Á skilti við fisk- og beitningaskúrana við Ægissíðu, þ.e. þeirra sem eftir eru eða hafa verið gerðir upp, má lesa eftirfarandi texta undir yfirskriftinni „Gull úr greipum Ægis konungs„:
„Langt fram eftir 20. öldinni var stundað útræði úr vörum á Reykjavíkursvæðinu. Flestar varirnar eru nú horfnar undir uppfyllingar og því fátt sem minnir á þennan þátt í atvinnusögu borgarinnar.
Grímstaðavör er ein af sjö vörum við Skerjafjörð og sú þeirra sem lengst var róið frá. Betri lending var talin vera í Grímstaðavör en í öðrum vörum við Skerjafjörðinn, meðal annars vegna skerja fyrir utan sem drógu úr öldunni. Vörin er kennd við bæinn Grímsstaði á Grímsstaðaholti.
Grímsstaðaholtið afmarkast af Suðurgötu, Starhaga, Ægissíðu og Hjarðarhaga. Grímur Egilsson reisti sér býli á þessu svæði árið 1842 sem hann nefndi Grímsstaði. Fljótlega var farið að kenn aholtið við býlið. Síðasti Grímsstaðabærinn stóð nálægt gatnamótum Dunhaga og Ægissíðu.
Grímsstaðavörin var þekktust fyrir útgerð grásleppubáta síðustu áratugina en áður fyrr var ekki síður gert út á þorsk og ýsu. Þegar mest var voru 16 bátar gerðir út frá vörinni. Þrír til fjórir réru alltaf en hinir um helgar eða þegar tími gafst til frá öðru. Tíðarfarið réði því hvaða daga var hægt að róa. Björn Guðjónsson gerði síðastur út frá Grímsstaðavör eða allt til ársins 1998.
Varnargarður
Á kreppuárunum var veitt fé í atvinnubótavinnu við hafnargerð í Grímsstaðavör. Byrjað var að hlaða garð einn mikinn og atti hann að verða upphaf bryggjugerðar í vörinni. Hætt var við garðinn í miðjum kliðum vegna þess að menn höfðu ekki trú á höfn í vörinni vegna þess hversu mikið útfiri var við fjörðinn. Einnig að í vestanátt mundi flóðið standa beint upp á höfnina. Menn álitu því að vænlegra væri fyrir bátana í Grímsstaðavör að fá teina og sleða en bryggju.
Brautir
Eftir að hætt var við bryggjugerð í Grímsstaðavör voru settir niður teina í vörina. Teinarnir komu að góðu gagni. Meðal annars gat einn maður sjósett bát á eigin spýtur. Áður höfðu venjulega fjórir til fimm bátar farið í róður um svipað leyti á morgnana og hjálpuðust menn þá að við sjósetninguna.
Garðar, Lambhóll og Þormóðsstaðir
Í næsta nágrenni við Grímsstaðavörina voru býlin Garðar, Lambhóll og Þormóðsstaðir. Garðar eru við núverandi gatnamót Ægissíðu og Lynghaga. Byggð reis í Görðum um 1860. Sigurður Jónsson, sem frægur var fyrir umsvifamikla útgerð og fiskvinnslu, var ávallt kallaður eftir húsinu, en hann keypti það árið 1892. Núverandi íbúðarhús í Görðunum er talið vera frá 1881-1883.
Lambhóll var býli úr landi Skildingarness. Það er jafnvel talið að á þessum slóðum hafi verið lambhús frá Skildingarnesi. Núverandi hús í Lambhól eru fyrir neðan Ægissíðu, milli Þormóðsstaða og Garða en nær sjónum.
Þormóðsstaðir eru rétt við Lambhól og Garðana. Í heimildum er fyrst getið um býli þar um 1850 en ekki er ljóst við hvern það er kennt. Á árunum 1912-1927 rak fiskveiðifelagið Alliance í samvinnu við aðra lifrabræðslu á Þormóðsstöðum. Lifrabræðsluhúsið, Brenneríið, var strýtulaga og setti mikinn svip á umhverfið. Á Þormóðsstöðum voru einnig fiskreitir og fiskhús. Timburhúsin þrjú við Starhaga tilheyra fyrrum Þormóðssstaðabyggðinni.
Hrognkelsi
Hrongkelsið er klunnalegur fiskur, með stuttan haus, lítinn kjaft og smáar tennur. Augun eru lítil. Roðið er mjög þykkt og kallað hvelja. Hrognkelsi hefur enga rák. Grásleppan (kvk) er dögggrá að ofan en ljósari á hliðum og hvít eða ljósgræn að neðan. Rauðmaginn (kk) er dögkkgrár að ofan og grágrænn að neðan, en verður rauður að neðan um hrygingartímann. Hrognkelsavertíðin var frá mars til júlí.
Rauðmagi og grásleppa þóttu sæmileg til átu en grásleppuhrogn þóttu aftur móti ólystug fæða lengi vel og voru aðseins etin ef ekki var annað að hafa. Um miðja 20. öldina urðu þau hins vegar eftirsótt útflutningsvara og breytti það stöðu hrognkelsaveiðanna mjög. Umdanfarna áratugi hafa grásleppuhrogn verið háttverðlögð. En neysla á rauðmaga og grásleppu hefur dregist saman.“
(Prentvillur á skiltinu hafa verið leiðréttar í meðfylgjandi texta.)
Á gafli austasta beitarskúrsins skammt frá skiltinu má lesa eftirfarandi á skilti:
„Menningarminjar við Grímsstaðavör
Borgarsögusafn Reykjavíkur hefur umsjón með varðveislu minja við Grímstaðavör. Árið 2018 var gerð fornleifarannsókn á svæðinu, skipt var um jarðveg og möl sett í kring um skúrana til þess að halda gróðri í skefjum og svæðinu snyrtilegu. Stefnt er að því á næstu árum að gera við hvern skúr fyrir sig, styrkja þá og laga, en halda útliti þeirra að mestu óbreyttu. Skúrarnir verða fjarlægðir á eðan á viðgerðum stendur.
Frekari upplýsingar veitir Borgarsögusafn Reykjavíkur.“