Tag Archive for: Fjárskjólshraun

Stóra-Eldborg

Gengið var um Krýsvíkur- og Fjárskjólshraun vestan Herdísarvíkurhrauns.

Krýsuvíkurhraun

Krýsuvíkurhraun – herforingjaráðskort.

Krýsuvíkurhraun neðan Eldborganna, Litlu- og Stóru-Eldborg, hefur margra hrauna nefnur. Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar má lesa eftirfarandi:
„Hér blasir Eldborgin við, Stóra-Eldborg. Milli hennar og Geitahlíðar er skarð, nefnt Deildarháls. Þegar komið er fram úr skarðinu blasir við Hvítskeggshvammur er skerst inn og upp í Geitahlíðina. Þá blasir við hraunbunga með smá strýtum á. Þarna eru Dysjarnar. Þarna mættust þær eitt sinn þær maddömurnar. Krýsa úr Krýsuvík og Herdís úr Herdísarvík með smölum sínum og hundum þeirra. Deildu þær um beit, veiði í Kleifarvatni og fleira. Urðu báðar reiðar. Drap þá Dísa smalamann Krýsu. Krýsa drap þegar í stað hinn smalann. Þá sló í svo harða brýnu milli þeirra og heitingar, að báðar létur þarna líf sitt og hundarnir.

Dysjar

Dysjar Krýsu, Herdísar og smalans neðst.

Síðan eru þarna Kerlingadysjar, Smaladysjar og Hundadysjar, Krýsudys og Dísudys. Neðan við bunguna er Kerlingahvammur. Síðan heldur leiðin áfram um Geitahlíðardal, austur milli hrauns og hlíðar. Þegar austar kemur með hlíðinni er Sláttudalur skarð upp í henni. Upp hann liggur Sláttudalsstígur. Af Breiðgötum syðst lá stígur niður með Vesturbrún hraunsins, sem runnið hefur frá Eldborgunum. Eldborg stóru, sem áður er á minnst, og Eldborg litlu, sem er aðeins neðar og liggur Akvegurinn milli þeirra. Krýsuvíkurhraun kallast allt hraunið, en niður af Eldborgunum er Klofningur eða Klofningshraun. Milli Eldborganna er reyndar talað um Eldborgahraun. Neðst á Klofningi er Kletturinn og þar rétt hjá er Klettsgreni.

Keflavík

Hellnastígur milli Bergsenda og Keflavíkur.

Stígurinn sem liggur af Breiðgötum nefnist Bergsendastígur. Neðan við Klett spölkorn liggur stígur upp á hraunið og austur um það, nefnist Hellnastígur. Í austur frá honum þar sem hann beygir niður og í suðurátt blasir við Hellnahæð, og á henni Hellnahæðarvarða. Þar spölkorn neðar á sléttu klapparhrauni eru hellar. Gvendarhellir er þeirra merkastur, tekur móti 200 fjár. Hellir þessi var áður nefndur Arngrímshellir eftir samnefndum manni frá Læk í Krýsuvík. Hann lést er sylla undir berginu féll á hann um 1700. Arngrímur kemur við sögu í þjóðsögunni um Grákollu (Mókollu). Frá fjárskjólinu liggur stígur til vesturs um Klofningahraun og áfram að Krýsuvík framhjá Jónsbúð. Annar stígur liggur til norðurs um Eldborgarhraun að Eldborgunum sunnanverðum.

Gvendarhellir

Í Gvendarhelli / Arngrímshelli.

Nokkru neðar er svo Bjálkahellir, og austur frá þessum hellum er svo Krýsuvíkurhellir og enn austar er Fjárskjólshellir í Fjárskjólshrauni.
Guðmundur sá er byggði Lækjarbæinn hafði fé sitt í Gvendarhelli. Hann byggði sér skýli allgott við Hellismunnann. Að sunnan var íbúðarkompa hans, en að ofan var geymsla. Þar á milli var gangur, þar um fór féð í hellirinn. Við þetta bjó Guðmundur nokkra vetur: Þótti honum langt að fara að fé daglega heima frá Læk austur í hraunið.

Fjárskjólshraunshellir

Fjárskjólshraunshellir (Krýsuvíkur(hrauns)hellir.

Klettstrýta er hér ekki langt frá Hellunum, nefnist hún Arnarsetur. Héðan er skammt niður í Keflavík. Austur af Fjárskjólshrauni er Háahraun. Í því er Háahraunsskógur. Þar var gert til kola frá Krýsuvík. Tvær hraunnybbur eru þarna á hrauninu, nefnast, önnur Skyggnisþúfa, hin Hraunþúfa. Er þá komið á Austurbrún hraunsins.
Í austur frá Krýsuvík blasir við fallegt fjall, heitir Geitahlíð. Uppi á fjalli þessu eru þúfur. Nefnast Ásubúðir eða Æsubúðir. Hlíð sú er í norður snýr, nefnist Hálaugshlíð. Nyrst í vesturhlíðum fjallsins eru klettabelti, nefnast Veggir. Suður og upp frá eru Skálarnar, Neðri-Skál og Efri-Skál.

Breiðivegur

Breiðivegur (Breiðgötur).

Þá er upp frá Breiðgötum austast Geitahlíðarhorn vestra og nær allt inn að Hvítskeggshvammi. Herdísarvíkurvegur nefnist vegurinn og liggur um dalkvos milli hrauns og hlíðar, nefnist Geitahlíðardalur. Hér upp á brún hlíðarinnar er klettastallur, nefnist Hnúka. Um Sláttudal hefur Sláttudalshraun runnið. Skammt hér austar er Geitahlíðarhorn eystra. Hér tekur við úfið hraun, er nefnist allt Herdísarvíkurhraun. Á hæstu bungu þess er Sýslusteinn. Þar eru jarða-, hreppa- og sýslumörk. Alfaraleiðin lá upp með horninu og ofar en vegurinn liggur nú út á hraunið. Neðan við Sýslustein er Vondaklif, Illaklif eða Háaklif. Úr Sýslusteini liggur línan í Skjöld öðru nafni Lyngskjöld sem er breið bunga vestast í Herdísarvíkurfjalli. Úr Lyngskildi miðjum lá L.M. línan um Lyngskjaldarbruna uppi á fjalli og um Stein á Fjalli, eins og segir í gömlum bréfum.“

Bálkahellir

Í Bálkahelli.

