Tag Archive for: Gvendarborg

Gvendarborg

Gengið var um Hvassahraunsland, að Hjallhólum, Hjallahólsskúti var skoðaður, og síðan haldið suður yfir Reykjanesbrautina, yfir á Strokkamela, skoðuð hraundrýli, sem þar eru, og litið niður í brugghelli.

Hvassahraun

Hvassahraun – brugghellir.

Þaðan var haldið yfir Gráhelluhraunið, gengið vestur um það að Gráhelluhelli og síðan upp Þráinsskjaldarhraun að Gvendarborg. Síðan var gengið spölkorn til baka yfir á Rauðhólsstíg og síðan norður hann áleiðis að Reykjanesbraut. Skömmu áður en komið var að brautinni við Kúagerði var beygt til vesturs og haldið að Vatnsstæðinu og staðnæmst við Vatnaborg.
Hjallhólar heita hólar innan við Vatnsgjárnar og liggur Reykjanesbrautin um þá. Í Hjallhólum er Hjallhólaskúti og var hann notaður sem fjárskjól, en skútinn er milli veganna og sést op hans frá Reykjanesbrautinni. Ekki er vitað með vissu af hverju Hjallhólanafnið er tilkomið, en ein heimild telur líklegt að í skútanum hafi verið geymdur fiskur eða annað matarkyns því þar sáust til skamms tíma naglar eða krókar upp undir hellisopinu.

Hjallhólaskúti

Hjallhólaskúti.

Sunnan við Reykjanesbrautina heitir hraunsléttan Strokkamelur eða Strokksmelur. Hraundrýli, sem á honum er, draga líklega nafn sitt af lögun gíganna, sem líta út eins og smjörstrokkar. Nýrri heimildir kalla gígana Hvassahraunsgíga eða Hvassahraunskatla og er katlanafnið notað í Náttúruminjaskrá. Þeir eru ekki ólíkir gervigígunum (Tröllabörnum) undir Lögbrergsbrekku eða í Hnúkum, nema hvað þeir eru minni í sniðum.

Fast við Strokkamelin að suðvestan er djúpur hellir eða jarðfall og var til skamms tíma girðing umhverfis opið svo kindur hröpuðu ekki það niður. Í hellinum eru grjóthleðslur, en niður í hann er aðeins hægt að komast með því að síga eða nota stiga. Sagt er að hellirinn hafi verið notaður til landasuðu á bannárunum. Frásagnir eru til um ákafa leit yfirvaldsins (Björns Blöndal) að hellinum, en hann reyndist torfundinn. Ofan og sunnan Strokkamels eru Rjúpnadalir. Flatahraun er á milli þess og Afstapahrauns.

Hvassahraun

Hraunketill á Strokkamelum.

Gengið var í gegnum Afstapahraun til vesturs. Var þá komið niður í svonefnda Tóu eitt. Gengið var upp úr henni um Tóustíg, yfir hlaðinn garð í vesturkanti tóunnar og yfir að tungu í vesturkanti hraunsins er nefnist Gráhella. Hún var notuð sem mið af sjó. Í Gráhellukantinum að neðanverðu er lítill skúti, sem heitir Gráhelluhellir.

Gvendarborg

Gvendarborg.

Á nokkuð háu klapparholti upp og suðaustur af Djúpadal, en suður af Hraunsnefi, er hálfhrunin fjárborg, Gvendarborg. Borgina hlóð Guðmundur Hannesson er seinast bjó á Ísólfsskála, en hann var fæddur árið 1830 og bjó m.a. í Breiðagerði á Ströndinni. Guðmundur er sagður hafa skotið síðasta hreindýrið á Reykjanesskaganum um aldamótin 1900.
Haldið var spölkorn til baka, sem fyrr sagði, og Rauðhólsstígnum fyglt áleiðis að Kúagerði. Skammt áður en komið var þangað niður eftir var beygt til vesturs, áleiðis að Vatnaborginni.

Vatnaborg

Vatnsbergsstekkur/Vatnaborg. Uppdráttur ÓSÁ.

Rétt suðvestur af Kúagerði, sunnan Reykjanesbrautar, er vatnsstæði í grasbala. Sunnan við vatnsstæðið er lágur hóll með miklu grjóti og veggjabrotum og þar hefur verið stór fjárborg fyrrum, Vatnaborg.

