Tag Archive for: girðingar

Gaddavír

Á Vísindavef Háskóla Íslands er fjallað um gaddavírinn:

Gaddavír

Gaddavír – girðingarstaur.

„Nákvæmlega hvenær fyrsti girðingarvírinn kom er sennilega erfitt að segja. Fjöldaframleiðsla girðingarvírs hófst í Ameríku á seinni hluta 19. aldar. Gaddavír er fyrst fluttur hingað til lands 1895-1900, en ekki er hægt að sjá nákvæmlega árið af verslunarskýrslum. Árið 1901 urðu gaddavírsgirðingar styrkhæfar úr sjóðum búnaðarfélaga eftir talsverðar umræður á þingi.
Skipulögð notkun gaddavírsins í landbúnaði hófst þannig á fyrsta áratug 20. aldar, sennilega í upphafi vegna áhrifa frá Íslendingum sem flust höfðu til Vesturheims.
Girðingar með gaddavír er fyrst getið í landbúnaðartölum árið 1901. Síðan jukust vírgirðingar stórum með hverju árinu sem leið eftir það og árið 1906 nýttu bændur meir gaddavír en grjót og torf til girðinga í fyrsta skipti. Jókst sá munur síðan ár frá ári og voru yfirburðir gaddavírsins orðnir miklir miðað við grjótveggina árið 1911. Segja má að í sveitum landsins hafi almenn „gaddavírsvæðing“ átt sér stað á árunum 1906-1923.

Gaddavír

Gaddavírsgirðing um gamla bæ.

Árið 1903 samþykkti Alþingi „gaddavírslögin“ svonefndu. Samkvæmt þeim átti ríkið að kosta gerð gaddavírs í nokkrum mæli á árunum 1905-1908. Ný lög komu um styrki til gaddavírskaupa 1911 og 1913 og má af því sjá að vinsældir gaddavírsins jukust ár frá ári meðal bænda.
Ekki voru „gaddavíralögin“ samt óumdeild í upphafi. Rætt var mikið um skaðsemi gaddavírsins fyrir skepnurnar og margir óttuðust kostnaðinn vegna hans. En bændum snerist fljótt hugur í máli þessu og varð sú raunin að fleiri vildu girða með vírnum en nam upphaflegum styrkjum til verksins og því voru nýju lögin um styrk til gaddavírskaupa samþykkt.“

Joseph Farwell Glidden

Joseph Farwell Glidden (1813–1906).

Í Sagnir árið 1989 fjallar Hulda Sigurborg Sigtryggsdóttir um „Gaddavírsgirðingar„:
„Árið 1873 fann Illinois-bóndinn Joseph Farwell Glidden upp gaddavírinn og lagði þar með grunninn að nýjum blómlegum iðnaði, gaddavírsiðnaðinum. Líklega hefur hann ekki grunað hversu miklum deilum uppfinning hans átti eftir að valda, bæði í Ameríku og Evrópu. Í Ameríku vildu margir nautgripabændur að hjarðir þeirra fengju að reika um óhindrað en aðrir vildu girða landareignir sínar og olli þetta margvíslegum árekstrum milli þessara aðila. Að lokum unnu gaddavírsgirðingar fullan sigur.“
En gaddavír er til fleiri hluta nytsamlegur en búfjárvarna. Tæpum þrjátíu árum eftir uppgötvun Glidden, fundu Bretar upp á því snjallræði í Búastríðinu, 1899-1902, að girða Búana inni með því að nota færanlegar girðingar og þrengja meira og meira að þeim og aftur fór gaddavírinn með sigur af hólmi.

Girðingar um aldamót

Joseph Farwell Glidden

Einkaleyfi Gliddens á gaddavírnum.

Á árunum 1895-1900 byrjuðu Íslendingar að flytja inn gaddavír til reynslu frá Danmörku, en fyrsta gaddavírsverksmiðjan þar var reist 1895. Vírsins er þó ekki getið í hagskýrslum fyrr en 1901, en þá höfðu verið girtir 552 metrar með honum.
Aðrar girðingar hérlendis voru nær eingöngu gerðar úr innlendu efni, torfi og grjóti. Margir bændur hirtu lítið um að verja túnin, nema helst á vorin eftir að þau fóru að spretta og þangað til búið var að heyja. Þá létu þeir börn eða hjú vaka yfir túnum og verja þau fyrir skepnuágangi, dag og nótt. Þessi aðferð var mjög óhentug, því ekki fór hjá því að einhver troðningur ætti sér stað á túninu, auk þess sem túngæslu varð aðeins við komið þegar bjart var á næturnar. Því var eina örugga túnvörnin girðing, og með henni mátti spara starfskraft. Líklega hefur mönnum almennt ekki verið ljóst hversu mikla þýðingu það hafði að verja túnin fyrir skepnuágangi allan ársins hring.
En gaddavírinn hafði ekki haft langa viðdvöl hér á landi, er mikið fjaðrafok varð vegna tilveru hans.

