Tag Archive for: gamalt

Grindavík

Í Bæjarbótinni, bæjarblaði Grindvíkinga, árið 1984 er m.a. „Frásagnir úr Grindavík„, byggðar á minningum Guðmundu Ólafsdóttur í Brimnesi:

Guðmunda Ólafsdóttir

Guðmunda Ólafsdóttir (1901-1984).

„Þessi frásögn var skráð veturinn 1981 eftir Guðmundu Ólafsdóttur. Guðmunda var fædd í Júlíusarhúsi í Grindavík þann 18. maí 1901 og upplifði svo sannarlega tímana tvenna eins og frásagnir hennar bera með sér. Munda í Brimnesi var alþýðukona og lýsir hér á lipran hátt striti og störfum fólksins, gleði þess og sorgum. Hún leiðir okkur inn í hugarheim aldamótakynslóðarinnar og minnir okkur á að þrátt fyrir alla velsæld nútímans, íslenska velferðarþjóðfélagsins, er ótrúlega skammur tími liðinn frá neyðarbaráttu alþýðunnar fyrir því að halda sinni mannlegu reisn, að hafa húsaskjól og því að geta klætt og satt ungviðið. Strit og fórnir þessa fólks lögðu grunninn að velferð nútímans. Ólafía Sveinsdóttir hjúkrunarfræðingur hitti Mundu oft að máli. Hún hreifst af fasi og frásögn gömlu konunnar og til að forða merku lífshlaupi frá gleymsku skráði hún frásögnina niður. Henni verður það seint fullþakkað.
Munda eignaðist sex börn. Þar af fimm með eiginmanni sínum, Sverri Sigurðssyni. Eina dóttur átti hún fyrir hjónaband. Nú skipta afkomendur hennar tugum. Munda lést 1984.

Grindavík

Grindavík – Brimnes.

„Þegar ég kom að Brimnesi til Guðmundu sat hún og prjónaði í ákafa. „Ég er að furða mig á því að engum skuli koma til hugar að hafa keppni í prjóni í öllum þessum keppnilátum nú til dags“, sagði hún og dró ekki af sér.
Ég bað hana að segja mér eitthvað frá gamla tímanum, því ég vissi að hún var bæði fróð og minnug og vildi gjarnan tala um liðna tíð.

Stórflóð
„Ég man fyrst eftir mér hálfs þriðja árs. Þá gerði mikil flóð í Grindavík og sjórinn fór yfir mannhæðar háan garð sem var fyrir framan bæinn til að verjast sjógangi.

Þá átti ég heima í Akurhúsum, syðst í Grindavík, næst sjónum. Mér þótti einkennilegt að vakna og sjá sjóinn allt í kringum bæinn, hann fossaði yfir túnið og bærinn stóð upp úr eins og sker.

Grindavík

Pálshús – Húsið var byggt á lóðinni eftir flóðin 1925. En þá flaut Akurhús í heilu lagi upp eftir túninu. Valgerður og Páll (íbúar Akurhúss) byggðu þá timburhús ofar í bænum sem hefur gengið undir nafninu Pálshús.

Þá bjó í Rafnshúsum Margrét, kennd við Járngerðarstaði (amma Tómasar Þorvaldssonar á Gnúpi). Rafnshús stóðu hærra en Akurhús, svo flóðið náði ekki þangað. Margrét lét sækja mig og flytja til Rafnshúsa. Mér er minnisstætt að túngarðurinn þar stóð eins og rönd upp úr sjónum.
Í næsta stórflóði, 20 árum síðar, náði flóðið hærra upp, eða alla leið upp að Sæbóli, en seig síðan niður að Akurhúsum, þar stóð bærinn marandi upp úr sjónum eins og eyðisker en slapp þó óskemmdur. Þegar þetta var, var ég búsett í Hafnarfirði og nýir ábúendur í Akurhúsum (eystri bænum) en Páll föðurbróðir minn bjó ennþá í vestari bænum. Sjórinn flæddi upp að Silfru, sem er gjá vestan við bæinn Hlíð. Í gjánni var þveginn þvottur við hlóðarelda.
Þá flæddi sjórinn inn í bæinn að Hliði og spriklandi keilur lágu á víð og dreif í göngunum þegar flóðinu slotaði og langt upp í þorp lá fiskurinn, sem menn gripu og báru til bæjar. Það var óþarft að róa til fiskjar þann daginn.“

Fyrstu kynni mín af dauðanum

Grindavík

Grindavík – fjaran í Stórubót.