Í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar um sama svæði segir: „Skreppum nú austur á merki, austur að Seljabótarnefi, og höldum þaðan vestureftir. Vestan við nefið heita Seljabótarflatir. Vestur og upp frá þeim er allmikið hraunsvæði, sem heitir einu nafni Krýsuvíkurhraun. Norður af því uppi við veg, sitt hvoru megin hans, er svo Litla-Eldborg og Stóra-Eldborg. Líkjast þær nokkuð að lögun Eldborg í Hítardal, en frá Eldborgum og heim að bæ í Krýsuvík eru 3-4 km, og mundi þá haldið í vestur. Í Krýsuvíkurhrauni eru gróðurblettir, góðir sauðhagar, þar sem heitir Eystri-Klofningar upp af Seljabót, en Vestri-Klofningar eru upp af Keflavík, er síðar getur. Í Klofningum eru tveir hellar. Annar er Gvendarhellir, sem ber nafn Guðmundar nokkurs Bjarnasonar, er bjó þar einn á vetrum með sauðfé sitt um 1840. Hellir þessi er víðáttumikill og lágur. Bálkahellir heitir hinn. Hann er lítt kannaður, en nafn sitt hefur hann af því, að þegar litið er inn í hann, virðist sem bálkur sé með hvorum vegg, eins og í fjárhúsi. Nálægt Seljabót er svo einn hellir enn, sem heitir Krýsuvíkur[hrauns]hellir. En í Klofningum er Klettagren.

Lyngskjöldur

Lyngskjöldur – þrætugrenið við Steininn.

Beint upp af Stóru-Eldborg og austur af bæ er allhátt fell, sem heitir Geitahlíð. Milli Eldborgar og Geitahlíðar er Eldborgarskarð, en litlu austar er Deildarháls; um hann lá vegurinn áður. Beint upp af Stóru-Eldborg er hvammur, sem Krýsvíkingar kalla Hvítskeggshvamm, en annarstaðar heitir Hvítserkshvammur eða jafnvel Hvítskeifuhvammur. Hvítskeggshvammur er hann nefndur í Landfr. s. Ísl II, 312, þar sem sagt er frá því, að þar hafi fundizt fleiri lækningajurtir en á nokkrum öðrum stað. Austan við hvamminn og hálsinn eru þrjú dys, austust er Herdís, svo er Krýs og loks Smalinn. Er hann ofan götunnar, en þær neðan; má um þetta lesa í þjóðs. J. Á. En eitthvað hafa merki færzt til síðan, ef þetta hefur verið á merkjum áður fyrr. Austast í Geitahlíð er dalur, er liggur inn í hlíðina, og heitir hann Sláttudalur.

Keflavík

Keflavík.

Nú bregðum við okkur aftur til sjávar. Vestarlega undir Krýsuvíkurhrauni gengur inn vík ekki kröpp, sem heitir Keflavík. Vestan við víkina fer landið aftur að ganga meira til suðurs. Tekur þar við berg, sem heitir einu nafni Krýsuvíkurbjarg.“

Í skráningunum segir ýmist: „Í Klofningum Krýsuvíkurhrauns er Gvendarhellir (Arngrímshellir) vestastur, þá Bálkahellir skammt austar, þá Krýsuvíkurhellir  og Fjárskjólshraunshellir þaðan til suðausturs neðar í hrauninu“ eða „Krýsuvíkurhellir er austur af Bálkahelli, nær Seljabót“. Þar er einmitt „Fjárskjólshelli“ að finna. Nefndur „Krýsuvíkurhellir er því annað hvort neðra op (miðop) Bálkahellis (ofan við opið er gömul varða) eða annað nafn á „Fjárskjólshelli“.

Frábært veður. Gangan tók 3. klst og 3. mín.

Krýsuvíkurhraun

Krýsuvíkurhraun – herforingjaráðskot.

Keflavík

Ætlunin var að ganga til suðurs um Fjárskjólshraun undir Geitarhlíð við Krýsuvík með viðkomu í Fjárskjólshraunshelli og Fjárskjólshraunsfjárskjólinu, sem hraunið mun draga nafn sitt af, en halda síðan niður í hina skjólgóðu Keflavík og berja gatklettinn augum. Á loftmynd mátti sjá djúpan gíg norðaustan við Keflavíkina. Austan hennar virðist vera hrauntjörn. Svo var að sjá að hún væri í stefnu neðanvert við enda Bálkahellis, sem gat gefið enn eina von um óvænta aðkomu.

Krýsuvíkurhraun

Krýsuvíkurhraun.

Til baka var ætlunin að ganga um Klofninga með viðkomu í Bjálkahelli og hinum þjóðsagnakennda Arngrímshelli (Gvendarhelli).
Hraunssvæðið/-in, sem hér um ræðir, hafa freistað fárra, enda á fárra vitorði öll merkilegheitin er berja má augum. Ekki eiungis er svæðið sérstak (séríslenskt) heldur felur það í sér minjar og sögur liðinna alda – ef grannt er skoðað. Eru hvorutveggja ágæt dæmi um hvernig landsmenn nýttu sér efni og aðstæður til að þrauka til núlifandi kynslóða. Hversu lítillátt fólk kann að vera nú til dags verður þetta afrek forfeðra og -mæðra okkar að teljast einhverrar viðurkenningar verðar. Þessi ferð var m.a. liður í slíkri viðurkenningu – síðasti hefðbundi göngudagurinn fyrir jólahátíðina 2007. Hafa ber þó í huga að „jólin“ sem slík hafa gjarnan verið ígildi hátíðar eða veislu af fleiru en einu tilefni.
Ferðin var líka kjörið tækifæri til að léttast svolítið fyrir væntanlegt þungmeti jólahátíðarinnar og líta fyrstu geisla hækkandi sólar augum.
Þegar gengið er um hraunssvæðið kemur fljótt í ljós að afurðirnar, sem myndað hefur það, eru nokkrar. Miðjan er bæði tiltölulega slétt og gróin. Þar er eldra hraunið, sem myndar undirstöður annarra hrauna, en flest eiga þau uppruna sinn í Stór og Litlu-Eldborg, auk gíga ofan Sláttudals í Geitahlíð.

Fjárskjólshraun

Fjárskjólið í Fjárskjólshrauni.

Þegar komið var niður niður í Fjárskjólshraun var gengið að opi Fjárskjólshraunshellis, sem þar leynist í grónu jarðfalli. Erfitt er að koma auga á það í víðfeðmninu. Það sést ekki nema staðið sé á brún þess. Niðri er komið í skúta undir berghellunni, en með því að fara til vinstri var komið niður í rúmgóða mannhæðaháa hraunrás. Rásin var alveg heil. Hún er lág í fyrstu, en breið, og um 100 metra löng og endar í fallegum hraungúlp, sem hefur runnið þarna niður í rásina og storknað. Svo virðist sem gúlpurinn hafi bæði þrengt sér upp úr gólfinu og komið út úr veggnum að ofan. Sérkennilegt jarðfræðifyrirbrigði. Gólfið er alveg slétt. Rásin lækkar á tveimur stöðum, en hægt er að ganga hálfboginn þar um. Breidd rásarinnar er um 6 metrar og jafnvel meira á köflum. Neðst er op til hægri. Þegar komið er inn fyrir hana tekur við lágur salur. Rás liggur inn úr honum, tvískipt. Þessi rás er um 40 metra löng. Í heild er hellirinn því um 140 metra langur. Litlir dropsteinar sáust, en að öðru leyti virðist vera lítið um skraut í hellinnum. Flögur eru utan á veggnumá einum stað, líkt og í Leiðarenda. Neðst, þar sem hliðarrásin er, er mikill hraungúlpur, líkur þeim, sem er efst í hellinum. Þetta er fallegur hellir og vel þess virði að skoða hann. Hellir, sem ekki er hægt að skemma og því tilvalinn fyrir áhugafólk.

