Í örnefnalýsingu fyrir Bæjarsker er getið um Einstæðing. En hvað eða hver er Einstæðingur? Löngum var vafi á hver eða hvar hann (það) væri. Sumir töldu hann vera í landi Bæjarskerja, en aðrir að hann væri í Leirunni. Hvað, sem öðru leið, Einstæðingsmelur, átti að vera þar í kring, eins og segir í fyrrnefndri skrá.
Einstæðingur gat verið stakur hóll eða klapparhæð á Miðnesheiðinni ofan Bæjarskerja. Þar sem Einstæðings er getið í örnefnalýsingu fyrir Bæjarsker mátti telja ólíklegt að hann væri að finna í Leirunni. Ekkert slíkt örnefni er skráð þar skv. heimildum.
Örnefnið „Einstæðingur“ er til sem stakt fjall norðan við Dyngufjöll. Samheitið gat því verið um stakan hól í heiðinni.
Lykillinn að lausninni lá hjá Sigurði Eiríkssyni í Norðurkoti í Fuglavíkurhverfi, skammt utan við Bæjarskershverfið vestan Sandgerðis. Sigurður er manna fróðastur um örnefni og minjar á svæðinu.
Einstæðingur er (var) varða á stökum hóll á Einstæðingsmel við hina gömlu Sandgerðisgötu milli Sandgerðis og Grófarinnar í Keflavík. Varðan hafði bæði hafði sokkið í jarðveg og fallið um sjálfa sig í tímans rás. Hún var því nánast horfin sjónum. Einstæðingur hafði þó fyrrum verið áberandi kennileiti á gatnamótum þar sem Fuglavíkurleið kom inn á Sandgerðisgötuna skammt norðan Gotuvörðu.
Sigurður hafði áður rakið Fuglavíkurleiðina millum Fuglavíkurhverfis og Sandgerðisgötu. Síðarnefnda gatan hafði greinilega verið fjölfarin og því vel vörðuð á milli byggðalaganna. Fuglavíkurleiðin hafði einnig verið vörðuð, en flestar vörðurnar eru nú fallnar. Brotin má þó enn sjá við hana ef vel er að gáð.
Fuglavíkurleiðin liggur frá Fuglavík um tún Norðurkots, upp á lágar brúnir þar sem senn má sjá tóft hænsahúss Hóla og síðar Norðurkots. Ofar er gatan vel greinileg um móa og mela, yfir Háamel og framhjá Folaldatjörn. Að vísu þarf glögg götuauga til að fylgja henni alla leið að Einstæðing, en með gaumgæfni gæti það tekist. Síðasta spölnum að vörðunni góðu hefur nú verið spillt með efnistöku og ruslaurðun, en varðan á hólnum hefur fyrrum verið hið ágætasta leiðarljós vegfarendum um götuna – sem og
Einstæðingur er nú því varðan hefur verið endurhlaðin með reisn. Verkið vann Guðmundur Sigurbergsson, frændi (friend) Sigurðar í Norðurkoti.
Það hafði lengi verið draumur Sigurðar og Guðmundar að endurreisa Einstæðing. Fyrir skömmu lét Guðmundur verða að því. Hann tók gamla vörðubrotið upp, kannaði fótamennt og lögun þeirrar gömlu, safnaði viðbótarfóðri og lét til skarar skríða – endurhlóð vörðuna.
Ekki þarf að taka fram að hér er um einstaklega virðingarvert framtak að ræða. Endurvakið hefur verið að frumkvæði einstaklinga eitt af merkilegri kennileitum ferðalanga fyrri tíðar um Miðnesheiði, a.m.k. þeirra er leið áttu til og frá Fuglavíkurbæja. Hafa ber í huga að heiðin, þótt hvorki væri há né löng, var löngum torfær því fátt var um kennileiti. Vörðurnar gátu þá skipt sköpum. Má t.a.m. nefna að á 40 ára tímabili á 19. öld urðu 60 manns úti á heiðinni, þ.e. að jafnaði einn og hálfur maður á ári hverju.
Guðmundur Sigurbergsson, búandi í Keflavík með ábúð í Fjörukoti, hefur ásamt Sigurði hlaðið upp nokkrar vörður á svæðinu, s.s. Efri-Dauðsmannsvörðuna neðan við Draugaskörð á Sandgerðisgötunni gömlu, Gotuvörðuna við Sandgerðisgötuna ofan Einstæðings og endurbætt lykilvörðu Sandgerðisgötu neðan Einstæðings, skammt ofan við Grímsvörður. Allar eru vörðurnar nú aðdráttarafl ferðamanna og áhugafólks um gönguleiðir ofan Sandgerðis.
Auðvitað ætti ekki að þurfa frumkvæði áhugasamra einstaklinga til að endurreisa jafnmerkilegt kennileiti og Einstæðing. Sérhvert sveitarfélag, hvort sem það er á Suðurnesjum eða annars staðar á landinu, ætti að sýna þessari tegund minja a.m.k. þá virðingu sem þeim ber – þótt ekki væri fyrir annað en söguna og mikilvægis þeirra fyrrum.
Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Bæjarsker.
-Sigurður Eiríksson í Norðurkoti, f.d. 08.09.1929.
-Guðmundur Sigurbergsson .