Gengin var óhefðbundin leið frá Þrengslavegi að Strandarhæð. Leiðin er greiðfær og auðveld yfirferðar. Hallar undan, einkum seinni hlutann.
Byrjað var á því að ganga að Sandfelli og áfram yfir slétt mosahraunið að Geitafelli, með því að austan og sunnanverðu uns komið var að Seljavöllum. Þaðan var haldið suðvestur með Réttargjá að gömlu hlöðnu Geitafellsréttinni. Geitafellsréttin var frádráttarrétt Ölfus- og Selvogsbúa. Réttin hefur ekki verið notuð lengi, en stendur þarna heilleg og löngum einmana undir gjáarveggnum. Umhverfið er allt hið fegursta og skjólgott undir gjáarveggnum. Skömmu áður en komið var að réttinni mátti sjá gamlar hleðslur utan í hraunhól.
Í auglýsingu í Ísafold 22.09.1875, bls. 143-144 er m.a. minnst á Geitafellsréttina: „Um leið og eg geri almenningi kunnugt, að eg samkvæmt tilmælum amtmannsins yfir suðr- og vestrumdæminu hafi verið skipaðr lögreglustjóri til upprætingar fjárklaðans í suðrhluta Gullbringusýslu, í Selvogi og í Út-Ölfusinu inn fyrir Hjallahverfið, skal hér með skorað á fjareigendr þá.. sem kindr kynnu að eiga í réttum þeim, sem sótt er úr þessu lögsagnarumdæmi mínu, að koma sem tímanlegast, að réttunum og hirða kindr sínar.
Mun almenn skoðun á réttarfénu, fyrren það er dregið, fara fram í Gjáarrétt mánudaginn 20. þ. m., í Geitafellsrétt þriðjudaginn 21. s. m. og í Hveragerðisrétt miðvikudaginn 22. s. m. Allar kindr þær, sem þá finnast með kláða eðr kláðavotti, munu samkvæmt 4. gr. tilsk. frá 5. jan. 1866 verða stranglega aðskildar frá hinu fénu og skornar þegar í stað við réttina, ef eigandinn er ekki við til að hirða þær á tryggjandi hátt, svo að þær ekki nái samgöngum við annað fé, eða ef enginn annar vill taka þær að sér til hirðingar.“
Gengið var með Merarbrekkum að slysavarnarskýlinu undir Heiðinni há og kíkt á Kjallarahelli, sem er skammt ofan við það. Ekki var gengið á Svörtubjörg og komið við Eiríksvörðu að þessu sinni (hlaðin árið 1710), en þess í stað var haldið í átt að Staðarsel (Strandarseli), fráfæruseli við efri rætur þeirra. Leiðin lá framhjá hlöðnu Selvogsréttinni norðan við Hnúkana með viðkomu í Hellholti og Hellholtshellir skoðaður, Hafri, Hruni svo og nokkrir aðrir. Áður höfðu ferðalangar áð í Selvogsréttinni þar sem gangnamenn fyrrum höfðu verið svo vinsamlegir að skilja eftir svolítið af kjarngóðum hákarli, reyktum rauðmaga og brennivíni fyrir ferðalúna vegfarendur.
Þá var haldið niður að Eimubóli (Eimustekkur er í Eimuhelli) og Vindásseli, gengið yfir Vörðufell og skoðuð hlaðna Vörðufellsréttin (hætt að nota 1924) og Markavarðan með krossmarkinu (landamerkjavarða), auk litlu smalavarðanna, sem tengjast þjóðsögunni um endurheimtur.
Á þessu svæði eru miklar og merkilegar mannvistaleifar, ekki síst í hellum og skútum. Hafa þær væntanlega tengst seljabúskapnum í heiðinni, sem hefur skilið eftir sig miklar og merkilegar minjar.
Þarna er fjölmargt að skoða þótt ekki virðist það vera við fyrstu sýn, a.m.k. ekki séð neðan frá þjóðveginum.
Á leiðinni að Strandarhelli var komið við í Ólafarseli, sem liggur undir hraunkrikanum syðst í Vörðufellshrauni. Skammt austar liggur gömul þjóðleið. Loks var skoðað í Strandarhelli, Bjargarhelli og í Gaphelli (Gapstekk).
Gangan tók u.þ.b. 8 klst. Veður var frábært og björt júlínóttin gaf ferðinni skemmtilegt yfirbragð.