Gatkletturinn

Leitað var að opum bæði ofan og neðan við jarðfallið. Neðan við það er annað jarðfall, sennilega hluti af sömu rás. Farið var þar inn og reyndist vera um gamalt greni að ræða. Þarna eru nokkur gömul greni á tiltölulega afmörkuðu svæði.
Gengið var áfram niður Fjárskjólshraunið. Sunnan undir lágum hraunhól eru mjög fornar grónar hleðslur fyrir fjárskjóli í hrauninu. Þetta eru í raun miklar hleðslur fyrir rúmgóðum skúta, en vel sést móta fyrir hlöðnum innganginum, sem er alllangur. Hellirinn sjálfur hefur hýst hátt í hundrað kindur. Fyrirhleðslur eru inni í hellinum á þremur stöðum. Mold er í gólfi. Við fyrirhleðsluna, vinstra megin við innganginn er inn er komið hefur verið hleðsla er líkist bæli eða klefa. Þar gæti hugsanlega hafa verið skjól fyrir þann eða þá er sátu yfir ánum í hrauninu. Ekki er ósennilegt að fjárskjólið sé það er hraunið hefur dregið nafn sitt af – Fjárskjólshraun. Ofan við fjárskjólið var vörðubrot.
Þegar fjárskjólið var skoðað betur mátti sjá mjóa fæðurásina innst í því miðju. Hlaðið hafði verið litlum steinum til að varna því að fé færi þar inn. Þar sem gólfið var bæði blaut og þakið mold var ekki ráðlegt að skríða þar inn til að athuga með framhaldið. Þessi hellir hefur orðið til líkt og Strandarhellir og Bjargarhellir í Strandarhæð. Glóandi hraunkvika í lokaðri rás hefur mætt fyrirstöðu um stund, en vegna þrýstings hefur hún hlaðist upp og þakið storknað áður en hún fann sér leið áfram og tæmdi rýmið.

Keflavík

Bergið við Keflavík.

Samkvæmt loftmynd átti að vera gígur nokkru suðvestar. Þrátt fyrir nokkra leit fannst opið ekki, en þess verður leitað aftur síðar.
Á leiðinni niður í Keflavík mátti sjá Skyggnisþúfu nokkru austar. Hún er þar sem hraunið ofan við Krýsuvíkurberg ber hæst mót Herdísarvík. Á þúfunni er varða, Skilaboðavarða. Í hana voru sett boð, sem menn vildu að bærust á milli bæjanna.

Bálkahellir

Í Bálkahelli.

Af bjargbrúninni austan við Keflavík blasti við mikill gatklettur, sem skagar út frá því. Brimið lék sér við hann, auk þess sem sólargeislar þessa stysta dags ársins spegluðu sig í haffletinum.
Hraunkaflinn ofan við Keflavíkina er allúfinn. Engu líkara er að þarna hafi verið grunnir pollar ofan á eldra bergi, en þegar hraunið rann þar yfir ýfðist kvikan og safnaðist í hrauka. Fjárgata liggur í gegnum hraunið ofan við bergið. Skammt áður en komið er í Keflavík mátti sjá gróna götu liggja annars vegar upp hraunið og hins vegar áfram að ofanverðri víkinni, sem einnig var nefnd Kirkjufjara.
Keflum hafði verið safnað í hrauk uppi á bjargbrúninni.

Í Bálkahelli

Í Bálkahelli.

Í Kirkjufjöru í Keflavík má sjá hluta af gamla Krýsuvíkurbjargi og fagurt útsýni er úr víkinni austur eftir berginu. Víkin dregur nafn sitt af keflunum, sem nóg virðist vera af, auk plastbelgja. Gatkletturinn sést vel frá víkinni þar sem hann stendur út af berginu að austanverðu. Svonefndir Geldingasteinar eru efst á bjargbrúninni, gulir af fuglaglæðu og öðrum grófari féttum. Vestan þeirra lækkar nýrra hraunið og stallast. (Sjá meira undir Keflavík).
Þá var haldið til baka upp og yfir grófa hraunkaflann. Ofan hans tekur gróna hraunsvæðið við, auðvelt yfirferðar. Stefnan var tekin á Bálkahelli.
Engar sagnir eru til af Bálkahelli aðrar en þær að hann er nefndur nafni sínu í sögunni um Grákollu. Hellirinn fannst þegar einn FERLIRsfélaginn segja má datt niður um eitt snjóþakið opið. Niðri reyndist vera um 250 metra langur hellir, vel manngengur, tvískiptur og dulúðlegur. Dropasteinar á gólfum og hraunstrá í loftum. Hraunbálkar eru með veggjum innan við efsta og stærsta opið. Hellirinn er um 450 metra langur.
Neðsti hluti Bálkahellis er hvað heillegastur. Í henni lækkað rásin nokkuð en hækkar að nýju uns gólf og loft koma alveg saman. Þarna undir vegg eru tvö stór hraundríli. Farið var til baka og niður aðalgönginn. Þau beygja fyrst til hægri og síðan aftur til vinstri. Þessi göng eru um 200 metra löng og ekkert hrun nema svolítið fyrst.

Arngrímshellir

Í Arngríms- / Gvendarhelli.

Hellirinn er mjög breiður og þarna á gólfum eru fjölmargir dropasteinar og hraunstrá hanga í loftum. Fara þarf varlega um göngin. Hraunnálar eru í lofti. Þessi hluti hellisins hefur varðveist mjög vel og full ástæða til að fara þarna mjög varlega. Um er að ræða einn fallegasta helli á Reykjanesi. Neðst beygir hann enn til hægri og þrengist síðan. Í þrengslunum tekur við samfelld dropasteinabreiða.
Skoðað var að nýju upp rásina í neðsta jarðfallinu. Hún er víð og há uns hún lækkar og þrengist. Loks koma gólf og loft saman. Þessi hluti er um 40 metrar. Þá var haldið niður í miðrásina, á móti þeirri, sem skoðuð var áður. Hún lokast loks í þrengslum, en mikið er um fallega dropasteina og hraunnálar. Alls er þessi hluti hellisins um 100 metrar.

