Tag Archive for: gatvarða

Eyktarmark

Eftirfarandi samantekt, fyrir lengra komna, er eðlilega mótuð af leitun höfundar og reynslu annarra, jafnvel langt aftur í aldir, af slíkum menningarminjum á Reykjanesskaganum – í fyrrum landnámi Ingólfs, þar sem skoðaðar hafa verið slíkar minjar, skipulega, um þriggja áratuga skeið, og jafnframt reynt að setja þær í samhengi við staðbundna tilurð þeirra og tilgang í tíma og rúmi í gegnum tíðina.

Seltangar

Fjárskjólsvörður ofan við Seltanga. Skála-Mælifell og Langihryggur fjær.

Að varða veg merkir að hlaða vörður meðfram honum, ferðamönnum til leiðbeiningar og öryggis. Varða er steinhraukur sem er hlaðinn til vegvísunar á alfaraleiðum um fjöll og óbyggðir, en einnig t.d. með það að markmiði að sýna landamæri, skil milli bújarða, eða benda á siglingaleiðir með ströndum fram og jafnvel vísa á fengsæl fiskimið; stundum stakar eða tvær saman er báru í tiltekið kennileiti. Vörður voru þó ekki eingöngu hlaðnar steinum, því stundum voru þær einnig hlaðnar úr mold eða aðeins úr moldarkögglum, en þær entust síður. Þegar lagðar voru vörður eftir einhverri leið var talað um að vörðuleggja hana. Vörður hafa þó þjónað miklu mun margþættari tilgangi í gegnum tíðina.

Lónakot

Leiðarvarða ofan Lónakots.

Útlit og staðsetning varða hafa lotið ákveðnum reglum um aldir. Þær hafa og tekið breytingum eftir tilefni og tilgangi. Á elstu þjóðleiðunum gátu vörðurnar t.d. verið beggja vegna götu, en vörðuvísir leiðbeindi gjarnan vegfarendum hvoru megin þeir ættu að halda sig.

Þingvallavegur

Varða við gamla Þingvallaveginn – með vegvísi til norðurs.

Á nýrri leiðum, einkum vagngötunum, voru vörðurnar jafnan hlaðnar sömu megin og hærri en fyrr. Því miður eru allflestar eldri vörðurnar fallnar og grónar orðnar. Vörður, sem sjá má í dag, voru allflestar hlaðnar kerfisbundið með fjárstuðningi landssjóðs. Munu þetta vera vörður sem hlaðnar voru eftir árið 1861 samkvæmt þágildandi skipan konungs frá 15. mars 1861, sbr. tillögudrög Alþingis frá 1857 að frumvarpi til vegaumbótarlaga: „12. gr.: Á öllum þeim fjallvegum, sem ferðamenn eru vanir að fara á vetrardag, skal hlaða vörður, og skal einnig gjöra sæluhús, þar sem yfirvaldi þykir þörf á. Eiga vörðurnar að vera, þegar því verður við komið, svo nálægt hver annarri, að tvær að minnsta kosti sjáist í einu, þegar þoka er yfir; skal þar að auki á hverri vörðu vera gjörður stallur, eður annað merki, á þeirri hlið, sem snýr til norðurs, ferðamönnum til leiðbeiningar .“

Flatahraun

Eyktarmark – Hádegisvarða ofan Hraunsholts. Fyrrum landamerki Hafnarfjarðar og Garðabæjar.

Vörðurnar voru gerðar í ákveðnum tilgangi, s.s. að viðhalda sýslugötum, alfaraleiðum eða sem aðdragandi endurbóta, t.d. fyrir vagna. Á fyrstu áratugum 20. aldar tóku síðan sjálfrennireiðavegirnir við þeim eldri og þar með urðu vörðurnar smám saman óþarfar í landslaginu.

Dauðsmannsvarða

Dauðsmannvarða við Sandgerðisveg ofan Draugaskarða.

Vörður voru fyrrum til marga hluta mjög nytsamlegar hér á landi frá aldaöðli. Ástæður fyrir gerð varðanna og tilgangur hefur jafnan verið margskonar.

Gömlu Hafnir

Gömlu Hafnir – Stúlknavarða.

Vörður eru nær jafnan hlaðnar úr grjóti eða öðru tiltæku, efni s.s. torfi, fengnu á staðnum, oft ferkantaðar við vegaúrbætur í kringum 1900, s.s. við Hvalsleiðina-Melabergsgötuna, en einnig hringlaga eða tilviljunarkenndar, með stelpu- og strákalagi eða með öðru lagi og misjafnlega háar, allt frá einu umfari til tuga. Þær voru hlaðnar sem vegvísar (vegprestar) til að leiðbeina ferðafólki rétta leið, t.d. í vondum veðrum, þoku, snjókomu eða skafrenningi, til heilla (að kasta steini í dys eða vörðu hafði tvenns konar merkingu, að heiðra þann, er þar var dysjaður, eða að öðlast með því táknræna fararheill). Þær voru einnig reistar sem minningarmörk um fólk, sem hafði dáið á þeim stað, sem þær voru síðan reistar á, sbr. Dauðsmannsvörðurnar og Ólafsvarða á Miðnesheiði.

Fótalaus

Fótalaus – „M“.

Vörður voru líka oft hlaðnar sem kennileiti, t.d. frá sjó eða sem mið að ákveðnum stað eða sjóleið, yfirleitt mjög stórar eða háttstandandi á landamerkjum til að aðgreina mörk einstakra jarð [líklegast landamerkjavörður] eða hreppa, við greni, oft litlar, steinn á steini og yfirleitt þrjár slíkar saman stutt frá hverri annarri með grenið í miðjunni, við upphaf vega eða vegamóta og þá oft tvær hlið við hlið fór eftir fjölda gatna, sem komu þar saman, s.s. vörðurnar á Margvörðuholti við Hvalsnesleiðina/Melabergsgötuna, vörður ofan við einstök mannvirki, t.d. selin, eða tiltekinn stað, fjárskjól, byrgi vatnsstæði eða jarðfall og sprungur þar sem fé gat leynst við leitir, við brýr yfir sprungur eða farartálma, sem leiðarmerki eða innsiglingamerki, – og þannig mætti lengi telja. Oft voru vörður hlaðnar sem eyktamörk til að sýna hvað tímanum leið. Er því víða að finna vörður sem bera heiti hinnar fornu skiptingar dagsins, t.d. dagmálavarða, hádegisvarða og miðmundavarða. Beinakerlingar eða skilaboðavörður voru heldur ekki óþekktar.

Arnarfell

Eiríksvarða á Arnarfelli.

Nafnkenndar vörður á Reykjanesskaganum eru a.m.k. 200 talsins auk allra þeirra hundruða og jafnvel þúsunda er fylgja markvisst röðum gamalla gatna og kennimerkjum. Fyrrum var regla á hlutunum, sbr. það að vörður voru jafnan allar sömu megin við götu eða leið. Þannig var auðveldara að fylgja þeim, einkum við slæmar aðstæður að vetrarlagi. Oft var steinhella vörðuvísir og höfð út úr vörðunni. Vörðuvísirinn vísaði ekki á götuna, enda óþarfi. Hann var jafnan nokkurs konar áttar- eða stefnuviti. Nánar um það síðar.

Dysjar

Dysjar Krýsu, Herdísar og smalans í Kerlingadal.

Þjóðsögur hafa jafnan tengst vörðum. Má þar m.a. nefna þjóðsöguna er kveður á um að sá eða þeir sem færa til landamerkjavörður og hlaða aðrar til að villa um fyrir fólki eigi á hættu að þurfa að burðast með grjót það sem eftir er – að þeim látnum.

Suðurnesjabær

Dauðsmannsvarða ofan Fuglavíkur.

Þjóðsögurnar voru þannig oftlega kennisögur, nokkurs konar dæmisögur, um það hvernig væri best að haga sér í lifanda lífi. Hér er hinn ríki sagnaþáttur notaður til að vara við og stemma stigu við röskun landamerkja, líkt og einstök „tiltekt“ trúarbragðasögunnar urðu síðar í handleiðslu landans til að auka líkur á „réttum“ gjörðum hans í hinu jarðneska lífi – og yfirvaldið hafði velþóknun á. Framangreint er ekki af ástæðulausu. Einstakir bændur voru fyrrum grunaðir um að útfæra landamerki jarða sinna eftir því sem aðstæður sköpuðust, s.s. við ábúendaskipti.

Þá má nefna vörðunar á Arnarfelli í Krýsuvík, á Vörðufelli ofan Selvogs og vörðuna á Svörtubjörgum skammt ofar. Um þær segja þjóðsögurnar að „svo er sagt að ræningjar hafi komið í land ekki langt frá Krýsuvíkurlandi og hefði flokkur mikill af þeim komið gangandi og stefnt fram til Krýsuvíkur, en er til þeirra sást var strax sendur maður til Eiríks prests.

Gíslavarða

Gíslavarða ofan við Stað.

Reið hann sem mest mátti, hitti prest og bjóst hann strax með sendimanni, en er þeir sáu heim að bænum þá hafði ræningjaflokkurinn staðar numið á hóli nokkrum fyrir sunnan kirkjuna í Krýsuvík og börðust í ákafa svo að þeir drápust þannig niður fyrir vopnum sjálfra sín, en komust aldrei heima að bænum. En nokkru eftir þetta er sagt að prestur hafi farið austur á Selvogsheiði og numið staðar á felli einu lágu; hafi hann þá byggt þar upp fjarska margar vörður og sagt að meðan nokkur varðan stæði mundi Selvogurinn ekki verða rændur og heitir fellið síðan Vörðufell“. Önnur sambærileg sögn er af Staðarklerki í Grindavík, er lét hlaða vörður ofan Staðs, vestan Húsatófta, í sama tilgangi. Gísavarðan þar á klapparhól varð t.d. til með þeim áhrífsorðum að „meðan sú varða stendur mun Grindvíkingum verða óhætt“. Grindvíkingar virðast hins vegar ekki hafa sýnt vörðunni þeirri þá virðingu sem henni ber. Eiríksvarðan á Arnarfelli í Krýsuvík er einnig dæmi um slíka átrúnaðarvörðu.

Lónakotssel

Landamerkjavarða við Lónakotssel.

Örnefnin voru mikilvægur leiðarvísir, en vörðurnar gáfu nákvæma staðsetningu til kynna. Því má með sanni segja að vörðunar hafi verið það sem GPS- eða umferðarmerkin eru núna. Sjá síðar.

Þær vörður, sem hlaðnar voru eftir 1850 voru gerðar s.s. til að viðhalda sýslugötum, alfaraleiðum eða sem aðdragandi endurbóta, t.d. fyrir vagna. Á fyrstu áratugum 20. aldar tóku síðan sjálfrennireiðavegirnir við eldri vagnvegunum og þar með urðu vörðurnar smám saman óþarfari í landslaginu.

Prestsvarða

Prestsvarðan ofan Leiru.

Vörður hafa verið til marga hluta nytsamlegar hér á landi frá aldaöðli. Hliðstæðar vörður, með sambærilegan tilgang og hér eru, má t.d. finna í Noregi og á Suðureyjum, en auk þess á Grænlandi og í Nýfundnalandi.
Ástæður fyrir gerð varðanna og tilgangur hefur jafnan verið hliðstæðar, hvar svo sem þær voru hlaðnar.

Vörður voru, að gefnu tilefni, reistar sem minningarmörk (um fólk, sem hafði dáið á þeim stað, sem þær voru síðan reistar á, sbr. varða (dys) í Svínaskarði og varða (dys) norðan Sandfells milli Vindáss og Fossár. Dauðsmannvörðurnar á Miðnesheiði höfðu sama tilgang. Til eru þó dæmi um að vörður hafi verið reistar í þakklætisskyni. Þannig var um Prestsvörðuna millum Keflavíkur og Garðs er séra Sigurður Sívertsen varð þar næstum úti í hríðarbil, en lifði hann af.

Brúnavörður

Brúnavörður – fiskimið.

Vörður voru oft hlaðnar sem kennileiti, t.d. frá sjó eða sem mið að ákveðnum stað eða til að marka sjóleið í vör eða höfn. Margar slíkar vörður eru í brúnum fjalla, ása eða ofan fjörukambs, s.s. vörðurnar á Núpshlíðarhorni, Brúnavörðurnar milli Húshólma og Selatanga og Sigga Hópsneskambinum.

Kerlingadalur

Dysjar Herdísar og Krýsu í Kerlingardal. Smaladysin neðst á myndinni.

Beinakerlingar eða skilaboðavörður voru heldur ekki óþekktar. Skilaboðavörður voru gjarnan hlaðnar millum bæja. Í þær voru sett mikilvæg skilaboð, sem koma þurfti á framfæri við nágranna og voru ætlaðar til að spara hlutaðeigandi sporinn og þar með tíma. Sögur og heimildir um slíkar vörður eru og hafa verið misvísandi. Merkasta heimildin er þjóðsaga um beinakerlingu, er þó um vörður Krýsu og Herdísar, auk smala, neðst í Kerlingardal undir Geitahlíð við gömlu þjóðleiðina milli Krýsuvíkur og Herdísarvíkur neðan við Deildarháls. Önnur um skilaboðavörðu er á Skilaboðavörðuhól skammt ofan við sjávarhamrana millum Herdísarvíkur og Krýsuvíkur; neðan Fjárskjóshrauns.

Brandur

Varða við gömlu Krýsuvíkurleiðina.

Í seinni tíð má æ oftar sjá fólk bæði endurhlaða fallnar vörður eða hlaða nýjar, yfirleitt skammt utan alfaraleiða. Þessar vörður eiga væntanlega að vera minnisvarðar í hugum fólksins um veru þess sjálfs á þeim staðnum á tilgreindum tíma. Eftir að fólkið er farið gefur varðan sjálf í rauninni ekkert til kynna, nema að vera öðrum til ama og leiðinda.

Skógfellastígur

Varða við Skógfellaveg.

Strangt til tekið má ekki, eða ætti a.m.k. ekki, endurhlaða gamlar fallnar vörður nema undir leiðsögn fagfólks, en þó hefur það samt sem áður verið gert víða um land, s.s. við gömlu Sprengisandsleiðina og syðri hluta Skógfellavegar, bæði að hluta og að fullu, og víða hefur fólk lagt steina í „lágvaxnar“ vörður til að gera þær sýnilegri á ný. Hafa ber í huga að gömlu föllnu vörðurnar standa enn fyrir sínu. Glöggskyggnir sjá vel hina jarðlægu „grjóthringi“ og geta fylgt þeim eins og til var ætlast í upphafi. Skiptir þá engu hversu háreist „grjóthrúgan“ er.

Brandur

Vörðurnar Brandur og Bergur ofan Ísólfsskála – nú fallnar.

Fornleifafræðingar nútímans sjá leifarnar þrátt fyrir tormerkin. Jarðskjálftar og frostveðrun hafa oft leikið vörður grátt. Lengst hafa þær staðið, sem reistar hafa verið á hrauni eða klöpp. Bæði er það að frostveðrunin nær ekki til þeirra líkt og systra þeirra, sem hlaðnar hafa verið á mold- eða melbornu undirlagi, en auk þess skiptir máli hvernig „sveiflan“ í svæðisbundum jarðskjálftum hefur legið.

Skógfellavegur

Varða við Sandakraveg.

Þá standast t.d. vörður úr hraungrýti betur „áreiti“ en þær vörður, sem hlaðnar hafa verið úr sléttum grágrýtishellum, en undirlagið, sem fyrr sagði, hefur mikið að segja um stöðugildið. Þannig standa t.a.m enn margar vörður, sem hlaðnar voru við Gamla Þingvallaveginn í byrjun 20. aldar og aðrar við Hlíðarveginn á fjórða áratug þeirrar aldar, á meðan nær allar vörðurnar við Selvogsgötuna frá Grindaskörðum niður í Strandardal og um Selvogsheiðina eru nánast allar fallnar. Á milli varðanna á þessum leiðum eru einungis nokkrir tugi metra. Líkt er komið fyrir vörðunum með fyrsta vagnveginum um Seljadal til Þingvalla. Þær eru nú flestar grjóthrúgur við hlið Gamla Þingvallavegarins, en sá vegur var langleiðis lagður ofan á eða nálægt Seljadalsleiðinni.

