Tag Archive for: Gamla-Krýsuvík

Jockum Magnús Eggertsson

Í Sjómannadagsblaði Grindavíkur 2019 er frásögn Jockum Magnúsar Eggertssonar;  „Einn áfangi á Reykjanesi„. Fjallar hún um ferðir hans um Reykjanesskagann árið 1945.

Jockum Magnús Eggertsson„Við höfðum slegið tjöldum austan Festarfjalls undir hlíðarrana. Fellin fallast þar í arma og geiga í hafsuðrið móti útsænum. Hann er þar einvaldur en gjögrin ögra honum. Þar með slævist hann og slöðrast í skútum og bergvilpum og andar djúpt millum þess er hann flæmist og flaðrar um dranga og kletta sem haldið er rígföstum í krepptum hnefum af stálörmum fjallsins.
Hlíðarraninn er gróinn kjarngresi millum grjót rasta og ofanhraps og þar er græn grundin undir. Forbrekkið lykur hálfhring í klettaskjóli af vestri og norðri. Til austurs er úfið hraun, liggjandi í landáttinni, en til suðurs særinn, óendanlegur. Blómsprungin gróðurlænan, ilmandi og marglit, teygist fast í sjávarkampinn, uppausinn og umturnaðan, með slitringi af sjóreknum sprekum og hrakviði ásamt vargétnum ræfrildum og rusli, skeljabrotum og skrani.
Ásýnd Ægis konungs er aldrei smávægileg. Andgufa hans þryngir loftið. Ærið er borðhald hans þjösnalegt, oft og tíðum, og refjar henta honum eigi er hann ryðst um að mat sínum. Skap hans er ætíð mikið og persóna hans fyllir rúmið, hvort heldur hann vakir, dormar eða dreymir. Víst kann hann að kasta mæði og ganga að borði kurteislega. Heitir það hófstilling. En er hann kveður sér hljóðs við bergþil strandarinnar, þá rymur hann og klappar klettinn. Þar ríkir annar höfðingi fastur í sessi, þolmikill og þybbinn og enginn veifiskati.
Kveðjur þeirra stórvelda eru mikilúðugar og oftast kaldar, en þó fjandskaparlausar, og vekja af dvala vætti og höfuðskepnur. Gætir þar geigvænnar alvöru og hráslagalegrar kampakæti: er kyssast klettur og sjór. Konungur hafs og lands!

Ísólfsskáli
Ísólfsskáli
Bær er þarna einn og úrhreppis. Heitir að Ísólfsskála. Telst til Grindavíkursókna. Bærinn situr í fjallskverkinni undir Slögubarðinu, í beygjugjögur olnbogans, á lágsléttu fyrir ögurbotninum, kvíaður milli fjallsins og hraunstorkunnar.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun.

Hraunflóð mikið hefir ollið yfir allt undirlendið og í sjó fram millum Festarfjalls og Krýsuvíkurbergs. Það heitir Ögmundarhraun og er eyðimörk. Aðeins mjó ræma óbrunnin milli hraunjaðra og fjallsróta. Bærinn Ísólfsskáli húkir þarna undir Festarfjallinu út við hafið. Hann er nú ofar en áður fyrr og aukið við túni, sem teygir sig upp á hjallann yfir bænum. Það hefur kostað ærna aðvinnslu í bogri og eigri einyrkjans. Grjóthrúgur miklar auglýsa erfiðið. Lausa grjót liggur hér víða í hálsum og hlíðum á opnum svæðum, þar sem eigi hafa hraun ollið ofaraurum og myldingi, en gróðurmold góð og víða alldjúpt undir. Er það svo upp til hæstu hnjúka. Ennþá eimir þarna eftir af þykkum, kringumblásnum jarðvegstoddum og tyrfum, til og frá í fellum og fjöllum. Forni jarðarfeldurinn er enn ekki að öllu og fullu eyddur og burtblásinn. Bendir þar til mikils gróðurs og skjólsælla skóga áður á öldum. Þarna í eyðimörkinni búa væn hjón og vinnusæl. Góðfús eru þau og gestrisin. Þau eru við aldur. Börn þeirra uppkomin; flest flogin úr hreiðrinu. Barnabörn aftur komin innundir. Ísólfur heitir einn yngstur sonurinn hjónanna. Hann var heima. Álitlegur sveinn og vel líklegur ríkisarfi. Heitir í höfuðið á bólinu.

Hjónin í eyðimörkinni

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – gamli bærinn. Sumarbústaður byggður á tóftunum.

Rústir gamla bæjarins eru rétt á sjávarbakkanum. Sá bær var áður ofarlega í túni. Svona sækir sjórinn á landið.
Hrammur hafsins og höggtennur hafa hér brutt og nagað ströndina, hámað í sig mold og mýkindi, grafið og gramsað í landinu, hóstað og hrækt út úr sér brimsorfnum buðlungum og hrúgað öllu saman í hryggi, er verpa ströndina.