Gaddavír

Gaddavír.

Deilurnar fóru fram á tvennum vígstöðvum; í þingsölum og meðal almennings í blöðum og tímaritum.
Bændablöðin, Freyr, Búnaðarritið, Þjóðólfur og Ársrit Rœktunarsambands Norðurlands birtu greinar sem voru heldur hliðhollar gaddavírsgirðingum, þó vissulega megi finna hið gagnstæða. Blöðin Ísafold, Ingólfur og Austri, sem ekki voru eins hliðholl bændum, birtu hins vegar greinar andstæðinganna. Mikill fjöldi tímaritsgreina sýnir best þann áhuga sem landsmenn sýndu málinu. Og í Alþingistíðindum má sjá að þingmenn skiptast ekki síður en almenningur í tvo hópa.

Deilt um gaddavír

Gaddavír

Gaddavírsgirðing í Garðinum.

Árið 1901 flutti Búnaðarmálanefnd Alþingis þingsályktunartillögu um skilyrði og reglur fyrir styrkveitingar úr landssjóði til Búnaðarfélaga. Þar er ekkert minnst á gaddavírsgirðingar en Ólafur Briem þingmaður Skagfirðinga, flutti breytingartillögu þess efnis að gaddavírsgirðingar yrðu styrkhæfar og féllst Búnaðarmálanefndin á það. Um tillögu Ólafs spunnust miklar umræður um almennt ástand landbúnaðarins, gildi túnvarna og gaddavírsgirðinga. Sérstaklega voru það gaddarnir á vírnum sem menn voru ekki á eitt sáttir um.

Tryggvi Gunnarsson

Tryggvi Gunnarsson (1835-1917).

Tryggvi Gunnarsson þingmaður Reykjavíkur, sagði að reynsla væri komin á það í Reykjavík að girðingar væru skaðlegar: …margar skepnur hafa skaðað sig á þeim, og til bæjarfógetans hefir komið áskorun um, að fyrirbjóða þess konar girðingar hér í bænum …
Andstæðingar gaddavírsins lýstu, með sterkum lýsingarorðum, hvernig hann myndi holrífa búpening landsmanna á hinn hryllilegasta hátt. Enn fremur væri hér um lélegt girðingarefni að ræða, hann veitti ekkert skjól, þyldi ekki að liggja undir fönn og því gæti reynst nauðsynlegt að taka hann upp á haustin. Að öllu þessu samanlögðu væri heppilegra að halda áfram að girða með grjóti eins og verið hefði.
Formælendur gaddavírsins töldu hins vegar að eftir að skepnur hvekktust á honum, hættu þær að leita á hann, gaddavírsgirðingar væru ódýrar, fullkomin vörn og fullgirða mætti stór svæði á skömmum tíma með lítilli vinnu. Þær væru forsenda túnræktar og þar með frekari framfara í landbúnaði og síðast en ekki síst spari þær vinnukraft, sem sé dýr og illfáanlegur.

Guðjón Guðlaugsson

Guðjón Guðlaugsson (1857-1939).

Lyktirnar urðu þær að gaddavírsgirðingar voru taldar styrkhæfar úr sjóðum búnaðarfélaga.
Deilurnar héldu samt áfram á svipuðum nótum til 1903 en þá fluttu þrír þingmenn í efri deild, Guðjón Guðlaugsson þingmaður Strandasýslu, Guttormur Vigfússon þingmaður Suður-Múlasýslu og Jón Jakobsson þingmaður Húnavatnssýslu, frumvarp til laga um túngirðingar, og við það fengu umræðurnar byr undir báða vængi. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að landssjóður fái heimild fyrir allt að 500.000 króna láni til að kaupa túngirðingarefni og síðan láni hann % af verði girðingarefnis á jörðum einstakra manna og stofnana en greiði allan kostnað á landssjóðs- og kirkjujörðum. Markmiðið með frumvarpinu var að girða tún allra jarðeigenda og ábúenda, sem það vildu, á árunum 1906-1908. Tímatakmörkin voru hugsuð sem trygging á þann hátt að landssjóður tæki efnið af þeim sem ekki upptylltu þetta skilyrði. Endurgreiðslu skyldi þannig háttað að árlega í 30 ár ættu ábúendur jarðanna að greiða fjórar krónur af hundraði, frá þeim tíma er efnið kæmi í heimahöfn.