Vatnaborg

Vatnaborg.

Borgin er hringlaga, 10-12 m í þvermál, og innan í grjóthringnum eru hleðslur. Líklega hefur verið stekkur þarna eftir að borgin sjálf lagðist af, enda geta heimildir um Vatnsbergsrétt og Vatnsbergsstekk og einnig Vatnsberg og Vatnaberg. Líklega er örnefnið Vatnaborg það eina rétta yfir hólinn og nafnið jafnframt tengt vatnsstæðinu, sem þarna er.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimild m.a.
-Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd – Sesselja G. Guðmundsdóttir.

Hvassahraun

Hvassahraun.

Gíslaborg

Gengið var að Gíslaborg í Vogaheiði, Hringnum, Lyngólsborg og Auðnaborg í Strandarheiði.

Auðnaborg

Auðnaborg.

Gíslaborg er rústir gamallar fjárborgar á grónum hól. Norðaustan hans eru Gíslholtslágar. Í þeim er ferhyrnd hleðsla, nokkur stór. Ekki liggur í augum uppi hvaða tilgangi þetta mannvirki gegndi, en einn heimamanna, sem var með í för sagðist hafa heyrt að þarna hafi í heiðni verið blótstaður og gæti þetta því verið altari frá þeim tíma. Hann gat þess sérstaklega að þetta væri einungis ágiskun hlutaðeigandi.

Hringurinn

Hringurinn.

Norðaustar er Brunnastaðalangholt. Suðaustan undir því, í svokölluðum Langholtsdal, er falleg hálfhrunin fjárborg, sem heitir Hringurinn eða Langholtsbyrgið. Þótt borgin standi í nokkurri lægð rís hún þó hæst á smáhæð í lægðinni. Best er að nálgast hana úr suðri.
Skammt ofan við Hringinn er klapparhryggur, sem heitir Smalaskáli. Á eystri enda hans er Smalaskálavarða.
Norðaustan hringsins er Hlöðuneslangholt og Lynghóll norðaustan þess. Á sléttlendi neðan hólsins eru rústir gamallar fjárborgar, sem nú er orðin allgróin. Erfitt er að koma auga á borgina svo vel hafa þær samlagast umhverfi sínu. Norðvestan við Lyngholt er Arnarbæli og Kúadalur skammt suðvestar.
Austar eru Geldingahólar með Vatnshólinn í miðið. Gengið var vestan við Nyrðri-Geldingahólinn að löngu grónu holti, nefnt Borg.

Hringurinn

Hringurinn.

Ofarlega í holtinu eru rústir af beitarhúsum, tvær tóftir hlið við hlið og ein þvert á þær. Aðeins neðar í holtinu er greinilega nýrri fjárhústóft. Rétt ofan og austan við efri rústirnar er lítið vatnsstæði í klöpp, vel falið í viki norðan undir lágum hólnum.
Auðnaborgin er skammt norðaustar í grasmóa sunnan í grónum hól. Hún er nú nokkuð heilleg fjárrétt með stórum almenningi og tveimur dilkum, en uppi á hólnum við réttina eru rústir af a.m.k. tveimur kofum. Lítill stekkur er rétt neðan og vestan við borgina, en engar heimildir eru til um nafn hans.
Gengið var norður um Fögrulág með Skálholt á vinstri hönd og niður á Þórustaðastíg þar sem hann liggur upp í heiðina ofan Strandarvegar.
Auk fyrrnefndra fjárborga eru fleiri slíkar í heiðunum milli Reykjanesbrautar og Strandavegar. Nokkru austan við Auðnaborg er t.a.m. Þórustaðaborgin og austan hennar Staðarborgin. Skammt vestan Vogavegar er einnig Gvendarborg. Þær eru því a.m.k. sjö talsins. Ekki tekur nema u.þ.b. tvær klukkustundir að ganga svæðið frá Gvendarborg í vestri að Staðarborg í austri.

Heimildir:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – Sesselja G. Guðmundsdóttir – 1995.

Þórustaðaborg

Þórustaðaborg.