Hleðsla við op Gvendarhellis/Arngrímshellis

Op Gvendar- / Arngrímshellis.

Loks var gengið upp úr miðjarðfallinu og upp aðalhellinn. Hann er víður og hár. Skammt fyrir ofan opið skiptist hellirinn í tvennt og hægt að fara umhverfis tvær breiðar hraunsúlur, en meginrásin er til hægri. Ekki er hægt að villast í Bálkahelli.  Haldið var áfram upp rásina og yfir hrun, sem þar er ofarlega. Þá sést í efsta opið og bálkana beggja vegna, en af þeim mun hellirinn draga nafn sitt. Samtals er Bálkahellir um 450 metra langur, sem fyrr sagði, fyrst hár og víður, en nokkuð hrun, síðan hraunsúlur og syllur, dropsteinar og hraunstrá. Neðsti hluti hans þó sýnum fallegastur.

Bálkahellir

Í Bálkahelli.

Að lokum var Arngrímshellir (Gvendarhellir) skoðaður, en frásagnir eru til um hellinn er hann var notaður sem fjárhellir á 17., 18. og 19. öld. Gamlar sagnir eru til af því. Hleðslur eru fyrir opum og er tótt framan við stærsta opið, það nyrsta. Inni í hellinum eru allmiklar hleðslur. Hellirinn er bjartur og auðvelt að skoða sig um þar inni, jafnvel ljóslaus.
Sagan segir að Arngrímur frá Læk í Krýsuvík hafði fyrir aldamótin 1700 fé sitt í helli í Klofningum í Krýsuvíkurhrauni. Við hellisopið byggði hann lítið fallegt hús úr rekaviði. Var það talið sérstaklega til frásagnar að rúðugler var í gluggum hússins. Fénu beitti Arngrímur í Klofningana sem og í fjöruna, sem þó er all stórbrotin neðan þeirra. Í hrauninu skammt ofan brúnar gamla bergsins má einnig sjá mannvistarleifar í helli. Arngrímur hélt 99 ær og eina að auki frá systur sinni. Sú kind var grákollótt og nefnd Grákolla. Um jólaleytið gerði mikið óveður á þessum slóðum og hraktist féð fram af berginu. Arngrímur gafst upp á að reyna að bjarga fénu. Grákolla barðist þó gegn óveðrinu og reyndi Arngrímur þrívegis að kasta henni fram af bjarginu eftir hinu fénu. Jafnoft tókst henni að krafla sig upp aftur í snjónum og ákvað Arngrímur þá að láta þar við sitja. Komust þau bæði við illan leik í hellinn. Síðan er sagt að allt fé Krýsuvíkurbænda hafi verið af nefndri Grákollu komið.
Eftir aldamótin var Arngrímur við sölvatöku í berginu undan Klofningum er jarðskjálfti reið yfir Suðurland. Féll bjarg á hann og lét hann lífið. Annar maður, sem með honum var, slapp og varð til frásagnar. Sá stökk undan fellunni í sjóinn og gat bjargað sér.

Gvendarhellir

Tóft við Gvendar- / Arngrímshelli.

Enn er hægt að greina tóftina af húsi Arngríms við hellisopið, sem og hleðslur inni í honum. Engar sagnir eru hins vegar til af Bálkahelli, sem er þar austar í hrauninu, önnur en sú, sem um getur í þessari frásögn af Grákollu. Er hann sagður þar skammt frá og að nafn sitt dragi hellirinn af bálkum innan við opið.
Í Blöndu VI 187 segir um þennan sama helli að Guðmundur nokkur hafi gætt á vetrum fjár síns við helli einn í Klofningahrauni, Gvendarhelli, og hélt því mjög til beitar. Framan við hellinn byggði hann skemmu með opi á miðju og sést hún enn þá. Rétt inn af skemmunni afgirti hann skáp úr hellinum og geymdi þar lömbin, ef illt var veður og þörf var á að gefa þeim. Þar hafði hann og rúm sitt, er hann hlóð upp úr grjóti og þakti svo með gæruskinnum, er hann lá á. Út frá hellinum var veðursæld mikil og hagar fyrir sauðfé svo góðir að aldrei brugðust. Guðmundur var þarna um 1830.
Hellirinn hefur fengið að vera nokkurn veginn í friði. Í honum má enn sjá hleðslur fyrir munna, tóft við meginopið, flórað gólfið að hluta, hlaðna stíu og fyrirhleðslur. Stígur liggur frá hellinum vestur yfir hraunið, áleiðis til Krýsuvíkur.
Ekki er vitað nákvæmlega um aldur þessara hrauna. Samkv. upplýsingum Kristjáns Sæmundssonar, jarðfræðings, er hraunið úr úr Stóru-Eldborg frá fyrri hluta nútíma, þ.e. töluvert eldra en 5000-6000 ára. Hitt úr Litlu-Eldborg er yngra. Það gæti verið kringum 5000-6000 ára.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Arngrímshellir

Í Arngrímshelli.

 

Fornigarður

Gamall slóði. Gamli vegur eða Selsgata, var genginn frá Fjárskjólshrauni niður í Herdísarvíkursel suður undan Herdísarvíkurhrauni ofan við Seljabót.

Herdísavíkursel

Í Herdísarvíkurseli.

Leiðin er mjög falleg í gegnum hraunið og vel greinileg. Selið, sem kúrir undir hraunkantinum mót suðri, hefur verið stórt og eru margar tóttir því tengdu, sem og vatnsstæði vestan við þær. Skoðaðar voru gamlar hlaðnar refagildrur á klöppunum austan Seljabótar og einnig rúningsréttin í sjálfri bótinni.
Þá var hraunsleiðin gengin til baka og haldið að Fornagarði austan Vogsósa, en garðurinn, sem getið er um í heimildum frá árinu 1275, náði frá Hlíðarvatni að Nesi í Selvogi. Um hefur verið að ræða mikið mannvirki í þá daga. Hann var því 7 km langur. Að sjálfsögðu hét hann ekki Fornigarður í upphafi, heldur Strandargarður, en eftir því sem aldirnar færðust yfir hann gerði nafnið það líka.
Lognið var á smáhreyfingu, en hlýtt.

Herdísarvíkursel

Herdísarvíkursel – uppdráttur ÓSÁ.

Gvendarhellir

Tvö fjárskjól eru við Klofninga í Krýsuvíkurhrauni og það þriðja í Litlahrauni vestan þeirra.

Gvendarhellir

Gvendarhellir (Arngrímshellir).

