Tag Archive for: Fákar

Einar Benediktsson

Einar Benediktsson fæddist 1864 á Elliðavatni, og var sonur Benedikts Sveinssonar sýslumanns og alþingismanns.

Börn á hestbaki

Einar gekk til mennta, varð stúdent úr Lærða skólanum í Reykjavík 1884, fór þá til Kaupmannahafnar til náms og lauk lögfræðinámi við Hafnarháskóla 1892. Hann var sýslumaður Rangæinga 1904-1906. En síðan gerðist hann umsvifamikill fésýslumaður og bjó erlendis til 1921. Hann var áfram langdvölum erlendis fram til 1932, þá settist hann að í Herdísarvík á Reykjanesi, þrotinn að kröftum, og dó þar 1940.
Árið 1897 voru í fyrsta sinn haldnar kappreiðar í Reykjavík, sem heimildir eru til um. Á þessum kappreiðum sigraði grár hestur sem Fálki hét og var frá Fljótsdal í Fljótshlíð, og var hann í eigu Einars Benediktssonar. Seinna sagði eiginkona hans frá því að Einar hafi ort ljóðið „Fákar“ til þessa hests, enda þótti Einari þessi hestur einna tilkomumestur af öllum gæðingum sem hann hafði átt.

Þetta er eitt magnaðasta kvæði um hesta sem ort hefur verið á íslensku, og um leið dæmigert fyrir kveðskap Einars, hljómmikið, langt og kröftugt. Hér birtist fyrsta og síðasta erindi kvæðisins.

Í morgunljómann er lagt af stað.
Allt logar af dýrð, svo vítt sem er séð.
Sléttan, hún opnast sem óskrifað blað,
þar akur ei blettar, þar skyggir ei tréð.
– Menn og hestar á hásumardegi
í hóp á þráðbeinum, skínandi vegi
með nesti við bogann og bikar með.
Betra á dauðlegi heimurinn eigi.

– Ef inni er þröngt, tak hnakk þinn og hest
og hleyptu á burt undir loftsins þök.
Hýstu aldrei þinn harm. Það er bezt.
Að heiman, út, ef þú berst í vök.
Það finnst ekki mein, sem ei breytist og bætist,
ei böl, sem ei þaggast, ei lund, sem ei kætist
við fjörgammsins stoltu og sterku tök.
Lát hann stökkva, svo draumar þíns hjarta rætist.

Heimild:
-www.sogusetur.is

Reiðmenn