Tag Archive for: Gíslaborg

Staðarborg

Gengið var frá Prestvörðunni ofan við Kálfatjörn, yfir Almenningsveginn og áfram til austurs með stefnu austur fyrir Staðarborg. Þar er Staðarstekkur í klofnum hraunhól. Hlaðið hefur verið í miðja rásina og hleðslur eru einnig við austurenda hans.

Staðarborg

Staðarborg.

Það er stutt yfir í borgina. Hún hefur verið endurhlaðinn að hluta. Dyrasteinn, sem verið hefur fyrir ofan opið, liggur nú við innvegg borgarinnar gegnt dyrum. Sagt er að hann hafi þurft að fjarlægja eftir að kálfur komst inn í borgina, en ekki út aftur fyrr en steinninn hafði verið fjarlægður. Næst var stefnan tekin á Þórustaðaborg. Hún er á milli hraunhóla í um 15 mínútna fjarlægð til vestnorðvesturs. Borgin er mikið gróin, en þó sjást vel hleðslur í miðju hennar. Greinilegt er að borginni hefur á einhverju skeiði verið að hluta til breytt í stekk. Vatnshólar sjást vel í vestri. Vestan í þeim, í um 15 mínútna fjarlægð, eru miklar hleðslur. Þarna var Auðnaborg, en henni hefur síðar verið breytt í rétt utan í hólnum. Á hólnum sjálfum, sem er allgróin, eru tvær tóttir.

Auðnaborg

Auðnaborg.

Áfram er gengið í vestur. Framundan sést vel gróinn hóll í um 10 mínútna fjarlægð. Á honum er Borg, greinilega gömul fjárborg. Rétt norðvestan við hana á hólnum er gróin stekkur, Litlistekkur. Í nokkurra mínútna fjarlægð frá honum til vesturs er gamall stekkur á hól. Það mun vera Rauðstekkur. Í um 10 mínútna fjarlægð til vesturs, þó aðeins til hægri, er komið að brekkum. Fara þarf áður yfir girðingu.

Fornistekkur

Fornistekkur.

Framundan er vel gróið sléttlendi. Suðaustan í brekkunum er Fornistekkur.
Þá er haldið til suðurs. Þar ofan við Arnarbæli er Kúadalur. Syðst í honum, undir holti, er fallega hlaðinn stekkur. Frá honum var haldið spölkorn til baka til austurs, sunnan Arnarbælis.

Lynghólsborg

Lynghólsborg.

Á hægri hönd, uppi í heiðinni, er þá áberandi hóll, vel gróinn. Það er Lynghóll. Þegar komið var að greinilega fornum, lítt áberandi stekk á holti, hér nefndur “Arnarbælisstekkur”, var stefnan tekin á hólinn.

Hringurinn

Hringurinn – fjárborg.

Þar, norðan við Lynghól, er enn ein fjárborgin. Hún er greinilega gömul, enda gróin, en hleðslur sjást enn vel í henni miðri svo og leiðigarður suður úr henni.
Ofan Lynghólsborgar er fjárborgin Hringurinn, augljós.

Frá Lynghólsborginni er stefnan tekin til suðvesturs, upp í holtin. Fara þarf yfir girðingu á leiðinni. Þegar komið er upp á hraunhólana sést Hringurinn, á milli hóla. Borgin stendur í lægð, en sést þó vel. Hún hefur greinilega verið voldug á sínum tíma, en er nú að mestu fallin inn. Þó má enn sjá heillega hluta í henni.

Gíslaborg

Gíslaborg.

Stefnan er tekin til vesturs, í áttina að stóru verksmiðjuhúsi austan Voga. Gíslaborgin er þar á hól og ber í gaflinn á húsinu. Áður en gengið er upp á hólinn má sjá sérkennilega hlaðinn, nokkuð stóran, ferning neðan hans. Óvíst er hvað þetta gæti hafa átt að verða því mannvirkið er hlaðið á torfið, ótrausta undirstöðu.

Gvendarstekkur

Gvendarstekkur.

