Tag Archive for: Friðlýst svæði

Sogin

Eftirfarandi friðlýsingar má finna á Reykjanesskaganum sbr. vefsíðu Umhverfisstofnunar:

-Akurey (Rvík)
-Álafoss (Mosf.)
-Ástjörn (Hafn.)

Tröllabörn

Tröllabörn.

-Ástjörn og Ásfjall (Hafn.)
-Bakkatjörn (Seltj.)
-Bláfjöll
-Borgir (Kóp.)
-Bringur (Mosf.)
-Búrfell (Garðab.)
-Bláfjöll (Rvík)
-Eldborg (Grindav.)
-Eldey (Reykjanesb.)
-Fjaran við Kastúsatjörn (Seltj.)
-Fossvogsbakkar (Rvík)
-Garðahraun (Gardab.)
-Gálgahraun (Gardab.)

Tungufoss

Tungufoss.

-Grótta (Seltj.)

-Hamarinn (Hafn.)
-Háubakkar (Rvík)
-Hleinar (Hafn.)
-Hlið (Álftan.)
-Hvaleyrarlón og Hvaleyrarhöfði (Hafn.)
-Kaldárhraun og Gjárnar (Hafn.)
-Kasthúsatjörn (Álftan.)
-Laugarás (Rvík)
-Litluborgi (Hafn.)
-Rauðhólar (Rvík)

Valhúsahæð

Valhúsahæð.

-Reykjanesfólkvangur
-Skerjafjörður (Garðab.)
-Skerjafjörður (Kóp.)
-Stekkjarhraun (Hafn.)

-Tröllabörn (Kóp.)
-Tungufoss (Mosf.)
-Valhúsahæð (Seltj.)
-Varmárósar (Mosf.)
-Vífilsstaðavatn (Garðab.)
-Víghólar (Kóp.)

Akurey

Akurey

Akurey – friðlýsing.

Akurey er lág og vel gróin eyja í Kollafirði, um 6,6 hektarar að stærð, norðaustan við Seltjarnarnes.Akurey flokkast sem alþjóðlega mikilvæg sjófuglabyggð en í eynni verpa ýmsir sjófuglar eins og lundi sem er langalgengastur, sílamáfur, æðarfugl og teista, jafnframt er Akurey mikilvæg vetrarstöð fyrir skarfa.

Markmiðið með friðlýsingu Akureyjar er að stuðla að vernd líffræðilegar fjölbreytni með því að vernda alþjóðlega mikilvægt fuglasvæði í Reykjavík.

Í reglum um friðlandið er meðal annars kveðið á um að flug ómannaðra loftfara er óheimilt, þá er óheimilt að fara í land í Akurey nema með leyfi Umhverfisstofnunar og Reykjavíkurborgar.
Ákvæðið á þó ekki við um umsjónaraðila. Þá kemur einnig fram að óheimilt er að spilla gróðri og trufla dýralíf innan friðlandsins. Varðandi landnotkun þá er heimilt að nýta æðarfugl og sílamáf.
Umhverfisstofnun getur veitt leyfi til athafna í friðlandinu, s.s. til ljósmynda- og kvikmyndatöku.

Álafoss

Álafoss

Álafoss – friðlýsing.

Umhverfisráðherra hefur að tillögu sveitarfélagsins Mosfellsbæjar og að fengnu áliti Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands ákveðið að friðlýsa Álafoss og nánasta umhverfi hans. Landsvæðið er friðlýst sem náttúruvætti, skv. 2. tölul. 1. mgr. 53. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999.

Álafoss er fallegur foss í Varmá þar sem hún liðast í gegnum Álafosskvos í Mosfellsbæ. Varmá er á náttúruminjaskrá frá upptökum til ósa en áin og fossinn tengjast ríkulega atvinnu- og íþróttasögu Mosfellsbæjar. Árið 1896 hófst ullarvinnsla við Álafoss og vegna þeirrar starfsemi var áin stífluð ofan við fossinn. Myndaðist þá talsvert dýpi í ylvolgri Varmánni sem notað var til sundiðkunar og dýfinga. Má enn sjá leifar af tveimur dýfingarpöllum ofan við fossinn sem og leifar af stíflunni.

Álafoss

Álafoss.

Hið friðlýsta svæði er 1,4 hektarar að stærð og nær yfir fossinn, töluvert svæði ofan og neðan hans og einnig skóglendi í svonefndu Álanesi sem er einn af eldri skógum bæjar­ins.

Markmiðið með friðlýsingu Álafoss sem náttúruvættis er að vernda fossinn sjálfan, nánasta umhverfi hans sem og menningarminjar sem tengjast sögu og þróun Mosfells­bæjar. Svæðið er fjölsótt, bæði af bæjarbúum og öðrum gestum og mikilvægt að treysta útivistar- og fræðslugildi þess.

Ástjörn

Ástjörn

Ástjörn – friðlýsing.

Ástjörn og svæðið umhverfis hana var friðlýst árið 1978. Í desember 1996 var verndarsvæðið stækkað með stofnun fólkvangs við Ástjörn og Ásfjall umhverfis friðlandið.

Ástjörn er einstætt náttúrufyrirbæri sem á sér enga hliðstæðu í næsta nágrenni hins nær samfellda þéttbýlis höfuðborgarsvæðisins. Tjörnin og svæðið umhverfis hana einkennist af mjög auðugu gróður- og dýralífi. Þar er t.d. að finna eina flórgoðavarpið á Suðvesturlandi en tegundinni hefur fækkað til muna frá því sem var á fyrri hluta 20. Aldar og er flórgoði alfriðuð tegund og á válista. Í tjörninni er mikið smádýralíf sem er þó lítt rannsakað.

Ástjörn

Ástjörn og Ásfjall.

Ástjörn við Hafnarfjörð er í kvos vestan undir Ásfjalli. Bakkar tjarnarinnar eru raklendir og að norðaustanverðu er stórt mýrarstykki niður undan gamla Ásbænum.
Upp af votlendinu taka við þurrir grýttir móar sem eru að gróa upp og hefur trjám verið plantað í þá norðan og austan megin við tjörnina. Tvö gömul tún eru norðan tjarnarinnar, annars vegar við Stekk og hins vegar við Ás.

Ástjörn og Ásfjall

Ástjörn og Ásfjall

Ástjörn og Ásfjall – friðlýsing.

Ástjörn og Ásfjall var friðlýst sem fólkvangur árið 1996. Fólkvangurinn umlykur friðland Ástjarnar en Ástjörn og svæðið umhverfis hana var friðlýst árið 1978. Útsýni af fjallinu er gott og sérstaklega áhugavert fyrir áhugafólk um jarðfræði og sögu höfuðborgarsvæðisins. Á Ásfjalli eru minjar um hersetu fyrr á öldinni.