Í austasta fjárskjólinu eru mikla hleðslur við innganginn og að því er virðist hlaðið „afhýsi“. Í miðfjárskjólinu, sem jafnan hefur verið nefnt Arngrímshellir eftir sögunni eða Gvendarhellir eftir Krýsuvíkur-Gvendi er á að hafa haldið þar fé um 1830. Þar eru tóftir húss við aðalmunnann og fyrirhleðslur, auk hlaðinna króa og flórað gólf að hluta. Vestasta fjárskjólið er í nálægð við gamla tóft auk þess sem hlaðið aðhald er þar við. Ekki er gott að segja til um með vissu hvert þessara fjárskjóla er hvað eða hvort Arngrímshellir og Gvendarhellir er sitthvor hellirinn eða einn og hinn sami.

Gvendarhellir

Gvendarhellir (Arngrímshellir) – tóft.

Sagan segir að Arngrímur hafi um aldarmótin 1700 haft fé sitt í helli í Klofningum í Krýsuvíkurhrauni. Við hellisopið byggði hann lítið fallegt hús úr rekavið. Fénu var beitt í Klofningana sem og í fjöruna, sem þó er all stórbrotin neðan þeirra. Arngrímur hélt 99 kindur og eina að auki frá systur sinni. Sú kind var grákollótt og nefnd Grákolla. Um jólaleytið gerði mikið óveður á þessum slóðum og hraktist féð fram af berginu. Arngrímur gafst upp á að reyna að bjarga fénu. Grákolla barðist þó gegn óveðri og reyndi Arngrímur þrívegis að kasta henni fram af bjarginu eftir hinu fénu. Jafnoft tókst henni að krafla sig upp aftur í snjónum og ákvað Arngrímur að láta þar við sitja. Komust þau bæði við illan leik í hellinn. Síðan er sagt að allt fé Krýsuvíkurbænda hafi verið af nefndri Grákollu komið.

Arngrímshellir

Arngrímshellir – Gvendarhellir.

Eftir aldarmótin var Arngrímur við sölvatöku í berginu undan Klofningum er jarðskjálfti reið yfir Suðurland. Féll bjarg á hann og lét hann lífið. Annar maður, sem með honum var, varð til frásagnar. Sá stökk undan fellunni í sjóinn og gat bjargað sér.
Hellirinn á að vera sínum stað ef sagan reynist sönn.

Gvendarhellir

Í Gvendarhelli.

Gengið var niður í Klofninga og þess freistað að finna helli Arngríms. Hellirinn hefur einnig gengið undir nafninu Gvendarhellir því 130 árum eftir Arngrím mun Krýsuvíkur-Gvendur hafa haldið fé sínu þar til haga. Segir og sagan að hann hafi jafnvel falið það þar er koma átti að fjárniðurskurði í sveitinni vegna fjárpestar.
Í ýtarlegri lýsingu Jóns Vestmanns af Gvendarhelli (Krýsuvíkur-Gvendi) frá 1840 segir: “ . . . en þar honum þótti langt að hirða það þar, byggði hann þar annan bæ, dásnotran sem hinn, með glergluggum, sængurhúsi, af- og al-þiljuðu, með 2 rúmum; í hinum karminum geymsluhús. Byggði hann hús þetta framan-við hellirsdyrnar og rak féð gegnum göngin útúr og inní hellirinn. Hlóð af honum með þvervegg, bjó til lambastíu með öðrum; gaf þeim þar, þá henta þótti, bjó til jötur úr tilfengnum hellum allt í kring í stærri parti hellirsins; gaf þar fullorðna fénu í innistöðum (sem verið mun hafa allt að 200 eftir ágetskun manna). Flutti þangað talsvert hey og smiðju sína, og mun hafa starfað þetta að mestu, ef ei öllu leyti, aleinn, á einu ári. Þarna var hann 10 vetur samfellt yfir kindum sínum, aleinn, en á sumrum heima. Loks gafst hann upp, yfir sjötugt, og sagðist hafa verið smali síðan hann hafði 6 ár að baki.“ Í þessari frásögn er fjáreignin áætluð um 200 fullorðið en samkvæmt tíundareikningum þess tíma átti hann 111 sauði og ær (lömb ekki meðtalin) þegar best lét í Krýsuvík.

Fjárskjólshraun

Fjárskjólið í Fjárskjólshrauni.

Komið var inn á gamla götu um miðja Klofninga. Henni var fylgt inn í hraunið og brátt mátti greina tóttir hússins við hellisopið sem og hleðslur inni í hellinum. Hluti gólfsins er flórað, hlaðið aðhald er inni í hellinum gegnt opinu með tóftinni framan við og fyrirhleðslur eru fyrir endum og umhverfis op miðsvæðis að sunnanverðu. Hellirinn er bæði bjartur og rúmgóður. Annar hellir skammt sunnar hefur einnig verið notaður í tengslum við aðhaldið. Í honum fannst rekaviður og fleira viðarkyns.
Engar sagnir eru til af Bálkahelli aðrar en þær að hann er nefndur nafni sínu í sögunni um Grákollu. Þá er hans getið í örnefnaslýsingu Þorsteins Bjarnason frá Háholti fyrir Krýsuvík. Þar segir: „Í Klofningum eru Gvendarhellir og Bálkahellir. Gvendarhellir ber nafn sitt af Guðmundi Bjarnasyni, er þar lifði einlífi yfir sauðfé sínu um 1840.“
Op Bálkahellis fannst þegar einn FERLIRsfélaga segja má datt niður um á kafi í snjó að vetrarlagi. Niðri reyndist vera um 250 metra langur hellir, vel manngengur, tvískiptur og dulúðlegur. Dropasteinar á gólfum og hraunstrá í loftum. Hraunbálkar eru með veggjum innan við efsta og stærsta opið. Hellirinn, fullkannaður, er í heild um 450 metra langur.

Bálkahellir

Í Bálkahelli.

Arngrímshellir

Gengið var niður í Fjárskjólshraunshelli í Krýsuvíkurhrauni (Fjárskjólshrauni) undir mosaþverskorinni Geitahlíð og áfram niður hraunið að Keflavík þar sem tilkomumikill gataklettur var skoðaður utan í Krýsuvíkurbergi, sem og gamla bergið þar sem á trjóna svonefndir Geldingasteinar. Haldið var vestur með bjarginu og síðan beygt til norðurs upp í Bálkahelli og loks farið í Arngrímshelli. Á göngunni var m.a. rætt um austurlandamerki Krýsuvíkur, sem eru þarna eða svolítið austar; allt eftir því við hvaða gögn er stuðst.

Fjárskjólshraun

Í Fjárskjóslhrauni.