Gluggavarða

Gluggavarðan á Mosfellsheiði.

Fyrrum var hverjum vinnufærum manni gert skylt að vinna hluta úr ári við garð- eða grjóthleðslu. Hægt var og að skylda búandi menn til að hlaða vörður. Þessar vörður er helst að sjá á heiðum þar sem meiri hætta var á ófærð og slæmu skyggni. Vörðurnar voru með jöfnu millibili, nokkurn veginn jafn háar og allar sömu megin við götuna. Flestar eru öðrum líkar, en þó ekki án undantekninga.

Flókavarða

Flókavarða – minnismerki á Hvaleyrarholti.

Út frá vísindalegum og akademískum forsendum væri eflaust hægt, með mikilli vinnu, að finna bæði tilefni og hugmyndir fyrir „vörðugerð“ fyrri tíma, jafnvel allt frá upphafi landnáms sem og samlíkingar við vörður hér á landi og annars staðar – þaðan og hvaðan landnámsmennirnir eru taldir hafa komið – og farið. Niðurstaðan, hversu merkileg sem hún kynni að verða, myndi eflaust vekja athygli fárra, en varla fjöldans. Í hans augum hafa vörður bara verið vörður og tæplega þó.
Þegar „þjálfað“ fólk leggur af stað í leiðangur með það fyrir augum að „endurfinna“ eitthvað, sem um er getið í örnefnaskrám, sóknarlýsingum, munnmælum eða öðrum heimildum, treystir það jafnan á kennileitin í landslaginu (sem yfirleitt er hvert öðru líkt). Þá er fyrst og fremst skyggnst eftir vörðunum. Ástæðan er sú að fólk hafði fyrrum tilhneigingu til að „merkja“ tiltekna staði í ákveðnum tilgangi, sem það vildi, að þeirra fólk gæti fundið aftur með sem minnstri fyrirhöfn.

Laufhöfðavarða

FERLIR við Laufhöfðavörðu.

Örnefnin voru mikilvægur leiðarvísir, en vörðurnar gáfu nákvæma staðsetningu til kynna. Bóndi gat t.d. ekki sent húskarl sinn út af örkinni í ákveðnum tilgangi nema hann hefði til þess tiltekin viðmið. Því má með sanni segja að vörðunar hafi verið það sem GPS- eða umferðarmerkin eru núna. Ein merkilegasta varða (dys) hér á landi er án efa „Dysin“ á Bláfellshálsi. Á meðal ferðamanna gengur sú saga að varðan sé ævagömul. Sú hefð hefur myndast af sögulegu samhnegi að ferðalangar kasti steini í hana líkt og aðrar slíkar vörður þeim til heilla á löngum leiðum. Staðreyndin um vörðuna á Bláfellshálsi er hins vegar sú að upphaf hennar má rekja til þess að Eiríkur Þorsteinsson frá Fellskoti var að smala ásamt bróður sínum á hálsinum á sjöunda áratug 20. aldar þegar gat kom á annað stígvélið. Hann skildi því stígvélið þar eftir við slóðan yfir hálsinn, en hróflaði áður grjóthrúgu yfir það. Síðan sáu ferðalangar, sem að komu, litlu vörðuna á hálsinum, sem er táknrænan áfanga til að bæta um betur – þeim sjálfum til fararheilla. Nú er varðan sú orðin að einni hæstu „dys“ landsins við nútíma alfaraleið.

Brunnastaðalangholtsvarða

Brunnastaðalangholtsvarða.

Fyrstu vörðurnar voru að öllum líkindum á landamerkjum, sbr. forn skrif um helgun lands. Mikilvægt að öðrum, sem á eftir kæmu, væru mörkin ljós. Að öðrum kosti kynni að koma til átaka um landayfirráð.
Landamerkjavörður voru á mörkum jarða. Við sumar þeirra, einkum á ystu mörkum í seinni tíð, var jafnframt í grafið tákn á klöpp, t.d. L, M, LM, X, V, + og eða ártal. Landamerki Reykjavíkur á 19. öld voru t.d. klöppuð í klappir á þremur stöðum með ártali. Á Markhellu (Markhellur, Markhelluhólar, Mark(a)hólar ofan Hrauna má t.a.m. sjá klöppuð nöfn þeirra þriggja jarða, sem þar mætast.
Ágúst H. Bjarnason upplýsti m.a. að „eitt einkenni á landamerkjavörðum væri það, að í þær neðst voru iðulega sett viðarkol eða kolabitar. Þetta hafði eg eftir föður mínum. Síðar rann upp fyrir mér, að eg hafði líka lesið þetta einhvers staðar, en eg mundi ekki hvar.
Fyrir skömmu var eg að glugga í rit og þá rakst ég á eftirfarandi. – Þar segir svo: „Eldarnir hafa líklega verið gerðir á landamerkjum, og mun þangað að rekja þann sið, sem tíðkazt hefur fram undir vora daga, að setja viðarkol í landamerkjaþúfur.““

Garðsstígur

Ein þrívarðanna ofan Rafnkelsstaða í Garði (landamerkjavarða).

Sýsluvörður voru hlaðnar á mörkum sýslna. Oft voru þetta áberandi vörður á hólum og öðrum landfræðilegum kennileitum. „Vörður“ þessar gátu einnig verið stakir steinar eða áberandi bergstandar (Sýslusteinn sunnan Lyklafells) eða hólar. Á mótum sýslna voru gjarnan hlaðnar tvær eða fleiri vörður til áherslu, sbr. þrívörðurnar á Mosfellsheiði.

Hádegisvarða

Hádegisvarða frá Hraunsholti.

Eyktarmörk voru kennileiti tengd tíma sólarhringsins. Sólarhringnum var skipt í fjóra hluta; morgun, dag, aftann og nótt. Samkvæmt fornri reglu var hverjum hluta síðan skipt í tvær eyktir. Í einum sólarhring eru þess vegna átta eyktir, hver um sig þrjár klukkustundir á lengd. Eyktirnar voru þessar; ótta kl. 3, miður morgunn – rismál kl. 6, dagmál kl. 9, miðdegi, hádegi kl. 12, nón kl. 15, miður aftann – miðaftann kl. 18, náttmál kl. 21 og miðnætti – lágnætti kl. 24.
Víða um land má af þessum sökum finna miðmundarvörður, dagmálavörður, hádegisvörður, nónvörður, miðaftansvörður og fleirri í líkum dúr.

Miðmundarvarða

Miðmundarvarða við Þorbjarnastaði (eyktarmark).

Lengri aðalleiðirnar lágu milli bæja og byggðakjarna, verstöðva, verslunarmiðstöðva, þingstaða eða kirkna, hvort sem var með ströndum landsins, yfir fjallgarða, heiðar, ása og úfin eða slétt hraun. Leiðirnar voru mislangar, allt frá og til fjarlægustu landshluta eða bara út frá bæ í fjárskjólið og stekkinn. Við þessar leiðir má víða finna misgamlar minjar, s.s. hlaðin skjól, sæluhús, bæli í hellum, vörður, bæði sem leiðarmerki og til minningar um fólk, sem varð úti á ferðum sínum.

Selvogsgata

Varða við Selvogsgötuna milli Hafnarfjarðar og Selvogs.

Greinileg ummerki eru á fjölmörgum götum eftir umferð fólks frá upphafi landnáms á Reykjanesskaganum. Víða eru gömlu þjóðleiðirnar klappaðar í harða hraunhelluna, s.s. sjá má á Hellisheiðarvegi og Selvogsgötu þar sem vegirnir liggja um hraun.

Kerlingaskarðsvegur

Varða ofan Kerlingarskarðs.

Í móum og á heiðum uppi má enn víðast hvar sjá hvar leiðir lágu þótt þær hafi afmáðst að hluta. Sumar eru reyndar áfangaleiðir og tengjast öðrum eða greinast út frá þeim til ýmissa staða. Reyna má að flokka leiðirnar miðað við notagildi. Þannig lágu þjóðleiðir milli byggðalaga. Þessir vegir sjást að mestu enn þann dag í dag. Þessar leiðir voru mikið farnar allt til þess tíma að vegir voru gerðir fyrir sjálfrennireiðina er kom hingað til lands í byrjun 20. aldar. Verleiðir má sjá við verin, bæði á norðan- og sunnanverðum Reykjanesskaganum. Byggðakjarnar á landssvæðinu, s.s. Stafnes, Bæjasker, Grindavík, Garður, Hafnir og Vatnsleysuströnd, voru t.d. mikilvægar verstöðvar fyrir bæði vermenn alls staðar að af landinu og fiskflutninga, ekki síst til Skálholtsstóls, um aldir.

Straumssel

Selsvarða ofan Straumssels.

Selstígar [ ]lágu upp í selstöðurnar t.d á Miðnesheiðinni, Fuglavíkurselið, Stafnesselið og Hvalsnesselið, sem voru fjölmargar í landnámi Ingólfs. Enn má t.a.m. sjá leifar af u.þ.b. 300 slíkum á landssvæðinu, ef vel er að gáð.
Kirkjugötur voru mikilvægar menningarleiðir og varla er til sú sveit eða hérað að ekki var þar kirkjustígur eða –gata. Bæði hefur leiðarkerfið þróast frá fyrstu tíð og götur verið lagfærðar. Þær mótuðust undan hesta- og mannafótum. Á fjölfarnari leiðum var kastað úr hluta gatnanna og leiðarmerki reist. Um tíma varð það hluti af þegnskylduvinnu eða atvinnubótavinnu. Með tilkomu vagnsins fóru fram vegbætur á mikilvægustu leiðunum. Sjá má slíkar umbætur á Hvalsnesveginum, Sandgerðisveginumog Stafnesgötunni (kaupstaðarleiðinni).
Mikilvægt er að varðveita þessar gömlu leiðir. Varðveislan felst ekki síst í notkun. Með því fyrir áhugasamt fólk að halda áfram að ganga þessar götur frama veginn verða þær öðrum sýnilegar og líkur minnka á að þær falli í gleymskunnar dá…

Garðsstígur

Varða skv. konungsskipan við Garðsstíg.

Þjóðleiðavörður hafa þjónað þeim megintilgangi að vísa vegfarendum leiðina frá ómunatíð. Þær voru í fyrstu bæði ólíkar að hæð og gerð, en í seinni tíð hefur útlit þeirra og staðsetning lotið ákveðnum lögmálum. Þær hafa þó tekið breytingum eftir tilefni og tilgangi í gegnum tíðina, líkt og svo margt annað.

Hellisheiði

Hellisheiði – vörðuð vetrarleiðin.

Á elstu þjóðleiðunum gátu vörðurnar t.d. verið beggja vegna götu, en seinni tíma vörður með „vörðusteinum“ voru jafnan annars vegar götu og leiðbeindu þannig betur vegfarendum hvar á götunni þeir ættu að halda sig, auk þess sem vörðursteinninn átti skv. konungsskipun að vísa í norður. Í seinni tíð, þegar fallnar vörður hafa verið endurhlaðnar, hafa vörðusteinarnir verið staðsettir í misvísandi áttir. Á nýrri leiðum, einkum með vagnvegunum, voru vörðurnar jafnan hlaðnar sömu megin og voru betur hlaðnar og efnismeiri en fyrr. Þær eru nýrri en gömlu þjóðleiðavörðurnar og eru því víða sýnilegri en þær. Má þar nefna vörðurnar við Gamla Þingvallaveginn. Nýrri vörðurnar standa enn vel, en þær gömlu, samhliða, eru nú eins og hverjar aðrar grjóthrúgur í landslaginu.

Kerlingarskarð

Varða efst í Kerlingarskarði. Helgafell fjær.

Vetrarvörður á heiðum fylgdu yfirleitt ekki hinum sýnilegu hlykkjóttu götum og stígum að sumarlagi heldur voru hlaðnar í beina línu, stysta tiltekna greiðfæra snjóleið til hliðar við göturnar, enda eru þær leiðir sjaldnast, af eðlilegum ástæðum, markaðar eftir hófa og fætur líkt og þær. Ágætt dæmi um slíka vörðuröð má glögglega sjá yfir Hellisheiði svo og ofanverðum Hlíðarvegi millum Kerlingaskarðs og Austurása, auk Hvalsnesleiðar yfir Miðnesheiði.

Skógfellastígur

Varða hjá Brandsgjá við Skógfellaveg. Sagnamerki.

Brúar- og gjáavörður má sjá víða þar sem hraun er sprungið eða misgengi algengt, s.s. á selsstígunum í Vogaheiði, Vatnsleysuheiði og á Þingvöllum. Vörður þessar vísa á brýr eða aðgengilega staði til að komast yfir djúpar og langar gjár. Yfirleitt eru þær við þjóðleiðir eða stíga, s.s. selstígana í fyrrgreindum heiðum og við Prestastíginn á Þingvöllum. Á slíkum stöðum hafa gjarnan verið gerðar vegabætur með undirhleðslum til að auðvelda yfirferð manna og skepna.

Beinakerling

Beinakerling ofan Selvogs.

Beinakerlingar voru alkunnar hér á landi, líkt og fyrr sagði. Það voru grjótvörður sem hlaðnar voru upp við alfaraleið. Munurinn á beinakerlingum og öðrum vörðum var oftast sú að oftast þegar talað er um beinkerlingar leyndust í þeim vísur, en annars er beinkerling stundum einnig haft um venjulega vörðu. Þessar vörður voru margar hverjar stórar og stæðilegar. Slíkar vörður urðu í umræðu ferðamanna eins konar persónugervingar kvenna og þá einkum gleðikvenna.

Skilaboðavarða

Skilaboðavarða millum Krýsuvíkur og Herdísarvíkur.

Ferðamennirnir gerðu gjarna klúrar vísur í orðastað þessara beinakerlinga, settu í hrosslegg eða sauðarlegg og stungu síðan milli steina í vörðurnar. Slíkar vísur voru sem sé stílaðar frá beinakerlingu til þeirra sem síðar fóru um veginn. Var þetta gert til skemmtunar í fásinni þeirra sem fóru um fjöllin. Frægust allra þessara kerlinga mun vera Beinakerlingin á Kaldadal, en hún stendur þar sem talin var hálfnuð leið frá Þingvöllum til Húsafells. Í orðastað þessarar víðfrægu beinakerlingar varð fyrir margt löngu þessi staka kveðin: Sækir að mér sveina val sem þeir væri óðir; kúri ég ein á Kaldadal, komi þið, piltar góðir. Páll lögmaður Vídalin var ágætt skáld og skemmti gjarna sér og öðrum með því að kasta fram beinakerlingarvísum. Í alþingisferð einni snemma á 18. öld lætur hann kerlinguna frægu á Kaldadal mæla þessum orðum til Benedikts varalögmanns Þorsteinssonar: „Vicelögmaður, vinur minn, veistu laganna skorður. Ljáðu mér hann Þórodd þinn, þegar þú ríður norður.“

Reykjanes

Vörðurkort af Reykjanesskaganum vestanverðum – Ási.

Í Morgunblaðinu árið 2001 segir Árni Björnsson frá beinakerlingum: „Nokkrar stórar hlaðnar vörður við alfaravegi hafa verið kallaðar beinakerlingar. Sagnir eru um þær meðal annars á Mosfellsheiði, Botnsheiði, Skarðsheiði, Þorskafjarðarheiði, Stóra-Vatnskarði, Vatnahjalla ofan Eyjafjarðar, Smjörvatnsheiði milli Vopnafjarðar og Jökuldals, Fjallabaksvegi og Mýrdalssandi, en nafnfrægastar hafa orðið kerlingarnar á Kaldadal, Stóra-Sandi og Kili.

