Friðþór Eydal leiðsagði hópnum um varnarliðssvæði Keflavíkurflugvallar og nágrenni.
Í maí s.l. (2004) voru liðin 53 ár frá undirritun varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna. Meðmælendur samningsins segja hann eina mikilvægustu ákvörðun íslenskra stjórnvalda á seinni tímum og eina þá heillavænlegustu. En hún átti sér nokkurn aðdraganda.
Alvarleg staða heimsmálanna á seinni hluta síðustu aldar hafði áhrif á íslensk stjórnvöld, m.a. valdataka kommúnista í Tékkóslóvakíu 1948, fyrsta kjarnorkusprenging Sovétríkjanna í september 1949 og upphaf Kóreustríðsins í júni 1950. Árið 1949 gerðist Ísland stofnaðili að Atlantshafsbandalaginu (NATO) og var varnarsamningurinn við Bandaríkin gerður á grundvelli Norður-Atlantshafssamningsins. Honum er ætlað að tryggja varnir Íslands og stuðla að friði og öryggi áþví svæði sem samningurinn tekur til.
Varnarliðið samanstendur af mörgum aðskildum starfseiningum innan Bandaríkjahers, en þar starfa einnig hermenn og fulltrúar frá Hollandi, Noregi, Danmörku og Kanada. Um 750 Íslendingar starfa fyrir varnaliðið (en þeim fer fækkandi). Varnarliðið rekur ratsjárstöðvar, annast skipa- og kafbátaeftirlit, flugvallarekstur, þyrlubjörgunarflug, fjarskipti og landvarnir.
Það var árið 1941 að Ísland og Bandaríkin gerðu með sér herverndarsamning. Samningurinn batt í raun endi á þáverandi hlutleysisstefnu Íslands. Sama ár komu fjögur þúsund landgönguliðar til landsins.
Winston Churchill, forsætisráðherra Bretlands kom til landsins, en að því tilefni var haldin stærsta hersýning, sem um getur. Árið 1943 var bandaríski heraflinn á Íslandi hvað fjölmennastur, eða um 45.000 manns. Þá voru hér á landi um 50.000 hermenn (einnig frá Bretlandi og Kanada), eða álíka margir og allir fullorðnir karlmenn á Íslandi. Á haustdögum tók að fækka í heraflanum.
Keflavíkurflugvöllur var lagður af bandaríkjaher í heimstyrjöldinni síðari. Skömmu eftir hernám landsins hófu Bretar flug frá Kaldaðarnesi á bökkum Ölfusár og sumarið 1941 hófst flug þeirra frá Reykjavíkurflugvelli, þrátt fyrir að gerð hans væri ekki að fullu lokið. Jafnframt voru sléttaðir lendingarstaðir á nokkrum stöðum er nota mátti í neyð. Einn slíkur neyðarflugvöllur var útbúinn á Garðskaga og voru það fyrstu flugvallarframkvæmdir á Suðurnesjum.
Bandaríska herráðið áætlaði lagningu stórs flugvallar fyrir sprengju- og eftirlitsflugvélar á suðvesturhorni landsins ásamt minni flugvelli fyrir orrustuflugsveit er þar höfðu aðsetur. Beindust augu Bandaríkjamanna strax að Suðurnesjum, enda Bretar þegar með vísi að flugvelli á Garðskaga og svæðið nánast hindrunarlaust til flugs.
Ljóst var að flytja þyrfti mikinn fjölda flugvéla frá Bandaríkjunum til Bretlands til þátttöku í styrjöldinni í Evrópu. Lagning flugvallanna tveggja, Patterson á Njarðvíkurfitjum og Meeks á Háaleiti hófst snemma árs 1942.
Var Patterson flugvöllur tilbúinn til takmarkaðrar umferðar strax um sumarið er flugvélum 8. flughersins bandaríska var flogið til Bretlands með viðkomu á Grænlandi og Íslandi. Meeks flugvöllur, er við þekkjum nú sem Keflavíkurflugvöll, var tekinn í notkun í apríl 1943 og framkvæmdum við flugvellina lokið þá um haustið.
Patterson flugvöllur þjónaði orrustuflugvélum Bandaríkjamanna sem önnuðust loftvarnir á suðvesturhorni landsins til stríðsloka, en Meeks var áningarstaður í millilandaflugi eins og æ síðan. Einu umsvif Breta á Keflavíkurflugvelli (Meeks) voru starfsemi Liberator flugvéla, sem flogið var til stuðnings skipalestum og aðgerðum gegn þýskum kafbátum. Þessar flugvélar, sem aðsetur höfðu í Reykjavík, voru stórar og þungar til að geta athafnað sig þar fullhlaðnar við allar aðstæður. Lögðu þær því gjarna upp í eftirlitsflug frá Keflavík, þar sem þær höfðu aðsetur í Geck flugskýlinu, en lentu í Reykjavík að ferðinni lokinni þar sem áhafnirnar höfðu aðsetur.