Þegar gengið var frá opi Litlu Eldborgar, niður Eldborgarhraunin, lagðist regnbogi yfir þau þannig að göngufólkið gekk undir annan enda hans. Sjaldgæf sjón – og ósktæk.
FERLIR skoðaði Fjárskjólshelli árið 2004. Um er að ræða u.þ.b. 60 metra helli með sléttu gólfi. Innst lokast hann með fallegum hraungúlpi, sem virðist kom upp úr gólfinu. Að þessu sinni skartaði hellirinn hinum fegurstu grýlukertum og klakahnúðlum.
Niðri í Fjárskjólshrauni er fornt hlaðið fjárskjól. Líklega dregur hraunið nafn sitt af því týnda skjóli.
Opið á Fjárskjólshraunshelli er í stóru grónu jarðfalli. Nyrst í því er hægt að komast niður í stóra hraunrás, slétta í botninn. Rásin liggur til norðurs. Stutt rás liggur til hægri. Fremst er einnig stór hraungúlpur, sem virðist hafa komið upp úr gólfinu. Um er að ræða fallegt jarfræðifyrirbæri.

Bálkahellir

Bálkahellir – op.

Á leiðinni niður í Keflavík var komið við á Skyggnisþúfu. Hún er þar sem hraunið ofan við Krýsuvíkurberg ber hæst mót Herdísarvík. Á þúfunni er varða, Skilaboðavarða. Í hana voru sett boð, sem menn vildu að bærust á milli bæjanna.
Í Kirkjufjöru í Keflavík má sjá hluta af gamla Krýsuvíkurbjargi og fagurt útsýni er úr víkinni austur eftir berginu. Víkin dregur nafn sitt af keflunum, sem nóg virðist vera af, auk plastbelgja. Gatklettur stendur út af berginu að austanverðu. Svonefndir Geldingasteinar eru efst á bjargbrúninni, gulir af fuglaglæðu og öðrum grófari féttum.
Á kortum er Keflavík notað fyrir allt svæðið framan við og vestan og austan við Bergsenda. Af brún bjargsins ofan við víkina liggur gömul rekagata niður í hana. Götunni var fylgt niður. Niðri er skjólgott undir háum grágrýtisveggjunum. Framar er stóreflis lágbarið strandargrjótið. Útsýnið þarna eftir berginu er einstaklega fallegt.

Bálkahellir

Í Bálkahelli.

FERLIR leitaði að og fann Bálkahelli árið 2000. Hans er þó getið í gamalli sögn um þjóðsöguna af Grákollu og Arngrímshelli, sem er þar skammt vestar. Neðsti hluti Bálkahellis (um 150 m langur) er með sléttu gólfi, vítt til veggja og hátt til lofts. Dropsteinar og hraunstrá eru í þessum hluta. Nauðsynlegt er að hafa með sér góð ljós þegar hellirinn er skoðaður til að draga úr líkum á skemmdum. Hiti var í hellinum svo ekki sáust klakamyndanir.
Haldið var upp í gegnum efsta hlutann. Botninn er sléttur í fyrstu, en þegar komið er að stórri steinsúlu þarf að fara yfir hraun. Það er þó ekki ógreiðfært, en nauðsynlegt er að hafa góð ljós í Bálkahelli. Þegar komið var út úr þessum efsta huta hellisins mátti vel sjá af hverju hann dregur nafn sitt; steinbálkum beggja vegna. Líklegt er að sá er leit hellinn augum hafi nafngreint hann eftir fyrrnefndum bálkum.

Bálkahellir

Í Bálkahelli.

Gengið var í gegnum efsta hluta Bálkahellis (120 m). Klakasúla var næst innganginum. Gólfið er slétt í fyrstu, en þegar komið er að mikilli hraunsúlu tekur við hrun, sem þó er tiltölulega auðvelt yfirferðar. Efst í efsta hlutanum eru bálkar, sem hellirinn ber nafn sitt af. Þar er þrastarhreiður.
Arngrímshellir er með miklum mannvistarleifum. Við hann gerðist þjóðsagan af Grákollu. Þar segir af Arngrími á Læk um og eftir 1700 og (130 árum síðar) Krýsuvíkur-Gvendi Bjarnasyni, sem héldu fé sínu í hellinum. Gólfið er flórað að hluta, hleðslur eru við op og inni í hellinum, auk tóftar, sem gamlar sagnir eru um.
Þetta svæði er varla til í augum og hugum landans, hvað þá annarra. Um er að ræða nokkur hraun, bæði úr Eldborgum og eldvörpum ofan við Sláttudal og Brennisteinsfjöllum. Þau eru misjafnlega vel gróin og eru misgreið yfirferðar. Miðjan er þó vel greiðfær með lyngi og kjarri í brekkum.

Gvendarhellir

Í Gvendarhelli (Arngrímshelli).

Þjóðsagan segir að Arngrímur á Læk í Krýsuvík hafi haldið 99 grákollóttar ær á auk einnar grákollóttrar, sem systir hans átti, nefnd Grákolla. Þetta var um aldamótin 1700. Óveður geisaði og hraktist féð fram af Krýsuvíkurbjargi, allt nema Grákolla. Er talið að allt fé Krýsuvíkurbænda sé frá henni komið. Arngrímur lést síðan skömmu eftir aldamótin (1724) er hann var við sölvatekju undir bjarginu með öðrum. Silla féll úr bjarginu og varð hann og tveir aðrir undir henni. Mörðust þeir til bana. Einn maður bjargaðist og varð til frásagnar um atburðinn.
Um 130 árum síðar er getið um að nefndur Gvendur Bjarnason nokkur frá Krýsuvík hafi haft fé í hellinum. Hlóð hann þvervegg sem og stíur. Byggði hann og hús fyrir opið. Helst þótti til tíðinda að gler var í gluggum þess. Tóftir þess sjást enn, auk annarra nefndra minja í hellinum. Líta verður á minjar þessar sem fornleifar og varðar röskun refsingu.

Keflavík

Keflavík – rekagatan.

Þegar FERLIR gaumgæfði hellinn vel og vandlega kom í ljós ýmislegt er nefndur Gvendur virðist hafa skilið eftir sig, s.s. hangiketsleifar og brennivínstár, sem honum hafði ekki unnist tími til að ýta að gestum. Ketið virtist vel ætilegt eftir allan þennan tíma og ekki var loku fyrir það skotið að brennivínið væri jafnvel betra, en hefði það nýsoðið verið.

Þegar staðið var utan við tóftina lagði sólin geisla sína á hana svo hún yrði vel myndtæk.
Hraunið ofan við bergið er í umdæmi Grindavíkur, en skammt vestar er spilda umdæmisins, sem skv. afsalsbréfi tilheyrir Hafnarfirði. Hún sker í sundur Grindarvíkurlandið, sem nær austast að mörkum Herdísarvíkur/Selvogs/Árnessýslu (úr Seljabót í Sýslustein).
Þann 29. september 1941 afsalaði landbúnaðarráðuneytið f.h. ríkissjóðs til sýslunefndar Gullbringusýslu f.h. sýslusjóðs öllu tiltæku ræktanlegu beitilandi jarðanna Krýsuvíkur og Stóra-Nýjabæjar (Krýsuvíkurtorfunnar) í Grindavíkurhreppi í Gullbringusýslu, til sumarbeitar fyrir búfé.

