Tag Archive for: Geldingasteinar

Arngrímshellir

Gengið var niður í Fjárskjólshraunshelli í Krýsuvíkurhrauni (Fjárskjólshrauni) undir mosaþverskorinni Geitahlíð og áfram niður hraunið að Keflavík þar sem tilkomumikill gataklettur var skoðaður utan í Krýsuvíkurbergi, sem og gamla bergið þar sem á trjóna svonefndir Geldingasteinar. Haldið var vestur með bjarginu og síðan beygt til norðurs upp í Bálkahelli og loks farið í Arngrímshelli. Á göngunni var m.a. rætt um austurlandamerki Krýsuvíkur, sem eru þarna eða svolítið austar; allt eftir því við hvaða gögn er stuðst.

Fjárskjólshraun

Í Fjárskjóslhrauni.

Þegar gengið var frá opi Litlu Eldborgar, niður Eldborgarhraunin, lagðist regnbogi yfir þau þannig að göngufólkið gekk undir annan enda hans. Sjaldgæf sjón – og ósktæk.
FERLIR skoðaði Fjárskjólshelli árið 2004. Um er að ræða u.þ.b. 60 metra helli með sléttu gólfi. Innst lokast hann með fallegum hraungúlpi, sem virðist kom upp úr gólfinu. Að þessu sinni skartaði hellirinn hinum fegurstu grýlukertum og klakahnúðlum.
Niðri í Fjárskjólshrauni er fornt hlaðið fjárskjól. Líklega dregur hraunið nafn sitt af því týnda skjóli.
Opið á Fjárskjólshraunshelli er í stóru grónu jarðfalli. Nyrst í því er hægt að komast niður í stóra hraunrás, slétta í botninn. Rásin liggur til norðurs. Stutt rás liggur til hægri. Fremst er einnig stór hraungúlpur, sem virðist hafa komið upp úr gólfinu. Um er að ræða fallegt jarfræðifyrirbæri.

Bálkahellir

Bálkahellir – op.

Á leiðinni niður í Keflavík var komið við á Skyggnisþúfu. Hún er þar sem hraunið ofan við Krýsuvíkurberg ber hæst mót Herdísarvík. Á þúfunni er varða, Skilaboðavarða. Í hana voru sett boð, sem menn vildu að bærust á milli bæjanna.
Í Kirkjufjöru í Keflavík má sjá hluta af gamla Krýsuvíkurbjargi og fagurt útsýni er úr víkinni austur eftir berginu. Víkin dregur nafn sitt af keflunum, sem nóg virðist vera af, auk plastbelgja. Gatklettur stendur út af berginu að austanverðu. Svonefndir Geldingasteinar eru efst á bjargbrúninni, gulir af fuglaglæðu og öðrum grófari féttum.
Á kortum er Keflavík notað fyrir allt svæðið framan við og vestan og austan við Bergsenda. Af brún bjargsins ofan við víkina liggur gömul rekagata niður í hana. Götunni var fylgt niður. Niðri er skjólgott undir háum grágrýtisveggjunum. Framar er stóreflis lágbarið strandargrjótið. Útsýnið þarna eftir berginu er einstaklega fallegt.

Bálkahellir

Í Bálkahelli.

FERLIR leitaði að og fann Bálkahelli árið 2000. Hans er þó getið í gamalli sögn um þjóðsöguna af Grákollu og Arngrímshelli, sem er þar skammt vestar. Neðsti hluti Bálkahellis (um 150 m langur) er með sléttu gólfi, vítt til veggja og hátt til lofts. Dropsteinar og hraunstrá eru í þessum hluta. Nauðsynlegt er að hafa með sér góð ljós þegar hellirinn er skoðaður til að draga úr líkum á skemmdum. Hiti var í hellinum svo ekki sáust klakamyndanir.
Haldið var upp í gegnum efsta hlutann. Botninn er sléttur í fyrstu, en þegar komið er að stórri steinsúlu þarf að fara yfir hraun. Það er þó ekki ógreiðfært, en nauðsynlegt er að hafa góð ljós í Bálkahelli. Þegar komið var út úr þessum efsta huta hellisins mátti vel sjá af hverju hann dregur nafn sitt; steinbálkum beggja vegna. Líklegt er að sá er leit hellinn augum hafi nafngreint hann eftir fyrrnefndum bálkum.

