Tag Archive for: Flankastaðir

Flankastaðir

Á Flankastaðatorfunni voru um tíma bæirnir Endagerði (nyrst), nú Arnarhóll, Arnarbæli, gamla Klöpp, nýja Klöpp, Kólga, Tjarnarkot, Norður Flankastaðir, fyrrum Flankastaðakot, Efri-Flankastaðir og Neðri-Flankastaðir, einnig nefndir Syðri-Flankastaðir. Suðaustan við túngarðinn var Traðarkot um tíma uns Garðskagavegurinn var lagður yfir bæjarstæðið og skar sundur Sandgerðistjörnina.

Flankastaðir

Efri-Flankastaðir.

„Flankastaðir eru bæir rétt fyrir norðan Sandgerði. Flankastaðir eru allstór jörð á Suðurnesjamælikvarða og gætu verið landnámsjörð, þó svo að Landnáma tilgreini ekki landnámsmann þar. Bærinn er samt nefndur í Landnámu (þar Flangastaðir) og segir þar frá því er Leiðólfur í Skógum elti Una danska Garðarsson (Svavarssonar) eftir að Uni hafði fíflað Þórunni, dóttur Leiðólfs. Hann náði honum við Flankastaði og börðust þeir þar. Féllu nokkrir menn af Una, en hann fór nauðugur aftur með Leiðólfi. Barn þeirra Una og Þórunnar varð Hróar Tungugoði. Hann var mágur Gunnars á Hlíðarenda og faðir Hámundar halta, er var mikill vígamaður að sögn Landnámu.

Flankastaðir

Flankastaðavör.

Frá Flankastöðum hafa jafnan verið stundaðir útróðrar, eins og frá flestum öðrum jörðum er liggja að sjó. Flankastaðir eru næsti bær norðan Sandgerðis, en þaðan var líka mikið útræði. Útgerðin og góð fiskimið skammt undan í Miðnessjó hafa að líkindum verið aðalundirstaða lífsafkomu bænda á Flankastöðum. Þaðan var Magnús Þórarinsson, sem skrifaði bókina Frá Suðurnesjum og gaf út um miðja tuttugustu öld.

Flankastaðir

Neðri-Flankastaðir.

Á Flankastöðum voru lengi haldnir vikivakar um miðsvetrarleytið og var þar dansað og sungið á meðan nokkur gat staðið. Að líkindum hafa veislur þessar oft verið svallsamar og voru prestar þeim mjög andvígir. Að lokum lagði Árni Hallvarðsson, prestur á Hvalsnesi blátt bann við þeim. Nokkrum árum síðar fórst hann á leið að Kirkjuvogi í Höfnum til að syngja þar messu. Höfðu sóknarbörn hans á orði að þar hefndist honum fyrir að afleggja vikivakana á Flankastöðum.

Flankastaðir

Flankastaðir – kort 1943.

Svavar Sigmundsson, fyrrv. forstöðumaður Örnefnastofnunar svarar spurningu um Flankastaði á Vísindavef HÍ; „Hvaða ‘flanki’ er á Flankastöðum?“:
„Flankastaðir eru bær í Miðneshreppi í Gullbringusýslu. Þeir eru nefndir í skrá um rekaskipti á Rosmhvalanesi frá um 1270, skrifað „flankastader“, en í afritum bæði „flangastader“ og“flantastader“. Bæjarnafnið er einnig ritað „flankastader“ í skrá um hvalskipti á sama stað og frá sama tíma (Ísl. fornbréfasafn II:77 og 79).
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 er skrifað Flangastader (II:62). Þannig er nafnið ritað hjá sr. Magnúsi Grímssyni, sem skrifaði greinina Fornminjar um Reykjanessskaga (ÍB 72 fol.) sem prentuð var í Landnámi Ingólfs II:247 (Reykjavík 1936-40). Í sóknarlýsingu Útskálaprestakalls 1839 eftir Sigurð B. Sívertsen er hvorttveggja nefnt, Flanka- og Flangastaðir, en höfundur notar Flankastaðir í lýsingunni (sama rit III:163-164).

Flankastaðir

Flankastaðir – kort.

Í Landnámu eru nefndir Flangastaðir í Vestur-Skaftafellssýslu (Ísl. fornrit I:300) en ekki er ljóst hvort það er bæjarnafn eða ekki. Örnefnið er nú týnt en uppi á Síðuheiðum eru Flangir, mýrlendi og Flangaháls (Kålund II:315). Auk þessa er Flangi hátt klettasker á Grundarfirði, Flangagil í landi Þórdísarstaða í Eyrarsveit í Snæfellssýslu og Flangey er eyja á Hornafirði í Austur-Skaftafellssýslu.
Spurningin er hvort er upphaflegra, Flanka- eða Flangastaðir. Ásgeir Blöndal Magnússon nefnir í orðsifjabók sinni að hvorugkynsorðið flank merki ‘flakk’ og sögnin flanka ‘flakka, flækjast um’. Orðið flangi merki hinsvegar ‘lausagopi, æringi’, samanber meðal annars að á nýnorsku er flange ‘stór og óviðfelldinn maður’. Ásgeir nefnir þann möguleika að myndir með -nk- séu staðbundnar framburðarmyndir af orðunum með -ng- (bls. 186).

Flankastaðir

Efri-Flankastaðir.

