Tag Archive for: Garðaviti

Garðar

Við bifreiðastæði á Garðaholti, við Garðaveg, eru tvær tóftir, misstórar. Þær eru leifar er tengdust „Garðavita“. Á holtinu var höfð lukt á tímum Séra Þórarins Böðvarssonar og séra Jens Pálssonar (19. öldin). Nefndist lukt þessi Garðaviti.
Skammt innar á holtinu eru sex járnfestingar og leifar af keðjum á fjórum stöðum umhverfis. Um er að ræða minjar fyrsta flugleiðsögubúnaðar á Íslandi. Þarna voru 4 möstur með 2-300 m bil á milli.  Líklega hefur hann verið reistur á árunum 1942-1951.

Garðaviti

Garðaviti.

Í Örnefnalýsingu 1958 segir: „Á háholtinu er viti, Garðaviti. Þar var áður torfvarða og kveikt á lugt“ (bls. 2). Örnefnaskrá 1964 bætir við: „Hann mun hafa verið reistur um 1870. Hann stóð á holtinu norður frá Garðahliði.“ (B29).
Örnefnalýsing 1976-7 hefur svo þetta: „Á klöpp fyrir ofan Háteig var viti hér áður, Garðaviti“ (bls. 6). Við Fornleifaskráningu 1984 segir að tóftir séu „uppi á háhólnum […] svo til beint upp af Háteigi“, alveg við veginn, ofan og austan hans og er hæðin grýtt allt um kring. Leifar sjást af tveimur tóftum hlið við hlið og virðast þær samfastar. Sú austari er stærri og greinilegri, innanmálið um 5,8 x 2 m. Hún er nokkuð niðurgrafin og um 1,1 m á dýpt. Stefnan er norður-suður. Sú vestari er öll ólögulegri, um 2,5 x 2 m að innanmáli.
Aðrar upplýsingar: Vitinn var í notkun sem ljósgjafi á tímabilinu 1868-1912 (G.R.G: 95). Tryggvi Gunnarsson í Grjóta (f. 1899) mundi eftir honum og sagði hann hafa verið notaðan sem mið af sjó fyrir fiskibáta en á stríðsárunum notuðu Bretar hann sem virki. Húsið var síðan „selt og flutt heim að Hlíð, þar sem það var notað sem kamar“.

Heimildir:
-Ari Gíslason: Örnefnalýsing Garðahverfis. 1958.
-Gísli Sigurðsson: Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álftaneshreppi hinum forna.
-Bessastaðahreppi: Garðahreppi: Hafnarfirði og Hraunum: 1964. Garðahverfi A39/Garðaland B29.
-Guðlaugur Rúnar Guðmundsson: Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar Safn til sögu Garðabæjar III. Garðab. 2001.
-Guðrún Sveinbjarnardóttir: „1300-39“. Fornleifaskráning í Garðabæ 1984. Þjóðminjasafn Íslands.
-Kristján Eiríksson: Örnefnalýsing Garðahverfis skráð eftir lýsingu heimamanna. 1976-7.

Garðahverfi

Garðaviti.