Tag Archive for: Elgurinn

Dauðadalahellar

Tvíbollahraun og Hellnahraun yngra runnu úr Bollunum í Grindarskörðum um 950 e. Kr. Í hraununum norðvestan við Markraka eru Dauðadalahellar, fallegar og margflóknar hraunrásir. Þarna gætu hafa runnið fyrstu hraunin á Íslandi eftir að búseta hófst og hellar þess þá fyrstu hellar sem mynduðust hér á landi á sögulegum tíma.

Op á einum Dauðadalahellinum

Í hraununum eru allmargir hellar. Nú var ætlunin að skoða Elginn undir Miðbolla, Balahelli undir Markraka og kíkja niður í gat, sem FERLIR fann fyrir þremur árum, en þá vannst ekki tími til að kanna það nánar.
Eins og áður er getið varð eldgosið um það leyti er fyrstu landnámsmennirnir vour að setjast að hér á landi. „Meginhraunflóðið var til norðurs, hraunelfan klofnaði um hæðina austan við Dauðadali. Mjó álma úr því rann milli hennar og Lönguhlíðar og breiddist nokkuð út þar vestur af, en meginhraunflóðið féll norður af Helgafelli og norður með því að suðvestan. Tvíbollahraun er allt að 18 ferkílómetrar að flatarmáli.“ Þó gæti hraunið verið eitthvað minna því rannsóknir hafa sýnt að hluti hraunsins er þakið landnámsöskulaginu svo það gæti verið svolítið eldra.

Í Dauðadalahellum

Elgurinn er einn hellanna í Tvíbollahrauni. Um hann segir Björn Hróarsson, hellafræðingur, í stórvirki sínu „Íslenskir hellar“: „Þann 16. ágúst 2002 héldu hellamenn með FERLIRs-mönnum upp eftir Selvogsgötunni frá Bláfjallavegi í átt að Grindarskörðum. Komið var við í helli sem nefndur hefur verið Elgurinn. Um er að ræða jarðfall í sléttu hrauni en hæðin þó ekki meiri en svo að auðvelt er að klifra bæði niður og upp. Rás liggur um 20 metra til norðurs. Fremst eru nokkuð fallegar hraunmyndanir. Á botni rásarinnar er brúnt hraun, en rásin er annars dökkleit. Út úr austurveggnum er steinn sem lítur út eins og elgshaus. Af honum er nafn hellisins dregið. Til suðurs er hellirinn um 50 metra langur. Fremst er fallega brúnt gólfið og myndanir í lofti. Í afhelli til austurs frá suðurrásinni er glæsilegur hraunlækur. Elgurinn er í heild nærri 100 metra langur.“
Í DauðadalahellumUm Balahelli í Dauðadölum segir Björn: „Balahellir gengur til norðurs út frá dálitlu niðurfalli sem lítur út eins og fallegur grasbali. Fallegar storkumyndanir eru á gólfi hellisins um 20 metrum fyrir innan munnann. Hellirinn er annars flókinn og langt í frá fullkannaður.“
Fyrrnefndu hellarnir, Elgurinn og Balahellir eru undur Bollunum. Nú sást vel hvernig hraunstraumurinn hefur runnið niður hlíðina úr gígunum. Stóri-Bolli er nyrstur. Hann er vestan undir grágrýtishnúk, sem virðist hafa verið samnefndur. Í hrauntaumnum sést hvar þakið hefur fallið á mikilli hraunrás á nokkurm stöðum. Hliðstæða mynd má sjá neðan við Mið-Bolla. Sá gígur stendur efst á brúninni og er formfagur mjög. Syðsti-Bolli er líkt og Stóri-Bolli, utan í einum hnúknum; Kerlingarhnúk. Kerlingarskarð liggur upp með honum norðanverðum. Minnsti hraunstrumurinn virðist hafa komið úr syðsta bollanum. Segja má með nokkrum sanni að hraunið ætti að heita Þríbollahraun að teknu tilliti til fjölda bollanna.

Í Dauðadalahellum

Hellarnir þarna eru í hraunrásum hinna tveggja.
Eftir að hafa skoðað Elginn og Balahelli var haldið niður mosahraunið með stefnu á Helgafell. Hraunið vestan Bláfjallavegar er sléttara og auðveldara yfirferðar. Við norðurenda Markraka eru flóknar hraunrásir þar sem hraunstraumurinn hefur runnið niður hallanda Dauðadala. Stærsti hellirinn þarna heitir Flóki og ber nafn með rentu. Saman nefnast hellarnir Dauðadalahellar.
Í þessum rásum eru ótrúleg litadýrð og jarðskrúð á körflum. Rásirnar eru misgreiðfærar, en ótrúlega skemmtilegar umgengis. Flóki er reyndar einn flóknasti hellir landsins svo inn í hann ætti enginn að fara, sem ekki er velvanur hellaferðum.
Í rásunum var hæfilega svalt, en uppi á yfirborðinu bakaði steikjandi sólskinið allt sem hún náði til. Það er óneitanlega betra að taka myndir í hellunum við slíkar aðstæður – því þá er engin gufan til að hindra framsýnið.
Frábært veður. Gangan tók
3 klst og 3 mín.

Heimildir m.a.:
-Íslenskir hellar – Björn Hróarsson – 2006, bls. 191 og 199.

Flóki

Flóki.