Tag Archive for: Fjóla Eiðsdóttir

Fjóla Eiðsdóttir

Í Fjarðarfréttum árið 1969 birtist fróðlegt viðtal við Fjólu Eiðsdóttur undir fyrirsögninni „Af sjónarhóli húsmóður – Að standa einn í stríði lífs er sterkra manna dyggð„. Viðtalið er ekki einungis athyglisvert vegna dugnaðar og elju einstæðrar móður við uppeldi sex barna, sem henni tókst að halda að sér þrátt fyrir mótlæti þar sem lítils stuðnings samfélagsins var að vænta, heldur og vegna þess að í því koma fram gildin um veru barnanna bæði í Vinnuskólanum í Krýsuvík og á Barnaheimilinu Glaumbæ í Hraunum á þeim tíma. Um báða staðina er fjallað ítarlega hér á vefsíðunni.

Fjarðarfréttir

Fjarðarfréttir 1969.

„Fjarðarfréttir rabba að þessu sinni við Fjólu Eiðsdóttur, Hún fluttist til Hafnarfjarðar fyrir átta árum. Hún var þá þegar fyrirvinna sex barna á aldrinum eins til sjö ára. Í þessi átta ár hefur hún barizt ein áfram af slíkum dugnaði og myndarskap, að aðdáun hefur vakið hjá öllum, sem til þekkja.
Hvenær fluttist þú til Hafnarfjarðar?
— Það eru nákvæmlega átta ár síðan, á Jónsmessunni 24. júní, ég man það svo vel. Þá fluttist ég hingað með börnin, sem voru þá á aldrinum 1 til 7 ára.
Mestu erfiðleikarnir voru, að maður hafði ekkert húspláss. Ekkert. Ég kalla það ekki húspláss, eitt herbergi og eldhús fyrir sjö manna fjölskyldu. Það var svo erfitt, að það var ekki hægt að búa við það, þó að við værum tilneydd. Þegar ég svo fékk það húsnæði, sem ég er nú í, fyrir tveimur árum, fannst mér öllum erfiðleikum vera lokið.
Áttir þú ekki við veikindi að stríða fyrstu árin þín hér?
Fjóla Eiðsdóttir— Jú, það voru afleiðingar taugaspennu, ég ætlaði að hafa réttinn mín megin, og ég tel veikindin ekki hafa verið mjög alvarleg, enda náði ég mér strax og ég hafði náð rétti mínum. Það gera sér ekki allir grein fyrir því, að það eru til lög, og ég þurfti að berjast harðri baráttu fyrir rétti mínum og barnanna. Ég var alveg gallhörð á því, að það væru til lög og ég skyldi fara eins langt eins og ég kæmist, og það hef ég gert og skammast mín ekkert fyrir það.
Það hefur oft á tíðum verið erfitt hjá þér og þröngt í búi?
— Já ég gat sjaldan hugsað lengra en að eiga til dagsins, hitt þýddi ekkert. Ég var alveg ánægð, ef ég átti einhvern bita til morgundagsins. Ég vissi alltaf að okkur myndi leggjast eitthvað til. Það voru miklu meiri erfiðleikar að eiga ofan í sig að borða, þegar ég var í Grindavík en eftir að ég flutti í Hafnarfjörð. Grindavík var þá annað verðlagssvæði hjá tryggingunum en Hafnarfjörður og það munaði töluvert miklu, hvað ég fékk meira til að lifa af, þegar ég kom hingað. Fjölskyldubætur fékk ég ekki fyrstu árin. Það eru aðeins rúm tvö ár síðan konur, sem eru einar með börnin sín fóru að fá fjölskyldubætur greiddar.
Fjóla Eiðsdóttir
Ég þurfti að liggja á sjúkrahúsi um skeið nokkru eftir að ég kom til Hafnarfjarðar. Það var að vísu erfitt að skiljast við börnin, en ég vissi, að ég varð að gera það til að jafna mig eftir taugaspennuna. Ég vissi líka, að það væru til lög og gott fólk, svo að það færi ekki illa um börnin þann tíma.
Eftir að þú komst í betra húsnæði og náðir fullri heilsu aftur, hefur þú þá unnið úti?
— Já ég vinn í Reykveri frá kl. 7.20 f.h. til 7 á kvöldin. Ég hef unnið þar síðan fyrirtækið var stofnað.
Er þá ekki geysileg vinna eftir, þegar komið er heim að lokinni vinnu?