„Þegar ég var á fimmta ári var ég ásamt eldri og stærri krökkum að leik út í Bót, sem er sandeyri í vesturhverfinu, Staðarhverfi. Þá komu krakkarnir auga á einhverja þúst á klöpp einni skammt undan landi og pexuðu um hvort það væri selur eða kind. „Ég ætla að vaða og bara gá að því“, sagði ég og setti mig út í sjóinn með uppbrett pils og náði út að klöppinni án þess að fara í kaf. Sá ég þá að þetta var hvorki selur né kind heldur sjórekið lík óskaddað, sjóhatturinn af, en bundinn undir kverkina og annar skórinn af. Ég kallaði til krakkanna og sagði þeim að þetta væri maður. Þeir ráku upp ógurlegt öskur og stukku til bæja eins og skotið væri af byssu. Þá greip hræðslan mig, þar sem ég var ein úti á skerinu hjá líkinu. Í langan tíma á eftir var beygur í mér. Þessi maður hafði farist á vertíðinni um veturinn. Á heimleiðinni mætti ég mönnum sem fluttu líkið til bæjar.
Þrátt fyrir beyginn setti ég af og til í mig kjark og gægðist inn um gluggann þar sem líkið stóð uppi, þvi ég þráði að sjá manninn standa upp og ganga. Í raun og veru vissi ég ekki við hvað ég var hrædd, því dauðinn var mér óþekkt hugtak.“

Kirkjuferð

Grindavík

Grindavík – Staður 1927.

„Þegar ég var á sjötta ári fór ég vestur í Staðarhverfi í fylgd með fólki sem var að fara í kirkju. Þegar við komum í dalinn neðan við Tóftir hnaut einn hesturinn og maðurinn fram af. Hesturinn datt niður dauður, en maðurinn slapp ómeiddur og allir komust til kirkju. Þá var guðræknin meiri en hún er nú. Sérstaklega varð breyting á með aukinni tækni, rafmagni, útvarpi, vélbátum og öðru slíku sem nútímanum fylgir! Ég varð svo um tíma í Staðarhverfi hjá vinum mínum; ég átti marga vini í þá daga.“

Reimleikar
„Ég hef verið 5 eða 6 ára þegar foreldrar mínir, Ólafur Magnússon og Kristín Snorradóttir, fluttu úr Grindavík út á Vatnsleysuströnd. Móðir mín var þar uppalin og langaði alltaf að vera þar. Við ílengdumst þó ekki nema 2 ár, en fluttum þá aftur í Grindavík og bjuggum hér æ síðan.

Garðbær

Garðbær á Vatnsleysuströnd – áður Fagurhóll.

Mamma gat ekki lagt það á pabba, sem þá stundaði sjó frá Grindavík, að verða að ganga á milli til að komast heim. Hann vildi ekki róa nema frá Grindavík, þar þekkti hann allt svo vel.
Fyrsti bærinn sem við bjuggum í á Ströndinni hét Fagurhóll. Hann var byggður úr rekavið úr skipum sem fórust við ströndina, en veggir voru hlaðnir upp úr torfi og grjóti. Mennirnir sem fórust virtust fylgja fjölunum. Móðir mín, sem var skyggn, sá þrjá og fjóra sitja á hlóðarsteinunum, hvergi annars staðar. En við krakkarnir sáum aldrei neitt.
Eitt kvöldið heyrði ég mikinn hávaða, eins og dreginn væri hrossskrokkur eftir baðstofuþekjunni. Kettinum var þeytt inn um lokaðan gluggann og glerbrotin flugu um alla baðstofuna. Pabbi fór út en sá engan mann. En kötturinn var hræddur eins og hann sæi eða skynjaði eitthvað hulið mannlegri skynjun.“

Lífsháski

Garðbær

Fagurhóll – útihúsatóft.

„Annað atvik kom fyrir mig meðan við vorum á Fagurhóli, sem ég gleymi aldrei. Við systurnar, Guðlaug og ég, vorum sendar um hádegisbilið eftir pabba, sem þá var heima og var við beitningu. Ég man að við vorum báðar með fallegar svuntur. Í grenndinni var hlandfor og auðvitað þurfti ég að detta ofan í hana. Ég man að ég var að undra mig yfir litlum manni, sem stóð uppi á háu húsi. Ég var að hugsa um hvernig svona lítill maður gat komist upp á svona stórt hús; gáði ekki að mér og steyptist í forina, sem var 2 — 3 metrar á dýpt. Þrisvar náði ég að grípa í grastó, en missti alltaf takið.

