Tag Archive for: Fjósakot

Ólafur Erlendsson

Gengið var frá Auðnum um Þórustaði og kotin í kringum Kálfatjörn skoðuð.

KálfatjörnTil hliðsjónar á göngunni var höfð bók Jóns Thorarensens frá Kotvogi, Litla skinnið. Í henni er ljóslifandi frásögn og lýsing Kristleifs Þorsteinssonar árið 1938 frá verinu, sjávarútvegi á Vatnsleysuströnd um 1880 og mannlífinu þar á þeim tíma. Hann lýsir auk þess bæjunum og fólkinu, sem þar bjó. Þá nafngreinir Kristleifur kotin, sem nú standa eftir sem tóftir einar. FERLIR gekk síðar um svæðið í fylgd Ólafs Erlendssonar frá Kálfatjörn þar sem hann lýsti staðsetningu þessara sömu kota. Af því tilefni var gerður uppdráttur af svæðinu eftir lýsingu Ólafs.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – uppdráttur ÓSÁ.

Kristleifur skrifaði um sjávarútveg og vermenn við sunnanverðan Faxaflóa á síðari helmingi 19. aldar í Héraðssögu Borgarfjarðar. Þar minnist hann á eitt og annað, sem viðkom sjómennsku og sjósókn í gömlum stíl. Í frásögn sinni í Litla skinninu bætir hann um betur og byggir hann hana að mestu á eigin sjón og raun. Hann reri sex vetrarvertíðir frá Auðnum um og eftir 1880. Um heimilislífið að Auðnum ritaði Kristleifur m.a. sagnaþátt, sem enn er til. Hann ritaði einnig um ferð sína í verið 1881, þar sem að sumu leyti varð fyrsti þáttur hans í vermennskunni, þar sem lýst er hvernig aðstaða manna var við að komast til sjávar í vetrarharðindum.
Kristleifur var í vist hjá Guðmundi bónda Guðmundssyni. Sá var þá fertugur, með skeggkraga um kjálka. Mætti það vel enn vera einkennismerki Vatnsleysustrandarbúa, enda yrði eftir því tekið. Kona hans hét Anna Pálsdóttir, þrekvaxin með glóbjart hár. Þannig eru líka alvöru Vatnsleysustrandarkonur enn þann dag í dag. Sagt var að þau hjónin hafi ekki borið hag annarra mikið fyrir brjósti, enda urðu menn að duga eða drepast, eða það sögu a.m.k. þeir er betur máttu sín á þeim tíma – og gera kannski ennþá.
Auðnar
Íbúðarhúsið að Auðnum var úr timbri. Keypti Guðmundur allt timbrið í húsið á uppboði, sem haldið var í Höfnum eftir að skip eitt (Jamestown) rak þar og fór í strand, hlaðið Ameríkutimbri. Ólafur Ketilsson, fræðimaður, ritaði um það fræga strand. Tekið var til þess hver ósköp af úrvals timbri kom með skipi þessu, og nutu margir bændur við sjávarsíðuna þar góðs af.

Sagt var að Auðnahús hafi allt verið klætt að utan með breiðum og löngum plönkum, sem voru þrír þumlungar á þykkt, en kostuðu aðeins eina krónu hver planki, að meðaltali. Ekki var hús þetta járnvarið, enda var timbrið svo hart, að vatn gekk naumast í það.

Norðurkot

Norðurkot – brunnur.

Gamlir íhaldssamir bændur, sem bjuggu þá í lágreistum torfbæjum, kölluðu hús þetta stórskrínu og byggðu það nafn á lögun þess og fór það ekki fjarri sanni. Stórskrínur voru þá alþekktar við sjóinn, voru langir og mjóir kassar, nokkuð hærri á aðra hlið. Báru menn eitt og annað sjófang í skrínum þessum.
Stígur lá frá íbúðarhúsinu til sjávar, sjávargata. Við þann stíg stóð hið óæðra sjómannaskýli, sjálf verbúðin. Í henni voru 20 sjómenn. Verbúð þessi var öll af torfi, löng og mjó, lágreist og hrörleg, en ekki mjög köld. Rúmfleti voru meðfram báðum miðveggjum og tveir menn í hvoru rúmi, og lágu þeir andfætis, voru það vanalegast hlutalagsmenn.
Þanghlaði mikill tyrftur og hlaðinn upp sem hey, stóð þar ekki langt frá verbúðinni. Var það mest notað til eldsneytis, en sjómenn máttu leysa sér nokkra visk úr þessum þanghlöðum og bera í fleti sín og breiða það á rúmbálkinn, og skyldi koma í stað undirsængur.