Spákonuvatn

Genginn var hringur frá Rauðhól í Afstapahrauni, að Oddafelli og inn með því að Driffelli, með Keili og áfram niður að Rauðhól.

Núpshlíðarháls

Á Núpshlíðarhálsi. Spákonuvatn og Keilir fjær.

Margt bar fyrir augu á þessari leið, sem jafnframt er að hluta til mikið notuð af fólki, sem gengur að og frá Keili. Gönguleið þessi er mjög auðveld, einkum með Oddafellinu og frá Keili niður að Rauðhól.

Á leiðinni upp að Rauðhól mátti sjá á hægri hönd, uppi á klapparbrúnunum utan við nýja hraunið, fallega hálffallna fjárborg, nefnd Gvendarborg. Borgina hlóð Guðmundur Hannesson er seinast bjó á Ísólfsskála og sá er sagður er hafa skotið síðasta hreindýrið á Reykjanesi.

Keilir

FERLIRsfélagar – Keilir að baki.

Margir hafa gengið á Keili eða ætla sér það. Sumir fara bara til að ganga, en eins og sjá má er margt að skoða þegar gengið er á fjallið, hvort sem farið er frá Oddafelli eða Rauðhól.
Þegar gengið er til vesturs norðan Oddafells, um svonefndan Oddafellsselstíg, er ljóst að þar fyrir innan hafa verið að a.m.k. tvö sel eða sel frá mismunandi tímum. Selin, eða selið, voru frá Minni-Vatnsleysu.
Þau eru greinilega bæði mjög gömul. Gengið er yfir fyrsta stekkinn þegar komið er að vikinu eftir fyrstu hæðina. Sér þaðan inn að Höskuldarvöllum.

Oddafellsel

Oddafellsel – stekkur.

Skammt frá stekknum er tótt og síðan annar hlaðinn stekkur á bak við hraunhrygg. Innar sjást vel tvær tóttir, sem nefna má Oddafellssel nyrðra.
Þar við virðist vera gamall brunnur. Fjórir stígar liggja yfir hraunið, sá fyrsti skammt fyrir innan fyrstu tóttirnar. Hann er greinilega nýjastur syðst og mest farinn af fólki, sem gengur á Keili. Ef haldið er áfram inn eftir hraunkantinum eru greinilegar tóttir, sem nefna má Oddafellssel syðra.
Ofan þeirra eru fallega hlaðnar kvíar utan í hraunkantinum og svolítið ofar má sjá tvöfaldan hlaðinn stekk utan í kantinum. Ef farið er upp á hraunbrúnina ofan við fyrstu kvíina má glöggt sjá gamla stíginn í gegnum hraunið. Sá stígur norður yfir hraunið sameinast síðan stígnum, sem liggur yfir það framar og fyrst var komið að.

Keilir

Keilir – stígur frá Oddafelli.

Enn ofar með Oddafellinu má sjá stíg liggja norður yfir hraunið í átt að Keili, en hann virðist vera nýrri en stígurinn frá seljunum og annar stígur, er liggur til norðurs skammt vestar, á móts við vikið áður en komið er að vestasta Oddafellinu, eða Fjallinu eina. Þar fyrir ofan er Hverinn eini. Hann var einn mesti gufuhver landsins um tíma, en nú er þar einungis litskrúðug lægð í hraunið og smá gufustrókur í henni miðri. Við hverinn er smágert hverahrúður í flögum við 4 eða 5 eldri hveraop.

Hverinn eini

Hverinn eini.

Frá hvernum má sjá í suðaustri inn í Sogagíg þar sem Sogaselið er, nokkrar tóttir og fallega hlaðinn stekkur utan í norðurhlið gígsins. Þarna var sel frá Kálfatjarnarhverfi og jafnvel Krýsuvík. Í suðri sér inn á Selsvellina, en suðvestast á völlunum eru ein þrjú sel og tveir hlaðnir stekkir. Skammt úti í hrauninu er enn ein tótt og lítil kví. Á ská á móti á völlunum austanverðum, undir hálsinum, eru þrjár tóttir eldra sels. Á Selsvöllum var selstaða frá bæjum í Grindavík. Frá þessum stað er um klukkustunda sérstaklega greiðfær gangur inn eftir völlunum og til baka. Tveir lækir renna eftir völlunum. Einnig er auðvelt að ganga frá þessum stað upp í Sogagýg.

