Gengið var umhverfis Arnarfell í Krýsuvík. Skoðaðar voru tóftir Arnarfellsbæjarins sunnan undir fellinu, útihúsatóftir í fellinu miðju, litið á Arnarfellsvatnið suðaustan við fellið og síðan skúta og stekk norðan við það. Að Arnarfelli að vestanverðu liggja miklir garðar er tengast Suðurkoti og Læk. Frægastur ábúanda á Arnarfelli var Beinteinn Stefánsson, sá er byggði Krýsuvíkurkirkju þá er nú stendur, 1857.
Krýsuvíkurkirkja – tóftir gamla bæjarins framar.
Þegar gengið er frá kirkjunni er fyrst fyrir Ræningjahóll sunnan henar, handan þjóðvegarins. Hóllinn, sem og gróinn hóll austan hans, Ræningjadys, tengjast sögnum af Tyrkjunum er komu upp Ræningjastíg á Krýsuvíkurbergi og áleiðis að kirkjunni þegar þeir mættu séra Eiríki á Vogsósum, sem hafði verið þar við messu. Ræningjunum var komið fyrir í dysinni eftir að þeir höfðu vegið hvorn annan að áhrínan séra Eiríks.
Syðri vörslugarðinum, sem nær milli Bæjarfells og Arnarfells, var fylgt áleiðis yfir að síðarnefnda fellinu. Sunnan undir fellinu eru tóftir bæjarins.
Beinteinn var maður nefndur suður í Krýsuvík, bjó hann að Arnarfelli. Eitthvert sinn var hann að smíða skip við sjó frammi, þar sem heitir á Selatöngum. Hafðist hann þar við í verskála. Þar hafði hann alltaf hjá sér hlaðna byssu. Hannn lét einatt loga ljós í skálanum þegar kveldaði.
Selatangar – sjóbúð.
Sagan segir að eitt kvöld, er hann hefur kveikt í skálanum, heyrir hann allt í einu mjög mikinn brest og skarkala í skáladyrum. Lítur hann þangað og sér þá að ógurlegt skrímsli treður sér inn úr dyrunum; það hafði brotið tréð úr þeim, hafði dyraumbúninginn á herðunum og tróð sér svo áfram. En þröngt varð um það á milli grjótveggjanna. Það var eins og maður neðan en mjög ófreskjulegt eða dýrslegt ofan. Beinteinn var harðfær maður og alleinbeittur. Hann þrífur því byssu sína, lætur sér ekki bilt við verða og hleypir af á ófreskjuna. Henni bregður hvergi og treður sér því meir áfram. Beinteinn hleður aftur byssuna og hleypir af. Þá stansar þetta en ekkert sér á því. Enda var það allt að sjá hulið skeljarögg utan.
Tanga-Tómas á Selatöngum með FERLIRsfélögum.
Beinteinn var í silfurhnepptri millifatapeysu. Hann man nú allt í einu að hann hefir heyrt sagt að þótt engin kúla vinni á skeljastakk skrímsla þá geri þó silfurhnappar það. Slítur hann því hnappana af peysunni sinni, hleður byssuna og hefur á fyrir högl eða kúlu og skýtur enn á skrímslið. Þá tók það snarpt viðbragð, reif sig út og hvarf til sævar. En Beinteinn hljóp út. Þá fyrst greip hann hræðsla. Tók hann til fóta og hægði eigi á sprettinum fyrr en heima við bæ, óður af hræðslu og nærri sprunginn af mæði og sagði söguna. Að morgni sáust aðgerðir skrímslisins en sjálft var það með öllu horfið.
Selatangar – sjóbúð.
Sagan af viðureign Beinteins og Tanga-Tómasar á Selatöngu er mörgum kunn. Í Rauðskinnu, sem gefin var út 1929, var sagan eftirfarandi [með innskotum vegna mismunar í öðrum frásögnum af sama atburði]:
“Á Selatöngum, miðja vegu milli Grindavíkur og Krýsuvíkur, var fyrrum verstöð og útræði mikið. Gengu þaðan m.a. biskupsskip frá Skálholti. Þar sér enn allmikið af gömlum búðartóftum og göðrum, er fiskur og þorskhausar voru fyrrum hengdir á til herslu.