Kálfatjörn

Steinbrú á kirkjustígnum að Kálfatjörn.

Skinnklæði, fatnaður og verskrína var nefnt færur, einu nafni. Færurnar þurftu í síðasta lagi að vera komnar jafnsnemma sjómönnum á heimili útvegsbónda, þess er hjá var róið, annars stóðu menn uppi ráðalausir.
Sjóklæðin þurftu að vera þar sem hægt var að ganga að þeim, hvenær sem til þeirra átti að taka, eins þótt dimmt væri. Allir sem gerðu sig út sjálfir, átu samkvæmt fornum og föstum reglum að sjá sér farborða bæði á sjó og landi, með fæði og klæði, að öðru leyti en því, að útvegsbóndinn lagði vermönnum til kaffi og vökvun. Þá urði vermenn að leggja til eitt net. Netasteinar voru tíndir úr fjörugrjóti og aðeins höggvin laut um miðjan steininn, svo hann tylldi betur í steinalykkjunum.

KálfatjarnarhverfiNorðan við lendingarstaðinn voru “bólverk” til fiskverkunar. Var þar hlaðinn garður úr stórgrýti til varnar sjávargangi. Að þeim garði unnu sjómenn í landlegum, endurgjaldslaust. Á hann voru bornir þorskhausar, rifnir upp og raðað á grúfu. Þar voru þeir í nokkra daga til að harðna. Þegar búið var að höggva hausana upp, var þeim hlaðið í garða.
Þegar róðrar hófust og alla vertíðina, var risið árla úr rekkju, ekki seinna en klukka að ganga fjögur. Settu formenn upp sjóhatta sína, buðu góðan daginn, en höfðu ekki fleiri orð um það. Hatturinn gaf til kynna, hvað fyrir lá. Ekki voru menn hlutgengir, sem ekki gátu farið í brókina standandi og án stuðnings, en flestir munu þó hafa stuðst við hús, skip eða garð er þeir bundu á sig sjóskóna. Þegar formaður sá alla sína háseta standa skinnklædda umhverfis skipið, hvern við sitt rúm, signdi hann yfir skutinn og mælti: “Setjum nú fram, í Jesú nafni.” Hlunnar voru settir niður og skipinu ýtt fram.

Kálfatjörn

Goðhóll.

Allan fisk, sem á skip kom, urðu hásetar að bera upp fyrir flæðamál áður en skiptvar. Þegar skiptu var lokið var tekið kappsamlega til við aðgerð og skipt verkum. Þegar aðgerð var lokið var hvaðeina á sínum stað, hausarnir á grjótgarðinum, fiskurinn saltaður í stafla, lifrin í köggum, gotan í tunnum og slorið, sem síðast var borið í sína ljótu for. Sundmaginn var skafinn vel og vandlega og hann breiddur á grjótgarða og látinn þorna þar, en síðan dreginn upp á snæri í langar seilar.
Ekki var róið á helgidögum og kirkja jafnan sótt að Kálfatjörn, svo vel að fólk þyrptist þangað flesta messudaga, þegar veður leyfðu.

KálfatjörnFöst venja var að sjómenn gæfu þjónustufisk á sumardaginn fyrsta. Sumar konur höfðu allt að 16 karlmenn í þjónustu um vertíðina og höfðu þær ærinn starfa þessutan, því alla daga unnu þær, auk inniverka, að fiskaðgerð og á þeim lenti venjulega að bera slor og hausa á sinn stað.
Landbúnaður að Auðnum bjó mjög á hakanum, a.m.k. um vertíðina. Hugurinn var alveg óskiptur við þau efni. Hross og sauðfé varð að eiga sig að mestu. Tíðarfarið réð alveg úrslitum um það. Hrundi fé því niður í harðindum, en það var sama sagan hjá öllum er ætluðu skepnum útigang.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – sjóbúð.

