Færslur

Hvaleyri

Ofan við Hvaleyri í Hafnarfirði er varða. Ofan hennar er skilti. Á því eru upplýsingar um tilvist vörðunnar sem og söguna að baki henni:

Flókavarða

Hvaleyri – Flókavarða; minnismerki.

“Um Flóka Vilgerðarson má lesa í Landámsbók. Samkvæmt henni var Flóki norskur víkingur sem ætlaði sér fyrstur mann að setjast á Íslandi um 870. Hann lagði af stað snemma sumars frá mörkum Hörðalands og Rogalands í Noregi, stað sem var kallaður Flókavarði, síðar Ryvarden, til að leita óbyggðs lands vestur í hafi sem sæfarendur vissu af en höfðu lítið kannað. Flóki hafði með sér þrjá hrafna til að vísa sér leið, en áttavitar þekktust þá ekki á Norðurlöndum. Honum tókst með aðstoð hrafnanna að finna landið og fékk þannig nafnið Hrafna-Flóki. Hann kom fyrst að Suðausturlandi, sigldi vestur með ströndinni, fyrir Reykjanes, þvert yfir Faxaflóa, fyrir Snæfellsnes og nam loks staðar norðan Breiðafjarðar í Vatnsfirði á sunnanverðum Vestfjörðum.

Flókavarða

Flókavarða – skilti.

Vatnsfjörður var mikið gósenland fyrir veiðimenn. Þar var mikið af fugli, fiski og sel sem reyndist Flóka og förunautum hans auðtekin bráð. En Flóki hafði líka með sér búpening sem dó úr hungri næsta vetur, því að komumennirnir höfðu ekki áttað sig á því að á þessum sumarfagra stað þurfti að afla heyja til að halda búpeningi lifandi yfir veturinn. Vonsvikinn ákvað Flóki því um vorið að snúa aftur heim. Áður en hann lagði af stað gekk hann upp á hátt fjall fyrir norðan Vatnsfjörð, sá þar fjörð fullan af hafísum og gaf landinu nafnið Ísland sem það hefur borið síðan.

Flókavarða

Flókavarða – texti á skilti.

Á heimleiðinni varð Flóki fyrir óhappi. Á sunnanverðum Faxaflóa slitnaði bátur aftan úr skipinu en í honum var einn af förunautum Flóka sem hét Herjólfur. Flóki vildi ekki skilja hann eftir og hélt til lands. Hann kom í Hafnarfjörð og fann þar hval rekinn á eyri út frá firðinum og gaf eyrinni nafnið Hvaleyri. Þar fann hann Herjólf sem hafði tekið land annars staðar, á stað sem var síðan kallaður Herjólfshöfn. Ekki er núna ljóst hvar sá staður hefur verið.

Hér á Hvaleyri hafa íbúar í Sveio í Noregi nú reist vörðu (varða) til minningar um Flóka og komu hans í Hafnarfjörð og fært Hafnfirðingum að gjöf. Varðan er nákvæm eftirmynd af samskonar minnismerki sem þeir hafa áður reist í Ryvarden í Noregi, staðnum þar sem Flóki lagði af stað í landnámsleiðangur sinn. Þótt sá leiðangur mistækist varð hann þó til að gefa Íslandi það nafn sem það hefur borðið síðan.”

Hvaleyri

Hvaleyri – gamli bærinn ofan Hvaleyri frá 1772. Settur inn í nútímamynd. Flókavarðan fremst.