Samkvæmt orðabók Björns Halldórssonar frá 18. öld merkir flankari ‘en forfængelig person, en Laps’ eða ‘spjátrungur’ (Ný útgáfa. Reykjavík 1992, bls. 145). Þórhallur Vilmundarson nefnir þá skýringu að flangi gæti merkt ‘kápa’ samanber merkingina ‘kjóll’ í orðinu flange í norsku, og að norski fræðimaðurinn Magnus Olsen hugsaði sér nafnliðinn dreginn af norska orðinu flong ‘stór hella’. Finnur Jónsson prófessor taldi að orðið flangi væri viðurnefni manns, ef til vill skylt flengja eða tengt flange í nýnorsku, og E.H. Lind taldi að það merkti ‘ósæmilegur maður’ (Grímnir 1:82). Líklegra verður að telja að upphaflega myndin sé Flanka-, samanber nútímamyndina, og flanki = flankari merki ‘spjátrungur’ og sé viðurnefni manns.

Saga Flankastaða

Flankastaðir

Flankastaðir – leifar bæjarins Kólga (sögulegur staður).

Flankastaðir eru bær á Miðnesi (Rosmhvalanesi), nú í Suðurnesjabæ, fyrrum Miðneshreppi. Flankastaðir (þ.e. jörðin fyrir skiptingu hennar um 1900-1930) eru allstór jörð á Suðurnesjamælikvarða og gætu verið landnámsjörð, þó svo að Landnáma tilgreini ekki landnámsmann þar.

Bærinn er samt nefndur í Landnámu (þar Flangastaðir) og segir þar frá því er Leiðólfur í Skógum elti Una danska Garðarsson (Svavarssonar) eftir að Uni hafði fíflað Þórunni, dóttur Leiðólfs. Hann náði honum við Flankastaði og börðust þeir þar. Féllu nokkrir menn af Una, en hann fór nauðugur aftur með Leiðólfi. Barn þeirra Una og Þórunnar varð Hróar Tungugoði. Hann var mágur Gunnars á Hlíðarenda og faðir Hámundar halta, er var mikill vígamaður að sögn Landnámu. (Islendinga Sögur ud. efter gamle Haandskrifter af det kongelige nor liske Oldskrift-Selskab. isl. et praef. dan, Bindi 1, Möller, 1843. bls 246.)

Heimildir um örnefni

Flankastaðir

Tóftir Tjarnarkots.

Sunnan við Klappartún er Tjarnarkotstún. Tjarnarkot fór í eyði nálægt aldamótum, en túnið lagðist undir Klöpp. Sunnan við þessi tún er allstór tjörn, sem heitir Flankastaðatjörn. Þar hefi ég séð þéttastar pöddur í vatni, að síldarátu ekki undanskilinni. Á malarkampinum milli tjarnar og sjávar sér enn fyrir rústum af gömlum sjómannabyrgjum. Það er útjaðar Flankastaðanausta; þau eru fáum föðmum sunnar. Þar stóðu tveir timburskúrar norðan við vörina, var annar (sá vestri) frá Klöpp, en hinn frá Flankastöðum (Austurbæ).

Frásagnir um útræði frá Flankastöðum

Flankastaðir

Klöppsvör.

Stórfiskur er út af Vesturbæjarfjörunni; ekki má fara grynnra fyrir hann á árabát en kirkjuna um Munkasetur. Sunnan við vörina er Vesturbæjarfjara; næst vörinni eru Vesturbæjarklappir, ekki háar en nokkuð miklar um sig, bæði fram í fjöruna og suður með kampinum. Að öðru leyti er fjaran að mestu slétt, nema syðst og vestast er hár stórgrýtisbálkur, sem kallast Vesturbæjarhausinn; lágur tangi er norðvestur úr fjörunni, varasamur þegar beygt er inn í vörina.

Hamarsund var fyrir allar lendingar norðan Bæjarskerseyrar, þegar sund þurfti að nota. Þegar lenda skyldi á Flankastöðum var, þegar inn úr sundinu kom, farið skáhallt yfir víkina norður á við að suðurósnum, sem liggur að Flankastaðavör.

Flankastaðir á síðustu öld

Flankastaðir

Nyrðri-Flankastaðir – brunnur.

Á vef Landmælinga Íslands má finna fjölda loftmynda allt tilbaka til fjórða áratugar síðustu aldar. Ég tók út myndir af Efri-Flankastöðum og bar saman þróun bæjarins í áranna rás. Þetta finnst mér afar skemmtilegt og í hvert sinn sem ég skoða myndirnar aftur rekst ég á eitthvað nýtt.

Í lýsingu Magnúsar Þórarinssonar: „Leiðir, lendingar og örnefni á Miðnesi; – Flankastaðir“, Frá Suðurnesjum. Frásagnir frá liðinni tíð“, Félag Suðurnesjamanna í Reykjavík, 1960, bls. 113-118, segir m.a.:

Flankastaðir

Flankastaðavör.