Ástjörn er einstætt náttúrufyrirbæri sem á sér enga hliðstæðu í næsta nágrenni hins nær samfellda þéttbýlis höfuðborgarsvæðisins. Tjörnin og svæðið umhverfis hana einkennist af mjög auðugu gróður- og dýralífi. Þar er t.d. að finna eina flórgoðavarpið á Suðvesturlandi en tegundinni hefur fækkað til muna frá því sem var á fyrri hluta 20. aldar og er flórgoði alfriðuð tegund og á válista. Í tjörninni er mikið smádýralíf sem er þó lítt rannsakað.

Stærð fólkvangsins er 56,9 ha.

Bakkatjörn

Bakkatjörn

Bakkatjörn – friðlýsing.

Bakkatjörn var friðlýst árið 2000. Bakkatjörn er ísölt tjörn og hefur svo verið frá um 1960 þegar lokað var fyrir leirvog sem þar var. Lægð kölluð Rásin tengdi áður Bakkatjörn og Seftjörn en sú síðarnefnda er nú horfin undir byggð.

Umhverfis Bakkatjörn er graslendi í sendnum jarðvegi og votlendi. Þær tegundir sem finna má innan friðlandsins eru m.a. melgresi, skriðlíngresi, tágamura, lokasjóður, mýrasauðlaukur, njóli, túnvingull, vallarsveifgras, klóelfting, mýrastör, knjáliðagras, lófótur, hálmgresi, gulstör, hrafnaklukka, vætuskúfur (vætusef), baldursbrá, fjöruarfi, fjörukál, hjartaarfi, vallhumall, snarrótarpunktur, túnvingull, gullvöndur, engjavöndur, hnúskakrækill, umfeðmingur, mýrasóley, augnfró, túnsúra, skarifífill, brennisóley, maríustakkur, gleym-mér-ei, hvítsmári, vallhæra og skriðlíngresi. Í blautustu lænunum vaxa lófótur, gulstör, mýrastör ásamt hrafnafífu, klófífu, hófsóley, skriðlíngresi, vætusefi, mýrasauðlauk og knjáliðagrasi.

Stærð friðlandsins er 14,9 ha.

Bláfjöll

Bláfjöll

Bláfjöll – friðlýsing.

Bláfjallafólkvangur var fyrst friðlýstur árið 1973. Fólkvangurinn er fjallaklasi sem rís hæst 685 m yfir sjávarmál. Vinsælt útivistarsvæði með góðri aðstöðu fyrir skíðafólk.

Aðilar að rekstri fólksvangs þess, sem stofnaður var í Bláfjöllum, sbr. auglýsingu ráðuneytisins nr. 97, 21. mars 1973 eru nú eftirtalin sveitarfélög: Reykjavíkurborg, Kópavogskaupstaður, Seltjarnarneskaupstaður, Hafnarfjarðarkaupstaður, Garðakaupstaður, Keflavíkurkaupstaður,
Njarðvíkurkaupstaður, Selvogshreppur, Miðneshreppur, Gerðahreppur, Vatnsleysustrandarhreppur og Bessastaðahreppur.

Stærð fólkvangsins er 9035 ha.

Borgir

Borgir

Borgir – friðlýsing.

Borgir voru friðlýstar sem náttúruvætti árið 1981. Eftir að jökull hopaði í lok ísaldar, fyrir um 10000 árum, var Borgarholtið sker úti fyrir landi. Hafaldan skolaði burt smágrýti en skildi eftir lágbarða grágrýtis hnullunga sem einkenna holtið.

Mörk friðlýsta svæðisins fylgja jaðri Borga að sunnan. Að vestan liggja mörkin 10-15 m frá lóðarmörkum
aðliggjandi húsa, en 205 m frá þeim að norðan og norðaustan. Að austan fylgja mörkin jaðri Borga að því
undanskildu að utan markanna er um 25 m breið spilda inn að kirkjunni og um 15 m breið landræma
umhverfis hana.

Borgarholt

Borgarholt.

Umhverfis friðlýsta svæðið afmarkast svonefnt jaðarsvæði. Ytri mörk þess liggja 10-15 m utan við mörk
friðlýsta svæðisins að austan og sunnan, en að vestan og norðan eru mörk þess jafnframt lóðamörk.

Stærð náttúruvættisins er 2,8 ha en umhverfis friðlýsta svæðið afmarkast svokallað jaðarsvæði og er stærð þess 1,3 ha.

Bringur

Bringur

Bringur – friðlýsing.

Borgir voru friðlýstar sem náttúruvætti árið 1981. Eftir að jökull hopaði í lok ísaldar, fyrir um 10000 árum, var Borgarholtið sker úti fyrir landi. Hafaldan skolaði burt smágrýti en skildi eftir lágbarða grágrýtis hnullunga sem einkenna holtið.

Stærð náttúruvættisins er 2,8 ha en umhverfis friðlýsta svæðið afmarkast svokallað jaðarsvæði og er stærð þess 1,3 ha.
Bújörðin Bringur varð til sem nýbýli úr landi prestsetursins að Mosfelli árið 1856. Jörðin fór í eyði árið 1966, en þar er að finna talsvert af mannvistarleifum á bæjarstæðinu og heimatúninu. Jörðin Bringur er norðan Köldukvíslar en þaðan er víðsýnt yfir Mosfellsdal og allt til hafs. Handan árinnar, utan fólkvangsins, rís Grímansfell, sem er hæsta fjall Mosfellsbæjar, og rétt við túngarðinn er Helgufoss í Köldukvísl.

Helgusel í Bringum

Helgusel í Bringum. Helgufoss fjær.

Vestan við fossinn eru Helguhvammur, rústir Helgusels og Helguhóll, einnig nefndur Hrafnaklettur. Sagan segir að þar sé mikil huldufólksbyggð. Seljarústirnar vitna um löngu horfna atvinnuhætti þegar búpeningur var hafður í seli yfir sumartímann. Þjóðtrúin hermir að Helgusel sé nefnt eftir Helgu dóttur Bárðar Snæfellsáss, en önnur skýring á nafngiftinni byggir á því að landsvæðið var fyrrum í eigu kirkjustaðarins á Mosfelli og upphafleg merking nafnsins væri þá hið helga sel.

Örskammt frá túnfætinum í Bringum má sjá leifar af þjóðbraut, svonefndum Bringnavegi, sem lagður var árið 1910. Vegur þessi var tengileið milli Mosfellsdals og gamla Þingvallavegarins sem lá yfir Mosfellsheiði til Þingvalla.