Ari Brynjólfsson

Ari Brynjólfsson (1849-1925).

Frumvarpið mætti harðri andstöðu í þinginu og utan þings enda tók það allmiklum breytingum áður en það varð að lögum. Í lögunum var upphæðin sem heimilt var að veita úr landssjóði orðin 100.000 krónur á ári á tímabilinu 1905-1909, að báðum árum meðtöldum en hlutfall þess sem landssjóður lánaði af verði girðingarefnis aukist í % hluta. Það sem upp á vantaði greiddi lántakandinn um leið og hann pantaði efnið. Endurgreiðslukjörin höfðu hins vegar versnað; greidd skyldu „árlega 5 krónur af hundraði hverju í 4% vexti og afborgun.“ Viðbrögð við vöxtunum létu ekki á sér standa. Ari Brynjólfsson þingmaður S-Múlasýslu, taldi að með gaddavírslögunum væri verið að „læða skatti á alla fasteign í landinu, eða hvað er afborgun og vextir annað en útgjöld?“
Sérstaklega voru margir þingmenn á móti því að landssjóður lánaði til þessara framkvæmda.

Júlíus Havsteen

Júlíus Havsteen (1839-1915).

Júlíus Havsteen þingmaður Reykjavíkur, sagði að menn ættu að sjá sjálfir um að girða eigur sínar, en ekki landssjóður. Lánið væri illa tryggt og yrði líklega eitt af þeim lánum sem aldrei væru greidd. Í sama streng tók Kristján Jónsson þingmaður Reykjavíkur. Með frumvarpinu sé ætlast til að landssjóður eða landsstjórnin fari að búa í landinu og með því sé stoðunum kippt undan einstaklingsframtakinu.
En landssjóður var ekki eini sjóðurinn sem átti að veita fjármunum í þessar framkvæmdir, því í lögunum er gert ráð fyrir að sýslusjóðir greiði uppskipun og geymslu efnis og einnig þann kostnað sem hljótist af því að skoða og mæla girðingarstæði á öllum jörðum sýslunnar, en í lögunum er sýslunefndunum falið að sjá um þá framkvæmd.
Sýslunefndir skyldu einnig fá sérstaka skoðunarmenn til að skoða girðingarstæði og ákveða hversu mikið hver bær skyldi greiða ef girt væri utan um tún margra bæja eða á milli bæja og einnig hvort meira en túnið var girt.
GaddavírHins vegar náðu lögin ekki yfir þær girðingar sem skiptu túni ef ábúendur voru fleiri en einn. Hreppstjórar áttu að hafa eftirlit með viðhaldi girðinganna. Bændum var að vonum illa við þessi auknu útgjöld úr sýslusjóðum, töldu þau leiða til hærri útsvara, sem væru nógu þungbær fyrir. Ennfremur vakti það gremju að sýslunefndin léti „einhverja útvalda gæðinga sína skoða og mæla öll garðstæði um öll tún í sýslu hverri.“
Reyndar er athyglisvert hversu mikla ábyrgð og völd sýslunefndir á hverjum stað eru látnar bera á framkvæmd laganna.

Gaddavír

Bæjarsker í Garði fyrrum.

Ýmislegt fleira þótti athugavert við lögin. Til dæmis þótti lánstíminn of langur. Eðlilegra væri að miða við þann tíma sem girðingarnar muni endast, 15-18 ár, og þá losni menn við að greiða af láninu löngu eftir að girðingarnar séu ónýtar. Mönnum var heldur ekki ljóst hvað gerðist þegar girðingarnar væru ónýtar. Á landssjóður þá að leggja út nýja upphæð fyrir girðingum? var spurning sem heyrðist.

Úr vörn í sókn

GaddavírSkoðanir Guðjóns Guðmundssonar virðast vera nokkuð dæmigerðar fyrir álit margra á gaddavírslögunum. Með þeim sé verið að bjóða ónytjungum og ráðleysingjum takmarkalítið og mjög illa tryggt lán, til þess að girða tún sitt með útlendu og lítt þekktu girðingaefni, og jafnframt séð um að enginn eyrir af þessu mikla fé… lendi hjá innlendum mönnum, heldur alt í vasa útlendra verksmiðjueigenda og auðmanna. Atorkumaðurinn aftur á móti, sem vill girða tún sitt með grjóti eða öðru góðu innlendu efni, fær enga hjálp til þess, enda þótt nóg og gott grjót sé alveg við hendina.
Fleirum þótti nóg um eyðsluna og sveið að sjá á eftir svo miklum peningum út úr landinu; nær hefði verið að veita lánum til allra girðingartegunda, því girðingaraðstæður séu mismunandi.“ Innflutningur á girðingarefni var í andstöðu við sjálfsþurftarhugsunarháttinn, sem taldi grjót og torf efni sem fólk ætti að nota, þar sem það kostaði ekkert.

