Tag Archive for: Gerðistjarnir

Dvergbleikja

Gerðistjarnirnar milli Gerðis og Þorbjarnastaða í Hraunum eru þrjár, auk tveggja baktjarna.
Tjörnin næst Gerði heitir Gerðistjörn. Stærri tjörnin sunnar hefur ýmist verið nefnd Gerðistjörnin syðri eða Þorbjarnarstaðatjörn. Þar var tjörnin Bjarnijafnan nefnd Brunntjörn, líkt og önnur minni vestan núverandi Reykjanesbrautar. Lítil tjörn vestan Gerðistjarnar nefnist Stakatjörn. Þorbjarnarstaðatjarnir, Gerðistjarnir og umhverfi eru á náttúruminjaskrá.
Tjarnir á svæðinu eru með mismikla seltu og einstæðum lífsskilyrðum. Brunntjörn er ein af fáum ferskvatnstjörnum í heiminum þar sem gætir flóðs og fjöru og þar er að finna sérstæða undirtegund bleikju. Svæðið er mikið notað til útivistar og er þar einnig að finna friðaðar fornminjar svo sem Óttarstaði en einnig mikið af öðrum söguminjum. (Sjá nánar: Náttúrufræðingurinn. 67 árg. 3-4 hefti. 1998).
Í öðrum tjörnum gætir sjávarfalla og er vatnið bæði salt og ferskt. Ferskt vatn streymir í tjarnirnar undan hrauninu að austanverðu. Í tjörnunum lifir dvergbleikja, líkt og á u.þ.b. 40 öðrum tjarnasvæðum á landinu. Bjarni K. Kristjánsson hefur rannsakað fjölbreytileika dvergbleikju hér á landi. Eitt af rannsóknarviðfangsefnunum er að komast að því hvers vegna aðskyldir dvergbleikjustofnar hafi þróast með svipuðum hætti.
Bjarni starfar við Fiskeldis og fiskalíffræðideild í Háskólanum á Hólum. FERLIR hitti Bjarna þar sem hann var að safna sýnum við Gerðistjarnirnar í Hraunum. Sagði hann vinnuna lið í undirbúningi að doktorsritgerð, sem hann væri með í undirbúningi. Dvergbleikjan væri forvitnileg fyrir margra hluta sakir. Þeir þróa t.d. vöðvafrumur m.t.t. þarfar á meðan maðurinn fæðist með alla vöðva, en þarf síðan að þróa þá. Spurningin gæti t.d. verið hvort umhverfisþættir hafi áhrif á stærð fiskjarins og hvort fiskurinn hafi hag að því að vera eins og hann er vegna umhverfisins, sem hann lifir í. Ótal öðrum spurningum væri enn ósvarað áður en rannsóknum lýkur.
Íslensk bleikja er ákaflega fjölbreytt í útliti, lífsögu og atferli. Algengt er að sjá fleiri en eitt afbrigði á sama vatnasvæði. Þessi afbrigði nýta sér mismunandi þætti í umhverfinu s.s. fæðu og skjól. Svo virðist sem að þróun þessara afbrigða sé tengd tegundamyndun, en algengt er að sjá erfðafræðilegan mun á milli þeirra. Í einu vatni, Galtabóli á Auðkúluheiði, sýna erfðafræðirannsóknir að þau tvö afbrigði sem finnast í vatninu æxlast ekki saman og eru því aðskildar tegundir.

Þorbjarnastaðatjörn / Brunntjörn

Í svipuðum vistfræðilegum aðstæðum finnast svipuð afbrigði sem hafa líka svipgerð. Sem dæmi um þetta eru sviflæg afbrigði í vötnum oft smávaxin, silfurlit og rennileg í útliti. Talið er að þessi afbrigði hafi þróast vegna samhliða þróunar (parallel evolution) vegna þess að í svipuðum vistkerfum komi fram líkir valkraftar, sem fiskistofnar svara á líkan hátt og sambærileg afbrigði þróast.
Algengt er að finna smávaxna botnlæga bleikju í ferskvatni víða um land. Þessi bleikja er oft kölluð dvergbleikja, en einnig gjáarmurta (við Þingvallavatn) eða gjáarlonta (við Mývatn). Svo virðist sem samspil hrauns og grunnvatns sé mikilvægt fyrir þróun þessa afbrigðis. Líklegt má því telja að tilurð þeirra sé afurð samhliða þróunar. En hversu samhliða er þróunin? Þegar útlit þessara afbrigða er borið nákvæmlega saman milli staða kemur í ljós að þau eru langt frá því að vera eins. Munur er á milli stofna í útliti, er gæti tengst fæðuöflun og lífssögu. Áhugavert er því að bera saman útlit og vistfræði mismunandi dvergbleikjustofna við umhverfi þeirra og kanna þannig mikilvægi mismunandi vistfræðilegra þátta á samhliða þróun. Þannig fengjust upplýsingar um eðli breytileika hjá bleikju og mikilvægi vistfræðilegra þátta í þróun hans á mun fínni skala en áður hefur þekkst.

