Færslur

Festarfjall

Í Faxa 1985 fjallar Ingvar Agnarsson um Festarfjall:

I
Útlit og myndun
Festarfjall
Lóðrétt rís Festarfjall upp frá flæðarmáli, þar sem öldur úthafsins brotna á ströndinni og skella á klettum fjallsins í fjöruborði og mynda sumstaðar hella og skúta.
Þetta sífellda gnauð hafsins við rætur fjallsins veldur því, að stöðugt hrynur úr því, og allt það efni sem niður hrynur, hreinsar hafið burt úr fjörunni og ber með sér út í djúpið, þar sem lygnara er. Skemmtilegt er að virða fyrir sér þetta stórbrotna fjall, skoða lögun þess og línur og reyna að gera sér nokkra grein fyrir myndunarsögu þess. Við sjáum í raun inn í miðju þessa fjalls, því eitt sinn var það miklu meira um sig. En sjórinn hefur mulið niður allan suðurhelming þess svo nú sjáum við þversnið af fjallinu allt frá tindi þess, sem er 193 m hár og niður að sjó. Og hér gefur á að líta: Fjallið er að mestu leyti móbergsfjall, og þá sennilega myndað við eldgos undir jökli. En ekki er hér um eindregna móbergsmyndun að ræða. Sýnist mér, að skipta megi myndun fjallsins í nokkra hluta eða þætti.
Festarfjall
Fyrst er þykkur móbergsstabbi frá sjó og upp undir þriðjung af hæð fjallsins, en þar gengur blágrýtislag lárétt frá austri og næstum þvert í gegnum fjallið, en endar þar snögglega við breiða gjá er gengur upp fjallið. Vantar aðeins spölkorn á, að það nái út úr því að vestanverðu. Undir þessu blágrýtislagi er lag af rauðri eldfjallaösku eða gjalli. Þetta hraunlag hlýtur að hafa runnið á hlýskeiði, og sennilega eftir að jökull hefur sorfið ofan af upphaflegri móbergsmyndun fjallsins, svo að það hefur verið orðið allt að því lárétt, a.m.k. á þessum kafla sem hraunlagið hefur runnið yfir. En þessi hluti móbergsins undir blágrýtislaginu er hluti af miklu víðáttumeira móbergssvæði, bæði austan og vestan við Festarfjall. Á einum stað gengur berggangur sem kallast Festi lóðrétt upp í gegnum móbergsstabbann frá fjöru og endar uppi við blágrýtislagið. Þessi gangur er um 1—1,5 m þykkur og er myndaður úr þunnum lóðréttum flögum, en ystu flögurnar, þær er snerta móbergsveggina beggja vegna eru þó dálítið stuðlaðar lárétt.

Kristján Sæmundsson

Kristján Sæmundsson, jarðfræðingur Íslands, í FERLIRsferð undir Festisfjalli/Lyngfelli. Uppgötvaði m.a. berggang Lyngfells í ferðinni.

Eftir myndun þessa hraunlags í neðri hluta fjallsins hafa jöklar aftur fært hér allt í kaf og á því ísaldarskeiði, líklega því síðasta, hefur svo aftur farið að gjósa á svipuðum slóðum og fyrra skiptið, og nú undir þessum nýja jökulskildi. Og hér hefur hlaðist upp móbergsfjall ofan á blágrýtislaginu og eldra móberginu, sem undir því liggur. Nú verður þessi nýi móbergsstabbi svo hár að hann nær alla leið upp úr jöklinum. Og eftir það getur hraunið, sem vellur upp úr gígnum, runnið óhindrað án þess að breytast í móberg í köldu jökulvatninu. Hin hraða kólnun gosefnanna á sér ekki lengur stað. Og blágrýtishetta myndast efst á þessu fjalli, sem nú hefur skotið kryppunni upp úr hinum mikla frera, tindur Festarfjalls ber þessu vitni enn í dag. Því efsti hluti fjallsins, sem reyndar er lítill um sig, er þakinn blágrýtishellu í nokkrum goslögum þó og undir henni er allþykkt lag af rauðu gjalli eða eldfjallaösku. Hér mun vera um svokallaða stapamyndun að ræða, en skv. kenningum Guðmundar Kjartanssonar, jarðfræðings, eru slík fjöll mynduð undir jökli (eða í vatni), nema efsti hlutinn, sem upp úr hefur komið.