Auðnar

Auðnar á Vatnsleysuströnd.

Ég beitti allri lífs- og sálarorku til að gefast ekki upp og náði taki á steinnibbu sem stóð út úr veggnum. Systir mín stóð gólandi uppi á veggnum og gat enga björg mér veitt, en kallaði á mömmu í angist sinni. Ég fann hvernig takið á nibbunni smá linaðist; vitin voru full af for og meðvitundin var að smá fjara út. Þá fann ég skyndilega að ég var dregin snarlega upp úr. Maður, sem átti leið þarna framhjá, heyrði neyðaróp systur minnar og brá skjótt við. Hann var síðan alltaf kallaður lífgjafi minn. Þessi maður var sonur bóndans á Auðnum.
Eftir þessa svaðilför lá ég fárveik í eina viku en komst þó til fullrar heilsu.“

Í skóla lífsins

Breiðagerði

Breiðagerði – bæjarhóll.

„Frá Fagurhóli fluttum við vegna reimleika. Við fluttum að Breiðagerði, sem var tvíbýli, torfbær, eins og flestir bæir í þá tíð. Það voru bara höfðingjarnir sem bjuggu í timburhúsum. Stærstu og mestu húsin á Ströndinni voru Auðnir, sem síðar varð landsímastöð, og Landakot. Þar bjó Guðmundur hreppstjóri og útgerðarbóndi. Hann átti dóttur, Björgu að nafni, en hana eignaðist hann áður en hann gifti sig og ólst hún upp hjá föður sínum. Hún var góð og falleg stúlka, sem ég hændist að. Hún var ævinlega fallega klædd og allt snyrtilegt í kringum hana. Ég laðaðist að þessum tveimur heimilum.

Breiðagerði

Breiðagerði – bæjarhóll.

Þar sá ég svo margt sem mér geðjaðist að. Hreinlæti, snyrtimennsku, reglusemi, glaðlyndi og hógværð. Heimasæturnar á báðum bæjum urðu mér kærastar og til fyrirmyndar, sérstaklega Björg. Ég var komin í skóla lífsins.
Sumarið sem ég var sex ára var mér komið fyrir í Bergskoti. Ég man að þar voru týnd grös til að lita úr band. Margt dreif á dagana; einu sinni kviknaði í svuntunni minni. Sennilega hef ég brennst eitthvað, en ég man bara eftir svuntunni.
Eftir tveggja ára veru á Ströndinni fluttum við aftur til Grindavíkur.“

Við flytjum aftur til Grindavíkur

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir 1890 – mynd gerð af Bjarna Sæmundssyni.

„Við settumst að í miðbænum á Járngerðarstöðum, norðurenda. Þar fæddist Jórunn systir mín, sem er yngst. Ég man að ég vaknaði við hljóðin í mömmu þegar hún var að fæða og varð þá vör við að kisa var búin að gjóta ofan á bringuna á mér og kettlingarnir skríðandi um mig alla. Mér fannst þetta ekkert tiltökumál, ég var svo mikill kattavinur og hefur sjálfsagt fundist ofur eðlilegt að mamma og kisa væru að fæða samtímis.
Þó að mömmu hafi leiðst í Grindavík vorum við samt komin þangað aftur og enn bjuggum við í torfbæ. Í sambýli við okkur, í suðurenda bæjarins, bjuggu móðir og systir Bjarna Sæmundssonar vísindamanns. Bjarni var þá löngu farinn að heiman til náms og bjó í Reykjavík. Dóttir hans, Anna, dvaldi oft hjá ömmu sinni. Hún varð góð vinkona mín og um hana hefur mér þótt vænst af öllum mínum vinkonum og hélst það meðan báðar lifðu.“

Sérstæðir menn

Grindavík

Grindavík – Gjáhús og nágrenni. Sjá má einnig Akurhús og Rafnshús.

„Ekki vorum við lengi á Járngerðarstöðum, því Jórunn fékk kíghósta og hóstaði og grét á nóttunni; svo mikið að báðar hljóðhimnur sprungu. Bærinn var hljóðbær og mamma fékk veður af því að gráturinn og hóstinn truflaði næturró sambýlisfólksins og flutti burt þess vegna. Við settumst að í Gjáhúsum, sem var torfbær, skammt frá Víkurbænum. Þar var þríbýli og búið í öllum bæjunum. Við systkinin vorum orðin fjögur, auk þess gerði mamma gustukaverk á ekkjumanni og einstæðingi sem Magnús hét og tók hann í fæði og þjónustu. Hann varð þunglyndur af konumissinum og leið illa. Hann lagðist oft upp í rúm á kvöldin og tautaði í sífellu: „þeir drápu hana, þeir drápu hana“. Konan hans dó á sjúkrahúsi í Reykjavík úr krabbameini. Ég man að okkur krökkunum þótti þetta taut mannsins ákaflega furðulegt. Seinna fékk þessi maður ráðskonu, sem annaðist hann.