Sögunarkór í Katlahrauni.
Hjá Selatöngum eru hraunhellar margir, en flestir litlir. Var hlaðið fyrir opið á sumum þeirra til hálfs, og notuðu sjómenn þá til ýmissa hluta. Í einum þeirra höfðu þeir kvörn sína, og kölluðu þeir þann helli Mölunarkór, í öðrum söguðu þeir, og kölluðu hann því Sögunarkór o.s.frv. Reki var mikill á Selatöngum, og færðu sjómenn sér það í nyt; smíðuðu þeir ýmsa gripi úr rekaviðnum, þá er landlegur voru, en þær voru ekki ótíðar, því að brimasamt var þar og því sjaldan róið á stundum. Á Selatöngum mun ort hafa verið margt um manninn, eins og ráða má af vísu þessari um sjómenn þar:
Tuttugu og þrjá Jóna telja má,
tvo Árna, Þorkel, Svein,
fimm Guðmunda og Þorstein þá,
þar með Guðlaug, Freystein,
Einara tvo, Ingimund, Rafn,
Vilhjálmur Gesti verður jafn,
Selatanga sjóróðramenn;
sjálfur guð annist þá.
Selatangar – uppdráttur ÓSÁ.
[Hér er um að ræða stytt afbökun á vísunni. Hún mun vera til í nokkrum útgáfum]. Á síðara hluta 19. aldar bjó í Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík maður sá, er Einar Sæmundsson hét. Hann átti mörg börn, og er saga þessi höfð eftir tveim sonum hans, Einari og Guðmundi. Einar, faðir þeirra, var allt að 30 vertíðum formaður á Selatöngum. Var í mælt, að reimt hefði verið á Selatöngum, og var draugsi sá í daglegu tali nefndur Tanga-Tómas. Hann gerði búðarmönnum ýmsar smáglettur, en var þó ekki mjög hamramur.
Tóftir Arnarfellsbæjarins.
Þá bjó á Arnarfelli í Krýsuvík maður sá, er Beinteinn hét. Var talið, að Tómas væri einna fylgispakastur við hann. Var Beinteinn þessi fullhugi mikill, smiður góður og skytta og hræddist fátt. Var þetta orðtak hans: “Þá voru hendur fyrir á gamla Beinteini”.
Einu sinni varð Beinteinn heylítill, og flutti hann sig þá niður á Selatanga með fé sitt til fjörubeita. var hann þarna um tíma og hafðist við í sjóbúð, er notuð var á vetrum. Kvöld eitt, er Beinteinn kemur frá fénu, kveikir hann ljós og tekur tóbak og sker sér í nefnið. Tík ein fylgdi honum jafnan við féð og var hún inni hjá honum. Veit Beinteinn þá ekki, fyrr en ljósið er slökkt og tíkinni hent framan í hann. Þreif hann þá byssuna og skaut út úr dyrunum. Sótti draugsi þá svo mjög að Beinteini, að hann hélst loks ekki við í sjóbúðinni og varð að hrökklast út í illviðrið og fara heim til sín um nóttina.
Arnarfellsvatn.
[Í annarri sögu af sama atviki kemur fram að þegar Beinteinn hafi ætlað að ganga til náða, gert krossmark fyrir dyrum, lagt hurðina aftur og stein fyrir svo Tanga-Tómas héldist úti, hafi draugsi rumskað, séð að hann hafði verið lokaður inni, ráðist á Beintein og þeir slegist úti sem inni. Hafi Beinteinn komist berfættur og við illan leik heim að Arnarfelli og þurft að liggja þar næstu daga til að jafna sig]. Hafði Beinteinn skaröxi í hendi, og hvar sem gatan var þröng á leiðinni heim um nóttina, þá kom draugsi þar á móti honum og reyndi að hefta för hans, en undir morgun komst Beinteinn heim og var þá mjög þrekaður.