Búrfell

Búrfell

Búrfell – friðlýsing.

Svæðið er mjög gott dæmi um jarðmyndanir sem eru sérstakar á landsvísu og hafa hátt vísinda- og fræðslugildi. Búrfell og hrauntraðir frá gígnum, gjárnar og misgengi eru mjög áberandi í landi. Búrfell er stakur gjall- og klepragígur sem tilheyrir eldstöðvakerfi Krýsuvíkur. Snemma á nútíma fyrir um 8100 árum rann úr Búrfelli Búrfellshraun sem hefur breytilega ásýnd eftir svæðum. Næst upptökunum í Búrfelli er hraunið slétt helluhraun með hrauntröðum eða hraunrásum með hellum. Fjær upptökunum er það klumpahraun. Innan svæðisins er talsvert af menningarminjum s.s. fjárskjól og seljarústir sem telja má einstakar í sinni röð, byggðar við gjárbarmana með baðstofum, eldhúsi, kvíum og stekkjum. Hluti svæðisins hefur verið friðlýstur sem hluti af Reykjanesfólkvangi síðan 1975.

Svæðið er 380 ha að stærð.

Eldborg í Bláfjöllum

Bláfjöll

Eldborg í Bláfjöllum – friðlýsing.

Eldborg er einn þriggja gíga af eldborgargerð hjá Kóngsfelli. Eldborg var friðlýst sem náttúruvætti árið 1971.

Fallegt landslag og sérstakar jarðmyndanir einkenna svæðið sem er á vatnsverndarsvæði. Göngustígur liggur frá bílastæði upp á Eldborgina. Haustið 2012 var unnið í göngustígagerð á svæðinu, villustígum var lokað og mosi græddur í sár þar sem villustígar höfðu myndast um gíginn.

Stærð náttúruvættisins er 34,8 ha.

Eldborg í Grindavík (Krýsuvík)

Eldborg

Eldborg undir Geitarhlíð – friðlýsing.

Eldborg undir Geitahlíð var friðlýst árið 1987. Eldborg er hluti af gjallgígaröð og er Stóra-Eldborg meðal fegurstu gíga Suðvesturlands.

Stærð náttúruvættisins er 100,5 ha.

Eldey
Eldey var friðlýst árið 1974 og er hún 77 metra há þverhnípt klettaeyja suður af Reykjanesi. Í Eldey er ein stærsta súlubyggð sem þekkist í heiminum og óhætt að segja að á sumrin sé eyjan þakin súlu. Óheimilt er að fara í eyna án leyfis Umhverfisstofnunar og til verndar fuglalífi eru skot bönnuð nær eynni en 2 km.

Stærð Eldeyjar er 2 hektarar.

Fjaran við Kasthúsatjörn

Kasthúsatjörn

Kasthúsatjörn – friðlýsing.

Aðliggjandi fjara við Kasthúsatjörn var friðlýst sem fólkvangur árið 2002. Markmið með friðlýsingu fjörunnar sem fólkvangs er að tryggja landsvæði til útivistar og almenningsnota. Fjaran og aðliggjandi sjávarsvæði eru sérstaklega áhugaverð til náttúruskoðunar svo sem fugla- og fjöruskoðunar. Aðgengi að svæðinu er gott og því ákjósanlegt til útikennslu.
Stærð fólkvangsins er 17,6 ha.

Hluti Kasthúsatjarnar og umhverfi hennar á Álftanesi var friðlýst sem friðland árið 2002 og er markmið með friðlýsingunni að vernda tjörnina með fjölskrúðugu fuglalífi hennar og lífríki, en tjörnin er strandtjörn, grunn og lífrík. Tjörnin býr yfir líffræðilegri fjölbreytni og er ákjósanleg til rannsókna og fræðslu.

Stærð friðlandsins er 4,20 ha.

Fossvogsbakkar

Fossvogsbakkar

Fossvogsbakkar – friðlýsing.

Fossvogsbakkar voru friðlýstir sem náttúruvætti árið 1999. Á svæðinu er að finna fágætar jarðminjar í jarðsögu Reykjavíkur og landsins alls, Fossvogslögin, og felst verndargildi svæðisins í verndun þeirra.

Náttúruvætti eru náttúrumyndanir sem mikilvægt er að varðveita sakir fræðilegs gildis, fegurðar eða sérkenna. Markmiðið með friðlýsingu Fossvogsbakka er verndun fágætra jarðminja svæðisins.

Setin í Fossvogsbökkum, hluti hinna svokölluðu Fossvogslaga, eru talin vera um 11.000 ára gömul, eða frá lokum síðustu ísaldar. Talið er að þau hafi myndast í einu af síðustu hlýskeiðunum eftir að bráðnun jökla hafði leitt til umtalsverðrar hækkunar sjávarstöðu. Lögin eru um 2 km að lengd við strandlengjuna og 5 m þykk þar sem þau eru þykkust. Sumsstaðar eru þau þó nærri horfin vegna sjávarrofs.

Elliðaárdalur

Fossvogur – set.

Setlögin liggja ofan á grágrýtisklöpp sem talin er hafa myndast fyrir 100-200 þúsund árum. Neðsta lag setlaganna er jökulberg sem myndað er úr jökulruðningi og bendir til þess að á svæðinu hafi verið jökull sem hefur hopað. Næstu lög eru sjávarsetlög, einkum fíngerð silt- og eðjusteinslög, sem bendir til þess að á svæðinu hafi verið grunnsævi. Í sjávarsetlögunum er að finna mikið magn af steingervingum, einkum skeljar lindýra. Ofan á sjávarsetinu er aftur að finna jökulberg sem bendir til þess að allra síðustu jökulskeið ísaldar hafi átt sér stað eftir að setlögin mynduðust. Af þessu má sjá að hægt er að fá mikilvægar vísbendingar um loftslagsbreytingar, landslagsmyndun, sjávarstöðu og lífríki á grunnsævi.

Elliðaárdalur

Elliðaárdalur – kort.

Einstakt er að merkar jarðminjar, líkt og finnast í Fossvogsbökkum, séu staðsettar í miðri borg og að mestu leyti mjög aðgengilegar og sýnlegar.

Á svæðinu er mjög fjölbreyttur gróður sem hefur tekið miklum breytingum á undanförnum árum og áratugum vegna útbreiðslu ágengra tegunda og landnámi slæðinga úr görðum. Þar sem setlögin eru ekki mjög brött og mynda nokkurs konar skriður eru þau nokkuð gróin af margvíslegum gróðri, einkum grastegundum, en einnig stórvaxnari gróðri. Á bökkum setlaganna er gróður víða stórvaxinn þannig að hann skyggir á jarðminjarnar. Á þeim svæðum er lúpína algeng.