Símon Dalaskáld

Símon Dalaskáld.

Fyrsta eða annan veturinn í Gjáhúsum kom Símon Dalaskáld í heimsókn til Grindavíkur. Hann var kominn einn daginn, gangandi alla leið að norðan. Hann var hár og herðabreiður, forneskjulegur, með rautt skegg niður á bringu. Með loðhúfu á höfði og poka á baki gekk hann milli bæjanna. Ég man lítið af kveðskap hans. Símon var nokkurs konar förumaður, hann flakkaði hér um nokkra daga en fór síðan á sama hátt og hann kom, til Krýsuvíkur að ég held. Þessi persóna festist mér mjög í minni.
Í Vík bjuggu Júlíus Einarsson og Vilborg Brynjólfsdóttir, dóttir Brynjólfs prests á Stað í Staðarhverfi. Ég man að hún var svo falleg að mér fannst ég alltaf sjá engil þegar ég mætti henni. Hún dó ung, líklega úr berklum. Júlíus var bróðir Einars kaupmanns Einarssonar. Hann var drykkfelldur mjög og illur viðureignar og ofstopafenginn við vín. Þegar mamma gekk með mig var hún verbúðarráðskona hjá honum. Hann var formaður og hafði marga menn í veri. Þá var hann trúlofaður Vilborgu.

Grindavík

Grindavík – Frá vinstri: Halldór Laxness (1902-1998) rithöfundur, Júlíus Einarsson (1874-1948) frá Grindavík, Einar G. Einarsson (1872-1954) kaupmaður í Garðhúsum í Grindavík og Sigurður Skúlason (1903-1987) mag.art. í Reykjavík. Myndin er tekin í Grindavík á þeim tíma þegar Halldór var að rita Sölku Völku eða á árunum 1929 til 1930.

Viku fyrir lokin varð hann illa drukkinn og æðisgenginn. Vildi hann þá heimsækja Vilborgu að Stað, en hún þoldi ekki að sjá hann drukkinn. Það vissi mamma og hún var svo góðviljuð að hún vildi ekki að upp úr slitnaði hjá þeim. Því fékk hún sjómennina til að halda aftur af Júlíusi. Hann var þá búinn að brjóta allt og bramla í verbúðinni og hafði náð í haglabyssu og skaut á móður mína, því hann reiddist henni ofsalega fyrir að hefta för hans að Stað. Skotið fór fyrir ofan höfuð hennar, svo hana sakaði ekki, enda mun hann aðeins hafa ætlað að hræða hana. Viku síðar fæddist ég svo, heilbrigð og rétt sköpuð.“

Hjá vandalausum
„Mamma var hörkukona til allra verka, þótt hún væri lítil og grönn, og gerði miklar kröfur til sjálfrar sín. Hún ólst upp hjá vandalausum, því foreldrum hennar var stíað sundur. Þau áttu heima á Ströndinni sumarið sem Álfrún amma gekk með móður mína. Hún fór í kaupavinnu og um haustið kom hún aftur til fólksins sem hún hafði verið hjá á Ströndinni. Þar var sumarkaupið tekið af henni og henni vísað burt og fyrir utan túngarðinn tók hún léttasóttina, en stúlka nokkur kom þar að og tók hana heim til sín. Hjá henni fékk hún að vera þar til hún komst á fætur eftir barnsburðinn.

Árni Þorsteinsson

Árni Thorsteinsson (1851-1919).

Mamma var tekin frá henni eftir tvær nætur og ólst upp hjá vandalausum við harðan kost. Rétt áður en hún fermdist lagðist fósturmóðir hennar banaleguna.
Fátækt var mikil á heimilinu. Mamma gekk þá til spurninga hjá prestinum. Var hún send með bréf til hans, þess efnis að ekki yrði hægt að ferma hana vegna heimilisástæðna. Presturinn á Kálfatjörn hét Árni Thorsteinsen og var góðmenni.
Hann tjáði konu sinni vandræðin og sagði: „Nú er illt í efni góða mín, það er verið að skrifa mér að ekki sé hægt að ferma eitt barnið. Hún hefur ekkert til að vera í. Vilt þú ekki lána henni skautbúninginn þinn?“ „Það gengur alls ekki“, sagði maddaman, „hann er of stór, en vinnukonan á skautbúning sem mundi passa henni og ég skal nefna þetta við hana.“ Og það varð úr að mamma var fermd í skautbúningi vinnukonunnar og eftir það dvaldi hún á prestssetrinu í tvö ár.

