Tag Archive for: Eldsumbrot á Reykjanesi

Eldborg

„Löngu áður en Ísland byggðist og saga þess hefst hafa afar mikil eldsumbrot orðið á Reykjanesskaganum, og má svo heita að allur vestur hluti hans sé hraunstorkið flatlendi, sem er þó svo gamalt að ógjörlegt er að segja, hvenær það hafi brunnið eða hvaðan það hafi runnið. Upp úr hraunbreiðu þessari standa þó einstakir móbergshnúkar og eldvörp, sem allt eru gamlar eldstöðvar en þó mjög misgamlar.
Vordufellsborgi-221Út úr miðhálendinu íslenzka gengur svo langur fjallarani í suðvestur og út á Reykjanes. Þessi samfellda fjallatunga nær allt vestur á miðjan skagann eða vestur á móts við Grindavík og er mjög eldbrunnin, enda er þar hinn mesti urmull af eldgígum og öðrum gosstöðvum.
Þó að langmestur hluti hinna víðáttu miklu hrauna á Reykjanesskaganum hafi runnið áður en sögur hefjast, og engar sagnir séu til af þeim náttúruhamförum, sem myndað hafa undirstöðu skagans, þá er málum þó ekki svo farið, að engin gos hafi orðið eða engin hraun runnið svo að sögur fari af.

Herbert

Á ofanverðum áttunda tug tólftu aldar dvaldist í hinu fræga cisterciensaklaustri í Clairvaux (Clara vallis) í Frakklandi kapellán,
sem Herbert hét eða Herbertus. Herbert þessi hafði áður verið ábóti í Mores í héraðinu Longres og varð síðar erkibiskup í Torres á Sardíníu.
Á meðan Herbert dvaldist í Clairvaux-klaustri, samdi hann rit mikið, sem heitir Liber miraculorum eða Bók undranna. Þetta ritverk hefur varðveitzt í þremur handritum, en þó ekki í heild nema í einu þeirra, sem er pergament-handrit frá klaustrinu Aldersbech í Passau og varðveitt í ríkisbókhlöðunni í Munchen (Cod. lat. Monac. 2607 4to). Þetta handrit er frá því snemma á 13. öld.
Í ritinu Chronicon Clarevallense, frá þriðja tug 13. aldar, er sagt, að Herbert hafi ritað bók sína árið 1178. En í ritgerð, sem birtist í sænska tímaritinu Scandia 1931, hefur prófessor Lauritz Weibull í Lundi sýnt fram á, að bókin hafi ekki verið rituð öll á því ári, heldur á árunum 1178—1180.
Meðfylgjandi myndir eru smækkaðar myndir af textasíðunum 107v og 108r í Múnchen-handritinu.

Í íslenzkum annálum og öðrum fornum heimildum er all oft getið elda, er uppi hafa verið á Reykjanesi og hrauna er runnið hafa, en þó má gera ráð fyrir því að ekki sé allra slíkra viðburða getið í þeim heimildum, er nú eru til, því að ekkert af þeim er ritað á Suðurnesjum eða í grend við þau, heldur á fjarlægari stöðum, og má geta nærri, að heimildaritararnir hafi ekki haft mjög nákvæmar fréttir af því, sem gerðist á Reykjanesi suður, enda var skaginn þá mjög afskektur og illur yfirferðar og talinn hinn mesti útkjálki, þó að hann liggi nú í þjóðbraut. Heimildirnar eru með öðrum orðum mjög svo ónákvæmar, og algengt er, að þeim beri ekki saman í frásögnum af eldsumbrotunum og gætir oft mjög miklu bæði um ártöl og annað, t. d. hafa margir annálarithöfundar ruglað saman Trölladyngjum hér syðra við samnefnd fjöll á Austurlandi.
Bæði Eggert Ólafsson og Sveinn Pálsson, sem ferðuðust mikið um landið mestallt og ritað hafa stórmerkar og yfirgripsmiklar lýsingar á landi og þjóð, minnast á það, hversu heimildirnar um gos og hraunrennsli á Reykjanesi séu rýrar að vöxtum og ónákvæmar, og Sveinn kennir því um að íbúar skagans hafi verið of menntunar litlir og lítt gefnir fyrir bókleg fræði og ritstörf, til þess að sjónarvottar að þeim umbrotum, sem orðið hafa, hafi fært nákvæmar frásagnir af þeim í letur.
Margra ára nábýli við danska valdsmanninn á Be
ssastöðum og hörð lífskjör við óblíðar höfuðskepnur hafi þjakað svo íbúa skagans, og fengið, þeim annað að hugsa um en að færa í letur lýsingar á atburðum, sem gerðust samtíma þeim.
Draugahlidargigur-221Mig langar nú til þess að tína saman þau helztu af þeim lauslegu frásagnar brotum, sem til eru af eldgosum á Reykjanesi og á hafsbotni fyrir utan skagann, og mun ég telja þau upp í réttri tímaröð, eftir því sem unnt er.

