Tag Archive for: Grímastaðir

Brúsastaðarétt

  Gengið var um fornjarðir Þingvallabæjarins, Grímastaði og Bárukot. Grímastaða er getið í Harðarsögu Hólmverja.
Tóftir BárukotsRústir þessara fornjarða voru friðlýstar árið 1927, en í dag vita fáir hvar þær er að finna.
Ætlunin var að fara yfir Öxará á Norðlingavaði, út með Brúsastaðabrekkum, upp í Grímasgil og síðan niður með Grímagilslæk og inn á fornra þjóðleið er lá um hlaðið á Bárukoti og Brúsastöðum, en eftir að rætt hafði verið við Ragnar, bónda á Brúsastöðum, var talið, vegna vatnavaxta í Öxará, áreiðanlegra að fara áleiðis upp að Svartagili frá Skógarhólum og þaðan yfir Grímagilslæk við Biskupsbrekkur, inn á hina fornu þjóðleið og fylgja henni síðan áleiðis að Norðlingavaði. Við hana ættu tóftir Bárukots að vera. Skv. kortum átti þær að vera við reiðgötu nokkru norðar.

Bárukot

Bárukot – uppdráttur ÓSÁ.

Heimatúnið og svæðið næst Brúsastöðum er fyrir margra sakir áhugavert. Í örnefnalýsingu fyrir bæinn segir m.a.: „Þá er komið upp að túni, upp að Trausta. Trausti er hóll eða hæð, sem rís framan við gamla bæinn á Brúsastöðum og liggur inn í túnið.  Haraldur hefur heyrt, að Jóhanna, amma Guðbjörns á Kárastöðum, hafi nefnt hæðina þetta, því að hún hafi alltaf vitað, hvar börnin voru, þegar þau voru þar að leika sér. Hóllinn hækkar í landslaginu, er mishár, en hæstur rétt austan við bæinn.  Hann nær inn að á og heitir Trausti alla leið.  Vestasti partur Trausta heitir Goðhóll.
Það er ekki gamalt nafn.  Þegar Halldór Einarsson (?) bjó á Brúsastöðum, var hesthús á hólnum, en var lagt niður. Reiðhestur frúarinnar var grafinn i hesthúsinu með öllum tygjum.  Hesturinn hét Goði, og fékk hóllinn nafn af honum.
Þar fyrir vestan, þar sem vegurinn lá heim, er Hádegisholt, eyktamark frá Brúsastöðum.  Það er endinn á Djúpugrófarásnum.  Klukkan var tólf, þegar sólin var yfir Hádegisvörðu á holtinu.  Varðan er nú horfin.
Túnið:  Túninu hallar niður í smálægð.  Þar er gamalt Hof, sem ekki mátti hreyfa við.  Það var ekki gert, og er þetta eins enn, hringmyndaður þúfnaklasi.  Matthías Þórðarson gróf þarna í eitt sinn. Þar fyrir ofan er Friðhóll, bungumyndaður hóll. Neðst í honum stendur bærinn.  Hóllinn er mjög sléttur að ofan og hefur líklega þótt „friður“.  Fyrir ofan Friðhól er laut og hóll þar fyrir ofan.  Utan í honum myndast falleg, slétt flöt.  Það er upp-hækkun, eins og hlaðið, myndað af framburði lækjarsprænu.  Þarna voru kvíar.  Haraldur sat yfir ám bæði uppi í fjalli, uppi í Dokkum, og niðri á  hrauni.  Hann man ekki nákvæmlega, hvenær hætt var að færa frá, en hann hefur líklega verið kominn undir fermingu þá.“