Eftir að hafa skoðað Gíslaborgina var stefnan loks tekin á Gvendarstekk, undir hraunhól skammt vestan Vogavegar. Þetta er gömul fjárborg.
Á leiðinni til baka var Vatnsleysustrandarvegurinn genginn að Gamlavegi og síðan eftir honum aftur yfir á Vatnsleysustrandarveg. Gamlivegur er svo til beinn upphlaðinn malarvegur, en hann hefur líklega þótt of beinn og of fjarri strandbæjunum og því verið aflagður þegar nýr hlykkjóttur vegur var lagður nær ströndinni. Við veginn voru nokkur lóu- og spóahreiður, sem gaman var að skoða.
Gangan tók um tvær og hálfa klst. í frábæru veðri.

Staðarborg

Staðarborg.

Gíslaborg

Gengið var að Gíslaborg í Vogaheiði, Hringnum, Lyngólsborg og Auðnaborg í Strandarheiði.

Auðnaborg

Auðnaborg.

Gíslaborg er rústir gamallar fjárborgar á grónum hól. Norðaustan hans eru Gíslholtslágar. Í þeim er ferhyrnd hleðsla, nokkur stór. Ekki liggur í augum uppi hvaða tilgangi þetta mannvirki gegndi, en einn heimamanna, sem var með í för sagðist hafa heyrt að þarna hafi í heiðni verið blótstaður og gæti þetta því verið altari frá þeim tíma. Hann gat þess sérstaklega að þetta væri einungis ágiskun hlutaðeigandi.

Hringurinn

Hringurinn.

Norðaustar er Brunnastaðalangholt. Suðaustan undir því, í svokölluðum Langholtsdal, er falleg hálfhrunin fjárborg, sem heitir Hringurinn eða Langholtsbyrgið. Þótt borgin standi í nokkurri lægð rís hún þó hæst á smáhæð í lægðinni. Best er að nálgast hana úr suðri.
Skammt ofan við Hringinn er klapparhryggur, sem heitir Smalaskáli. Á eystri enda hans er Smalaskálavarða.
Norðaustan hringsins er Hlöðuneslangholt og Lynghóll norðaustan þess. Á sléttlendi neðan hólsins eru rústir gamallar fjárborgar, sem nú er orðin allgróin. Erfitt er að koma auga á borgina svo vel hafa þær samlagast umhverfi sínu. Norðvestan við Lyngholt er Arnarbæli og Kúadalur skammt suðvestar.
Austar eru Geldingahólar með Vatnshólinn í miðið. Gengið var vestan við Nyrðri-Geldingahólinn að löngu grónu holti, nefnt Borg.

Hringurinn

Hringurinn.

Ofarlega í holtinu eru rústir af beitarhúsum, tvær tóftir hlið við hlið og ein þvert á þær. Aðeins neðar í holtinu er greinilega nýrri fjárhústóft. Rétt ofan og austan við efri rústirnar er lítið vatnsstæði í klöpp, vel falið í viki norðan undir lágum hólnum.
Auðnaborgin er skammt norðaustar í grasmóa sunnan í grónum hól. Hún er nú nokkuð heilleg fjárrétt með stórum almenningi og tveimur dilkum, en uppi á hólnum við réttina eru rústir af a.m.k. tveimur kofum. Lítill stekkur er rétt neðan og vestan við borgina, en engar heimildir eru til um nafn hans.
Gengið var norður um Fögrulág með Skálholt á vinstri hönd og niður á Þórustaðastíg þar sem hann liggur upp í heiðina ofan Strandarvegar.
Auk fyrrnefndra fjárborga eru fleiri slíkar í heiðunum milli Reykjanesbrautar og Strandavegar. Nokkru austan við Auðnaborg er t.a.m. Þórustaðaborgin og austan hennar Staðarborgin. Skammt vestan Vogavegar er einnig Gvendarborg. Þær eru því a.m.k. sjö talsins. Ekki tekur nema u.þ.b. tvær klukkustundir að ganga svæðið frá Gvendarborg í vestri að Staðarborg í austri.

