Færslur

Botnsdalur

Gengið var frá Botni í Botnsdal í Hvalfirði um skógivaxinn norðanverðan Hrísháls og áfram upp með Hvalskarðsá um Hvalskarð (418 m.y.s.), millum Hvalfells (848 m.y.s.) og Háusúlu (916 m.y.s.). Þar fyrir innan er Hvalvatn (378 m.y.s.) er kom m.a. við sögu hins þjóðsagnakennda Rauðhöfða. Austast í því er Skinnhúfuhöfði með Skinnhúfuhelli. Vestan við vatnið er Hvalfellið með Arnesarhelli undir, norðan þess Veggir og sunnan Súlur. Þjóðsagan segir hæðirnar umhverfis heita Skjálfandahæðir. Fyrri hluti ferðarinnar var á tærnar að sækja, en sá seinni á hælinn.
GlymsgilÍ ferðinni var Glymur, hæsti foss landsins, sóttur heim. Hann var í klakaböndum er segir meira um ofurvald náttúruaflanna en fossinn sjálfan. Óhemju mikla krafta þarf til að “skrúfa fyrir” foss sem þennan, en Vetur konungur virtist ekki hafa verið í neinum vandræðum með þá framkvæmd.
Þegar farið er að Glym er best að koma að honum sunnanmegin, þ.e. fara yfir Botnsána. Það er eingungis einn staður þar sem fossinn sést nánast allur og það er nípa ofarlega við gljúfrið að sunnanverðu. Til að komast þangað er gengið um hlaðið á Stóra Botni og fljótlega farið til vinstri eftir mjóum gönguslóða og honum fylgt upp með gilinu nokkurn spöl. Hægt er að komast yfir ánna á nokkuð öflugri göngubrú neðar en það er ekki eins hentug gönguleið. Rétt fyrir neðan hið eiginlega gljúfur er farið niður í gilið og yfir Botnsá á símastaur sem lagður hefur verið þar yfir og strengdur vír með til að styðja sig við. Traustlega er frá þessu gengið. Þegar yfir er komið tekur við ganga upp með gljúfrinu eftir mjög greinilegum slóða. Mikið fuglalíf er í gljúfrinu og ber þar mest á fíl (á sumrum), en þó má sjá aðrar tegundir þar líka, s.s. auðnutittling (á vetrum).

Glymur

Glymur.

Tvær nípur eru áberandi á leiðinni sem vænlegir útsýnisstaðir. Af þeirri neðri sést aðallega neðri hlutinn af fossinum en af þeirri efri sést nánast allur fossinn. Einungis vantar að sjá neðsta hlutann af honum og verður hann væntanlega ekki barinn augum nema að fara upp ánna niðri í glúfrinu.
Svæðið allt býður upp á ótrúlega mikla náttúrufegurð, ekki síst í vetrardýrðinni nú svo örskömmu fyrir jól [ferðin var farin 20. des. 2008]. Rjúpa
Rjúpan var ráðandi í kjarrlendinu með hlíðunum beggja vegna. Fagurlitaðar mosaskófir voru á steinum og stöðugur árniðu lék hljófagurt undir umhverfisásýndina alla.
Glymshellarnir í gljúfrinu undir fossinum voru ekki skoðaðir að þessu sinni, en þeir verða gaumgæfðir betur síðar.
FERLIR var svo heppinn, líkt og svo oft áður, að hitta einn landeigandann í Stóra-Botni. Hann sagði m.a. að í svonefndum Tungum, skammt ofar, vær tóftir beitarhúss eða yfirsetuhúss frá þeim tíma er maður nokkur sat þar yfir ám. Auk þess mætti sjá seltóftir neðar með Botnsánni að sunnanverðu, gegnt Litla-Botni. Þegar aðstæður þar voru skoðaðar úr fjarlægð mátti sjá þríhyrningslaga geira upp í hlíðina á Múlafjalli. Neðst í henni vinstra megin (austast) virtist vera tóft. Hún verður ekki heimsótt nema af sérstöku tilefni – næsta vor. Við athugun síðar komu í ljós stekkjartóftir á svonefndri Stekkjarflöti.
GlymshellarÁ göngunni áleiðis upp að Glym var auðvelt að koma auga á tóftina í Tungum. Hún er austan undir grasi grónum hól sunnan árinnar. Samfellt gras er þar í kjarrinu upp undir svonefnda Ásmundartungu, en Tunga þessi gæti tengst því örnefni. Innar, norðaustur með vestanverðu Hvalfelli, raða aðrar tungur sér, s.s. Mjóatunga, Breiðatunga og Einarstunga er aðskyldar eru með giljum. Norðar horfir Víðhamrafjall yfir dýrðina í Botnsdal.
Þegar staðið er þarna undir fjöllunum kemur sagan, eða réttara sagt sögurnar, um Rauðhöfða óneitanlega upp í hugann. Var vel við hæfi að rifja þær upp á leiðinni. Sagan er til í ýmsum útgáfum þótt allar eigi uppruna á Hvalsnesi og endi í Hvalvatni.