Grindavík

Grindavík – Járngerðarstaðir – örnefna og minjakort – ÓSÁ.

Faðir hennar var þar einnig og var hann í miklum dáleikum hjá presti.
Á prestssetrinu var mömmu innrættur sá trúarandi og trúaralvara, sem átti sterkust ítök í henni æ síðan, auk þess sem hún lærði margt verklegt sem kom henni að góðum notum. Það var trúin sem var siguraflið í lífsbaráttunni og hennar sterki sjálfsbjargarvilji sem efldist í baráttunni við fátækt og sjúkdóma, en hún var krampaveik og sleit í köstunum sterkustu bönd, en það fór af henni eftir að hún eignaðist fyrsta barnið, en fátækir voru foreldrar mínir lengst af.“

Hörkukarl
„Fjórða húsið frá Gjáhúsum hét Skemman. Þar bjó ekkja, Sigríður að nafni, ásamt tveimur sonum sínum, Þorgeiri og Karli.

Grindavík

Gjáhús – grunnur.

Þorgeir var mikið eldri og var eiginlega húsbóndinn á heimilinu. Hann þótti strangur við bróður sinn og mér er það minnisstætt að hann notaði hnútakaðal til að tyfta hann til þegar honum þótti strákur ódæll, en móður sinni var hann umhyggjusamur og góður sonur. Þorgeir dó í sjávarháska miklum sem hér varð. Þann dag fóru öll Grindavíkurskipin á sjó i blíðskaparveðri um morguninn, samtals um 80 manns. Þegar leið á daginn gerði aftakaveður og minnstu munaði að allir færust, en svo gæfulega vildi til að skúta, sem var hér við ströndina, bjargaði öllum mönnunum og enginn fórst nema Þorgeir. Það var talið að hjartað hafi sprungið er hann var að binda bátinn sinn við skútuna. Karl bróðir hans var með honum og það síðasta sem hann sagði var: „Hugsaðu vel um hana mömmu, Kalli“. Svo var takið fast hjá Þorgeiri á kaðlinum, sem hann var að binda með bátinn, að þrjá menn þurfti til að losa það.
Ég var látin sofa hjá ekkjunni eftir þetta slys, henni til hugarhægðar, því þær þekktust vel mamma og hún. Þessi kona var ein af þeim sem dóu úr spænsku veikinni þegar hún geisaði hér.“

Við flytjum í nýtt hús

Grindavík

Hæðarendi.

„Nú fór smám saman að vænkast hagur okkar. Foreldrar mínir voru eljumanneskjur og börðust harðri baráttu fyrir lífinu, gegn fátækt, sulti og lélegum húsakosti. Við fluttum nú í veglegasta heimilið sem við höfðum haft til þessa. Sá bær var kallaður Hæðarendi og var fyrsta timburhúsið sem við bjuggum í. Pabbi hafði fengið þurrabúðarlán, sem var greitt á 20 árum, til að festa kaup á húsinu. Þetta þótti okkur ríkmannlegt heimili. Þar var eldhús og tvö góð herbergi til að sofa í og góðir gluggar svo að bjart var inni. Í eldhúsinu var kolakynt eldavél, en áður höfðum við búið við hlóðareldstæði. Frá eldavélinni gengu leirrör, sem lágu inn í strompinn. Á þeim þurrkaði mamma sokkana okkar og vettlingana, áður hafði hún oft þurrkað þá á lærunum á sér.

Grindavík

Grindavík – Rafnshús.

Með allri vesturhliðinni var skúr. í norðurenda hans var geymdur matur, en eldiviður í suðurendanum. Fyrir austan húsið var skepnuhús, en pabbi hafði keypt bæði hest og kú. Auk þess var þarna hænsnakofi og allmargar hænur. Túnblettur var kringum bæinn og þar var heyjað fyrir skepnurnar. Fyrir framan bæinn voru tveir kálgarðar. Pabbi lét sér mjög annt um þá og fékk oft góða uppskeru, bæði gulrófur og kartöflur. Veggir garðanna voru hlaðnir úr grjóti. Á sumrin, þegar pabbi fór ásamt öðrum þurrabúðarmönnum til fiskróðra austur á land, önnuðumst við krakkarnir garðinn ásamt mömmu.“

Furðuleg sjálfsbjargarviðleitni

Grindavík

Grindavík – Garðar.