„Mjög mikil lá (sogadráttur) var í Flankastaðavör um flóð í brimi (enda segir jarðabók, að lending sé voveifleg þar; getur þá varla verið átt við annað en lána). Þar þurfti því góða skiphaldsmenn, sem þeir líka voru, gömlu hraustmennin; hert í eldi hörðustu lífsbaráttu, sem við ekki þekkjum nú. Þeir voru þungir í vöfum, teinahringarnir, sem ekki máttu taka niður í hnísuna (samskeyti kjalar og framstefnis). Ef skipið tók niður að framan, þegar mikil lá var, stóð það strax svo fast, að ómögulegt var að ýta því út aftur, svo þungu, sogaði þá óðara undan, svo skipið varð á þurru og lagðist á hliðina; næsta aðsog fyllti þá skipið, og allt var í voða. Það varð því sífellt að halda þeim á floti og ýta frá fyrir hvert útsog, en halda í kollubandið. Næsta ólag kom svo með skipið aftur, en þrekmennin settu axlirnar við, svo ekki tæki niður; stóðu þeir oft í þessum stympingum, þó sjór væri undir hendur eða í axlir, en klofbundnir voru þeir oftast, er þetta starf höfðu. Sjóföt manna á opnum skipum voru, fram að aldamótum, einungis brók og skinnstakkur, heima saumað úr íslenzkum skinnum. Brókin náði upp á síður, en stakkurinn niður á læri. Ef bandi var brugðið um mittið, ofan við mjaðmir, hertist skinnstakkurinn að brókinni; hert var að á bakinu og endanum brugðið fram milli fótanna upp í mittisbandið að framan; féll þá stakkurinn að brókinni, einnig að neðan. Þetta var hin svonefnda klofbinding. Mátti talsvert svalka í sjó þannig umbúinn, án þess að verða „brókarfullur“, eins og það var kallað, ef ofan í brókina rann.

Flankastaðir

Flankastaðir – Vara Klöppsvör (Endagerðisvör).

Í Flankastaðavör voru stórskipin ætíð sett, áður en fiskur var borinn upp. En kampurinn var brattur, svo að stundum gekk ekki meira í koki (átaki) en þverhandar breidd eða minna. Mátti þó heyra mörg eggjunarorð svo sem: Tökum á! Allir eitt! Samtaka nú! o. s. frv. En skipin voru þung, menn þreyttir og misjafnir að þreki eftir erfiðan barning og daglanga sveltu, því aldrei var matarbiti með á sjóinn á þeim árum á Miðnesi. Að því búnu var fiskurinn borinn upp á bakinu og honum skipt eftir stærð og gæðum. — Aldrei heyrði ég formanni ámælt fyrir röng skipti, og þó einhverju hefði munað, var óvíst, hver hlyti, þar sem hlutkesti var ætíð viðhaft. Hins vegar þóttust hásetar stundum finna mismun á hlutum eftir skiptin. Sagðist sá hafa orðið kastböllur, sem taldi sig óheppinn í hlutkestinu, og sumir þóttust alltaf verða kastbellir. En það er víst, að ekki bar öllum sami hlutur, svo misjafnir voru hásetar að dugnaði. Þegar ég skrifa þetta minnist ég áranna um 1890.

Flankastaðir

Flankastaðir – gamla Klöpp.

Stærsta útgerðin úr Flankastaðavör var frá Klöpp. Magnús Stefánsson byggði stóran og góðan teinahring um 1880. Gerði hann út einn og var sjálfur formaður. Magnús andaðist 17. janúar 1890. Hélt þá ekkjan, Gróa Sveinbjarnardóttir, áfram útgerðinni og varð Oddur í Brautarholti við Reykjavík formaður skipsins um nokkur ár. Hann var dugnaðarmaður og aflasæll. Fyrir og um aldamót voru stórskipin lögð niður, en upp voru tekin sexmannaför, og fleiri breytingar urðu þá, svo sem það, að þá var upptekin lending í Klapparlóninu. Klöpp var þá annar af nyrztu bæjum í hverfinu og sá, er stóð nær sjó. Árið 1936 var lögð niður byggð þar, sem Klöpp hafði áður staðið, norðan við Kólgutjörn, en reist að nýju suður á gamla Tjarnarkotstúni. Eins og áður er sagt, er malarkampur fyrir neðan Klöpp og neðan við kampinn er Lónið í fjörinni; þröskuldur er fyrir framan og rann sífellt úr Lóninu um fjöru, og ekki flaut þar inn með lægra en há[l]fföllnum sjó.

Flankastaðir

Klöpp.

Þarna var þá orðinn lendingarstaður Klapparskipsins og raunar fleiri af þeim, sem áður lentu í Flankastaðavör. Auk þess að Klapparskúrinn var fluttur frá Flankastaðavör norður á kampinn við Lónið, voru þar byggðir skúrar frá Flankastaðakoti og Endagerði, og sund-merki af tré var sett á kampinn. Fyrir utan fjöruna fram af Lóninu er sandgljá dálítil, en fyrir utan sandgljána eru flúðir, vaxnar háum þönglum, sem mikið brýtur á, en hjaðnar þó niður, þegar kemur á gljána, nema mikið brim sé, enda var þá ófært. Í hroða varð að skáskjóta sér undir flötum sjó milli fjörunnar og FIúðabrotsins til þess að komast á sundmerkin, en þau voru: Loftsglugginn í Flankastaðakoti í trémerkið í kampinum; þar var dýpsta rásin inn í Lónið. Vörin var sandvik, sem gekk frá Lóninu upp í kampinn, og voru hlaðnar upp varabrúnirnar, svo þar mátti leggja skipi að og kasta fiski á land. Nærri má geta, að oft hefir verið lá við Lónið; hvergi leitar sjórinn meira inn yfir kampinn en fyrir neðan gömlu Klöpp, þess vegna var líka bærinn færður. Karl Jónsson útgerðarmaður, sem bóndi var í Klöpp frá 1936—1942, gróf niður í kampinn tvo gamla nótabáta, hvorn við endann á öðrum, fyllti þá af grjóti og sléttaði yfir. Bátarnir virðast veita nóg viðhald því kampurinn hefir ekki ruðzt inn á túnið síðan. En hvernig fer þegar bátarnir fúna?“