Brunnurinn í Brunntjörn

Í því verkefni sem hér er lýst hefur dvergbleikju verið leitað víða um land þar sem saman koma grunnvatnsuppsprettur og hraun. Þar sem dvergbleikja hefur fundist hefur fjölmörgum einstaklingum verið safnað. Á tilraunastofu hafa einstaklingarnir verið ljósmyndaðir, kyngreindir, kvarnir teknar til aldursgreiningar, magi til fæðuathuganna og sýni tekið af ugga til rannsókna á stofnerfðafræði fiskanna. Á þeim stöðum þar sem dvergbleikjur hafa veiðst hafa einnig verið mældir umhverfisþættir, straumhraði, hiti, pH, leiðni, grófleiki botns og tegundasamsetning smádýra á hörðum og mjúkum botni.
Niðurstöður hingað til hafa reynst áhugaverðar, einkum fundarstaðir dvergbleikju þar sem hraun og lindir koma saman. Fyrstu niðurstöður varðandi lífssögulega þætti, útliti og fæðu þeirra benda til nokkurs breytileika í lífsögu, útliti og fæðu. Tengsl milli vistfræðilegra þátta og þróunar þess fjölbreytileika sem fundist hefur gæti varpað ljósi á ástæður vaxtarlags bleikjunnar.
Dvergbleikja er smár fiskur sem missir eiginlega aldrei seiðaeinkennin hvað varðar lit og lögun. Dvergbleikja verður kynþroska á bilinu 7-24 sm að lengd og eru hliðar Gerðistjörnhennar með gulum óreglulegum blettum. Dvergbleikjan heldur sig á efri hluta strandgrunnsbotnsins og lifir aðalega á vatnabobbum og mýi.
Bjarni hafði veitt dvergbleikjur úr Gerðistjörnunum. Sagði hann að þéttleikinn í tjörnunum væri óvenju mikill. T.d. hefði hann merkt 40 stk á einum fermetra í Gerðistjörninni. Svo virtist sem fiskarnir syntu milli tjarnanna um sprungur á hrauninu.
Síðan árið 2003 hafa rannsóknir staðið yfir á stofnum dvergbleikju á Íslandi. Meginmarkmið rannsóknanna hefur verið að tengja saman útlit og vistfræði þessara stofna. Þannig hefur verið aflað upplýsinga um útlit, fæðu og vistfræðilega þætti umhverfis fiskanna. Nú eru að fara af stað stórt rannsóknarverkefni sem hefur það að markmiði að rannsaka þá líffræðilegu þætti sem stuðla að dvergvexti hjá þessum fiskum og skoða sérstaklega í því sambandi vaxtarhormón. Í tengslum við þá rannsókn er það einnig markmiðið að skoða atferli fiska frá sömu stofnum, með sérstakri áherslu á búsvæðaval þeirra, virkni og hreyfanleika. Athugað verður hvar fiskar halda sig, og hversu virkir þeir eru við fæðunám á ólíkum tímum dags. Einnig verður fæðuatferli fiska athugað og skoðað hvar fiskar sækja fæðu (botn/vatnsmassi/yfirborð) og hversu hreyfanlegir þeir eru við fæðunám. Einnig verður fæðuval fiska athugað og reynt að tengja það við framboð þeirra smádýra sem falla á yfirborð, eru í vatnsmassa og á botni.
Gerðistjarnir munu væntanlega leggja sitt af mörkum til framangreinds rannsóknarverkefnis.
Gæsir yfir Gerðistjörn