Glymur“Í fornöld var það mjög tíðkað á Suðurnesjum að fara út í Geirfuglasker til að sækja þangað bæði fugl og egg. Þóttu þær ferðir jafnan hættulegar og varð að sæta til þeirra góðu veðri því bæði eru skerin langt undan landi og svo er líka mjög brimsamt við þau.
Einu sinni sem oftar fór skip eitt út í Geirfuglasker; geymdu sumir skips, en sumir fóru upp í skerin eftir eggjum. Ókyrrði þá sjóinn fljótt svo þeir urðu að fara burtu fyrr en þeir hefðu viljað. Komust eggjatökumennirnir með illan leik upp í skipið allir nema einn. Hann kom seinastur ofan úr skerinu því hann hafði farið lengst og hugsað að ekki mundi liggja svo mikið á. Hann var sonur og fyrirvinna ekkju nokkurrar sem bjó á Melabergi í Hvalsnessókn, og var hinn ötulasti maður og á bezta aldri (sumir nefna manninn Helga). Þegar nú maðurinn kom niður að skipinu þá var hafrótið orðið svo fjarskalegt við skerið að honum varð ekki náð út í skipið hversu mjög sem þar var leitað lags við. Urðu skipverjar að fara burtu við svo búið og töldu þeir manninn af með öllu nema hans yrði bráðlega vitjað. Héldu þeir svo í land og sögðu hvar komið var og átti nú að fara í skerin og vitja mannsins hvenær sem þar gæfist færi á. En eftir þetta varð aldrei framar komizt út í skerin um sumarið fyrir brimi og stórviðrum. Var þá hætt með öllu að hugsa til manns þessa framar eða leiða sér í hug að hann mundi nokkurn tíma sjást lifandi framar.

Steinn

Nú leið og beið þangað til sumarið eftir. Þá fóru Nesjamenn á skipi út í Geirfuglasker eins og þeir voru vanir. Þegar eggjatökumennirnir komu upp í skerið urðu þeir hissa, þegar þeir sáu þar mann á gangi þar sem þeir áttu sér hér engra manna von. Maðurinn gekk til þeirra og þekktu þeir þar Melabergsmanninn sem eftir hafði orðið sumarið áður í skerinu. Gekk það öldungis yfir þá og þóttust sjá að þetta væri ekki einleikið. Forvitnaði þá nú heldur en ekki að vita hvernig á þessu öllu stæði. En maðurinn sagði þeim óljóst frá því sem þeir spurðu, en í skerinu sagðist hann alltaf hafa verið og hefði þar ekki væst um sig. Samt bað hann á að flytja sig í land og gjörðu þeir það fúslega. Var Melabergsmaðurinn hinn glaðasti, en þó fremur fátalaður.

Hvalfjörður

Hvalfjörður.

Þegar í land kom varð þar hinn mesti fagnaðarfundur og þótti öllum þessi atburður allur undrum gegna, og enga glögga grein vildi maðurinn gjöra um veru sína í skerinu.