Hverfin voru Auðanhverfi og Kálfatjarnarhverfi. Heimilsfeðurnir voru 23 og sýnir vel hversu fólkið var nægjusamt og gerði litlar kröfur til lífsins, því að af landsnyt var þafna ekki mikið að hafa.
Breiðagerði var tvíbýlt. Höfði átti enga fleytu og reri fyrir sínum hlut á skipu Auðnamanna. Höfði átti sexmannafar og var formaðurinn sjóslarkari og gapi að sigla, að með fádæmum þótti. Landakot var miðstöð andlegrar menningar. Bergskot, öðru nafni Borghús, var búið af Þorkeli Jónssyni frá Flekkuvíkm dugnaðarmanni. Hellukot var þurrabúð. Væmdi flesta við koti þessu, mest fyrir hrossaketið, sem flestir hötuðu og liðu fremur sáran sult heldur en að leggja sér til munns. Gata hét þurrabúð milli Þórustaða og Landakots.

KálfatjörnÁður en fór að fiskast á vertíðinni lifði fólkið þar eingöngu á þurrum rúgkökum, vatnsgraut og svörtu kaffi. Áttu það ekki sjö dagana sæla. Þórustaðir var næst miðja vegu milli Auðna og Kálfatjarnar. Þar var þá tvíbýli. Heimslánið sýndist brosa hjá fólkinu, en fljótt skýjaði hjá því, börnin dóu. Norðurkot var þurrabúð, norðanmegin við Þórustaði. Bóndinn var meðhjálpari í Kálfatjarnarkirkju. Tíðargerði var þurrabúð rétt hjá Norðurkoti. Goðhóll var þar við sjóinn niður frá Tíðargerði.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – túnakort 1919.

Harðangur var þurrabúð rétt hjá Tíðargerði. Hlið var þurrabúð rétt utan við Kálfatjarnartúnið. Þar var með konu sinni Halldór Egilsson. Kálfatjörn, kirkjustaðurinn og prestsetrið, bar þá mjög af byggðinni í kring, sem ekkert var annað en torfbæir og þeir flestir hrörlegir og lágreistir, að þeir líktust meir hesthúskofum, eins og þeir voru þá í sveitum, heldur en bæjum. Á Kálfatjörn var þá timburkirkja og íveruhús úr timbri. Hátún, Fjósakot, Naustakot og Móakot eru talin í jarðamati 1850 hjáleigur frá Kálfatjörn. Bakki stóð við sjóinn, lítið innar en Kálfatjörn. Litlibær var þurrabúð litlu sunnar en Bakki. Bjarg var þurrabúð skammt frá Litlabæ. Þá eru enn ótalin tvö þurrabúðarkot rétt hjá Auðnum: Hóll og Ólafsbúð, sem var sunnanmegin við Auðna. Gárungar kölluðu Hól stundum Trafhóla vegna þess að þar blöktu stundum hvít línklæði á snúrum, en í þá daga var slíkt fátítt hjá þurrabúðarfólki og jafnvel stórbændum var slíkt í smáum stíl.

Kálfatjörn

Kálfatjörn um 1960.

Hlandforðir voru við bæi og hús. Voru þær hlaðnar að innan úr grjóti og náðu barmar þeirra lítið sem ekkert hærra en yfirborð jarðar umhverfis þær. Voru slíkar forir á sumum stöðum háskalegar bæði mönnum og skepnum.
Þegar dagur lengdist, veður hlýnuðu og vorið gekk í garð, hýrnaði yfir sjómönnunum, verbúðirnar urðu hlýrri og hrakreisur á sjónum færri. Lokadagurinn 11. maí var sá stóri dagur, sem bæði var blandinn von og söknuði. Erfitt var að skilja við félagana, sem tengst höfðu tryggðarböndum við erfiðar aðstæður og lifað þær af, auk þess sem hausana af hlutnum ásamt trosfiski urðu sjómennirnir að taka með sér með einhverju lagi.

Kálfatjörn

Sjóhús við Kálfatjarnarvör.

