Færslur

Keldur

Eftirfarandi fróðleikur um örnefni í Keldnalandi eru tekin saman af Halldóri Vigfússyni laugardaginn 27. ágúst 1949 í viðræðum við við Björn gamla Bjarnarson (93 ára) í Grafarholti. Þar kemur m.a. fram staðsetning á hringmyndaðri rúst er nefnd hefur verið Helguhjáleiga, Helgustekkur eða Helgutóft.
Síldarmannagarður“Um þann stað er sú þjóðsaga, að þar hafi búið Helga Bárðardóttir Snæfellsáss og sótt sér í soðið með því að renna færi fram af Helgukletti, nyrst á Geldinganesi”. Helgusel í Helguhvammi neðan við Helgufoss undir Bringum heitir einnig eftir henni. Auk þess Helguhóll í Viðey og Helgusker í Kollafirði. Helgustekkur hefur verið látinn óáreittur og er nú við göngustíg er liggur aftan (austan) við háu fjölbýlishúsin við Frostafold. Fleiri minjar, sem minnst er á, má enn sjá í Keldnalandi. Þá kemur fram að Kaldá sé afrennsli Kleifarvatns.
“Slöðrið eða slakkinn milli holtanna Grafarholts og Keldnaholts heitir Klofningur. Þar niður vildi Einar skáld Benediktsson veita Úlfarsá [þetta er hið forna og upphaflega nafn árinnar (sbr. Landnámu) en hún er nú oftast nefnd Korpólfsstaðaá, Korpa, eða eftir öðrum bæjum sem eiga land að henni, einkum þar sem vöð voru á ánni.
GröfBjörn segist hafa átt hlut að því að nafni Kálfakots var breytt í Úlfarsá til þess að festa hið forna nafn], svo að hún félli í Grafarvog og mætti verða að góðri laxveiðiá í líkingu við Elliðaárnar. Einar eða faðir hans hafði keypt lönd á þessu svæði (Gröf og Keldur) og fengu þeir feðgar Björn, sem var þá ekki enn farinn að búa í Gröf, til að mæla fyrir þessari vatnsveitingu. Birni mældist að skurðurinn þyrfti að vera 11 feta djúpur, þar sem þurfti að grafa dýpst. Var verkið hafið og nokkur dagsverk unnin, en aðrir, sem lönd áttu að Úlfarsá, munu hafa amast við þessari röskun og bannaði Benedikt þá frekari framkvæmdir.

 

Gröf-2

Áður en sneiðin norðan af Keldnalandi var seld undir Korpólfsstaði (Thor Jensen), áttu Keldur slægjuland uppi við Úlfarsá, sem hét Tjarnengi [samnefnt slæguland var einnig frá Grafarholti litlu ofar. Á þeim slóðum byggði tengdasonur Bjarnar (Hreiðar Gottskálksson) nýbýlið Engi. Þar er hvylft mikil, sem heitir Flykkisgróf, og segir Björn, að hún sé norðaustur endinn á langri gjá, sem muni mega rekja við og við allt suðvestur að Kleifarvatni. Í gjá þessari hyggur Björn að vera muni afrennsli Kleifarvatns og komi fram í Kaldá. (Hann hefur þó að vísu ekki komið lengra suður en í Gjárétt)] .
Lautin austan [vestan] við túnið á Keldum, þar sem sumarhús Einars Pálssonar stendur nú, heitir Kúalág. Það nafn er frá þeim tímun er kýr voru látnar liggja úti á nóttum og lágu þær þá einna helst þar.

 

Keldur

Keldnakot.

