Gengið var um Krýsvíkur- og Fjárskjólshraun vestan Herdísarvíkurhrauns.
Krýsuvíkurhraun neðan Eldborganna, Litlu- og Stóru-Eldborg, hefur margra hrauna nefnur. Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar má lesa eftirfarandi:
„Hér blasir Eldborgin við, Stóra-Eldborg. Milli hennar og Geitahlíðar er skarð, nefnt Deildarháls. Þegar komið er fram úr skarðinu blasir við Hvítskeggshvammur er skerst inn og upp í Geitahlíðina. Þá blasir við hraunbunga með smá strýtum á. Þarna eru Dysjarnar. Þarna mættust þær eitt sinn þær maddömurnar. Krýsa úr Krýsuvík og Herdís úr Herdísarvík með smölum sínum og hundum þeirra. Deildu þær um beit, veiði í Kleifarvatni og fleira. Urðu báðar reiðar. Drap þá Dísa smalamann Krýsu. Krýsa drap þegar í stað hinn smalann. Þá sló í svo harða brýnu milli þeirra og heitingar, að báðar létur þarna líf sitt og hundarnir.
Síðan eru þarna Kerlingadysjar, Smaladysjar og Hundadysjar, Krýsudys og Dísudys. Neðan við bunguna er Kerlingahvammur. Síðan heldur leiðin áfram um Geitahlíðardal, austur milli hrauns og hlíðar. Þegar austar kemur með hlíðinni er Sláttudalur skarð upp í henni. Upp hann liggur Sláttudalsstígur. Af Breiðgötum syðst lá stígur niður með Vesturbrún hraunsins, sem runnið hefur frá Eldborgunum. Eldborg stóru, sem áður er á minnst, og Eldborg litlu, sem er aðeins neðar og liggur Akvegurinn milli þeirra. Krýsuvíkurhraun kallast allt hraunið, en niður af Eldborgunum er Klofningur eða Klofningshraun. Milli Eldborganna er reyndar talað um Eldborgahraun. Neðst á Klofningi er Kletturinn og þar rétt hjá er Klettsgreni.
Stígurinn sem liggur af Breiðgötum nefnist Bergsendastígur. Neðan við Klett spölkorn liggur stígur upp á hraunið og austur um það, nefnist Hellnastígur. Í austur frá honum þar sem hann beygir niður og í suðurátt blasir við Hellnahæð, og á henni Hellnahæðarvarða. Þar spölkorn neðar á sléttu klapparhrauni eru hellar. Gvendarhellir er þeirra merkastur, tekur móti 200 fjár. Hellir þessi var áður nefndur Arngrímshellir eftir samnefndum manni frá Læk í Krýsuvík. Hann lést er sylla undir berginu féll á hann um 1700. Arngrímur kemur við sögu í þjóðsögunni um Grákollu (Mókollu). Frá fjárskjólinu liggur stígur til vesturs um Klofningahraun og áfram að Krýsuvík framhjá Jónsbúð. Annar stígur liggur til norðurs um Eldborgarhraun að Eldborgunum sunnanverðum.
Nokkru neðar er svo Bjálkahellir, og austur frá þessum hellum er svo Krýsuvíkurhellir og enn austar er Fjárskjólshellir í Fjárskjólshrauni.
Guðmundur sá er byggði Lækjarbæinn hafði fé sitt í Gvendarhelli. Hann byggði sér skýli allgott við Hellismunnann. Að sunnan var íbúðarkompa hans, en að ofan var geymsla. Þar á milli var gangur, þar um fór féð í hellirinn. Við þetta bjó Guðmundur nokkra vetur: Þótti honum langt að fara að fé daglega heima frá Læk austur í hraunið.
Klettstrýta er hér ekki langt frá Hellunum, nefnist hún Arnarsetur. Héðan er skammt niður í Keflavík. Austur af Fjárskjólshrauni er Háahraun. Í því er Háahraunsskógur. Þar var gert til kola frá Krýsuvík. Tvær hraunnybbur eru þarna á hrauninu, nefnast, önnur Skyggnisþúfa, hin Hraunþúfa. Er þá komið á Austurbrún hraunsins.
Í austur frá Krýsuvík blasir við fallegt fjall, heitir Geitahlíð. Uppi á fjalli þessu eru þúfur. Nefnast Ásubúðir eða Æsubúðir. Hlíð sú er í norður snýr, nefnist Hálaugshlíð. Nyrst í vesturhlíðum fjallsins eru klettabelti, nefnast Veggir. Suður og upp frá eru Skálarnar, Neðri-Skál og Efri-Skál.