[Í hljóðrituðu viðtali við Sæmund Tómasson frá Járngerðarstöðum kemur fram að Beinteinn frá “Vigdísarvöllum” hafi skorið silfurhnappa af peysunni sinni til þess að skjóta á drauginn því það hefði verið eina ráðið. Í enn annarri frásögn kemur hins vegar fram að silfurhnappar hefðu ekki dugað á Tanga-Tómas, einungis lambaspörð].
Tóft í Arnarfelli.
Um viðskipti draugsa og Beinteins er ekki fleira kunnugt, svo að sögur fari af. Þess má geta, að þá er Beinteinn var spurður, hvað hann héldi, að um draugsa yrði, er sjóbúðin yrði rifin, þá svaraði hann: “Og hann fylgir staurunum, lagsi”.
Nokkuru eftir þetta bar svo við, að tveir áður nefndir synir Einars bónda í Stóra-Nýjabæ fóru niður á Selatanga á jólaföstunni og hugðu að líta til kinda og ganga á reka; jafnframt ætluðu þeir að vita, hvort þeir sæu ekki dýr, því að annar þeirra var skytta góð.
Þeir komu síðla dags niður eftir og sáu ekkert markvert; fóru þeir inn í þá einu verbúð, sem eftir var þar þá, og ætluðu að liggja þar fram eftir nóttunni, en fara á fætur með birtu og ganga þá fjöru og vita, hvort nokkuð hefði rekið um nóttina.
Bálkar voru í búðinni fyrir fjögur rúm, hlaðnir úr grjóti, eins og venja var í öllum sjóbúðum, og fjöl eða borð fyrir framan. Lögðust þeir í innri rúmbálkinn að vestanverðu og lágu þannig, að Einar svaf við gaflhlaðið, en Guðmundur andfætis. Þá er þeir höfðu lagst niður, töluðu þeir saman dálitla stund, og segir þá Guðmundur meðal annars: “Skyldi þá Tómas vera hér nokkurs staðar”? Kvað Einar það líklegt vera. Fella þeir svo talið og ætla að sofna, en er þeir hafa legið litla stund, þá heyra þeir, að ofan af ytra bálkanum við höfuð Guðmundar stekkur eitthvað, Var það líkast því sem stór hundur hefði stokkið niður á gólfið; voru þeir þó hundlausir, er þeir komu þangað, og búðin lokuð. Segir þá annar bræðranna: “Þarna er hann þá núna”, en í sömu svipan er kastað tómu kvarteli, sem hafði staðið á ytra bálkinum hinum megin, einn í gaflhlað beint yfir höfuð Einari. Sofnuðu þeir bræður ekki um nóttina, en fóru á fætur. Ekki lét draugsi neitt frekar til sín heyra.
Arnarfellsrétt.
Eftir 1880 lagðist útræði niður frá Selatöngum. Um það leyti var seinasta sjóbúðin rifin, og hafa menn eigi hafst þar við síðan.”
Ofar í Arnarfelli eru tóftir útihúsa. Efst á því er Eiríksvarða, sögð hlaðin af séra Eiríki með þeim orðum að á meðan hún stendur munu Tyrkir ekki koma í Krýsuvík. Suðaustan við Arnarfell er Arnarfellsvatn. Vel gróið er við það sunnanvert. Þar munu hestalestarnar á leið austur yfir hafa áð fyrrum. Enn mótar fyrir tóftum við vestanvert vatnið. Nokkru suðvestar er Arnarfellsréttin.
Gengið var norður fyrir Arnarfell. Uppi í því norðaustanverðu er nafngreindur skúti, fremur lítill þó, kenndur við kvenmann frá bænum. Norðan fellsins er hlaðinn stekkur utan í grettistaki. Skammt vestar er hlaðinn garður er nær áleiðis að bænum Læk, austan á austanverðri Krýsuvíkurtorfunni. Honum var fylgt þangað og á leiðinni voru rifjaðar upp sagnir af Arngrími frá Læk og veru hans með fé sitt í fjárhellinum í Klofningum (sjá aðrar FERLIRslýsingar).
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mín.
Arnarfell – uppdráttur ÓSÁ.