Frábær lýsing og fróðlegt að bera hana við þær aðstæður, sem fyrir eru við Auðna og Kálfatjörn. Tóftir þurrabúðanna, kotanna og bæjanna eru enn sýnilegar, sjávargötur má enn merkja og minjar við varirnar og lendingarnar eru enn á sínum stað. Spurningin er bara sú hvort nútímafólkið kunni enn að lesa það land, sem lýst var þarna fyrir einungis 125 árum síðan.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimild m.a.:
-Litla skinnið – Jón Thorarensen frá Kotvogi – 1982 – Í verinu, lýsing Kristleifs Þorsteinssonar 1938 á sjávarútvegi á Vatnsleysuströnd um 1880.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – uppdráttur ÓSÁ.

Kálfatjörn

Á Kálfatjörn, þar sem íbúðarhúsið stóð er tvískipt skilti. Á öðru þeirra er fjallað um túnakort og minjar og á hinu um Kálfatjörn. Á með má lesa eftirfarandi texta:

Kirkjur á Kálfatjörn

Kálfatjörn 1920

Kálfatjörn 1920.

Í máldaga (skrá um eignir kirkju) Páls Jónssonar Skálholtsbiskups frá því um 1200 er getið um kirkju á Bakka. En vegna landbrots af sjávargangi hafi hún verið flutt að Kálfatjörn þar sem til eru heimildir um kirkju frá 1450. Fram til 1824 var torfkirkja á Kálfatjörn. Var þá reist ný kirkja með tofveggjum, en timburþaki. Sú kirkja sdtóð í 20 ár. Aftur var byggð timburkirkja sem stóð önnur 20 ár. Árið 1864 var byggð kirkja sem stóð uns smíði núverandi kirkkju hófst á vormánuðum 1892. Kirkjan var vígð þann 11. júni 1893. Kálfatjörn var prestsetur allt til ásrins 1919.

Núverandi kirkja
Kálfatjarnarkirkja
Bygging núverandi kirkju gekk afar vel. Allt efni til kirkjunnar var flutt hingað á dekkskipi og skipað upp á árabátum. verkið tók um það 14 mánuði. Kirkjan er byggð úr timbri á hlöðnum grunni. Kirkjusmiður var Guðmundur Jakobsson, byggingameistari, sem nait aðstoðar Sigurjóns Jónssonar trésmiðs. Steinsmiðurinn frá Holti á Vatnsleysuströnd, Magnús Árnason, hlóð grunninn. Pílára á svalarbrúnum og í altarisgrindum ásamt ýmsum útskurði annaðist Þorkell Jónsson, bóndi í Móakoti á Vatnsleysuströnd. þegar allri trésmíði var lokið kom danski málarinn Nicolaj Sofus Bertelssen og málaði kirkjuna að innan og hefur því verki verið vel við haldið alla tíð. Hann málaði einni innviði Dímkirkunnar í Reykjavík.

Kálfatjörn

Kálfatjörn um 1960.

Árið 1935 var kirkjuturninn endurbyggður vegna vatnsskemda. Nokkuð var deilt um breytinguna sem gerð var á turninum og breytti um leið öllu útliti kirkjunnar eins og sjá má á myndum. Meirihluti sóknarbarna vildi fá samskonar turn og var í upphafi, en fjármálasjónarmiðin réðu og fékk kirkjan þann turn sem hún nú ber. Söngloft er vestantil í kirkjunni og út með hliðunum eru svalir. Hin síðari ár hefur kirkjan talsvert verið endurbætt að innan og utan. Kirkjan rúmar um 15o manns.

Kirkjugarður

Kálfatjörn

Kálfatjarnarkirkja og kirkjugarðurinn. Bakki og Litlibær fjær.

Kirkjugarðurinn er hlaðinn úr grjóti og sniddu sem hefur þjónað því tíþætta hlutverki í gegnum tíðina að verja kirkjugarðinn ágangi búfjár, og sem aðhald og brún þeirrar moldarfyllingar, sem gera þurfti sökum þess hversu jarðvegurjnn er grunnur.