Árið 1000 er fyrst getið um eldgos á Íslandi, sem hægt er að árfæra með fullri vissu, og er þess getið í Kristnisögu. Þetta skeður sama árið og kristni er lögleidd hér á landi og voru menn einmitt á þingi, er fréttin barst til eyrna þeirra um, að hraunflóð streymdi niður í Ölfus og stefndi á bæ Þórodds goða. Heiðnir menn þóttust strax sjá, að hér væri um hefnd reiðra guða að ræða, og kváðu það eigi undur, þó að goðin reiddust slíkum tölum sem um trúskiptin voru við höfð.
Eldborg-221Þá var það, að Snorri goði sagði hin frægu og rökvísu orð: „Um hvat reiddust guðin þá, er hér brann hraunið, er nú stöndum vér á ? “ en það hraun brann löngu áður en nokkur maður steig fæti sínum á íslenzka grund, svo að enginn hefur þá getað orðið til þess að móðga goðin.
Það var áður fyrr almennt ætlun manna að þetta hraun, sem hér getur hafi verið Þurrárhraun, sem runnið hefur úr mikilli gígaröð á há Hellisheiði við svokallað Hellisskarð. Hitt er þó miklu líklegra, að hér sé um annað hraun að ræða, er Eldborgarhraun heitir og runnið hefur úr nokkrum eldgígum austan við Meitla (Stóra og Litla Meitil) og einu nafni heita Eldborg. Þetta hraun er mjög lítið gróið og fellur niður í Ölfus miklu nær Hjalla heldur en Þurrárhraun. Meitlar eru nokkru austar en Bláfjöll.

Trolladyngja-221Árið 1151 er eldur uppi í Trölladyngju. Samfara gosi þessu urðu miklir jarðskjálftar á Reykjanesi og varð af þeim nokkurt tjón bæði á mönnum og húsum. Trölladyngja er í norður endanum á allmiklum fjallarana, sem Vesturháls heitir eða Núphlíðarháls (hálsinn endar að sunnan í fjalli þvi, er Núphlíð heitir og er oft nefndur eftir því). Háls þessi liggur frá norðaustri til suðvesturs og er 13—14 km. langur. Hann liggur samhliða en nokkru (ca. 4 km.) vestar en Austurháls eða öðru nafni Sveifluháls. Kleifarvatn liggur svo alveg austan undir þeim hálsi.

Mávahlíðar

Mávahlíðar.

Norðaustur af Trölladyngju eru Mávahlíðar, þar eru margir sundurtættir smá gígir, og hafa þaðan runnið hraunkvíslir saman við Afstapahraun, en það hefur átt aðalupptök sín í Trölladyngju og þeim fjölda gíga, sem eru umhverfis hana í fjallarananum. Afstapahraun hefur runnið allt til sjávar á milli Vatnsleysu og Hraunbæja og fyrir vestan svokallaða Almenninga eða vestast í þeim. En Almenningar eru einu nafni nefnd ákaflega víðlend hraunbreyða og gömul, sem nær allt frá Hvaleyri suður á Vatnsleysuströnd. Austur hluti þessarar hraunbreiðu hefur runnið úr mörgum gígaröðum í svonefndum Undirhlíðum, sem liggja norðaustur frá Mávahlíðum en í áframhaldi af Sveifluhálsi. Frá gígum við Helgafell og miðgígunum við Undirhlíðar hefur Kapelluhraun runnið ofan á gömlu hraununum og til sjávar rétt austan við Straum. Hraunið hefur sennilega runnið á Söguöldinni og er í annálum alltaf kallað „nýja hraun“. Það ber nafn af því, hversu úfið það er.