Heimildir:
-https://is.wikipedia.org/wiki/Flankasta%C3%B0ir
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=5414
-https://www.flankastadir-is.vonflankenstein.net/index.php/saga-flankastadha
-Flankastaðir, Magnús Þórarinsson: „Leiðir, lendingar og örnefni á Miðnesi; Frá Suðurnesjum. Frásagnir frá liðinni tíð, Félag Suðurnesjamanna í Reykjavík, 1960, bls. 113-11.
-Einar Valgeir Arason, Klöpp.
-Manfred Limke, Efri Flankastöðum.

Flankastaðir

Flankastaðahverfi – uppdráttur ÓSÁ.

Kirkjuból

Gengið var frá Garðahúsavík, yfir Lambarif og meðfram Kvíavallavík að Hafurbjarnarstöðum, framhjá Gamlabóli, þ.e. gamla Kirkjubóli, Þóroddsstöðum (Þórustöðum) og Fitjum að Flankastöðum.
Í leiðinni var Syðri-Flankastaðirm.a. ætlunin að skoða kumlateig þann er fannst á Hafurbjarnarstöðum fyrr á árum og telja má merkastan slíkra teiga hér á landi. Eitt kumlið er nú undir fótum sýningargesta í gólfi Þjóðminjasafns Íslands (2008).
Kirkjuból var frægt í eftirmálum aftöku Jóns Arasonar 1551.
Flankastaðir eru hins vegar kunnir í annálum vegna óhóflegs skemmtanahalds. Að Flankastöðum voru fyrr á tímum haldnir vikivakar og jólagleði. Ýmsir kirkjunnar þjónar höfðu horn í síðu þessara dans- og gleðisamkoma sem þeir töldu ýta undir drykkjuskap og lauslæti. Voru þessar samkomur því bannaðar um 1745. Var því spáð að prestinum Árna Hallvarðssyni ætti eftir að hefnast fyrir tiltækið og gekk það eftir þegar hann drukknaði á voveiflegan hátt.
MerkiÁ leiðinni var m.a. gengið framhjá Lambarifi, sem sást einstaklega vel vegna þess hver lágsjávað var. Á þessari stundu var tunglið bæði fullt og stærst, enda nærst jörðu. Á rifinu sást vel til ketils úr King Eduvard er fórst þar fyrir utan á 20. öld. Við þetta langa sker fórst einnig franski togarinn Auguste LeBlonel þann 19. ágúst 1019. Annars er Garðskagaflösin og nálæg sker vörðuð skipssköðum. Sjá má afleiðingar þeirra hvarvetna með ströndinni.
En aftur upp á land; kumlateigurinn á Hafurbjarnarstöðum gæti verið ættargrafreitur Hafur-Bjarnar Molda-Gnúpssonar, sem frá er sagt í Landnámu. Hafurbjarnarstaðir eru líklega kenndir við hann. Molda-Gnúpur faðir hans nam fyrst land í Álftaveri, en settist síðar að í Grindavík 934 – fyrir 1074 árum.
Þá má geta þess að um 1450 brenndu skólasveinar Jóns Gerrekssonar, biskups, Kirkjubólsbæinn vegna afbrýðisemi foringja þeirra.
Kirkjubólshverfið var nyrzta byggð á Miðnesi fram undir síðustu aldamót, en þá fór að byggjast einstaka býli á Skaganum. Strandlengjan mestöll frá Skagatá suður að Klapparhverfi er í sjávarmáli þakin þykkum hvítum skeljasandi. Hefur sandur þessi fokið mjög upp á túnin og spillt grasrót, svo að illbyggilegt mátti heita, þar til á síðustu árum að útlendur áburður og betri viðleitni hefur gert byltingu í grasvexti á þessum slóðum.

Hafurbjarnarstaðir

Kirkjubólshverfingar hafa jafnan sótt sjó með búskapnum, og hafa þar verið margir ágætir sjómenn. En vegna langræðis á vertíðarslóðir Miðnesinga og að brimasamt mjög er út af hverfinu, hafa þeir mest sótt sjávarafla sinn í Garðsjóinn, með lóð á haustin, en þorskanet á vertíðum, einnig handfæri á öllum árstímum eftir ástæðum, og hafa haft uppsátur mest í Út-Garði. Þó var nokkur útgerð, að minnsta kosti öðru hvoru, í suðurdjúpið á vertíð, en oft lentu þeir þá í Flankastaðavör eða jafnvel á Fitjum, ef ekki var fært heim vegna brims.

