Sömu merki voru einnig löngum notuð í innsiglum, þótt engra lita gætti þar. Innsigli Hrafns Sveinbjarnarsonar er elsta innsigli Íslendings, sem vitað er um. Var það fingurgull með nafni hans og merktur á hrafn, gjöf frá Bjarna Kolbeinssyni, biskupi í Orkneyjum.
Við gerð skjaldamerkja tíðkast ákveðnar meginreglur, bæði að því er varðar skjaldarmerki einstaklinga, ætta, þjóðhöfðingja og ríkja. Skjaldarmerki er einungis það, sem markað er á sjálfan skjöldinn, en umhverfis eru skjaldberar svo sem landvættirnar umhverfis íslenska ríkisskjaldarmerkið. Tveir málmar og fjórir litir koma við sögu í gerð skjaldamerkja; gull eða gulu litur í þess stað, silfur eða hvítur litur, blátt, rautt, svart og grænt. Höfuðreglan er að láta ekki málm liggja að málmi (gull, silfur eða gult og hvítt) eða lit að liti, heldur eiga litur og málmur að skiptast á. Undantekningar og frávik eru þó frá þessu, einkum ef aukið er við fornt merki eða því breytt á annan hátt. Þá er þess að geta að þegar talað er um hægri og vinstri í skjaldamerkjafræði, þá er miðað við þann, sem er að baki skildinum, heldur á honum.
Þótt skjaldarmerki einstakra manna hafi ekki verið mörg á Íslandi, þá hafa þau þó tíðkast. Í fornum ritum er getið um skildi, sem dregnar voru á myndir, t.d. ljón, og í innsiglum voru ýmsar myndir. Á 14. og 15. öld voru nokkrir Íslendingar gerðir að riddurum og tóku sér þá skjaldarmerki. Loftur ríki Guttormsson er sagður hafa haft hvítan fálka á bláum feldi sem sitt skjaldarmerki, en aftur á móti höggorm í innsigli sínu. Torfi Arason hafði að skjaldarmerki hvítabjörn á bláum feldi og hálfan hvítabjörn upp af hjálminum. Björn ríki Þorleifsson hafi samskonar skjaldarmerki nema hvað hvítabjörninn upp af hjálminum var heill.
Þeir, sem sæmdir voru stórkrossi Dannebrogsorðunnar, áttu að láta gera sér skjaldarmerki, ef þeir höfðu ekki slík merki fyrir. Þegar farið var að veita Íslendingum þetta orðustig, létu ýmsir þeirra gera sér skjaldarmerki svo sem fyrsti Íslendingurinn, sem hlaut stórkross Dannebrogsorðunnar, dr. Pétur Pétursson biskup.
Á árunum 1950-1959 starfaði á vegum danska forsætisráðuneytisins nefnd, sem ráðuneytið hafði falið að gera athugun á og tillögur um notkun ríkisskjaldarmerkis Danmerkur.
Einn nefndarmanna, P. Warming, lögfræðingur, sem var ráðunautur danska ríkisins í skjaldamerkjamálum, hefur síðar látið í ljós álit sitt á því hvernig ríkisskjaldarmerki Íslands muni hafa verið fyrir 1262-1264, þ.e. áður en landið gekk Noregskonungi á hönd, og hvernig skjaldarmerki Noregskonungs hafi verið, þegar hann notaði merki sem konungur Íslands.
Til er frönsk bók um skjaldarmerki, talin skráð á árunum 1265-1285. Nefnist hún Wijnbergen-skjaldamerkjabókin og er varðveitt í Koninklijk Nederlandsch Gencotschap voor Geslachot en Wapenkunde í Haag. Efni hennar var birt í Archives Heraldiques Suisses á árunum 1951-1954.
Á bakhlíð eins blaðsins í bókinni (35.) er m.a. sýnt merki konungsins yfir Íslandi, þ.e. merki Noregskonungs sem konungs Íslands eftir atburðina 1262-1264.
Skjaldarrendur eru dökkar, en þverrendur bláar og hvítar (silfraðar). Tveir þriðju hlutar skjaldarins neðan frá eru með þverröndum, silfruðum og bláum til skiptis. Efsti þriðjungur skjaldarins er gylltur flötur, án þverranda. Á skjöldinn er markað rautt ljón, sem stendur öðrum afturfæti niður við skjaldarsporð, en höfuð ljónsins nemur við efri skjaldarrönd. Í framlöppum ljónsins er öxi í bláum lit á efsta þriðjungi skjaldarins (hinum gyllta hluta), en skaftið, sem nær yfir sjö efstu silfruðu og bláu rendurnar, virðist vera gyllt, þegar kemur niður fyrir efstu silfurröndina. Ljónið í skjaldarmerki Noregs var ekki teiknað með öxi í klónum fyrr en á dögum Eiríks konungs Magnússonar eftir 1280.Þetta umrædda skjaldarmerki virðist eftir hinni frönsku bók að dæma hafa verið notað af Noregskonungi sem konungi Íslands eftir árið 1280. Þótt öxin bættist í skjaldarmerkið eftir árið 1280, er hugsanlegt að sama eða svipað skjaldarmerki, án axar, hafi verið notað af „Íslandskonungi“ áður, e.t.v. strax frá 1264.
