Færslur

Urriðakot

Friðlýsingu svæðisins sem fólkvangs er ætlað að tryggja aðgengi almennings að náttúru Urriðakotshrauns, sem býr yfir fjölbreyttum náttúru- og menningarminjum og miklum möguleikum til útivistar, náttúruskoðunar og umhverfisfræðslu, m.a. um göngu- og reiðstíga sem liggja um svæðið.

Urriðakotshraun - friðlýsing

Guðlaugur þór, Almar og aðrir viðstaddir friðlýsingu Urriðakotshrauns.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, undirritaði í dag, 10. jan. 2024, friðlýsingu Urriðakotshrauns sem fólkvangs.

Friðlýsingin er staðfest að beiðni Garðabæjar og landeigendanna, Styrktar- og líknarsjóðs Oddfellowa, og unnin í samstarfi ráðuneytisins og Umhverfisstofnunar.

Urriðakotshraun er hluti af Búrfellshrauni sem rann fyrir um 8100 árum og er þar nokkuð um hraunhella. Markmið friðlýsingarinnar er einnig að vernda jarð- og hraunmyndanir sem og menningarminjar Urriðakotshrauns, sem eru fágætar á heimsvísu, sem og náttúrulegt gróðurfar svæðisins.

Urriðakotshraun - friðlýsing

Hið friðlýsta svæði Urriðakotshrauns.

„Það er afskaplega gott þegar hægt er að ljúka verkefnum svona farsællega eins og þessu. Friðun fólkvangsins hefur mikla þýðingu fyrir Garðbæinga, þetta verður til þess að samfella er í þeim svæðum sem eru friðlýst og heildarsýn er að myndast. Mér finnst líka gott í heilsueflandi samfélagi að greiða aðgengi almennings að þessu svæði á sama tíma og við verndum það,” segir Almar Guðmundsson bæjarstjóri.

Hið friðlýsta svæði er 1,05 km2 að stærð, en samhliða vinnu við friðlýsingu var unnið deiliskipulag fyrir svæðið sem nú hefur verið staðfest og auglýst af Skipulagsstofnun.

Deiliskipulagið gerir ráð fyrir að í náinni framtíð verði lögð golfbraut sem er hluti af golfvellinum Urriðavelli innan fólkvangsins.

Urriðakotshraun - friðlýsing

Urriðakotshraun og nágrenni.

Fólkvangurinn í Urriðakotshrauni er mikilvægur hlekkur í röð friðlýstra svæða sem nær frá upplandi Garðabæjar nær óslitið til sjávar.

Svæðin sem um er að ræða eru: Reykjanesfólkvangur (friðlýst 1975), Búrfell (friðlýst 2020), Garðahraun efra og neðra, Vífilsstaðahraun og Maríuhellar (friðlýst 2021), Gálgahraun (friðlýst 2009) og innan marka Garðabæjar (friðlýst 2009) og Bessastaðanes (friðlýst 2023) og nú bætist Urriðakotshraun við net verndarsvæða Garðabæjar.

Heimild:
-https://www.gardabaer.is/stjornsysla/utgefid-efni/frettir/urridakotshraun-fridlyst-sem-folkvangur

Urriðakotshraun - friðlýsing

Svæðið, sem friðlýst var í umræddum áfanga.

Bessastaðanes

Á vef Umhverfisstofnunar 30. júní 2023 mátti lesa eftirfarandi:

Bessastaðanes

Pótintátar hinna ýmsu stofnana voru viðstaddir friðlýsingar Bessastaðarness.

 “Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra staðfesti í dag Bessastaðanes sem friðland við hátíðlega athöfn að viðstöddum Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands og Almari Guðmundssyni bæjarstjóra Garðabæjar.

Á Bessastaðanesi eru fjölbreyttar fjörur og grunnsævi með auðugu lífríki sem eru mikilvæg fæðusvæði fugla. Í Lambhúsatjörn er m.a. vistgerðin marhálmsgræður sem er mikilvæg fæða fyrir ýmsar andfuglategundir s.s. margæsir.

Bessastaðir

Bessastaðir og Lambhús – uppdráttur danskra frá 1903.

Svæðið er viðkomustaður margæsar og rauðbrystings en auk þess er þar æðarfugl, sendlingur og tildra sem hafa alþjóðlegt verndargildi. Stórir máfar og hávella eru algengir vetrargestir og hundruð tjalda, stelka og lóuþræla koma þar við á fartíma. Fuglalíf er fjölbreytt allt árið og er mikilvægur viðkomustaður farfugla og sjaldgæfra fuglategunda.

Á Bessastaðanesi eru tún og akurlendi en einnig votlendi sem einkennist af vistgerðunum starungsmýravist, gulstaraflóavist og grasengjavist. Língresi- og vingulsvist er á allstórum flákum inni á miðju nesinu og á svokölluðum Rana.

Verndargildi vistgerðanna er miðlungs til mjög hás og eru votlendisvistgerðirnar og marhálmsgræður á lista Bernarsamningsins yfir vistgerðir sem þarfnast verndar.
Friðlandið er 4,45 km2 að stærð.

Bessastaðanes

Bessastaðanes – uppdráttur ÓSÁ.

Friðlýsing svæðisins miðar að því að vernda og varðveita til framtíðar náttúrulegt ástand svæðisins sem búsvæði fugla og mikilvægt viðkomusvæði farfugla. Markmiðið er einnig að vernda líffræðilega fjölbreytni svæðisins, lífríki í fjöru, grunnsævi, hafsbotni og vatnsbol, einkum með tilliti til fuglalífs. Jafnframt er markmiðið að vernda fræðslu- og útivistargildi svæðisins sem felst m.a. í líffræðilegri fjölbreytni, auðugu lífríki og tækifærum til útivistar.
Umhverfisstofnun hefur umsjón með friðlandinu og ber ábyrgð á gerð stjórnunar- og verndaráætlunar í samvinnu við embætti forseta Íslands, Garðabæ, Minjastofnun Íslands og fleiri hagsmunaaðila.