Rekstri Pattersen flugvallar var hætt að styrjöldinni lokinni sumarið 1945, en fámennt herlið annaðist rekstur Meeks flugvallar til ársins 1947, en bandarískir borgarlegir starfsmenn tóku við rekstrinum samkvæmt Keflavíkursamningnum, sem gerður var milli Íslands og Bandaríkjanna haustið 1946. Nafnið á vellinum kom frá flugmanni, sem hafði farist í flugi frá Reykjavíkurflugvelli. Vél hans flæktist í vírum við brautarendann og skall í Skerjafjörðinn (SJ). Flugvöllurinn hlaut þá nafnið Keflavíkurflugvöllur og varð alþjóðaflugvöllur í eigu Íslendinga.
Það var árið 1946 sem íslensk stjórnvöld höfnuðu beiðni Bandaríkjamann um afnot af landi undir herstöðvar til langs tíma. Keflavíkursamningurinn var undirritaður og ákveðið að bandarískt herlið yfirgefi landið, en Bandaríkjamenn hafi áfram tiltekin afnot af Keflavíkurflugvelli. Flugvöllurinn var síðan afhentur Íslendingum. Árið eftir yfirgáfu síðustu bandarísku hermennirnir svæðið.
Árið 1949 gerast Íslendingar stofnaðilar að Atlantshafsbandalaginu. Aðildin veldur innanlandsdeilum og óeirðum við Alþingishúsið.
Fyrstu hersveitir Bandaríkjahers koma til landsins 7. maí 1951 og setja upp bækistöðvar á Keflavíkurflugvelli. Þær voru undir stjórn hershöfðingja í landhernum, sem laut stjórn Atlantshafsherstjórnar NATO og Atlantshafsherstjórnar Bandaríkjanna. Vallarsvæðið og nágrenni verður meginathafnasvæði varnarliðsins. 1955 var fjarskiptastöðin Broadstreet við Seltjörn flutt til Grindavíkur.
Húsnæði varnarliðsins var mjög takmarkað í fyrstu. Þúsundir hermanna höfðu búið í braggahverfum í námunda við flugvöllinn á styrjaldarárunum, en flestar þessara bráðabirgðabygginga voru rifnar eða gengu úr sér á árunum eftir stríð. Þá þurfti flugvöllurinn, sem upphaflega var með þeim stærstu í heimi, allmikla endurbóta við.
Varnarliðið hefur allnokkrum sinnum komið við sögu björgunarmála. Má þar t.d. nefna Vestmannaeyjagosið 1973 og Goðastrandið 1994. Árið 2001 fékk þyrlubjörgunarsveitin viðurkenningu fyrir björgun um 300 mannslífa frá því að hún kom til landsins árið 1971.
Í upphafi fimmta áratugar síðustu aldar var Háaleiti fyrir ofan Keflavík einungis sorfinn jökulruðningur. Efst á honum trjónaði háreist gígopið (þar sem flugstjórnarturninn á Keflavíkurflugvelli stendur nú). Norðan þess stóð Kalka, hvítkölkuð stór varða, áberandi landamerki og kennileiti á Miðnesheiði.
Allnokkrar minjar eru innan varnarsvæðisins. Má t.d. nefna Fuglavíkursel, gömlu Hvalsnesleiðina, Stafnessel, Gamla-Kirkjuvog, tóftir við Djúpavog og á Selhellu, Kaupstaðagötuna, Hansakaupmannaverslunarstaðinn við Þórshöfn og Kirkjuvogssel, auk þess sem svæðið sker í sundur Skipsstíginn, hina gömlu þjóðleið milli Njarðvíkur og Grindavíkur.
Mikilvægt er fyrir stolt okkar Íslendinga að endurheimta það svæði, u.þ.b. 50 metra breytt þar sem hitaveitulögnin liggur í gegn, sem fyrst. Bandaríkjamenn ættu að hafa skilning á því að ávallt er mikilvægt að halda þjóðleiðunum opnum, jafnvel á stríðstímum.
Annars hafa minjar innan svæðisins verið ágætlega varðveittar án þess að það hafi beinlínis verið ásetningur þeirra, sem með það höndla.
Þess má geta að lokum, til fróðleiks, að í aðalstjórnstöð NATO á Keflavíkurflugvelli hangir stórt spjald með tveimur myndum undir yfirskriftinni Wanted Dead and Alive; annars vegar er mynd af Bin Laden (dead) og hins vegar (alive) er mynd af hvíthærðri FERLIRsálfkonu. Svo virðist sem hermönnunum sé meira í mun að ná hinni síðarnefndu – alive.
-Upplýsingarnar eru m.a. úr riti um 50 ára afmæli varnarsamningsins 2001 og frá Friðþóri Eydal.