Hið forna

Hér má sjá Landamerkjalýsingu Hafurbjarnarstaða og Kolbeinsstaða: „Ár 1886, mánudaginn þann 7. júnímán., voru skýrð upp landamerki áminnztrar jarðar [þ.e. Hafurbjarnarstaða], og eru þau sem hér segir: Sunnan til á Lambarifi á sléttri klöpp er mark LM, þaðan stefna mörkin upp í nyrðri brún á stokkmyndaðri klappavör með mark LM, er liggur niður frá útnorðurhorni túngarðs jarðarinnar við sjóinn. Ræður svo túngarðurinn mörkum, þar til kemur að túnmörkum jarðarinnar að norðan við túnmörk Kolbeinsstaða, er þar merktur steinn LM. Þaðan liggja mörkin milli túna áminnztra jarða til suðurs, þar til kemur að fornaldargarðlagi stutt frá Kolbeinsstaðabrunni, er þar merktur steinn LM, þaðan að jarðföstum steini fyrir vestan Kvíavelli með sama marki, þaðan að vörðu á sjávarkampinum spölkorn fyrir sunnan hústóft, er á kampinum stendur; þaðan fram á Mávatanga að þar settu marki LM á klöpp. Þaðan ræður sama sjónhending alla leið út í sjó. (Áminnzt LM þýðir landamerki.)

Mörk

Túnmörk jarðarinnar eru; að norðan, frá markasteini við tún Hafurbjarnarstaða liggur túngarður til austurs, er girðir af túnið alla leið upp fyrir þurrabúðarbýlið Efstabæ, beygist þá túngarðurinn til suðurs, þar til kemur að jarðfastri klöpp með mark innan til við túngarðinn, skammt fyrir sunnan þurrabúðarbýlið Suðurkot, beygjast svo mörkin í vestur beint á fornaldargarðlag (í því er merki um friðlýstar fornleifar), er aðskilur tún jarðarinnar frá túni Kvíavallanna, þá áfram eftir garðlaginu, meðan sömu stefnu heldur, að merktum steini sunnan til við Brunn (vatnsból jarðarinnar), beygjast þá túnmörkin til norðurs að þeim upphaflega áminnzta markasteini, síðast umgetin markstefna aðskilur tún jarðarinnar frá túni Hafurbjarnarstaðanna. Einkennismark á áminnztum steinum er LM, er þýðir landamerki.
2. Vestan til á miðju Lambarifi á sléttri klöpp er mark LM, ræður þaðan fjörumarklína að norðanverðu alla leið upp á sjávarkampinn sunnanhallt við þann enda Lambarifs, er að sjávarkampinum liggur; er þar á kampinum varða með marksteini í, merktum LM.

Útihús

Beygja svo fjörumörkin suður hákampinn suður að útnorðurhorni Hafurbjarnarstaðatúngarðs við sjóinn. Liggja svo merkin niður fyrir sjávarkampinn norðan til í stokkmyndaða klapparvör með mark LM. Þaðan að klöpp sunnanhallt á Lambarifi, er þar mark LM. Þaðan sem sjónhending ræður alla leið á sjó út.
„Hálf-örðugt er að fá nöfn og lýsingar á boðum og skerjum á þessu svæði. Þó þekkja allir Lambarif, sem er langt og allbreitt rif út í sjó norðan við Hafurbjarnarstaði, enda alþekkt fyrir skipströnd og slysfarir fyrr á tíma. Hafliðasker er norðan við rifið. Ekki er vitað um tilefni nafnsins. Norður af Hafliðaskeri er Krosstangi. Árni Jónsson segir, að nafnið sé dregið af legu tangans miðað við önnur sker. En einnig kynni það að vera í einhverju sambandi við kirkju eða bænahús, sem var á Kirkjubóli og markar enn fyrir á Gamla-Bóli.

Ströndin

Þar er einnig kirkjugarður, en hann er farinn að brotna af sjógangi og mannabein að koma úr hólnum, í flóði fyrir nokkrum árum komu m.a. hlutar af tveimur beinagrindum. Hallssker er sunnan við rifið. Ekki er vitað um tilefni þess nafns. Þar suður af er Mávatangi, lágt rif, laust við land, en kemur upp úr um fjöru. Kringum rif þetta eru smásker og flúðir, kallaðar Flögur. Brimbrotið á þessu öllu saman er nefnt Mávatangaflögur.
Kolbeinsstaðavarða er skammt fyrir ofan túngarðinn á Kolbeinsstöðum, rétt við veginn, sem nú liggur þar. Hún er gamalt mið á sundi og fiskimiðum. Hún mun hafa verið myndarleg á beztu árum ævi sinnar. Eigi mun vitað um aldur hennar. Nú er hún ekki annað en fáeinir steinar í hrúgu, mjög sokkin í jörð og úr henni hrunið á allar hliðar. Liggja steinarnir allt í kring, meira eða minna niður sokknir.
KolbeinssatðirÍ Kirkjubólshverfi miðju er stór hóll niður undir sjávarbakka. Heitir hann Gamla-Ból, enda stóð þar Kirkjuból áður fyrr með sína fornu sögu. Þegar Magnús Þórarinsson var smástrákur og kom á Gamla-Ból í fyrsta sinn, voru honum syndir þar vel höggnir bollar í stóra steina og sagt, að það væru hlautbollar frá heiðni. Steinar þessir munu nú vera komnir í hleðslu á Gamla-Bóli eða þar í grennd. Sunnan í Gamla-Bóli er lægð eða sýling, sem heitir Borguskarð.
Mið á Kirkjubólssundi er Kolbeinsstaðavarða í Borguskarð. Norðan við Sundið eru Mávatangaflögur, en sunnan við afleiðingar af Hásteinaflögum, sem eru grynningar fyrir norðan Hástein. Lent var í svonefndri Borgu, sem Magnús Þórarinsson segir, að hafi verið sandvik sunnan megin við Gamla-Ból, en Árni Jónsson segir, að Borga hafi verið hlaðin rétt (sbr. borg = hringhlaðin rétt).