Þórustaðastígur

Þórustaðastígur við Selsvelli.

Efsti stígurinn norður yfir hraunið liggur í átt að norðausturhorni Driffells og er hann styttstur stíganna. Að honum gengnum og þegar komið er yfir hraunið er leiðin greið að uppgöngustíg á Keili.
Margir halda að Keilir sé gamalt eldfjall, en svo er ekki. Hann hefur aldrei gosið. Strýtumyndað fjallið varð til við gos undir jökli og er úr móbergi með dólerít-klöppum efst uppi. Litlir mórauðir móbergstindar standa fyrir norðan rætur hans og eru þeir kallaðir Keilisbörn.

Ef gengið er austur eftir stígnum, sem liggur að uppgöngunni að Keili, er komið að vörðu.

Gvendarborg

Gvendarborg.

Við hana má sjá gamlan stíg, Þórustaðastíg, sem liggur til norðurs niður að Þórustöðum á Vatnsleysuströnd. Ef honum er fylgt kemur annar stígur inn á hann skammt norðar, Rauðhólsselsstígur. Liggur hann þar til austurs. Við hann er há og mjó varða. Stígurinn er vel greinilegur.
Þegar komið er niður grasbrekkur og að hraunkanti liggur stígurinn norður með kantinum.

Göngufólk á Keili styttir sér stundum leið með því að fara upp á hraunið þegar komið er að sléttri klöpp og ganga síðan áfram þar til austurs sunnan Rauðhóls.

Rauðhólssel

Rauðhólssel.

Ef hins vegar haldið er haldið áfram niður með hraunkantinum er gengið yfir gamlan stekk utan í sléttri skjólhellu og þaðan liggur leiðin niður að Rauðhólsseli. Það birtist í grashvammi undir hólnum.
Sel þetta var frá Stóru-Vatnsleysu. Sagan segir að ekki hafi verið vært í selinu eftir sextándu vikur sumar vegna draugagangs. Ekki er að sjá neitt vatnsból við selið, en þar nálægt má vel finna aðalbláberjalyng í þröngum gjám. Í norðanverðum hvamminum er yngsta tóttin og önnur eldri í honum miðjum. Þaðan er hægt að fylgja stígnum áfram til austurs með norðanverðum Rauðhól að upphafsreit.
Frábært veður – Gangan tók um 2 og 1/2 klst.

Sogasel

Sogasel – uppdráttur ÓSÁ.

Gvendarborg

Gengið var að Gvendarborg, um Þráinsskjaldarhraun að Rauðhólsseli.

Kolhólasel

Kolhólasel.

Spurnir höfðu borist af tóftum í lítilli dalkvos nokkru suðvestan borgarinnar. Ekki er að sjá að þær hafi verið skráðar eða ljóst hvaða tilgangi þær hafi þjónað. Um er að ræða land frá Vatnsleysu svo líklegt má telja að þessi selstöð hafi tilheyrt þeim bæ. Nefndum hana Kolhólasel.
Eftir nokkra göngu fram og aftur um svæðið fundust minjarnar norðvestan undir hæðardragi. Gróið er undir hæðinni. Þrjár tóftir eru nokkuð þétt saman og enn ein skammt vestar. Hún gæti hafa verið stekkur, en hinar hús.

Kolhólasel

Kolhólasel – uppdráttur ÓSÁ.

Ekki er ósennilegt að þarna hafi verið sel fyrrum, en það fallið í gleymsku. Þannig hefði og orðið um mörg hin selin í heiðinni ef ekki hafi komið til áhugi og dugnaður örfárra heimamanna við að leita uppi og varðveita staðsetningu þeirra.
Haldið var upp heiðina austan Þórustaðastígs með stefnu í Rauðhólssel. Það er frekar lítið sel frá Vatnsleysu. Í Jarðabókinni 1703 er þess getið að oft hafi ekki verið vært í því vegna draugagangs. Líklegt er einnig að vatnsskortur hafi háð búskapnum þarna í þurrkum.
Gengið var til baka um Rauðhólsselsstíg, norður með vestanverðum hraunkanti Afstapahrauns.
Bakaleiðin var og nýtt til berja, enda af nógu að taka.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Rauðhólssel

Rauðhólssel.

