Færslur

Valgarðsborg

Öxl skilur af Strandardal og Hlíðardal vestan Svörtubjarga. Úr bergöxlinni sprettur silfurtær vatnslind, Sælubuna, sem var ómetanleg fyrir heyskapafólk í dölunum. Efst í Hlíðardal var bær Indriða lögréttumanns Jónssonar. Hann var þar á fyrri hluta 17. aldar, merkur maður, góður skrifari og smiður. Ætlunin er að finna Sælubunu og tóftir af bæ Indriða.

Strandardalur

Varða við Katlabrekkur.

Auk þess var ætlunin að skoða Vogsósasel, Hlíðarborg, Hlíðarsel, Valgarðsborg, Hlíðarveg, Selvogsgötuna gömlu (Suðurferðaveg), Dísurétt, Borgarskarðsborg og tóftir vestan hennar, auk Ána.
Lagt var af stað frá réttinni austan Hlíðarvatns. Gengið var upp að Vogsósaseli, tóftir þess skoðaðar og síðan haldið upp slóða áleiðis að Hlíðarborg. Eftir að hafa skoðað borgina, sem er í heiðinni vestan undir háum hraunhól, fallega hlaðin, var haldið spölkorn til suðurs, yfir girðinguna, og litið á tóftir meints Hlíðarsels. Ekki er vitað til þess að selið hafi verið skráð. Reyndar gildir það einnig um Hlíðarborgina, sem er þarna skammt norðar.
Selstígurinn vestan tóftanna sést enn vel. Seltóftirnar eru vestan undir grónum hól, en sunnan hans er Valgarðsborg. Tækifærið var notað og selið rissað upp.
Stefnan var tekin inn á Hlíðargötu er liggur frá Hlíð, upp með Hlíðarfjalli og inn með Kötlubrekkum. Nefjavarða er þar á Rofunum. Gísli Sigurðsson segir í lýsingu sinni um þetta svæði að “ekkert örnefni sé á Hlíðarfjalli uppi, þar til kemur að Hlíðarfjallsenda, þar sem það hverfur undir Katlahraunið, sem er uppi á brún, fyrir ofan Katlabrekkur.

Sælubuna

Sælubuna í Standardal.

Í Katlahrauni eru grónar lautir, og var slegið þar áður fyrr. Hér er komið á aðalleiðina úr Selvogi til Hafnarfjarðar og Reykjavíkur. Leiðin liggur af Katlabrekkubrún, skáhallt upp og yfir Katlahraunið. Katlabrekkur eru framan í brún, vestan við Björgin. Þær eru rétt við vegslóðann, farið er milli þeirra og Bjarganna. Þegar upp er komið, blasa við á hægri hönd Hlíðardalir, Hlíðardalur efri og Hlíðardalur neðri, vestan við Stóra-Urðarfell. Efri dalurinn er stærri.
Á milli dalanna er Dalshryggur, svolítill berghryggur eða klettar.” Farið var fyrir endann á honum. Þá blasti við lægð í Urðarfellin. Fram af þeirri lægð er Kálfsgil, sem er á landamerkjum Hlíðar og Strandar.
Sagan segir að séra Eiríkur á Vogsósum (1677-1716) hafi grafið Bók bókanna, mestu galdrabók allra tíma, Gullskinnu, í Kálfsgili. Segir í sögunni að sá, sem ráði þeirri bók, hafi vald á því sem hann velja vildi.
Bunga er í Urðarfellunum alveg fram á Svörtubjörg. Þar í er Sælubuna, uppspretta út úr klettum, og rennur ofan í Strandardalinn. Hún þornar aldrei alveg. Strandardalur er austan eða suðaustan við Kálfsgil. Er Litla-Urðarfell fyrir austan, en Stóra-Urðarfell fyrir vestan.

Strandardalur

Strandardalur.