Í Kvíavallavík

Sunnan megin við lendinguna er Borgusker í fjörunni, smáhólmi í þanghafi. Norðan við eru Vallarhúsaklappir, en Kvíavallavik og Kvíavallasker þar norður af. Ekki var gott á land að leggja þarna, því allt var eintómur hvítur sandur, varð því að bera fiskinn upp á tún. Vergögn voru lítil og engir garðar, skipum til skjóls í ofviðrum á landi. Einn kofi hafði lengi staðið á bakkanum, en breyttist síðar í timburskúr. Sundið er sagt að hafi verið sæmilegt, en svo er að skilja, að það hafi náð skammt út fyrir fjöruna, því hvorki varð komizt út né að fyrir brimi, sem var fyrir utan, segja kunnugir. Þarna eru einlægir þarahvirflar um allt þetta svæði og einn brimsvaði, ef hreyfing er í sjó. Mun það allt vera kallað einu nafni Víkurboðar.
MinjarLendingarstaður var við Hafurbjarnarstaði, nyrzta bæ í hverfinu, við sjóinn, en aðeins um sumartímann. Má enn sjá til leifanna af gömlu sjávarhúsi niður undan bænum (nú húsinu); hefur það verið nefnt Gjaldabyrgi, eflaust kennt við Ingjald Tómasson, sem bjó á Kolbeinsstöðum og síðar á Hafurbjarnarstöðum á seinni hluta 19. aldar. Hann var faðir Guðrúnar símstjóra í Gerðum og Margrétar í Melbæ.
Þá var einnig lending við Þóroddsstaði, syðsta bæ í hverfinu; var þar lent í sandviki niður af bænum, norðan við svonefndar Svörtuklappir. Engin sjávarhús eru þar nú sýnileg eða önnur vergögn. Kirkjubólssund var notað fyrir allt hverfið, en svo róið með landi að lendingarstöðum.
Framanskráð er einkum ritað eftir frásögn Magnúsar Þórarinssonar, hið sannasta, er hann vissi og hafði Tóftgetað upp spurt af kunnugum eldri mönnum um leiðir og lendingar í Kirkjubólshverfi á ævi þálifandi manna.
Eigi er nú vitað, hve mikil sjósóknin hefur verið, en það stingur í augu, að svo er orðað, að „stundum“ hafi gengið þar konungsskip, áttæringur á vertíð. Það bendir til þess, að útgerðin hafi ekki verið stöðug fremur þá en síðar. Þá hefur líka hagað öðruvísi til þar. Sjávarströndin er ávallt að breytast, hægt og sígandi. Vitað er, að landbrot hefur verið ákaflegt á Miðnesi á undanförnum árhundruðum. Sjórinn hefur brotið jarðveginn, en eftir standa klettarnir. Það eru skerin. Áður var Lambarif grasi gróið; svo hefur einnig verið um önnur sker og fjörur, sem nú eru á þessu svæði, og allt annað flóðfar er þar nú en var fyrir 250 árum.
Enginn mun nú vita, hvar hestargamla vörin var í Hafurbjarnarstaðalandi. En það er víst, að brimasamt hefur ætíð verið út af Kirkjubólshverfi. Það vottar líka umsögnin um gömlu vörina, sem spilltist af grjóti í sjávargangi og sjávarflóðum.
Niður við sjó er, eins og fyrr segir, Gamla-Ból, þar sem Kirkjuból stóð fyrr. Mælt er, að bærinn hafi verið fluttur frá sjó undan sandfoki.
Í suðausturhorni túnsins er svonefnt Rafnshús, kennt við mann, sem þar bjó. Þar norður af er kofi, sem nefndur er Busthús. Þar var bær eða tómthús. Utar, hálfa leið á veginum, er varnargarður úr grjóti. Vestur af bænum, sem nú er, eru miklar hleðslur í hólnum við sjó. Suðvestur í túni eru miklar hleðslur af stórgrýti. Er þar að brotna hár rofabakki, og koma fram úr honum hleðslur. Hleðslur þessar eru leifar af kirkjugarði og byggingum.
þúfutittlingurÁrnadalur er lægð í túni Kirkjubóls, sem liggur suður og norður í átt til Þórustaðatúns. Ekki er vitað með vissu, við hvern Árnadalur er kenndur, e.t.v. Árna nokkurn reipslagara, sem bjó á Kirkjubóli einhvern tíma á síðustu öld.
Fyrir innan túngarðinn á Kirkjubóli tekur við svæði það, sem Almenningur heitir. Það er sameign Kirkjubóls, Hafurbjarnarstaða og Kolbeinsstaða. Næst norðan við Kvíavelli eru Hafurbjarnarstaðir, sem voru nyrzti bærinn í hverfinu. Þar mátti sjá leifar af gömlu sjávarhúsi neðan túns, sem nefnt var Gjaldabyrgi og áður hefur verið getið.
Neðan við Hafurbjarnarstaði er Kálfhagi. Þar munu kálfar hafa verið geymdir. Þar eru einnig leifar eftir Skagagarð. Kálfhaginn er utast. Skagagarðurinn girti af Garðartána, að talið er, til hlífðar fyrir akra, er þar voru. Upp frá Hafurbjarnarstöðum eru Kolbeinsstaðir. Ofan við túngarðinn þar er byrgi, Árnaborg. Hana hlóð Árni á Meiðastöðum. Á þessum slóðum eru ýmsar vörður. Kolbeinsstaðavarða er rétt ofan við veg upp af bæ, skammt ofan túngarðs, gamalt mið, hrunin að mestu. Ofan við Kálfhaga var Ófeigskot og Efstabæjargarður. Þar innar var tómthúsið Sléttaból, þar sem nú er býlið Ásgarður, austur af Lambarifi. – Ekki er vitað, við hvern Ófeigskot var kennt, en Sléttaból var byggt af Jóni Þórarinssyni, föður Árna Jónssonar, um aldamótin. Jón var frá Flankastöðum og flutti þangað aftur með allt sitt fólk árið 1916. Nú markar aðeins fyrir bæjar- og garðarústum á Sléttabóli.
Uppi í heiðinni austur frá Fitja-Hásteini, allhátt uppi, ef hægt er að tala hér um hátt, er Skiphóll. Suður af honum er annar hóll, sem heitir HjallurGrænhóll.
Skiphóll er grjóthóll, grasi gróinn, og var eitt aðalfiskimiðið í Garðsjó. Fyrir ofan veginn eru lægðir, sem nefndar eru Lágar. Í þeim eru rústir eftir stekk. Ekki er vitað, hvenær hann var síðast notaður. Hjá honum er hlaðin varða, en rétt hjá er smárétt, yngri. Skv. örnefnaskrá Ara Gíslasonar eru merkin móti Útskálum úr Útskálaflesju í Selós miðjan og í stein fyrir sunnan Skagavötn. Draughóll er á merkjum. Þar er nú býli, sem heitir Hólabrekka. Þaðan er línan í Skálareyki. Þar breytir um stefnu og verður miklu suðlægari.
Útskálaflesja er sunnan í Garðskagaflös. (Flesja = lág, slétt sker og sandbreiður, sem fara oftast undir sjó um flóð.)
Ekki er vitað, af hverju Selós dregur nafn, en mikið er og var um sel þarna sunnan við Flösina. Var það eini staðurinn þarna við ströndina, þar sem selur var, þegar Halldóra var að alast upp. En nú er þar mikið af honum, alveg frá Flös til Sandgerðis og e.t.v. einnig fyrir sunnan Sandgerði.
HúsfreyjanÁður var minnst á Jón Gerreksson. Hann (f. 1378) var endurreistur biskup í Skálholti árið 1426. Ýmsum sögum fór af honum og þá ekki síst ódælum sveinum hans. Áður hafði hann stundað nám við Svartaskóla (1401) og verið biskup í Uppsölum, en gerður þaðan burtrækur vegna kvennafars og svalls.