Nú leið enn og beið og var hætt að tala um nýlundu þessa. En seint um sumarið, einn góðan veðurdag þegar messað var á Hvalsnesi, varð sá atburður sem alla kynjaði á. Við kirkjuna var fjöldi fólks og þar á meðal Melabergsmaðurinn. En þegar fólkið kom út (aðrir segja inn í kirkjuna og láta allan atburðinn fara fram fyrir messu) úr kirkjunni stóð uppbúin vagga við kirkjudyrnar og lá ungbarn í vöggunni.
Ofan á vöggunni lá dýrindisábreiða sem enginn þekkti hvað í var. Á þetta varð öllum starsýnt Steinnmjög og enginn leiddi sig að vöggunni eða barninu og enginn lézt þar vita nein deili á. Nú kemur prestur út úr kirkjunni; sér hann vögguna og barnið og furðar á þessu öllu ekki síður en aðra. Spyr hann þá hvort viti nokkur deili á vöggunni og barninu eða hver með það hafi komið eða hvort nokkur vilji að hann skíri barnið. En enginn lézt vita neitt um þetta og enginn þóttist hirða um að hann skírði barnið. En af því presti þótti allur atburður með Melabergsmanninn kynlegur spurði hann hann ítarlegar um allt þetta en aðra, en maðurinn brást þurrlega við og sagðist ekkert vita um vögguna né barnið enda skipti hann sér öldungis ekkert um hvorugt.
En í því bili sem maðurinn sagði þetta stóð þar kvenmaður hjá þeim fríð sýnum og fönguleg, en æði svipmikil. Hún þreif ábreiðuna af vöggunni, snaraði henni inn í kirkjuna og segir: “Ekki skal kirkjan gjalda.”
Síðan víkur hún sér að Melabergsmanninum og segir við hann mjög reiðulega:
“En þú skalt verða að hinu versta (argasta) illhveli í sjóHvalsneskirkja.”
Greip hún þá vögguna með barninu og hvarf með allt saman og sást ekki síðan. – Presturinn tók ábreiðuna og lét gjöra úr henni altarisklæði handa kirkjunni, og hefur það verið þar til skamms tíma og þótt hin mesta gersemi.
Nú víkur sögunni til Melabergsmannsins. Honum brá svo við orð hinnar ókunnugu konu að hann tók undir eins á rás frá kirkjunni og heim til sín. Ekki stóð hann þar við, heldur æddi sem vitstola norður eftir þangað til hann kom fram á Hólmsberg sem er fyrir vestan Keflavík, en berg það er fram við sjó, býsna hátt og þverhnípt. Þegar hann kom fram á bergsbrúnina staldraði hann við. Varð hann þá allt í einu svo stór og þrútinn að bergið sprakk undir fótum honum og hljóp fram klettur mikill úr hamrinum. Stakkst maðurinn þar fram af í sjóinn og varð í sama augnabragði að feikilega stórum hvalfiski með rauðan haus því maðurinn hafði haft rauða húfu eða hettu á höfðinu þegar hann brást í hvalslíkið. Af þessu var hann síðan kallaður Rauðhöfði.
Stakkur
En kletturinn sem fram hljóp með hann í sjóinn stendur enn fram í sjónum austarlega undir Keflavíkurbergi og er kallaður Stakkur.
Það er sumra manna sögn, að nú hafi það komið upp á Melabergi eftir móður mannsins að hann hefði sagzt hafa dvalið um veturinn í skerinu (skerið var síðan kallað Helgasker) í álfabæ einum í góðu yfirlæti. Hefðu þar allir verið sér vel, en þó hefði hann ekki geta fest þar yndi.

 

Fyrst þegar hann hefði orðið eftir af lagsmönnum sínum í skerinu hefði hann gengið um skerið í eins konar örvilnan og verið að hugsa um að steypa sér í sjóinn og drekkja sér til að stytta hörmungar sínar.
HvalfellEn þá sagði hann að til sín hefði komið stúlka fríð og falleg og boðið sér veturvist og sagt að hún væri ein af álfafólki því sem ætti heima í Geirfuglaskeri. Þetta þá hann, en vegna óyndis fékk hann heimfararleyfi sumarið eftir. Þá sagði hann að álfastúlkan hefði sagzt ganga með barni hans og skyldi hann muna sig um að láta skíra það ef hún kæmi því til kirkju þar sem hann væri viðstaddur, en ef hann gjörði það ekki mundi hann gjalda þess grimmilega. Sumir segja að maðurinn hafi sagt móður sinni frá þessu einhvern tíma einslega um sumarið; sumir segja að hann hafi gjört það um leið og hann gekk um á Melabergi frá kirkjunni seinast, en sumir segja að hann hafi sagt það einhverjum trúnaðarmanni sínum öðrum. En ekki er þess getið hvers vegna hann brá út af skipun álfkonunnar með barnsskírnina.

