Gengið var um Hvassahraunsland, að Hjallhólum, Hjallahólsskúti var skoðaður, og síðan haldið suður yfir Reykjanesbrautina, yfir á Strokkamela, skoðuð hraundrýli, sem þar eru, og litið niður í brugghelli.
Þaðan var haldið yfir Gráhelluhraunið, gengið vestur um það að Gráhelluhelli og síðan upp Þráinsskjaldarhraun að Gvendarborg. Síðan var gengið spölkorn til baka yfir á Rauðhólsstíg og síðan norður hann áleiðis að Reykjanesbraut. Skömmu áður en komið var að brautinni við Kúagerði var beygt til vesturs og haldið að Vatnsstæðinu og staðnæmst við Vatnaborg.
Hjallhólar heita hólar innan við Vatnsgjárnar og liggur Reykjanesbrautin um þá. Í Hjallhólum er Hjallhólaskúti og var hann notaður sem fjárskjól, en skútinn er milli veganna og sést op hans frá Reykjanesbrautinni. Ekki er vitað með vissu af hverju Hjallhólanafnið er tilkomið, en ein heimild telur líklegt að í skútanum hafi verið geymdur fiskur eða annað matarkyns því þar sáust til skamms tíma naglar eða krókar upp undir hellisopinu.
Sunnan við Reykjanesbrautina heitir hraunsléttan Strokkamelur eða Strokksmelur. Hraundrýli, sem á honum er, draga líklega nafn sitt af lögun gíganna, sem líta út eins og smjörstrokkar. Nýrri heimildir kalla gígana Hvassahraunsgíga eða Hvassahraunskatla og er katlanafnið notað í Náttúruminjaskrá. Þeir eru ekki ólíkir gervigígunum (Tröllabörnum) undir Lögbrergsbrekku eða í Hnúkum, nema hvað þeir eru minni í sniðum.
Fast við Strokkamelin að suðvestan er djúpur hellir eða jarðfall og var til skamms tíma girðing umhverfis opið svo kindur hröpuðu ekki það niður. Í hellinum eru grjóthleðslur, en niður í hann er aðeins hægt að komast með því að síga eða nota stiga. Sagt er að hellirinn hafi verið notaður til landasuðu á bannárunum. Frásagnir eru til um ákafa leit yfirvaldsins (Björns Blöndal) að hellinum, en hann reyndist torfundinn. Ofan og sunnan Strokkamels eru Rjúpnadalir. Flatahraun er á milli þess og Afstapahrauns.
Gengið var í gegnum Afstapahraun til vesturs. Var þá komið niður í svonefnda Tóu eitt. Gengið var upp úr henni um Tóustíg, yfir hlaðinn garð í vesturkanti tóunnar og yfir að tungu í vesturkanti hraunsins er nefnist Gráhella. Hún var notuð sem mið af sjó. Í Gráhellukantinum að neðanverðu er lítill skúti, sem heitir Gráhelluhellir.
Á nokkuð háu klapparholti upp og suðaustur af Djúpadal, en suður af Hraunsnefi, er hálfhrunin fjárborg, Gvendarborg. Borgina hlóð Guðmundur Hannesson er seinast bjó á Ísólfsskála, en hann var fæddur árið 1830 og bjó m.a. í Breiðagerði á Ströndinni. Guðmundur er sagður hafa skotið síðasta hreindýrið á Reykjanesskaganum um aldamótin 1900.
Haldið var spölkorn til baka, sem fyrr sagði, og Rauðhólsstígnum fyglt áleiðis að Kúagerði. Skammt áður en komið var þangað niður eftir var beygt til vesturs, áleiðis að Vatnaborginni.
Rétt suðvestur af Kúagerði, sunnan Reykjanesbrautar, er vatnsstæði í grasbala. Sunnan við vatnsstæðið er lágur hóll með miklu grjóti og veggjabrotum og þar hefur verið stór fjárborg fyrrum, Vatnaborg.
Borgin er hringlaga, 10-12 m í þvermál, og innan í grjóthringnum eru hleðslur. Líklega hefur verið stekkur þarna eftir að borgin sjálf lagðist af, enda geta heimildir um Vatnsbergsrétt og Vatnsbergsstekk og einnig Vatnsberg og Vatnaberg. Líklega er örnefnið Vatnaborg það eina rétta yfir hólinn og nafnið jafnframt tengt vatnsstæðinu, sem þarna er.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.
Heimild m.a.
-Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd – Sesselja G. Guðmundsdóttir.