„Atvik kom fyrir í þessum garði sem mér verður lengi minnisstætt og líklega er fáheyrt. Pabbi var heima þá, en þurfti að bregða sér eitthvað frá. Hann var ekki enn farinn austur á land eins og siður var þegar vertíð lauk hér í Grindavík. Áður en hann fór bað hann mömmu lengst allra orða að gá vel að garðinum, að engar skepnur kæmust inn í hann, því hann var nýbúinn að setja niður útsæðiskartöflur. Mamma lofaði því, en þegar pabbi kom aftur heim um kvöldið, kemur hann þjótandi inn og spyr með angist hvað hafi komið fyrir garðinn; hvaða skepnur hafi komist inn? „Það hafa engar skepnur komist inn í garðinn“, svaraði mamma. „Nú, það er skrýtið, það er öllu umturnað í garðinum og búið að taka allt útsæðið, sem ég setti niður.“ „Jæja“, svaraði mamma, „þá er best að þú athugir hvort ekki er hægt að rekja slóðina eitthvert.“

Grindavík

Grindavík – Barnaskólinn.

Pabbi fer nú út og athugar öll vegsummerki og ekki var um að villast, slóðina mátti rekja til kotbæjar þar nálægt, sem Garðar hét. Fjölskyldan þar var þekkt fyrir gripdeildir og ófrómleika. Krakkarnir voru iðulega sendir út til að stela og í þetta sinn lágu spírurnar af kartöflunum alla leið heim í hlað á Görðum. Pabbi hefur engin umsvif, en snaraðist inn gustmikill mjög. Húsfreyjan, stór og mikil, sat á rúmi sínu og spann í ákafa.
„Það er félegt að sjá hvað þú lætur krakkana þína hafast að“, segir pabbi reiðilega. „Hvar er útsæðið mitt?“ „Það er ekkert útsæði hér“ segir kerling og breiðir úr pilsunum. En pabbi gekk að rúmbálknum og gægðist undir hann. Og viti menn; þar voru útsæðiskartöflurnar, öllum kyrfilega raðað í kassa undir rúmið. Pabbi þrífur nú kassann og varð fátt um kveðjur. Ekki hafði hann brjóst í sér til að kæra atferli þeirra í Görðum, þetta voru svo miklir vesalingar. En útsæðið setti hann aftur niður í garðinn og fékk sæmilega uppskeru um haustið, þó ekki eins góða og oft áður.“

Dulrænt samband

Grindavík

Nautagjá; „Hún er í útjaðri á túninu Drumbar og kemur þar í stað girðingar. Allt vatn í þvotta og handa kúm var tekið úr Nautagjá, og þar voru líka þvottar þvegnir… Kýr voru fjarska oft reknar til vatns í Nautagjá á vetrum, ef gott var, og þannig látnar bera vatnið sjálfar. Þessi vegalengd mun hafa
verið nær eitt hundrað faðmar eftir túninu og gæti hugsazt, að nafn gjárinnar væri frá þessu komið í fyrstunni, að nautpeningur var þar oft við drykk.“

„Annað atvik kom fyrir í þessum garði sem ég man vel. Ég var úti og var að reyta arfa. Sölskin var og blíðuveður. Ég var þá farin að syngja allt í einu og það var sálmur, en ekkert vissi ég um það sjálf. Mér þótti ég líka vera stödd úti í kirkju. Mamma kemur út og segir: „Hvað, ertu bara farin að syngja sálm við arfatínsluna?“ „Hvað, ég er ekkert að syngja“, sagði ég. „Ég held þú ættir að fara inn að leggja þig“, segir mamma. Ég gerði það og var þá aftur komin í kirkjuna og farin að syngja sama sálminn og áður. Seinna kom í ljós að þetta var sálmurinn sem sunginn var yfir Valgerði á Járngerðarstöðum, systur Bjarna Sæmundssonar, en hún hafði drukknað í gjá vestan við Járngerðarstaði, svokallaðri Nautagjá, einmitt á sama tíma og ég sofnaði í garðinum. Hún hefur líklega hugsað til mömmu á dauðastundinni, en þær voru góðar vinkonur.“

Járngerðarstaðaheimilið

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir.