Beinakerling

Beinakerling.

Ekki er öldungis ljóst hvernig nafnið er hugsað. Algengt er reyndar að drangar séu nefndir karl eða kerling og því var nærtækt að gefa uppmjóum vörðum svipað heiti. Athygli vekur að getið er um beinahrúgu við sumar þeirra eða bein sjást enn innan um grjótið.
Þekktasta skýring er á þá lund að ferðamenn hafi stungið skilaboðum í hrosslegg og komið honum fyrir í vörðunni. Menn gátu verið að láta aðra vita af ferðum sínum, tilkynna um strokufé, segja frá nýmælum eða vara við einhverri hættu. Þá var stutt í að menn í góðu skapi sendu væntanlegum ferðalöngum kersknisvísur á sama hátt. Sá kveðskapur hefur haldið minningu beinakerlinganna lengst á lofti og orðið beinakerlingavísa er löngu farið að merkja groddalega neðanþindarvísu af þeim toga sem nú á dögum virðist ein helsta skemmtun kvenna sem karla í fjölmiðlum og á mannamótum, svo því er líkast sem fólk sé upp til hópa nýbúið að fá hvolpavit.

Ólafsvörður

Ólafsvörður – Sandsvegur norðan við Bláfell á Sandi liggur yfir flatt klapparholt, sem er alþakið þunnum hellum. Á holtinu standa margar vörður. Heita þær Ólafsvörður og eru kenndar við Ólaf Hjaltason, sem var biskup á Hólum 1552—1569 og fyrsti biskup þar í lútherskum sið. Ólafur skyldi hafa úti legið í óveðri um hausttíma og hans fylgjarar eins margir og vörðurnar eru, því hver einn átti að hlaða vörðu fyrir sig sér til hita og uppihalds, þar ei hefur orðið tjaldað, með því í þessu plássi er ei utan grjót og urðir“.

Önnur túlkunartilraun er á þá leið að hér sé upphaflega ekki um nein dýrabein að ræða, heldur nafnorðið beini í merkingunni hjálp eða greiði, að fá góðan beina, og sagnorðið að beina manni leið í rétta átt. Merkingin hafi því einna helst verið „hjálpsöm kona“. Þeir sem löngu síðar skildu ekki þessa merkingu tóku að búa sér til nýja skilgreiningu.
Þriðja tilgátan gerir beinakerlingar að minjum um heiðinn átrúnað, til dæmis að hörgum frjósemis-gyðjunnar Freyju. Hér hafi dýrum verið blótað henni til heiðurs og beinin séu leifar þeirra. Í samræmi við það hafi átt sér stað frjósemisdýrkun með frjálslegu kynlífi eins og víða eru spurnir af meðal þjóðflokka sem enn eru tengdir náttúrunni á eðlislægan hátt. Eftir kristnitöku hafi kirkjan fordæmt og afskræmt slíkt athæfi og kallað saurlífi. Leifar þessa finnist í blautlegum athöfnum og kveðskap í tengslum við beinakerlingar.

Straumsselsstígyr

Varða við Skógargötuna ofan Óttararsstaðasels.

Fjórða skýringartilraunin er sú að upphaflega hafi fé eða hestar sem drápust á ferðalögum verið urðaðir og grjóti hlaðið utan um skrokkinn í þrifnaðar- eða hreinlætisskyni svo að hrætætlur fykju ekki út um víðan völl.

Herdís og Krýsa

Dysjar Herdísar og Krýsu eru jafnframt „beinakerlingar“.

Þegar skrokkarnir rotnuðu undir grjótinu urðu beinin ein eftir og stóðu út á milli steinanna eða sást í þau inni í hrúgunni. Eftir nokkrar aldir vissi enginn lengur hvernig á þessari beinahrúgu stóð og hugmyndaríkir menn tóku að smíða kenningar.
Fyrsta tilgátan er að sjálfsögðu vinsælust, enda í samræmi við þá lagfæringu á orðum Ara fróða að „hvatki er missagt er í fræðum þessum, þá er skylt að hafa það heldur, er skemmtilegra reynist“. Elstu varðveittar beinakerlingavísur eru frá lokum 17. aldar. Þær eru oftast ortar í orðastað kerlingar sem ögraði næsta ferðamanni til að sanna henni karlmennsku sína.“
Við þetta má bæta að ekki er ósennilegt að beinakerling, hafi verið hlaðin varða, stök á áberandi hól eða hæð, vegamótum eða á öðrum slíkum stað, þar sem sérstök þörf hafi verið á til að beina vegfarendum rétta leið á annars villgjörnu svæði.“

Ólafsvarða

Ólafsvarða í Vogaheiði. Hlaðin í tilefni af slysförum.

Minningarvörður voru stundum hlaðnar til minningar um atburði, sögulega eða tilfallandi, s.s. vegna slysfara. Dauðsmannsvörður má t.d. víða finna á heiðum og fjallvegum.
Höfundur tók hús á Sigurði Eiríkssyni í Norðurkoti vestan Sandgerðis í þeim tilgangi að líta augum svonefndar Dauðsmannsvörður í heiðinni ofan bæjarins, en þær munu vera þrjár á þeim slóðum.

Neðri-Dauðsmannsvarða

Neðri-Dauðsmannsvarða.

Ein, þ.e. sú nyrsta á skv. gömlum sögnum að vera með áletrun. Sigurður sagði að enn hefði hin meinta áletrun við Neðri-Dauðsmannsvörðu við Sandgerðisveginn ekki komið í ljós. Varðan er hálfhrunin, en þá má enn sjá ferkantaða lögun hennar. Varðan er nokkuð utan við götuna, í slakka, svo hún hefur ekki þjónað neinum sem leiðarmerki í lifandi lífi. Sagan segir að þarna hafi maður eða jafnvel menn orðið úti og varðan verið hlaðin til minningar um hann eða þá. Áletrun átti að hafa verið klöppuð á stein í eða við vörðuna. Þrátt fyrir nokkra leit hefur hún enn ekki fundist. Næsta verkefni verður líklega að taka hvern stein fyrir sig og skoða nánar. Það verður talsverð vinna, en vel framkvæmanleg við góðar aðstæður. Þá er og tími kominn til að endurhlaða vörðuna með því grjóti sem út frá henni liggur. Sjaldgæft er að grjót hafi fengi að vera í friði á Suðurnesjum því oftar en ekki var það tekið, hvar sem til þess sást, að ekki var talað um ef það var uppraðað og aðgengilegt til brúks, ekki síst í fornum hlöðnum görðum. Það var endurnýtt annað hvort í hafnarmannvirki eða við vegagerð. Þannig hurfu heilu garðarnir og stór hluti af merkilegum vörðum á svæðinu. Þó má víða enn sjá fótstykkin standa sem minnismerki um þær vörður sem voru. Sömu sögu er að segja um gjótgarða og vörður víðar á Skaganum.

Suðurnesjabær

Efri-Dauðsmannsvarða.

Sigurður sagðist hafa skoðað Dauðsmannsvörðuna í heiðinni ofan við Berghús, en hann hefði enn ekki fundið áletrun á eða við hana. Þá hefði hann frétt að Efri-Dauðsmannsvarðan á efsta Draughólnum við Draugagil hefði verið hlaðin upp að nýju. Það hefði gert áhugamaður um sögu og minjar, en sá héldi tilfallandi til í bústað vestan Sandgerðis. Ekki væri vitað hvort áletrun hafi leynst þar á steini, en ólíklegt væri það því varða þessi væri greinilega leiðarmerki við gömlu götuna til Keflavíkur.
Tugir manna urðu úti á gömlu þjóðleiðunum um Miðnesheiði fyrr á öldum. Flestir voru þeir á leið frá kaupmanninum í Keflavík, síðla dags eða undir kvöld.
Eflaust standa ennþá fleiri vörður, eða fallnar, á Miðsnesheiði sem minningarmörk um fólk, er varð þar úti á sínum tíma, en eru núlifandi fólki flestu gleymt. Og enn rölta menn um heiðina, meira og minna „dauðir“ fyrir sögu þeirra, sem þar hafa orðið til í gegnum aldirnar.

Svínaskarð

Dys í Svínaskarði.

Dysjar eru upphækkuð vörðulíki; grafir eða grafhýsi úr grjóti. Hér á landi var fólk dysjað ef ekki þótti tilefni til greftrunar með viðhöfn, t.d. þegar fólk, sem hafði orðið úti í vondum veðrum, fannst alllöngu síðar. Dysjarnar voru gerðar úr hrúgu af grjóti.

Ólafsgjá

Ólafsgjá og Ólafsvarða. Varðan er slysavarða.

Illþýði og galdramenn voru yfirleitt dysjuð eða urðuð, þ.e. fleygt yfir þau grjóti og lítt vandað til þessara síðustu híbýla þeirra. Oft eru „dysjarnar“ orðnar til í framhaldi af vörðu, reista til minningar um mann, sem t.d. varð úti á tilteknum stað eða til heilla, þ.e.a. ferðalangar trúðu því að með því að bæta steini í „dysina“ færi það þeim fararheill.
Ekki eru þó allar dysjar slíkar. Í þjóðsögunni af Herdísi og Krýsu segir m.a. „Sunnan á Íslandi eru bæir tveir; heitir annar Krýsuvík og er hann austastur bær í Gullbringusýslu með sjávarsíðunni, en hinn er nefndur Herdísarvík; það er vestastur bær í Árnessýslu. Þetta eru næstu bæir sinn hvorumegin við sýslumótin; hvort tveggja er landnámsjörð og svo að ráða sem sín konan hafi gefið hvorri nafn er þar bjuggu lengi, og hét sú Krýs er byggði Krýsuvík, en Herdís sú er setti bú í Herdísarvík.

Arnarfell

Krýsuvík – selsvarða að hinu forna Krýsuvíkurseli undir Selöldu.

Jarðir þessar hafa alla tíma verið taldar með beztu bólstöðum hér á landi og er það ekki að undra, því báðum fylgir útræði, fuglberg mikið og trjáreki nógur. Á landi áttu báðar jarðirnar veiðivötn ágæt: Krýsuvík mörg í suður og austur frá bænum þar sem hann er nú, en Herdísarvík litla tjörn eina í heimatúni milli sjós og bæjar. Rétt hjá veiðivötnunum átti Krýsuvík starengi mikið og fagurt; af því féllu 300 hestar á ári. Herdísarvík átti aftur á móti ekkert engi, en beitiland svo miklu betra fyrir sauði en Krýsuvík að nálega tekur aldrei fyrir haga í Herdísarvíkurhrauni; er þar bæði skjólasamt af fjallshlíð þeirri er gengur með endilangri norðurbrún hraunsins og kölluð er Geitahlíð, og skógur mikill.
Nú. þótt fjarskalöng bæjarleið, hér um bil hálf þingmannaleið, sé milli þessara bæja þá af því þær Krýs og Herdís voru grannkonur var nábúakritur megn á milli þeirra; því hvor öfundaði aðra af landgæðum þeim er hin þóttist ekki hafa, Krýs Herdísi af beitilandinu, en Herdís Krýs aftur af enginu. Svo hafði lengi gengið að hvor veitti annari þungar búsifjar; rak Krýs sauðfénað sinn í land Herdísar, en Herdís vildi aftur ná í engið, og beittust svo þessu á víxl með því landamerki virðast annaðhvort hafa verið óglögg eða engin í það mund.

Selalda

Selölduvarða.

Þegar þær grannkonurnar eltust meir fóru þær síður að hafa fylgi á framkvæmdum til að ásælast hvor aðra, en ekki var skap þeirra að minna eða vægara fyrir það. Bar þá svo við einhverju sinni að Herdís hafði gengið út í hraun og síðan út með Geitahlíð svo sem leið liggur út í Krýsuvík. En utarlega undir hlíðinni ganga úr henni hæðir nokkrar fram að hrauninu og eru þær kallaðar Eldborgir. Yfir þessar hæðir liggur vegurinn.

Herdísarvík

Herdísarvíkurgata.

Þann sama dag er Herdís tókst þessa göngu á hendur fór og Krýs að heiman. Í suður frá Krýsuvík er slétt melgata; er hún nokkuð langur skeiðsprettur suður undir hornið á Geitahlíð, en þegar komið er fyrir það horn blasa Eldborgir við sunnar með hlíðinni og er allskammt þangað undan hlíðarhorninu. Nú segir ekki af ferðum þeirra grannkvennanna fyrr en Krýs kemur þar á götunni sem hún liggur yfir hina nyrztu Eldborgina, þá kemur Herdís í flasið á henni að sunnan. Þegar þær hittust varð fátt af kveðjum, en því fleira af illyrðum á milli þeirra er hvor um sig þóttist eiga land það er þær stóðu á. Ekki er þess að vísu getið hvernig hvorri um sig hafi farizt orð, en svo lauk að hvor hézt við aðra vegna landadeildarinnar. Lagði þá Krýs það á Herdísi að allur ætur silungur skyldi hverfa úr veiðitjörn hennar, en verða aftur full af loðsilungi, sumir segja öfugugga. En Herdís lagði það aftur á Krýs að allur silungur í veiðivötnum hennar skyldi verða að hornsílum. Enn lagði Krýs það á Herdísarvík að þaðan skyldi týnast tvær eða þrjár skipshafnir. Herdís mælti aftur það um fyrir Krýsuvík að starengið þar skyldi smásökkva á hverjum 20 árum, en koma upp á jafnlöngum tíma. Eftir þessi ummæli sprungu þær báðar þar sem þær stóðu og eru þær dysjaðar báðar til vinstri handar við götuna þegar riðið er út í Krýsuvík norðan til á Eldborginni nyrztu, og sér dysirnar þar enn; dys Krýsar er það sem nær er Krýsuvík, en Herdísar hitt sem fjær er. Meðan þær voru að mæla hvor um fyrir annari kom að þeim smalinn úr Krýsuvík, en svo brá honum við heitingar þeirra að hann féll þegar dauður niður og er hann dysjaður hægra megin við götuna þar upp undan sem þeirra dys er niður undan svo ekki skilur nema gatan ein.

Krýsuvík

Krýsuvík – forn þjóðleið til austurs.

Dysjar þeirra grannkonanna eru enn kölluð Krýs og Herdís og þar með eru [voru] þau kölluð sýsluskil Gullbringusýslu og Árnessýslu, svo eru þau og talin landamerki milli Krýsuvíkur og Herdísarvíkur. En af ummælum þeirra er það að segja að í veiðivötnum Krýsuvíkur hefur enginn silungur fengizt svo menn viti nokkurn tíma síðan, en fullt er þar af hornsílum, og í Herdísarvíkurtjörn hefur ekki heldur orðið silungs vart; en loðsilungar ætla menn þar hafi verið þótt ekki sé þess getið að neinn hafi af því bana beðið. Aftur var það einn vetur eftir þetta er sjómenn gengu til sjávar snemma morguns frá Herdísarvík, en skemmst leið er að ganga til sjávar þaðan yfir tjörnina þegar hún liggur, að þeir fórust allir í tjörninni ofan um hestís, og segja menn þeir hafi verið 24 að tölu. Um starengið í Krýsuvík er það enn í dag sannreynt að það lækkar smátt og smátt fram við tjörnina er það liggur að svo að hún gengur hærra upp eftir því unz hún er komin yfir allt engið eftir 20 ár, en þá fjarar tjörnin aftur smásaman svo engið kemur æ betur upp unz það er orðið jafngott og áður að öðrum 20 árum liðnum, og falla þá enn í dag af því 300 hestar af stör.“

Fornasel

Varða við Fornasel ofan Gjásels.