Afstapahraun-221

Árið 1188 er enn eldur uppí í Trölladyngju.
Árið 1211 (aðrir segja 1210) urðu mikil eldsumbrot í sjó fyrir Reykjanesi. Þá risu Eldeyjar hinar nýju úr hafi, en hinar hurfu, er alla ævi höfðu staðið (ísl. annálar). Miklir landskjálftar fylgdu og margt manna lét lífið, 18 manns að sögn Guðmundarsögu.
Árið 1219 er enn eldur fyrir Reykjanesi og jarðskjálftar miklir.
Árin 1223—1227 voru alltaf öðru hvoru umbrot fyrir Reykjanesi og jarðskjálftar.
Samfara þeim var og mikil óáran árin 1226 og 1227, myrkt var um miðjan dag svo sem nótt væri af sandfoki og ösku.
Sumarið 1226 var t. d. kallað rotsumar hið mikla og veturinn, sem var fellivetur mikill, sandvetur.
Árið 1231 er ennþá eldur uppi fyrir utan Reykjanes og var mikill grasbrestur um sumarið, sem kallað var sandsumar.
Árið 1238 er enn gos fyrir Reykjanesi, án þess þó að frekari sagni r séu til um það.
Árið 1240 er enn eldgos fyrir Reykjanesi og er þess getið, að sól hafi orðið rauð. Landskjálftar urðu og svo miklir á Suðurnesjum, að sex bæir hrundu þar til grunna. Ekki er Arnarseturshraun-221þó getið um, að manntjón hafi orðið.
Árið 1285 er getið um, að land hafi fundizt vestur af Íslandi, og Skálholtsannáll segir, að þá hafi Duneyjar fundizt. Hins vegar er landfundur þessi ekki settur í samband við eldgos eða eldsumbrot svo að getið sé.
Eldsumbrota á 13. öldinni og um aldamótin 1300 á hafsbotni fyrir utan Reykjanes er oft getið erlendis, og það eru talin stór undur, að sjórinn skuli brenna.
Árið 1340. Gísli biskup Oddsson segir í annálum sinum frá eldgosi í Trölladyngju þetta ár og segir, að hraun hafi runnið í sjó fram í Selvogi. Þetta mun þó næsta ómögulegi, vegna þess að þar á milli eru tveir fjallgarðar, svo að hraun hefur ekki getað runnið frá Trölladyngju og niður í Selvog. Hins vegar má geta þess, að mjög nýleg hraun hafa runnið úr Brennisteinsfjöllum, Kistufelli og nálægum eldgígum og einmitt niður í Selvog. Svo að líklega hefur eldurinn verið uppi einhverstaðar á þeim eystri slóðum, en það ruglazt til hjá Gísla, enda er þessa goss í Trölladyngju hvergi getið annars staðar.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun – yfirlit.

Þetta sama ár halda menn og, að Ögmundarhraun hafi runnið [rann reyndar 1151], en það kom úr þrem gígaröðum við suðaustur hornið á Núphlíðarhálsi og rann niður í sunnanverða dældina, sem er á milli Austur- og Vestur-hálsanna (Núphlíðar- og Sveifluhálsa) og rann svo allt til sjávar austan frá Krýsuvíkurbjargi og vestur að Ísólfsskála. Hraunflóð þetta hefur vafalaust farið að nokkru yfir byggð, og sér enn allmikilla bæjarrústar austast í hrauninu í svokölluðum Húshólma, og segir Eggert Ólafsson, að þar hafi verið kirkjustaður, er Hólmsstaður hafi heitið og sjái ennþá minjar kirkjugarðsins. Hraunið er ákaflega úfið og ógreitt yfirferðar, og sagt er, að nafn þess sé þannig til komið, að maður að nafni Ögmundur hafi verið fenginn til þess að ryðja slóð yfir hraunið og skyldi hann svo taka vegatoll af hverjum vegfarenda, sem um hraunið færi.

Ögmundastígur

Dys Ögmundar við Ögmundarstíg í Ögmundarhrauni.