Þá er upp frá Breiðgötum austast Geitahlíðarhorn vestra og nær allt inn að Hvítskeggshvammi. Herdísarvíkurvegur nefnist vegurinn og liggur um dalkvos milli hrauns og hlíðar, nefnist Geitahlíðardalur. Hér upp á brún hlíðarinnar er klettastallur, nefnist Hnúka. Um Sláttudal hefur Sláttudalshraun runnið. Skammt hér austar er Geitahlíðarhorn eystra. Hér tekur við úfið hraun, er nefnist allt Herdísarvíkurhraun. Á hæstu bungu þess er Sýslusteinn. Þar eru jarða-, hreppa- og sýslumörk. Alfaraleiðin lá upp með horninu og ofar en vegurinn liggur nú út á hraunið. Neðan við Sýslustein er Vondaklif, Illaklif eða Háaklif. Úr Sýslusteini liggur línan í Skjöld öðru nafni Lyngskjöld sem er breið bunga vestast í Herdísarvíkurfjalli. Úr Lyngskildi miðjum lá L.M. línan um Lyngskjaldarbruna uppi á fjalli og um Stein á Fjalli, eins og segir í gömlum bréfum.“
Í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar um sama svæði segir: „Skreppum nú austur á merki, austur að Seljabótarnefi, og höldum þaðan vestureftir. Vestan við nefið heita Seljabótarflatir. Vestur og upp frá þeim er allmikið hraunsvæði, sem heitir einu nafni Krýsuvíkurhraun. Norður af því uppi við veg, sitt hvoru megin hans, er svo Litla-Eldborg og Stóra-Eldborg. Líkjast þær nokkuð að lögun Eldborg í Hítardal, en frá Eldborgum og heim að bæ í Krýsuvík eru 3-4 km, og mundi þá haldið í vestur. Í Krýsuvíkurhrauni eru gróðurblettir, góðir sauðhagar, þar sem heitir Eystri-Klofningar upp af Seljabót, en Vestri-Klofningar eru upp af Keflavík, er síðar getur. Í Klofningum eru tveir hellar. Annar er Gvendarhellir, sem ber nafn Guðmundar nokkurs Bjarnasonar, er bjó þar einn á vetrum með sauðfé sitt um 1840. Hellir þessi er víðáttumikill og lágur. Bálkahellir heitir hinn. Hann er lítt kannaður, en nafn sitt hefur hann af því, að þegar litið er inn í hann, virðist sem bálkur sé með hvorum vegg, eins og í fjárhúsi. Nálægt Seljabót er svo einn hellir enn, sem heitir Krýsuvíkur[hrauns]hellir. En í Klofningum er Klettagren.
Beint upp af Stóru-Eldborg og austur af bæ er allhátt fell, sem heitir Geitahlíð. Milli Eldborgar og Geitahlíðar er Eldborgarskarð, en litlu austar er Deildarháls; um hann lá vegurinn áður. Beint upp af Stóru-Eldborg er hvammur, sem Krýsvíkingar kalla Hvítskeggshvamm, en annarstaðar heitir Hvítserkshvammur eða jafnvel Hvítskeifuhvammur. Hvítskeggshvammur er hann nefndur í Landfr. s. Ísl II, 312, þar sem sagt er frá því, að þar hafi fundizt fleiri lækningajurtir en á nokkrum öðrum stað. Austan við hvamminn og hálsinn eru þrjú dys, austust er Herdís, svo er Krýs og loks Smalinn. Er hann ofan götunnar, en þær neðan; má um þetta lesa í þjóðs. J. Á. En eitthvað hafa merki færzt til síðan, ef þetta hefur verið á merkjum áður fyrr. Austast í Geitahlíð er dalur, er liggur inn í hlíðina, og heitir hann Sláttudalur.
Nú bregðum við okkur aftur til sjávar. Vestarlega undir Krýsuvíkurhrauni gengur inn vík ekki kröpp, sem heitir Keflavík. Vestan við víkina fer landið aftur að ganga meira til suðurs. Tekur þar við berg, sem heitir einu nafni Krýsuvíkurbjarg.“
Í skráningunum segir ýmist: „Í Klofningum Krýsuvíkurhrauns er Gvendarhellir (Arngrímshellir) vestastur, þá Bálkahellir skammt austar, þá Krýsuvíkurhellir og Fjárskjólshraunshellir þaðan til suðausturs neðar í hrauninu“ eða „Krýsuvíkurhellir er austur af Bálkahelli, nær Seljabót“. Þar er einmitt „Fjárskjólshelli“ að finna. Nefndur „Krýsuvíkurhellir er því annað hvort neðra op (miðop) Bálkahellis (ofan við opið er gömul varða) eða annað nafn á „Fjárskjólshelli“.
Frábært veður. Gangan tók 3. klst og 3. mín.