Hvalvatn og Hvalfell

En nú víkur aftur sögunni til Rauðhöfða. Hann tók sér aðsetur í Faxaflóa og grandaði þar mönnum og skipum svo engum var óhætt í sjó milli Reykjaness og Akraness. Varð það fjarskinn allur sem hann gjörði illt af sér í skipsköðum og manntjóni, en enginn gat að gjört eða stökkt óvætti þessum burtu, og áttu margir um sárt að binda af hans völdum þó ekki séu þeir nafngreindir neinir sem hann drap eða tölu hafi verið á þá komið. Upp á síðkastið fór hann að halda til á firðinum milli Akraness og Kjalarness og er sá fjörður því síðan kallaður Hvalfjörður.
Þá bjó gamall prestur í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd; hann var blindur, en þó ern að öðru leyti. Hann átti tvo syni og eina dóttur. Voru systkini þessi öll uppkomin þegar hér var komið sögunni og hin efnilegustu og ann faðir þeirra þeim mjög. Prestur var forn í skapi og vissi jafnlangt nefi sínu. Synir hans reru oft út á fjörðinn á báti til fiskjar. En einu sinni urðu þeir fyrir Rauðhöfða og drekkti hann þeim báðum.

Stafnes

Á Stafnesi.

Presturinn faðir þeirra heyrði að synir sínir væru drukknaðir og svo af hvers völdum. Féllst honum mikið um sonamissinn.
Litlu síðar einn góðan veðurdag biður hann dóttur sína að koma og leiða sig niður að firðinum sem er þaðan ekki alllangt frá bænum. Hún gjörir svo, en prestur tekur sér staf í hönd. Staulast hann nú með tilhjálp dóttur sinnar ofan að sjónum og setur stafinn fram undan sér út í flæðarmálið og styðst svo fram á hann. Spyr hann þá dóttur sína hvernig sjórinn líti út. Hún segir hann vera spegilfagran og sléttan. Að lítilli stundu liðinni spyr karl aftur hvernig sjórinn líti út. Stúlkan segir að utan fjörðinn sjái hún koma kolsvarta rák líkt og stórfiskavaður ösli inn fjörðinn. Og þegar hún sagði rák þessa komna nærri á móts við þau biður prestur hana leiða sig inn með fjörunni og gjörir hún það. Var röstin jafnan á móts við þau og gekk það uns komið var inn í fjarðarbotn.
Þegar grynna fór sá stúlkan að röstin stóð af ákaflega stórum hval sem synti beint inn eftir Rjúpafirðinum eins og hann væri rekinn eða teymdur. Þegar fjörðinn þraut og þar kom að sem Botnsá kemur í hann bað klerkur dóttur sína að leiða sig upp með ánni að vestanverðu. Hún gjörði það og staulaðist karlinn upp fjallshlíðina með ánni, en hvalurinn öslaði einatt hér um bil jafnframt þeim upp eftir ánni sjálfri, og var honum það þó örðugt mjög sökum vatnsleysis. En þegar inn kom í gljúfrið sem áin rennur um fram af Botnsheiði þá urðu þrengslin svo mikil að allt skalf við þegar hvalurinn ruddist áfram, en þegar hann fór upp fossinn hristist jörðin umhverfis eins og í mesta jarðskjálfta. Af því dregur fossinn nafn og heitir síðan Glymur og hæðirnar fyrir ofan Glym eru síðan kallaðar Skjálfandahæðir. En ekki hætti prestur fyrr en hann kom hvalnum alla leið upp í vatn það sem Botnsá kemur úr og síðan er kallað Hvalvatn.
Fell eitt er hjá vatninu og dregur það einnig nafn af atburði þessum og er kallað Hvalfell.
Þegar RjúpaRauðhöfði kom í vatnið sprakk hann af áreynslunni að komast upp þangað og hefur síðan ekki orðið vart við hann, en fundist hafa hvalbein mjög stór-kostleg við vatnið og þykir það vera sögu þessari til sannindamerkis. – En þegar prestur var búinn að koma hvalnum fyrir í vatninu staulaðist hann heim aftur með dóttur sinni og þökkuðu honum allir vel fyrir viðvikið.”
Örlítið breytt og stytt saga.
“Melabergsmaðurinn hleypur fram af hamri sem kallast Stakksgnípa. Drekkir 19 skipum milli Akraness og Seltjarnarness. Drekkti bæði syni prestsins í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd og prestsins í Saurbæ á Kjalarnesi. Tóku þeir sig saman og kváðu Rauðhöfða inn fjörðinn á milli bæjanna og heitir hann því Hvalfjörður. Varð þá landskjálfti mikill og því heita hæðirnar við Hvalvatn Skjálfandahæðir.”
Í FAXA er sagan nokkuð breytt og mikið stytt frá hinum.

