Tag Archive for: Gálgar

Þingvellir

“Um aldamótin 1700 var hörmungatíð hér á landi. Þjóðin var orðin mergsogin af alls konar álögum og langvarandi kúgun einokunarverslunarinnar. Hún mátti því ekki við neinu. En verstu árin voru tugtímabilið 1693-1703.

Þingvellir

Þingvellir – Öxarárfoss.

Hekla byrjaði að gjósa. Jarðskjálftar fylgdu í kjölfarið. Fiskur brást algjörlega. Kom því mikið los á fólk, og voru rán og stuldir í öllum sveitum, en þó mest sunnanlands. Hafís rak að landinu. Voru þá hafþök svo að segja hringinn í kringum landið. Í Faxaflóa lá ísinn fram yfir vertíðarlok. Fjárfellir var víða um land og útigangshross hrundu niður. Fólk féll úr hungri. Árið 1703 létust 30 á Suðurnesjum. Allt var etið sem tönn á festi. Fólkið við sjóinn lifði á fjörugrösum og þangi, en í sveitum við fjallagrös, rætur og söl. Sumir átu hesta, skinn og skóbætur steiktar. Fundust og þeir, sem átu hesta, hunda og hrafna.
Var þá þjófaöld mikil, stuldir og rán, svo að menn gátu trautt haldið sínu. Veturinn 1701 voru til dæmis hýddir og markaðir nær 20 þjófar í Árnessýslu. Fóru þá þjófar að leggjast út víða um land. Er getið um tvo útileguþjófa á Suðurnesjum; annar var hengdur, en hinn slapp.

Hverinn eini

Hverinn eini vestan Trölladyngju.

Þannig var þá ástandið á Íslandi þegar sagan hefst af útileguþjófunum á Reykjanesi. Maður er nefndur Jón Þórðarson frá Eystri-Hrepp. 1701 tók hann sig upp og fór á vergang. Fyrst slóst í för með honum unglingspiltur, Gísli Odsson og síðan landshornamaður, Jón Þorláksson og var úr Landeyjum. Fóru þeir alla leið suður á Vatnsleysuströnd. Þar stálu þeir síðast frá Jóni Árnasyni í Flekkuvík, en áður höfðu þeir stolið á 14 bæjum á leið sinni.Â
Í Flekkuvík náðu þeir í 8 hákarlslykkjur, þrjá fiska, eina duggarasokka, kýrlær og hálstrefil.

Með þennan feng og það sem þeim hafði áður áskotnast fóru þeir upp um heiði og allt suður um Selsvöllu og voru ákveðnir í því að leggjast út og lifa á stuldum. Var nú komið fram á vor og tíðarfar gott, svo að allt var á gróanda og fé þar um allan afréttinn. Munu þeir hafa búist við því að geta náð í nóg sauðakjöt til matar sér.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun – loftmynd.

Skammt sunnan Selsvöllu fundu þeir skúta nokkurn og hreiðruðu þar um sig. Er nú ekki gott að segja, hvort þeir hafa verið staðháttum þarna kunnugir, en heldur var óvarlegt að setjast þarna að, því að staðurinn var á alfaraleið á þeim dögum. Má þó vera, að þeir hafi valdið hann af ásettu ráði til þess að eiga hægara með að sitja fyrir ferðamönnum, eins og síðar kom fram.
Ekki höfðu þeir hafst lengi við þarna, er Hallur Sigmundsson bóndi á Ísólfsskála varð þeirra var. Þótti honum þetta illir gestir og ekki tilhlökkunarefni að hafa þá í nábýli við sig. Ekki tók hann þó það ráð að segja til þeirra, heldur fór á fund þeirra og átaldi þá fyrir að hafa sest þarna að. Kallaði hann það hið mesta óráð fyrir þá, því að byggðarmenn mundu brátt verða þeirra varir og veita þeim aðgöngu. En þar sem hann var einn, en þeir þrír, mun honum ekki hafa litist ráðlegt að hafa í hótunum við þá. Skildi með þeim óhappalaust.

Selsvellir

Selsvellir.

Þeim útilegumönnum mun nú ekki hafa litist á að vera þarna lengur, því að vel gat svo farið, að Hallur vísaði á felustað þeirra. Tóku þeir sig því upp og fluttu sig lengra norður með fjallinu og settust að í helli, sem var skammt frá Hvernum eina, en hann er í hrauninu milli Selsvalla og Höskuldarvalla, eða vestur af Trölladyngju. Var hellir þessi betri en hinn fyrri, en skammt frá alfaravegi sem hinn. Vatn er þarna ekkert, og hafa þeir því annaðhvort orðið að sækja það norður í Sog eða þá suður á Selsvöllu. Lítið hefur verið þarna um eldsneyti, varla annað en mosi, en vera má, aðþeir hafi soðið mat sinn við hverahita, því að ýmsir hverir eru á þessum slóðum.