Bessastaðanes

Bessastaðanes – örnefni og minjar.

Bessastaðanes er hluti af alþjóðlega mikilvægu fuglasvæði Skerjafjarðar. Fuglalíf er fjölbreytt allt árið og svæðið er mikilvægur viðkomustaður farfugla og sjaldgæfra fuglategunda.
Á svæðinu eru jafnframt fjölbreyttar fjörur og grunnsævi með auðugu lífríki sem eru mikilvæg fæðusvæði fugla. Í Lambhúsatjörn er m.a. vistgerðin marhálmsgræður sem einkennist af fínkornóttu seti með beðum af marhálmi sem hefur takmarkaða útbreiðslu og er mikilvæg fæða fyrir ýmsar andfuglategundir s.s. margæsir.

Bessastaðir

Bessastaðir.

Á Bessastaðanesi eru tún og akurlendi en einnig votlendi. Verndargildi vistgerðanna á svæðinu er frá því að vera miðlungs hátt og upp í mjög hátt og eru votlendisvistgerðirnar starungsmýravist, gulstaraflóavist og marhálmsgræður á lista Bernarsamningsins yfir vistgerðir sem þarfnast verndar.

Fræðslugildi svæðisins er hátt með tilliti til lífríkis og menningarminja en þar er fjöldi menningarminja.

Skansinn

Skansinn á Bessastaðanesi – uppdráttur ÓSÁ.

Á Bessastaðanesi er þjóðhöfðingjasetur.

Markmið friðlýsingarinnar
Markmið friðlýsingarinnar er að vernda og varðveita til framtíðar náttúrulegt ástand svæðisins sem búsvæði fugla og mikilvægt viðkomusvæði farfugla.

Markmiðið er einnig að vernda líffræðilega fjölbreytni svæðisins, lífríki í fjöru, grunnsævi, hafsbotni og vatnsbol, einkum með tilliti til fugla. Jafnframt er markmiðið að vernda fræðslu- og útivistargildi svæðisins sem felst m.a. í líffræðilegri fjölbreytni, auðugu lífríki, tækifærum til útivistar innan þéttbýlis og nýtingar sem samrýmist verndun búsvæða fugla.
Svæðið er 4,45km2 að stærð.”

HÉR má sjá texta “Friðlýsingunnar”.

Heimild:
-https://ust.is/nattura/natturuverndarsvaedi/fridlyst-svaedi/sudvesturland/bessastadanes/

Bessastaðanes

Bessastaðanes – friðlýsing; kort.

Maríuhellar

Maríuhellar eru hraunrásarhellar í Svínahrauni rétt norðaustan við vegamót Flóttavegar og Heiðmerkurvegar, á mörkum Urriðakots og Vífilsstaða. Hraunið er komið úr Búrfelli ofan Hafnarfjarðar. Hellarnir eru þrír: Vífilsstaðahellir, Urriðakotshellir og Draugahellir. Sumir vilja bæta fjórða hellinum í hópinn sem er þar skammt frá og hefur á seinni árum verið nefndur Jósepshellir. Tveir fyrstnefndu hellarnir voru fyrrum notaðir sem fjárhellar og stundum nefndir svo (Fjárhellrar).

Maríuhellar

Maríuhellar.

Nyrðri hellirinn var notaður frá Vífilsstöðum, en hinn frá Urriðakoti. Í landamerkjalýsingu Urriðakots frá 1890 er talað um „Fjárhellra mót Vífilsstöðum sem fyrrum hjetu Maríuhellrar.“ Talið er að nafnið Maríuhellar sé dregið af því að fyrrum voru hellarnir í eigu Viðeyjarklausturs, en klaustrið og kirkjan þar voru helguð Maríu guðsmóður.

Á Vísindavef HÍ er spurt; “Hvers vegna heita Maríuhellar í Heiðmörk þessu nafni?” Svavar Sigmundsson, fyrrv. forstöðumaður Örnefnastofnunar, svarar:

Maríuhellar

Maríuhellar.

“Maríuhellar eru tveir hellar í Svínahrauni rétt norðaustan við vegamót Flóttavegar og Heiðmerkurvegar, á mörkum Urriðakots og Vífilsstaða. Hellarnir voru fyrrum notaðir sem fjárhellar og stundum nefndir svo (Fjárhellrar).
Nyrðri hellirinn var notaður frá Vífilsstöðum, en hinn frá Urriðakoti. Þessir hellar eru oftast kallaðir Vífilsstaðahellar. Í landamerkjalýsingu Urriðakots frá 1890 er talað um „Fjárhellra mót Vífilsstöðum sem fyrrum hjetu Maríuhellrar“ (Örnefnaskrá Urriðakots; Guðlaugur Rúnar Guðmundsson: Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar. Safn til sögu Garðabæjar III. 2001, bls. 30, 37, 123).

Maríuhellar

Maríuhellar – kort.

Vitað er um Máríuhella (flt.) á einum öðrum stað. Það er í Kollabæ í Fljótshlíð, þar sem þrír skútar bera þetta nafn. Þar voru hafðir sauðir sem gengu að mestu úti (Örnefnaskrá). Maríuhellir er líka í Brynjudal í Kjós. Hann var fyrr á tímum gott skjól fyrir sauðfé (Árbók Ferðafélags Íslands 1985, bls. 191).
Ekki er vitað hvernig nafnið Maríuhellar er til komið en líklegt er að þeir séu kenndir við Maríu guðsmóður, það hafi verið talið gott til verndar fé að kenna fjárhella við hana. Vífilsstaðir voru eign Garðakirkju á 19. öld, kirkjan var þó ekki helguð Maríu, en mynd hennar var í eigu kirkjunnar (Íslenzkt fornbréfasafn IV:107-108; Margaret Cormack, The Saints in Iceland 1994, 185).
Þess má geta að til er alþýðleg bæn fyrir fé í haga, þar sem Sankti María er nefnd (Fagrar heyrði ég raddirnar 1942, bls. 11-12). María verndaði bæði fólk og fé með möttli sínum, samkvæmt finnskri trú (Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder 11:374).
Kvenmannsnafnið María varð ekki algengt hér fyrr en á 18. öld en ólíklegt er að hellar þessir séu kenndir við íslenskar konur með þessu nafni.”