Þjóðleiðin um Norðlingavað - framhjá Bárukoti

Þegar komið var að reiðgötuna frá Skógarhólum (við hlið hennar liggur malarslóði) var henni fylgt spölkorn til vesturs. Þá blöstu við tóftir á hægri hönd, norðan bakka Grímagilslækjar. Reyndust þar vera heillegar tóftir veglegs kots. Það hefur verið reist á berangri, að því er virtist, en eflaust hefur svæðið allt verið skógi (í það minnsta kjarri) vaxið er það var byggt. Burstir hafa verið þrjár mót suðri, sú austasta með hurð, en hliðarburstirnar tvær einungis verið hálfgaflar með glugga. Veggir standa og vottar fyrir hleðslum. Sex rými hafa verið í kotinu og gerði eða garður vestan við það. Líklega hefur baðstofan verið innst, en svefnrými vinnufólks vestast.
Skammt sunnan við tóftirnar er hlaðinn lítill stekkur. Bendir hann til þess að þarna hafi verið geitur?
Ferðalangar á leið austur að Skógarhólum (Múlakoti) er fóru yfir Öxará héldu um Norðlingaveg framhjá þessu eyðibýli, Bárukoti, og um Leynistíg til Alþingis, en Leynistígur er rétt hjá rimlahliðinu á Þjóðgarðsgirðingunni skammt frá Skógarhólum, nema farið hafi verið um Langastíg og Stekkjargjá, sérstaklega ef menn voru einhesta. Bárukot mun ekki hafa verið í byggð síðan á 17. öld og þá aðeins í 8 ár. Þar þótti þó sæmilegt túnstæði, enda bera ummerkin þess dæmi.
Stekkur við BárukotSkammt suðvestar er mikil hlaðin rétt. Ekki er að sjá að hennar hafi sérstaklega verið getið í örnefnalýsingum eða öðrum heimildum. Ekki heldur annarri rétt, mun minni og eldri, skammt vestar. Fjallað verður um hana hér síðar.
Ragnar hafði sagt þessa rétt hafa verið hlaðna árið 1908. Hún hefði þjónað bæjunum í vestanverðri sveitinni. Þegar réttin í Skógarhólum hafi verið hlaðin eftir 1930 hafi þessi rétt lagst af að mestu. Skógarhólsréttin hefði leyst af Þingvallaréttina (Hrauntúnsréttina) undir Sleðaási ofan við Bolaklif. Þangað hefðu Borgfirðingar o.fl. sótt fé sitt, en þegar þjóðgarðurinn á Þingvöllum var stofnaður árið 1930 hefði þjóðgarðssvæðið verið girt af og réttin þá lagst af. Hún væri mun eldri en aðrar réttir í Þingvallasveit.
Nafnlausa réttin undir suðvesturjaðri Biskupsbrekkuhrauns er stór og nokkuð heilleg. Hún var hlaðin á sléttri hraunhellu og hefur undirstaðan því verið góð. Stórt gerði er vestan réttarinnar. Sjálf telur réttin 10 dilka með úrdráttarhólfi í miðjunni.
GrímasgilStefnan var tekin upp í Grímasgil.
Í heimildum er gerð grein fyrir hjáleigum í landi Þingvalla, eins og t.d. Vatnskoti, Hrauntúni, Skógarkoti og Svartagili. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín, sem samin hafði verið á árunum 1706-1711, segir að hjáleigurnar hafi verið byggðar úr landi Þingvalla og að afréttur hafi til forna verið brúkaður í Skjaldbreiðarhrauni. Af öðrum ummælum í jarðabókinni nefnir stefnandi að um hjáleiguna Vatnskot segi: „Haga á jörðin í betra lagi mikla og góða. Útigangur á vetur er hjer góður og er hverki sauðfje nje hestum fóður ætlað.“ Um hinar hjáleigurnar sé vísað til þess sem ritað var um Vatnskot. Í jarðabókinni segi jafnframt að Þingvellir hafi átt afrétt á „ … Skjaldbreiðarhrauni en hefur ekki verið brúkaður yfir 40 ár, lætur nú presturinn brúka fyrir afrétt Ármannsfell, Kvíindisfell og Gagnheiði“. Í jarðabókinni og sóknarlýsingu Þingvallasóknar sé að auki getið um fjölda annarra hjáleigna og eyðibýla, sbr. t.d. Fíflavelli, landsuður undir Skjaldbreið, Ölkofra, Þórallarstaði, Múlakot eða Mosastaði, Grímastaði, Bárukot og Þverspirnu.
Gamla réttinGrímastaðar er getið í Harðarsögu Hólmverja, en ekki er vitað hvar tóftir bæjarins gætu verið. Í Jarðabókinni 1703 segir: „Grimastader heitir hjer eitt örnefni, sem meinast bygt hafa verið fyrir stóru pláguna, en aldrei eftir hana; sjer hjer sumstaðar til garðaleifa og rústa, sem meinast verið hafi bæði túngarður og veggleifar, og vita elstu menn ekkert framar hjer um að segja. Á flötum nokkrum skammt fyrir neðan þessa Grímastaði er annað örnefni, kallað af sumum Bárukot, en af sumum Þverspirna, nokkrir hafa kallað þetta örnefni Fótakefli.“
