Ætlunin var að ganga með Sigurði Eiríkssyni í Norðurkoti III (Bjarghús) um gömlu Fuglavíkurleiðina milli Fuglavíkurhverfis og Sandgerðisgötu þar sem leiðirnar mætast við Einstæðingshól á Miðnesheiðinni.
Sigurður er að öllum líkindum sá eini núlifandi sem þekkir þessa gömlu þjóðleið. Hún hefur víða blásið upp í heiðinni, en ummerki má þó enn sjá eftir hana nánast samfellt ef vel er að gáð, s.s. vörðu- og götubrot. Efsta hlutanum, næst Einstæðingshól á Einstæðingsmel, hefur þó verið raskað vegna andvaraleysis hlutaðeigandi. Tilgangur ferðarinnar var að staðsetja götuna og kortleggja.
Ef vel gengi var og ætlunin að huga einnig að gömlu götunni að Bæjarskerjum (Býjaskeri), en hún hefur ekki verið farin lengi.
Með í för voru, auk FERLIRsfélaga, Páll í Norðurkoti, tengdasonur Sigurðar, og Guðmundur, félagi hans, en báðir eru þeir áhugasamir um örnefni og gamlar minjar í Fuglavíkurhverfi og víðar.
Þess má geta að Sigurður hafði áður leitað að og fundið Fuglavíkurleiðina, merkt hana og varðveitt. Síðar hafi snuðra hlaupið á þráðinn og hann ákveðið að fjarlægja merkingar á götunni. Við það hvarf hún auðvitað með það sama. Nú var ætlunin, sem fyrr sagði, að endurheimta hana.
Sigurður, sem er að verða kominn á níræðisaldur (f: 08.09.1929), gekk röskum skrefum að upphafsreit, staðnæmdist, benti í austnorðaustur upp heiðina og sagði: „Í þessa átt drengir. Gatan virðist ógreinileg í fyrstu, en hún lá hér frá Norðurkoti og upp eftir.“ Síðan hélt hann af stað með aðra á eftir sér. Á hægri hönd var hlaðin lítil tóft með dyr mót suðri; „hænsnahús frá Hólum og síðar frá Norðurkoti,“ sagði Sigurður. Ofar varð gatan greinilegri og var tiltöluleg auðvelt að fylgja henni upp að Háamel. Ofan hans kom hún í ljós á nýjan leik. Efri-varða sást þá í norðri. Varðan var notuð sem fiskimið og sem sundvarða. Ekki er vitað um Neðri-vörðu. Vörðubrot voru við götuna sem og á nálægum hólskollum.
Gatan beygði með norðanverðri „Sléttunni“, líklega svo koma mætti við í Folaldatjörn (Folaldavötnum), hinu ágætasta vatnsstæði í heiðinni. Folaldatjörn hefur einnig verið nefnd Folaldapollur, en sá mun vera nokkru sunnar í heiðinni. Nafnið kom til eftir að folald drapst í tjörninni.
Fátt er um kennilýsingar í Miðnesheiðinni. Í örnefnalýsingu fyrir Fuglavík segir m.a.: „Rétt ofan við veginn er grjóthæð ílöng, sem heitir Dagmálahæð. Suður frá henni ofan við veg, Neðri-Stekkur og Efri-Stekkur. Langt uppi í haglendinu eru Selhólar, sem lentu í flugvallarlandinu. [Þar er Fuglavíkurselið – sjá HÉR.] Ofan við veginn eru rústir eftir nýbýlið Hóla, sem brann. Vatnagarðar er dældin suður af vatninu. Þar hefur verið býli. Markahóll er grasi gróinn hóll upp í heiði á merkjum móti Melabergi. Vatnshólavarða er í brún frá bæ séð. Þar eru margir hólar, Vatnshólar, og draga nafn af Melabergsvötnum. Upp af Norðurkoti ofan við veg er lægð, sem heitir Gil. Í því norðanverðu er býlið Bjarghús.“ Við það var reist nýbýlið Norðurkot III þar sem Sigurður Eiríksson býr nú.