Urðarfellin eru skriðurunnin fell, en ekki hraun. Litla-Urðarfell er nokkurn veginn stakt, hnöttótt ofan með klappabrúnum. Þar eru fellin einna hæst. Hæðin fram á Björgin er frá Litla-Urðarfelli. Kálfsgil er myndað af vatnsrennsli úr fellunum. Það er á mörkum Hlíðar og Strandar. Í stórleysingum rennur vatn úr Kálfsgili fyrir austan Katlabrekkur.
Austan við Litla-Urðarfell eru Merarbrekkur. Fyrir innan (norðan) Stóra-Urðarfell er lægð, sem kölluð er Móvatnsstæði. Snarhallar af fellinu ofan í það. Þar var smáblettur, þar sem var mótak frá Hlíð. Það var eini mórinn, sem til var í Selvogi, en hann var lélegur.

Svörtubjörg

Við Stígshella í Svörtubjörgum.

Svörtubjörg blasa við sjónum alls staðar úr Selvogi, bæði af sjó og landi. Þau eru oft í daglegu tali kölluð Björgin. Vestari endi Bjarganna er mið af sjó. Vestarlega á Björgunum ber Grágæsanípu hátt. Það er klettur, sem slútir fram. Þar var oft hrafn. Eiríksvarða er því sem næst á Björgunum miðjum. Sagt er, að Eiríkur prestur á Vogsósum hafi hlaðið hana til varnar gegn Tyrkjum. Eitt fet er frá Eiríksvörðu fram á brún.
Sagt er, að sá, sem hreyfi vörðuna, eigi að fara fram af Björgunum. Varðan stendur enn. Austast í Björgum er Gatahóll. Geta bæði menn og skepnur gengið í gegnum hann. Einna hæst eru Björgin um Grágæsanípu og Eiríksvörðu, og Gatahóll er einnig hátt, líkt og Eiríksvarða.
Kindaslóði er alveg niður í Björgin. Þar fóru kindur niður og í Stígshellra, sem eru smáskútar fyrir neðan. Fyrir þá fennti í norðanbyljum, og fé tepptist þar. Þeir eru vestarlega við Björgin. Vestan við Björg, niður undan Stígshell(r)um, er Hofmannaflöt; þar var áningarstaður.”

Hlíðardalur

Tóft Erlends í Hlíðardal.

Fallega hlaðin varða er á klapparrananum er aðskilur dalina. Undir henni er Sælubuna. Hún er greinilega sírennslislind og kemur úr hlíðinni. Eflaust er vatnið úr henni allra meina bót. Leitað var eftir tóftum af bæ Indriði í Hlíðardal. Mikið gróðurrof hefur orðið í dalnum. Einungis eru nú torfur upp með hlíðum Urðarfells. Fallegur einir á klöpp gaf þó dalnum lit. Hlíðardalur er ekki fullkannaður, enn á eftir að skoða efsta hluta hans m.t.t. hugsanlegra tófta. Það verður gert á sumri komanda.
Í bakaleiðinni var komið við í Dísuréttum í Katlahrauni vestan Hlíðardals. Um er að ræða fallega hlaðna rétt austan undir hraunhól. Erfitt getur reynst að finna hana í hrauninu. Þegar leitað var að réttinni fannst stór og fallegur hellir. Um er að ræða hraunbólu, um 3 m á hæð og um 15 metra breiða. Inn úr henni er rás og innan af henni þverrás. Vel er hægt að ganga þar uppréttur. Úr loftinu hengu um tveggja metra langar rætur. Fallegar klakamyndanir voru á gólfum. Þau eru slétt og ekkert fallið úr loftum. Hellirinn er ekki fullkannaður, en hann er a.m.k. 40-50 m. langur.

Borgarskraðsborg

Borgarskarðsborg.

Gengið var niður Borgarskarð og vestur Hlíðarveg með Hlíðarfjalli. Borgarskarðsborg neðan við skarðið var skoðuð sem og tóftir skammt vestan hennar, við Hlíðarveg. Stefnan var tekin á hellinn Ána og síðan haldið sem leið lá að upphafsstað.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Dísurétt

Dísurétt.