Isólfsskáli

Ísólfsskáli – bærinn og útihús.

Sá mikildjarfi dögglingur þokast nú þéttskrefa á landið upp í átt til fornu bæjarrústanna. Hann iðjar ekki allsvana. Hann ekur á undan sér hrynhárri upplausnarkempunni, íklæddri byngborinni kyngi. Nú gín hann yfir eina vatnsbóli eyðimerkurinnar, gamla brunninum, og er nú kominn á fremsta hlunn og þegar hafinn handa að hrækja í hann hroðanum.
Hjónin í eyðimörkinni eru, eins og best má vera, brot af íslensku bergi, frumbornir arftakar þess ódrepandi úr þjóðlífinu; uppalin af duttlungum veðurfarsins, hert af óblíðu árstíðanna, viðjuð gróanda vorsins, kynbætt af þúsund þrautum. Þeim hæfði þáttur sérstakur.

Hér er þess varla völ
ÍsólfsskáliNöfn þeirra þarf ekki að nefna. Þau vita sjálf hvað þau heita. Allir þekkja þau, sem eitt sinn kynnast þeim, en ókunnugum mætti segja að þau hétu Agnes og Guðmundur. Hann mun eitthvað hafa fæðst þar austur í fjallgarðinum.
Fólk klekst þetta hvað af öðru, hálfóafvitandi, svo fæðingarstaður hvers og eins verður sjaldan nákvæmlega útreiknaður enda skiptir það minnstu máli. Undirlega landsins er þar aðalatriðið. Vigdísarvellir mun það heitið hafa þar sem foreldrum hans fénaðist drengurinn.
Kotið lá undir Krýsavíkursókn. Nú í auðn komið fyrir áratugum. Svo er og um sóknina alla. Enginn maður er þar uppistandandi. Sá síðasti féll í fyrra (1945), og þó eigi til útafdauða. Einsetumaður. Hafðist við í kirkjuhrófi Krýsavíkur, eina húsi sóknarinnar uppihangandi, í miðjum gamla kirkjugarðinum,
inn á milli leiðanna. Þar voru hans gömlu samherjar og sálufélagar gróðursettir.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – Erling Einarsson við steinninn nefnda.

Aftur skal vikið að Ísólfsskála. Ungur fluttist hann þangað, drengurinn. Er hann var 9 ára varð hann fyrir einkennilegu atviki. Hann var að leika sér með öðrum börnum undir klettum í krikanum vestan við túnið. Skúti einn er þar undir bergið, en stuðlaberg slapir yfir. Drengurinn var að bauka þar undir að leik sínum. Losnaði þá og féll á drenginn allstórt brot neðan af einum bergstuðlinum. Kramdist hann þar og klesstist undir og lá sem dauður væri. Börn voru þar önnur, er hlupu heim og sögðu frá. Var þegar farið til af fullorðnum.
Drengurinn var talinn dauður með því blóðlækur mikill rann undan farginu. Var því lyft af og gætt fyllstu varúðar. Sá litli lá þar meðvitundarlaus: höfuðleðrið rifið og flett af hauskúpunni og annar handleggurinn tvíbrotinn. Drengurinn lifnaði við og varð græddur, en vegsummerki ber hann til æviloka.
Bær þessi fór svo í auðn skömmu síðar og ekkert nýttur nokkurt skeið. En þá drengur þessi varð frumvaxta og hafði sér konu festa, keypti hann þetta eyðikot, hefur búið þar síðan, byggt upp og bjargast.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – Agnes og Guðmundur með nokkrum börnum þeirra.

Hollvættir staðarins hafa verndað drenginn sem síðar átti eftir að endurbyggja bólið, rækta það og reisa, auka það og uppfylla. Konan mun komin af einhverri ódrepandi ætt, líklega af Vatnsleysuströnd eða Suðurnesjaalmenningum, sem hægt og rólega kljáðist við örlögin og klóraði þeim bak við eyrað. Með fyrirhyggjunni og frumstæðustu amboðum skal það hafast, þó allt annað umhverfist og heimurinn gangi af göflunum.

Guðmundur og Agnes

Guðmundur og Agnes á Skála.

Annars segir ekkert af henni, þessari konu. Engin ógæfa mun að henni komast, svo ágæt er hún. Hún var ekkja með 6 ungbörn er hún ákvað að rugla saman reitunum með núverandi manni sínum og setjast að í eyðikotinu á eyðimörkinni. Hún lét ekki þar við sitja heldur fæddi síðari manni sínum önnur 6 börn. Gerði báðum jafnt undir höfði og sýnir það háttvísi í hegðun. Hún hefur fullkomlega lagt sinn skerf að heill staðarins. Þessi kona er síung þrátt fyrir alla erfiðleika barnauppeldis og búskapar. Um leið og bú hennar blómgaðist og færðist út, óx hún sjálf og þroskaðist. Nótt og nýtan dag hefur hún unnið og annast heimili sitt og haldið þar hlífiskildi. Í skrúðgarðinum hennar hjá hlaðvarpanum voru um 60 jurtategundir og trjáa. Kunni hún ævisögu hverrar plöntu og kvists. Þá stóð hún ekki á gati í ættfræði og kynbætum hundanna, kattanna og kvikfénaðarins.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – uppdráttur ÓSÁ.