Gróðurlendið á Fossvogsbökkum hýsir fjölbreytilegt smádýralíf og fuglalíf á svæðinu er mikið, einkum í fjörunni.

Við Fossvogsbakka er að finna minjar frá tímum síðari heimstyrjaldar. Um er að ræða húsgrunna sem tilheyra herbúð, Camp Mable Leaf. Austan við herbúðirnar eru tóftir sem byggðar voru árið 1944 og eru enn vel greinanlegar.

Náttúruvættið er 17,8 hektarar að stærð.

Garðahraun

Garðahraun

Garðahraun – friðlýsing.

Garðahraun og Vífilsstaðahraun (Svínahraun) eru hlutar hins svokallaða Búrfellshrauns. Hraunin eiga uppruna sinn í Búrfellseldstöðinni og eru talin vera um 8000 ára gömul. Svæðin eru aðgengileg og henta vel til útivistar, fræðslu og rannsókna fyrir áhugamenn jafnt sem vísindamenn. Innan þeirra eru merkar söguminjar, s.s. Berklastígur, sem var útivistarstígur sjúklinga frá berklahælinu á Vífilsstöðum og sk. Atvinnubótastígur, sem lagður var í atvinnubótavinnu frostaveturinn 1918, en var aldrei tekinn í notkun.

Markmið friðlýsingarinnar er að stofna fólkvang, útivistarsvæði í þéttbýli, þar sem jarðmyndanir, gróðurfar, fuglalíf og menningarminjar, m.a. fornar rústir eru verndaðar. Með friðlýsingunni eru tryggðir möguleikar til útivistar, náttúruskoðunar og fræðslu í náttúrulegu umhverfi.

Gálgahraun

Gálgahraun

Gálgahraun – friðlýsing.

Markmiðið með friðlýsingu Gálgahrauns er að vernda nyrsta hluta Búrfellshrauns, þann hluta hraunsins sem runnið hefur í sjó fram, bæði vegna jarðmyndana og lífríkis. Markmið friðlýsingarinnar er jafn­framt að varðveita Gálgahraun sem vettvang náttúruskoðunar og fræðslu um ókomna tíð.

Gálgahraun, Garðabæ, friðlýst sem friðland í stjórnartíðindum B.nr. 877/2009.

Verndargildi svæðisins byggir m.a. á því að verndarsvæðið í Gálgahrauni er á þessu svæði að mestu ósnortið. Þar sem hraunjaðarinn nær í sjó fram hefur rofmáttur úthafsöldunnar verið lítill í innvíkunum Arnarnesvogi og Lambhúsatjörn og er hraunið því að mestu eins og þegar það rann. Forsendur frið­lýsingarinnar eru jarðmyndanir, gróðurfar, fuglalíf og menningarminjar, en í hrauninu er m.a. forn gata, Fógetagata og forn aftökustaður, Gálgaklettur, sem hraunið dregur nafn sitt af.

Grótta

Grótta

Grótta – friðlýsing.

Grótta var friðlýst árið 1974. Grótta er í raun eyja sem tengd er við land af mjóum granda sem fer á kaf á flóði. Strönd eyjunnar hefur að mestu verið hlaðin upp vegna landsigs og er hún því eins og grunn skál. Vegna fuglaverndunar er óheimilt að fara um svæðið frá 1. maí til 15. júlí.

Eyjan er vel gróin og gróskuleg þrátt fyrir fábreytt gróðurlendi og tiltölulega fáar tegundir.
Auðugt og fjölbreytilegt fuglalíf er í Gróttu. Samkvæmt rannsóknum sem gerðar hafa verið eru um 450 kríupör í Gróttu. Krían er ábyrgðartegund og alfriðuð.

Viti var fyrst reistur árið 1897 og þar bjó lengi vitavörðurinn Albert Þorvarðarson (1910-1973), en Slysavarnarfélagið á Nesinu heitir eftir honum.

Frá Gróttu var áður útræði og segir sagan að skip hafi farist við Gróttutanga.

Dauðinn sótti sjávardrótt,
sog var ljótt í dröngum.
Ekki er rótt að eiga nótt
undir Gróttutöngum.

Stærð friðlandsins er 39,6 ha.

Hamarinn

Hamarinn

Hamarinn – friðlýsing.

Hamarinn var friðlýstur sem náttúruvætti árið 1984. Á Hamrinum eru jökulminjar. Hann setur mikinn svip á miðbæ Hafnarfjarðar og nýtur vinsælda sem útivistarsvæði. Hamrinum tengjast sögur um álfa og huldufólk.

Stærð náttúruvættisins er 2,1 ha.

Háubakkar

Háubakkar voru friðlýstir sem náttúruvætti árið 1983. Á svæðinu er að finna þykk setlög sem bera merki um áhrif loftslagsbreytinga á ísöld.

Náttúruvætti eru náttúrumyndanir sem mikilvægt er að varðveita sakir fræðilegs gildis, fegurðar eða sérkenna. Markmiðið með friðlýsingu Háubakka er verndun fágætra jarðminja svæðisins í núverandi mynd.

Háubakkar

Háubakkar – friðlýsing.

Setlögin í Háubökkum tilheyra svokölluðum Elliðavogslögum sem mynduðust að öllum líkindum á löngu tímabili sem hófst fyrir meira en 300 þúsund árum og varði í að minnsta kosti 100 þúsund ár. Í setlögunum er bæði sjávar- og þurrlendisset sem bendir til þess að sjávarstaða hafi verið all breytileg á þeim tíma er setlögin mynduðust. Elliðavogslögin eru talin ná frá Brimnesi suður að Álftanesi, en Háubakkar eru með betri stöðum þar sem opnur eru að setlögunum sem víðast hvar eru grafin fyrir neðan yngri hraun- og setlög.

Neðstu setlögin eru jökulberg, líklega rúmlega 300 þúsund ára gamalt. Fyrir ofan jökulbergið taka við sjávarsetlög sem benda til hærri sjávarstöðu í kjölfar þess að jöklar bráðnuðu.

Háubakkar

Háubakkar.

Í sjávarsetlögunum er nokkuð af steingervingum, einkum samlokutegundir, t.d. kúfskel, krókskel og hallloka. Þessar tegundir eru nokkuð kuldasæknar og bendir það til þess að hiti sjávar hafi verið um 1-2°C lægri en í dag. Fyrir ofan sjávarsetið er meira jökulberg sem talið er vera um 250 þúsund ára gamalt. Efst í setlögunum er síðan þurrlendisset, einkum móset, meðal annars surtarbrand sem bendir til þess að gróskusamt votlendi hafi verið á svæðinu og loftslag hlýrra en nú. Ýmsar plöntuleifar er að vinna í surtarbrandinum.