Maríuhellar

Í Maríuhellum.

Árið 2014 var neðri hluti Urriðahrauns og Maríuhellar friðlýstir sem fólkvangur. Friðlýsingin var endurskoðuð 2021 og fólkvangurinn stækkaður upp í vestari hluta Selgjár.
Í auglýsingunni “um stofnun fólkvangs í Garðahrauni, Vífilsstaðahrauni og Maríuhellum í Garðabæ” segir í 1. gr.:

“Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur ákveðið að tillögu Garðabæjar og að fengnu áliti Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands að friðlýsa Garðahraun, Vífilsstaðahraun (Svínahraun) og Maríuhella sem fólkvang samkvæmt 55. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999.
Garðahraun og Vífilsstaðahraun (Svínahraun) eru hlutar hins svokallaða Búrfellshrauns.

Draugshellir

Í Draugshelli.

Hraunin eiga uppruna sinn í Búrfellseldstöðinni og eru talin vera um 8000 ára gömul. Meginhraunstraumurinn rann til sjávar til norðurs og nefnist þar Gálgahraun og var það friðlýst með auglýsingu nr. 877/2009. Svæðin eru aðgengileg og henta vel til útivistar, fræðslu og rannsókna fyrir áhugamenn jafnt sem vísindamenn. Hraunsvæðin eru ekki samfelld.
Hin friðlýstu svæði eru alls 156,3 ha að flatarmáli.”

Heimildir:
-https://is.wikipedia.org/wiki/Mar%C3%ADuhellar
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=3986
-Nr. 510 30. apríl 2014 – Auglýsing um stofnun fólkvangs í Garðahrauni, Vífilsstaðahrauni og Maríuhellum í Garðabæ.

Maríuhellar

Maríuhellar – kort af  neðra friðlýsingarsvæðinu.

Seltjarnarnes

Valhúsahæð var friðlýst sem náttúruvætti árið 1998. Á Valhúsahæð er rákað berg eftir ísaldarjökul. Þaðan er víðsýnt um Faxaflóa. Hæðin ber nafn sitt af húsum sem fyrr á öldum geymdu veiðifálka Danakonungs. Valhúsahæð er hæsti staður á Seltjarnarnesi í 31 m hæð yfir sjó.

Seltjarnarnes

Valhúsahæð – loftmynd.

Á Valhúsahæð er graslendi, lítt grónir melar, mólendistorfur og votlendisblettir. Þar er að finna fjölda tegunda t.d. olurt, túnvingul, blóðberg, vallelftingu, krossmöðru, gulmöðru, túnfífla, blávingul, vallhæru, axhæru, vallarsveifgras, hvítmöðru, klóelftingu, vallhumal, kattartungu, gleym-mér-ei, umfeðming, grávíðir, þursaskegg, túnvingul, mosajafna, krækilyng, mósef, brjóstagras, gullmuru, lógresi, friggjargras, mýrfjólu, þrenningarfjólu, njóla, túnsúru, brennisóley og maríustakk svo eitthvað sé nefnt.

Seltjanarnes

Valhúsahæð – hernaðarmannvirki.

Jarðfræði á Valhúsahæð er margbreytileg en þar er að finna laus jarðlög, basalthraunlög (grágrýti) og jökulrákir. Einnig er vel hugsanlegt að forna eldstöð sé að finna á Valhúsahæð. Aldur grágrýtishraunanna á Seltjarnarnesi er nokkuð óljós, en talið er að þau hafi myndast á næst síðasta hlýskeiði. Laus jökulruðningur sem þar er að finna er væntanlega frá lokum síðasta jökulskeiðs. Á Valhúsahæð má skoða minjar sem tengjast hersetu og sögu hernámsins hér á landi í seinni heimstyrjöldinni

Seltjarnarnes

Valhúsahæð – letursteinn.

Stærð náttúruvættisins er 1,7 ha.

Heimild:
Umhverfisstofnun | Valhúsahæð, Seltjarnarnesi (ust.is)

Seltjarnarnes

Valhúsahæð – friðlýsingarmörk.

Rjúpa

Brennisteinsfjöll voru þann 24. apríl 2020 friðlýst gagnvart orkuvinnslu á grundvelli 53. gr. laga nr. 60/2013, um náttúruvernd og sbr. ályktun Alþingis nr. 13/141, frá 14. janúar 2013. Verndarsvæðið er 123.131 km² að stærð.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – Kistufellsgígur.

Í mbl.is 25.4.2020 segir: “Brennisteinsfjöll friðlýst“.
“Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, undirritaði í dag á Degi umhverfisins, friðlýsingu háhitasvæðis Brennisteinsfjalla á Reykjanesskaga í samræmi við lög um verndar- og orkunýtingaráætlun.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá stjórnarráðinu.

Guðmundur

Guðmundur Ingi Guðbrandsson.