Hvalfell

“Þegar upp komust svik mannsins varð hann óður og steypti sér í sjóinn og breyttist í hrosshveli og kölluðu menn hann Faxa. Af því nafni dregur Faxaflói nafn sitt. Drap tvo syni manns er kunni jafnlangt nefi sínu. Var Faxi rekinn í Hvalvatn þar sem síðan fundust hvalbein til sannindamerkis um þessa atburði.”
Í sögunni um MELABERGS-HELGA segir: “Ekkja nokkur bjó að Melabergi ásamt sonum sínum þremur og hét einn Helgi. Eitt sinn fóru bræðurnir í Geirfuglasker ásamt öðrum. Þeim varð illt til fengs og fóru því í fleiri sker. En nú fór að brima og komst Helgi ekki í bátinn. Ekki var komist í skerin fyrr en vorið eftir og var leitað eftir beinum Helga. Var undrun manna mikil er hann fannst lifandi og vel á sig kominn. Eftir þetta var skerið kallað Helgasker.

Hólmsberg

Hólmsberg – Hólmsbergsviti nær.

Síðan gerist allt sem í hinum sögunum og er upp komast svik Helga segir hann allt af létta og fer síðan inn þvera heiði og fram af Hólmsbergi. Um leið og hann stakk sér féll úr berginu klettur og er hann hér um 100 faðma fyrir framan bergið og heitir Stakkurinn til þessa dags. Bræður Helga ætluðu heim og komust inn fyrir Melabergsá og urðu þar að steinum. Heita steinar þeir Bræður enn. Helgi breyttist í rauðhöfðaðan hval og hafðist við í Hvalfirði á fjaðrarmótum Kollafjarðar.
Að Reynivöllum bjó prestur og drekkti Rauðhöfði sonum hans tveim. Prestur var skáld og kunnáttusamur. Hann stefndi Rauðhöfða upp í Hvalvatn. Melaberg lagðist í eyði vegna reimleika. En klæðið sem var yfir ruggunni skyldi hafa verið haft fyrir altarisklæði á Hvalsnesi þar til slitið var, þá tekið í sundur og verið lengi til nokkuð af því og ei alllangt síðan eyðilagðist.”
VeturÍ sögunni  um MÓKOLL Á MELABERGI segir: “Mókollur var ríkur bóndi á Melabergi. Allt fer sem fyrr en nú er hann finnst er kona ein hjá honum og lætur vel að honum. Segist hún ganga með barn hans og muni koma með það í kirkju til skírnar. En er barnið var til skírnar fært vildi Mókollur ekki kannast við neitt. Hann stekkur úr kirkju og fram á Hólmsberg á snös þá er síðan er kölluð Stakksnös. Þá féll þar úr berginu með honum klettur sá er Stakkur heitir. Á Katanesi bjó karl sem átti tvo sonu sem Mókollur gleypti að karli ásjáandi. Hann kom svo Mókolli fyrir í Hvalvatni.”

Geirfuglasker

Geirfuglasker.