Háubakkar

Háubakkar.

Þær jarðminjar sem er að finna í Háubökkum veita mikilvæga innsýn í jarðsögu Reykjavíkur og endurspegla setlögin um 100 þúsund ára sögu sem einkennist af miklum umskiptum í veðurfari, sjávarstöðu og landmótun. Þá veita þau einnig góðar upplýsingar um lífríki sjávar og gróðurfar á þurrlandi.

Verndun lífríkis er ekki upprunalegt markmið með friðýsingu Háubakka. Hins vegar liggur svæðið að fjörum þar sem er töluvert fuglalíf og nokkuð um strandgróður. Þá er fjölbreytileiki plantna sem vex ofan á bökkunum og í skriðum mikill, sérstaklega gras og blómlendi, auk þess sem nokkuð stórvaxinn trjágróður finnst á svæðinu. Ágengar tegundir eins og alaskalúpína og skógarkerfill finnast á svæðinu.

Fuglar eru áberandi á svæðinu, einkum vaðfuglar, enda stendur svæðið við vog. Skordýralíf er töluvert.

Náttúruvættið er 2,1 hektarar að stærð.

Hleinar

Hleinar

Friðlýsingarsvæðið á Hleinum.

Hleinar voru friðlýstir sem fólkvangur árið 2009. Markmiðið með friðlýsingu svæðisins er að vernda fjöru og útivistarsvæði í fögru hraunumhverfi sem vaxið er náttúrulegum gróðri svo sem mosa- og lynggróðri. Jafnframt er það markmið friðlýsingarinnar að vernda búsetulandslag og menningarminjar, en á svæðinu eru tóftir, fiskreitir, grjóthleðslur, gerði, garðar og vagnslóðar. Aðgengi að svæðinu er gott og það er því ákjósanlegt til fræðslu og útikennslu.

Fólkvangurinn er 32,3 hektarar að stærð og er hluti af friðlýsingu búsvæða fugla við Álftanes og Skerjafjörð í samræmi við náttúruverndaráætlun 2004-2008.

Hlið

Hlið

Hlið – friðlýsing.

Hlið á Álftanesi var friðlýst sem fólkvangur árið 2002. Árið 2020 var fólkvangurinn stækkaður og friðlýsingaskilmálar endurskoðaðir.

Markmið friðlýsingarinnar er að tryggja landsvæði til útivistar og almenningsnota og að vernda fuglalíf, búsvæði fugla og líffræðilega fjölbreytni svæðisins. Miðar verndunin að því að auðvelda almenningi aðgang að náttúrunni, svæðis til útivistar, náttúruskoðunar og til fræðslu. Fjaran og aðliggjandi sjávarsvæði eru áhugaverð til náttúruskoðunar svo sem fugla- og fjöruskoðunar.

Aðgengi að svæðinu er gott og er það hluti af lífríku svæði og því ákjósanlegt til útikennslu. Innan svæðisins eru m.a. margæs, æðarfugl, rauðbrystingur, sendlingur og tildra sem eru ábyrgðartegundir á Íslandi og eru þær skráðar á viðauka II og III við Bernarsamninginn. Á svæðinu er einnig auðugt botndýralíf á grunnsvæði og lífríkar þangfjörur. Jafnframt eru friðlýstar menningarminjar (Skjónaleiði) innan fólkvangsins.

Stærð fólkvangsins er 41 ha.

Nú verðum við náttúru landsins að liði
um ljómandi vordag í sjávarins niði.
Nú látum við seli og fugla í friði
og fólkvanginn stækkum hér úti í Hliði.
(Arinbjörn Vilhjálmsson, júní 2020.)

Hvaleyrarlón og Hvaleyrargrandi

Hvaleyrarlón og Hvaleyrarhöfði

Hvaleyrarlón og Hvaleyrarhöfði – friðlýsing.

Hvaleyrarlón og Hvaleyrarhöfði voru friðlýst sem fólkvangur árið 2009. Markmið með friðlýsingu Hvaleyrarlóns og fjara Hvaleyrarhöfða er að tryggja útivistar- og fræðslusvæði til útiveru og fuglaskoðunar ásamt því að vernda lífríki og leirur svæðisins sem eru m.a. mikilvægt búsvæði fugla.

Útivistar- og fræðslugildi svæðisins er hátt. Dýralíf í leiru er allauðugt og er fuglalíf sérlega auðugt á svæðinu. Aðgengi fyrir íbúa er gott og einnig eru grunnskóli og leikskóli í nágrenninu og svæðið því tilvalið til útikennslu. Svæðið hefur lengi verið vinsælt til útivistar og er ákjósanlegt til fuglaskoðunar allt árið, en oft má sjá á svæðinu sjaldséða gesti eins og t.d. gráhegra.

Svæðið er 39,9 hektarar að stærð.

Kaldárhraun og Gjárnar

Kaldárhraun

Kaldárhraun og Gjár – friðlýst svæði.

Kaldárhraun og Gjárnar í Hafnarfirði voru friðlýst sem náttúruvætti árið 2009. Markmið með friðlýsingu Kaldárhrauns og Gjánna er að vernda hellu­hrauns­myndun og fagrar klettamyndanir í vestari hrauntröðinni frá hinni kunnu eldstöð Búrfelli.

Kaldárhraun er heillegt og óraskað helluhraun á vinsælu útivistarsvæði við Helgafell, en upptök hraunsins eru í gígum austan við norðurenda Gvendarselshæðar. Kaldárhraun er eitt síðasta dæmið um heillegt og óraskað helluhraun í landi Hafnarfjarðar og er fræðslu- og útivistargildi svæðisins metið hátt. Á svæðinu eru fornminjar sem tengjast selbúskap, m.a. gömul gata, Kaldárstígur.

Stærð hins friðlýsta svæðis er 208,9 ha.

Kasthúsatjörn

Kasthúsatjörn

Kasthúsatjörn – friðlýsing.

Hluti Kasthúsatjarnar og umhverfi hennar á Álftanesi var friðlýst sem friðland árið 2002 og er markmið með friðlýsingunni að vernda tjörnina með fjölskrúðugu fuglalífi hennar og lífríki, en tjörnin er strandtjörn, grunn og lífrík. Tjörnin býr yfir líffræðilegri fjölbreytni og er ákjósanleg til rannsókna og fræðslu.

Stærð friðlandsins er 4,20 ha.

Aðliggjandi fjara var svo friðlýst sem fólkvangur árið 2002.