Bálkahellir

Í Bálkahelli.

Gengið var í gegnum efsta hluta Bálkahellis (120 m). Klakasúla var næst innganginum. Gólfið er slétt í fyrstu, en þegar komið er að mikilli hraunsúlu tekur við hrun, sem þó er tiltölulega auðvelt yfirferðar. Efst í efsta hlutanum eru bálkar, sem hellirinn ber nafn sitt af. Þar er þrastarhreiður.
Arngrímshellir er með miklum mannvistarleifum. Við hann gerðist þjóðsagan af Grákollu. Þar segir af Arngrími á Læk um og eftir 1700 og (130 árum síðar) Krýsuvíkur-Gvendi Bjarnasyni, sem héldu fé sínu í hellinum. Gólfið er flórað að hluta, hleðslur eru við op og inni í hellinum, auk tóftar, sem gamlar sagnir eru um.
Þetta svæði er varla til í augum og hugum landans, hvað þá annarra. Um er að ræða nokkur hraun, bæði úr Eldborgum og eldvörpum ofan við Sláttudal og Brennisteinsfjöllum. Þau eru misjafnlega vel gróin og eru misgreið yfirferðar. Miðjan er þó vel greiðfær með lyngi og kjarri í brekkum.

Gvendarhellir

Í Gvendarhelli (Arngrímshelli).

Þjóðsagan segir að Arngrímur á Læk í Krýsuvík hafi haldið 99 grákollóttar ær á auk einnar grákollóttrar, sem systir hans átti, nefnd Grákolla. Þetta var um aldamótin 1700. Óveður geisaði og hraktist féð fram af Krýsuvíkurbjargi, allt nema Grákolla. Er talið að allt fé Krýsuvíkurbænda sé frá henni komið. Arngrímur lést síðan skömmu eftir aldamótin (1724) er hann var við sölvatekju undir bjarginu með öðrum. Silla féll úr bjarginu og varð hann og tveir aðrir undir henni. Mörðust þeir til bana. Einn maður bjargaðist og varð til frásagnar um atburðinn.
Um 130 árum síðar er getið um að nefndur Gvendur Bjarnason nokkur frá Krýsuvík hafi haft fé í hellinum. Hlóð hann þvervegg sem og stíur. Byggði hann og hús fyrir opið. Helst þótti til tíðinda að gler var í gluggum þess. Tóftir þess sjást enn, auk annarra nefndra minja í hellinum. Líta verður á minjar þessar sem fornleifar og varðar röskun refsingu.

Keflavík

Keflavík – rekagatan.

Þegar FERLIR gaumgæfði hellinn vel og vandlega kom í ljós ýmislegt er nefndur Gvendur virðist hafa skilið eftir sig, s.s. hangiketsleifar og brennivínstár, sem honum hafði ekki unnist tími til að ýta að gestum. Ketið virtist vel ætilegt eftir allan þennan tíma og ekki var loku fyrir það skotið að brennivínið væri jafnvel betra, en hefði það nýsoðið verið.

Þegar staðið var utan við tóftina lagði sólin geisla sína á hana svo hún yrði vel myndtæk.
Hraunið ofan við bergið er í umdæmi Grindavíkur, en skammt vestar er spilda umdæmisins, sem skv. afsalsbréfi tilheyrir Hafnarfirði. Hún sker í sundur Grindarvíkurlandið, sem nær austast að mörkum Herdísarvíkur/Selvogs/Árnessýslu (úr Seljabót í Sýslustein).
Þann 29. september 1941 afsalaði landbúnaðarráðuneytið f.h. ríkissjóðs til sýslunefndar Gullbringusýslu f.h. sýslusjóðs öllu tiltæku ræktanlegu beitilandi jarðanna Krýsuvíkur og Stóra-Nýjabæjar (Krýsuvíkurtorfunnar) í Grindavíkurhreppi í Gullbringusýslu, til sumarbeitar fyrir búfé.