Tekið er fram að verndarsvæðið sé 123 ferkílómetrar að stærð og liggi í 400-500 metra hæð milli Kleifarvatns og Heiðarinnar há. Um sé að ræða stærsta óbyggða víðerni sem eftir sé í nágrenni höfuðborgarsvæðisins þar sem finna megi ósnortnar gosminjar og minjar um brennisteinsnám, en einnig kjarri vaxið svæði við Herdísarvík.
„Í eldstöðvakerfi Brennisteinsfjalla er að finna skýrt afmarkaða gos- og sprungurein en einnig dyngjur og er Kistufell þeirra mest. Brennisteinsnám var stundað á svæðinu í nokkur ár milli 1876 og 1883 og sjást ummerki þess enn í hrauninu. Með friðlýsingunni er háhitasvæði Brennisteinsfjalla verndað gegn orkuvinnslu yfir 50MW í varmaafli. Friðlýsingin nær ekki til annarra þátta en orkuvinnslu,“ segir í tilkynningunni.
Bent er á að friðlýsing háhitasvæðis Brennisteinsfjalla gegn orkuvinnslu sé hluti af friðlýsingaátaki sem umhverfis- og auðlindaráðherra ýtti úr vör árið 2018.
„Teymi ráðuneytisins og Umhverfisstofnunar vinnur að friðlýsingum svæða í verndarflokki rammaáætlunar, svæða á náttúruverndaráætlunum og svæða sem hafa verið undir álagi ferðamanna, auk annarra friðlýsinga.“

Í Fréttablaðinu 25. apríl 2020 segir:

Brennisteinsfjöll

Í Brennisteinsfjöllum.

Háhitasvæði Brennisteinsfjalla friðlýst á degi umhverfisins
“Háhitasvæði Brennisteinsfjalla á Reykjanesskaga var í dag friðlýst af umhverfis- og auðlindaráðherra, Guðmundi Inga Guðbrandssyni, á sérstökum „degi umhverfisins“. Svæðið er það sjöunda sem ráðherrann friðlýsir.
Friðlýsingin er í samræmi við ákvörðun Alþingis um rammaáætlun frá árinu 2013 en rétt er að taka fram að friðlýsingin nær ekki til annarra þátta en orkuvinnslu. Verndarsvæðið er 123 ferkílómetrar og liggur á milli Kleifarvatns og Heiðarinnar há. Svæðið er stærsta óbyggða víðerni sem eftir er í nágrenni höfuðborgarsvæðisins og má þar finna gosminjar og minjar um brennisteinsnám sem þar var stundað í nokkur ár milli 1876 og 1883.
Umhverfis- og auðlindaráðherra fór af stað með friðlýsingarátak árið 2018 og er þetta sjöunda svæðið sem hann friðlýsir síðan. „Mér er bæði ljúft og skylt að friðlýsa Brennisteinsfjallasvæðið gegn orkuvinnslu á degi umhverfisins,“ segir ráðherrann.
„Við þessa friðlýsingu verður mér sérstaklega hugsað til þeirra forréttinda fyrir íbúa og gesti höfuðborgarsvæðisins að eiga ennþá óbyggð víðerni í nágrenni svæðisins. Háhitasvæðið í Brennisteinsfjöllum er á þessum víðernum. Í þessu felast ómæld verðmæti og þeim fylgir ábyrgð sem við rísum undir í dag með þessari friðlýsingu,“ segir Guðmundur loks.”

AUGLÝSING um verndarsvæði á Reykjanesskaga – háhiti Brennisteinsfjallasvæðis í verndarflokki verndar- og orkunýtingaráætlunar.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – verndarsvæðið.

1. gr.
Um friðlýsinguna.
Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur ákveðið, á grundvelli verndarflokks þingsályktunar nr. 13/141 um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, frá 14. janúar 2013, að friðlýsa háhitasvæði Brennisteinsfjalla: 68 Brennisteinsfjöll í Grindavíkurbæ, Hafnarfjarðarkaupstað og Sveitarfélaginu Ölfusi gagnvart orkuvinnslu á grundvelli 53. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd.
Verndarsvæðið er 123 km² að stærð.

2. gr.
Markmið friðlýsingarinnar.
Tilgangur og markmið friðlýsingarinnar er að vernda háhitasvæði Brennisteinsfjalla: 68 Brennisteinsfjöll gegn orkuvinnslu, sbr. 1. gr.

3. gr.
Mörk verndarsvæðisins.
Mörk verndarsvæðisins eru sýnd á korti og afmarkast af þeim hnitum sem gefin eru upp í ISN93 hnitakerfi í viðauka I, sem birtur er með auglýsingu þessari.
Afmörkun jarðhita er dregin eftir útbreiðslu háhita samkvæmt viðnámsmælingum og yfir gíga og nýlega eldvirkni í nálægu landslagi.

4. gr.
Mannvirkjagerð og orkurannsóknir.
Orkuvinnsla varmaafls með uppsett varmaafl 50 MW eða meira innan marka svæðisins er óheimil. Ekki er heimilt að veita leyfi tengd orkurannsóknum eða orkuvinnslu á verndarsvæðinu vegna virkjunar jarðvarma með uppsett varmaafl 50 MW eða meira. Að fengnu samþykki Umhverfisstofnunar og að undangenginni umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands er heimilt að stunda yfirborðsrannsóknir á verndarsvæðinu.

5. gr.
Viðurlög.
Brot gegn friðlýsingu þessari varða sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, sbr. 90. gr. laga um náttúruvernd, nr. 60/2013.

6. gr.
Gildistaka.
Friðlýsingin öðlast þegar gildi.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 25. apríl 2020.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson.

Heimildir:
-https://www.ust.is/nattura/fridlysingar/fridlyst-svaedi-a-rammaaaetlun/brennisteinsfjoll-rammaaaetlun/
-https://www.mbl.is/frettir/innlent/2020/04/25/brennisteinsfjoll_fridlyst/
-https://www.frettabladid.is/frettir/hahitasvaedi-brennisteinsfjalla-fridlyst-degi-umhverfisins/
-https://www.stjornartidindi.is/Advert.aspx?recordID=b2f53425-a55c-4918-a2bc-5e99284b1cdd

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – tóft af húsi námumanna í Námuhvammi.

Selgjá

Á Vísindavef HÍ var spurt; “Hverjar eru helstu fornleifar í Garðabæ?”
Svarið, að hluta, var: “Í Selgjá eru friðlýstar seljasamstæður sem telja má einstakar í sinni röð, byggðar upp við gjárbarmana með baðstofum, eldhúsi, kvíum og stekkjum. Þar er varla þverfótað fyrir margra alda gömlum tóftum.”