Festarfjall

Festarfjall og nágrenni – loftmynd.

Nefna mætti ýmis stapafjöll, eins og t.d. Hrútfell, Herðubreið, Hrafnbjörg, Eiríksjökul og m.fl. sem talin eru mynduð undir jökli og Surtsey sem nýlega myndaðist í sjó.
Ef þessi tilgáta mín er rétt, um myndun Festarfjalls, þá er hér um að ræða eitt af þessum merkilegu fjöllum, sem myndast hafa á þennan sérstaka hátt, og sem svo mjög einkenna landslag á Íslandi.
Og ef Festarfjall hefur hlaðist upp í tveim aðaláföngum á tveim ísaldarskeiðum eins og hér var gert ráð fyrir þá mun hér vera um nokkra sérstöðu að ræða meðal íslenskra stapafjalla.

II.
Fjara og brim undir Festarfjalli

Festarfjall

Festarfjall – sjávarhellir.

Skemmtilegt er að koma í fjöruna undir Festarfjalli, þegar sól skín í heiði, enda eru margir farnir að leggja þangað leið sína á góðviðrisdögum á sumrum. Hjón koma þarna með börn sín, sem hlaupa glöð um sandinn. Og séð hef ég fólk steikja kjöt á grilltækjum sínum og nokkrar fjölskyldur safnast saman og halda einskonar útihátíð þarna undir gnæfandi björgunum, sem enduróma af undirleik öldunnar, þar sem hún freyðir við sandinn og leikur sér við að væta litla fætur, sem fara í eltingarleik við hana. En sá leikur er auðvitað ekki hættulaus og betra að gæta varúðar; í norðanátt er þarna ávallt logn, en nær aldrei mun vera bárulaust með öllu, og stundum duna öldurnar við ströndina með miklum gný, þótt logn sé um allan sjó. Þarna mætist hrikalegt landslag og stórbrotnar haföldur, og hefur landið orðið að láta undan síga í þeim átökum. Staðhættir allir bera þess ljós merki.

Festarfjall

Festarfjall – brim.

Ekki er hættulaust að ganga undir þessum hrikabjörgum. Varð ég vitni að því eitt sinn, er ég var þarna staddur, ásamt mörgu öðru fólki, að stórgrýtisskriða hrundi úr björgunum nálægt Festi, ganginum sem áður var lýst, og dreifðist um allstórt svæði í fjörunni með miklum gný. Rétt áður var þarna fólk á ferli, hjón frá Keflavík. Þau heyrðu drunur rétt fyrir aftan sig og varð heldur en ekki hverft við. Þarna munaði litlu að stórslys yrði.
Ekki veit ég hvort svona skriðuföll gerast oft. Helst mundi það vera í rigningu, því bergið er nokkuð laust í sér. En einnig er hér talsvert af sjófugli í klettunum og kunna þeir að koma grjóthruni af stað.

III.
Nauðsyn undirstöðuþekkingar í jarðfræði

Festarfjall

Festarfjall – sjávarhellir.