Bóndinn á Brúsastöðum hafði sagst mikið hafa leitað að hugsanlegu bæjarstæði Grímastaða. Hann taldi sig nú vita hvar það væri að finna, undir hlíðunum langleiðina að Ármannsfelli. Nánari vísbendingu var ekki að fá. Ljóst er að gönguleiðin frá Langastíg um Leggjabrjót liggur um Kerlingarhraun og yfir smálæk sem kenndur er við Grímsgil. Einhversstaðar nálægt þessari litlu sprænu er talið að býlið Grímsstaðir hafi staðið. Í annarri heimild segir að „engar sjáist þar rústir nú“. Í Harðarsögu segir, að Grímur litli hafi keypt land „suður frá Kluptum, er hann kallaði á Grímsstöðum“. Sonur Gríms hét Geir. Grímur ól upp Hörð Grímkelsson, fóstbróður Geirs. Samkvæmt sögunni áttu þeir kappar sín bernskuspor á þessum slóðum.
Gamla réttin að sumarlagi - SGÞegar svæðið neðan undir Grímasgili var skoðað komu í ljós tveir staðir, sem gætu komið til greina að hafa hýst skála fyrrum. Austari staðurinn, nær Grímasgilslæk, virtist öllu sennilegri. Þar virðist, með góðum vilja, móta fyrir skálatóft, ofan mýrlendis sem þarna er neðanvert. Mögulega mótar þarna fyrir garðhlutum efra, en óljóst þó. Ekki verður gengið úr skugga um hvort þarna hafi verið bæjarstæði á 10. öld nema að undangengnum rannsóknaruppgreftri, sem vel væri til vinnandi. Leitað var eftir mögulegum minjaleifum ofar í gilinu, en án árangurs.
Fornminjar á Þingvöllum voru friðlýstar árið 1927, og þá sennilega að gefnum tilefnum. Að því tilefni sagði m.a.: „
Friðlýsingar fornminja: Þingvellir. 1. Þingbúðarústir allar og allar aðrar fornleifar og gömul mannvirki á hinum forna
alþingisstað, beggja vegna Öxarár. Sbr. Árb 1921-1922: 1-107. 2. Rústir allar þar sem verið hafa forðum býlin Grímsstaðir, Bárukot, Múlakot, Litla-Hrauntún, Ölkofrastaðir og enn eitt, norðvestanundir Hrafnabjörgum. Sbr. Árb. 1880-1881: 22, 98. Skjal undirritað af MÞ 05.05.1927. Þinglýst 07.09.1927.“
Veggur í BrúsastaðaréttinniGengið var til vetsurs af mögulegum Grímastöðum og þar upp á melhól. Á honum var hálffallin varða. Neðan hólsins var hestagata. Henni var fylgt inn á Biskupsbrekkuhraunið. Á ysta rana þess hafði verið rofið haft til að létta á leysingarvatni í mýrlendinu ofanvert við það. Skammt vestar var hin fyrrnefnda gamla rétt, að mestu nýtt úr hraunsprungu, en hlaðið um betur á nauðsynlegum stöðum. Norðan úr inngangnum var hlaðinn leiðigarður. Þarna hefur líklega verið rúningsrétt fyrrum – þótt hún hafi nú fallið í gleymsku, eins og svo margt í og við þjóðgarðinn. FERLIR hefur áður getið þess að mikilvægt væri að staðsetja og merkja merkilegar minjar í og við þjóðgarðinn á Þingvöllum. Ef þær yrðu gerðar aðgengilegar og um leið eftirsóknarverðar myndi lifna svo um munar yfir áhuga á svæðinu. Hingað til hefur þjóðgarðsnefndin allt að því sofið þyrnarrósarsvefni í þessum efnum.
Þjóðgarðurinn á Þingvöllum var stofnaður með lögum Skeifa við gömlu þjóðleiðinaárið 1930. Í lögunum segir að Þingvellir við Öxará skuli vera friðlýstur helgistaður allra Íslendinga, hið friðlýsta land skuli ævinlega vera eign íslensku þjóðarinnar undir vernd Alþingis og landið megi aldrei selja eða veðsetja.
Friðun Þingvalla átti sér aðdraganda. Í upphafi 20. aldar tóku að berast til Íslands fregnir um stofnun þjóðgarða í Bandaríkjunum. Þar voru augljósar þær hraðfara breytingar sem urðu á náttúrunni þegar Evrópubúar lögðu landið undir sig. Í þjóðgörðunum voru stór, óbyggð svæði tekin frá og friðuð og fólki hvorki leyft að nema þar land né nýta náttúruna á annan hátt en að ferðast um landið og njóta þess.
Hér á landi var bent á að mikilvægt væri að vernda einstaka náttúru- og sögustaði svo að komandi kynslóðir gætu notið þeirra óraskaðra. Fljótlega beindist umræðan að Þingvöllum sérstaklega og þeirri hugmynd að þar yrði stofnaður þjóðgarður, sem fyrr segir.
Í framhaldinu var litið á Múlakot í Skógarhálsum undir Ármannsgili í Ármannsfelli og síðan Þingvallaréttina fyrrnefndu. Austan í Básum, skammt undan réttinni er Grettissteinn er nefndur var til samnefndrar sögu. Steinninn er ferhyrningslaga og hið ákjósanlegasta tilefni til að staldra við á góðum degi og rifja upp kafla í Grettissögu. Í dag er steinninn, eins og svo margt annað í þjóðgarðinum, hulið þagnarhjúpi.
Frábært veður. Gangan tók 
2 klst og 2 mín.
Þingvallarétt
Heimildir m.a.:
-Örn H. Bjarnason.
-Þingvellir.is
-Örnefnalýsing fyrir Brúsastaði.
-Kjalnesingasaga.