Búrfell

Búrfellsgígur.

Á vefsíðu Umhverfisstofnunar árið 2020 er m.a. fjallað um friðlýsingu Búrfells, Búrfellsgjár og Selgjár í Garðabæ friðlýst. Hafa ber í huga að minjarnar í Selgjá höfðu áður verið friðslýstar árið 1964.
“Í dag, 25. júní, undirritaði umhverfis- og auðlindaráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, friðlýsingu Búrfells, Búrfellsgjár og Selgjár í Garðabæ sem náttúruvætti.

Selgjá

Einn Selgjárfjárhellanna – Norðurgjárhellrir.

Svæðið er gott dæmi um jarðmyndanir sem eru sérstakar á landsvísu og hafa hátt vísinda- og fræðslugildi. Jafnframt er svæðið vinsælt útivistarsvæði. Búrfell og hrauntraðir frá gígnum, gjárnar og misgengi eru mjög áberandi í landi. Búrfell er stakur gjall- og klepragígur sem tilheyrir eldstöðvakerfi Krýsuvíkur. Snemma á nútíma fyrir um 8100 árum rann úr Búrfelli Búrfellshraun sem hefur breytilega ásýnd eftir svæðum. Innan svæðisins er talsvert af menningarminjum s.s. fjárskjól og seljarústir sem telja má einstakar í sinni röð, byggðar við gjárbarmana með baðstofum, eldhúsi, kvíum og stekkjum. Hluti svæðisins hefur verið friðlýstur sem hluti af Reykjanesfólkvangi síðan 1975.

Búrfellsgjá

Selgjá og nálæg friðlýsingarsvæði.

Markmið friðlýsingarinnar er að vernda jarðmyndanir, eldhraun, eldstöð og hraunhella sem myndast hafa eftir að jökull hvarf af landinu á síðjökultíma. Markmið friðlýsingarinnar er einnig að varðveita náttúrulegt gróður- og dýralíf svæðisins. Verndargildi svæðisins felst fyrst og fremst í jarðfræðinni og jarðmyndunum svæðisins. Markmið friðlýsingarinnar er jafnframt að auðvelda almenningi aðgengi og kynni af náttúruminjum þar sem svæðið er aðgengilegt og tilvalið til fræðslu og útivistar vegna nálægðar við höfuðborgarsvæðið.

Undirritunin fór fram á vettvangi að viðstöddum fulltrúum Umhverfisstofnunar, Garðabæjar, Styrktar- og líknarsjóðs Oddfellowa, umhverfis- og auðlindaráðuneytis auk fleiri gesta.
Að lokinni undirritun var boðið upp á fræðslugöngu um svæðið sem var leidd af Snæbirni Guðmundssyni jarðfræðingi.”

Búrfell, Búrfellsgjá og Selgjá í Garðabæ var sem sagt friðlýst sem náttúruvætti þann 25. júní 2020.

“Svæðið er mjög gott dæmi um jarðmyndanir sem eru sérstakar á landsvísu og hafa hátt vísinda- og fræðslugildi. Búrfell og hrauntraðir frá gígnum, gjárnar og misgengi eru mjög áberandi í landi. Búrfell er stakur gjall- og klepragígur sem tilheyrir eldstöðvakerfi Krýsuvíkur. Snemma á nútíma fyrir um 8100 árum rann úr Búrfelli Búrfellshraun sem hefur breytilega ásýnd eftir svæðum. Næst upptökunum í Búrfelli er hraunið slétt helluhraun með hrauntröðum eða hraunrásum með hellum. Fjær upptökunum er það klumpahraun. Innan svæðisins er talsvert af menningarminjum s.s. fjárskjól og seljarústir sem telja má einstakar í sinni röð, byggðar við gjárbarmana með baðstofum, eldhúsi, kvíum og stekkjum. Hluti svæðisins hefur verið friðlýstur sem hluti af Reykjanesfólkvangi síðan 1975.

Svæðið er 380 ha að stærð.”

Selgjá

Skilti við Selgjá.

Í auglýsingu á vef Umhverfisstofnunar “nr. 687 25. júní 2020 um friðlýsingu Búrfells, Búrfellsgjár og Selgjár í Garðabæ”, segir:

1. gr.
Um friðlýsinguna.
Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur ákveðið að tillögu Garðabæjar, Styrktar- og líknarsjóðs Oddfellowa og Umhverfisstofnunar að friðlýsa Búrfell, Búrfellsgjá og Selgjá sem náttúruvætti skv. 48. gr. laga um náttúruvernd nr. 60/2013.
Búrfell er stakur gjall- og klepragígur sem tilheyrir eldstöðvakerfi Krýsuvíkur. Snemma á nútíma fyrir um 8100 árum rann úr Búrfelli Búrfellshraun sem hefur breytilega ásýnd eftir svæðum.
Næst upptökunum í Búrfelli er hraunið slétt helluhraun með hrauntröðum eða hraunrásum með hellum. Fjær upptökunum er það klumpahraun.
Merkar hrauntraðir eru í helluhraununum næst Búrfelli. Kringlóttagjá er sunnan við Búrfell og Lambagjá við Kaldársel. Búrfellsgjá og Selgjá liggja frá Búrfelli að Urriðakotshrauni. Þær eru í raun sama hrauntröðin, en hún skiptir um nafn við Hrafnagjá. Næst gígnum er Búrfellsgjá þröng og með bröttum veggjum. Þegar kemur niður á jafnsléttu verður hún lægri og víðari. Selgjá er slétt og breið með lágum veggjum. Hún hverfur á kafla þar sem hraunrásir með hellum taka við, en kemur aftur fram á kafla norðar í Heiðmörk. Fjölmargir hraunhellar og skútar eru í Búrfellshrauni. Margir þeirra hafa nýst sem fjárhellar og eru hleðslur við suma þeirra. Langflestir þeirra eru hraunrásarhellar sem myndast þegar hraunrásir tæmast. Margir slíkir eru rétt norðan við enda Selgjár og kallast þeir einu nafni Selgjárhellar. Fjölmargar sprungur og misgengi eru á svæðinu. Stefna þeirra er í langflestum tilvikum til norðausturs. Mestu og virkustu misgengin eru á mörkum Selgjár og Búrfells. Þar gengur Hjallamisgengið þvert yfir hraunið ásamt nokkrum minni misgengjum, þ. á m. Hrafnagjá og Vatnsgjá.
Helstu vistgerðir innan svæðisins eru birkiskógur. Þar er einnig að finna hraunlendi þar sem er fyrst og fremst um að ræða mosahraunavist en einnig lynghraunavist á milli og á stöku stað eyðihraunavist. Á skjólgóðum svæðum sem liggja lægra í landi er að finna lyngmóavist og grasmóavist.
Innan svæðisins er talsvert um friðlýstar fornminjar, fjárskjól og seljarústir sem telja má einstakar í sinni röð byggðar upp við gjárbarmana með baðstofum, eldhúsi, kvíum og stekkjum. Gjáarétt liggur í vesturenda Búrfellsgjár auk fyrirhleðsla, réttargerðis og vatnsbólsins Vatnsgjár. Menningarminjarnar eru friðlýstar samkvæmt lögum um menningarminjar nr. 80/2012.
Svæðið er kjörið til útivistar, umhverfisfræðslu, og rannsókna, en Búrfell og nágrenni er vinsælt
útivistarsvæði. Hluti svæðisins liggur innan Reykjanesfólkvangs.
Hið friðlýsta svæði er 3,4 km2 að stærð.

2. gr.
Markmið friðlýsingarinnar.

Selgjá

Selshellir í Selgjá.

Markmið friðlýsingarinnar er að vernda jarðmyndanir, eldhraun, eldstöð og hraunhella sem myndast hafa eftir að jökull hvarf af landinu á síðjökultíma. Markmið friðlýsingarinnar er einnig að varðveita náttúrulegt gróður- og dýralíf svæðisins. Verndargildi svæðisins felst fyrst og fremst í jarðfræðinni og jarðmyndunum svæðisins. Svæðið er mjög gott dæmi um jarðmyndanir sem eru sérstakar á landsvísu og hafa hátt vísinda- og fræðslugildi. Búrfell og hrauntraðir frá gígnum, gjárnar og misgengi eru mjög áberandi í landi.
Markmið friðlýsingarinnar er jafnframt að auðvelda almenningi aðgengi og kynni af náttúruminjum þar sem svæðið er aðgengilegt og tilvalið til fræðslu og útivistar vegna nálægðar við
höfuðborgarsvæðið.

3. gr.
Mörk náttúruvættisins.
Mörk svæðisins eru sýnd á korti í viðauka I og afmarkast af þeim hnitum sem gefin eru upp í ISN93 hnitakerfi í viðauka II.

4. gr.
Verndun jarðminja.

Selgjá

Þorsteinshellir við Selgjá.

Óheimilt er að hrófla við, raska eða skemma jarðmyndanir innan náttúruvættisins nema til komi sérstakt leyfi frá Umhverfisstofnun og Garðabæ. Til verndunar jarðmyndana er heimilt, að fenginni umsögn frá Náttúrufræðistofnun Íslands, að fjarlægja gróður sem skyggir á jarðmyndanirnar.
Óheimilt er að planta hvers konar plöntum í jarðmyndunum.
Nánar skal fjallað um verndun jarðminja í stjórnunar- og verndaráætlun.

5. gr.
Verndun gróðurs og dýralífs.
Vernda skal náttúrulegt gróðurfar með það að markmiði að ekki verði raskað líffræðilegri
fjölbreytni svæðisins.
Óheimilt er að spilla gróðri, öðrum en ágengum framandi tegundum, nema um sé að ræða gróður sem spillir útsýni að jarðmyndunum á svæðinu. Vinna skal að því að fjarlægja ágengar framandi tegundir plantna og/eða dýra sem hafa verið flutt inn á svæðið eða berast inn á það.
Óheimilt er að trufla dýralíf á svæðinu að undanskildum framandi tegundum.
Óheimilt er að sleppa eða dreifa framandi lífverum á verndarsvæðinu þ.m.t. rækta framandi plöntutegundir í náttúruvættinu sbr. reglugerð um innflutning, ræktun og dreifingu útlendra plöntutegunda nr. 583/2000.
Nánar skal fjalla um verndun gróðurs og dýralífs í stjórnunar- og verndaráætlun.

6. gr.
Vernd menningarminja.
Um vernd menningarminja fer eftir lögum um menningarminjar nr. 80/2012.

7. gr.
Umferð um verndarsvæðið.

Selgjá

B-steinninn í Selgjá.

Almenningi er heimil för um verndarsvæðið en er skylt að ganga vel og snyrtilega um svæðið og fylgja þeim umgengnisreglum sem gilda innan þess. Gestir skulu, eftir fremsta megni, fara eftir þar til gerðum stígum og stikuðum leiðum. Ríðandi mönnum er heimil för um svæðið á merktum reiðleiðum.
Akstur vélknúinna ökutækja utan vega er óheimill, sbr. 31. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Innan náttúruvættisins er óheimilt að hafa næturgistingu í tjöldum, tjaldvögnum, fellihýsum, hjólhýsum, húsbílum og öðrum sambærilegum búnaði.
Öll meðferð elds er óheimil á svæðinu, þ.m.t. notkun ferðagrilla.
Hundar og önnur gæludýr skulu ávallt vera í taumi innan verndarsvæðisins og þess skal gætt að þau séu undir tryggri stjórn og að þau valdi ekki truflun fyrir gesti og dýralíf svæðisins.
Notkun fjarstýrðra loftfara er óheimil innan náttúruvættisins nema að fengnu leyfi frá Umhverfisstofnun. Þó er heimilt að nota fjarstýrð loftför, ef nauðsyn krefur, vegna leitar- og björgunaraðgerða og vegna umsjónar og eftirlits Umhverfisstofnunar. Minjastofnun Íslands hefur sömu heimildir innan friðhelgunarsvæðis menningarminja. Að öðru leyti skal farið eftir reglugerð nr. 990/2017
um starfrækslu fjarstýrðra loftfara.
Nánar skal fjallað um umferð um verndarsvæðið í stjórnunar- og verndaráætlun og deiliskipulagi fyrir svæðið.