Kristján Jónsson

Kristján Jónsson (1852-1926).

Þegar þau sjónarmið, sem fram hafa komið, eru skoðuð þarf ekki að koma á óvart þótt frumvarpið hafi breyst í meðförum Alþingis. En forvitnilegt er að athuga hvaða þingmenn voru meðmæltir girðingariögunum og hverjir ekki. Afstaðan kom glöggt fram í viðhorfum þeirra til landbúnaðar og sjávarútvegs. Formælendur gaddavírsins sögðu að sjávarútvegurinn tæki fólk frá landbúnaðinum í góðærum en skilaði því svo á sveitina þegar svikull sjávarafli brygðist. Nú verði landbúnaðurinn að snúa vörn í sókn og girðingarframkvæmdirnar voru hluti af þeirri sókn. Þessir þingmenn voru á sömu skoðun og Guðjón Guðlaugsson: … menning þjóðarinnar og hagsæld byggist á engu fremur, en á nýtilegum landbúnaði; eyðileggist hann, þá mun skammt að bíða eyðileggingar landsins sjálfs; verði land vort einungis fiskiver, þá gef eg ekki mikið fyrir framtíð þess… .
GaddavirEkki þarf að koma á óvart að þeir þingmenn sem mæltu á þessa leið voru flestir kjördæmakjörnir fyrir landbúnaðarhéruð og jafnframt bændur. Þegar það er haft í huga er ekki að undra þótt þeim væri mikið í mun að rétta landbúnaðinum hjálparhönd.
Þeim þingmönnum sem voru á móti gaddavírslögunum fannst óréttlátt að veita svo miklum fjármunum til einnar atvinnugreinar. Kristján Jónsson sagði að landbúnaðurinn væri ekki lengur þýðingarmestur heldur hefði sjávarútvegur og iðnaður bæst í hópinn. Þessir þingmenn voru flestir annaðhvort konungkjörnir, stunduðu embættisstörf og bjuggu í Reykjavík eða þjóðkjörnir fyrir staði þar sem sjávarútvegur skipti meira máli en landbúnaður. Því er eðlilegt að þeir hafi ekki viljað veita peningum í atvinnugrein sem þeir töldu sig hafa lítilla hagsmuna af að gæta.

Framkvæmd laganna
GaddavírEftir 1904 þagna þær raddir sem töldu gaddavírinn hættulegan, enda var komin nokkur reynsla á hann og flestir sammála um nytsemi hans. Ekki var lengur minnst á að heppilegra væri að girða með torfi og grjóti og verður ekki annað séð en almennt hafi verið viðurkennt að gaddavír væri framtíðargirðingarefni. Deilur almennings í blöðum og tímaritum hljóðna með öllu og þingmenn deila nú eingöngu um framkvæmd laganna og þann kostnað sem þeim sé samfara.
GaddavírEn þegar farið var að framfylgja lögunum frá 1903 kom í ljós að þau hafa ekki verið nægilega vel kynnt, að minnsta kosti var mönnum sem sóttu um lán hafnað, bæði af því að fyrirframgreiðslu vantaði hjá sumum, en hjá flestum voru skýrslur skoðunarmanna það ófullkomnar að ekki var hægt að koma upp fullnægjandi girðingum úr því efnismagni sem þeir tiltóku á skýrslunum. Þessi misbrestur bendir til að ýmsir skoðunarmenn hafi ekki verið vandanum vaxnir. Afleiðingin varð sú að færri fengu girðingarlán á þeim kjörum sem lögin gerðu ráð fyrir eða 51 á öllu landinu sem skiptist þannig: 11 í Suðuramti, 27 í Vesturamti, 11 í Norðuramti og 2 í Austuramti og 1905 höfðu aðeins verið lánaðar 7200 krónur af hinni upphaflegu upphæð. Ef til vill hefur eitthvað dregið út áhuga bænda að þurfa að greiða hluta efnisins fyrirfram.

Ólafur Briem

Ólafur Briem (1851-1925).

