Eldfjöll Íslands eru mörg virk vegna sinna einstakra jarðfræðilegra aðstæðna. Á eyjunnni eru u.þ.b. 130 eldfjöll, en einungis nokkur eldfjöll gjósa reglulega, til dæmis Hekla eða Krafla.
Eldstöð er jarðfræðilegur landslagsþáttur (oftast fjall, þá kallað eldfjall) þar sem hraun eða í tilfelli lághitaeldstöðva, rokgjarnt efni gýs, eða hefur gosið. Fjölmargar eldstöðvar eru þekktar á reikistjörnum og tunglum í sólkerfinu, margar þeirra mjög virkar. Á jörðinni á þetta sér stað á flekamótum og á svokölluðum heitum reitum, en Hawaii eyjajklasinn myndaðist til dæmis yfir einum slíkum. Rannsókn eldstöðva kallast eldfjallafræði. Virkasta eldfjall jarðarinnar er Kilauea eldfjallið á Hawaii.
Á Reykjanesskaganum er Hengill svipmikið móbergsfjall í grennd við Reykjavík. Jarðhiti er í Henglinum og ölkelda. Sunnan við Hengil eru þrjú dalverpi og í innsta dalnum, milli Hengils og Skarðsmýrarfjalls, er einn mesti gufuhver landsins.
Trölladyngja (275 m) á miðjum skaganum er eldfjall á Reykjanesskaga, nyrst í Núpshlíðarhálsi. Rétt við hana er Grænadyngja (393 m), sem er mjög áþekk og er oft talað um fjöllin sem tvíbura og saman eru þau kölluð Dyngjurnar. Þær líkjast ekki gosdyngjum þrátt fyrir nöfnin og eru það heldur ekki.
Suðurhlíðar fjallanna þykja mjög litskrúðugar og er þar háhitasvæði, Sogin. Báðar Dyngjurnar þykja athyglisverðar jarðfræðilega séð og eru þær mjög vinsælar til uppgöngu, enda er mjög auðvelt að ganga á þær. Trölladyngja er þó nokkuð klettótt að ofan. Af Dyngjunum er mjög gott útsýni.
Á Trölladyngjusvæðinu hafa verið boraðar tilraunaborholur. Áform voru um að virkja jarðhitann þar en boranir hafa ekki ekki nógu góðan árangur.
Búrfell upp af Hafnarfirði er eldstöð af þeirri gerð sem kallast eldborg. Eldborgir einkennast af því að gos hefur átt sér stað á stuttri sprungu eða pípulaga gosrás og myndar því stakan aðalgíg og stundum smærri gíga þar hjá. Engir hliðargígar eru hjá Búrfelli, það stendur eitt og stakt, 180 m hátt yfir sjó, hlaðið úr gjalli og hraunkleprum. Hraunstraumarnir sem runnu frá gígnum nefnast einu nafni Búrfellshraun en hafa fjölmörg sérnöfn eftir einstökum hlutum hraunsins, svo sem Smyrlabúðarhraun, Gráhelluhraun, Lækjarbotnahraun, Urriðakotshraun, Hafnarfjarðarhraun, Garðahraun og Gálgahraun.
Þrjár stórar hrauntungur hafa runnið frá Búrfelli og allar náð til sjávar. Stærsta tungan rann niður með Vífilsstaðahlíð og náði í sjó bæði í Hafnarfirði og við Arnarnesvog. Mörg hverfi í Hafnarfirði og Garðabæ standa á þessum hluta hraunsins. Önnur hrauntunga rann í átt að Kaldárbotnum og síðan niður hjá Ásfjalli og í sjó við Hamarinn í Hafnarfirði. Þriðja hrauntungan rann suður fyrir Kaldárbotna og til sjávar í Straumsvík. Hún er nú að mestu hulin yngri hraunum. Þegar hraunið rann stóð sjór um 10 m lægra við landið en hann gerir í dag. Ystu totur hraunsins eru því sokknar í sæ og teygja sig nokkuð út fyrir núverandi strönd. Berggerðin hraunsins er ólivínbasalt (ólivínþóleiít) með hvítum plagíóklasdílum og ljósgrænum ólivíndílum.
Sprungur og misgengi setja svip sinn á landslagið við Búrfell. Þeirra mest er Hjallamisgengið sem myndar nokkuð samfelldan misgengishjalla allt frá Elliðavatni og að Kaldá. Við Búrfell eru einnig mikil misgengi og saman myndar þetta misgengja- og sprungukerfi sigdal með stefnu frá norðaustri til suðvesturs og teygir sig raunar allar götur frá Krísuvík og upp í Úlfarsfell. Búrfell hlóðst upp í gosi við austurbrún sigdalsins.
Að stærð er Búrfellshraun miðlungshraun á íslenskan mælikvarða. Flatarmál þess á yfirborði er rúmlega 16 km2. Ekki er gott að sjá hversu stórt hraunið hefur verið í upphafi því yngri hraun hafa runnið yfir það og þekja nánast alla álmuna sem teygði sig til sjávar við Straumsvík. Líklega er allt að þriðjungur hraunsins sé hulinn yngri hraunum og það sé því alls um 24 km2 að flatarmáli. Rúmmál hraunsins er talið vera um 0,5 km3. Búrfellshraun er með elstu hraunum sem vitað er um á Heiðmerkursvæðinu eða rétt um 8000 ára og hefur því runnið um 6000 f.Kr.
Miklar hrauntraðir mynduðust í Búrfellshrauni meðan á gosinu stóð við það að hrauná rann út úr gígnum í lengri tíma og myndaði eins konar farveg. Stærstu hrauntraðirnar nefnast Lambagjá, Kringlóttagjá, Búrfellsgjá og Selgjá. Þessar gjár eru af allt öðrum toga en gjárnar sem þverskera hraunið í grennd við Hjallamisgengið svo sem Hrafnagjá og Vatnsgjá sem hafa myndast [síðar] við jarðhræringar og brot af þeirra völdum.
Vinsæl gönguleið á Búrfell liggur um Búrfellsgjá. Næst gígnum, þar sem halli er mikill, er hún þröng (20-30 m) og með bröttum veggjum (hin eiginlega Búrfellsgjá) en er niður á jafnsléttu kemur verður hrauntröðin lægri og víðari. Þar sem Hjallamisgengið liggur yfir hraunið eru gapandi sprungur og stallar, þar er Hrafnagjá, við hana skiptir hrauntröðin um nafn og heitir Selgjá þar utan við. Búrfellsgjá og Selgjá eru yfir 200 m breiðar þar sem þær eru breiðastar. Veggir traðanna eru oft 5-10 m háir og sums staðar þverhníptir og slútandi þannig að víða eru skjól og skútar sem þóttu fyrrum ágætt afdrep fyrir sauðfé í vondum veðrum. Við utanverða Selgjá eru veggirnir þó lægri. Undir þeim eru einnig fjöldi gamalla seljarústa og minja um forna búskaparhætti.
Margir hraunhellar eru þekktir í Búrfellshrauni. Lengstur er Selgjárhellir [Skátahellir] yfir 200 m langur en þekktastir eru Maríuhellar [Draugshellir, Urriðakotshellir og Vífilsstaðahellir] við veginn upp í Heiðmörk.
Heimild m.a.:
-wikipedia.org