Til tollgæslunnar reisti hann sér svo hreysi við austur enda ruðningsins. En ferðamenn hafa ekki kunnað þessari kvöð, ef þeir þurftu að leggja leið sína um hraunið, því svo mikið er víst, að eitt sinn, þegar að er komið finnst Ögmundur myrtur við kofa sinn. Hann var svo dysjaður í hraunbrúninni eystri og sér þar enn dysina. En nafn vegagerðarmannsins hélzt svo við hraunið.
Vestan hraunsins og norðan rís Núpahlíð upp í þverhnýptu hamrabelti. Jarðsig hefur eflaust orðið, þegar hraunið rann, og jörðin klofnað um eldsprunguna, því að uppi á hamrabeltisbrúninni sér hálfa eldgígana. Í annáli Gísla biskups segir enn sama ár: „Einnig Reykjaneshöfði eyddist í eldi meira en að hálfu, sjást merki hans ennþá í rúmsjó, gnæfandi drangar, sem af þessu nefnast Eldeyjar, — eða Driftarsteinn, eins og eldri menn vilja kalla þá.
Sömuleiðis Geirfuglasker, þar sem allt til þessa sjást fjölmargir brunnir steinar“.

Geirfuglasker

Geirfuglasker.

Slíka voða viðburði segja aðrir orðið hafa árin 1389—1390 og eru frá þeim tíma uppi munnmæli um, að Reykjanes hafi eyðst að hálfu. Slíkar sagnir, frá hvoru árinu sem er, munu þó ekki á rökum reistar, af því að í Fornskjalasami Íslands er gamalt skjal frá 1270, sem sýnir, að þá hafi landslag á nestánni verið það sama sem í dag og sömu örnefni.
Árið 1360. Eldsuppkoma enn í Trölladyngju, og Flateyjarannáll getur þess, að margir bæir hafi eyðst austur í Mýrdal vegna öskufalls, vikurinn hafi borizt upp á Mýrar og eldana séð af Snæfellsnesi. Sennilega hafa þó verið eldar uppi samtímis í Austurjöklunum, af því að ólíklegt er, að vikurfall úr Trölladyngju hafi eytt bæi í Mýrdal, sérstaklega sem þess er ekki getið frá nærsveitunum, að gosið hafi verið sérlega stórfenglegt.
Nupshlidarhals-221Árið 1389—90 er enn greint frá eldgosi í Trölladyngju og í frásögn af því gætir sömu firrunnar nú hjá Jóni Espólín, þar sem hann segir frá því, að hraun hafi runnið þaðan suður í sjó og austur í Selvog. Líklegra er að þau hraun, sem hann getur um, að runnið hafi suður til hafs, hafi komið úr gígaröðum syðst á Núphlíðarhálsi og fyrir vestan hálsinn, og séu nýjustu hraunin, sem runnið hafa í grennd við Ísólfsskála.
Árið 1422 er eldur uppi útsuður frá Reykjanesi. Lögmannsannáll segir frá því gosi þannig: „ … kom upp eldur í hafi í útsuður undan Reykjanesi, skaut þar landi upp, sem sjá má síðan, þeir er þar fara nærri síðan“.
Árið 1510. Gos í Trölladyngju, ekki er frekar skýrt frá gosi þessu.
Árið 1583 var eldur uppi fyrir Reykjanesi, og Gísli biskup Oddsson getur þess, að kaupmenn frá Bremen hafi séð eldana brenna í hafdjúpinu og þótt stór undur.

Eldey

Eldey.

Árið 1783. Snemma í maí mánuði þetta ár sjá sæfarendur reykjarmökk mikinn stíga upp úr hafinu um 7 mílur út af Reykjanestá, og ösku og vikurfallið var svo mikið, að skip á þeim slóðum, á um það bil 20—30 mílna svæði, áttu illt með, að komast í gegn um vikurhrannirnar. Hafði myndast þarna allhá klettaeyja og sögðu sumir, að hún hefði verið full míla að ummáli, en aðrir voru ekki eins stórtækir og töldu ummál hennar einungis verið hafa þriðjungur úr mílu. Sjávardýpi umhverfis eyna hafði og breytzt all-verulega, og boði, sem braut mjög á, hafði myndazt l1/3 mílu í norðaustur frá eyjunni.
Með konungsúrskurði frá 26. júní s. á. sló Danakonungur og stjórn eign sinni á þessa nýju eyju, sem var nefnd Konungsey. En þetta nýja land eða eyja virðist ekki hafa kunnað hinni konunglegu náð og virðing sem skyldi og hvarf aftur í djúpin blá til uppruna síns. En það er ætlun manna, að Eldeyjarboði svonefndur sé leifar þessarar horfnu eyju, eða, að hann hafi að minnsta kosti orðið til við eldsumbrotin þetta ár.
Stampahraun-221Þetta sama ár, en litlu síðar eða 8. júní, hefjast hinir ægilegu Skaftáreldar, sem stóðu svo nær til áramóta. Móðuharðindin, einhver þau ægilegustu harðindi og vesöld, sem yfir landið hafa gengið, fylgdu svo í kjölfar þessara elda.
Árið 1830 er enn eldur fyrir Reykjanesi með all-miklu vikurgosi. Það var hinn 6. eða 7. mars (aðrir segja 13. mars), að eldsins varð fyrst vart skammt fyrir sunnan og vestan Eldeyjarboða, og stóð fram í maímánuð.
Árið 1879 er gos fyrir Reykjanesi. Dagana 30. og 31. maí sáu menn frá Kirkjuvogi í Höfnum eldsuppkomu nálægt Geirfuglaskerjum hér um bil 8 mílur undan landi eða á mjög svipuðum slóðum og eldsins varð vart árið 1830. 

