyfi til verslunar á Íslandi. Með því hófst Einokunarverslun Dana hér á landi, sem stóð í 185 ár. Versluninni var skipt milli þriggja borga, Kaupmannahafnar, Málmeyjar og Helsingaeyrar. Kom Grindavík, ásamt Keflavík og fjórum öðrum höfnum, í hlut höfuðstaðarins.
Þótt Danir ættu að taka við versluninni að fullu árið 1602 var svo ekki í raun. Til þess skorti bæði kapítal, skipakost og mannafla. Hlutu þeir því að semja um það við Þjóðverja að annast verslunina að svo miklu leyti, sem þeir ekki komust yfir hana sjálfir. Stóð svo a.m.k. 2 fyrstu áratugi einokunar. Á þessum tíma átti Skálholtsstóll nánast allar jarðir í Grindavík og nágrenni.
Aðeins tvær ýsur
Hér skal brugðið upp einni mynda, sem lýsir nokkuð vel ástandinu og afkomunni í Grindavík þegar harðindin, aflaleysið og verslunaráþjánin fylktu liði gegn þessari örbjarga þjóð með þeim afleiðingum, að á árunum 1756 og ’57 dóu 2500 manns í Skálholtumdæmi.
Árið 1756 voru búsettir í Grindavík 28 fjölskyldur eða 196 manns, segir í umfjöllun Guðmundar sýslumanns Brynjólfssonar þann 12. febrúar, um ástandið á Suðurnesjum; „sem ei hafa annað af að lifa en litla mjólk vel flestir en sumir aldeilis ekkert nema það hjá öðrum skrármegandi betla. Hér fyrir utan er heill hóp margt sjófólk í þessa sveit komið matarlítið, sem ei verður matur lánaður, svo fyrir því bíður ei annað en vísast aftur til baka heim í sveitir, hvað þessa hreppa innbyggjurum, sem sjálfu því, er hin mesta skaða von. Og orsakast þessi bágindi mest af fiskleysi og stórri óveðurháttu, sem lengi hefur viðhaldist og enn nú yfir dynur.
Því er vor þénustusamleg begjæring til hr. sýslumannsins, að hann láti þess hrepps innbyggjara fá hjálp og styrk til lífs uppihalds í soddan nauðsynjum frá Básendabúðum ei síður en aðra utan districtsmenn þar eð vér byggjum Grindarvíkurhafna matvöru fyrirliggjandi í nefndum búðum og þykjumst því eiga þar frekara tilkall en þeir, hvað ef ekki nægir, óskum vér í undirgefni að hann komi hingað hið snarasta og opni hér kaupmannshúsin til frekari hjálpar þeim nauðlítandi, sem ómögulega geta sótt mjöl eður brauð til Bátsenda, því vér meinum hér fyrirliggja um eða yfir 10 tunnur matar.“
Átta dögum síðar – þ. 19. febrúar er sýslumaður kominn til Járngerðarstaða; „Kemur þar allt hið sama fram og hér að framan er lýst. Í sveitina hafa aðeins fengist 14 tunnur matar frá Bátsendum. Hins vegar telja þeir sig vita „nokkurn mat fyrirliggja í Companiniens handelshúsum hér í Grindavík“. Það sé því lífsnauðsyn, að þau sömu séu af sýslumanninum, sem næsta yfirvaldi með fyrstu hentugleikum, opnuð nauðlíðandi fólki í sveit þessari til lífsbjargar svo ei af hungri út af deyi eða ófært verði sér næringar leita á sjónum, hvar af sjófólksins heimavísan hangir, oss og því til óbætanlegs skaða“.
Aðspurði sýslumaðurinn samankomna þingmenn hvort þeir vissu engin önnur ráð, meðöl eður útvegi þessu nauðlíðandi fólki til lífsbjargar en Companiens handels húsa opnan í Grindavík, hvar til einlæglega og sameiginlega svaraða var: NEI“.
„Svo og undirréttast sannferðulega, að næstliðinn dag hafi nær alskipa róið í sveit þessari, og allan dag í temmilegum makindum úti verið, djúpt og grunnt að leita. Hafi þó einasta tvær ýsur á land komið en varla orðið vart við aðra drætti. Sanni þessa best, hve algjört fiskleysið sé.“
Ein tunna bygg, en brennivín nóg
En hvort sem Grindavíkurverslunin hefur verið opnuð á þessari vertíð og eitthvað hefur verið gert til að seðja sárasta hungur útróðrarmanna eða ekki, þá er svo mikið víst, að vorið fyrir var þar ekki um auðugan garð að gresja, hvað matvöruna snerti, aðeins tvær tunnur af skonroki og ein af af bygggrjónum. Hins vegar voru vínbirgðirnar 878 pottar af kornbrennivíni, 92 pottar af öðru víni, 4 tunnur af öli og 68 pottar af mjöð.“
Sjá meira um „Tyrkjabyrgin“ HÉR og HÉR.
Heimild:
-Mannlíf mikilla sæva – Staðhverfingabók, séra Gísli Brynjólfsson, Bókaútgáfan Örn og Örlygur 1975-, bls. 107-113.