Hvassahraun

Erindi þetta var flutt í Kálfatjarnarkirkju á menningardegi í kirkjum á Suðurnesjum 23.10.05.

Ólafsgjá

Ólafsgjá og Ólafsvarða.

„Örnefni er dýrmætur arfur sem geymir upplýsingar um sögu, tungu og lifnaðarhætti horfina kynslóða. Örnefni hafa oft augljósa tilvísun til landslags, náttúrunnar og eða tengt atburðum svo sem slysförum. Örnefni er nauðsynleg til að staðsetja sig og aðra og mun persónulegri heldur en gerfihnattarstaðsetning GPS. Samantektin er um nokkur örnefnum sem vakið hafa áhuga höfundar.

Byrjum ferðina inn við landamerki Hafnarfjarðar og Vatnsleysustrandarhrepps, Markaklettur er þar við Hraunsnes. Örnefnin; Markaklettur, Markhella, Markhóll, Markhelluhóll og Markavarða eru öll notuð til aðgreiningar á eignalöndum, þ.e. þau afmarka land hvers bónda.

Upp í Almenningum ofan Hvassahrauns er örnefnið Brennhólar, þar var gert til kola í eina tíð.
Önnur örnefni í Strandarheiðinni sem vísa einnig til kolagerðar eru; Kolgrafarholt, Kolhólar, Kolhólagjá og Kolhóll. Þessi örnefni eru flest í Vatnsleysulandi sem segir að fyrr á öldum hafi verið meiri skógur þar en sunnar í heppnum

Vegrið er ofan Reykjanesbrautar við Hvassahraun, þar eru; Vatnsgjárnar, Helguhola, Þvottargjá og Ullargjá sem augljóslega segja til um notkun. Þar nálægt er Strokkamelur með Strokkunum, sem bera nafn sitt af lögun sinni. Þetta eru hraundrýli, hol að innan og líkjast smjörstrokkum. (Hvassahraunskatlar). Þá er þar næst Brugghellir, þar var soðin landi (heimaunnið brennivín) á bannárunum á síðustu öld.

Kálfatjörn

Ólafur Erlendsson við Landabrunn.

Mestu undirlendin í hreppnum eru Þráinskjaldarhraun, gamalt hraun sem nú er heiðin, vestan við Afstapahrauni og að Vogastapa. Ekki er vitað af hverju hraunið heitir þetta.

Búðavík, Búðabakkar eða Búðaflatir heitir í Vatnsleysuvík. Þar var fyrrum verslunarstaður og höfn Hansakaupmanna sem voru þýskir. Hafnhólar eru við fjarskiptamöstrin á Strandarheiðinni og tengjast höfninni á Vatnsleysu fyrrum.

Upp með Afstapahraunskanti að vestan miðja vegu til fjalla er hringlaga hlaðin fjárborg, Gvendarborg, hlaðin af Guðmundi Hannessyni sem bjó hér í Breiðagerði, annað örnefni hér er kennt við son hans Brand. Komun að því síðar.

Efstu hjallar heiðarinnar heita Brúnir, þar er Hemphóll, „þjóðsagan“ segir að prestarnir á Stað og Kálfatjörn hafi átt sameiginlega hempu og var þetta afhendingarstaður hennar. Hemphóll er þó ekki miðja vegu milli Staðar og Kálfatjarnar og sagan er ótrúleg enda hóllinn mikið úr leið.

Förum nú niður heiðina í stefnu á Vogana, þar er svæði sem heita Margur Brestur og Huldur og vísa til margra gjáa og sprungna á svæðinu sem sumar geta verið huldar (faldar) þegar snjór liggur yfir og auðvelt að hrapa niður í þær.

Þráinsskjöldur

Í gíg Þráinsskjaldar.

Þar suður af er Ólafsvarða og Ólafsgjá, tilurð þess örnefnis er í grófum dráttum þessi. Árið 1900 bjó í Hlöðuneshverfi, Ólafur Þorleifsson, þá 39 ára gamall. Rétt fyrir jól það ár fór Ólafur í heiðina að leita kinda en skilaði sér ekki heim um kvöldið. Hafin var leit að Ólafi daginn eftir með 30-40 mönnum. Til Ólafs hafði sést við Kálffell í Vogaheiði daginn áður, þrengdi það leitarsvæðið dálítið. Leitað var á Aðfangadag og aftur milli jóla og nýárs, án árangurs. Liðu nú 3 áratugir.