Þingvallarétt

Þingvallarétt.

Hrafnabjörg

Ofan við Þingvallaskóga er getið um tvö býli; Litla-Hrauntún og Hrafnabjörg. Litlar sögur fara af býlum þessum er þó er hið síðarnefnda talið miklu mun eldra eða allt frá fyrstu tíð. Ætlunin var að leita að og skoða hið gamla bæjarstæði Litla-Hrauntúns og fornbýlistóftir Hrafnabjarga undir samnefndu fjalli norðaustan Þingvalla. Tóftunum var síðast lýst skömmu eftir aldamótin 1900. Hafa sumir talið að þar hafi hinir sagnakenndu Grímastaðir verið. Aðrir að þær hafi verið undir Grímarsgili mun vestar. Prestastígur liggur yfir hraunið, flestum gleymdur.

Kort Þingvallavefsins af göngusvæðinu

Búið var að miða bæjarstæðin út frá gömlum kortum. Svæðið gaf von um ægifagurt útsýn; Ármannsfell, Skjaldbreið og Hrafnabjörg.
Heimildir segja: „Í hraunjaðrinum við Hrafnabjörg er þó á einum stað brunnur af náttúrunni, þ.e. hraunhola með vatni, sem sjaldan þrýtur. Og hjá henni er forn bæjarrúst. Önnur forn bæjarrúst er í hrauninu langt suðvestur frá Kluftum. Þar heitir Litla-Hrauntún. Eigi sér þar vatnsból og eigi er þar heldur túnstæði. Það kæmi nú heim við hinn fyrtalda stað í Harðarsögu (k. 5) að Grímsstaðir, þar sem Grímur litli bjó, hafi verið á öðrum hvorum þessum stað, og þá helzt á bænum við Hrafnabjörg. Og á því máli er Sigurður Vigfússon í Árb. 1880-1, bls. 43.“
Lagt var af stað frá Ármannsfelli skammt neðan undir Stóragili. Ljóst var strax í upphafi að svæðið er gríðarlega víðfeðmt og erfitt til leitar að mjög fornum óljósum minjum.
Einar á vettvangi Litla-Hrauntúns? Vörðuleifar nærFERLIR hafði áður leitað upplýsinga um staðsetningar á stöðum þessum hjá viðkomandi staðaryfirvöldum þjóðgarðsins og fengust greið svör frá Einari Á.E.Sæmundsen: „