8. gr.
Umgengni um verndarsvæðið.
Óheimilt er að skilja eftir eða urða úrgang innan verndarsvæðisins og skal allur úrgangur settur í þar til gerð ílát eða hann tekinn með út af svæðinu.

9. gr.
Umsjón.

Selgjá

Fjárhellir í Selgjá.

Umhverfisstofnun hefur umsjón með verndarsvæðinu í samræmi við 2. mgr. 13. gr. og 79. gr. laga nr. 60/2013.
Umhverfisstofnun getur falið einstaklingum, sveitarfélögum eða öðrum lögaðilum umsjón og rekstur sbr. 85. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Til grundvallar samningi um umsjón og rekstur svæðisins skal liggja fyrir stjórnunar- og verndaráætlun fyrir svæðið. Í samningnum skal m.a. kveðið á um réttindi og skyldur samningsaðila, menntun starfsmanna og gjaldtöku.
Minjastofnun Íslands fer með umsjón menningarminja á svæðinu skv. lögum um menningarminjar nr. 80/2012.

10. gr.
Stjórnunar- og verndaráætlun.
Umhverfisstofnun ber ábyrgð á að gerð sé stjórnunar- og verndaráætlun fyrir friðlýsta svæðið í samræmi við 81. gr. laga nr. 60/2013. Í stjórnunar- og verndaráætlun skal m.a. fjalla um landnýtingu, mannvirkjagerð, starfsemi, menningarminjar, landvörslu, vöktun, verndun, uppbyggingu, fræðslu og miðlun upplýsinga, verndaraðgerðir, aðgengi og umferð gesta, þ. á m. aðgengi fólks með hreyfihömlun.
Stjórnunar- og verndaráætlun skal gerð í samvinnu við Náttúrufræðistofnun Íslands, Minjastofnun Íslands og eftir atvikum aðrar fagstofnanir og hagsmunaaðila.
Stjórnunar- og verndaráætlun er háð staðfestingu ráðherra.

11. gr.
Rannsóknir og vöktun.
Náttúrufræðistofnun Íslands ber ábyrgð á vöktun á verndarsvæðinu, sbr. 74. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Vöktunaráætlun skal vera unnin í samráði við Umhverfisstofnun og vera hluti stjórnunar- og verndaráætlunar.
Aðrar rannsóknir en rannsóknir Náttúrufræðistofnunar Íslands og Minjastofnunar Íslands sem kunna að hafa í för með sér jarðrask eða truflun dýralífs eru háðar leyfi Umhverfisstofnunar.
Veiting leyfa vegna rannsókna á menningarminjum fer eftir lögum um menningarminjar nr. 80/2012.

12. gr.
Fræðsla.

Selgjá

Selgjá.

Umhverfisstofnun, í samstarfi við Garðabæ, hefur frumkvæði að fræðslu um svæðið. Í fræðsluefni skal upplýst um m.a. umgengnisreglur sem gilda á svæðinu og sérstöðu svæðisins.
Nánar skal kveðið á um fræðslu í stjórnunar- og verndaráætlun svæðisins.

13. gr.
Landnotkun og mannvirkjagerð.
Allar framkvæmdir, þ.m.t. mannvirkjagerð og aðrar breytingar á landi innan friðlýsta svæðisins eru háðar leyfi Garðabæjar, sbr. skipulagslög nr. 123/2010 og lög um mannvirki nr. 160/2010 og Umhverfisstofnunar, sbr. 2. mgr. 40. gr. laga um náttúruvernd, nr. 60/2013. Innan friðhelgunarsvæða menningarminja þarf einnig að afla leyfis Minjastofnunar Íslands. Framkvæmdir skulu vera í samræmi við samþykkt deiliskipulag og stjórnunar- og verndaráætlun fyrir svæðið.
Við framkvæmdir, starfsemi, rekstur og önnur umsvif utan friðlýsta svæðisins sem áhrif geta haft á verndargildi þess skal fyllstu aðgæslu gætt.
Vegna starfsemi eða framkvæmda, sem geta haft áhrif á friðlýsta svæðið, sem leyfisskyldar eru samkvæmt öðrum lögum, skal taka mið af því við ákvörðun um veitingu leyfis. Leita skal umsagnar Umhverfisstofnunar áður en leyfi er veitt.
Losun jarðefna og úrgangs er óheimil innan friðlýsta svæðisins.

14. gr.
Starfsemi innan svæðisins.

Selgjá

Fjárhellir í Selgjá.

Afla skal leyfis Umhverfisstofnunar vegna skipulagðra viðburða og verkefna sem kalla á jarðrask, aðstöðu, mannafla eða meðferð tækja innan verndarsvæðisins, s.s. vegna kvikmyndagerðar, listviðburða og samkomuhalds. Innan friðhelgunarsvæða menningarminja þarf einnig að afla leyfis
Minjastofnunar Íslands.
Starfsemi skal vera í samræmi við skipulag svæðisins.
Nánar skal fjallað um starfsemi innan svæðisins í stjórnunar- og verndaráætlun.

15. gr.
Notkun skotvopna.
Notkun skotvopna er bönnuð innan marka náttúruvættisins. Veiðar á ágengum framandi tegundum eru heimilar í samræmi við ákvæði laga nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum enda skulu þær stundaðar á vegum Garðabæjar og í samráði við Umhverfisstofnun.
Nánar skal fjallað um veiðar innan náttúruvættisins í stjórnunar- og verndaráætlun svæðisins.