Fyrir norðan Keldnabæinn og upp af honum er Keldnaholt. Vestan í því er Keldnakot. Þar var búið fram á seinni hluta síðastliðinnar aldar. Utan í Keldnaholti, norður af Kotinu, er hóll sem heitir Skyggnir [enn má sjá hlaðinn garð, nú kominn inn í skógrækt, frá Keldnakoti, allstóra tvískipta fjárhústóft og fleiri mannvirki skammt þar frá sem kotið var].
Suðvestur af kotinu gengur grjóthóll út úr holtinu. Suður og niður af honum var svo kallaður Lambarimi, nú sléttaður og ræktaður í tún, nyrsta nýræktin. Nafnið kom til af því að riminn var áður sleginn næst á eftir túninu og þótti hey af honum gott og var ætlað lömbum.
Gröf-3Mýrardragið upp með Keldnaholti að vestan heitir Keldnasund eða Sundið.
Á hábungunni beint vestur af Keldum er hringmynduð rúst, kölluð Helguhjáleiga, Helgustekkur eða Helgutóft. Um þann stað er sú þjóðsaga, að þar hafi búið Helga Bárðardóttir Snæfellsáss og sótt sér í soðið með því að renna færi fram af Helgukletti, nyrst á Geldinganesi.
Niðri við Grafarvog, í mörkum Keldna- og Gufunesslands, heitir Kattarnef. Góðan spöl innar gengur lítil og lág eyri út í voginn. Hún heitir Naustatangi. Þar höfðu Keldnamenn lendingarstað og uppsátur fyrir báta, sem voru aðallega notaðir til hrognkelsaveiða. Voru þær veiðar stundaðar nokkuð frá bæjunum við Grafarvog, þó óhentugt væri vegna útfiris, en netalagnir voru út undan Gufuneshöfða.
Gröf-4Í fjöruborði milli Kattarnefs og Naustatanga skagar allmikil eyri út í voginn frá suðurlandinu (Grafarholtslandi). Á þessari eyri og síðan þvert yfir voginn er gamall grjótgarður, sem sést vel um fjöru. Þetta mannvirki segir Björn, að heiti frá fornu fari Síldarmannagarður. En síðustu not, sem hann veit til, að menn hafi reynt að hafa af garðinum, voru þó til laxveiði. Um það hafði hann fyrir sér frásögn Ólafs Stephensens frá Viðey, sem hafði sjálfur verið við þá veiðitilraun. Það mun hafa verið á árunum 1870-80.

 

Um flóð eða með byrjandi útfalli var dregið net í hlið, sem var á garðinum, og var ætlunin að króa fiskinni inni, svo að hann fjaraði uppi. Var mikill lax fyrir innan og enda selur. En undan útfallinu settist slý og þaraslæðingur í netið, og fiskurinn lagðist fast á, og undan þessum þunga öllum sprakk netið, svo að afli varð lítill eða enginn. Þessi garður er nú allmikið raskaður af sjávarfangi og af völdum veiðimanna, er voru þar með laxakláfa um og eftir síðustu aldamót. [Sem hliðstæðu við þennan garð bendir Björn á, að inni í Hvalfjarðarbotni er til örnefnið Vogargarðslág, þó að garður sjáist þar nú enginn. Þar eru og Síldarmannagötur. Garður þessi virðist nú alveg horfinn í leirunar í voginum].
KeldnakotÍ botni Grafarvogs eru grjótgarðar, sem mynda litla kví við ós Grafarlækjar. Þar hagar þannig til, að Keldnamegin við ósinn gengur fram smáeyri eða hryggur, og þar hefur því ekki þurft mikla hleðslu, aðeins að raða steinum ofan á. Grafarholtsmegin hefur hleðslan þurt að vera hærri, og þar er mjótt hlið á garðinum fyrir lækjarrennslið og sjávarföll. Þetta heitir Króargarður og mun hafa verið gerður kringum 1870 til laxveiði.
Landarmerki milli Grafarholts og Keldna segir Björn, að sé bein lína frá Grafarvaði á Úlfarsá í Grafarlæk, þar sem hann beygir fyrir Svartabakka. Þaðan ræður lækurinn til sjávar.
Örnefnatalningunni má ljúka með því að geta þess, að holtið þar sem nýi vegurinn að Keldum kemur á aðalveginn, heitir Nónholt og var eyktarmark frá Gröf. En ekki kvaðst Björn kunna að skilgreina með vissu eyktarmörk frá Keldum.”

Heimildir m.a.:
-http://www.keldur.hi.is/um_ornefni.htm?detail=1003119&name=frettasida

Grafarkot

Grafarkot, Grafarholt, Gröf og Keldur – kort 1908.