Ein önnur útgáfa af Rauðhöfða kveður á um eftirfarandi: “Árni hét kvæntur maður og átti hann nokkur börn. Skip hans hvarf við Geirfuglasker en vorið eftir birtist Árni þessi heima hjá sér. Ekki sagði hann hvernig hann hefði komist af. Nú gerist allt sem áður: barn er fært til skírnar og yfir því er dýrindis klæði í rauðum lit. Presturinn reynir árangurslaust að telja Árna á að viðurkenna barnið og álfkonan leggur á að hann verði að hinum versta fiski í sjónum “og granda skipum og mönnum og aldrei komast úr þeim ánauðum, og jafnan skal einhver ógæfumaður vera meðal niðja þinna, allt í átjánda lið.”
Árni var með rauða húfi á höfði er hann tók að tryllast og þrútna út.
Stökk hann svo í sjóinn og breyttist í illhveli mikið og hafðist við milli lands og Geirfuglaskerja þar til kraftaskáld nokkur kvað hann upp í Hvalvatn.
Varða Mælt er að Einar á Iðu sem var dæmdur til lífláts fyrir barneign í meinum væri kominn að Árna í níunda lið, en nú er komið í hinn tólfta.”
Til er og saga um “Álfkonuna í Geirfuglaskeri“, sem er enn ein útgáfan af Rauðhöfða: “Nú er það presturinn að Útskálum er fær barnið til skírnar og maðurinn kastar sér fram af “Hólsbergi”. Hann drekkir síðan tveim sonum ekkju á Bjarteyjarsandi. Hún var margkunnug og kom illhvelinu fyrir í Hvalvatn.”

 

Melaberg

Melaberg.

Um “Hvalinn í Hvalvatni” segir: “Í þessari sögu hér maðurinn Gísli (eða Björn). Hann hafðist við hjá tveimur konum og gerði þá yngri ólétta. Við messu kemur kona með vöggu og yfir henni er rautt klæði. Þegar Gísli neitar að eiga barnið breytist hann í illhveli og hefst við á Faxaflóa og gengur síðan allt eftir sem fyrr.”
Í sögunni um “Árna á Melabergi” segir: “Árni þessi átti þrjá bræður er bjuggu á næstu bæjum við Melaberg. Hann hvarf við Geirfuglasker um haust og kom fram vorið eftir að Hvalsnesskirkju heill á hófi og vel útlítandi. Nú gengur sem fyrr að kona kemur með vöggu til kirkju og yfir henni er fagur dúkur.
HreindýrÞegar Árni neitar að meðkenna barnið segir konan: “Illa launar þú mér lífgjöfina og veturvistina enda skaltu í sjóinn fara – og verða að þeim versta og mannskæðasta hval og óhamingja skal fylgja ætt þinni í átjánda lið.”
Árni ærðist og steyptist fram af klettunum hjá Melabergi. Bræður Árna voru við kirkju og urðu þeir allir að steinum á heimleiðinni. Þeir steinar sjást hjá kirkjuveginum og eru stórir drangar og ganga út úr þeim mjóir drangar sem handleggir. Það fylgdi ætt Árna í átjánda lið að í henni var alltaf einhvur ólánsmaður. Seinastur þeirra er talinn Einar á Iðu á Skeiðum sem átti barn með dóttur sinni.

Hvalfell

Hvalfell – útsýni út Hvalfjörð.

Árni varð að versta hval og lagðist inn í Hvalfjörð. Þar var hann þar til hann drekkti tveimur sonum bónda á Kjalarnesi. Þessi bóndi var kraftaskáld og kvað hann hvalinn inn úr Hvalfirði og undir jörðu inn í Hvalvatn þar sem hann sprakk. Eftir hvarf Árna var um langa tíð reimt á Melabergi.”
Svo voru þau orð nú mörg þegar skráð og lesin – á langri leið.
Rjúpan virtist greinileg ásýndar, en hreindýrin bæði óljósari og huglægari. Þó var að sjá sem þeim brigði fyrir, en annað er þeim fylgdi verður erfiðara að útskýra…
Frábært veður. Gangan tók 6 klst og 6 mín.

Heimildir:
-JÓN ÁRNASON I 81.
-JÓN ÁRNASON I 82.
-JÓN ÁRNASON III 148.
-JÓN ÁRNASON III 149.
-JÓN ÁRNASON III 150.
-JÓN ÁRNASON III 151.
-JÓN ÁRNASON III 152.
-JÓN ÁRNASON III 153.

Göngusvæðið

Glymur

Gengið var um Leggjarbrjót frá Þingvöllum yfir í Botnsdal í Hvalfirði. Þetta er forn þjóðleið milli Botnsdals og Þingvalla en einnig milli Brynjudals og Þingvalla.

Leggjabrjótur

Leggjabrjótur – skilti.