Þá var ekki komið að tómum kofanum með kartöflurnar, garðjurtirnar og kornakrana, sem rotturnar gengu í eins og þeim væri borgað fyrir það, bitu öxin af stöngunum og báru burt og söfnuðu í kornhlöður handa sjálfum sér. Þetta þurfti sosum að basla fyrir lífinu eins og aðrir, þessi kvikindi.
Heimilið og fjölskyldan: barnabörnin, hænuungarnir, hundarnir, matjurtirnar, kindurnar, kýrnar, eldiviðurinn og taðan, innanhússtörfin, þvottarnir og matreiðslan: Allt í sömu andránni, á einu bretti og í hagsýnum tilgangi. Ekkert mannlegt óviðkomandi, er hagsýni hennar mátti að gagni verða. Vissi margt, en fann sig þó þurfa að vita miklu meira og spurði óspart. Huldufólk umgekkst hún heiðarlega; ættfærði köttinn í átjánda lið, hundinn til heilags anda, en drottni gaf hún dýrðina. Ólukkan forsómaði hún algjörlega. Náttúrubarn. Elskuleg kona.
Ísólfsskáli
Hundurinn auglýsir sál og samvisku hvers heimilis. Þarna standa þeir Tryggur og Móri dinglandi af ánægju meðan við erum að reyra saman baggana og remba á okkur byrðunum. Kötturinn kom líka og vippaði sér upp á garðshornið; setti upp gleraugu, leit á hundana og heiminn og allt sem skaparinn hafði gert og gera látið, reisti kamb og hvarf með úfnu og uppréttu skotti.
„Aumingja strákurinn“, okkar hundur hann var tjóðraður og hafður í bandi til að missa hann ekki út af réttlínunni. Þetta var ungur óvaningur, uppveðraður til skammarstrika.
Svo kveðjum við Ísólfsskála, þennan ágæta bæ, með öllu sem um hann og í honum hrærist.

Jónar og Kristjánar

Krýsuvík

Krýsuvík seinni tíma – uppdráttur ÓSÁ.

Ferðinni var heitið austur í ólgandi hraunið í átt til þeirrar upprunalegu Krýsavíkur, er auðvitað situr við sæinn, og var á sínum tíma stærsta höfuðból á Íslandi, en átti sel og hjáleigur víðsvegar upp í Gullbringunum, meðal annars í dalnum góða og grösuga, þangað sem nafnið Krýsavík var flutt, langt upp í land, eftir að sjálft höfuðbólið fórst í því ægilega hraunflóði, er Ögmundarhraun rann. Það mun hafa verið í byrjun 14. aldar, sennilega um 1340. Gamla Krýsavík var, alllöngu fyrir landnám norrænna manna eða austmanna: þ. e. Dan-þjóðflutninga kvíslarinnar, orðin höfuðstöð sægarpa og siglinga og af austrænum uppruna eins og Dankvíslin, (víkingarnir), aðeins stórum mun lengra komnir í vísindum, menningu og siðgæði. Lærðu mennirnir voru nefndir „papar“, þ.e. feður, og skiptust á tvær deildir: Jóna og Kristjóna = Kristjána. Jónarnir skoðuðu Krist sem mann, er hægt væri að líkjast og urðu óumræðilega vitrir og máttugir.

Húshólmi

Gamla Krýsuvík í Húshólma – uppdráttur ÓSÁ.

Kristjánar trúðu, aftur á móti, eingöngu á Krist sem guð, hafinn yfir allt mannlegt sem aðeins væri hægt að elska og tilbiðja í auðmýkt og lotningu. Þeir urðu óumræðilega heimskir og ofstækisfullir og liggur ekkert eftir þá af viti. Jónarnir tileinkuðu sér lífsskoðun Jóhannesar frá Antiochia Krýsostómas = gullmunnur. Þeir voru því kallaðir krýsar og af þeim dregur Krýsavík nafn, því þar var höfuðbækistöð krýsostomosa, og búinn að vera það full 200 ár, áður en Ingólfur Arnarson kom hér að landi.
Gamla Krýsavík var, fram yfir miðja elleftu öld, eða þar til Krýsar voru drepnir, eitthvert mesta menntasetur veraldarinnar. Kristjónar hötuðu jóna = krýsa og skoðuðu þá sem heiðingja og andskota, en urðu að vera upp á þá komnir, því þá skorti alla þekkingu og manndáð til að geta bjargast án þeirra. Heiðnum mönnum (Ásatrúar) og krýsum kom, aftur á móti ágætlega saman, svo fremi, að ekki væru við höfð mannblót eða annað ódæði.