Á jólaföstu árið 1930 þegar verið var að smala heiðinna misstu smalarnir þrjár kindur í sprungu og þurfti því að fara aftur daginn eftir með reipi og annan búnað til að síga eftir fénu. Sigmaður var Rafn Símonarson frá Austurkoti á Ströndinni, tvær kindanna náðust upp úr gjánni á lífi, en þar ofan í fann Rafn líka tvö brot af göngustaf sem hann tók með sér til byggða. Um kvöldið fór Rafn að Halakoti til Ágústar bónda þar og biður hann að lýsa staf Ólafs (þá voru liðin 30 ár frá hvarfi hans). Lýsing Ágústar passaði við stafbrotin. Var nú ekki meira gert í bili. Um vorið þegar snjóa leysti héldu 4 menn að gjánni og seig Rafn aftur niður, þá sá hann þar strax mannabein og þóttust menn þess fullvissir að þar væri um bein Ólafs að ræða. Beinin voru tínd saman og grafin að Kálfatjörn.

Hvassahraun

Brugghellir við Hvassahraun.

Yfirgefum nú Ólafsgjá og höldum í suðvestur að Stóru-Aragjá en yfir hana liggur gamla þjóðleiðin til Grindavíkur Skógfellavegurinn, þar heitir gjáin Brandsgjá. Brandur þessi var sonur Guðmundar sem hlóð Gvendarborg sem ég nefndi áðan.
Brandur bjó á Ísólfsskála austan við Grindavík og var kallaður Skála-Brandur.
Í byrjun jólaföstu 1911 fór Brandur til Hafnarfjarðar að selja rjúpur og kaupa inn fyrir heimilið. Dagleið var frá Grindavík til Hafnarfjarðar, og gisti Brandur því í Hafnarfirði og fór að snjóa um nóttina. Á heimleiðinni kom hann við hjá Benedikt Péturssyni (Bensa) í Suðurkoti í Vogum og var langt liðið á dag þegar hann lagði á Skógfellaveginn, hnédjúpur snjór var þá kominn á heiðinni. Honum gekk förin ágætlega í byrjun en margar gjár eru þarna á leiðinni. Þegar hann kom að Stóru-Aragjá sem er síðasta gjáin sem hann þurfti að fara yfir vildi svo illa til að hann missti annan hestinn ofan í gjánna. Þá snýr hann til baka að Suðurkoti í Vogum eftir aðstoð. Bensi útvegar honum þrjá menn sem fara upp eftir í myrkrinu, með byssu meðferðis. Hesturinn náðist ekki upp og var því aflífaður. Hætt var að snjóa og komið harðnandi frost. Skiljast nú leiðir Vogamanna og Brands.
Brandur komst heim að Ísólfsskála undir morgun, þá illa kalinn á báðum fótum. Hann var sendur á Keflavíkurspítala á Þorláksmessu og kom ekki heim aftur fyrr en sumardaginn fyrsta árið eftir, þá orðin örkumla maður og hætti búskap og flutti til Hafnarfjarðar.

Förum næst að Stapanum, Reiðskarð heitir þar sem Stapagatan (gamla þjóðleiðin) fer upp Stapann. Næsta skarð vestan við Reiðskarð heitir Kvennagönguskarð. Karlmenn fóru Reiðskarðið enn kvenfólkið valdi frekar Kvennagönguskarðið og gat þá verið í friði og úr augnsýn karlanna um smá stund.

Förum nú til baka í Brunnastaðahverfi. Í Suðurkotstúni er flöt ein sem heitir Pelaflöt, hún mun hafa verið seld fyrir einn pela af brennivíni segja örnefnaskrár.

Endum nú ferðina í túnfætinum á Kálfatjörn, þar heitir Landabrunnur, þó er ekki neinn landi í honum heldur er um lítið vatnsstæði að ræða ofan við svonefndan Landamóa.“

Brandsgjá

Vörður við Brandsgjá.