Selsvellir

Gata í hrauninu við Selsvelli.

Einn góðan veðurdag, skömmu eftir að þeir höfðu sest þarna að, fór þar um veginn ferðamaður austan úr Flóa í Árnessýslu, er Bárður hét Gunnarsson. Átti hann sér einskis ills von og vissi ekki fyrri til en þrír stigamenn settust að honum. Rændu þeir af honum tveimur ljáum, hettu, vetrungsskinni, buxum, sjóskóm, fernum skæðum og einhverju felira. Komst Bárður svo frá þeim slyppur og snauður.
Þrjár vikur voru útilegumenninir þarna og rændu auk þess á þeim tíma þremur sauðum til matar sér.
Sjálfsagt hefir Bárður ekki sagt sínar farir sléttar, er hann kom til mannabyggða, því að brátt fréttist það, hverjir óaldarmenn væru komnir þar í sveit. Jón í Flekkuvík, sem fyrstur hafði orðið fyrir barðinu á þeim, tók sér þá fyrir hendur að safna liði og veita þeim aðför. Urðu þeir tólf saman og höfðu tvær byssur og eitthvað fleira vopna.

Húshellir

Í Húshelli.

Var þetta viku fyrir Alþingi. Fór nú þessi hópur til fjalla og kom að hellinum svo að útilegumenn voru þar allir inni. Jón skoraði á þá til útgöngu og að gefast upp, en þeir svöruðu engu. Þá greip Jón til byssu sinnar og kallaði hátt, að allir skyldu skjóta inn í hellinn. Gerði hann það til þess að hræða þá og láta þá halda að allir væru þeir vopnaðir byssum, þótt byssunar væru ekki nema tvær. Skaup svo Jón inn í hellinn og hæfði hettuna á höfði Jóns Þorlákssonar, svo að hún fauk af honum, en maninn sakaði ekki. Þá guggnuðu þeir útilegumenn, er þeir sáu hver alvara var hér á ferðum, og gáfust upp. Voru þeir því næst fluttir til Bessastaða.

Selsvellir

Selsvellir – Uppdráttur ÓSÁ.

Jón Eyjólfsson vicelögmaður í Nesi var þá sýslumaður í Gullbringusýslu, og kom það í hans hlut að rannsaka má útilegumannanna. Þingaði hann í málum þeirra í Kópavogi, en dómsmálabækur Jóns frá þeim árum eru nú glataðar, og er því ekki hægt að vita, hvað fleira hefir komið þar fram en hermt er í annálum og Alþingisbókum. En séra Eyjólfur á Völlum, sonur Jóns vicelögmanns, hefir sagt allskilmerkilega frá þessu, og mátti hann manna best um það vita, því að hann átti þá heima í Nesi við Seltjörn hjá föður sínum.
Degi áður en Jón kvæði upp dóm yfir þeim félögum, braust Jón Þorláksson úr járnum á Bessastöðum. Náðist hann aftur, en með hverjum hætti það hefir verið er ekki vitað. Dómur var kveðinn upp yfir þeim hinn 6. júlí, og síðan voru þeir fluttir til Alþingis. Höfðu þeir þá ekki verið nema 3 daga í haldi á Bessastöðum.

Böðlar

Aftökur fyrrum mætti vel skoða nánar í sögulegu samhengi.

Auk þeirra þjófnaða, sem að framan getur, sannaðist á þá, að þeir hefðu stolið 65 sauðum og eigi minna en 7 fjórðungum af smjöri auk “aðskiljanlegra hluta ætra og óætra”.

Jónarnir báðir voru hengdir, en Gísla Oddsyni vægðu þeir, vegna þess hve ungur hann var og hann hafði aldrei verið dæmdur fyrr. Þarna mátti því sjá á sólkskinsdegi tvo útilegumenn af Reykjanesi, hangandi í gálgum á Alþingi, einum helgasta stað þjóðarinnar til merkis um þá óstjórn, sem hafði komið Íslandi á kaldan klaka.“

-Árni Óla – Frásagnir – þjóðlífsmyndir frá ýmsum tímum – 1955.

Þingvellir

Gálgi á Þingvöllum.