Selsvörður voru hlaðnar sem kennileiti ofan við sel eða selstöður. Þær voru gjarnan við endann á selstígnum, ofan við selshúsin. Í fyrrum landnámi Ingólfs má enn merkja minjar yfir 400 selja og selstaða (selin voru nytjastaðir bæjanna fyrir árið 1900, s.s. kúasel, fjársel, eggjasel, kolasel o.s.frv.). Sérhvert sel átti sér selsstíg eða – götu, því á þeim tíma höfðu mennirnir ekki enn lært að nýta sér þyrlur til að ferðast ummerkjalaust á milli staða. Þetta er meira skrifað til gamans því sjaldnast hafa selstígar og – götur ratað inn í fornleifaskráningar, einkum hér áður fyrr. Við selstígana voru gjarnan hlaðnar litlar vörður, einkum við stíga þeirra selja er voru í alfaraleið. Ferðalangar komu gjarnan við í seljum, leituðu þar skjóls og stofnuðu til kynna við starfsfólkið; einkum selsmatsseljuna, en síður smalann. Út frá því hafa spunnist margar huldusagnir.

Árnastígur

Varða við Árnastíg.

Skjólvörður voru fremur litlar, til merkis um op fjárskjóla eða skjóla þar sem fé leitaði einkum hlés fyrir veðrum, t.d. í grónum hraunhólum og sprungum.

Gvendarbrunnur

Gvendarbrunnur.

Smalar nýttu sér þessi merki við leitir, enda til þess ætluð. Fáir þekktir kannaðir hraunhellar voru fyrrum, en við flest op þeirra má sjá litlar vörður í sama tilgangi. Þessar litlu vörður hafa í seinni tíð vísað mörgum hellarannssóknarmanninum á opin með áður ómældum árangri, s.s. með áður óþekktum fyrirhleðslum (Gjögur) og hlöðnum bælum (Gullbringuhellir).

Vatnsstæða- og brunnvörður voru hlaðnar til leiðbeiningar vegfarendum að slíkum mikilvægum stöðum. „Gvendarbrunna“ má finna víða. Við þá eru jafnan vörður. Ofan við Búðarvatnsstæðið neðan Markhelluhóls er forn mosagróin varða. Vatnsstæði voru gjarnan í seljum, enda forsenda þeirra í flestum tilvikum. Selin voru oftar en ekki á mörkum jarða, ekki síst til að undirstrika eignarhaldið. Grunur er um að varðan mosavaxna við Búðarvatnsstæðið hafi fyrrum verið landamerkjavarða, en mörkin síðar verið færð ofar í landið, að Markhelluhól.

Fjárskjólshraun

Varða við greni í Fjárskjólshrauni.

Grenjavörður, tveir til þrír steinar, voru jafnan þrjár umhverfis greni, svo bera mætti kennsl á það. Víða við slíkar vörður eru hlaðin byrgi/skjól fyrir grenjaskyttur.

Húsatóftir

Refagildra við Húsatóftir.

Gildruvörður voru ýmist hlaðnar til að benda á hlaðnar refagildrur eða þær voru sjálfar hlaðnar sem slíkar. Í mörgum vörðum, ef grannt er skoðað, má sjá fallhellu og ginningargapið innan hennar.

Húsatóptir

Refagildra ofan Húsatópta.

Hlaðnar refagildrur eiga sér sögu allt frá upphafi byggðar hér á landi. Þór Magnússon, fyrrum Þjóðminjavörður, hefur skrifað um nokkrar slíkar í Árbók Fornleifafélagsins. Á Reykjanesskaganum má finna u.þ.b. 70 slíkar, fæstar opinberlega skráðar sem fornleifar.

Leiðarmerkjavörður má enn sjá við endurbætta vegi og/eða vagnvegi fyrri tíma. Þær voru ýmist nefndar hálfnunarvörður, þ.e. voru miða vegu milli tveggja tiltekinna áfangastaða, eða voru reistar með jöfnu millibili, s.s. ca. eins eða tveggja kílómetra, til leiðbeiningar um vegarlengdir og nálganir.

Gat-, stráka- og stelpuvörður eru svo nefndar vegna sérstæðrar hleðslu, s.n. klofvörður; steinar er hvíla ofan á tveimur stoðum. Slíkar vörður má víða finna í stöku leiðavörðu, s.s. við Prestastíg. Klukkuvarðan á Mosfellsheiði, við Illaklifsleið, er enn eitt dæmið. Stundum hvarlar að manni, einkum eftir að vörðugerð við gamlar þjóðleiðir urðu að þegnskylduvinnu, að einhverjir einstaklingar hafi bæði viljað sýna mótþróa og jafnframt koma á framfæri nýsköpun við slíka verkefnavinnu. A.m.k. vekja þessar vörður sérstaka athygli enn í dag.

Hvalsnesgata

Varða við Hvalsnesgötu.

Prests- og biskupavörður eru ýmist við fornar leiðir eða standa stakar, allt eftir tilefnum stöðugra eða einstakra ferða og sögulegra áfangastaða þeirra tíma kristinlegra boðbera um landið eða svæði. Presthólar eru og víða.
Þekktasta varðan var Biskupsvarða, sem stóð á klapparhól vestarlega á Hellisheiðinni. Hún var ævaforn og mikið mannvirki, krosshlaðin svo skjól fengist fyrir öllum áttum. Hún stóð fram á 19. öld en 1830 var hlaðinn sæluhúskofi á sömu klöppinni og grjótið úr vörðunni notað í þá hleðslu. Kofinn, Hellukofinn, stendur enn, sbr. eftirfarandi skrif Gests Guðfinnssonar um Biskupsvörðuna þá í Alþýðublaðið 27. júní 1967:

Miðmundahæð

Miðmundarvarða ofan Þorbjarnarstaða.

Það væri hægt að skrifa langt mál um vörður og vörðubyggingar á Íslandi. Hér verður þó aðeins minnzt í örfáum orðum á vörðugerð á einum fjallvegi landsins, þeim sem einna næstur er okkur Reykvíkingum, þ.e. á Hellisheiði. En gamli Hellisheiðarvegurinn, úr Hellisskarði við Kolviðarhól austur á Kambabrún, er einmitt gott dæmi um vel varðaðan fjallveg. Á þeirri leið, svona um það bil miðja vega, var hin fræga Biskupsvarða, fornt og mikið mannvirki. Óvíst er með öllu hvenær hún var hlaðin, en hennar er getið í gögnum frá lárinu 1703, og staðið mun hún hafa eitthvað fram á 19. öld. Hún var full sex fet á hæð og krosshlaðin, þannig að skjól var undir henni af hvaða átt sem vindurinn blés og afdrep fyrir mann og fararskjóta, ef því var að skipta. Hins vegar eru vörðurnar og vörðubrotin, sem nú eru sjáanlegar á Hellisheiði miklu yngri, og er raunar enn til hréf, sem sýslumaðurinn í Árnessýslu ritaði hreppstjóra Ölfushrepps á sínum tíma um þessar vörðubyggingar. Það er dags. 25. sept. 1817 og eru því rétt 150 ár liðin síðan þessari samgöngubót var komið á.
Innihald sýslumannsbréfsins var í stuttu máli fyrirskipun um „að uppfæra svo margar vörðr á allri Hellisheiði þaðan sem Kambar byrja og vestur á Hellisskarð, að milli þeirra séu ekki meir en hér um bil 80 til 100 faðmar, að hver varða sé í það minnsta 2 álnir á hæð og að þessu verki sé lokið innan áttunda october næstkomandi.
Til að uppfylla þessa svo nauðsynlegu vegaforbetrun tilsegist hreppstjórum í Ölvesi að tilhalda sveitar bændum að gjöra verkið innan ákveðins tíma. En tilstjórnar- og forgöngumenn fyrir að verkið gjörist með trú og dyggð skikkast hér með af mér bændurnir: Gísli á Reykjákoti, Þorvarður á Vötnum, Sæmundur á Auðsholti og Þórður á Núpum.“

Hellisheiðarvegur

Hellisheiðarvegur.

Þegar þessi „vegaforbetrun'“ var uppfyllt á tilsettum tíma og vörðurnar hlaðnar, svo sem fyrir var lagt, urðu þær eitthvað um eða yfir hundrað talsins. Þær voru flestar hlaðnar úr hellugrjóti, sem nærtækt er þarna á heiðinni, og undirstaðan föst og traust. Enda eru margar þeirra ennþá uppistandandi eða lítt hrundar, en sumar hafa ekki staðizt forgengileik tímanna og fallið í valinn.
Eftir er þó að geta merkasta mannvirkisins á þessum fjallvegi, en það er hellukofinn, sem enn er hinn stæðilegasti. Hann er byggður við fertugustu og fimmtu vörðu að austan, á klöppinni þar sem Biskupsvarða stóð fyrrum. Hann mun hafa verið hlaðinn einhvern tíma milli 1830 og 1840. Þetta er mjög sérstæð bygging, borghlaðinn grjótkofi, dregst saman að ofan, unz hann lokast alveg af heljarmikilli hraunhellu. Hann er jafn á allar hliðar um 1,85 m og 2 m undir loft í mæninn. Í honum mun „hafa rúmazt 5-6 manns, ef samkomulag var bærilegt.
Eins og áður segir, stendur hellukofinn enn og mun eiga fáa eða enga sína líka meðal sæluhúsa á landi hér. Eystri dyrakampurinn er þó dálítið illa farinn og farinn að gefa sig og kann að þurfa einhverrar lagfæringar við áður en langt um líður.

Hellulofinn

Hellukofinn á Hellisheiði – byggður upp úr Biskupsvörðu.

Nú eru tímarnir mikið toreyttir frá því þeir Árnesingarnir voru að tína hellublöðkurnar í vörðurnar á heiðinni og hlaða kofann við Biskupsvörðu. Vörðurnar hverfa ein af annarri og fráleitt stendur hellukofinn íheldur að eilífu, ef ekkert er að gert.
Og þá er ég kominn að kjarna málsins, því sem ég vildi sagt hafa í þessu vörðuspjalli: Það er að halda við þessum fornu mannvirkjum í sinni upprunalegu mynd á ein um af fjallvegum landsins. Það á að varðveita vörðurnar hundrað á Hellisheiði sem sögulegar minjar um ókomin ár ásamt hellukofanum gamla, byggja upp það sem hrunið er og lagfæra síðan jafnóðum það sem aflaga kann að fara. Þetta kostar lítið, en er mikils virði sögulega séð. Árnesingum er óneitanlega málið skyldast, þeir áttu upphaflega heiðurinn af verkinu og vegurinn er í þeirra umdæmi. Þeim ætti heldur ekki að verða skotaskuld úr að hressa upp á nokkrar fallnar vörður eða dytta að hellusteinum í vegg.“

Gíslavarða

Gíslavarða ofan Staðarhverfis.

Átrúnaðarvörður voru reistar af gefnum tilefnum, s.s. í kjölfar „Tyrkjaránsins“ eða í kjölfar almannahættu, líkt og sagði af hinum þjóðsagnakenndu vörðum séra Eiríks á Vogsósum. Jafnan fylgdu slíkum vörðum þau áhríningsorð að meðan þær stæðu myndi íbúunum verða óhætt. Títublaðsvarðan ofan Járngerðastaða er ágætt dæmi um eina slíka. Sagan segir að meðan vörðunni þeirri verður viðhaldið muni ferðalöngum um Skipsstíg vel farnast. Því miður, líkt og um svo margar slíkar sagnir, hefur henni lítt verið sinnt á síðari tímum.

Eiríksvarða

Eiríksvarða á Svörtubjörgum.

Um Eiríksvörðu segir þjóðsaga: „Einu sinni var Eiríkur staddur í búð í Hafnarfirði. Hann leit út um gluggann og mælti til kaupmannsins: „Já, já, heillin góð, það eru ekki góðir gestir komnir í Selvog núna,“ hleypur út síðan og á bak og ríður austur í Selvog.
Í Selvogi var það til tíðinda að tyrkneskt skip kom þar inn undir land, og kemur bátur að landi og lendir þar sem heitir Sigurðarhúsabót. Jón hét bóndi í Sigurðarhúsum (það er fyrir austan Strönd). Jón fór til fundar við hina útlendu. Þeir taka hann og afklæða, slógu hring um hann og otuðu að honum korðum sínum, en sköðuðu hann þó ekki.

Vörðufell

Markavarða á Vörðufelli.

Nú tekur að hvessa og fara Tyrkjar í bátinn og sleppa Jóni. Þeir róa út á Strandarsund; þar stanza þeir um nokkra stund. Þá hefur skipið slitið upp og drífur til hafs; bátsmenn róa síðan eftir skipinu og náðu því ekki meðan til sást. Jón fer í klæði sín og litast um. Hann sér Eirík prest vera að ganga um gólf í Strandarkirkjugarði. Jón fer þangað og heilsast þeir; segir Jón Eiríki hrakning sinn. Eiríkur mælti: „Þú áttir ekki að fara til þeirra heillin góð; þú áttir ekkert erindi til þeirra. En því drápu þeir þig ekki að þeir mundu það ekki fyrr en þeir komu út á sund; þá vildu sumir snúa aftur að drepa þig, og varð það þeim til sundurþykkju og dvalar. Um síðir réðu þeir af að halda áfram, en ekki er víst þeir nái skipinu aftur. Farðu nú heim heillin góð og farðu ekki oftar á fund óþekktra útlendra.“

Títublaðavarða

Títublaðavarða – átrúnaðarvarða.

Jón fór heim, en Eiríkur fer upp á Svörtubjörg og hleður þar vörðu og mælti svo fyrir að meðan sú varða stæði skyldu Tyrkjar aldrei gjöra grand í Selvogi. Þessi varða stendur enn á Svörtubjörgum og er hún hlaðin að mynd sem lambhúsgaflhlað og einhlaðin að ofanverðu úr óhentugu hleðslugrjóti; snýr flatvegur hennar eftir bjargabrúninni og er tæpt mjög. Hún er mosavaxin og lítur út fyrir að hafa staðið lengi og er þar þó vindasamt; enda hafa Tyrkjar aldrei komið í Selvog síðan.“

Um Gíslavörðu ofan við Stað í Grindavík segir: „Skammt fyrir austan Staðarberg í Grindavík er sker eitt hér um bil landfast sem heitir Ræningjasker. Nafnið á það að hafa fengið af því að einhvern tíma á 17. öld kom ræningjaskip að landi í Grindavík og lentu ræningjarnir í skerinu og gengu þaðan á land. Þá var prestur á Stað er Gísli var nefndur og var talinn fjölkunnugur. Þá er byggðarmenn urðu varir við ferð ræningjanna, fóru þeir sem skjótast á fund prests og sögðu honum tíðindin. Brá prestur skjótt við og fór á móti ræningjunum og stökkti þeim á flótta þó að sagan segir ekki með hverjum hætti. Hlóð hann síðan vörðu til minja um þennan atburð spölkorn fyrir ofan prestssetrið og lét svo um mælt að meðan nokkur steinn væri óhruninn í vörðunni, skyldu ræningjar ekki granda Grindavík. Varðan nefndist Gíslavarða. Sú saga hefur jafnan fylgt vörðunni, sem af sumum er nefnd Tyrkjavarða, að henni megi ekki raska.“

Hópsvarða

Innsiglingavarða við Hóp í Grindavík. Endurhlaðin af FERLIRsfélögum 2018.

Innsiglingavörður voru jafnan tvær eða fleirri í beinni sjónlínu ofan við innsiglingar í vör eða lendingar. Sums staðar voru þær á fleirri en einum stað, allt eftir stefnubreytingum innsiglingarinnar. Með hafnagerð í byrjun 20. aldar voru vörður ofan lendingar bæði hlaðnar stærri og hærri og höfðu á sér þríhyrnt gulmálað tréverk sem stefnumerki og/eða ljósmerki. Slíkar vörður voru t.d. ofan við Hóp og á Þórkötlustaðarnesi í Grindavík eru ágæt dæmi um stórar og stæðilegar innsiglingarvörður frá því um og eftir aldarmótin 1900.