Kirkjumunir
Kálfatjarnarkirkja
Altaristöfluna gerði Sigurður Guðmundsson málari og er hún eftirmynd altaristöflunnar í Dómkirkjunni í Reykjavík. Rétt innan kirkjugarðshliðsins er steinn með bolla í sem talinn er vera frá kaþólskri tíð. Þar hafa kirkjugestir ef til vill signt sig áður en þeir gengu til kirkju. Pípuorgel var keypt í kirkjuna 1985. Skírnarfont, hökla, altarisklæði, sálmanúmeratöflur ásamt spjöldum, andvirði nýrra kirkjubekkja og ótal margt fleira hefur kirkjunni verið gefið í gegnum tíðina.

Prestar á Kálfatjörn
Nokkuð er vitað um þá presta sem sátu staðinn og þjóðnuðu frá 15. öld. Nafnkunnastur þeirra presta er þjónuðu á Kálfatjörn er séra Stefán Thorarnesen sálmaskáld og þýðandi. Aðrir prestar sem vitað er um eru:

Þorsteinn um 1450
Ásbjörn djákni Grímsson óvíst hvenær
Bjarni óvíst hvenær
ormur Egilsson 1580-1623
Ámundir Ormsson 1623-1670
Sigurður Eyjólfsson 1670-1689
Oddur Árnason 1689-1705
Jón Ólafsson 1705-1745
Sigurður Jónsson 1746-1786
Guðmundur Magnússon 1786-1808
Guðmudur Böðvarsson 1809-1826
Pétur Jónsson 1826-1851
Jakob Guðmundsson 1851-1857
Stefán Thorarensen 1857-1886
Árni Þorsteinsson 1886-1919
Árni Björnsson 1919-1930
Ólafur Stephensen 1931-1932
Garðar Þorsteinsson 1932-1966
Bragi Friðriksson 1966-1997
Gunnlaugur Garðarsson 1988-1991
Bjarni Þór Bjarnason 1991-1999
Hans markús Hafsteinsson 1997-2002
Friðrik J. Hjartar 1999-2002
Carlos Ari Ferrer 2002-2007
Bára Friðriksdóttir 2007-2012
Kjartan Jónsson 2012-

Mannvistarleifar
Kálfatjörn
Byggingar sem voru hversdagslegar fyrir hundrað árum eru nú orðnar minjar um horfna lífshætti. Skilningur hefur vaknað á nauðsyn þess aðs krá upplýsingar um slíkar minjar og vernda þær sem eftir eru fyrir komandi kynslóðir. Túnakortin frá 1919 eftir Vigfús Guðmundsson fræðimann sýna glögglega hvernig landnýtingu var háttað. Þar má sjá þyrpingu bæjarhúsa með kálgarða (kg) í kring. Einnig má sjá skiptingu túna og fjöruparta milli bæja, gönguslóða, brunna, lendingar í fjörum og fleira.

Hlið

Kálfatjörn

Ártal í steini á Kirkjubrúnni.

Hlið var tómthús frá Kálfatjörn, með kálgarð og lítinn túnblett. Þar lagðist búskapur niður 1923. Við Hlið lá Kirkjugatan svokallaða sem kirkjugestir fóru um á leið til messu. Þar var grjóti hrúgað þvert yfir Goðhólarásina sem kölluð var Kirkjubrú og átti að auðvelda kirkjugestum för yfir rásina sem gat orðið hinn mesti farartálmi í leysingum á vorin.

Goðhóll

Goðhóll
Goðhóll var tómthús frá Kálfatjörn, en hafði grasnyt. Goðhóll fór í eyði árið 1933. Þar mun síðast hafa verið búið í torfbaðstofu í Vatnsleysustrandarhreppi. Bæjarhúsin eru greinileg og vel uppistandandi.

Kálfatjörn
Kálfatjörn
Gegnt kirkjunni í vestur var prestsetrið. Eftir að það var aflagt árið 1919 bjuggu Erlendur Magnússon, oddviti og útvegsbóndi og Kristín Gunnarsdóttir með börn sín. Heimili þeirra var opið prestum og öllum kirkjugestum til ýmissa verka. Systkinin tóku síðan við búskapnum af forledrum sínum og bjuggu þar alla sína búskapartíð. Kjálfatjarnarhúsið brann í nóvember 1998.

Skjaldbreið

Skjaldbreið við Kálfatjörn.

