Tag Archive for: eldsumbrot

eldgos

Eftirfarandi frétt, viðtal við Pál Einarsson, jarðfræðing, birtist í Morgunblaðinu 20. október 2012 undir fyrirsögninni: „Engin teikn um eldsumbrot á Reykjanesi“.

Páll Einarsson

Páll Einarsson.

„Komi upp jarðeldar á Reykjanesi er ekki ólíklegt að þeim muni svipa til Kröfluelda 1975-1984. Þar yrðu gangainnskot með sprunguhreyfingum og hraunflæði aðallega þegar færi að líða á umbrotin. Hraungos af því tagi myndi eiga sér nokkurn aðdraganda. Engin óyggjandi teikn eru um að slíkir atburðir séu í aðsigi.
Þetta kom fram í erindi Páls Einarssonar jarðeðlisfræðings í gær á ráðstefnunni Björgun 2012 sem Slysavarnafélagið Landsbjörg heldur nú um helgina. Yfirskrift erindis Páls var „Jarðskjálfta- og eldfjallavá í nágrenni Reykjavíkur.“
Páll EinarssonPáll sagði að höfuðborgarsvæðið væri nálægt mjög sérkennilegum jarðskjálfta- og eldgosasvæðum. Þar með væri ekki sagt að bráð hætta steðjaði að fólki þeirra vegna.
Nokkur eldstöðvakerfi eru á Reykjanesi og tengjast þau gangainnskotum. Páll sagði að þegar svona kerfi yrði virkt streymdi hraunkvika upp í rætur þess og gæti síðan leitað eftir sprungunum og upp á yfirborðið. Það fer eftir spennuástandi á hverjum tíma hve langt kvikan getur farið og hvað gliðnunin verður mikil sem fylgir hverju gangainnskoti.
Vestasta kerfið liggur um Reykjanesið utanvert, norðan við Grindavík og út í Vogaheiði. Næsta kerfi austan við er Krýsuvíkurkerfið sem innifelur allar eldstöðvar í Krýsuvík og eldstöðvar sem hraun runnu úr niður í Hafnarfjörð. Þetta kerfi liggur m.a. um úthverfi Reykjavíkur. Sprungurnar í Heiðmörk tilheyra þessu eldstöðvakerfi og er eldstöðin í Búrfelli ofan við Hafnarfjörð sú nyrsta í kerfinu. Það liggur áfram norður um Elliðavatn og Rauðavatn og deyr út í Úlfarsfelli. „Þetta er það kerfi sem getur kannski valdið mestum usla í sambandi við eldvirkni og eldvirknivá á höfuðborgarsvæðinu,“ sagði Páll.
EldgosÞriðja kerfið liggur um Brennisteinsfjöll og sagði Páll að það væri ef til vill virkasta kerfið og úr því hefði runnið mesta hraunið. Kerfið liggur um Bláfjöll og Sandskeið og upp í Mosfellsheiði. Lengra til austurs er Hengilskerfið. Það nær alveg frá Selvogi og upp á Þingvelli. Páll sagði að þar til fyrir skömmu hefðu ekki sést nein merki um að kvika væri að streyma inn í eldstöðvakerfin á Reykjanesskaga. Fyrir 2-3 árum fór þó að örla á því að eitthvað gæti verið að gerast.

Páll vildi þó ekki gera mikið úr því og sagði menn enn vera að reyna að átta sig á því hvað hefði gerst. Hann sagði að Krýsuvíkursvæðið væri undir smásjánni að þessu leyti. Þar varð landris 2009 og svo aftur landsig.
EldgosEldstöðvakerfin á Reykjanesi virðast hafa orðið virk á um þúsund ára fresti og hver hviða hafa staðið í 300-500 ár. Öll eldstöðvakerfin virðast vera virk í hverri hviðu en hvert kerfi tímabundið.
Páll taldi að hraungos á Reykjanesskaga á okkar tímum myndi tæplega ógna mannslífum. Líklegra væri að það myndi valda eignatjóni, aðallega á innviðum eins og vatnsveitu, hitaveitu, rafveitu og vegum. Öskufall gæti orðið staðbundið og myndi nágrennið við Keflavíkurflugvöll líklega valda mönnum mestum áhyggjum, að mati Páls. Grunnvatn gæti hitnað og vatnsból mengast. Skjálftavirkni gæti orðið nokkur. Hraun gæti hugsanlega runnið nálægt byggð án þess þó að ógna beinlínis mannslífum.

eldgos

Eldgos á Reykjanesi frá landnámi – Ekkert gos eftir 1240
Nokkur hraun hafa runnið á Reykjanesi frá því að sögur hófust. Það gaus við Reykjanestá, í Eldvörpum norðan við Grindavík, Arnarseturshraun við Grindavíkurveg rann einnig.
Goshrina varð í Krýsuvíkurkerfinu í kringum árið 1150 e.Kr. Ögmundarhraun er syðst og rann út í sjó. Síðan rann Kapelluhraunið niður í Straumsvík. Þetta gerðist sennilega allt í þeirri hrinu.
Nokkur hraun hafa runnið úr Brennisteinsfjallakerfinu frá því að land byggðist. Kristnitökuhraunið er á milli Brennisteinsfjallakerfisins og Hengilskerfisins.
Nánast öll þessi eldgos urðu á tímabilinu 900-1240 e.Kr. Ekkert eldgos er þekkt á Reykjanesskaga eftir árið 1240.“ [Þrátt fyrir ótölulegan fjölda jarðskjálfta í gegnum tíðina hefur ekki orðið eldgos á Reykjanesskagnum – a.m.k. ekki hingað til].

Heimild:
-Morgunblaðið 20. október 2012, bls. 28.
Eldgos