Einsetumenn, er hér höfðu aðsetur

Húshólmi

Skálatóft í Húshólma í Gömlu-Krýsuvík.

Flestir „papanna” voru fæddir hér á landi.
Ísólfsskáli lá áður fyrr undir gömlu Krýsavík, eins og flestar jarðir í „Landnámi Ingólfs”, en féll undir Skálholtsstól er hann var stofnaður (1056), eins og nær allar jarðir á Reykjanesi og Suðurnesjum, og hélst það allan tímann meðan Skálholtstóll var biskupssetur, en þó tókst Danakóngum að krækja í einhver kotin.
Aðförin að Krýsum var gerð, eins og áður er sagt, haustið 1054, og eignum þeirra skipt millum kirkjunnar og höfðingjanna, og fyrsti stóllinn stofnaður. Urðu þar fyrstu þverbrestirnir í þjóðveldið, en hvalreki fyrir erlenda konungsvaldið. Var hér um stóreignir að ræða því Krýsar áttu meðal annars meginpart innlenda kaupskipaflotans, en höfðingjar þurftu að fá vel borgaðan „herkostnað“ allan og ómak sitt og manntjón við aðförina.
Við ferðalangarnir, erum fjórar mannverur, tvennt af hvoru kyni, og hundurinn sá fimmti. Við verðum að bera allan farangur á sjálfum okkur, tjöld vor og útbúnað allan, vistir og vatn. Það er 15-20 km. leið, er við eigum fyrir höndum að fyrir huguðum áfangastað, meginhlutann yfir úfið apalhraun, gróðurlaust af öðru en grámosa, sprengt og umturnað af algjöru handahófi, ófært hestum og öllum farartækjum nema fótum manns og fuglinum fljúgandi. Og vatnsdropa er hvergi að fá á þeirri leið, er við höfum ákveðið að fara.

Reykjanesláglendið

Húshólmi

Húshólmastígur um Ögmundarhraun.

Meginhluti Ögmundarhrauns, en í það leggjum við, getur vart hafa runnið fyrr en á árunum 1211- 1340. Í og um Reykjaneshálendi eru skógar sagðir hafa verið mestir á landi hér og landskostir bestir, að fornu fari, áður en allt Reykjanes brann og varð eyðimörk, að Gullbringnadalnum undanteknum, en þangað var nafn fornu Krýsavíkur flutt, eftir eyðinguna, og hefur síðar orðið að Krísuvík sem er lítilsháttar afbökun og latmæli, en þó ekki meira en gengur og gerist um eiginnöfn, meðal allra þjóða.
Ævaforn helluhraun hafa víðast hvar verið á Reykjanesláglendinu og nýrri hraunin runnið yfir þau. Allmargir hólmar og tæjutásur af þessum eldri hraunum hafa undanþegist og liggja eins og hrakspjarir hingað og þangað innan um úfnar rastir og storkinn hrákavelling nýju hraunanna. Vegferð allmikil hefur verið um fornu hellurnar, því markast hafa í þær greinilegar götur og troðningar, eftir aðalumferð, og hverfa þessar aðalgötur undir nýju hraunin sem ófær eru yfirferðar. Má af þessu marka, að mjög hefir verið sótt til Suðurnesja á fyrri öldum.

Traðarfjöll

Gígar norðan Traðarfjalla milli Fremrivalla og Tófubrunna.

Í ísl. annálum er getið 14 mikilla eldgosa á Reykjanesskaga og í Trölladyngjum, efst í fjallgarðinum vestan Gullbringudalsins, en þær dyngjur virðast hafa átt stóra samvisku og nóg á sinni könnu, enda mæður margra hrauna. Ekki er fullvíst að þarna séu meðtalin gos í Eystri Gullbringum, Eldborgum, Brennisteinfjöllum og Heiðinni Há sem öll hafa gosið ákaflega síðan sögur hófust. Hafa þau gos umturnað hálendinu austan Krýsavíkur og hraunfossar steypst ofan af Geitahlíð og austari hamrahlíðinni, allt til Selvogsósa, breiðst þar út yfir láglendið og runnið í sjó fram beggja megin Herdísarvíkur, en það er fornfræg veiðistöð vestast í Selvogi.
Meginrennsli Ögmundarhrauns hefir komið úr þrem sprungum utan undir ystu hlíðunum á Núpshlíðarhálsi, rétt fyrir neðan Vigdísarvelli. Hafa myndast fjöldi smágíga í þessum sprungum, fleiri tugir gíga í hverri sprungu. Eru stærstu gígarnir nyrst í neðstu sprungunni. Heita þar Fremrivellir, en Tófubrunnar neðstu gígarnir. Hinar sprungurnar eru ofar og sunnar. Flestallar gjár og eldsprungur á þessu svæði liggja frá norðaustri til suðvesturs. Er það næsta merkilegt hve ægilegt hraunflóð hefur ollið úr þessum sprungum og síðan breiðst út niður á láglendinu, yfir fornu helluhraunin, bæði til suðurs og vesturs, en til austurs alla leið að Krýsavíkurbergi og á sjó fram á öllu því svæði og vestur að Selatöngum.