Hnitin á Litla Hrauntúni sem ég er með hér er: 20° 59´43,139” W-64° 17´44,196” N. Þetta er merkt inn af eldri manni Pétri Jóhannessyni úr Skógarkoti sem setti á loftmynd um 650 örnefni. Þau voru hnituð inn af loftmyndum hans ofan á okkar hnitsetta grunn. Þegar rýnt er í myndina þá er erfitt að greina nokkuð sem gæti bent til fornra rústa. Það eru eitt annað örnefni sem gæti hjálpað ykkur….. Hesthústóft-tjörn (20°57´59,908” W-64°16´54,939”N). Það bendir til einhverrar mannvistar. Í skránni er Hrafnabjörg „eyðibýli”, en búið að fínkemba aftur kortin lögð yfir loftmyndirnar okkar og ég finn það ekki. Það er einsog það hafi gleymst að setja það inn. Mig grunar að þetta örnefni 

Einar við

Hesthústóft geti leitt ykkur áfram en það er næsta í röðinni í skránni. Hann hefur gert þetta eftir minni og kannski munað þau saman ef þau væru nálægt hvort öðru. Hnitin eru í isnet 1993 lambert… Mér finnst þetta sem þið eruð að gera mjög spennandi og lít stundum við á heimasíðuna ykkar. Þetta er vinna sem nýtist okkur mjög vel í framtíðar fornleifaskráningu.“
Ef tekin voru mið af gömlum kortum út frá þekktum kennileitum átti ekki að vera mjög erfitt að staðsetja bæjaleifarnar. Ekki er um langa vegarlengd að ræða frá Ármannsfelli að Hrafnabjörgum, en hafa ber í huga að hraunin þar á millum eru bæði illviljug og höll undir að hylja það sem er þeirra. Og þegar hnitin voru slegin inn á hin ýmsu opinberu landakort, s.s. 1:100.000 og 1:50.000, fengust hinar mismunandi staðsetningar.
Nefndur Pétur merkti örnefnin eftir glöggum loftmyndum, þ.e. númeraði þau inn á myndirnar, en Einar færði þau síðan inn á loftmyndir af svæðinu. Skv. því átti Litla-Hrauntún að vera spölkorn Hesthústóft nálægt Hrafnabjörgumsunnan við sauðfjárveikigirðingu er umlykur Þingvöll. Þegar gengið var á hnitið kom ýmislegt athyglisvert í ljós. Þegar komið var á vettvang var efitt að sjá að þarna gæti hafa verið bæjarstæði, sem þó hefði þá verið það á mjög  ákjósanlegum stað. Tóftir, mjög gamlar, virtust vera sunnan undir lágum aflöngum klapparhól. Efst á honum var fallin varða, mosavaxin. Grjótið var þá augljóst. Undir hólnum virtist vera grasi gróin geil inn að honum. Mótaði fyrir veggjum beggja vegna, þó ekki hleðslum. Stafn hefur verið mót suðri. Gata lá framan við. Til beggja hliða virtust vera leifar minja, gerði til vesturs og hús til austurs. Þar virtust geta hafa verið tvískipt tóft. Gaflar sneru mót suðri. Stór varða var neðar í hrauninu, skammt austan við Hrauntúnsbæinn. Vel sást yfir að Þingvallavatni. Hafa ber í huga að landið hefur breyst mikið á umliðnum öldum. Varða var á klapparhól skammt suðvestar. Milli hans og „bæjarstæðisins“ voru grónir hraunbollar, sem vatn gæti hafa safnast saman í. Skammt austar var opin djúp (botnlaus) gjá, en í hana hefði hugsanlega verið hægt að sækja vatn. Allt um kring voru grasbollar og skjól, hin ákjósanlegasta fjárbeit.
Ferðinni var haldið áfram – áleiðis að Hrafnabjörgum.
