Færslur

Borgarkot

Þegar gengið er um bergsvæði Reykjanesskagans og umhverfið barið augum má víðast hvar sjá skófir, glæður eða fléttur, hvort sem um er á 300.000 ára gömlu grágrýti, 12.000 ára móbergi eða yngra en 11.000 ára hrauni. Oftast nær má sjá litskrúðugar skófir og fléttur við ólíkar aðstæður. Gulleit fuglaglæðan er t.d. áberandi niður við ströndina (keimlík steinmerlu, veggjaglæðu, klettaglæðu og hellisglæðunni er finnst við hellisop), dökkbrúnt gálgaskegg (líkist í útliti mjög jötunskeggi), sem vex á Gálgakletti á Álftanesi, og dregur nafn sitt af fyrsta og eina fundarstaðnum á Íslandi, eða hvíta púðabreyskju.
Fuglaglæða á Geldingasteinum (SG)Hver er munurinn á öllum þeim 700 glæðum, merlum, skeggjum, þembum, voðum, fléttum, nepjum og skófum, sem til eru hér á landi?
Orðin fléttur og skófir eru að vissu marki mismunandi nöfn yfir sama fyrirbærið, sambýli svepps og þörunga. Þó er viss merkingarmunur á orðunum. Orðið fléttur í þessari merkingu kemur fyrst fyrir í bók Helga Jónssonar, Bygging og líf plantna – Grasafræði, sem út kom árið 1906. Hann notaði það yfir allan þann hóp sveppa sem mynda sambýli við þörunga og hefur sú merking orðsins haldist síðan. Litið var á fléttur sem sjálfstæða fylkingu plönturíkisins alveg eins og sveppi og mosa. Ekkert orð í málinu hafði þessa merkingu fyrir, því að fram að þessu hafði almenningur ekki gert neinn greinarmun á fléttum og mosum, en kallaði fléttur oftast mosa (samanber litunarmosi, hreindýramosi). Blaðkenndar fléttur voru stundum nefndar skófir (geitaskóf, engjaskóf, veggjaskóf) eða grös (fjallagrös, maríugrös).
Fjallagrös eru fléttur. Í dag er hins vegar litið á fléttur sem hluta svepparíkisins og eru það aðeins sérstæðir lifnaðarhættir sem greina þær frá sveppum, það er sambýlið við þörungana sem jafnframt gerir þær frumbjarga.
Púðabreyskja við KlifsholtOrðið skófir er aftur á móti gamalt í málinu og er notað yfir blaðkenndar eða hrúðurkenndar fléttur, sem auðvelt er að skafa af steinum. Blaðkenndar fléttur á jarðvegi voru einnig nefndar skófir (engjaskófir), og jafnvel mosar með sama vaxtarlag samanber dýjaskóf yfir mosann Marchantia. Runnkenndar fléttur eins og hreindýramosi eða skollakræða voru aldrei nefndar skófir. Kragaskóf eða skeljaskóf er algeng skóf á steinum. Segja má að allar skófir séu fléttur ef við undanskiljum dýjaskófina, en ekki eru allar fléttur skófir.
Skófir, sem eru einnig kallaðar fléttur, eru í raun ekki sjálfstæðir einstaklingar heldur sambýli svepps og þörungs. Sveppurinn í hverju sambýli er einstakur og er ekki að finna nema í einni fléttutegund. Þörungurinn er hins vegar ekki eins trygglyndur og getur sama þörungategundin fundist í mörgum fléttutegundum.
Fléttur eru sambýli sveppa og ljóstillífandi lífveru, ýmist blábaktería eða grænþörungs. Sveppurinn er oftast ráðandi aðilinn í sambandinu og er nafn fléttunnar dregið af heiti sveppsins, enda má oft finna sömu ljóstillífandi tegundina í mismunandi fléttum. Samjálp þessara lífvera felst í því að sveppurinn leggur þörunginum eða gerlinum til hagstæð búsetuskilyrði, meðal annars raka og vörn gegn geislum sólarinnar, en nýtir sér í staðinn frumframleiðslu þeirra.
Þetta sambýlisform gerir þessum lífverum kleyft að lifa við mjög bágar aðstæður og oft vaxa þær og dafna á stöðum þar sem aðrar lífverur eiga erfitt uppdráttar. Fléttur eru auk þess venjulega meðal fyrstu lífvera til að nema ný landsvæði, svo sem á nýju hrauni, og eru því áberandi í frumframvindu svæða.
Fléttur eru hvað mest áberandi á steinum en víða eru steinar þaktir fléttum af ýmsum gerðum. Margir átta sig alls ekki á að um er að ræða lífverur, halda jafnvel að flétturnar séu einhverjar dauðar slettur á steinunum þótt þeir trúi nú kannski ekki alveg á þjóðsöguna um Kiðhús, kerlinguna og snúð hennar. Aðrir halda að allt sem vex svona á steinum sé „bara mosi“ og gera ekki greinarmun á fléttum og mosa sem þó er mjög mikill. Fléttur vaxa víðar en á steinum t.d. ofan í grassverði á deiglendi eða innan um mosa og annan gróður í móum.