Sú staðreynd að færri höfðu orðið til að notfæra sér lánakjör landssjóðs lá fyrir þinginu 1905 og var vitaskuld vatn á myllu andstæðinganna og hefur vafalaust átt sinn þátt í því að þar var ákveðið að fresta framkvæmd laganna um tvö ár og aftur 1907 um eitt ár í viðbót, þrátt fyrir að nefnd, sem skipuð var að undirlagi Guðjóns Guðmundssonar, legði til að lögin frá 1903 yrðu framlengd um eitt ár, til 1909. Það var þó bót í máli að á þessum þremur árum sem lögunum frá 1903 var frestað, hélt landsstjórnin áfram að panta girðingarefni fyrir sýslu-, sveitar- og búnaðarfélög og samvinnukaupfélög. Bændur gátu girt án þess að taka til þess lán og það virðast bændur í Norður- og Suðuramti hafa gert ef borin eru saman lánveitingar til þeirra og stöplaritin. Ef til vill hefur áhugi bænda á þessum svæðum verið meiri því þar er þéttbýlla en í Vestur- og Austuramti og meiri ágangur af völdum búfjár. Því er óhætt að segja að þótt minna yrði úr lánveitingum úr landssjóði en ráð hafði verið fyrir gert, hafði mikið áunnist í sambandi við innflutning vírsins.

Gaddavír

Gaddavír.

Þessa viðhorfsbreytingu til gaddavírsins má sjá í þingumræðum 1909, því ekki verður séð að ágreiningur hafi verið um að setja bæri ný gaddavírslög í stað laganna frá 1903, sem runnu út í árslok 1908, eða að ágreiningur hafi verið um að girðingarframkvæmdir skyldu styrktar með opinberu fé. Í nýju lögunum er ekki tilgreind hvaða upphæð verði veitt úr landssjóði til girðingarframkvæmda heldur eiga menn að gera áætlun yfir kostnað og sækja um lán. Fleiri breytingar er að finna, enda var nú komin nokkur reynsla á lögin frá 1903. Til dæmis er eftirlit með viðhaldi girðinga ekki lengur í höndum hreppstjóra heldur eigenda og þeir ákveða nú hvar girðingin eigi að standa og hversu löng hún verði, í stað skoðunarmanna á vegum sýslunefnda áður. Ef til vill hefur ekki þótt lengur þörf á jafn mikilli stýringu og fyrst, þar sem gaddavírinn hafði unnið sér fastan sess.
GaddavírÞað nýmæli er hins vegar tekið upp að sýslunefndir og sveitarstjórnir geti gert bindandi samþykktir um girðingar og miðist það einkum við samgirðingar, en það voru þær girðingar sem skiptu túnum ef ábúendur voru fleiri en einn en ekki var minnst á hvernig kostnaðurinn ætti að skiptast. Þessu var breytt 1913 á þann veg að kostnaðurinn vegna samgirðinga skiptist milli landeigenda eftir notagildi hvers um sig, að mati sýslunefnda, en þó gat sá sem girti aldrei átt rétt á frekari endurgreiðslu en sem svaraði helmingi girðingarkostnaðarins. Ákvæði um samgirðingar var víkkað út og náði nú til girðinga á landamerkjum og nú var hægt að skylda nágrannann til að girða á móti.
GaddavírLíklega hefur ekki verið vanþörf á því vegna þess að eitthvað var um að nágrannar neituðu að taka þátt í girðingarkostnaði. Frumvarpið 1913 varð að lögum án mikilla umræðna, en þingmenn voru nú almennt sammála um að gaddavírsgirðingar væru hið mesta þarfaþing, sem sýnir að gaddavírinn var viðurkenndur sem framtíðargirðingarefni. Þessi lög voru lengi í gildi eða allt til ársins 1952.

Að lokum

Gaddavír

Gaddavírsgirðing.

Athyglisvert er hversu skammt hræðslan við gaddavírinn entist. Eftir 1904 minnist enginn á skaðsemi hans, enda hætta blaða- og tímaritsgreinar að birtast um málið, sem bendir til að menn hafi almennt viðurkennt að gaddavírinn væri framtíðargirðingarefni. Á Alþingi er heldur ekki framar deilt um skaðsemi vírsins heldur um framkvæmd laganna og hverjir eigi að greiða þann kostnað sem lögunum fylgi. Í þeim umræðum halda menn áfram að skiptast í tvö horn eftir hagsmunum.
Á Alþingi 1909 og 1913 eru fáir þingmenn á móti lánveitingum til túngirðinga og er því óhætt að segja að gaddavírinn, hér sem annarsstaðar, hafi unnið fullan sigur.“

Heimildir:
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=1030
-Sagnir, 1. tbl. 01.04.1989, Hulda Sigurborg Sigtryggsdóttir – Gaddavírsgirðingar, bls. 84-89.

Gaddavír

Girðingarvinna.