16. gr.
Viðurlög.
Um brot gegn friðlýsingunni fer samkvæmt lögum nr. 60/2013 um náttúruvernd.

17. gr.
Gildistaka.
Friðlýsingin öðlast þegar gildi.

Bráðabirgðaákvæði.

Selgjá

Stekkur í Selgjá.

Þar til staðfest deiliskipulag og stjórnunar- og verndaráætlun fyrir svæðið liggja fyrir er Umhverfisstofnun heimilt að veita leyfi fyrir framkvæmdum ef þær ganga ekki gegn verndarmarkmiðum friðlýsingarinnar.
Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 25. júní 2020.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson.
Jón Geir Pétursson.

Í Örnefnaskrá 1964 segir um Selgjá: “Grunn en allbreið gjá syðst í Urriðakotshrauni. Nær allt suður í Hrafnagjá, við Gjáarrétt. Í þessari gjá mun vera að finna Norðurhellnasel Álftnesinga 1703.” (A154). Einnig er þar: “Nær hún allt frá Sauðahelli suður á Norðurhellagjárbarm.” (B155). Selgjárbarmar eru tveir, “annar að sunnan, hinn að vestan”, Norðurhellnagjárbarmur syðri er “nær Vífilsstaðahlíð” (A162) en Norðurhellnagjárbarmur vestri “nær Tjarnholtinu” (A154, 162-3).
Í Ódagsettri Örnefnalýsingu segir: “Þegar komið er framhjá Sauðahellisvörðu hallar niður í Selgjána og nefnist þá stígurinn Selgjárstígur. Vestast í Selgjánni er Selgjárhellir Selgjárbyrgin og Selgjárselin eru 33 að tölu, í 11 sambyggingum, því hér höfðu Álftnesingar í seli lengi eða allt fram á 18.öld. Við Selgjárbarminn nyrðri er svokallaður B-steinn steinn með bókstafnum B. Á suðurhlið er svo Selgjárbarmurinn syðri. Við syðsta selið liggur stígurinn upp á barminn og er þar Selgjárvarðan. Þegar kemur hér spölkorn suður er komið að úfnu hrauni fram undan svarthömrum, nefnist Kargi. Selstæðið þarna var einnig nefnt: Norðurhellar, Norðurhellnasel og barmarnir því kallaðir Norðurhellnaselsbarmur nyrðri og Norðurhellnabarmur syðri.” (Bls. 4).”

Selgjá

Eitt seljanna í Selgjá.

Í Örnefnalýsingu 1988 segir: “Úfna hraunið á móts við Svarthamra í Vífilsstaðahlíð kallast Kargi. Suður af Karganum er mikil hrauntröð, Selgjá. Hún er framhald Búrfellsgjár, sem nær upp í Búrfell. Í Selgjá eru rústir af mörgum gömlum byrgjum, og eru sum þeirra í Urriðakotslandi, en flest í Garðakirkjulandi. […] Í landamerkjabréfi er Selgjá nefnd Norðurhellagjá. Er það nafn þá dregið af Selgjárhelli og fleiri hellum í norðurenda hrauntraðarinnar, sem hafa þá heitið Norðurhellar.” Í lýsingu á gjánni frá 1983 segir: “Á vinstri hönd, eða til suðurs, sjáum við af brúninni grunna, en nokkuð breiða gjá í hrauninu, sem er framhald af Búrfellsgjá. Þetta er Selgjá (Norðurhellragjá).

Selgjá

Selgjá – selsminjar.

Í Selgjá eru margar vallgrónar seljarústir, sem flestar eru fremur smáar í sniðum og minni en t.d. Vífilsstaðasel. Rústirnar standa flestar þétt við barma gjárinnar beggja vegna, en aðrar eru dálítið fjær. Selstaða þessi er nefnd í Jarðabók 1703 og virðast samkvæmt henni átta kóngsjarðir á Álftanesi hafa haft þar í seli. Athyglisvert er, að ávallt er rætt um selstöðu þarna í þátíð og jafnvel þannig, að hún virðist að því komin að falla í gleymsku.” (Þ.J. og Ó.K.: 27). Minjarnar í Selgjá eru friðlýstar: “Urriðavatn: Seltóftir margar, hellar og önnur mannvirki í og við norðurenda Selgjár. Skjal undirritað af KE 30.04.1964. Þinglýst 05.05.1964.”

Selgjá

Selgjá – Norðurhellahellrir.

Sjá meira HÉR um minjarnar í Selgjá.

Heimildir
-Ari Gíslason: Ódagsett örnefnalýsing Urriðakots. 1990, Fornleifaskrá Skrá um friðlýstar fornleifar. Ágúst Ó. Georgsson tók saman.
-Gísli Sigurðsson: 1964, Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álftaneshreppi hinum forna: Bessastaðahreppi: Garðahreppi: Hafnarfirði og Hraunum: Urriðakot nr. A154, 158, 162-3 / B155, 167-8.
-Svanur Pálsson, 1978, bætt 1988: Örnefnalýsing Urriðakots skráð eftir Guðbjörgu Guðmundsdóttur frá Urriðakoti.
-Þorkell Jóhannesson og Óttar Kjartansson, 1983: “Fjórar leiðir í Gjáarétt”. Hesturinn okkar. Bls. 46-59. Rvk.
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=28813
-https://ust.is/umhverfisstofnun/frettir/stok-frett/2020/06/25/Burfell-Burfellsgja-og-Selgja-i-Gardabae-fridlyst/
-https://ust.is/nattura/natturuverndarsvaedi/fridlyst-svaedi/sudvesturland/burfell-gardabae/
-https://ferlir.is/selgja-selin/

Sel í Selgjá

Sel í Selgjá – uppdráttur ÓSÁ.