Gripir

Illugi Jökulsson skrifar um Jón Gerreksson í Morgunblaðið 1986: „Einn kirkjusveinanna, foringi Jóns, Magnús að nafni, biðlaði til Margrétar á Kirkjubóli en var synjað. Hann tók hryggbrotinu svio illa að hann fór með sveinum sínum og brenndi Kirkjubólsbæinn en Margrét – sem var systir Þorvarðar á Mörðuvöllum og komst undan eldinum og flýði norður í land. Af þessum atburðum urðu hefndir miklar en þó lítil málaferli. Magnús flýði að lokum úr landi en það fugði ekki til þess að friða Íslendinga. Þorvarður slapp líka úr haldi og tók að safna liði og fór að lokum gegn Jóni biskupi í Skálholti. Hann var tekinn höndum og drekkt í Brúará, segir þjóðsagan, og er það sennilega alveg sannleikanum samkvæmt. Þannig er nú sagan í stórum dráttum.“
Um kumlateiginn við Hafurbjarnarstaði segir m.a. í eftirfarandi umsögn: „Í Skýrslu um Forngripasafn II, bls. 67-78, hefur Sigurður Guðmundsson málari lýst einum hinum merkasta heiðna kumlateig, sem enn hefur fundizt hér á landi. Sigurður kom hins vegar aldrei á staðinn, að því er séð verður.
Hafurbjarnarstaðir í Miðneshreppi eru rétt austan við Kirkjuból hið forna. Svæðið er mikið skemmt af sandfoki; er strandlengjan öll með ljósum sandi, sem fýkur mjög til og frá og veldur spjöllum. Þetta sandfok hefur leitt í ljós hinn forna kumlateig rétt innan við girðinguna, norður af bæ á Hafurbjarnarstöðum. Sigurður B. Sívertsen, segist minnast þess, að bein úr kumlunum hafi blásið upp og verið færð í kirkjugarð þar um 1828. „Þar fannst og silfurhringur með gömlu verki, líkt eins og á mörgum steyptum beltispörum“. Á öðrum stað segir hann, að hringurinn hafi verið „handhringur“ mjög forn úr silfri og einhvern tíma gylltur, var á hinum upphleypt krossmark, líkt og sézt hefur á gömlu beltispörum.“