Selatangar

Selatangar – sjóbúð.

Vestari hluti Ögmundarhrauns hefir runnið úr gígum við Selvelli, suður og vestur á við, og í sjó fram milli Festarfjalls og Selatanga. Virðist það hraun vera nokkru eldra en það austara.
Gífurlega er Ögmundarhraun víða úfið og kargað og mismunandi opinmynntar og gapandi gjásprungur óteljandi. Hafa orðið í hrauninu ægilegar gufu og ketilsprengingar, er það dróst saman og kólnaði.
Milli vestur og austurhluta Ögmundarhrauns er nokkurn vegin greiðfær leið, um fornu hraunhellurnar, undan Núpshlíðinni og niður að Selatöngum, en þar var mikil fornfræg veiðistöð og útræði, og er að kalla má, fyrir miðju Ögmundarhrauni. Í Selatöngum eru miklar rústir búða og fiskibyrgja. Útræði var þaðan stundað allt fram á síðari helming 19. aldar. Þar voru eitt sinn, á fyrri öldum, taldir í veri 27 Jónar og eitthvað færri Kristjánar, er sóttu þaðan sjóinn ásamt mörgum öðrum minna algengum mannaheitum.

Húshólmi

Húshólmi – tóftir í Ögmundarhrauni.

Nú hefur þaðan í 70 ár ekki verið á sjó farið, en allt bíður síns tíma. Segja mætti mér að sú kæmi tíðin, að hafnarmannvirki yrðu gerð í Selatöngum. Ögmundarhraun á allt eftir að byggjast og verða eitthvert blómlegasta hérað landsins. Öll verðum við þá horfin er nú byggjum landið, en ritsmíð þessi mun ennþá uppi og bera sannleikanum vitni.
Gamla Krýsavík á enn eftir að rísa upp og verða aftur mesta menningarsetur veraldarinnar. Þetta er ekki spádómur heldur lítilsháttar athugun á lögmálum orsaka og afleiðinga. Það er ófrávíkjanleg staðreynd, að allt sem fram á að koma er löngu fyrirfram séð og vitað, planlagt og útreiknað. Þetta virðist næsta ótrúlegt þegar þess er gætt að frelsi mannsandans er ótakmarkað og hann getur allt sem hann vill – ef hann veit að hann getur það.
Allt Ögmundarhraun verður með tímanum molað niður og notað til áburðar. Í því er mikil gnægð jurtanærandi efna, bundin í steininum. Mosafeldurinn mikli, er þekur hraunin á stórum svæðum er einnig mjög dýrmætur. Vatn er undir niðri, ótæmandi, í gjám og sprungum og þyrfti óvíða að bora eftir því. Vatnssvið landsins nægilegt fyrir stórborg og orka jarðhitans takmarkalaus.

Tröll og berserkir

Ögmundardys

Ögmundardys austast við Ögmundarstíg.

Þjóðsagnaþrugl er til um það, hvernig nafn Ögmundarhrauns eigi að vera til komið. Á slíkum þjóð sögum er ekkert að græða, allt uppspuni og tilbúningur, þar sem engin tímasetning er við höfð, og allt úr lausu lofti gripið. Þjóðsögur eru marklausar nema þær séu tímasettar og vísað til vegar með raunverulegum atburðum.
Þjóðsagan um vegruðninginn yfir aðal ofanrennslistaum Ögmundarhrauns, vestan við Krýsavíkur Mælifell (Eystra-Mælifell), þar sem beinakerling sem sögð er dys Ögmundar, er undir Fellinu, við veginn, er sama sagan og sögð er í fornsögunum (fyrir 900 árum) um veginn gegnum „Berserkjahraun” á Snæfellsnesi. Það er móðursögnin. Þrjár arfsagnir hafa svo, öldum síðar, sprottið af þessari upprunalegu móðursögn og gróðursettar sín í hverju landshorni.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraunið rutt.

Afsprengi upphaflegu móðursagnarinnar eru eftirtaldar arfsagnir:
-Sögnin um berserkinn Ögmund = Ögmundarhraun undir Gullbringum í Gullbringusýslu.
-Sögnin um berserkinn Rusta = Rustastígur, í Rustahrauni við Dimmuborgir í Mývatnssveit í Suður-Þingeyjarsýslu.
-Sögnin um berserkinn á Ósi = Ósvör við Buðlungavík (Bolungarvík) í Norður Ísafjarðarsýslu. Allt voru þetta berserkir og tröllmenni, er fyrir sitt líkamlega erfiði, að loknum afköstum, höfðu gefin loforð um fríða og efnilega heimasætu; en sviknir og drepnir að verkalaunum.

