Gengið var frá Prestvörðunni ofan við Kálfatjörn, yfir Almenningsveginn og áfram til austurs með stefnu austur fyrir Staðarborg. Þar er Staðarstekkur í klofnum hraunhól. Hlaðið hefur verið í miðja rásina og hleðslur eru einnig við austurenda hans.
Það er stutt yfir í borgina. Hún hefur verið endurhlaðinn að hluta. Dyrasteinn, sem verið hefur fyrir ofan opið, liggur nú við innvegg borgarinnar gegnt dyrum. Sagt er að hann hafi þurft að fjarlægja eftir að kálfur komst inn í borgina, en ekki út aftur fyrr en steinninn hafði verið fjarlægður. Næst var stefnan tekin á Þórustaðaborg. Hún er á milli hraunhóla í um 15 mínútna fjarlægð til vestnorðvesturs. Borgin er mikið gróin, en þó sjást vel hleðslur í miðju hennar. Greinilegt er að borginni hefur á einhverju skeiði verið að hluta til breytt í stekk. Vatnshólar sjást vel í vestri. Vestan í þeim, í um 15 mínútna fjarlægð, eru miklar hleðslur. Þarna var Auðnaborg, en henni hefur síðar verið breytt í rétt utan í hólnum. Á hólnum sjálfum, sem er allgróin, eru tvær tóttir.
Áfram er gengið í vestur. Framundan sést vel gróinn hóll í um 10 mínútna fjarlægð. Á honum er Borg, greinilega gömul fjárborg. Rétt norðvestan við hana á hólnum er gróin stekkur, Litlistekkur. Í nokkurra mínútna fjarlægð frá honum til vesturs er gamall stekkur á hól. Það mun vera Rauðstekkur. Í um 10 mínútna fjarlægð til vesturs, þó aðeins til hægri, er komið að brekkum. Fara þarf áður yfir girðingu.
Framundan er vel gróið sléttlendi. Suðaustan í brekkunum er Fornistekkur.
Þá er haldið til suðurs. Þar ofan við Arnarbæli er Kúadalur. Syðst í honum, undir holti, er fallega hlaðinn stekkur. Frá honum var haldið spölkorn til baka til austurs, sunnan Arnarbælis.
Á hægri hönd, uppi í heiðinni, er þá áberandi hóll, vel gróinn. Það er Lynghóll. Þegar komið var að greinilega fornum, lítt áberandi stekk á holti, hér nefndur “Arnarbælisstekkur”, var stefnan tekin á hólinn.
Þar, norðan við Lynghól, er enn ein fjárborgin. Hún er greinilega gömul, enda gróin, en hleðslur sjást enn vel í henni miðri svo og leiðigarður suður úr henni.
Ofan Lynghólsborgar er fjárborgin Hringurinn, augljós.
Frá Lynghólsborginni er stefnan tekin til suðvesturs, upp í holtin. Fara þarf yfir girðingu á leiðinni. Þegar komið er upp á hraunhólana sést Hringurinn, á milli hóla. Borgin stendur í lægð, en sést þó vel. Hún hefur greinilega verið voldug á sínum tíma, en er nú að mestu fallin inn. Þó má enn sjá heillega hluta í henni.
Stefnan er tekin til vesturs, í áttina að stóru verksmiðjuhúsi austan Voga. Gíslaborgin er þar á hól og ber í gaflinn á húsinu. Áður en gengið er upp á hólinn má sjá sérkennilega hlaðinn, nokkuð stóran, ferning neðan hans. Óvíst er hvað þetta gæti hafa átt að verða því mannvirkið er hlaðið á torfið, ótrausta undirstöðu.
Eftir að hafa skoðað Gíslaborgina var stefnan loks tekin á Gvendarstekk, undir hraunhól skammt vestan Vogavegar. Þetta er gömul fjárborg.
Á leiðinni til baka var Vatnsleysustrandarvegurinn genginn að Gamlavegi og síðan eftir honum aftur yfir á Vatnsleysustrandarveg. Gamlivegur er svo til beinn upphlaðinn malarvegur, en hann hefur líklega þótt of beinn og of fjarri strandbæjunum og því verið aflagður þegar nýr hlykkjóttur vegur var lagður nær ströndinni. Við veginn voru nokkur lóu- og spóahreiður, sem gaman var að skoða.
Gangan tók um tvær og hálfa klst. í frábæru veðri.