Norðan Fossvogs, milli Nauthólsvíkur og Nestis, er skilti; Fossvogsbakkar. Á því má lesa eftirfarandi:
“Fossvogsbakkar eru friðlýstir vegna einstæðra setlaga frá lokum ísaldar. Friðlýsta svæðið nær all frá Nauthólsvík inn í botn Fossvogs. Stærð svæðisins er um 18 ha.
Jarðsaga og myndun
Á síðustu hlýskeiðum ísaldar fyrir um 11 þúsund árum leiddi bráðnun jökla til umtalsverðrar hækkunar sjávarstöðu. Þá mynduðust sjávarsetlög í kyrrlátu grunnsævi sem sjást einstaklega vel i Fossvogsbökkum. Setlögin mynduðust ofan á grágrýtisklöpp sem tilheyrir Reykjavíkurgrágrýtinu sem myndaðist við eldumbrot á hlýskeiðum síðustu ísaldar, sennilega fyfir 100-200 þúsund árum. Silt-, eðju- og sandsteinslög einkenna setlögin sem eru auk þess mjög rík af steingervingum. Allra síðustu jöklar gengu yfir svæðið skömmu eftir myndun setlaganna og skildu eftir jökulruðning.
Setlögin
Setlögin ná yfir 2 km strandlengju en eru misþykk og víðar nær rofin í burt af sjávarföllunum. Þykkust eru þau í botni Fossvogs og er hámarksþykktin tæpir 5 metrar. Neðsta lagið er jökulberg myndað úr jökulruðningi sem bendir til hörfunar jökla. Næstu lög eru sjávarsetlög, einkum fíngerð silt- og eðjusteinslög sem sýna að sjávarstaða hafi hækkað.
Í sjávarsetinu eru steingervingar einkum skeljar samlokutegunda svo sem hallloka, rataskel, smyrslingur, gimburskel, trönuskel og kúskel, en einnig skeljar kuðunga og hrúðukarla.
Flestir steingervingarnir eru óbrotnir og í lífstöðu sem bendir til þess að setið hafi myndast í kyrrlátu grunnsævi.
Ofan á sjávarsetinu er meira jökulberg frá síðasta jökulskeiði ísaldar. Þar eru ummerki um áhrif rennandi vatns sem bendir til þess að jökullinn hafi verið þunnur.
Vestast á svæðinu, næst Nauthólsvík, er hið 200.000 ára gamla Reykjavíkurgrágrýti áberandi undir setlögunum.
Í klettinum Míganda innst í Fossvogi eru setlögin þykk og auðvelt að skoða þau. Þar eru nær eingöngu eðjusteinslög, mjög þykk og lagskipt. Það sést ekki í Reykjavíkurgrágrýtið. Neðsta dökka lagið er hvarfs- leirkenndur eðjusteinn og ofan á honum eru ljósari eðjusteinslög. Á einstöku stað eru skeljar eða för eftir skeljar.”