Ögmundarstígur

Ögmundarstígur í dag.

Þess verður ávallt að gæta um þjóðsögur: hvort þær eru móðursagnir eða afsprengi.
Sagan um „lönguna“ er t.d. sögð í þrem samstofna útgáfum, sín í hverju landshorni; Þegar sóknarmenn vildu „plata“ prest sinn, eða reyna „kunnáttuna“ og láta hann jarða löngu í staðinn fyrir sveitakerlingu. – Það eru 3 „galdraprestar“, sinn á hverjum tíma sem eignaður er sami leikurinn, sama vísan eða vísurnar og sömu tilsvörin: séra Jóni gamla á Þæfusteini undir Jökli, ár 1580; Eiríki presti á Vogsósum í Selvogi, dáinn 1716, 49 ára að aldri; og loks Snorra presti Björnssyni á Stað í Aðalvík; prestur þar á árunum 1741-1757, en síðar á Húsafelli og kenndur við þann stað.
Á slíkum samstofna „guðspjöllum” verða menn alvarlega að vara sig. Þess vegna verður að rekja ætt hverrar þjóðsögu til upprunans, og staðfæra hana, á svipaðan hátt og frumhöfundar Íslendingasagnanna gerðu um sögu hetjur sínar og máttarstólpa viðburðanna. Þeir byrja á því að rekja ættir og tildrög til sannsögulegs uppruna. Þeir staðfæra söguhetjurnar raunvísindalega, byrja á byrjuninni og vita endirinn til síðasta orðs um leið og byrjunina. Verk sín byggja þeir á órjúfandi – sannsögulega – raunverulegum grunni. Með því tókst þeim að skapa sannar og lifandi, rólegar og öfgalausar lýsingar og ódauðleg listaverk. Þeir kunnu svo vel á ekju tungu sinnar, að nærri heggur að þeir skáki nornunum í manntafli örlaganna.
Helgi Guðmundsson, safnari „vestfirskra sagna“, skildi hlutverk sitt best ísl. þjóðsagnaritara. Við fráfall hans urðu íslenskar bókmenntir fyrir óbætanlegu tjóni.

Áfram skal haldið

Krýsuvíkurberg

Gamla Krýsuvíkurbergið austan Húshólma.

Leið okkar liggur undir fellum og fjöllum, hálsum og hæðum til landsuðurs meðfram Núpshlíðinni og austurfyrir Núpinn sem er allhár, og teygir sig fram úr fjallrananum út í hraunið. Þetta er afgömul sjávarströnd, fuglabjörg ævaforn og aflóga, frá þeim tíma er sjórinn stóð miklu hærra en nú, undirlendi var ekkert, og þar sem áður voru firðir eru nú fagrir dalir, eins og t.d. Þórsmörk.
Gaman er að lesa land um leið og maður gengur. Þó efst séu hamrar og hengiflug, og enn ákleyft, hækkar ofanhrapið og úrlausnin aftur neðan frá, eftir því sem upp hleðst, uns orðið er bústið og bringu hvelft undir klettakraganum. Fæðast þá geirar grasgrónir, er teygjast svo sem auðið er upp í álkur og hófst foreldrisins og hanga þar góðteit millum aurskriðna og iðrunarbolla framhleypninnar. En sú framhleypni er þó undirstaða annars meira, þótt særist brjóstið og svívirðist gróðurinn. Þarna í geirunum móti suðri og sól, í skjóli hamra hlíðarinnar fyrir norðannæðingum, finnum við fullþroska jarðarber og er þar allmikið af þeim. Þau voru góð, þó villt væru, stór og ljúffeng og merkilega bráðþroska. Enn var júlímánuður ekki afliðinn.

Latur

Latur í Ögmundarhrauni og Latfjall ofar. Krýsuvíkur-Mælifell á millum.

Leið okkar liggur fram hjá Litla-Lat sem er fjallsrani með hækkandi fellskolli upp að endanum og hömrum framan í að sævarátt, og skagar út í úfna og ólgandi hraunstorkuna.
Við stefnum á Óbrennishólma, en það er allmikill grasgróinn hólmi, umgirtur hrauni á alla vegu. Þarna er aðalniðurrennsli hraunsins frá gígunum við Fremrivelli. Hefur hraunið runnið þar undan brekkuhalla, suður á við, millum EystraMælifells og Núpshlíðarháls. Öll er hraunstorkan úfin þarna og í henni bárur miklar og þversprungur, bognar eftir rennslinu og bramlaðar sitt á hvað. Hallandi hraunbrekkan, úfin, storkin, sprungin og bólgin, er sviplíkust skrið jökli, er sígur og hnígur fram og niður úr þröngum og djúpum dali.

Óbrennishólmi

Óbrennishólmi; fjárborg eða virki!?