Sveitarfélagsmörk

Sveitafélagsmörk.

Var þá undanskilið úr jörðunum það land, sem með afsalsbréfi ráðuneytisins dags. 20. febrúar 1941 var afsalað til Hafnarfjarðarkaupstaðar.
Krýsuvíkurland þetta er, skv. skilgreiningunni, “að vestan, beina stefnu í norður úr Hælsvík í Borgarhól, þar sem hann er hæstur, úr Borgarhóli eftri Sveifluhálsi vestustu vík Kleifarvatns, að bera í ysta odda Hvammholtstanga. Að norðan ræður Kleifarvatn, í syðsta odda víkur þeirrar, er gengur úr vatninu vestan við Geithöfða og að austan þaðan beina stefnu í réttvísandi suður til sjávar í Keflavík. Að sunnan ræður sjór..”.

Skyggnisþúfa

Skyggnisþúfa.

Af afsali þessu sést glöggt, að Gullbringusýsla öðlast beitarrétt með afsalinu, en grunnréttur til landsins er áfram í hendi ríkisins. Landspilda Krýsuvíkur er í landi Grindavíkurumdæmis, sbr. land bæði vestan og austan hennar. Alþingismaðurinn, er beitti sér fyrir málinu f.h. Hafnarfjarðar á Alþingi sem fulltrúi ríkisstjórnarinnar, var jafnframt bæjarfulltrúi í Hafnarfirði og síðar ráðherra. Slíkt myndi ekki samrýmast góðum stjórnsýsluháttum nútímans. Í ljósi þess, sem og eðlilegum sanngirnissjónarmiðum, ættu Hafnfirðingar þegar í stað, virðingu sinnar og sóma vegna, að afhenda Grindvíkingum landsumdæmi sitt á nýjan leik. Ekki síst í ljósi þess að veruleg villa er í framangreindri landamerkjalýsingu.
Deilur voru einnig um mörk Krýsuvíkurlands á 17. öld. Í byrjun aldarinnar virðist hafa koma upp vafi um mörkin. Fyrst austurmörk og svo vesturmörk. Um þetta málefni fjallar Magnús Már Lárusson um í ritgerð 1961. Þar segir m.a. að til séu 6 frumbréf Skálholtsstóls um austur landamerki Krýsuvíkur frá árunum 1603 og 1604 og Telur MML að varðveisla þeirra til þessa dags með stólsskjölum gefi til kynna, að bréf þessu geymi þau merki, sem talin hafi verið rétt.

Keflavík

Geldingasteinn ofan Keflavíkur.

Upp úr 1650 verður deila um rekarétt milli Krýsuvíkur og Ísólfsskála og eru allmargir vitnisburðir vegna merkja Krýsuvíkur að vestanverðu skjalfestir í bréfabók Þórðar biskups Þorlákssonar. Einn vitnisburðurinn segir Krísuvík eiga allt land austur á eystri hraunbrún á hrauni því, sem liggur fyrir austan Eilífðarhorn (á við Geitahlíð). Eitt segir að Krýsuvík eigi austur frá sér land allt að Skildi og þaðan sjónhending suður í sjó. Enn fremur segir, að Krísuvík eigi allt land austur yfir Háahraun, er liggur fyrir austan Geitahlíð. Annað segir að Krýsuvík eigi allt land að þeim steini, er stendur á Fjalli hjá Skildi.

Lyngskjöldur

Lyngskjöldur – loftmynd.