Markmið með friðlýsingu fjörunnar sem fólkvangs er að tryggja landsvæði til útivistar og almenningsnota. Fjaran og aðliggjandi sjávarsvæði eru sérstaklega áhugaverð til náttúruskoðunar svo sem fugla- og fjöruskoðunar. Aðgengi að svæðinu er gott og því ákjósanlegt til útikennslu.

Stærð fólkvangsins er 17,6 ha.

Laugarás

Laugarás

Laugarás – friðlýsing.

Laugarás var friðlýstur sem náttúruvætti árið 1982. Á svæðinu eru jarðminjar í formi jökulsrispaðs bergs og einnig má sjá ummerki um sjávarstöðu við lok ísaldar.

Náttúruvætti eru náttúrumyndanir sem mikilvægt er að varðveita sakir fræðilegs gildis, fegurðar eða sérkenna. Markmiðið með friðlýsingu Laugaráss er verndun fágætra jarðminja svæðisins og vilji til að halda opnu svæði þar sem unnt væri að skoða þær merku jarðminjar sem eru á svæðinu.

Jarðminjar í Laugarási eru að mestu afmarkaðar við hæsta punkt svæðisins. Þar er að finna grágrýtisstórgrýti, ávalar klappir og hnullunga sem talin eru vera um 200 þúsund ára gömul og eru hluti af Reykjavíkurgrágrýtismynduninni.

Laugarás

Laugarás.

Jöklar ísaldar mótuðu grágrýtið og má sjá jökulrákir í stærri hnullungunum. Við lok ísaldar hækkaði sjávarborð og var Laugarás þá einn af fáum stöðum sem ekki var neðansjávar, en sjávarstaðan þá var um 45 metrum hærri en hún er nú. Aðeins efsti hluti Laugaráss stóð upp úr þannig að hann var lítið meira en sker. Ummerki um þetta má sjá á stórgrýti nálægt efsta punkti svæðisins sem er sjávarbarið.

Jarðminjar svæðisins veita mikilvæga sýn í jarðsögu Reykjavíkur og upplýsingar um loftslags- og landháttabreytingar.

Friðlýsing Laugaráss er ekki bara mikilvæg til verndar jarðminjum, heldur einnig vegna verndunar upprunalegs holtagróðurs í miðju þéttbýli þar sem upprunalegar, einkennandi tegundir eru ríkjandi og mynda sérstök samfélög sem eru nokkuð tegundauðug.

Laugarás

Laugarás – mynd SS.

Áður fyrr var þessi holtagróður ríkjandi á svæðinu, en hann á nú undir högg að sækja vegna lúpínu og trjágróðurs sem herjar á. Lúpínan myndar stórar og þéttar breiður sem stundum skyggja á eða hylja jarðmyndanirnar. Birki er algengasta trjátegundin, en einnig er mikið um selju. Aðrar trjátegundir sem finnast eru reynir, viðja, alaskavíðir, loðvíðir, stafafura og elri.

Ýmsir fuglar halda til á svæðinu, s.s. stari, svartþröstur og auðnutittlingur. Flugur og fiðrildi eru mest áberandi af skordýrum, einkum hunangsflugur, geitungar, birki- og víðifetar og ýmsar tvívængjur. Innan um gróðurinn er nokkuð um hattsveppi.

Náttúruvættið er 1,5 hektarar að stærð.

Litluborgir

Litluborgi

Litluborgir – friðlýsing.

Litluborgir voru friðlýstar sem náttúruvætti árið 2009. Markmiðið með friðlýsingu Litluborga er að vernda sérstæðar jarð­myndanir í landi Hafnarfjarðar. Jafnframt er það markmið með friðlýsingunni að varðveita jarðmyndanir svæðisins vegna mikils fræðslugildis, en Helgafell og nágrenni þess hefur um langan tíma verið afar vinsælt útivistarsvæði.

Litluborgir eru hraunborgir og gervigígar sem myndast hafa við það að hraun hefur runnið yfir stöðuvatn. Aðrar merkar og áhugaverðar myndanir á svæðinu eru dropsteinar og kísilgúr.

Stærð náttúruvættisins er 10,6 ha.

Rauðhólar

Rauðhólar

Rauðhólar – friðlýsing.

Rauðhólar voru friðlýstir sem fólkvangur árið 1974. Fótgangandi fólki er heimil för um allt svæðið og má ekki hindra slíka för með girðingu nema stigar til yfirferðar séu með hæfilegu millibili. Reiðgötum má ekki loka með girðingum. Þessi ákvæði eiga þó ekki við girðingar um vatnsból og ræktað land enda er umferð óheimil innan slíkra girðinga. Allt jarðrask er bannað innan fólkvangsins nema leyfi [Umhverfisstofnunar] komi til.

Stærð fólkvangsins er 130,2 ha.

Reykjanesfólkvangur

Reykjanesfólkvangur

Reykjanesfólkvangur – friðlýsing.

Reykjanesfólkvangur var friðlýstur sem fólkvangur árið 1975. Mikið er um jarðhitasvæði og margskonar náttúruminjar innan fólkvangsins. Eldfjöll eru mörg innan fólkvangsins einkum lágar hraundyngjur og gossprungur. Móbergs- fjöll og stapar í óteljandi myndum er einkennandi fyrir landslag á svæðinu. Innan marka fólkvangsins er náttúruvættið Eldborg undir Geitahlíð. Naðurtunga finnst innan fólkvangsins og er hún á válista NÍ og talin talsvert útbreidd við hveri norðan Trölladyngju.

Stærð fólkvangsins er 29.262,7 ha.

Skerjafjörður – Garðabæ

Skerjafjörður

Skerjafjörður Garðabæ – friðlýsing.

Skerjafjörður innan bæjarmarka Garðabæjar var friðlýst sem búsvæði árið 2009. Markmið með friðlýsingunni er að vernda lífríki á strönd, í fjöru og grunnsævi Skerjafjarðar. Einnig er markmið með friðlýsingunni að vernda útivistar- og fræðslugildi svæðisins sem felst í auðugu lífríki og möguleikum til útivistar við ströndina.

Skerja­fjarðar­svæðið er undirstaða afar fjölbreytts fuglalífs allan ársins hring og er svæðið mikil­vægur viðkomustaður farfugla og fargesta sem hér hafa viðdvöl á leið sinni til og frá norðlægum varp­slóðum.

Skerjafjörður

Skerjafjörður.