Þegar farið er frá Þingvöllum er haldið upp vestan við túnin í Svartagili, en þar er nú engan bæ að sjá enda lagðist búskapur þar niður fyrir allmörgum árum. Farið er vestan við gil er nefnist Hrútagil upp á lágan ás. Þegar þangað er komið blasir við grösugur dalur, Botnssúlur gnæfa við himin í norðri og lengra til norðausturs sér inn í Svartagil, sem virðist bera nafn, sem því hæfir. Af gili þessu dregur bærinn nafn sitt. Á vinstri hönd gnæfir Búrfell, 783 metrar að hæð, formfagurt og hlýlegt. Gott er að líta í kringum sig og skoða útsýnið af Orrustuhól, sem er rétt austan við götuna. Ekki er vitað hvernig þetta örnefni er til komið. Gagnheiði er til landnorðurs, það er forn þjóðleið.

Leggjabrjótur

Leggjarbrjótur-Fossar í Hvalsskarðsá.

Framundan er svo Öxarárdalur og von bráðar kemur gatan að árgili, þar sem Súlnalækur rennur og hafnar að lokum í Öxará, sem sveigir örlítið til vesturs á þeim slóðum og kemur niður af hálendinu allmiklu vestar, þ.e.a.s. fyrir ofan Brúsastaði. Leiðin hefur verið vel vörðuð fyrrum. Sumar eru fallnar, en aðrar hafa verið endurhlaðnar. Með því að fylgja þeim er  auðvelt að rata um hálsana.

Öxarárdalur er grösugur dalur og fagur með Súlur á hægri hönd en Búrfell á þá vinstri. Leiðin er öll vel vörðuð og engin hætta á að villast af leið í björtu veðri. Þó ber að varast að fara langt frá slóðinni vegna mýrarfenja, sem sums staðar eru á leiðinni. Dalurinn hækkar skyndilega er komið er yfir Súlá (Súlnaá), sem rennur úr Súlnadal norðan við Systusúlu (1090 m á hæð). Súlnadalur er stuttur dalur hátt uppi í fjöllunum. Þar er Bratti, skáli Íslenska Alpaklúbbsins.

Glymur

Glymur.

Súlá getur verið allvatnsmikil. Hún rennur í Öxará á þeim slóðum, er vegurinn hættir að fylgja Öxará en fylgir Súlá um skeið. Verður leiðin nú grýtt mjög og seinfarin um skeið en þéttar vörður varða leiðina. Hér er komið að sjálfum Leggjarbrjóti, sem er nokkur hundruð metra langur kafli. Hér eru sýslumörkin. Efst í Leggjarbrjóti má vel sjá hvar erfiðasti hlutinn hefur verið lagaður til. M.a. hefur verið hlaðið í kanta götunnar. Norðar hefur stærsta grjótinu verið kastað úr henni.
Þegar halla tekur undan norður af blasir Biskupskelda við á hægri hönd fram undan og lækur, sem í hana rennur úr vestri. Yfir læk þennan er sérkennileg steinbrú. Það er vel þess virði að líta vel í kringum sig því að útsýni er hér hvað fegurst á þessari leið. Vísu um Leggjabrjót orti séra Jón Þorláksson. Hún er svona:

Tunnan valt og úr henni allt,
ofan í djúpa keldu.
Skulfu lönd og brustu bönd,
en botngjarðirnar héldu.

Leggjabrjótur

Leggjabrjótur – Biskupskelda.

Keldan sem hér er átt við er Biskupskelda en þar hefst hinn eiginlegri Leggjabrjótur.
Súlur byggja að vísu útsýn til austurs og norðurs en í suðri sér í norðurenda Þingvallavatns. Búrfell blasir við í vestri. Sé gengið upp á höfðann vestan við Biskupskeldu og raunar lítið eitt lengra vestur, sér í Myrkavatn, en þar eru upptök Öxarár. Í norðaustri skammt frá Biskupskeldu er Sandvatn, þar sem Brynjudalsá á upptök sín og ofan við vatnið er Sandvatnshlíðar.

Leggjabrjótur

Leggjabrjótur – varða.