Við köstum byrðum og hvílumst um stund á hæsta hóli Óbrennishólmans, í suðurenda hans, en þar er ævaforn fjárborg sem nú er með öllu jöfnuð við jörðu svo ekki stendur steinn yfir steini. Má þó enn greina hring undirstöðunnar og hefur fjárborg þessi verið allstór eða nálægt 10 metrar að þvermáli; hlaðin úr basalti og grágrýti sem ekki finnst þarna annarstaðar, enda er borgin miklu eldri en hraunið um kring.
Úr Óbrennishólmanum héldum við til suðausturs, í átt til Húshólmans sem var fyrirhugaði áfanga staðurinn, en hittum ekki á bestu leiðina, heldur þá alverstu.
Fórum of nærri sjónum og lentum inn í kolsvart brunahraun, afarúfið, með engum mosagróðri. Byrðarnar voru þungar: 40-50 kg., á þeim er þyngst var. Þegar þarna var komið var hundurinn orðinn svo sárfættur, að bæta varð honum ofan á eina byrðina. Við höfðum þó gert honum skó á alla hans fjóra fætur, en ekkert vildi duga þó sífellt væri verið að reyra og vefja og endurbæta skógerðina. Hann fór margan óþarfa krókinn: „Aumingja strákurinn“, og flengdi af sér skóböslin í eltingaleik við kjóahjón, er hann átti í erjum við, þó enginn yrði árangurinn annar en skóslit og sárir fætur eftir margt vel útilátið vindhögg og mörg misheppnuð frumhlaupin.

Húshólmi

Húshólmi – skálatóftir.

Steinuppgefin með sprengda skó og rifnar flíkur komum við í áfangastaðinn, Húshólmann. Þar féllum við til jarðar á rennislétta, ilmandi grundina undir úfnum, bröttum hraunjaðrinum skammt frá rústum forna stórbýlisins sem eru þar umluktar og inni bræddar í hrauninu.
Marflöt eins og ormar teigum við angan gróður vinjarinnar, er hvílir þarna innan vébanda eldstorkunnar í hrjósturkufli eyðimerkurinnar. Faðmur móður vorrar, jarðarinnar, er æ reiðubúinn að taka börn sín og hjúfra í friði og farsæld.
Örfá andartök og þreytan er þorrin. Sami töfrailmurinn er hér enn úr grasi og Grelöð Jarlsdóttir hin írska fann, er hún, á fyrstu dögum Íslandsbyggðar, valdi sér bústað eftir angan jarðar og ilman blóma.
Og gamla persneska skáldið Omar Khayyám vissi hvað hann söng, er hann, fyrir meir en 800 árum, kvað um mannsævina og líkti henni við lestargöngu.

Húshólmi

Húshólmi – Kirkjulágar.

Vel var sofið og vært þessa fyrstu nótt í tjaldbúðum vorum í Húshólma, enda aldrei áður tjaldað þarna og sofið svo menn viti til. Miklir voru draumar og mannfróðlegir. Meðal annars þóttist eitt okkar finna allmargar beinagrindur og hirða. Voru þær frá ýmsum tímum og öldum og sín úr hverri áttinni. Þegar farið var að rannsaka kom það upp úr kafinu að beinagrindur þessar voru af draumamanninum sjálfum, frá áður lifuðum og liðnum æviskeiðum. Ein fannst austur í Eyjahafi, nálægt stórri eyju undan Grikklandsströndum; önnur í Atlantshafi í nánd við Hebrides-eyjarnar og tvær, eða fleiri, grófust upp úr kafinu einhvers staðar á voru landi, Íslandi.
Draumamann langaði mjög til að hirða hauskúpurnar og eiga sem minjagripi, því mjög gæti það verið fróðlegt, að eiga vel verkaða hauskúpu af sjálfum sér frá einhverri fyrri jarðvist. En allar hurfu þær draumamanni, að undantekinni einni, er hann vildi ekki fyrir nokkurn mun missa. Og er hann vaknaði hélt hann báðum höndum ríghaldi um hauskúpu þessa og horfði á hana leysast upp og hverfa úr greipum sínum. Dreymanda þótti þetta miður, og það mundi fleirum hafa þótt, svo raunverulegur var draumurinn. Þetta var klukkan 6, að morgni laugardagsins 29. júlí 1944. Fuglar loftsins komnir á kreik og farnir að hefja dagskipan sína. Draumamaður skreið úr svefnpoka sínum og klæddist, skundaði síðan út í glitrandi morgunljómann og fór að rannsaka umhverfið. Hann hafði áður farið hér um sér til angurs og fróðleiks, en rannsóknarefnið er ótæmandi fyrir allflesta sem eitthvað hafa lært að tileinka sér.

Húshólmi

Húshólmi – hin gamla Krýsuvík – uppdráttur ÓSÁ.