Fjörur og leirur svæðisins eru lífríkar, þar eru miklar þangfjörur og grunnsævi er með auðugu botndýralífi. Skerjafjarðarsvæðið í heild sinni hefur alþjóðlegt verndargildi vegna fuglategunda, svo sem rauðbrystings og margæsar og einnig er svæðið mikilvægt vegna marhálms, en plantan hefur takmarkaða útbreiðslu hér á landi og er ein aðalfæðutegund margæsar. Fræðslugildi svæðisins er hátt með tilliti til lífríkis og aðgengi að svæðinu er gott, en strandlengjan er vinsæl til útivistar og fjörðurinn til skemmtisiglinga.

Við ákvörðun um friðlýsinguna var höfð hliðsjón af samningnum um vernd villtra plantna og dýra og lífsvæða í Evrópu (Bern 1979) sbr. Stjórnartíðindi C 17/1993, samningnum um líffræðilega fjölbreytni (Ríó de Janeró 1992) sbr. Stjórnartíðindi C 3/1995 og samþykkt um votlendi sem hafa alþjóðlegt gildi, einkum fyrir fuglalíf (Ramsar 1971) sbr. Stjórnartíðindi C 1/1978.

Stærð búsvæðisins er 427,5 ha.

Skerjafjörður – Kópavogur

Skerjafjörður

Skerjafjörður Kópavogi – friðlýsing.

Skerjafjörður innan bæjarmarka Kópavogs var friðlýst sem búsvæði árið 2012. Markmiðið með friðlýsingu Skerjafjarðar er að vernda lífríki við ströndina, í fjöru og á grunnsævi, einkum og sér í lagi með tilliti til fugla. Jafnframt er það markmið að vernda útivistar- og fræðslugildi svæðisins sem felst í líffræðilegri fjölbreytni og samrýmist verndun búsvæða fugla.

Skerjafjarðarsvæðið í heild hefur alþjóðlegt verndargildi vegna farfuglategunda, svo sem rauðbrystings og margæsar en þar er að finna lífríkar þangfjörur, leirur og grunnsævi sem skapa undirstöðu fyrir afar fjölbreytt fuglalíf allan ársins hring. Einnig er svæðið mikilvægt vegna marhálms og sjávarfitjungs sem hafa takmarkaða útbreiðslu hér á landi, en marhálmur er ein aðal fæða margæsar.

Kópavogur

Kópavogur – Skerjafjörður; MWL.

Í Fossvogi og Kópavogi er stór hluti af leirum á Skerjafjarðarsvæðinu. Fræðslugildi svæðisins er hátt með tilliti til lífríkis og aðgengi að svæðinu er gott. Strandlengjan er vinsæl til útivistar og í Fossvogi eru iðkaðar siglingar og annað sjósport.

Við ákvörðun um friðlýsinguna var höfð hliðsjón af samningnum um vernd villtra plantna og dýra og lífsvæða í Evrópu (Bern 1979, sbr. Stjórnartíðindi C 17/1993), samningnum um líffræðilega fjölbreytni (Ríó de Janeró 1992, sbr. Stjórnartíðindi C 3/1995) og samþykkt um votlendi sem hafa alþjóðlegt gildi, einkum fyrir fuglalíf (Ramsar 1971, sbr. Stjórnartíðindi C 1/1978).

Stærð búsvæðisins er 62,6 ha.

Víghólar – Kópavogur

Víghólar

Víghólar – friðlýst svæði.

Víghólar voru friðlýstir sem náttúruvætti árið 1983. Þar er að finna jökulsorfnar grágrýtis klappir, svokölluð hvalbök. Jökulrákirnar segja til um stefnu jökulsins sem lá yfir Kópavogi í lok ísaldar.Víghólar og Borgarholt tilheyra víðáttumiklum hraunum sem runnu á hlýskeiðum ísaldar.

Stærð náttúruvættisins er 1,4 ha.

Um mörk náttúruvættisins gilda eftirfarandi ákvæði:
Friðlýsta svæðið umhverfis Víghól afmarkast að sunnan, vestan og norðan af lóðamörkum aðliggjandi húsa og af lóðamörkum og bílastæði að austan. Um svæðið gilda eftirfarandi reglur:
1. Varðveita skal jarðmyndanir og lífríki svæðisins í núverandi mynd. Hvers konar mannvirkjagerð eða jarðrask, sem breytt getur útliti eða eðli svæðisins, er óheimilt, nema til komi sérstakt leyfi [Umhverfisstofnunarar].

Víghólar

Víghólar.

2. Gangandi fólki er heimil för um svæðið, enda sé góðrar umgengni gætt. Þá er bæjarstjórn heimilt, að höfðu samráði við náttúruverndarnefnd og skipulagsnefnd, að láta planta skjólgróðri, leggja gangstíga, setja upp bekki og annan búnað í þágu útivista á svæðinu.
3. Hvers konar losun jarðefna, rusls eða sorps er óheimil á svæðinu. Náttúruverndarnefnd Kópavogs hefur eftirlit með framkvæmd friðlýsingar í umboði [Umhverfisstofnunar] og bæjarstjórnar.
Um viðurlög vegna brota á reglum þessum fer eftir ákvæðum náttúruverndarlaga.
Ráðuneytið er samþykkt friðlýsingunni, sem tekur gildi við birtingu þessarar auglýsingar í
Stjórnartíðindum. Menntamálaráðuneytið, 23. nóvember 1983.

Stekkjarhraun

Stekkjarhraun

Stekkjarhraun – friðlýsing.

Stekkjahraun var friðlýst árið 2009. Markmið með friðlýsingu svæðisins er að vernda útivistar­svæði í fögru hraunumhverfi þar sem jafnframt er athyglisvert gróðurlendi og sérstakar menningarminjar. Stekkjarhraun er hluti af hraunum sem runnu í Búrfellseldum fyrir um 7000 árum. Stekkjarhraun er í beinu framhaldi af Gráhelluhrauni og hefur hraunið runnið um þröngan farveg milli Setbergshlíðar og Mosahlíðar. Aðgengi að svæðinu er gott og er það því ákjósanlegt til fræðslu og útikennslu. Með friðlýsingunni er einnig verið að vernda votlendisbletti við Lækinn þar sem hann rennur með Stekkjarhrauni, en þar vaxa m.a. horblaðka og starir sem eru fágætar tegundir í þéttbýli.

Stærð hins friðlýsta svæðis er 15,9 hektarar.

Tröllabörn

Tröllabörn

Tröllabörn – friðlýsing.

Tröllabörn voru friðlýst sem náttúruvætti árið 1983. Náttúruvættið einkennist af sérkennilegum hraundrýlum (hornító) sem hafa verið notuð sem fjárskýli og jafnvel sem sæluhús. Þegar gosgufurnar koma úr útstreymisopum hraunsins brenna þær við hátt hitastig þegar þær sameinast súrefni loftsins. Þá hlaðast upp litlar en brattar strýtur úr kleprum sem gosgufurnar rífa með sér. Strýtur sem þessar, eða hraundríli, eru einkum algengar á hraundyngjum.