Um þorskmerkið sem tákn Íslands eru ekki skráðar heimildir fyrr en svo löngu seinna að notkun þess þarf ekki að rekast á þetta merki eða önnur, sem kynnu að hafa verið notuð sem merki Íslands.
Skjaldarmerki „Íslandskonungs“, sem að framan getur, virðist þannig myndað, að norska skjaldarmerkið, gullið ljón á rauðum grunni, er lagt til grundvallar, en litum snúið við: rautt ljón á gullnum grunni. Þessi breyting ein er þó ekki látin nægja, heldur er tveimur þriðju hlutum skjaldarins að neðan breytt þannig, að þar skiptast á bláar og silfraðar þverrendur, neðst blá, síðan silfruð, þá blá aftur og svo koll af kolli, en efsta silfraða þverröndin liggur að þeim þriðjungi skjaldarins, sem er gullinn.
Það skjaldarmerki, sem þegar hefur verið til og menn hafa viljað virða og taka tillit til um leið og við það var bætt hluta af ríkisskjaldarmerki Noregs, hlýtur að hafa verið skjaldarmerki Íslands fyrir árið 1262. Það skjaldarmerki hefur samkvæmt framansögðu verið skjöldur með tólf silfruðum (hvítum) og bláum þverröndum, efst silfur og neðst blátt. Í einfaldleik sínum er þetta frá skjaldarmerkjafræðilegu sjónarmiði fallegt merki.
Ef þetta er rétt tilgáta, þá er elsta íslenska ríkisskjaldarmerkið álíka gamalt og það norska, en norska skjaldarmerkið (án axar) þekkist frá dögum Hákonar IV. Hákonarsonar. Fjöldi þverrandanna í Íslandsmerkinu þarf ekki að tákna neitt sérstakt, en gæti leitt hugann að því að Íslandi mun í upphafi hafa verið skipt í tólf þing, þótt því hafi að vísu verið breytt áður en sá siður barst til Norðurlanda á tímabilinu 1150-1200 að taka um skjaldarmerki.
Það, að ljónið í norska skjaldarmerkinu skuli á mynd í umræddri bók vera með öxi, sem einmitt var bætt í merkið í þann mund sem bókin hefur verið í smíðum, sýnir að sá, sem lét setja bókina saman, hefur haft glögga vitneskju um norræn skjaldarmerki.
Það, sem hér að framan er sagt um merki Íslands fyrir og eftir 1262, er lausleg frásögn af áliti P. Warming, lögfræðings og skjaldarmerkjaráðunauts í Kaupmannahöfn.Merkið, sem getið er um, skjöldur með tólf þverröndum, hvítum (silfruðum) og heiðbláum til skiptis, er hugsanlega það merki (eða fáni) sem Hákon konungur fékk Gissuri Þorvaldssyni í Björgvin 1258, er hann gerði hann að jarli.
Tilgátu P. Warmings um merki Íslandskonungs hefur verið andmælt, t.d. af Hallvard Trætteberg, safnverði í Noregi, og telja sumir merkið í Wijnbergen-bókinni tilbúning og hugarflug teiknarans. Þeim andmælum hefur P. Warming svarað og bent á að skjaldarmerkjabókin sé yfirleitt nákvæm og áreiðanleg svo sem um skjaldarmerki Englands, Skotlands, Írlands, Manar og Orkneyja, og ekki sé undarlegt að Ísland hafi haft sérstakt merki, þegar þess sé gætt að lítil samfélög eins og Mön, Orkneyjar, Jamtaland og Færeyjar höfðu sín merki.
Hvað sem líður merki Íslandskonungs, þá telur P. Warming allt benda til þess að skjöldurinn með tólf hvítum og bláum þverröndum sé hið upprunalega (skjaldar)merki Íslands.
Skjaldarmerki lýðveldisins Íslands, eftir 1944, er silfurlitaður kross á himinbláum skildi, með eldrauðum krossi varpað inn í silfurkrossinn. Skjaldarmerkið prýða hinir fjóru landvættir Íslands, einn fyrir hvern landsfjórðung: griðungur (Vesturland), gammur (Norðurland), dreki (Austurland) og bergrisi (Suðurland). Þeir standa á helluhrauni. Höfundur skjaldarmerkisins var Tryggvi Magnússon.
Hinn 12. febrúar 1919 var tekið upp merki, þar sem fáni Íslands er markaður á skjöld. Konungsúrskurðurinn um skjaldarmerkið hljóðar þannig: „Skjaldarmerki Íslands skal vera krýndur skjöldur og á hann markaður fáni Íslands. Skjaldberar eru hinar alkunnu fjórar landvættir, þannig: dreki, gammur, uxi og risi.“ Þetta var skjaldarmerki konungsríkisins Íslands, 1918–1944.
-Af vefsíðinni stjornarradid.is
-https://is.wikipedia.org/wiki/Skjaldarmerki_%C3%8Dslands