„Ég var alltaf af og til á Járngerðarstöðum hjá Margréti og börnum hennar. Jórunn dóttir hennar hafði verið í Reykjavík og lært að sauma fatnað. Hún saumaði á mig kjól með pífum og leggingum, það var fallegur kjóll. Líka saumaði hún skólatöskuna mina, sem ég gekk með allan þann tíma sem ég gekk í barnaskóla. Taskan var saumuð úr hvítum segldúk og brydduð með bláum bryddingum. Ég var afar hreykin af henni og enginn krakki átti fallegri tösku en ég. Þegar ég komst á legg var ég stundum lánuð að Járngerðarstöðum, lengri eða skemmri tíma. Margrét var stillt kona og prúð í framgöngu. Hún var þá orðin ekkja og elsti sonur hennar, Guðlaugur, stóð fyrir heimilinu. Hann þótti fastheldinn og sparsamur. „Þetta er nú meira sápubruðlið“, sagði hann iðulega þegar ég var að þvo mér um hendurnar eftir að hafa mokað flórinn.

Jángerðarstaðir

Nágrenni Jángerðarstaða. Gamli bæjarkjarninn.

Eitt sinn er ég hafði lokið diskaþvotti og bar diskabunkann í fanginu og ætlaði að koma þeim fyrir þar sem þeir áttu að vera, í innra eldhúsinu, datt ég um háan þröskuld og braut alla diskana. Þá varð ég hrædd, en Margrét sagði ekki orð heldur safnaði brotunum saman í svuntu sína og fleygði þeim síðan ofan í djúpa gjá. Ég veit ekki hvernig hún hefur getað sansað son sinn, en seinna fór hann til Keflavíkur og keypti diska í stað þeirra sem brotnuðu.
Eiríkur, sonur Margrétar, átti vanda til að fá máttleysisköst þegar minnst varði og þurfti ég oft að draga hann áfram. Þetta eltist þó af honum.
GrindavíkÉg var hjá Margréti þegar Jórunn dóttir hennar fæddi fyrsta barnið. Það var um hásumar í blíðskaparveðri. Fiskurinn lá fannhvítur til þerris á reitunum og heyið útbreitt á túnunum. Allir voru önnum kafnir við störfin þegar Jórunn veiktist. Þótti illt að taka mann úr fiskvinnunni til að sækja ljósmóðurina, en hún bjó þá austur í Þórkötlustaðahverfi, um þriggja kortera gang frá Járngerðarstöðum. Margrét kallaði því á mig og bað mig að hlaupa austur í hverfi og biðja ljósmóðurina að koma. Hún gaf mér höfuðklút svo að ég yrði fljótari að hlaupa, en það hefði hún ekki þurft, ég var meira en fús til fararinnar. „Vertu nú fljót Munda mín“, sagði hún. Ég lét ekki segja mér það tvisvar, en þaut af stað eins og fugl flygi. Alls staðar flaug ég fram hjá önnum köfnu fólki. Það var bæði verið að þurrka fisk og hey í steikjandi sólarhitanum. Ekki þorði ég að kasta mæðinni fyrr en ég var komin að Eyvindarstöðum. Þegar ég hafði fundið ljósmóðurina og borið upp erindið sneri ég við sömu leið og hvíldi mig í Melbæ eftir hlaupin.
Ekki var ljósmóðirin lengi að bregða við, lét söðla hest og hleypti af stað með tösku sína meðferðis. Hún tók á móti barninu og allt gekk vel.“

Skipsstrand

Grindavík

Grindavík – ströndin.

„Eitt haustkvöld, skömmu fyrir vertíð, var ég frammi í eldhúsinu á Járngerðarstöðum. Það var hlóðareldhús, sem var grafið inn í hól. Ég var þar að strokka smjör. Kolsvarta myrkur var úti og hríðarbylur. Fólkið var allt við vinnu í baðstofunni. Konurnar prjónuðu, kembdu og spunnu og bjuggu undir að setja í vefstólinn og karlarnir voru líka við handverk. Kennarinn, Tómas Snorrason, sem þar var þá til húsa, las sögu fyrir fólkið, sem hlustaði með athygli.
Allt í einu heyri ég hátt lúðraflaut og fer inn dimm göngin inn í baðstofuna og segi við fólkið: „Það er verið að blása í lúður.“ „Hvaða vitleysa stelpa, það er enginn að blása í lúður“, sagði fólkið. Ég fór aftur að strokka, en heyrði þá enn blásið í lúðurinn og þrisvar heyrði ég blásið. Ég fer þá inn til fólksins og segi: „Mér er sama hvað þið segið, það er verið að blása í lúður, það er eins og þegar eimpípa er að blása.“ Tómas stendur þá upp og segir: „Kannski ég fari út og athugi þetta.“ Allt fólkið fór þá fram göngin og þegar Tómas opnaði bæjarhurðina sáum við stórt bál fyrir utan Sölvhól.