Skjaldbreið, hlaðan norðvestan við bæinn, mun hafa verið reist um 1850. Í áranna rás hefur útlit hlöðunnar breyst. Í vonskuveðri árið 2007 fauk þakið af henni. Hlaðan var í notkun alla tíð fram til ársins 1999. Talið er að tréverkið, þ.e. bitarnir inni í hlöðunni séu úr Jamestown, mannlausu skipi sem strandaði í Höfnum árið 1881, fullt af viði. Nú hefur Minjafélag Vatnsleysustrandar látið gera hlöðuna upp, lík og sjá má á meðfylgjandi mynd.

Hátún

Kálfatjörn

Hátún.

Hátún sem var grasbýli frá kirkjujörðinni fór í eyði 1920 en föst búseta var tekin upp aftur um 1960. Í millitíðinni var þar sumarbústaður. Öll bæjarhúsin hafa verið jöfnuð við jörðu fyrir utan hleðslur kálgarða sem sjást enn. Um tíma bjuggu ungverskir flóttamenn í Hátúni.

Fjósakot

Fjósakot
Fjósakot var grasbýli frá Kálfatjörn og fór í eyði 1920. Bærinn stóð á stórum hóli í miðju túni og var talinn með hæstu bæjarstæðum allra bæja í Vatnsleysustrandarhreppi. Þar sér nú aðeins í grjóthrúgur en moldin úr rústunum var tekin til uppfyllingar í kirkjugarðinn á Kálfatjörn.

Móakot
Móakot
Móakot var grasbýli frá Kálfatjörn sem fór í eyði um 1940. Árið 1920 voru husakynnin í Móakoti orðin léleg. Þegar séra Árni Þorsteinsson andaðist árið 1919 var hús það er hann bjó í á Kálfatjörn rifið og Móakot byggt upp úr því efni. Sunnan við bæjartóftirnar er langur hár hóll, er nefnist Klapparhóll, oft kallaður Álfhóll því trúa lá á að þar byggi huldufólk.

Bjarg

Bjarg

Bjarg.

Bjarg var tómtús frá kálfatjörm með kálgarð og dálítinn túnblett. Bærinn fór í eyði árið 1934. Árið 1910 fluttu að Bjargi ung hjón, Ingimundur Guðmundsson, frá næsta bæ, bakka og Abigael Halldórsdóttir frá Hóli við Öndunarfjörð. Ingimundur var mikill hagleiksmaður sem lýst er í ljóðlínum Jóns Helgasonar frá Litlabæ:

Ef ár þurfti’ að smíða’ eða oka í hrip,
upp-hressa bæ eða gera við skip
– þó væru’ei laun nema’ þakka —
járnklæða þak eða járnskóa hest,
þá jafnan var viðkvæðið: „Það er vist best
að biðja hann Munda á Bakka“.

Bakki
Bakki
Aldamótin 1990 var Bakki sagður tómthús frá kirkjujörðinni. Ekki leið þó á löngu þar til ábúandinn, Bjargmundur Guðmundsson, bróðir Ingimundar, var búinn að rækta svo umhverfis Bakka að úr varð góð grasjörð. Eftir það var Bakki skráður grasbýli. Þeir bræður á Bakka og Bjargi voru samhentir og gerðu vel að jörðum sínum, þó kirkjujarðir væru. Þrívegis svo vitað sé hefur Bakki verið fluttur vegna ágangs sjávar. Fysri Bakki er kominn útí sjó, annar Bakki er í dag rústir á sjávarkambinum og núverandi Bakki sem fluttur var árið 1904 stendur vel uppí túni.

Litlibær

Kálfatjörn

Vanræktur hestasteinn við Kálfatjörn.

Litlibær var tómthús í upphafi en síðar grasbýli frá Kálfatjörn þegar leyfi fékkst frá prestinum á Kálfatjörn til að rækta tún norður og austur af bænum. Litlibær var byggður úr tofbæ í timburhús árið 1906. Það timburhús var flutt og endurbyggt við Hverfisgötu í Hafnarfirði. Grunnur Litlabæjarhússins stóð í 13 ár eða þar til Ingimundur á Bjargi byggði þar nýtt íbúðarhús 1934 og fluttist þangað frá Bjargi.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – skilti.