Húshólminn er allstór. Aðalhólminn mun nálægt 30 ha. (um 100 dagsl.) að stærð. Uppblásturs gætir þar á nokkrum stöðum. Austan við Hólmann hefur hraunið runnið utan í hliðarhalla og fylgt honum allt í sjó fram. Má vera að þarna hafi verið daldrag sem hafi yfirfyllst af hrauni; öðruvísi verður þetta varla skýrt eða skilið og harla einkennilegt, að hraunið skyldi ekki steypa sér yfir hólmann allan. Millum aðalhólmans og sjávar er mikill og svartur hraunkampur, úfinn og ljótur, en fyrir ofan þennan hraunkraga, þvert yfir graslendi Hólmans, er fornt fjöruborð af brimsorfnu grágrýti.
Vestan megin Hólmans hefur hraunið einnig runnið langt í sjó fram, fyllt alveg víkina og lokað henni. Er glóandi grjótleðjan kom í sjóinn og kólnaði, hlóðst hún upp og stöðvaði framrennslið, svo hraunið hefur sumstaðar runnið til baka aftur.

Rústir í hrauni

Húshólmi

Húshólmi – tóft og garðar í Kirkjulág.

Úti í hrauninu, rétt fyrir vestan aðalhólmann, heitir Kirkjulág. Þar eru rústir mikillar húsaþyrpingar sem hraunið hefur að nokkru leyti runnið yfir, en nokkuð hefir orðið eftir og standa veggir og tóftar brot út undan hraunröndunum.
Kringum eina rústina er garður og hefur hraunið runnið inn í hann, en ekki fyllt hann alveg, svo austurkanturinn og norðurhornið er hraunlaust. Er það sagður hafa verið kirkjugarður, en ekki er víst að svo sé.
Í há norður frá Kirkjulánni, um 100 metrum ofar í hrauninu, eru aðrar rústir miklu heillegri. Þær rústir hafa aldrei verið athugaðar af fræðimönnum. Hefur hraunið hlaðist að þeim á alla vegu en hvergi komist inn fyrir veggina. Hleðslurnar haldast ennþá á pörtum fastar í hraunstorkunni. Sumt af hleðslunum hefur bráðnað, en sumt af steinunum hitnað svo og eldast að þeir bera þess merki. Tóft þessi er um 20 m. á lengd og 8 á breidd og liggur frá austri til til vesturs. Við austurendann hefur verið minna hús áfast en ekki eins breitt og aðalrústin. Í hleðslum húsarústa og garðabrota er mestmegnis grásteinn og margt af honum vatnsnúið eða brim marið, sennilega tekið úr forna fjörukampinum sem verið hefur skammt fyrir sunnan, því víkin hefur náð langt inn að vestanverðu, áður en hún fylltist af hrauni. Bæjarhúsin munu hafa staðið skammt austan við víkurbotninn.

Húshólmi

Húshólmi – forn garður hverfur undir Ögmundarhraun.

Forna fjöruborðið, eða sjávarkampurinn, er mjög merkilegur til fróðleiks. Hans gætir kringum allt land og eins norður á Grímsey sem annarstaðar. Þetta fjöruborð liggur í 4-5 metra hæð yfir núverandi sjávarmál og eigi myndað fyrr en löngu eftir síðustu ísöld. Hlýindatímabil hefur þá staðið yfir, um alllangt skeið, svo jöklar hafa bráðnað á norður hveli, að svo miklum mun að hækkað hefur í höfunum. Hefur þá verið orðið nær jöklalaust á Íslandi. Síðan hefur kólnað aftur og mikil uppgufun bundist. Á aðalhólmanum eru greinilegar fornar garðhleðslur, sá lengsti um 300 metra langur og hverfa báðir endar hans inn undir hraunið.
Margar sagnir eru til á ýmsum tegundum af „galdraletri” um Gömlu Krýsavík og starfhætti krýsa og menningu. Ber öllum þeim lýsingum saman í aðalatriðum. Í tíð Kolskeggs vitra voru þar stórt hundrað manns í heimili og 30 hurðir á járnum. Þar voru miklir akrar og ræktun. Auk korntegunda var þar ræktað lín og hör og einhverskonar korntegund sem Kolskeggur flutti inn frá Vesturheimi og kallað er „hölkn“, og eftir lýsingunni að dæma hlýtur að hafa verið maís. Í Krýsavík var og skipasmíðastöð og mörg hafskip smíðuð. Gjá ein eða klauf gekk upp í landið úr vesturbotni víkurinnar og mátti þar fleyta skipum inn og út um stórstraumsflóð. Mátti hafa þar 1-2 hafskip í vetrarlagi.“

Heimild:
-Sjómannadagsblað Grindavíkur 2019 – Einn áfangi á Reykjanesi – Jockum Magnús Eggertsson (1896-1966) fjallar um ferðir hans um Reykjanesskagann árið 1945, bls. 20-28.

Húshólmi

Gamla Krýsuvík hægra megin, nú fyllt af hrauni. Tóftirnar á víkurbakkanum.