Varða, önnur af tveimur, ofan við hesthúsatóftinaFornminjar á Þingvöllum voru friðlýstar árið 1927, og þá sennilega að gefnum tilefnum. Að því tilefni sagði m.a.: „Friðlýsingar fornminjar: Þingvellir. 1. Þingbúðarústir allar og allar aðrar fornleifar og gömul mannvirki á hinum forna alþingisstað, beggja vegna Öxarár. 2. Rústir allar þar sem verið hafa forðum býlin Grímsstaðir, Bárukot, Múlakot, Litla-Hrauntún, Ölkofrastaðir og enn eitt, norðvestan undir Hrafnabjörgum.“ Þingbúðarrústirnar hafa verið merktar, en engar hinna síðarnefndu. Þar á Þingvallanefndin þakklátt starf fyrir höndum.
Á megingjánni millum bæjanna, hlutdeild misgengis meginlandsflekanna, var brú. Vestan hennar voru þrjú forvitnileg prestaörnefni; Prestastígur. Presthóll og Prestahraun. Þar myndi verða ástæða til að staldra við um stund. Í Hlíðargjá mótaði fyrir gamalli götu er lá framhjá áberandi háum og sprungnum klapparhól. Þar gæti verið um að ræða nefndan Presthól, enda átti hann að verða neðan við gjána á þessum slóðum. Prestahraunið er augljóst. Það er nýrra en Þingvallahraunið, sem hefur komið úr Eldborgunum ofan við Hrafnabjörg. Prestahraunið hefur hins vegar komið ofan úr Þjófadölum og er mun yngra. Það myndar rana þarna millum Ármannsfells og Hrafnabjarga og líklega hefur stígurinn legið að hluta yfir ranann á leið sinni í átt að Mjóufellunum þar sem Goðaskarð skilur þau að.
Komið var inn á Bjargarvelli, grasflöt suðvestan við Hrafnabjörg. Þar virtist móta fyrir tóftum. Haft var hins vegar sem mið eftirfarandi:
Í Árbók HIF árið 1904 fjallar Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi um Grímsstaði í Þingallasveit undir yfirskriftinni „Rannsókn í Árnesþingi sumarið 1904“.
„Svo segir í Harðarsögu, 5. k.: -Grímur keypti þá land suðr af Kluftum, er hann kallaði Grímsstaðiok bjó þar síðan-. en í 19. k. segir svo: -Hann (Indriði) fór Jórukleif ok svá til Grímsstaða ok þaðan Botnsheiði ok svá í Botn-. Ef það eru sömu Grímsstaðir, sem talað er um í báðum þessum stöðum, þá er annarhvor staðurinn ónákvæmlega orðaður.
Vatnsstæðið við hesthústóftinaKluftir (sandkluftir) er milli Ármannsfells og Mjóufjalla. Suður frá Kluftum er skógi vaxin hraun til Hrafnabjarga. en það hraun er vatnslaust og því eigi byggilegt. Í hraunjaðrinum við Hrafnabjörg er þó á einum stað brunnur af náttúrunni, þ.e. hraunhola með vatni, sem sjaldan þrýtur. Og hjá henni er forn bæjarrúst. Hún er að vísu nokkuð óglögg; þó má sjá, að í henni eru 2 miðgaflar, er skifta henni í 3 herbergi, sem hvert um sig er nál. 3 fðm. langt. Hún liggur nál. frá austri til vesturs og hefir vestasta herbergið dyr á vesturenda, en hin sýnast að hafa dyr á suðausturhliðinni. Breiddin á tóftunum er nál. 3 fðm. Við norðurhliðina vottar fyrir annarri tóft, en einnig hefir dyr á vesturenda. Norðanmegin við þær er lítil tóft með dyr mót norðri. Svo sem 20-30 fðm. norðar er sérstök tóft, talsvert minni. Hún er tvískift, og er það glögt, að miðgaflinn er dyralaus. Hefir austurherbergið dyr á suðausturhlið, en hitt á vesturenda. Lengd hvors um sig er nál. 2 1/2 fðm., breiddin um 2 fðm. Þetta gæti vel verið heimahof. Stekkur gæti hún raunar líka verið, en er þó of lítil til þess á þessum stað; því hér verður að gera ráð fyrir mörgu sauðfé; tún hefir ekki verið og þá ekki heldur kýr.