Margrét Tómasdóttir

Margrét Tómasdóttir (1835-1876).

„Guð varðveiti okkur,“ sagði Tómas „það er strandað skip og þeir hafa kveikt eld á dekkinu. Þá var enginn viti í nesinu og engar slysavarnir hér og því ekkert hægt að gera til bjargar um nóttina fyrir hríðinni og veðurofsanum. Strax og birti um morguninn var farið að bjarga mönnunum.
Tvisvar höfðu þeir reynt að senda jullu í land, en þær fórust í brimrótinu. Skipstjórinn reyndi þá ekki að senda fleiri. Um morguninn þegar ég var að kafa snjóinn í skólann, sá ég að verið var að leiða fyrsta manninn heim að Járngerðarstöðum. Þegar ég kom aftur úr skólanum var orðið fullt af enskum skipbrotsmönnum, um 20 manns. Fötin þeirra voru skoluð í gjá og þurrkuð í hjallinum. Heimasæturnar, Stefanía og Jórunn, þjónuðu þeim og hjúkruðu. Matur var keyptur og hlynnt að þeim eins og framast var hægt.
Þeir voru á Járngerðarstöðum í viku tíma. Þá voru þeir sendir til Reykjavíkur og síðan með skipi til Englands. Nema tveir, sem urðu eftir fram yfir jarðarför þriggja sem fórust, en það voru kokkurinn og tveir hásetar. Tómas Snorrason var enskumælandi og sagði að kokkurinn hefði búið með aldraðri móður sinni. Ég vorkenndi henni og þótti átakanlegt þegar kisturnar voru fluttar í kirkjugarðinn.

Tómas Snorrason

Tómas Snorrason (1872-1949).

En oft var glatt á hjalla á Járngerðarstöðum meðan skipbrotsmennirnir voru þar. Þetta voru allt prúðir og glaðir menn.
Tveir voru ungir, þeir voru kurteisir og glaðir. Ég lærði orð og orð í ensku. Ég var 11 ára og þótti dálítið tómlegt eftir að þeir fóru burtu. Skipið þeirra hét Waronell. Öllu var bjargað af því, þar á meðal heilmiklu af kolum. Ég man eftir hreppsstjóranum með hreppsstjórahúfuna þegar aksjónin var haldin. Seinna varð annað skipsstrand, franskur togari Cap Fagnet strandaði á Hraunsfjöru, þá var ég gift og farin að búa. Þá var Eiríkur sonur Margrétar orðinn formaður. Slysavarnarfélag hafði verið stofnað og þeir voru búnir að fá línubyssu, til að skjóta línu um borð. Öllum mönnunum, 38 að tölu, var bjargað, en þetta var fyrsta strandið eftir stofnun slysavarnafélagsins. “

Garðhús

Grindavík

Grindavík – Garðhús.

„Þegar ég var 12 ára var Garðhúsaheimilið byggt og stendur það enn í dag. Það þótti vegleg höll í þá tíð. Einar kaupmaður og Ólafía bjuggu þar og hjá þeim bjó aldraður faðir Einars, sem þau önnuðust á meðan hann lifði.
Einar kaupmaður og Ólafía voru höfðingjar, vinsæl og vel látin og ótaldar voru góðgerðir þeirra við fátækt fólk. Fáum þótti tiltökumál þó velgengni þeirra væri góð, aldarandinn var þá þannig. En sumum óx þó í augum veldi kaupmannsins, en alþýða manna virti hann og þau hjón bæði, enda voru þau góðgerðasöm við fátæklinga.“
Hér lýkur frásögn Mundu í Brimnesi. Maðurinn með ljáinn kom í veg fyrir frekari skráningu endurminninga hennar, en hún lést á vordögum 1983.“ – Skráð hefur Ólafía Sveinsdóttir

Heimild:
-Bæjarbót, 6. tbl. 01.12.1984, Frásagnir úr Grindavík, skráðar eftir Mundu í Brimnesi, bls. 12-13.
Grindavík