Básendar

Básendar – varða á Brennuhól.

Brennuvörður eru eldri og voru hlaðnar ofan við lendingar, flatar að ofan, einkum við lendingar skipa Konungsverslunarinnar eða lendingar erlendra kaupmanna. Ef bátur eða skip hafði ekki komið að landi áður en skyggja tók var tendraður eldur á vörðunni til að vísa sjófarendunum leiðina. Sambærilegt dæmi er um örnefnið „Brennuhóll“ við lendingar víða um land og hann þá notaður í sama tilgangi. Einn slíkur er ofan Básenda utan Stafness.

Villuvörður hafa í gegnum tíðina verið hlaðnar í nokkrum óbyggðum landsins, sem jafnan hefur verið talið nauðsynlegt að fella til grunna. „Vér viljum taka til dæmis hér syðra heiðina, er liggur frá Vogastapa og suður á Garðskaga, milli Hafna, Rosmhvalsneshrepps, Garðs, Leiru, Keflavíkur og Njarðvíka. Heiði þessi er allstór, smáhólótt, og ákaflega villugjörn, en svo að segja er varða þar á hverjum hól, og verða þær að líkindum fleiri mönnum að bana, en illt loptslag þar, draugar og staupagjafir í Keflavík, sem hingað til hefir verið álitið að væri orsök til þess, að svo margir hafa orðið úti og dáið þar í heiðinni.

Borgarhóll

Vörtur á Borgarhól.

Ef vissar vörður væru í heiði þessari, er vel mætti rekja sig eptir og engar villuvörður (draugar í heiðinni) í kring, mundu færri verða þar úti. Villuvörður þessar hafa smalar eða þeir er staðið hafa yfir fé að líkindum hlaðið sér til dægrastyttingar, en eigi gætt þeirra afleiðinga, er verða kynni af verki þeirra fyrir ókunna ferðamenn.“ Í dag eru svonefndar „ferðamannavörður“ eða „-vörtur“ af sama toga spunnar.

Gamli Þingvallavegur

Gamli-Þingvallavegur – varða.

Jón R. Hjálmarsson skrifaði um vörður í Lesbók Morgunblaðsins árið 1995: Frá elstu tímum voru vörður ekki aðeins hlaðnar upp til að auðkenna leiðir eða til að sýna landamerki. Þær voru líka settar upp á viðeigandi stöðum sem eyktarmörk til að sýna hvað tímanum leið, því að klukkur komu ekki til sögunnar hér á landi fyrr en á síðustu öldum. Af þessum sökum finnast því víða um land á fjöllum og fellum vörður eða vörðubrot sem bera hinni fornu þriggja stunda skiptingu dagsins glöggt vitni, en þrjár stundir heita eykt hjá fyrri tíðar fólki. Ef vel er leitað munum við því geta fundið dagmálavörður, hádegisvörður, nónvörður, miðaftansvörður og fleira í líkum dúr víða um land. Ef til vill eru margar þeirra orðnar lágreistar eða jafnvel hrundar af því að þær gegna ekki lengur neinu hlutverki og því er ekkert um þær skeytt, en víða munu örnefnin enn vera á sínum stað.
Eykt er heiti á tímalengd, sem er einn áttundi hluti sólarhringsins eða því sem næst þrjár klukkustundir hver. Eyktamörk eru þegar ein eykt endar og sú næsta byrjar. Eyktamörkin gengu undir ákveðnum

heitum og voru helstu tímaviðmiðanir í daglegu tali.
Einnig var orðið eyktamark haft um viðmiðunarstaði, svo sem fjallatoppa, hóla eða hæðir eða jafnvel hlaðnar vörður, sem sólina bar í séð frá ákveðnum bæ, á tilteknum tíma. Algengt var að slíkir staðir hétu eftir eyktamörkunum, svo sem eins og Nónvarða, Hádegishnúkur eða eitthvað slíkt.

Skógfellavegur

Vörður við Skógfellaveg.

Með 19. öld breyttist margt til batnaðar í landinu og fóru menn þá líka að ferðast umfjöllin í auknum mæli. Hófst þá talsverð vakning með mönnum í því skyni að lagfæra og merkja fjallvegi með vörðum.

Hellisheiði

Hellisheiði – vörður.

Árið 1831 var stofnað svonefnt Fjallvegafélag að frumkvæði Bjarna Thorarensen, síðar amtmanns. Fékk hann til liðs við sig ýmsa málsmetandi menn eins og Þorgrím Tómasson, skólaráðsmann á Bessastöðum, Ólaf Finsen, yfirdómara, Bjarna Thorsteinsson, amtmann á Stapa, og fleiri. Eitthvert fjármagn fékk félagið úr opinberum sjóðum, en félagsmenn lögðu líka mikið fram sjálfir. Markmið félagsins var að auðvelda ferðalög og flutninga milli héraða og landshluta með því að ryðja reiðgötur, byggja sæluhús og hlaða vörður. Fór þetta vel af stað og þegar um sumarið 1831 var reist sæluhús í Fornahvammi og hlaðnar um 100 vörður á leiðinni yfir Holtavörðuheiði. Á næstu árum var rudd leið um Vatnahjalla og merkt með vörðum. Þar varð kunnust varðan Sankti Pétur sem enn stendur á brún Hafrárdals, innst í Eyjafirði. Með þessari framkvæmd á Vatnahjalla var mönnum auðvelduð leiðin suður á Sprengisand sem og á Eyfirðingaveg norðan Hofsjökuls og af honum suður á Kjalveg. Félagið lét einnig lagfæra vegi og hlaða vörður á Kaldadal, Grímstunguheiði og Stórasandi sem og á Arnarvatnsheiði og víðar. En fljótlega dofnaði yfir félaginu og hafði það fyrir nokkru lagt upp laupana, þegar Bjarni skáld féll frá árið 1841.“

Hwellukofinn

Hellukofinn á Hellisheiði.

Í þremur tölublöðum Mána, árgangi 1879-1880, er m.a. fjallað um fjallvegu, vörður og sæluhús: „Til þess að greiða samgöngur og tryggja félagsskap milli sveita og héraða má fyrst telja þjóðveguna. Félög vor og samtök eru lítil, og kemur það víst að nokkru leyti til af því, að land vort er strjálbyggt og örðugt yfirferðar, en vegir eigi nógu greiðir, og tefur það allmikið fyrir samtökum, samgöngum og félögum milli sveita og sýslna. Hvarvetna erlendis þar sem fylgi og félagsskapur er mestur milli þjóðanna þar eru líka þjóðvegirnir greiðastir, löndin sljett, árnar skipgengar, grafin sýki, byggðar járnbrautir o. s. frv.

Botnsdalur

Varða ofan við Botnsdal – skammt frá Stóra-Botnsseli.

Hér er eigi um neitt þesskonar að tala; land vort er fjöllótt, árnar straumharðar, og margar vatnslitlar, en brimgarður og sker fyrir mynni þeirra, og víðast er það að sá sem vill ferðast milli sveita eða sýslna verður að fara yfir dali, hóla, fjöll og firnindi, og verður það opt mjög tilfinnanlegt í illum veðrum, er ætíð má búast við á fjallvegum einkum á vetrum. Nú er þó svo komið hjá oss að mikil lögun er komið á marga fjallvegu og þeir orðnir góðir yfirferðar á sumrum, og hefir nú á síðastliðnum 10 árum allmiklu fé verið kostað til vegabóta, og erum vér vissir um að meiri hluta alþýðu þykir því fé vel varið, og hafa orðið að góðum notum, en samt sem áður eru vegirnir ófullkomnir, þar eð þeir flestir eru að eins sumarvegir. Vér Íslendingar þurfum eigi síður greiða vegu um landið á vetrum og opt er það að þá þarf maður helst að reyna á þá. Á vetrum er slétt yfir alla vegu af snjó og ís, og þótt vegirnir séu hlaðnir upp, er það opt að eigi sést til þeirra fyrir snjó; einnig er það líka að ef maður, eins og opt kemur fyrir, á vetrum, tekur af sér króka með því að ganga beinna en vegurinn liggur, að hann á þá opt illt með að finna veginn, ef hann eigi er gagnkunnugur honum, en af slíku geta menn opt komist í vandræði og jafnvel beðið bana, ef misjöfn eru veður; til þess að ráða bót á slíku ættu sýslunefndir að fara að hugsa um það efni og sjá svo um að hlaðnar væru vissar vörður á fjallvegum, er ferðamenn gætu óhultir farið eptir, til þess að komast áfram leið sína til byggða; vörðurnar þyrftu að vera þéttar, svo að þær sæjust glöggt þó illt væri veður og kafald; það sjá allir að nauðsyn er á einhverjum vissum leiðarvísi fyrir ferðamenn á vetrum, er svo opt eru á ferð, þar sem samgöngur milli héraða eru nokkuð að aukast, einkum póstferðir, og menn eru sendir með áríðandi bréf og sendingar, er fljótt og áreiðanlega eiga að komast til skila. Erlendis eru víða vitar, er sjómenn og landfarar beina leið sína eptir, en að hafa vita hér sýnist óhugsandi, sakir ýmsra annmarka. Vér viljum telja hér nokkra hina helstu fjallvegu, er óumflýjanlegt er að fara yfir, og nauðsyn væri að hlaðnar væru vissar vörður á, fyrir pósta og aðra ferðamenn að rjetta sig eptir á vetrum.“

Gamli Þingvallavegur

Varða við gatnamót Gamla Þingvallavegar og Seljadalsvegar.

Svo mörg voru þau orð, en það var meira skrifað um sama efni í öðrum tölublöðum á þessum tíma undir heitinu „Um Fjallvegi, vörður og sæluhús“, enda eitt hið mikilvægasta á þessum tíma þar sem taldir eru upp fjallvegir á landinu, en hérna eru aðeins birtir þeir vegir sem heyra til skýrslunnar: „Þegar lengra er haldið áfram yfir Suðurlandið, má telja Reykjanesfjallgarðinn; yfir hann liggja 7 alfaravegir, Nyrðstur er Kaldadalsvegur milli Þingvallasveitar og Kalmannstungu, þá Mosfellsheiði milli Kárastaða í Þingvallasveit og Mýdals í Mosfellssveit; þá Dyravegur suður um Henglafjöll milli Grímsness og Mosfellssveitar, þá Hellisheiði frá Reykjum í Ölvesi að Lækjarbotni í Mosfellssveit, þá Lágaskarð frá Hrauni í Ölvesi að Lækjarbotni, þá Ólafsskarð frá Breiðabólstað í Ölvesi að Lækjarbotni, þá Grindaskörð milli Ölvess og Selvogs að austan og Kaldársels að sunnan, þá Sandakravegur milli Krýsurvíkur og Kvíguvoga. Allir voru vegir þessir yfir Reykjanesfjallgarð mjög fjölfarnir á vetrum.“

Skipsstígur

Varða við Skipsstíg.

Og að lokum: Vörður þær, er hlaðnar eru á fjallvegum eiga að hafa áttavita, það er að segja út úr tveimur hliðum vörðunnar eiga að standa þrep, er snúi hvort frá öðru í gagnstæðar áttir t. d. úr suðurhlið og norðurhlið vörðunnar, og ætti eigi lengra að vera milli varðanna en svari 30-40 föðmum; best væri að vörðurnar væru hlaðnar skammt frá veginum en þó allar á sömu hlið við hann, og ætti einkum að sjá svo til, að þær gætu staðið nokkuð hátt, svo eigi þyrfti að óttast fyrir að snjó legði yfir þær; ef þær stæðu mjög nærri veginum, ætlum vér hættara við að þær kynnu fremur að falla ef ógætilega væri hjá þeim farið. Þótt vegir séu hlaðnir upp, þarf engu síður vörður við þá, ef þeir liggja yfir óbyggðir. Sæluhús eru ómissandi á mörgum fjallvegum hér, og það er undarleg vanhirða þjóðarinnar, að eigi skuli sæluhús enn vera orðin almennari í mestu alfara óbyggðum landsins en þau eru, og flestir þeir sæluhúskofar, er til eru, eru hafðir mannlausir, svo þeir undir eins fúna niður, og verða að litlum notum.

Straumssel

Straumsselsvarða.

Vörður eru merkilegar menningarminjar sem þarf að sýna virðingu. Margar varðanna hafa hrunið sjálfar í áranna rás og alls kyns veðrum og sumum þeirra hefur verið rutt um koll. Að hlaða góða vörðu er vandaverk. Vel hlaðnar vörður hafa sumar staðið af sér veður og vinda í aldir og standa enn keikar. Sumar slíkar vörður hafa því miður oft verið skemmdar með því að fólk hefur borið að þeim steina og hlaðið utan á gömlu vörðurnar. Þá sést ekki lengur vel hlaðnar vörður heldur líta hún út eins og ólögulegar grjóthrúgur. Í sumum tilvikum á um kenna veðrun og jarðskjálftum, en í allt of mörgum hefur mannshöndin komið þar nærri.

Jón R. Hjálmarsson skrifaði um Vörður og varðaðar leiðir í Lesbók Morgunblaðsins í ágústmánuði 1995: „Vörður munu aldrei taldar til stórvirkja í byggingarlist, en engu að síður eiga þær sér afar langan aldur. Giskað hefur verið á að þær séu meðal þess fyrsta sem fjarlægir forfeður okkar á steinöld tóku sér fyrir hendur í mannvirkjagerð. Síðan hafa menn verið að hlaða vörður á öllum tímum sögunnar og notað þær sem viðmiðun í margvíslegum tilgangi.

Tobbuklettarvarða eystri

Tobbuklettavarða eystri.

Á fyrri öldum voru vörður nýttar í nálægum löndum til að merkja leiðir um fjöll og óbyggðir, sýna landamæri og skil á milli bújarða, benda á siglingaleiðir með ströndum fram og til að vísa á fengsæl fiskimið, svo að eitthvað sé nefnt. Þessar venjur við vörðuhleðslu fluttu landnámsmenn með sér hingað, þegar þeir komu siglandi frá Noregi, Bretlandseyjum og víðar að á 9. og 10. öld og settust hér að.

Vatnsleysuströnd

Innsiglingarvarða ofan við Þórustaði.

Vörður voru af margvíslegum stærðum og gerðum. Í fyrstu hafa þær verið einfaldar og helst gerðar með þeim hætti að setja einn stein upp á annan og síðan koll af kolli. En brátt hefur mönnum lærst að vanda meira til verksins, raða mörgum steinum saman í þyrpingu, helst hellu- eða hraunsteinum, og hlaða síðan hverju steinalaginu upp af öðru, þar til komin var myndarleg varða, jafnvel meira en mannhæðar há. Slíkar vandlega hlaðnar vörður gátu staðið um tugi ára, án þess að haggast, og jafnvel öld fram af öld, svo sem dæmin sanna.
Landnámsmenn Íslands komu að auðu landi og óbyggðu að mestu. Fyrstu árin í nýju landi hafa farið í að kanna næsta umhverfi á hverjum stað og síðan í framhaldi af því að leita hagkvæmra leiða milli byggða. Fyrst í stað könnuðu menn hinar skemmri leiðir, en ljótlega lögðu þeir land undir fót til að leita leiða milli landshluta. Líður þá ekki á löngu, þar til þeir þekkja deili á helstu hálendisleiðum um landið þvert og endilangt. Að sjálfsögðu urðu þessir landnemar að sýna mikla gætni og varúð, þegar þeir fóru um fjöll og óbyggðir í landi sem þeir þekktu lítið sem ekkert til. Þess vegna merktu þeir gjarna leiðir sínar með því að hlaða vörður, enda grjót tiltækt næstum hvarvetna á fjöllum. Slík leiðarmerki komu sér vel til að rata sömu leið tilbaka og þá ekki síður fyrir hina sem á eftir komu.