Presthóll?

Önnur forn bæjarrúst er í hrauninu langt suðvestur frá Kluftum. Þar heitir Litla-Hrauntún. Eigi sér þar vatnsból og eigi er þar heldur túnstæði. Það kæmi nú heim við hinn fyrtalda stað í Harðarsögu (k. 5) að Grímsstaðir, þar sem Grímur litli bjó, hafi verið á öðrum hvorum þessum stað, og þá helzt á bænum við Hrafnabjörg. Og á því máli er Sigurður Vigfússon í Árb. 1880-1, bls. 43.
En svo er annað fornbýli, kallað Grímastaðir, milli Brúsastaða og Svartagils. Hjá henni er gil sem heitir Grímagil. Um þetta getur S.V. í sömu Árb., bls. 98, og ætlar þá, að hér hafi Grímsstaðir raunar verið, því það kemur vel heim við síðartalda staðinn í Harðarsögu (k. 19.). Botnsheiði, sem þar er nefnd, hlýtur að vera sú leið, sem nú er kölluð Leggjabrjótur. Þá er á hana er lagt úr Þingvallasveit, liggur mjög svo beint við að fara hjá Grímagili. Rúst Grímastaða er vestanmegin lækjarins (-austanmegin- er víst prentvilla í Árb. 1880-1, bls. 98). Hún er svo niður sokkin, að mestu gætni þarf til að sjá hana, og hún virðist hafa verið mjög lítil. Hún liggur austur og vestur, hefir dyr á suðurhlið og miðgafl vestan við þær með dyrum við útidyrnar. Vestur-herbergið er 3 fðm. langt, hott aðeins 1 1/2 fðm. Breiddin er 2 fðm. Þó má vera að austurherbergið hafi verið lengra, því endinn er óglöggur, og litlu austar sér á hleðslusteina í flagrotu. Þar skamt frá sér aðra, óglöggva tóft, mjög litla. Önnur forn mannvirki sjást þar ekki.

Skjalbreiður

Nú er spurnsmál hvort meira gildir; að þessi rúst er svo nálægt Botnsheiðar- (nú Leggjarbrjóts-) veginum, eða  Hrafnabjargarrústin…..“
Hér virðist vera um tvennst konar misskráningu að ræða. Líklega hefur skráningaraðilinn ekki farið að hugsanlegum tóftum Litla-Hrauntúns. Í öðru lagi virtist, við fyrstu skoðun, ekki vera um að ræða tófti á eða við hraunbrúnina tilnefndu. Að vísu má gera sér í hugarlund „tóftir“ undir hraunbrúninni á einum stað, en það hugmyndarflug virðist fjarrænt. Hafa ber þó í huga að margt hefur breyst þarna á einni öld. Norðvestan við Hrafnabjörg eru uppblásnar grassléttur í hrauninu, sem áhuagverðar eru til enn frekari skoðunar. Þá má telja líklegt að bær á þessum slóðum hafi verið mun neðar og suðvestar í hraunbrúninni er ætlað hefur verið. Hafa ber í huga að í Þingvallahrauni, allt upp undir Skjaldbreið, hafa verið sagnir um bæjarleifar frá fornri tíð og að svæðið hafi verið “ í miðri sveit“.

Hrafnabjörg

Hrafnabjörg sem slík er merkilegt náttúrufyrirbæri. Ekki er vitað hvort skrifað hafi verið um fjallið, sem ekki er ólíkt Herðubreið; drottningu fjallanna. Hrafnabjörg hafa orðið til við eldgos undir jökli, líklega á síðtíma jökulskeiðsins fyrir u.þ.b. 12.000 árum. Af ummerkjum að dæma virðist fyrst hafa gosið lóðrétt, en eftir því sem leið á gosið hefur hraun náð að renna til hliðanna eftst undir jökulhettunni. Áður en gosinu lauk náði það að bræða efsta lag jökulsins og hraun komst upp á yfirborðið. Eina gosrás út frá meginrásinni má t.d. sjá ofarlega í miðju fjallinu.
Undir vestanverðum Hrafnabjörgum er mikil kyrrð og ró, þrátt fyrir angurværan fuglasögninn. Þrastar-, lóu- og hrossagauks voru hvarvetna á gönguleiðinni.  Fýll verpir og í bjargbrúnunum og hrafninn virðist enn halda tryggð við nafngiftina.
Svæðið er langt í frá fullkannað. Gengnir voru 16 km að þessu sinni og eflaust á eftir að ganga þá miklu mun fleiri áður en leyndardómur Hrafnabjargabæjarins verður afhjúpaður.
Frábært veður. Gangan tók 6 klst og 6 mín.

Heimild:
-Brynjúlfur Jónsson, Grímsstaðir í Þingvallasveit, Árbók hins íslenska forleifafélags 1905, bls. 44-47.
Árb. 1880-1881: 22, 98. Skjal undirritað af MÞ 05.05.1927. Þinglýst 07.09.1927.
-Sbr. Árb 1921-1922: 1-107.
-Einar Á.E. Sæmundsen, upplýsingafulltrúi Þingvöllum.

Blóðberg í Þingvallahrauni