Þegar ferðast er um byggðir og óbyggðir landsins, er nauðsynlegt að þekkja helstu örnefni og setja á sig helstu útlitseinkenni og legu hins fjölbreytta landslags á hverjum stað. Þar er um að ræða aðalatriði landafræðinnar. Ekki er síður áhugavert, að kynna sér þá þætti landsins, sem tilheyra jarðfræðinni, myndun og þróunarsögu landslagsins á hverjum stað.
Í barnaskólum er snemma byrjað á að kenna landafræði, og er það vel. En ekki er síður mikilvægt að kunna nokkur skil á jarðfræðilegum atriðum. Þegar ferðast er um landið, mundi það mjög auka á ánægju hvers og eins að geta skoðað og hugleitt það sem fyrir augu ber, út frá jarðfræðilegum skilningi, og þeirri þekkingu sem þegar er fyrir hendi í þeirri grein, en þar hefur orðið um miklar framfarir að ræða, allt frá síðustu aldamótum. Kennslu um helstu atriði jarðfræðinnar þyrfti að taka upp í öllum skólum, miklu fyrr en nú er gert.” – IA

Í Lesbók Morgunblaðsins 06.11.1949 er í “Fjaðrafoki” vitnað í lýsingu Jóns Trausta á Fagradalsfjalli:

Festarfjall – nafnið

Festarfjall

Festarfjall – málverk.

“Eitt örnefni lærði jeg að minsta kosti á leiðinni frá Grindavík til Krýsuvíkur.
Það er Festarfjall, rjett innan við Grindavíkurbygðina. Mjer var sagt, að það drægi nafn af því, að einhvern tíma í fyrndinni hefði verið feiknamikil fuglatekja í bjarginu framan í fjallinu, en þá var landið auðvitað ekki bygt öðrum en tröllum og landvættum.
Frá þeim tíma hengi festar miklar framan í fjallinu ofan bjargið og væri ein þeirra úr gulli. Þegar jeg nálgaðist Festarfjall sá jeg undir eins festarnar og það langt til. Svo stendur á þeim, að fjallið, sem er úr fornu móbergi, hefur sprungið sundur við jarðrask einhvern tíma fyrir langa löngu og þá hefur bráðin eldleðja að neðan ollið upp í sprungurnar og storknað þar. Af því að þessar sprungur hafa verið mjög þröngar, eru gangarnir mjóir. Nú er sjórinn að smásverfa framan af fjallinu, og hefur verið að því síðan löngu fyrir landnámstíð. En af því að bergtegundin í sprungunum er harðari en hin, sem er í sjálfu fjallinu, slitnar hún seinna og liggja því upphleyptar bergraðir upp og ofan fjallið. Það eru festarnar.” – (Jón Trausti).

Í Rauðskinnu er sagan af festinni í Festarfjalli:

Festarfjall – þjóðsagan

Festarfjall

Festarfjall – berggangur.

“Austarlega í Grindavík, hér um bil miðja vegu milli bæjanna Hrauns og Ísólfsskála, er þverhnípt fell fram við sjóinn, sem heitir Festarfjall. Neðan undir felli þessu er hátt blágrýtisstandberg og ægisandur undir sem ganga má þurrum fótum með lágum sjó. Frá Hrauni blasir við í miðju berginu grá rák sem gengur þráðbeint upp í gegnum bergið og nefnist Festin.
Sagan segir að rák þessi sé silfurfesti sem tröllkona ein hafi einhvern tíma í fyrndinni hengt fram af berginu með þeim ummælum að þá er dóttir bóndans á Hrauni, sú sem bæri nafn hennar, gengi þar neðan undir þá skyldi festin detta niður og verða eign stúlkunnar. Því miður lét tröllkonan ekki nafns síns getið svo að ekki hefir verið auðvelt að láta heita eftir henni, enda hangir festin óhreyfð enn í dag.” – Rauðskinna I 45

Heimildir:
-Faxi, 6. tbl. 01.08.1985, Festarfjall – Ingvar Agnarsson, bls. 260 og 276.
-Lesbók Morgunblaðsins, 41. tbl. 06.11.1949, Fjarðrafok, bls. 508.
-Rauðskinna I 45.

Festarfjall

Festarfjall – sjávarhellar.