geirfugl-221

Næsta hálfan mánuð, eða fram um miðjan júní, var svo kolsvört þokubræla yfir hafinu, vestur af Reykjanesi, en þokulaust allsstaðar fyrir innan. Rétt áður en þokunni létti varð svo allmikið öskufall á landi og sá þess vel merki á grasi, en eldsins urðu menn ekki varir nema áður nefnda tvo daga; vikur sást heldur enginn og engir jarðskjálftar fundust svo að getið sá, svo að vart hefur gos þetta verið mjög mikið, og þess er aðeins getið ýtarlegar en annarra gosa, þó að meiri munu hafa verið, vegna þess hversu skammt er síðan það var.
Árið 1884 í júlí mánuði þóttust ýmsir hafa orðið varir við eldgos úti fyrir Reykjanesi, en engar nákvæmar né áreiðanlegar fréttir urðu af því og er mjög vafasamt hvort rétt sé hermt. Sumir þóttust jafnvel hafa séð nýja eyju rísa úr djúpinu þann 26. júlí fyrir norðvestan Eldey í um það bil þriggja mílna fjarlægð.
Ég hefi nú drepið lauslega á eldsumbrot þau, er sögur og annálar greina frá að verið hafi á Reykjanesskaganum og fyrir vestan hann á hafsbotni, og talið þau upp í réttri tímaröð.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – jarðfræðikort; nútímahraun.

Það er hins vegar víst, að mörg hraun á Reykjanesskaganum hafa brunnið síðan á landnámstíð, þó að gosanna sé hvergi getið og menn viti því ekki með neinni vissu hvaðan þau hafa runnið, enda mergð gíganna svo gífurleg, að eðlilegt er, að annálahöfundar og aðrir heimildarritarar hafi ruglað þeim saman, er þeir gátu um gos og hraunrennsli í sambandi við þau. En alla leið suður og vestur endilangan skagann má segja, að sé samfelld röð eldgíga stórra og smárra, og það er ekki laust við, að ennþá sé hiti í sumum þeirra, t. d. sumum upp af Grindavík.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – sveimar.

Allar eldstöðvarnar á skaganum liggja í nokkurn veginn beinni línu frá norðaustri til suðvesturs, og sömu stefnu hefur eldstöðvahryggurinn, sem liggur neðan sjávar frá ystu nöf skagans. Þetta er og sama megin eldstöðva línan, sem liggur um þvert landið, og eyjan Jan Mayen, sem er eldbrunnin, liggur á mjög svipaðri línu, langt norður í hafi. Þá er skaginn einnig mjög sundur skorinn af gjám og sprungum sem hafa flestar sömu stefnu og gígaraðirnar og eru á svipuðum slóðum. Það er alls ekki óhugsandi, að einhver hinna mörgu gíga á Reykjanesi taki upp á þeim ósköpum að fara að gjósa, áður en langt um líður.
Kaldarsel-221Ég vil í þessu sambandi minnast nokkrum orðum á jarðskjálfta, sem hafa gengið yfir Reykjanesskagann og hafa haft sögulegar afleiðingar i för með sér; sumra hefi ég þegar getið, eða þeirra, sem hafa staðið í sambandi við eldgos á þessum slóðum. Ég minnist á jarðskjálftana hér í þessu sambandi, vegna þess að þeir standa einmitt svo oft í nánum tengslum við eldgos, enda þótt slíkt sé ekki endilega nauðsynlegt; og jarðskjálftar þurfa engan veginn að orsakast af eldgosum beinlínis. Verstu og hættulegustu landskjálftarnir hafa venjulega komið sem þjófur á nóttu og ekki sýnilegt, að þeir hafi staðið í neinu sambandi við eldgos. Hins vegar fylgist að, að eldgosasvæði eru einnig mjög oft meiri landskjálftasvæði en önnur.