(Lyngskjöldur). Þrír vitnisburðir til viðbótar segja að Krýsuvík eigi allt land að steininum hjá Skildi. Þessar merkjalýsingar voru sá grundvöllur, sem stóllinn gat byggt á, ef merki Krýsuvíkur yrðu véfengd.
Árið 1786 keypti Jón Ingimundarson jörðina og leitaði hann vitnisburðar um merki hennar og meðal kirkjuskjala er frumrit vitnisburða þriggja manna um landamerki Krýsuvíkur. Þá bendir MML að lokum á að eftirtektarvert sé, að í sóknarlýsingu Jóns Vestmanns fyrir Krýsuvíkursókn sé þessi lýsing: “Vestari partur Brennisteinsfjalla allt vestur í Kleifar, norðan við Kleifarvatn, þaðan til sjávar á Selatöngum. Samkvæmt þessari lýsingu telst allstór þríhyrna ekki til Krýsuvíkursóknar.

Gvendarhellir

Gvendarhellir – Hús Krýsuvíkur-Gvendar framan við hellismunnann.

Þjóðsagan segir hins vegar að hin gömlu landamörk Krýsuvíkur og Herdísarvíkur liggja á milli dysja þeirra Krýsu og Herdísar, sem enduðu ævina með deilum um þau neðst í Kerlingardal austan við Deildarháls. Sagan segir að „Krýsuvík er austastur bær í Gullbringusýslu með sjávarsíðunni, en Herdísarvík er vestastur bær í Árnessýslu; hvort tveggja er landnámsjörð og svo að ráða sem sín konan hafi gefið hvorri nafn er þar bjuggu lengi, og hét sú Krýs er byggði Krýsuvík, en Herdís sú er setti bú í Herdísarvík.
Var nábúakritur megn á milli þeirra; því hvor öfundaði aðra af landgæðum þeim er hin þóttist ekki hafa, Krýs Herdísi af beitilandinu, en Herdís Krýs aftur af enginu. Svo hafði lengi gengið að hvor veitti annari þungar búsifjar; rak Krýs sauðfénað sinn í land Herdísar, en Herdís vildi aftur ná í engið, og beittust svo þessu á víxl með því landamerki virðast annaðhvort hafa verið óglögg eða engin í það mund.

Krýsa og Herdís

Dysjar Krýsu og Herdísar. Dys smalans er neðst á myndinni.

Þegar þær konur hittu hvora aðra fyrir þar á götunni sem hún liggur yfir hina nyrztu Eldborgina, þá kemur Herdís í flasið á henni að sunnan. Þegar þær hittust varð fátt af kveðjum, en því fleira af illyrðum á milli þeirra er hvor um sig þóttist eiga land það er þær stóðu á. Ekki er þess að vísu getið hvernig hvorri um sig hafi farizt orð, en svo lauk að hvor hézt við aðra vegna landadeildarinnar. Lagði þá Krýs það á Herdísi að allur ætur silungur skyldi hverfa úr veiðitjörn hennar, en verða aftur full af loðsilungi, sumir segja öfugugga. En Herdís lagði það aftur á Krýs að allur silungur í veiðivötnum hennar skyldi verða að hornsílum.

Bálkahellir

Í Bálkahelli.

Enn lagði Krýs það á Herdísarvík að þaðan skyldi týnast tvær eða þrjár skipshafnir. Herdís mælti aftur það um fyrir Krýsuvík að starengið þar skyldi smásökkva á hverjum 20 árum, en koma upp á jafnlöngum tíma.

Eftir þessi ummæli sprungu þær báðar þar sem þær stóðu og eru þær dysjaðar báðar til vinstri handar við götuna þegar riðið er út í Krýsuvík norðan til á Eldborginni nyrztu, og sér dysirnar þar enn; dys Krýsar er það sem nær er Krýsuvík, en Herdísar hitt sem fjær er. Dys þeirra grannkonanna eru enn kölluð Krýs og Herdís og þar með eru þau kölluð sýsluskil Gullbringusýslu og Árnessýslu, svo eru þau og talin landamerki milli Krýsuvíkur og Herdísarvíkur.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir m.a.:
-http://bokasafn.rnb.is/default.asp?cat_id=200
-Magnús Már Lárusson – ritgerð 1961.

Fjárskjólshraunshellir

Í Fjárskjólshraunshelli.