Ásfjall

Varða á Ásfjalli. Fiskimið.

Frásagnir af hálendisferðum manna ná aftur til landnámsaldar og fyrsti nafngetni fjallvegurinn var Kjalvegur sem er leiðin frá Norðurlandi til Suðurlands, milli Hofsjökuls og Langjökuls. Og í þessum sögum er þess getið að landkönnuðirnir merktu leiðir sínar með því að hlaða vörður. Má því eiginlega slá því föstu að vörðuhleðsla sé nokkuð jafngömul mannabyggð í landinu. Þannig segir Landnáma frá fyrstu mannaferðum um Kjalveg og öruggt má telja að brátt hafi vörðum fjölgað svo, að Rangaðarvarða hafi aðeins verið ein af mörgum á þessum fjölfarna hálendisvegi.

Bláfellsháls

Dysin á Bláfellshálsi.

En elsta heimild um mannaferðir á Sprengisandsleið er að finna í Njálu. Ekki er þó getið um vörður, en gera má ráð fyrir að snemma hafi slík leiðarmerki komið til þar á hálendinu. Í lýsingu Eiríks Hafliðasonar frá því um 1740 eru að minnsta kosti nefndar vörður á Sprengisandi. Þar nefnir hann stað á sandinum sem hann segir að heiti Sveinar og „eru þar klappir með nokkrum vörðum“.
En frá elstu tímum voru vörður ekki aðeins hlaðnar upp til að auðkenna leiðir eða til að sýna landamerki. Þær voru líka settar upp á viðeigandi stöðum sem eyktarmörk til að sýna hvað tímanum leið, því að klukkur komu ekki til sögunnar hér á landi fyrr en á síðustu öldum. Af þessum sökum finnast því víða um land á fjöllum og fellum vörður eða vörðubrot sem bera hinni fornu þriggja stunda skiptingu dagsins glöggt vitni, en þrjár stundir heita eykt hjá fyrri tíðar fólki. Ef vel er leitað munum við því geta fundið dagmálavörður, hádegisvörður, nónvörður, miðaftansvörður og fleira í líkum dúr víða um land. Ef til vill eru margar þeirra orðnar lágreistar eða jafvel hrundar af því að þær gegna ekki lengur neinu hlutverki og því er ekkert um þær skeytt, en víða munu örnefnin
enn vera á sínum stað.

Langeyri

Varða við fyrrverandi Eyrarhraun. Minnismerki.

Á öllum tímum hafa menn líka hlaðið vörður sem minnismerki um tiltekna atburði, svo að þeir féllu síður í gleymsku. Eitt gleggsta dæmið um slíkt eru, til dæmis, Hallbjarnarvörður sem standa við Kaldadalsleið, nokkru norðar en Biskupsbrekka. Vörður þessar eru hinar stæðilegustu, þótt aldnar séu. í Landnámu segir frá uppruna varðanna. Af frásögn Landnámu má vera augljóst að Hallbjarnarvörður voru hlaðnar sem bautasteinar yfir þá sem féllu og þá ein fyrir hvern mann. Þannig hlóðu menn vörður til minningar um vígaferli og aðra válega atburði og hefur svo trúlega verið á öllum tímum. En menn minntust líka merkra og gleðilegra atburða með því að hlaða vörður. Nægir í því sambandi að benda á Konungsvörðuna á Holtavörðuheiði sem hlaðin var til að minnast Norðurlandsferðar Kristjáns konungs X. og föruneytis hans árið 1936.
En þótt vörður væru víða hlaðnar til minningar um menn og atburði, þá fer það ekki milli mála að oftast voru þær settar upp sem vegvísar á hálendisleiðum og annars staðar, þar sem slík mannvirki voru talin gagnleg.

Gamli Þingvallavegur

Berserkjavarðan við Gamla Þingvallaveginn.

Fornmenn ferðuðust um hálendið milli landshluta og lengi fram eftir öldum þeystu þar um biskupar og aðrir höfðingjar og embættismenn með flokka sína og fylgdarmenn. Margir aðrir eins og vermenn, skreiðarflutningamenn, kaupafólk og fleiri fóru líka um fjöllin sinna erinda og hélst svo lengi. En þegar kemur fram á 18. öld virðist tekið að draga mjög úr slíkum hálendisferðum, því að eitt af því sem Landsnefndin 1770 leggur áherslu á til viðreisnar með þjóðinni er að lagfærðir verði sem flestir fjallvegir ásamt með ýmsum öðrum samgöngubótum. Lítið varð þó úr slíkum framkvæmdum, en víst er að farið var um Sprengisand árið 1772 í tilraunarskyni. Þó komst á árið 1776 skipuleg póstþjónusta og landpóstar tóku þá að ferðast um byggðir og óbyggðir. Kjalvegur hafði alltaf verið fjölfarin leið, en árið 1780 urðu þar úti þeir bræðurnir Bjarni og Einar frá Reynisstað og förunautar þeirra. Hafði sá atburður mikil áhrif á fólk og tók mjög fyrir ferðir um fjallveginn um árabil. Alltaf fóru þó einhverjir þar um og árið 1794 var Sveinn Pálsson læknir þar á ferð. Lenti hann þá í hinu versta veðri og villtist. En hann rataði á rétta leið, þegar hann fann vörður nokkrar í Kjalhrauni sem vísuðu honum til vegar.

Gullbringu- og Kjósarsýsla.

Bókarkápa Sýslu- og sóknalýsinga. Varða lengst til vinstri.

En hreyfing komst aftur á þessi mál undir aldamótin síðustu. Árið 1897 kom hingað til lands danskur vísindamaður, Daniel Bruun að nafni, og ferðaðist víða í því skyni að rannsaka eyðibýli og fleira. Páll Briem, amtmaður að norðan og austan, kynntist Daniel þessum og fékk hann til að kanna vegastæði á nokkrum hálendisleiðum í ferðum sínum. Í framhaldi af því var Kjalvegur merktur og varðaður sumrin 1898 og 99. Það verk unnu að mestu tveir skagfirskir bændur, Indriði Árnason á Írafelli og Magnús Jónsson í Gilhaga. Síðan sneru þeir Páll og Daníel sér að Sprengisandsleið. Fylgdarmaður Danans, Jón Oddsson, varðaði leiðina úr Bárðardal og suður fyrir Kiðagil sumarið 1901.

Varða

Landamerkjavarða.

Á næstu árum var verkinu haldið áfram og lokið við það um sumarið 1906. Þessa vörðuhleðslu önnuðust að mestu Jón Oddsson, Jón Þorkelsson og Eiríkur Sigurðsson, allir úr Bárðardal. Við þessa framkvæmd var tæknin komin á svo hátt stig að þeir félagar höfðu hest og kerru til að draga saman grjót í vörðurnar. Í framhaldi af þessum samgöngubótum á helstu hálendisvegunum tóku menn víða að lagfæra vegi um fjöll og heiðar milli byggða og þá jafnframt að hressa við gamlar vörður og hlaða upp nýjar. Má í því sambandi benda á leiðina um Mývatns- og Möðrudalsöræfi sem og Jökuldalsheiði og marga aðra fjallvegi úti um allt land. Síðasta skipulagða stórátakið sem gert var í því að hlaða vörður á hálendisleiðum var árið 1922. Þá unnu sumarlangt við að reisa sæluhús á Hveravöllum og varða Kjalveg að nýju þeir Halldór Jónsson frá Hrauntúni í Þingvallasveit, Helgi Sigurðsson, verkfræðingur og síðar hitaveitustjóri í Reykjavík, og maður að nafni Þorkell Guðmundsson. Eitthvað munu menn síðar hafa merkt leiðir með því að hlaða vörður og gera enn, þótt brátt kæmi að því að ný vegamerki leystu vörðurnar af hólmi, en það var þegar mönnum lærðist að setja tréstikur meðfram vegum og enn síðar grönn plaströr, máluð í skærum litum.“

Botnsdalur

Varða á Leggjarbrjóti.

Árni Óla skrifaði um vörður í Lesbók Morgunblaðsins árið 1972: „Það mun hafa verið forn siður í Noregi, að menn einkenndu ákveðna staði, með því að hlaða þar vörður. Þennan sið fluttu landnámsmenn með sér hingað, og hann hélzt um aldir, enda má víða finna gamlar vörður og vörðubrot hér á landi. Allar höfðu vörður þessar sinn ákveðna tilgang, þá er þær voru hlaðnar, en tilgangurinn gat verið ærið mismunandi.
Þegar menn voru að kanna ókunna stigu, hvort heldur var á landi eða með ströndum fram, þá hlóðu þeir vörðu þar sem þeir höfðu komizt lengst og höfðu orðið að snúa aftur. Vörðurnar gátu þá bent til þess seinna, er aðra bar að þeim, að þarna hefðu menn komið áður. Þessi siður varð meðal annars til þess að sanna frásagnir um hina fornu íslenzku landnema í Grænlandi. Sagt er að þeir hafi farið óraleiðir norður með strönd Grænlands til veiða, þangað sem þeir kölluðu Norðursetu. Brigður voru bornar á að þetta gæti verið rétt, þar til fyrir rúmri öld, að á ey norður á 73. breiddargráðu, (um 30 sjómílum norðan við Upernivík), fundust þrjár vörður, mjög fornar og voru sýnilega á þeim handverk norrænna manna. Og til þess að taka af öll tvímæli um það, fannst þarna lítill rúnasteinn og stóð á honum, að þessar vörður hefði hlaðið „Erlingur Sighvatsson, Bjarni Þórðarson og Indriði Oddsson laugardaginn fyrir gangdaginn (líklega 24. apríl 1333).

Staðarberg

Staðarberg – fiskimiðavarða.

Árið 1876 ætlaði Sir George Nares að komast til Norðurpólsins og fann þá á leið sinni tvö vörðubrot á Washington Irvingey, lítilli klettaey hjá Ellesmerelandi á 79. gr., 35. mín. nbr., og síðar fundust enn tvær vörður á Ellesmerelandi á 72. gr., 58. mín. nbr. Öllum fræðimönnum ber saman um, að á þessum vörðum sé norrænt handbragð. En þessir staðir eru fyrir vestan Melvilleflóa. Hvað gátu Grænlendingar verið að gera þar? — Nú er sögn að árið 1266 hafi Grænlendingar haft úti leiðangur til að njósna um Skrælingja, og þykir líklegt að menn úr þeim leiðangri hafi hlaðið þessar vörður. Svo segir Vilhjálmur Stefánsson.

Bálkahellir

Varða við Bálkahelli.

Þá má geta þess, að vörður voru hlaðnar sem siglingamerki og lendingamerki, ennfremur við vöð á ám og á ýmsum kennileitum, þar sem menn gætu áttað sig, ef þeir væru villtir, og eins voru vörður hlaðnar á landamerkjum. Færu menn í rannsóknarferðir, svo sem að kanna stóra hella, en fundu ekki botn í þeim, þá hlóðu þeir vörðu þar sem þeir höfðu lengst komizt, og ef menn gengu á há fjöll, eða dranga, þá hlóðu þeir þar vörður fræknleik sínum til sönnnnar.
Enn var siður að hlaða vörður þar sem einhverjir merkisatburðir höfðu gerzt, og má nefna Hallbjarnarvörður á Uxabryggjaleið, þar sem þeir börðust Hallbjörn Oddsson frá Kiðjabergi og Snæbjörn galti. Eru þar tvær hæðir, er þeir börðust, og felldu þar átta menn. Segir Landnáma að þess vegna séa fimm vörður á annarri hæðinni, en þrjár á hinni, til þess að tákna mannfallið. En ekki er þess getið hverjir hafi hlaðið þær vörður. Örnefnið er kunnugt enn, en vörðurnar eru horfnar. Á þessum stað hafa vörðurnar verið minnismerki þeirra, er þar féllu.

Grímsvarða

Grímsvarða – minnisvarða um látna á heiðinni milli Sandgerðis og Keflavíkur.

Þá var það og siður, að hlaða vörður sér til verndar, einkum á torsóttum og hættulegum fjallvegum. Menn trúðu því, að það myndi blíðka skap dulvætta þeirra, er þar voru allsráðandi.
Sá, sem hlóð vörðu í fyrsta skipti er hann fór um fjallveginn, vættunum til heiðurs, mátti eiga víst að hann henti aldrei neitt óhapp á þeirri leið. Seinna var svo farið að varða vegi, svo að þeir væru ratandi í hvaða veðri sem væri, ef til vill fyrst leiðina á beitarhúsin, síðan leiðir milli bæja og seinast um óralanga heiðarvegi.
Vörðuhleðsla var upphaflega þjóðlegur siður og hafði margs konar tilgang, eins og hér hefir verið lýst. Siðurinn hefst með landnemum og eftir nokkrar aldir hefir verið kominn vörðugrúi í öllum landsfjórðungum.
En elztu frásögnina um vörðuleðslu er að finna í Landnámu og er sagan svo merkileg, að vel mætti hún vera í heiðri höfð meðan íslenzk tunga er töluð og Íslendinguni er annt um þjóðmenningu sína. Sagan er þannig sögð í Landnámu og hún gerðist í fremstu byggðum Skagafjarðar snemma á landnámsöld: Merkastur landnámsmaður þar var Eiríkur Hróaldsson í Goðdölum. Hann var eigi aðeins falinn vitrastur maður í Skagafjarðarhéraði á seinni tíð, heldur er hann talinn meðal ágætustu landnámsmanna í Norðlendingafjórðungi. Hann nam land frá Gilsá um Goðdali alla og ofan til Norðurár.
Hann bjó að Hofi í Goðdölum og var kvæntur Þuríði dóttur Þórðar skeggja, en hún var systir Helgu, er átti Ketilbjörn gamla á Mosfelli í Grímsnesi. Hrosskell hét maður, er nam Svartárdal allan og Írafellslönd, með ráði Eiríks. Hann átti þræl þann er Roðrekur hét. Hann sendi þrælinn upp eftir Mælifellsdal í landaleitan suður á fjöll. Hann komst að gili því er verður suður frá Mælifelli og nú heitir Roðreks gil. Þar setti hann niður staf nýbirktan, er þeir kölluðu Landkönnuð. Og eftir það snýr hann aftur.

Villuvörður

Villuvörður við Þingvelli.

Annar nágranni Eiríks var Vékell hinn hamrammi, er land nam ofan frá Gilsá til Mælifellsár og bjó að Mælifelli. Hann spurði til ferða Goðreks (spottaði hana, segir í Hauksbók). Þá fór hann litlu síðar suður á fjöll í landaleitan. Hann kom til hauga þeirra, er nú heita Vékelshaugar. Hann skaut milli hauganna og hvarf þaðan aftur. En er þetta spurði Eiríkur í Goðdölum, sendi hann þræl sinn suður á fjöll, er hét Rönguður. Fór hann enn í landaleitan.

Greni

Varða við greni í Ögmundarhrauni.

Hann kom suður til Blöndukvísla og fór þá upp með á þeirri, er fellur fyrir vestan Vínverjadal, og vestur á hraunið milli Reykjavalla og Kjalar, og kom þar á mannsspor, og skyldi að þau lágu sunnan að. Hann hlóð þar vörðu þá, er nú heitir Rangaðarvarða. Þaðan fór hann aftur, og gaf Eiríkur honum frelsi fyrir ferð sína. Og þaðan af tókust upp ferðir um fjallið milli Sunnlendingafjórðungs og Norðlendinga.
Saga þessi er bæði skemmtileg og fróðleg. Upphafið er skemmtilegt vegna þess, að það afsannar þá firru, er margir hafa verið haldnir, að elztu rithöfundar vorir hafi verið gjörsneiddir allri gamansemi. Er ekki notaleg glettni í sögunni af Roðrek, sem sendur er að kanna firnindi Íslands og leggur af stað hinn borginmannlegasti með nýbirktan staf í hendi? Hannn kemst á hvarf við byggðina, stingur þar niður stafnum og hverfur aftur, en stafurinn fékk nafnið „Landkönnuður!“ Og svo er sagan um Mælifellsbóndann. Hann spottaði Roðrek fyrir ferð sína og hugðist nú gera heldur betur. Það er ekki út í bláinn að hann er kallaður hinn hamrammi. Hann komst að vísu lengra en Roðrekur, rakst þar á tvo hóla og skaut á millU þeirra. Við það hvarf hann aftur. Ekki er þess getið hvað skotið átti að þýða.