Í örnefnalýsingu fyrir Bæjarsker er einnig fjallað svolítiðum kennileiti í heiðinni, s.s.: „Nú er að flytja sig upp fyrir veginn. Fast niður við veg rétt norðan við merkin er Kampastekkur. Þar upp af eru lautir og skorningar, sem nefndir eru Gil. Ofan þeirra er klettahóll, sem nefndur er Einbúi og ekki er vert að snerta við. Þar ofar, norður og vestur, er Stórhóll. En beint þar norður af er Stekkur. Þá er norður af Stórhól Svefnhóll, með smálægð á milli, þar niður af. Niður við rétt er Stakkstæði. Þar er hóll. Þar voru klappir og þurrkaður fiskur á þeim. Þetta er sunnan við gamla Keflavíkurveginn. Svo er skilarétt gömul ofan við veginn rétt við Stakkstæðið. Nú er að fara aftur og fara upp. Ofan þessa er Skurðholt, og syðst í Skurðholtum er Litli-Bekkjarhóll. Norður af honum og hærra er Stóri-Bekkjarhóll. Nyrzt í þeim sunnan við veg er Tóhóll. Upp af honum er Grænabrekka.
Norðan við Tóhól var í gamla daga fjárhús, og rétt þar upp af er Hleypisundshóll. Hann er á merkjum móti Fuglavík. Suður og upp af Hleypisundshól eru Folaldavötn, en þau eru Í Fuglavíkurlandi. Þar upp af til norðurs eru Gömlu-Þrívörður, og til austurs og norðausturs Litlu-Þrívörður. Norðar eru Draugaskörð. Á þeim var hlaðin varða á einum af þrem Draugaskarðshólum, nefnd Efri-Dauðsmannsvarða. Svo er klapparhóll, sem heitir Grímsvörður. Skammt ofar varð að sprengja þar úr. Þar upp undan, suðaustur af Gömlu-Þrívörðum, eru svonefnd Torfmýrarvötn. Þetta eru þrjár tjarnir í mýri og mosatóum. Ein þeirra þornar aldrei. Ein er stór og aldrei slegin. Suður af þeim og milli þeirra eru klappir, nefndar Grímsvörðusker.“
Þegar komið var upp á Einstæðingshól komu í ljós leifar af fyrrum myndarlegri ferlingslagaðri vörðu. Hana hyggjast Sigurður og Guðmundur endurgera þegar færi gefst. Væri það vel til fundið að viðhalda henni og þá um leið hinum fyrri gatnamótum Fuglavíkurvegar og Sandgerðisgötu (-vegar).
Þá var haldið niður að Vegamótahól. Við hann liggur Sandgerðisvegurinn. Þar eru og gatnamót Bæjarskersgötu (-vegar). Henni var fylgt niður að „Sandgerðisskógum“. Norðan þeirra eru Álaborgarréttir syðri. Austan réttanna eru kofatóftir, en enn austar má vel sjá leifar af hringlaga fjárborg. Gatan liggur niður með klettarana; Álaborg. Suðvestan undir hennar er stór klettur, sæbarinn; Stekkurinn, að sögn Sigurðar. Sagnir eru um að álfar gisti seininn.
Þegar skoðað var í kringum Álaborgina kom í ljós seltættur, sennilega Bæjarskerssel. Kofatóftir eru vestanundir aflöngu klapparholti, í skjóli fyrir austanáttinni.
Vestar er hringlaga tóft. Sunnan hennar er stekkur undir Álaborgarnefinu. Vatnsstæði er undir klettum ofan og til hliðar við stekkinn. Líklegt má telja að selið hafi verið nýtt af bændum í Bæjarskershverfinu, en lagst af nokkru áður en svæðið var nýtt til yfirsetu. Auðvelt hefur verið um vik því stekkstæðið er tiltölulega nálægt bæjum.
Þegar Bæjarskersgatan (selstígurinn) var genginn áleiðis til bæjar kom í ljós önnur gata skammt norðar með sömu legu. Sú leið er vörðuð. Ætlunin er að skoða hana við tækifæri, sem og kirkjugötuna millum Bæjarskershverfis og Hvalsness, en hún sést enn mjög greinilega.
Grjóthlaðin Bæjarskersréttin skammt ofan við Stafnesveg, og er enn notuð, var byggð í kringum 1930.
Að lokinni göngu var þátttakendum boðið í kaffihlaðborð að Norðurkoti þar sem ekki færri en níu kökusortum og laufabrauði var rennt niður með ljúffengu kakói.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.
Sjá MYNDIR.