Heimildir:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – Sesselja G. Guðmundsdóttir – 1995.

Þórustaðaborg

Þórustaðaborg.

Magnúsarsæti

Gengið var um Vogastapa. Enn má sjá móta fyrir gamla Suðurnesjaveginum (um Reiðskarð) upp Stapann og liðast (Stapagatan) síðan áfram áleiðis upp að Grímshól. Grímshóll kemur við sögu þjóðsögunnar af vermanninum norðlenska.

Grímshóll

Á Grímshól.

Þess er getið um norðanmenn að þá er þeir fóru suður í verið gerði byl á þá nálægt Grímshóli á Stapanum. Einn þeirra var heldur hjárænulegur og dróst hann aftur úr hjá hólnum og hvarf félögum sínum. En er hann var einn orðinn kom maður að honum og bað hann róa hjá sér. Norðlingurinn varð feginn boðinu og fór með hinum ókunna manni og réri hjá honum um vertíðina. En um lokin þegar Norðlendingar fóru heim fundu þeir hann í sama stað á leið sinni og þeir skildu áður við hann. Var hann þar þá með færur sínar og hafði ekki leyst þær upp því ekki hafði hann lagt sér neitt til um vertíðna.

Stapinn

Stapinn – uppdráttur ÓSÁ.

Landar hans gerðu nú heldur en ekki gys að honum að hann skyldi hafa setið þarna alla vertíðina og spurðu hvar hann hefði verið. Hann sagðist hafa róið eins og þeir og ef til vill ei hafa aflað minna. Tekur hann þá upp hjá sér sjóvettling einn fullan af peningum og segir að þarna sé hluturinn sinn. Blæddi þeim þá mjög í augum er þeir sjá það og sýndist aflinn ei alllítill. Fóru þeir síðan allir saman norður. Maðurinn réri suður margar vertíðir eftir þetta, og fór æ á sömu leið og fyrsta skipti. En aldrei sagði hann neitt greinilega hvar hann var og vissu menn það eitt um hann er allir sáu, að hann réri einhverstaðar þar sem hann aflaði vel.
Skoðaðar voru minjar eftir bæinn Brekku og heillegar sjóbúðir undir Stapanum; Hólmabúðir, Stapabúð og Kerlingarbúð, auk þess sem gengið var út í Hólmann og minjar þar skoðaðar. Gamall innrásarprammi marrar í fjöruborðinu. Sagan segir að honum hafi verið ætlað mikilvægt hlutverk, verið siglt þarna upp í fjöruna og síðan ekki söguna meir. Þarna hefur hann verið sem nátttröll gefinna vona.

Stapinn

Leifar Kerlingarbúða.

Kerlingarbúðir eru elstu sýnilegar minjar um búsetu manna á Ströndinni, að sagt er. Bæði við Brekku og Stapabúð eru hlaðnir brunnar. Ofar í hlíðinni eru hleðslur eftir menn. Nú er fuglinn í bjarginu næsta einráður á svæðinu, en selurinn vakir þó skammt utan við ströndina. Hann stingur ávallt upp hausnum þegar rautt vekur forvitni hans.
Í leiðinni, vegna þess hve veðrið var gott, var ákveðið að líta á Gíslaborg ofan Voga. Gengið var að stekknum í Kúadal og fjárborginni Hringnum innan við Knarrarnesholt. Þá var skoðaður rúnasteinninn við Knarrarnes (1700), ártalssteininn við Kálfatjörn (1706), legsteinninn á Flekkuleiði (?) og litið á áletranir (1888) yfir Magnúsarsæti í Hrafnagjá á Stóru-Vatnsleysu. Áletrunin er til minningar um nefndan Magnús, sem fann sér stað þarna við gjána til að friðþægjast við sjálfan sig. Sagt er þó að einhverju sinni hafi barn komið þar óvart undir. En það er nú önnur saga. Sem sagt: Margt og mikið merkilegt á skömmum tíma.
Frábært veður.

Stapinn

Stapinn – flugmynd.