Fjallgrensvarða

Fjallgrensvarða við Hrauntungustíg.

Niðurlag sögunnar er mjög fróðlegt, því að það sýnir með hverjum hætti fannst fyrsta leiðin yfir öræfi Íslands milli landsfjórðunga og hver árangur af því varð. Og hún sýnir líka, að Rönguður sendimaður hefir verið athugull og glöggskyggn. Hann fer þar til hann finnur slóð manns að sunnan. Hann veit þá varda-228að ætlunarverki hans er lokið, sú leið er fær, sem hann á enn ófarna, og þess vegna hleður hann vörðu þar sem hann rakst á slóðina. Hann hefir einnig tekið glöggt eftir landslagi og staðháttum og getur lýst því öllu greinilega, er heim kemur. Vitrasta manninum í Skagafirði var trúandi til að kunna að meta þetta. Hann vissi að hinn ófrjálsi maður hafði unnið það frægðarverk, að opna alfaraleið þvert yfir landið, og veitti homum fyrir hin dýrustu laun, sem í hans valdi stóð að veita. Hann gaf þrælnum frelsi.

Selvogsgata

Varða við Selvogsgötu ofan Helgafells.

Vegna þess, að Garðar Svavarsson, hafði siglt umhverfis landið, munu flestir landnámsmenn hafa haft spurnir af því, áður en þeir fluttust hingað, að Ísland væri eyland. En fæsta mun hafa órað fyrir hve stórt það er og erfitt yfirferðar. Það er ekki fyrr en þeir hafa setzt hér að og komizt að raun um, að landið var ekki byggilegt nema með ströndum fram, að þeim urðu samgönguerfiðleikarnir ljósir. Hér var ekki hægt að treysta á samgöngur á sjó, eins og í Noregi. Hér var enginn skerjagarður úti fyrir, sem hlífði strandlengjunni. Hér voru ekki langir og veðursælir firðir að ferðast eftir. Hér var víðast opin brim strönd og hafnir fáar. Leiðir með ströndum fram, eða um byggðir, voru langar og krókóttar og þar voru margir farartálmar, enda þótt stórárnar hafi þá verið mörgum sinnum vatnsminni heldur en þær eru nú. Það var því eðlilegt nð landnámsmönnum væri mjög í mun að finna leiðir þvert yfir hálendið, og sendu því menn sína víða til að kanna landið. Og það hefir þótt svo merkur atburður, er fyrsta leiðin yfir öræfin fannst, að frásögn um það hefir verið skráð, enda þótt ekki sé minnst á aðrar rannsóknaferðir, sem farnar hafa verið, að undanteknu því, er synir Gnúpa-Bárðar fundu veg um Vonarskarð úr Bárðardal suður í Fljótshverfi.

Leið sú, er Rönguður fór, virðist hafa verið mjög hin sama og síðar var alfaraleið um margar aldir, um Mælifellsdal, Haukagilsheiði, Eyvindarstaðaheiði, yfir Blöndukvíslar að Reykjavöllum, sem nú kallast Hveravellir. Þar leggur hann á Kjalhraun. Í hrauninu rakst hann á mannsspor „og skildi að þau lágu sunnan að“.

Vörður

Vörður við brú á gjá í Vogaheiði.

Vera má, að þetta hafi verið síðsumars og komið föl á hálendið og slóðin hafi því verið auðrakin. En ekki þarf svo að vera, hann gat hafa fundið sporin í sandi. En hver var þá maðurinn, er hafði skilið eftir spor sín þarna? Allar líkur benda til þess, að hann hafi verið þarna í sömu erindagerðum og Rönguður, sendur af sunnanmönnum til þess að finna leið norður yfir öræfin, og er þá varla öðrum til að dreifa en landnámsmönnum í Hrunamannahreppi. Landnáma segir svo frá þeim: „Bröndólfur og Már Naddoddssynir og Jórunnar dóttur Ölvis barnakarls, komu til Íslandsbyggðar snemma. Þeir námu Hrunamannahrepp svo vítt sem vötn deila.“ Þeir voru synir fyrsta norræna mannsins, sem talið er að hafi stigið fótum á Ísland. Af góðum ættum hafa þeir verið og urðu sjálfir kynsælir. Út af Bröndólfi var kominn Hallur í Haukadal og Þorlákur biskup Runólfsson, en af Má var kominn Hjalti Skeggjason. Þessum landnámsmönnun er vel til þess trúandi eins og Eiríki í Goðdölum, að hafa haft mikinn hug á að kanna landið og finna veg norður yfir hálendið.
Rönguður hlóð vörðu þar sem hann rakst á slóð sunnanmannsins. Sú varða var við hann kennd og kölluð Rangaðarvarða, svo að ekki gleymdist nafn þess manns, er fyrstur fann þennan fjallveg. En ekki er þess getið hvar varðan stóð og gleymt er það nú. Varla hefir hann haft tíma til að hlaða háa og gilda vörðu og því er ólíklegt að hann hafi hlaðið hana inni í hrauninu. Hann muni hafa valið henni stað þar sem mest bar á henni og auðveldast var að finna hana. Þess vegna mun hún hafa staðið í hraunjaðrinum, ef til vill ekki langt frá þeim merka stað Hveravöllum.

Þingvallavegur

Varða við Gamla Þingvallaveginn.

Vörðum þeim, sem stóðu hjá fjallvegum, var haldið við, vegna þess að þær voru vegfarendum til leiðbeiningar. Fór þá tíðum svo, að þessar vörður urðu bæði háar og digrar, og af stærðinni voru þeim gefin nöfn og kallaðar Kerlingar. En Kerling þýddi þar sama sem skessa eða tröllkona. Um vörðu, sem stóð á Mýrdalssandi, var t.d. þessi vísa kveðin:
Kerling ein á kletti sat
Kötlusands á stræti,
vísað mönnum veginn gat,
var þó kyrr í sæti.

Brandsgjá

Vörður við Brandsgjá (Aragjá) á Skógfellaleið. Þar missti Brandur á Skála hest niður í gjá við veginn að vetrarlagi.

Enginn vafi mun á því vera, að Rangaðarvarða hefir verið endurnýjuð og stækkuð svo, að hún átti skilið að heita Kerling og hefir verið kölluð svo um aldir, því að til þess bendir gömul vísa, að hún hafi staðið langt fram á 18. öld. Um þá heimild er það að segja, að í Kjalhrauni er hellir, sem nefnist Grettishellir og á Grettir að hafa hafzt þar við um þær mundir er hann hitti Loft á Kili og Loftur strauk hendur hans af beizlistaumum sínum. Hellir þessi er í hrauninu sunnan við Rjúpnafell og um 7 km fyrir sunnan Hveravelli. Hann var allstór fyrrum og leituðu ferðamenn þar oft náttstaðar, en nú er hann fullur af roksandi.
Vísan var kveðin í þessum helli eigi seinna en á 18. öld:
Hér er Grettis gamla borg,
sem gott er við að una,
en eg er hryggur út af sorg
eftir Kerlinguna.
Þetta virðist benda til þess, að varðan hafi þá verið hrunin. Og varla hefir hún verið hresst við aftur, því að eftir óhappaför Reynistaðarbræðra 1780, tóku ferðir um Kjalveg að leggjast niður og má segja að hann hafi verið týndur sem ferðamannaleið allt framundir seinustu aldamót, að Daniel Bruun „fann“ veginn að nýju. Og þótt hann hafi síðar verið varðaður, þá er Rangaðarvarða týnd. Slíkt hugsunarleysi getur ekki verið skammlaust þeirri þjóð, sem vill hafa menningarsögu sína í heiðri. Rangaðarvörðu verður að reisa að nýju, þetta elzta íslenzka minnismerki um afrek unnið á sviði landkönnunar.“

Gamli Þingvallavegur

Berserkjavarðan við Gamla Þingvallaveginn.

Eftirfarandi skrif „um fjallvegu, vörður og sæluhús“ má lesa í tímaritinu Mána 1880: „Til þess að Varda-22greiða samgöngur og tryggja félagsskap milli sveita og héraða má fyrst telja þjóðveguna. Félög vor og samtök eru lítil, og kemur það víst að nokkru leyti til af því, að land vort er strjálbyggt og örðugt yfirferðar, en vegir eigi nógu greiðir, og tefur það allmikið fyrir samtökum, samgöngum og félögum milli sveita og sýslna. Hvervetna erlendis þar sem fylgi og félagsskapur er mestur milli þjóðanna þar eru líka þjóðvegimir greiðastir, löndin sljett, árnar skipgengar, grafin sýki, byggðar járnbrautir o.s.frv. Hér er eigi um neitt þesskonar að tala; land vort er fjöllótt, árnar straumharðar, og margar vatnslitlar, en brimgarður og og sker fyrir mynni þeirra, og víðast er það að sá sem vill ferðast milli sveita eða sýslna verður að fara yfir varda-23dali, hóla, fjöll og firnindi, og verður það opt mjög tilfinnanlegt í illum veðrum, er ætíð má búast við á fjallvegum einkum á vetrum. Nú er þó svo komið hjá oss að mikil lögun er komið á marga fjallvegu og þeir orðnir góðir yfirferðar á sumrum, og hefir nú á síðastliðnum 10 árum allmiklu fé verið kostað til vegabóta, og erum vér vissir um að meiri hluta alþýðu þykir því fé vel varið, og hafa orðið að góðum notum, en samt sem áður eru vegirnir ófullkomnir, þar eð þeir flestir eru að eins sumarvegir.

Kotaklifsvarða

Kotaklifsvarða.

Vér Íslendingar þurfum eigi síður greiða vegu um landið á vetrum og opt er það að þá þarf maður helst að reyna á þá. Á vetrum er slétt yfir alla vegu af snjó og ís, og þótt vegirnir séu hlaðnir upp, er það opt að eigi sést til þeirra fyrir snjó; einnig er það líka að ef maður, eins og opt Vagnvegur-21kemur fyrir, á vetrum, tekur af sér króka með því að ganga beinnan vegurinn liggur, að hann á þá opt illt með að finna veginn, ef hann eigi er gagnkunnugur honum, en af slíku geta menn opt komist í vandræði og jafnvel beðið bana, ef misjöfn eru veður; til þess að ráða bót á slíku ættu sýslunefndir að fara að hugsa um það efni og sjá svo um að hlaðnar væru vissar vörður á fjallvegum, er ferðamenn gætu óhultir farið eptir, til þess að komast áfram leið sína til byggða; vörðurnar þyrftu að vera þéttar, svo að þær sæjust glöggt þó illt væri veður og kafald; það sjá allir að nauðsyn er á einhverjum vissum leiðarvísi fyrir ferðamenn á vetrum, er svo opt eru á ferð, þar sem samgöngur milli héraða eru nokkuð að aukast, einkum póstferðir, og menn eru sendir með áríðandi bréf og sendingar, er fljótt og áreiðanlega eiga að komast til skila.

Básendar

Básendar – Brennhóll.

Erlendis eru víða vitar, er sjómenn og landfarar beina leið sína eptir, en að hafa vita hér sýnist óhugsandi, sakir ýmsra annmarka. Vér viljum telja hér nokkra hina helstu fjallvegu, er óumflýjanlegt er að fara yfir, og nauðsyn væri að hlaðnar væru vissar vörður á, fyrir pósta og aðra ferðamenn að rjetta sig eptir á vetrum. Allir þessir vegir eru langir og illir yfirferðar og mjög villugjarnir.
Þegar lengra er haldið áfram yfir Suðurlandið, má telja Reykjanesfjallgarðinn; yfir hann liggja 7 alfaravegir. Nyrðstur er Kaldadalsvegur milli Þingvallasveitar og Kalmannstungu, þá Mosfellsheiði milli Kárastaða í Þingvallasveit og Mýdals í Mosfellssveit; þá Dyravegur suður um Henglafjöll milli Grímsness og Mosfellssveitar, þá Hellisheiði frá Reykjum i Ölvesi að Lækjarbotni í Mosfellssveit, þá Lágaskarð frá Hrauni í Ölvesi að Lækjarbotni, þá Ólafsskarð frá Breiðabólstað í Ölvesi að Lækjarbotni, þá Grindaskörð milli Ólvess og Selvogs að austan og Kaldársels að sunnan, þá Sandakravegur milli Krýsarvíkur og Kvíguvoga. Allir eru vegir þessir yfir Reykjanesfjallgarð mjög farnir á vetur.

Gamli Þingvallavegur

Varða við Gamla Þingvallaveginn.

Nokkrir af vegum þeim, er áður eru taldir, hafa reyndar fengið allgóða lögun, en hvergi nærri fullkomna til þess, að þeir gætu heitið vetrarvegir, þar eð flesta þeirra vantar sæluhús og vörður eða einhver glögg einkenni, er ferðamenn gætu óhultir rétt sig eptir, ef veður eru misjöfn. Það sjá allir hvað póstferðirnar eru nauðsynlegar, og án þeirra getur enginn félagsskapur né samgöngur orðið að góðum notum, en það sjá líka allir hve örðuga og geigvænlega leið póstar eiga fyrir höndum á vetrum, er þeir í tvísýnu veðri og illri færð eins og þá opt kemur fyrir, verða að ferðast um þessar heiðar og eyðimerkur til þess að ná til byggða.

Þingvallavegur

Varða við Gamla-Þingvallaveginn. Vegvísir skv. konungsbréfi.

Vörður þær, er hlaðnar eru á fjallvegum eiga að hafa áttavita, það er að segja út úr tveimur hliðum vörðunnar eiga að standa þrep, er snúi hvort frá öðru í gagnstæðar áttir t. d. úr suðurhlið og norðurhlið vörðunnar, og ætti eigi lengra að vera milli varðanna en svari 30—40 föðmum; best væri að vörðurnar væru hlaðnar skammt frá veginum en þó allar á sömu hlið við hann, og ætti einkum að sjá svo til, að þær gætu staðið nokkuð hátt, svo eigi þyrfti að óttast fyrir að snjó legði yfir þær; ef þær stæðu mjög nærri veginum, ætlum vér hættara við að þær kynnu fremur að falla ef ógætilega væri hjá þeim farið. Þótt vegir séu hlaðnir upp, þarf engu síður vörður við þá, ef þeir liggja yfir óbyggðir. Sæluhús eru ómissandi á mörgum fjallvegum hér, og það er undarleg vanhirða þjóðarinnar, að eigi skuli sæluhús enn vera orðin almennari í mestu alfara óbyggðum landsinsenþaueru, og flestir þeir sæluhúskofar, er til eru, eru hafðir mannlausir, svo þeir undir eins fúna niður, og verða að litlum notum. Í nokkrum óbyggðum landsins er þar á móti gnægð af villuvörðum, er nauðsynlegt væri að felldar væru niður til grunna. Vér viljum taka til dæmis hér syðra heiðina, er liggur frá Vogastapa og suður á Garðskaga, milli Hafna, Rosmhvalsneshrepps, Garðs, Leiru, Keflavíkur og Njarðvíka. Heiði þessi er allstór, smáhólótt, og ákaflega villugjörn, en svo að segja er varða þar á hverjum hól, og verða þær að líkindum fleiri mönnum að bana, en illt loptslag þar, draugar og staupagjafir í Keflavík, sem hingað til hefir verið álitið að væri orsök til þess, að svo margir hafa orðið úti og dáið þar í heiðinni. Ef vissar vörður væru í heiði þessari, er vel mætti rekja sig eptir og engar villuvörður (draugar í heiðinni) í kring, mundu færri verða þar úti. Villuvörður þessar hafa smalar eða þeir er staðið hafa yfir fé að líkindum hlaðið sér til dægrastyttingar, en eigi gætt þeirra afleiðinga, er verða kynni af verki þeirra fyrir ókunna ferðamenn.“

Vatnsleysuheiði

Stök gatvarða á Vatnsleysuheiði.