Sveitarfélagsmörk

Sveitafélagsmörk.

Var þá undanskilið úr jörðunum það land, sem með afsalsbréfi ráðuneytisins dags. 20. febrúar 1941 var afsalað til Hafnarfjarðarkaupstaðar.
Krýsuvíkurland þetta er, skv. skilgreiningunni, “að vestan, beina stefnu í norður úr Hælsvík í Borgarhól, þar sem hann er hæstur, úr Borgarhóli eftri Sveifluhálsi vestustu vík Kleifarvatns, að bera í ysta odda Hvammholtstanga. Að norðan ræður Kleifarvatn, í syðsta odda víkur þeirrar, er gengur úr vatninu vestan við Geithöfða og að austan þaðan beina stefnu í réttvísandi suður til sjávar í Keflavík. Að sunnan ræður sjór..”.

Skyggnisþúfa

Skyggnisþúfa.

Af afsali þessu sést glöggt, að Gullbringusýsla öðlast beitarrétt með afsalinu, en grunnréttur til landsins er áfram í hendi ríkisins. Landspilda Krýsuvíkur er í landi Grindavíkurumdæmis, sbr. land bæði vestan og austan hennar. Alþingismaðurinn, er beitti sér fyrir málinu f.h. Hafnarfjarðar á Alþingi sem fulltrúi ríkisstjórnarinnar, var jafnframt bæjarfulltrúi í Hafnarfirði og síðar ráðherra. Slíkt myndi ekki samrýmast góðum stjórnsýsluháttum nútímans. Í ljósi þess, sem og eðlilegum sanngirnissjónarmiðum, ættu Hafnfirðingar þegar í stað, virðingu sinnar og sóma vegna, að afhenda Grindvíkingum landsumdæmi sitt á nýjan leik. Ekki síst í ljósi þess að veruleg villa er í framangreindri landamerkjalýsingu.
Deilur voru einnig um mörk Krýsuvíkurlands á 17. öld. Í byrjun aldarinnar virðist hafa koma upp vafi um mörkin. Fyrst austurmörk og svo vesturmörk. Um þetta málefni fjallar Magnús Már Lárusson um í ritgerð 1961. Þar segir m.a. að til séu 6 frumbréf Skálholtsstóls um austur landamerki Krýsuvíkur frá árunum 1603 og 1604 og Telur MML að varðveisla þeirra til þessa dags með stólsskjölum gefi til kynna, að bréf þessu geymi þau merki, sem talin hafi verið rétt.

Keflavík

Geldingasteinn ofan Keflavíkur.

Upp úr 1650 verður deila um rekarétt milli Krýsuvíkur og Ísólfsskála og eru allmargir vitnisburðir vegna merkja Krýsuvíkur að vestanverðu skjalfestir í bréfabók Þórðar biskups Þorlákssonar. Einn vitnisburðurinn segir Krísuvík eiga allt land austur á eystri hraunbrún á hrauni því, sem liggur fyrir austan Eilífðarhorn (á við Geitahlíð). Eitt segir að Krýsuvík eigi austur frá sér land allt að Skildi og þaðan sjónhending suður í sjó. Enn fremur segir, að Krísuvík eigi allt land austur yfir Háahraun, er liggur fyrir austan Geitahlíð. Annað segir að Krýsuvík eigi allt land að þeim steini, er stendur á Fjalli hjá Skildi.

Lyngskjöldur

Lyngskjöldur – loftmynd.

(Lyngskjöldur). Þrír vitnisburðir til viðbótar segja að Krýsuvík eigi allt land að steininum hjá Skildi. Þessar merkjalýsingar voru sá grundvöllur, sem stóllinn gat byggt á, ef merki Krýsuvíkur yrðu véfengd.
Árið 1786 keypti Jón Ingimundarson jörðina og leitaði hann vitnisburðar um merki hennar og meðal kirkjuskjala er frumrit vitnisburða þriggja manna um landamerki Krýsuvíkur. Þá bendir MML að lokum á að eftirtektarvert sé, að í sóknarlýsingu Jóns Vestmanns fyrir Krýsuvíkursókn sé þessi lýsing: “Vestari partur Brennisteinsfjalla allt vestur í Kleifar, norðan við Kleifarvatn, þaðan til sjávar á Selatöngum. Samkvæmt þessari lýsingu telst allstór þríhyrna ekki til Krýsuvíkursóknar.

Gvendarhellir

Gvendarhellir – Hús Krýsuvíkur-Gvendar framan við hellismunnann.

Þjóðsagan segir hins vegar að hin gömlu landamörk Krýsuvíkur og Herdísarvíkur liggja á milli dysja þeirra Krýsu og Herdísar, sem enduðu ævina með deilum um þau neðst í Kerlingardal austan við Deildarháls. Sagan segir að „Krýsuvík er austastur bær í Gullbringusýslu með sjávarsíðunni, en Herdísarvík er vestastur bær í Árnessýslu; hvort tveggja er landnámsjörð og svo að ráða sem sín konan hafi gefið hvorri nafn er þar bjuggu lengi, og hét sú Krýs er byggði Krýsuvík, en Herdís sú er setti bú í Herdísarvík.
Var nábúakritur megn á milli þeirra; því hvor öfundaði aðra af landgæðum þeim er hin þóttist ekki hafa, Krýs Herdísi af beitilandinu, en Herdís Krýs aftur af enginu. Svo hafði lengi gengið að hvor veitti annari þungar búsifjar; rak Krýs sauðfénað sinn í land Herdísar, en Herdís vildi aftur ná í engið, og beittust svo þessu á víxl með því landamerki virðast annaðhvort hafa verið óglögg eða engin í það mund.

Krýsa og Herdís

Dysjar Krýsu og Herdísar. Dys smalans er neðst á myndinni.

Þegar þær konur hittu hvora aðra fyrir þar á götunni sem hún liggur yfir hina nyrztu Eldborgina, þá kemur Herdís í flasið á henni að sunnan. Þegar þær hittust varð fátt af kveðjum, en því fleira af illyrðum á milli þeirra er hvor um sig þóttist eiga land það er þær stóðu á. Ekki er þess að vísu getið hvernig hvorri um sig hafi farizt orð, en svo lauk að hvor hézt við aðra vegna landadeildarinnar. Lagði þá Krýs það á Herdísi að allur ætur silungur skyldi hverfa úr veiðitjörn hennar, en verða aftur full af loðsilungi, sumir segja öfugugga. En Herdís lagði það aftur á Krýs að allur silungur í veiðivötnum hennar skyldi verða að hornsílum.