Jarðskjálftar

Jarðskjálftar á Reykjanesi í júlí 2004.

Jarðfræðirannsóknir hafa sýnt, að jarðskjálftakippir eru nátengdir brestum og sprungum í jarðskorpunni, en á eldgosasvæði eru einmitt miklu meir af sprungum og gjám en annars staðar, en eins og áður getur þá er Reykjanesskaginn ákaflega sprunginn og sundur skorinn; jarðskjálftar eru líka mjög tíðir á skaganum einkum sunnan til á honum, sér í lagi eru smákippir tíðir.
Á fyrri öldum hafa menn mjög fáar frásagnir af jarðskjálftum á skaganum, líklega vegna þess hveru linir og meinlausir þeir hafa oftast verið, og mönnum ekki þótt í frásögur færandi nema þeir yrðu mönnum eða skepnum að bana, leggðu bæi í rústir eða röskuðu til jörðinni.
Herdisarvik 1900-221Árið 1663 er eiginlega fyrst getið jarðskjálfta á Reykjanesi svo að nokkru nemi. Að sögn séra Þorkels Arngrímssonar Vídalín í Görðum eyddi þá marga bæi um skagann allan. Kleifarvatn minnkaði stórlega; vatnið sogaðist svo í gjár neðanjarðar, að nú varð fær vegur fram með því undir klettunum, en áður hafði vatnið náð 300 fet upp í hamarinn. Þá er þess getið í riti nokkru, sem gefið var út í Frankfurt 1715, að jarðskjálfti hafi orðið á Íslandi 1653, og sagt, að borgin „Keplavvick“ hafi þá beðið mikið tjón. Ef nokkur fótur er fyrir þessu, gæti hér verið um sama jarðskjálftann að ræða, en ártalið skolast til.
Árið 1724 ganga enn landskjálftar yfir Reykjanesskagann aðallega að sunnan og austan. Bærinn í Herdísarvík hrundi, og ráðsmaður Skálholtsstóls, Arngrímur Bjarnason að nafni, dó undir Krýsuvíkurbjargi við sölvatekju af grjótflugi úr bjarginu.
Árið 1754 er enn getið landskjálfta, og í Krýsuvík kom upp nýr hver 6 faðma víður og 3 faðma djúpur.
Badstofa-221Árið 1879 urðu allharðir landskjálftakippir á Reykjanesskaga um lok maímánaðar. Harðastir voru þeir um hverasvæðið við Krýsuvík; bær féll á Vigdísarvöllum og fólk flúði úr bæjum í Nýjabæ við Krýsuvík.
Árið 1887, morguninn hinn 28. október urðu allmiklir jarðskjálftar víða um Suðurland, en voru lang harðastir utarlega á Reykjanesskaga, og í Höfnum fundust um daginn 40 kippir og voru sumir mjög harðir. Valahnúkur, sem Reykjanesvitinn stóð þá á, klofanaði og mynduðust þar þrjár eða fleiri sprungur allmiklar, og var ein þeirra aðeins um 3 álnir frá sjálfum vitanum; síðar þetta ár (í desember) féll 7 faðma langt og 3 faðma breitt stykki framan úr hnúknum. Á ljósabúnaði vitant urðu allmikil spjöll og vitavörður varð að slökkva öll ljós í honum. Upp úr þessu var vitinn svo fluttur af hnúknum vegna þess að menn voru alls ekki lengur óhultir með hann á þeim stað. Þá sprungu og veggir í steinolíuhúsi vitans og bær vitavarðarins skekktist einnig og skemmdist. Leirhverinn Gunna, sem er skammt austan við bæinn á Reykjanesi á svo kölluðum Hvervöllum, breyttist einnig talsvert.
reykjanesviti 1884Árið 1889, um haustið, 13. október, urðu harðar jarðskjálftahreyfingar víða kringum Faxaflóa. Skip í hafi fyrir Reykjanesi urðu greinilega vör þessara jarðhræringa. Mestir urðu jarðskjálftar þessir á Krýsuvíkursvæðinu, en minni þegar lengra kom fram á skagann og enginn spjöll urðu á vitanum né umhverfis hann. Hús hrundi á Hvassahrauni og steinhús á Sjónarhól klofnaði og ýms smávægilegri spjöll urðu á húsum á Vatnsleysu-ströndinni. Á Vigdísarvöllum og í Krýsuvík hrundu allmörg peningshús algjörlega.
Árið 1896, hið ægilega jarðskjálftaár, þegar allt Suðurlandsundirlendið lék á reiðiskjálfi síðari hluta sumars, urðu menn á Reykjanesskaganum aðeins lítillega varir við jarðskjálfta.
Árið 1899 urðu enn jarðhræringar við Faxaflóa sunnanverðan og lang harðastir suður með sjó á Reykjanesskaganum. Aðfaranótt 27. febrúar fundust t. d. 12 kippir, sumir mjög harðir, í Keflavík milli kl. 1 og 2,15. Í Höfnum hrundi kotbær einn, Magnúsarbær í Kirkjuvogi, til grunna, en hann var heldur lélega byggður. Jarðskjálftar þessir urðu þó lang mestir úti á Reykjanestánni sjálfri í grend við vitann, og ekki varð kveikt á honum á meðan jarðskjálftinn stóð yfir. Þá þorði fólkið ekki að hafast við í bænum um nóttina, vegna þess að grjótflug var nokkturt úr fellinu, sem bærinn stendur undir. Hús höfðu og skekkst og sprungið, og tröppurnar við vitadyrnar höfðu sprungið frá, ljóskeilan oltið á hliðina og glasið brotið.