NælanSumarfið 1947 fórum við Jón prófessor Steffesen á staðinn til að rannsaka, hvort nokkuð kynni að vera þar eftir óhreyft.“
Síðan lýsir Kristján kumlunum. Hann segir og að kumlateigur þessi sé vitanlega frá 10. öld, en nánari tímaákvörðun varla leyfileg. Eftir sverðinu að dæma ætti það þó ekki að vera yngra en frá 950. Annars staðar getur hann þess að kumlateigurinn gæti verið ættargrafreitur Hafur-Bjarnar Molda-Gnúpssonar, sem frá er sagt í Landnámu. Hafurbjarnarstaðir eru líklega kenndir við hann. Molda-Gnúpur faðir hans nam fyrst land í Álftaveri, en settist síðar að í Grindavík.
Árni Óla segir í grein sinni í Lesbók Morgunblaðsins 1961 að „enda þótt landkostir í Álftaveri hafi verið harla ólíkir landkostum við Raumdalsfjörð, þá tók þó úr er Molda-Gnúpur tók sér byggð í Grindavík, þar sem var lítt gróið hraun niður að sjó. Það hefir því skjótt orðið þröngt um þá bræður (syni hans) fjóra þar. Þess vegna ætla menn að Hafur-Björn hafi farið þaðan er hann kvongaðist Jórunni Svertingsdóttur (Hrolleifssonar), og reist sér bæ á Rosmhvalanesi, er síðan við hann kenndur og heitir Hafurbjarnarstaðir, rétt norðan við Kirkjuból, hinn sögufræga stað, og skammt frá hinum sögufræga garði, sem eitt sinn lá þvert yfir skagann og Garðskagi dregur nafn af. Börn þeirra voru Rannveig og Svertingur.

Hnífur

Húsfreyja á Hafurbjarnastöðum, kona Hafur-Bjarnar, var Jórunn dótturdóttir keltlneska landnámmannsins Ráðorms í Vetleifsholti. Þarna er hið keltneska samband, sem svo vel getur skýrt, hvers vegna hin einkennilega þríblaða næla, með keltnesk-norrænum stíl, skyldi einmitt finnast þarna á þessum stað. Hér styður hvað annað. Gröfin bendir til þess, að hún hafi verið legstaður húsfreyjunnar á Hafurbjarnarstöðum, og hin einkennilega nál bendir til hins keltnesk-norræna ætternis hennar.“

Kumlteigurinn

Framangreind vitneskja, þ.e. merkilegheit kumlateigsins sem og hugsanleg tengsl hans við eina hina fyrstu landnámsmenn á Reykjanesskaga, ætti, þótt ekki væri fyrir neitt annað, að vera yfirvöldum fornleifa sérstakt áhugaefni. Ljóst var að þarna hafi bein verið að koma upp úr gröfum a.m.k. frá því á 19. öld. Á 20. öld finnast merkilegstu grafir, sem enn hafa fundist hér á landi. Hvers vegna í ósköpunum, endurtekið – í ósköpunum, hefur ekki farið fram frekari fornleifauppgröftur við Hafurbjarnarstaði? Kristnitökussjóður hefur fjámagnað marga vitleysuna á síðustu árum, en spurningin er; hvers vegna í ósköpunum datt engum forsvarsmanna hans að verja fjármunum til áframhaldandi rannsókna á þessu einstaka svæði? Og hvers vegna gerði enginn sveitarstjórnarmanna þá kröfu að það yrði gert? Krafan myndi þykja mjög eðlileg því vel má leiða að því líkum að jarðneskar leifar Hafur-Bjarnar kunni að leynast þar í sandinum!
merkingÞrátt fyrir merki Þjóðminjasafnsins, bæði á garðinum norðan Hafurbjarnarstaðar (sem líklega má telja hluta af hinum forna Skagagarði) og við kumlateiginn er ekki umm eiginlegar friðlýstar fornleifar skv. Skrá um friðlýstar fornleifar 1990. Þar segir eingungis um slíkar minjar í Gerðarhreppi: „Útskálar. Akurlönd forn, á Garðskaga. Sbr. Árb. 1903: 35-36. Skjal undirritað MÞ 25.10.1930. Þinglýst 15.11.1938.“ Hér er um að ræða svæðið innan hins forna Skagagarðs. Ekki er minnst á kumlin þótt vitað hafi verið af þeim á þessum tíma. Í núgildandi þjóðminjalögum eru allar fornleifar eldri en 100 ára friðaðar, en skýringin á því hvers vegna kumlteigurinn og garðurinn á Hafurbjarnarstöðum er sérmerktur umfram ákvæði laganna liggur ekki ljós fyrir.
Flankastaðir
Þórustaðir eða Þóroddsstaðir eru jörð í Miðneshreppi, næst norðan Fitja, og taldir syðsti bær í Kirkjubólshverfi. Árið 1703 er þar getið um tvö Thorustadakot.
Fitjar eru jörð í Miðneshreppi næst norðan við Arnarbæli. Arið 1703 er þetta talið hálfbýli og jafnvel að einhverju leyti tengt Kirkjubóli.
Á Flankastöðum hefur um langan aldur verið tvíbýli. Um aldamót stóðu báðir bæirnir saman á sama hólnum. Síðan voru þeir færðir í sundur, og eru Syðri-Flankastaðir nú komnir í eyði.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir:
Örnefnalýsingar fyrir Kirkjuból, Þórustaðir (þóroddsstaði), Fitjar og Flankastaði.
-Kristján Eldjárn – Árbók hins íslenska fornleifafræðifélags 1943-1948, bls. 108-128.
-Árni Óla, Lesbók Morgunblaðsins 26. febrúar 1961.
-Mbl. 23. des. 1986.

Kumlteigur