Bálkahellir

Í Bálkahelli.

Enn lagði Krýs það á Herdísarvík að þaðan skyldi týnast tvær eða þrjár skipshafnir. Herdís mælti aftur það um fyrir Krýsuvík að starengið þar skyldi smásökkva á hverjum 20 árum, en koma upp á jafnlöngum tíma.

Eftir þessi ummæli sprungu þær báðar þar sem þær stóðu og eru þær dysjaðar báðar til vinstri handar við götuna þegar riðið er út í Krýsuvík norðan til á Eldborginni nyrztu, og sér dysirnar þar enn; dys Krýsar er það sem nær er Krýsuvík, en Herdísar hitt sem fjær er. Dys þeirra grannkonanna eru enn kölluð Krýs og Herdís og þar með eru þau kölluð sýsluskil Gullbringusýslu og Árnessýslu, svo eru þau og talin landamerki milli Krýsuvíkur og Herdísarvíkur.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir m.a.:
-http://bokasafn.rnb.is/default.asp?cat_id=200
-Magnús Már Lárusson – ritgerð 1961.

Fjárskjólshraunshellir

Í Fjárskjólshraunshelli.

Gapi

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1930 er hluti „Úr lýsingu Strandarkirkju- og Krýsuvíkursókna eftir séra Jón Vestmann, 1840“ undir fyrirsögninni „Skýrslur um hella, teknar úr sóknalýsingum presta, frá þvi um 1840“. Þar fjallar Jón um fjárhellana ofan Selvogs, í Selvogsheiði (Strandarhæð), Sængurkonuhelli í Herdísarvíkurhrauni og fjárskjólin í Krýsuvíkurhrauni austan Krýsuvíkur:

Sængurkonuhellir

Sængurkonuhellir í Herdísarvíkurhrauni.

„Herdísarvíkurhraun kemur úr Brennisteinsfjöllunum , engir eru þar hellirar eður stórgjár; — þó er þar 1 hellir, kallaður Sængurkonuhellir, því kvenpersóna hafði einhvern tíma alið þar barn; þessi hellir er annars ekki stór.

Strandarhellir

Strandarhellir.

Í Selvogsheiði eru 3 hellrar: a. Strandarhellir, rúmar 200 fjár. b. Bjargarhellir, álíka stór. c. Gapi, tekur um 60 kindur. d. Vestan undir Krýsuvíkurhrauni er stór hellir, og bezta hagaland í kring, í og með hrauninu, samt víðar út um heiðina, svo alltíð má beita fé undir vind, af hverri átt, sem hann er. Hellir þessi er langt frá bæjum; er því erfitt að nota hann í vetrarharðindum. Fyrir hér um bil 100 árum, eður má ske nokkuð meir, var bóndi í Krýsuvík, að nafni Arngrímur, mig minnir: Jónsson. Hann tíundaði jafnan 50 hndr. Hann hafði fé sitt við hellir þennan. Hann skyldi hafa átt 99 ær grákollóttar. Systir hans átti eina á, eins lita, og hætti hann ei fyr að fala hana af systur sinni en hún yfirlét honum ána, sárnauðug. Sama veturinn, seint, gjörði áhlaupsbil, sem stóð 6 dægur. Hrakti þá allt hans fé fram af Krýsuvíkurbergi, hér og þar til dauðs og algjörlegs taps, því sjórinn tók við fyrir neðan bergið, en vindurinn rak til hafs. —

Gvendarhellir

Gvendarhellir – Hús Krýsuvíkur-Gvendar framan við hellismunnann.

Í hengisfönninni framaní bergbrúninni stóð Grákolla alein, er hann fékk hjá systur sinni, þegar hann eftir bylinn fór að leita að fénu. Tekur hann ána þá og reynir í þrígang að kasta henni framaf berginu, en gat aldrei kastað henni svo langt, að hún færi niðurfyrir, en jafnótt og hún losnaði í hvert sinni við hendur hans, brölti hún upp að hnjám honum. Loksins gaf hann frá sér, og skal hafa sagt löngu seinna, að útaf á þessari hefði hann eignazt 100 fjár. — Þetta hefi ég að sögusögn og gef það ei út sem áreiðanlegan sannleik. —

Gvendarhellir

Í Arngrímshelli (Gvendarhelli).

Ævilok Arngríms urðu þau, að steinn datt á hann úr Krýsuvíkurbergi og murði hann í sundur, og 2 manneskjur aðrar. Þetta er víst.
Árið 1827 kom gamall bóndi til Krýsuvíkursóknar, Guðmundur Bjarnason, byggði nýbýlið Læk, aldeilis að stofni, átti margt fé, hélt því við áðurnefndan hellir, en þar honum þótti langt að hirða það þar, byggði hann þar annan bæ, dásnotran sem hinn, með glergluggum, sængurhúsi, af- og al-þiljuðu, með 2 rúmum; í hinum karminum geymsluhús. Byggði hann hús þetta framan við hellirsdyrnar og rak féð gegnum göngin útúr og inní hellirinn. Hlóð af honum með þvervegg. Bjó til lambastíu með öðrum; gaf þeim þar, þá henta þótti; bjó til jötur úr tilfengnum hellum allt í kring í stærri parti hellirsins; gaf þar fullorðna fénu í innistöðum (sem verið mun hafa allt að 200m eftir ágetskun manna). Flutti þangað talsvert hey og smiðju sína, og mun hafa starfað þetta að mestu, ef ei öllu leyti, aleinn, á einu ári. Þarna var hann 10 vetur samfellt yfir kindum sínum, aleinn, en á sumrum heima. Loks gafst hann upp, yfir sjötugt, og sagðist hafa verið smali síðan hann hafði 6 ár á baki.“

Fjárskjólshraun

Fjárskjólið í Fjárskjólshrauni.

Einhverra hluta vegna gat Jón Vestmann ekki um fjárskjólið góða skammt suðaustan við nefndan helli Arngríms og Guðmundar í Fjárskjólshrauni. Ekki er útilokað, vegna þess hversu stutt er á milli fjárskjólanna, að það austara hafi verið athvarf Arngríms, enda mun nær Krýsuvíkurbergi og aðgengilegra að því þaðan og aðgengi að berginu auðveldara. Inni í fjárskjólinu ú Fjárskjólshrauni er hlaðið athvarf fyrir smala, sem nú hefur að nokkru fallið saman.

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags 01.01.1930, Skýrslur um hella, teknar úr sóknalýsingum presta, frá þvi um 1840 – Úr lýsingu Strandarkirkju- og Krýsuvíkursókna eftir séra Jón Vestmann 1840, bls. 76.

Fjárskjólshraun

Í Fjárskjólshraunsskjóli í Fjárskjólshrauni.