Reykjanes

Reykjanes – misgengi.

Þá hafði 200 faðma löng sprunga komið í jörðina við Gunnuhver og stefndi hún frá landnorðri til útsuðurs, eða eins og allar aðrar eldsprungur á Reykjanesskaganum.
Ég hefi nú drepið mjög lauslega á helztu eldsumbrotin og jarðskjálftana, sem orðið hafa á Reykjanesskaganum frá því að land okkar byggðist fyrir um það bil tíu og hálfri öld síðan og sem getið er í fornum heimildum bæði annálum og sögum. Ég hefi tínt þessi brot saman úr ýmsum áttum, en hefi þó aðallega stuðst við hin gagnmerku rit Þorvaldar Thoroddsen: Lýsing Íslands, Jarðskjálftar á Suðurlandi og Landskjálftar á Íslandi auk Íslenzkra Annála. Einnig hefi ég haft hliðsjón af og tekið atburði eftir þeim ritum, sem nú skulu talin: Íslenzk Annálabrot og Undur Íslands eftir Gísla Oddsson biskup í Skálholti; Ferðabók þeirra félaganna Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar ritaða af þeim fyrrnefnda; Ferðabók Sveins Pálssonar og Rit um jarðelda á Íslandi, sem Markús Loftsson, bóndi á Hjörleifshöfða, hefur safnað til og ritað.

Husholmi-grafreiturÉg vil taka það fram, að ég hefi einungið tekið þessi brot saman og látið frá mér fara með það fyrir augum, að það gæti orðið til þess, að þeir, sem á Reykjanesskaganum búa og greinarkorn þetta lesa, myndu ef til vill frekar minnast og halda til haga sögnum, sem þeir hafa heyrt frá atburðum þeim, sem hér greinir frá, eða öðrum, sem eru þess verðir, að sagnir og lýsingar af þeim séu geymdar en ekki gleymdar og sem myndu verða kærkomnar upplýsingar og heimildir fyrir þann eða þá, sem síðar eiga eftir að fást við að rita tilkomna lýsingu þessa eldbrunna skaga og sögu þeirra manna, sem hann hafa byggt, allt frá því að Ingólfur Arnarson, fyrsti landnámsmaðurinn, sló eign sinni á hann gjörvallan og til vorra tíma.“

Heimild:
-Faxi, 8. árg. 1948, 3. tbl., bls. 10.
-Faxi, 8. árg. 1948, 4. tbl., bls. 6-7.
-Faxi, 8. árg. 1948, 5. tbl., bls. 3-4.

Eldgos

Eldgos í Geldingadölum 2021. – Árni Sæberg.