Svonefndar „gatvörður” hafa valdið sumum mönnum heilabrotum um langa tíð. Sjá má nokkrar slíkar á Reykjanesskaganum. Ein helsta kenningin hefur verið sú að þær eigi sér skírskotun til sambærilegra mannvirkja í Norður-Ameríku og hefðu því bæði verið hlaðnar af sama fólkinu beggja vegna Atlantshafsins og/eða gegnt sambærulegu hlutverki. Hvert fólkið var eða hvaða hlutverki þær áttu að hafa þjónað hefur hins vegar ekki verið útskýrt af neinu viti.
Fyrr á tímum voru bændur skuldbundnir til tiltekinnar þegnskylduvinnu. Yfi rvaldið ákvað verkefnið, sem gat verið í formi vegghleðslna, gatnagerðar eða vörðuhleðslu, svo eitthvað sé nefnt. Þannig þurfti sérhver bóndi að leggja sitt af mörkum tiltekinn tíma á hverju ári – endurgjaldslaust. Sýslumenn, hreppsstjórar, prestar og læknar gengu í sama skólann, tengdust vinarböndum og tryggðarfestum til lengri framtíðar.

Ef litið er á þessar gatvörður á Reykjanesskaganum má a.m.k. telja eftirfarandi:
a) Ofan við Merkines eru tvær gatvörður. Í örnefnalýsingu fyrir Hafnir segir m.a. um þessar vörður: „Landið á hægri hönd, að Merkinesvör, er nefnt Flatir(nar). Þá er komið að hringmynduðum grjótgarði á vinstri hönd. Það heitir Innstigarður.

Arnarbæli

Arnarbæli – varða ofan Grunnuvatna.

Upp frá Innstagarði liggur breitt lægðardrag allt upp að Norður-Nauthólum og kallast einu nafni Merkineslágar. Skammt upp frá Innstagarði er gróin laut og við vesturbrún hennar eru gamlar rústir og stór varða með gati neðst er þar hjá. Þetta er kallað Strákur. Nokkuð langt ofar er lítil varða á klapparhorni, sem heitir Stelpa.“ Í örnefnalýsingu fyrir Merkines er einig getið um vörðurnar: „Neðst í Merkineslágum er grjótvarða, hlaðin þannig, Varða ofan við gömlu Hafnir – Systur – að neðst eru tveir stólpar og svo einn upp úr. Þetta er mjög gömul varða og ágætlega hlaðin. Hún heitir Strákur. Nokkuð ofar er lítil varða á kletti, sem nefnd er Stelpa. Þarna eru allmargir smáhólar. Meðan þetta land var meira nytjað, hafa örugglega margir þeirra haft nöfn, sem nú eru glötuð.“ Í örnefnalýsingu fyrir Kalmannstjörn segir einnig um þessar vörður: „Dálitlum spöl ofar er sérkennilegur klapparhóll, áþekkur gömlum torfkofa í laginu. Hann heitir Bæli, mikið notaður sem mið, bæði við leiðir og lendingar og eins á grunnamiðum. Þar, en ofar eru tvær vörður með litlu millibili á klöppum og heita þær Systur. Til suðausturs upp frá Kalmanstjörn er holt, sem liggur frá suðvestri til norðausturs, og nokkru hærra til norðausturs, með vörðubroti á, svo sem 1 km frá bænum; það heitir Merarholt.“

Prestastígur

Varða (prestur) við Prestastíg nálægt Presthól.

Við svonefndan Prestastíg (nýnefna) eru tvær gatvörður utan í efstu brúnum (Presthól) ofan Hundadals. Í örnefnalýsingu fyrir Hafnir segir m.a. um þessa leið (ekki er getið sérstaklega um vörðurnar): „Til norðurs er nokkuð stór grjót- og klapparhóll skammt upp frá gjánni. Varða við Presthól heitir Markhóll. Til norðvesturs er feikistór hóll upp af gjárbarminum og heitir hann Presthóll. Meðfram honum lá hestagata frá Kalmanstjörn og undir Haugum til Grindavíkur. Vegur þessi var varðaður og standa margar vel enn í dag.“ Í örnefnalýsingu fyrir Kalmannstjörn af sömu leið er ekki heldur getið um þessar „afbrigðilegu“ vörður: „Vestan við Tjaldstæðagjá, sem fyrr er nefnd, er hrauntangi. Þar á er hæð, sem heitir Presthóll og var á leið Grindavíkurklerka, er þeir voru á ferð. Haugur er hæð, sem er sunnarlega, vestur af Haugsvörðugjá.“

Gluggavarða

Glugggvarða á Mosfellsheiði.

Á Mosfellsheiði eru tóftir sæluhúss vestan í Háamel. Í örnefnalýsingu fyrir Mosfellsheiði segir: „Sunnan undir Háamel var eitt sumar, eða tvö, fyrir rúmum 20 árum lítill veitingaskúr, er danskur maður átti og nefndi Heiðarblóm. Sjást þess nú nálega engin merki, að þar hafi mannabústaður verið. Þar suðvestur af taka við sléttir melar, Borgarhólamelar, og hallar úr því nokkuð jafnt niður í byggð í Mosfellssveit. „Heita þar Seljadalsbrúnir, löng leið og heldur tilbreytingalítil. Er þá Grímmannsfell allfjarri til hægri handar, en Efri-Seljadalur milli þess og heiðarinnar.“ Gatvarðan skammt vestar virðist ekki hafa verið í frásögu færandi. Reyndar eru vörður á þessari leið eitt allsherjar samansafn af öllum helstu vörðutegundum landsins.
Við Vestari rekagötuna milli Selatanga og Ísólfsskála er falleg gatvarða. Einnig á samhengisslausum stað í Strandarheiði ofan við Vatnsleysuströnd. Tvær gatvörður, annars vegar við hina fornu Hvalsnesleið og hina nýju Reykjanesbraut virðast vera æði nýlegar og vera dæmigerð sköpunarverk höfundanna. Þessar vörður, þótt nýlegar séu, gefa jafnframt góðar vísbendingar um tilurð þeirra, sem eldri eru, sem og Varða við Reykjanesbraut – nú horfinannarra sambærilegra vestanhafs.

Prestastígur

Vörður við Prestastíg.

Fyrr á tímum voru bændur skuldbundnir til tiltekinnar þegnskylduvinnu. Yfirvaldið ákvað verkefnið, sem gat verið í formi vegghleðslna, gatnagerðar eða vörðuhleðslu, svo eitthvað sé nefnt. Þannig þurfti sérhver bóndi að leggja sitt af mörkum tiltekinn tíma á hverju ári – endurgjaldslaust. Sýslumenn, hreppsstjórar, prestar og læknar gengu í sama skólann, tengdust vinarböndum og tryggðarfestum til lengri framtíðar. Prestarnir virðast hafa haft afgerandi áhrif á vinnuframlagið, sbr. vetrarleið Hvalsnesgötunnar, en þá götu fór presturinn í Hvalsnesi, Hallgrímur Pétursson, jafnan milli vinnustaðarins og heimilisins að Bolabás í Ytri-Njarðvík á 17. öld. Helsta öryggisáhugamál prestanna var að komast lifandi milli kirkjustaða, sem þeim var ætlað að þjóna, einkum í víðsjálegum verðum að vetrarlagi.

Moldbrekkur

Moldbrekkur – sýsluvarða.

Af framangreindum gatvörðum má draga tvenns konar ályktanir; annars vegar þá að einstaka áræðnum bónda hafi ofboðið ánauðin og ákveðið að tjá hug sinn til hennar. Í stað þess að hlaða hefðbundna forskrifaða vörðu hafi hann viljað vekja athygli á þurfalinginu. Dagsverkið hefur eflaust verið ca. tvær fullhlaðnar vörður og skýrir það vel gatvörðurnar tvær við Presthól. Afurðin hefur í framhaldinu án efa vakið mikið umtal á þeim tíma, enda vörðurnar ólíkar öllum öðrum hefðbundum við stíginn. Ef til væru stólræður prestsins frá þessum tíma mætti eflaust sjá viðbrögðin við afbrigðilegheitunum – með tilheyrandi bölvunum og bannfæringum. Í dag, þegar gengið er „Prestastíg“ (sem reyndar lá annars staðar um heiðina fyrrum) vekja þessar tvær vörður einna mesta athygli göngufólks.

Svo gildir og jafnan um verk þeirra, sem hafa viljað tjá sig í seinni tíð á annan hátt en hefðbundinn. Líkt og þá hafa verkin verið talin „fáranleg“, en smám saman, með tímanum, fengið viðurkenningu í samræmi við gildi tjáningarinnar. Sömu lögmál eru algild, bæði í tíma og rúmi, um árþúsunda sögu mannskepnunnar – og þarf ekki Reykjanesskagann til.

Jóhannesarvarða

Jóhannesarvarða.

Hins vegar má ætla, út frá sömu rökyggju, að einhverjir hafi viljað byggja vörðu á fjölförnum stað er ætlast var að vekti sérstaka athygli. Segja má að á öllum þeim stöðum, er það átti við, hefur það tekist með ágætum. Hughrifin ein hafa þó jafnan verið látin duga, en ekki verið talin ástæða til að fjalla sérstaklega um einstök mannvirki í markverðum textum – enda vörðurnar yfirleitt skammlífar. Þannig entist varðan við Reykjanesbrautina einungis í þrjú ár. Vörðurnar við „Prestastíg“ og ofanvert Merkines sem og við Rekagötuna frá Selatöngum og á Mosfellsheiði eru hins vegar u.þ.b. 100 ára. Ekki er vitað um aldur varðanna í Norður-Ameríku, en ætla má að tilefni að sköpun þeirra hafi verið af sömu tilfinningarrótum og hér á landi.

Heiðarvegur

Varða við Heiðarveg.

Jóhannesarvarða er vestur undir Holtsgjá í Vogaholti, aðeins norðan við austur frá Brandsgjá en v-n-v Vogasels. Í raun er Jóhannesarvarða á milli Arahnjúkssels og Vogasels.
Þegar Sesselja Guðmundsdóttir ritaði bók sína „Örnefni og Gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi“ (1995) getur hún um Jóhannesarvörðu eða Jónasarvörðu. Erfitt sé að hendar reiður á hvort nafnið er réttara. Sagnir hermi að þarna hafi orðið úti maður, en engin nánari deili virtust finnast á þeim sögum.
„Svo var ég svo heppin þegar ég var að skoða ættfræði Krýsuvíkur-Gvendar hér um árið í Þjóðskjalasafni að ég rakst á kirkjubókarheimild um greftrunina. Man bara hvað ég varð frá mér numin þegar ég fann, óvænt, skrif um lát og greftrun þessa manns. Því varðan hafði kallað fram spurningar. En og aftur kom í ljós að sögusagnir fara nærri sannleikanum þrátt fyrir aldir!“
Ólafsvarða er enn ein varðan í Vogaheiði. Hún er minningarvarða um nafngreindan mann er féll þar ofan í sprungu á aðfangadag árið 1900 – og varð úti.

Árnastígur

Nefvarða við Árnastíg.

Árið 1776, þann 29. apríl, gaf Kristján VII út tilskipun/frumvarp, sem m.a. á finna eftirfarandi um vörður og vörðugerð: „Frumvarpið var nefnt „Tiskipun um vegina á Íslandi“. Í 14. gr. segir; „Á öllum þeim fjallvegum, sem ferðamenn eru vanir að fara á vetrardag. skal hlaða vörður, og skal einnig gjöra sæluhús, þar sem yfirvaldi þykir þörf á. Eiga vörðurnar að vera, þegar því verður við komið, svo nálægt hver annari, að tvær að minnsta kosti sjáist í einu, þegar þoka er yfir; skal þar að auki á hverri vörðu vera gjörður stallur eða annað merki á þeirri hlíð, sem snýr til norðurs, ferðamönnum til leiðbeiningar.“
Með tilskipuninni var þegnskylduvinna til vega- og vörðugerðar afnumin.“

Gamli Þingvallavegur

Varða við Gamla Þingvallaveginn.

Þegar horft er til varða á þétthlöðnum hesta- og vagnvegum má jafnan sjá framangreinda „stalla“ (steina) standa út úr heillegustu vörðunum. Þetta vekur jafnan athygli vegfarenda, en fáir hafa velt fyrir sér tilganginum, sem hlýtur að hafa verið einhver? Eins og fram kemur hér á eftir munu þetta eru vörður sem hlaðnar eru eftir 1776 og hafa verið ítrekaðar í nýrri skipan konungs (frá 15. mars 1861) sbr. tillögudr. Alþingis að vegaumbótarlagafrumvarpi þess frá 1857:  12. gr.: „Á öllum þeim fjallvegum, sem ferðamenn eru vanir að fara á vetrardag, skal hlaða vörður, og skal einnig gjöra sæluhús, þar sem yfirvaldi þykir þörf á. Eiga vörðurnar að vera, þegar því verður við komið, svo nálægt hver annarri, að tvær að minnsta kosti sjáist í einu, þegar þoka er yfir; skal þar að auki á hverri vörðu vera gjörður stallur, eður annað merki, á þeirri hlið, sem snýr til norðurs, ferðamönnum til leiðbeiningar.“

Heimild:
-Tilskipun Kristjáns VII, 29. apríl 1776 Frumvarp til tilskipunar um vegina á Íslandi.
-Alþingistíðindi 1857.
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – SG (1995).
-http://www.ferlir.is/?id=6680
-Máni, 1. árg. 1879-1880, 3. tbl. bls. 21-22.
-Máni, 1. árg. 1879-1880, 4.-5. tbl, bls. 34-35.
-Máni, 1. árg 1879-1880, 8. tbl. bls.60-61.
-Lesbók Morgunblaðsins 24. sept. 1972, bls. 12-13.
-Lesbók Morgunblaðsins 12. ágúst 1995, bls. 6-7.
-Rauðskinna I 44.
-Lesbók Morgunblaðsins, Jón R. Hjálmarsson, 12. ágúst 1995, bls. 6-7.
-https://is.wikisource.org/wiki/%C3%8Dslenzkar_%C3%BEj%C3%B3%C3%B0s%C3%B6gur_og_%C3%A6fint%C3%BDri/Galdras%C3%B6gur/Tyrkjar_koma_%C3%AD_Selvogi
-https://is.wikisource.org/wiki/%C3%8Dslenzkar_%C3%BEj%C3%B3%C3%B0s%C3%B6gur_og_%C3%A6fint%C3%BDri/Galdras%C3%B6gur/Kr%C3%BDs_og_Herd%C3%ADs
-Andvari, Jón Þorláksson, 31. árg., 1906, 1. tbl. bls. 61-62.
-https://www.mbl.is/greinasafn/grein/687600/
-http://ferlir.is/?id=3991
-Morgunblaðið 3. mars 2001, bls. 40.
-Alþýðublaðið 27. júní 1967 – Gestur Guðfinnson – „Kerling ein á kletti sat“, bls. 5 og 15.
-http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=2630038
-Íslendingasaga Jóns Jóhannessonar, bls. 45, Reykjavík 1956.
-Þórarinn Þorsteinsson frá Fellskoti í Biskupstungum, f: 11. nóv. 1909 d: 17. nóv. 1999 – munnleg frásögn.

Seltangar

Varða við vestari rekagötuna við Seltanga – einkennisvarða Ferðafélags Grindavíkur. Skála-Mælifell fjær,