Stærð náttúruvættisins er 4,7 ha.

Tungufoss

Tungufoss

Tungufoss – friðlýsing.

Umhverfisráðherra hefur að tillögu sveitarfélagsins Mosfellsbæjar og að fengnu áliti Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands ákveðið að friðlýsa Tungufoss og nánasta umhverfi hans. Landsvæðið er friðlýst sem náttúruvætti, skv. 2. tölul. 1. mgr. 53. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999.

Tungufoss er fallegur foss neðarlega í Köldukvísl í Mosfellsbæ, á móts við Leirvogstungu og dregur fossinn nafn sitt af bæjarnafninu. Við Tungufoss má sjá leifar af heimarafstöð sem var reist árið 1930 af bóndanum í Leirvogstungu og bræðrum hans og framleiddi stöðin rafmagn fyrir bæinn fram til ársins 1958.

Tungufoss

Tungufoss.

Tveir fallegir hylir eru neðan við Tungufoss: Kerið, sem er beint fyrir neðan fossinn, og Klapparhylur litlu neðar. Nærsvæði fossins er vinsælt til útivistar en hið friðlýsta svæði er 1,4 hektarar að stærð.

Markmiðið með friðlýsingu Tungufoss sem náttúruvættis er að vernda fossinn sjálfan sem og menningarminjar innan þess. Svæðið hefur mikið útivistargildi enda fjölsótt bæði af bæjarbúum og öðrum gestum og mikilvægt að treysta útivistar- og fræðslugildi þess.

Valhúsahæð

Valahúsahæð

Valhúsahæð – friðlýsing.

Valhúsahæð var friðlýst sem náttúruvætti árið 1998. Á Valhúsahæð er rákað berg eftir ísaldarjökul. Þaðan er víðsýnt um Faxaflóa. Hæðin ber nafn sitt af húsum sem fyrr á öldum geymdu veiðifálka Danakonungs. Valhúsahæð er hæsti staður á Seltjarnarnesi í 31 m hæð yfir sjó.

Á Valhúsahæð er graslendi, lítt grónir melar, mólendistorfur og votlendisblettir. Þar er að finna fjölda tegunda t.d. olurt, túnvingul, blóðberg, vallelftingu, krossmöðru, gulmöðru, túnfífla, blávingul, vallhæru, axhæru, vallarsveifgras, hvítmöðru, klóelftingu, vallhumal, kattartungu, gleym-mér-ei, umfeðming, grávíðir, þursaskegg, túnvingul, mosajafna, krækilyng, mósef, brjóstagras, gullmuru, lógresi, friggjargras, mýrfjólu, þrenningarfjólu, njóla, túnsúru, brennisóley og maríustakk svo eitthvað sé nefnt.

Seltjarnarnes

Landamerkjasteinn á Valhúsahæð.

Jarðfræði á Valhúsahæð er margbreytileg en þar er að finna laus jarðlög, basalthraunlög (grágrýti) og jökulrákir. Einnig er vel hugsanlegt að forna eldstöð sé að finna á Valhúsahæð. Aldur grágrýtishraunanna á Seltjarnarnesi er nokkuð óljós, en talið er að þau hafi myndast á næst síðasta hlýskeiði. Laus jökulruðningur sem þar er að finna er væntanlega frá lokum síðasta jökulskeiðs. Á Valhúsahæð má skoða minjar sem tengjast hersetu og sögu hernámsins hér á landi í seinni heimstyrjöldinni.

Stærð náttúruvættisins er 1,7 ha.

Varmárósar

Varmárósar

Varmárósar – friðlýsing.

Varmárósar voru fyrst friðlýstir árið 1980 sem friðland og var friðlýsingin endurskoðuð árið 2012. Markmið friðlýsingarinnar er að vernda og viðhalda fitjasefi (Juncus gerardii) og búsvæði þess sem og náttúrulegu ástandi votlendis Varmárósa ásamt sérstöku gróðurfari sem þar er. Friðlýsingin á einnig að tryggja rannsóknir og vöktun á lífríki svæðisins og treysta útivistar-, rannsókna- og fræðslugildi svæðisins. Við endurskoðun friðlýsingarinnar 2012 var samningur um vernd villtra plantna og dýra og lífsvæða í Evrópu (Bern 1979), samningur um líffræðilega fjölbreytni (1992) og stefnumörkun stjórnvalda höfð til hliðsjónar.

Stærð friðlandsins er 9.76 hektarar og liggja mörk þess frá hesthúshverfinu við Varmárbakka og frá göngustíg við reiðhringi út í Varmá og norður fyrir Hestþinghól út í ósinn.

Vífilsstaðavatn

Vífilsstaðavatn

Vífilsstaðavatn – friðlýsing.

Vífilsstaðavatn og nágrenni var friðlýst sem friðland árið 2007. Friðlýsingin tekur til Vífilsstaðavatns og hlíðanna að sunnar og austanverður upp frá vatninu upp á brún, að meðtöldu Grunnavatnsskarði. Vestur – og norðurmörk fylgja ofanbyggðavegi og Elliðavatnsvegi.

Friðlýsingunni er ætlað að stuðla að varðveislu og viðhaldi náttúrulegs ástands vatnsins og styrkja verndun tegunda og samfélagsgerðar með sérstæðum stofnum bleikju, urriða, áls og hornsíla í vatninu. Hornsílin í vatninu eru mjög sérstök þar sem þau skortir kviðgadda. Töluvert af andfuglum verpa við vatnið og mófuglar um­hverfis það. Markmið með verndun nærsvæðis vatnsins er að tryggja eðlilegt grunnvatnsstreymi til þess og viðhalda náttúrulegu gróðurfari svæðisins. Enn fremur er það markmið friðlýsingarinnar að treysta útivistar-, rannsókna- og fræðslu­gildi svæðisins.

Stærð friðlandsins er 188,3 ha.

Víghólar

Víghólar

Víghólar – friðlýsing.

Víghólar voru friðlýstir sem náttúruvætti árið 1983. Þar er að finna jökulsorfnar grágrýtis klappir, svokölluð hvalbök. Jökulrákirnar segja til um stefnu jökulsins sem lá yfir Kópavogi í lok ísaldar.
Víghólar og Borgarholt tilheyra víðáttumiklum hraunum sem runnu á hlýskeiðum ísaldar.

Stærð náttúruvættisins er 1,4 ha.

Heimild:
-https://www.ust.is/nattura/natturuverndarsvaedi/fridlyst-svaedi/sudvesturland/

Álfhóll

Kópavogur – Álfjóll.