Þegar farið er áfram til norðurs er haldið sem leið liggur og vörðurnar varða fram hjá Biskupskeldu. Sandvatn er fagurt fjallavatn og lætur ekki mikið yfir sér en skyndilega breytir um svip í landslaginu, þegar komið er norður fyrir vatnið. Vestur af Sandvatni að norðanverðu eru Djúpadalsborgir eða Djúpadalshæðir og neðan þeirra er Djúpidalur. Þegar horft er niður dalinn blasa við þrengsli mikil, er Gljúfur nefnast. Í þeim eru þrír fossar, sem heita einu nafni Gljúfurfossar. Hér er hrikaleg náttúrufegurð.
Af Djúpadalsborgum er gott útsýni yfir innsta hluta Brynjudalsins. Syðst er Djúpidalur sem fyrr segir, vestan hans tekur við Lokhamragil og utan þess er Hestgil. Fjallið upp af giljunum er Bollafell sunnan til 510 m að hæð, en Suðurfjall stefnir til útnorðurs.

Leggjabrjótur

Leggjabrjótur – gata.

Vegarslóðin liggur beint norður af Sandvatni austanverðu og brátt er komið að Sandhrygg, þaðan sem gott er að skoða útsýnið yfir Brynjudal, sem blasir héðan við í allri sinni dýrð. Innst í dalnum norðaustanverðum er eyðibýlið Hrísakot, þá Ingunnarstaðir. Utar sér í Þrándarstaði og yst Skorhaga. Þá sést vel út á Brynjudalsvog og Hvalfjörð og utar sér í Hvammsvíkurbæina.
Af Sandhrygg breiðir Múlafjallið úr sér til útnorðurs og nú sést niður í Botnsdal, þangað sem ferðinni er heitið. Hins vegar er hér beint niður undan hin forna leið niður í Brynjudal, leiðin um Brennigil, og er það auðfarin leið gegnum kjarrið. Önnur leið er litlu norðar, það er leiðin upp með Laugalæk, sem dregur nafn sitt af heitri (33 gráður) laug ofarlega í hlíðinni. Þar má sjá verksummerki eftir framkvæmdir hugvitsmannsins Lúthers Lárussonar, sem bjó á Ingunnarstöðum fyrr á þessari öld.

Leggjabrjótur

Leggjabrjótur – varða Botnsdalsmegin.

Þessar tvær leiðir voru auðveldustu leiðirnar, þegar farið var yfir Hrísháls niður í Botnsdal, yfir Leggjarbrjót til Þingvalla eða yfir Hvalskarð suður með suðurströnd Hvalvatns og áfram til austurs. Hvalskarð er norðan við Sandhrygg, það er milli Hvalfells (852 m) að norðan og Háusúlu (1023 m) að sunnan.
Í Hvalskarði rennur Hvalskarðsá, fyrst í vestur en síðan meira til norðvesturs uns hún sameinast Botnsá rétt innan við Stórabotn.
Norðan við Hvalfell rennur hins vegar Botnsá úr Hvalvatni. Hún er á sýslumörkum milli Kjósarsýslu og Borgarfjarðarsýslu og jafnframt skilur hún milli Hvalfjarðarstrandarhrepps og Kjósarhrepps. Mörkin liggja síðan um mitt Hvalvatn og síðan um Háusúlu og rétt norðan við Biskupskeldu og um Myrkavatn yfir Kjöl og í Sýsluhólma í Laxá í Kjós. Í Hvalvatni endar þjóðsagan um Rauðhöfða, en þangað á hann að hafa synt í hvalslíki um Faxaflóa og úr Hvalfirði.

Leggjabrjótur

Leggjabrjótur – gata í Botnsdal.

Vegarslóðin liggur nú þvert yfir Hvalskarð gegnum sauðfjárveikivarnagirðinguna og niður allgóðan veg niður í Botnsdal gegnum kjarr og skóg. Brátt sést Botnsá, þar sem hún kemur úr Stóragili en efst í því er hæsti foss landsins, Glymur. Í Botnsdal er skógrækt mikil, sem síðar verður vikið nánar að og sést hér vel, hve áhrifamikil friðunin hefur verið. Innst í dalnum er Stóribotn, nú í eyði; þaðan er forkunnarfagurt útsýni. Auðvelt er að komast yfir Botnsá, t.d. á stálbrú beint suður af Stórabotni.
Gangan tók 5 klst og 05 mín. Frábært veður.

Heimild:
-Eftirfarandi er byggt á lýsingu eftir séra Gunnar Kristjánsson sóknarprest á Reynivöllum og birtist hún sem sérprent með Árbók Ferðafélags Íslands árið 1985.Leggjarbrjotur