Skófir í Fjallinu einaHér á landi hefur meira en 700 tegundum flétta verið lýst og finnast með reglulegu millibili nýjar tegundir. Til dæmis fundust þrjár nýjar blaðfléttur hér á landi á árið 2006. Í heild hefur rúmlega 15 þúsund tegundum flétta verið lýst í heiminum, en geri má ráð fyrir að þær séu langt um fleiri.
Fléttur eru í samkeppni við aðrar plöntur um bæði raka og sólarljós. Þær eiga oft erfitt uppdráttar í slíkri samkeppni, sökum þess hversu lágvaxnar þær eru. Þær eru því sérstaklega áberandi á stöðum þar sem plöntur þrífast ekki eins vel, svo sem hátt til fjalla og á klettum og steinum.
Fléttum hefur verið skipt upp í í þrjá hópa eftir vaxtarformi. Þetta eru runnfléttur, sem eru greinóttar og vaxa lítillega upp frá undirlaginu. Dæmi um runnafléttu er hreindýramosi. Blaðfléttur eru hins vegar eins og nafnið gefur til kynna blaðkenndar. Dæmi um blaðfléttur eru fjallagrös. Hrúðurfléttur mynda hrúður á klettum og trjáberki og eru þær einnig kallaðar skófir.
Fléttur eru ekki náttúrulegur hópur í sama skilningi og til dæmis spendýr eða skordýr, það er hópar sem eiga sér einn sameiginlegan forföður. Líklegra þykir að nokkrir hópar sveppa hafi tekið upp sambýli við þörunga og blábakteríur nokkrum sinnum í lífssögunni.
Kragaskóf /skeljaskófFléttur vaxa í sambýli við sveppi og flokkast sem sérdeild innan  jurtaríkisins. Flétturnar eru af tveimur ættkvíslum xanthoria og caloplaca. Fléttum er oft skipt í þrjá flokka eftir útliti: skorpufléttur, blaðfléttur og greinafléttur. Fléttur eru myndaðar af sambýli sveppa við þörunga. Sérhver fléttutegund er mynduð af einum svepp og einum eð tveimur tegundum þörunga. Margar af fléttunum vaxa mjög hægt en geta aftur á móti lifað í margar aldir. Fléttum er það sameiginlegt að þær eru  mjög viðkvæmar. Þær þola litla loftmengun, umgang beit og áburð. Af plöntum eru það flétturnar sem fyrst nema land og segja má að þær undirbúi jarðveginn fyrir næsta flokk plantna og jafnvel framvindu lífs á jörðinni. Erfitt getur verið að greina fléttur. Gular, rauðar og gráar fléttur eru einna algengastar og mest áberandi í náttúrunni. Fléttur  hafa  löngum verið notaðar til litunar (jurtalitun) og lækninga (jurtalækninga).
Skorpufléttur eru eins og grautarslettur á yfirborði þess efnis sem þær vaxa á. Þær eru oft mjög fastar á yfirborði efnisins. Fléttur eins og veggjaglæða og strandglæða flokkast til skorpufléttna.
Allra efst í fjörunni ofan við þörungana eru grjót og klappir iðulega þaktar skófum sem oft eru svartar og líkjast tjöruskán á steinunum. Skófirnar geta þó verið margvíslegar á litinn, grænar, gráar, appelsínugular eða hvítar. Oft mynda þær skorpur á steinunum en geta einnig verið smáar fíngerðar hríslur eða blaðlaga og festar við steininn með stilk.
Til eru allmargar tegundir skófna sem lifa efst í fjörunni en flestar þeirra er einnig að finna annars staðar. Þó eru til tegundir eins og fjörusverta (Verrucaria maura) sem bundin er við efri hluta fjörunnar og myndar þar þunna svarta skán á klöppunum. Græna flæðaskófin (Verrucaria mucosa) lifir um alla fjöruna niður að neðstu fjörumörkum og er eina tegund skófna sem lifir í neðri hluta fjörunnar hér við land. Hún er dökkgræn á litinn.
Ef litið er á þörunga og sveppi, er vart hægt að hugsa sér verri stað en þurrt grjót til að lifa á. Þörungar lifa í vatni, sveppir á lífrænu efni. Steinninn er hvorugt. Steinar eru oft þurrir dögum, jafnvel vikum, saman. Þeir verða fljótt kaldir í kulda og heitir í hita svo að á steini eru aðstæður mjög sveiflukenndar og erfiðar. Hvorug þessara lífvera gæti lifað þarna stök, en þegar þörungarnir og sveppurinn hjálpast að sem heild þá sigrast þær á þessum mjög svo erfiðu aðstæðum og meira en það. Þær sigrast á steininum líka. Fléttur gefa gjarnan frá sér efni sem smátt og smátt vinna á steininum og þannig undirbúa þær jarðveginn, í orðanna fyllstu merkingu, fyrir allan annan gróður.

Heimildir m.a.:
-www.visindavefur.is

Skófir á hraunreipum