Krýsuvík

Krýsuvík – Vinnuskólinn (HH).

— Jú, það er nú oft mikil vinna eftir. Ég verð að byrja á því að elda matinn og sameina fjölskylduna yfir einni heitri máltíð á dag. Ég verð alltaf að fara á fætur kl. 6.00 og taka til fötin, sem þau eiga að fara í, og segja þeim alveg hvað þau eiga að gera yfir daginn. Það bregst varla, að þau fari eftir því. Þegar þau voru í Glaumbæ og vinnuskólanum í Krýsuvík lærðu þau að brjóta saman fötin sín og ganga frá þeim. Mér finnst það hafa hjálpað okkur geysimikið allt, sem þau lærðu þar, auk þess, sem það var mikill hjálp að geta komið þeim þangað á sumrin. í hádeginu hef ég oft getað lagt mig, því að þau taka sjálf til hádegismatinn og elzti sonurinn, sem nú er kokkur á bát hefur stjórnað eldamennskunni.
Á kvöldin er föst regla, að hver gengur frá sínu. Þau brjóta fötin sín vel saman og laga til í herberginu. Það verður að vera föst regla og góð samvinna á heimilinu. Það eru margir, sem hneykslast á því, að ég skuli vinna úti og halda, að þetta sé ekki hægt. Já, það hneykslast margir. Fólk heldur, að maður vanræki börnin mikið með þessu, en ég vil meina, að þetta sé bæði skóli fyrir mig og krakkana líka. Þau læra mikið af þessu. Fyrst ætluðu þau að fara að klaga öll í einu, eitthvað sem hafði skeð yfir daginn, en nú kemur það aldrei fyrir, að það sé neitt. Ég þarf aldrei að skipta mér af heimanáminu hjá þeim. Þau eru samvizkusöm, sem betur fer og ég held, að ég fengi þau ekki í skólann, ef þau væru ekki búin að læra.
Hvað ræða börnin um framtíðina?

Glaumbær

Glaumbær í Hraunum.

— Þau náttúrulega ræða um framtíðina. Þessi ætlar að verða þetta og hinn hitt, en maður veit aldrei hvað verður. Ég ætlaði t. d. að verða kennari, en það fór allt á annan veg. Föðurbróðir minn kenndi mér í barnaskóla, og ég og dóttir hans vorum alltaf að keppa. Hún hafði það af að verða kennari, en ekki ég. Ég sagði oft, að það gæti verið, að ég kæmist í skóla, þegar ég væri orðin gömul og hef alltaf huggað mig við það, en krakkarnir verða nú að sitja fyrir, svo að ég kemst sjálfsagt aldrei í skóla,
Nú hefur þú barizt áfram ein með þín sex börn í átta ár. Hvaða hugsun er það, sem grípur þig, þegar þú lítur til baka?
— Ég hugsa bara ekkert um það. Ekki neitt. Það er nokkuð, sem ég forðast alveg að fara að hugsa um. Þá getur maður farið að hugsa margt. Ég hugsa fyrir morgundeginum. Ég set mér mark að keppa að, og þegar ég er búin að ná því, set ég mér annað mark, og svo koll af kolli. Ég hef lögin með mér, og ég hef notfært mér það, en um það, sem liðið er, hugsa ég ekki.“

Heimild:
-Fjarðarfréttir, 3. tbl. 02.06.1969, Af sjónarhóli húsmóður – „Að standa einn í stríði lífs er sterkra manna dyggð“, bls. 9.

Fjóla Eiðsdóttir

Fjóla Eiðsdóttir og börn 1960.