Í örnefnalýsingum fyrir Óttarsstaði er getið um þrjá hella eða skúta á tiltölulega afmörkuðu svæði í Óttarsstaðalandi. Fyrst segir frá Sjónarhólshelli sunnan undir Sjónarhól þeim er áheldur Sjónarhólsvörðu; „fjárhellir í stórum krika. Hann hefur verið yfirreftur, en nú er það dottið mikið niður“. Rétt norður af hólnum eru tvær vörður; Ingveldarvörður. Ekki er vitað hvernig stendur á nafngiftinni. Jakobsvarða er austar, á Jakobshæð. Norðan undir hæðinni er ævargamall stekkur eða rétt. Enn mótar vel fyrir hleðslunum.
Vestan við Rauðamel, sem nú er horfinn, en í staðinn komin djúp malargryfja, er mikil klapparhæð, sem nefnist Smalaskáli. Uppi á hæðinni er skotbyrgi eða leifar eftir smalahús. Syðst í hæðinni er Smalaskálaker, sporöskjulaga jarðfall með rauðamelshól í botni. Norðvestan undir hæðinni er Smalaskálaskúti, „hellir, sem fé lá í. Þar var skógarhrísla stór, sem óx fyrir hellismunnanum“: Suðvestur af Smalaskála er fjárborgin gamla; Borgin, fráþví fyrir aldamót. Kona, er Kristrún hét og bjó á Óttarsstöðum, hlóð hana ásamt vinnumanni sínum.
Skógargata (seljagata Óttarsstaða) lá suður yfir Rauðamel litla og austan við Rauðamel stóra (gryfjan), en Suðurnesjavegurinn liggur á milli Rauðamelanna. Austan við Rauðamel stóra er Gvendarbrunnshæð og þar liggur landamerkjalínan í Gvendarbrunn, sem er stór hola í klöpp við elsta veginn (Alfaraleiðina) milli Innnesja og Útnesja. „Í Gvendarbrunnshæð vestanverðri er fjárhellir, kallaður Gvendarbrunnshellir“.
Í annarri örnefnalýsingu segir að Smalaskálahellir sé ofan við Jakobsvörðu, „upp undir vegi, neðan Smalaskála. Þar austar, rétt neðan vegar, er Nónhólakerið, sem er skammt frá Rauðamel“. Í þessari lýsingu er hvorki minnst á Sjónarhólshelli né Gvendarbrunnshelli, en getið bæði um Sjónahól og Sjónarhólshæðir „upp af Vatnagörðum“, sem eru á vesturmörkum Óttarsstaða að Lónakotsmörkum. Við þau, Óttarsstaðamegin er Vatnagarðahellir (Vatnagarðafjárskjól/-skúti). Hellisins er getið bæði í lýsingum fyrir Óttarsstaði og Lónakot. Lónakotsfólkið mun þó hafa nýtt hann fyrir fé og stundum jafnvel til annars. Í örnefnalýsingu fyrir Straum er bæði getið um Gvendarbrunnshæð og Gvendarbrunn, en ekki um Gvendarbrunnshelli. Hann er rétt utan við austurmörk Straums, en mörkin liggja bæði um hæðina og brunninn.
Gengið var fyrst frá Reykjanesbraut niður að Sjónarhólshelli. Hann er reyndar suðaustan við Sjónarhól, a.m.k. miðað við nútímaáttir. Hlaðið er fyrir skúta sunnan í stóru ílöngu jarðfalli. Um er að ræða mikla hleðslu. Skútinn hefur verið allgott skjól og rúmar fjölda fjár.
Þá var gengið til suðausturs, áleiðis að Smalaskála. Ofan við Reykjanesbrautina, samhliða henni, liggja bæði gamli Keflavíkurvegurinn sem og gamli Suðurnesjavegurinn. Keflavíkurvegurinn hefur að vísu verið lagður ofan í Suðurnesjaveginn, en sumsstaðar má sjá þann síðarnefnda hlyggjast út undan þeim fyrrnefnda.
Upp undir Suðurnesjaveginum eru hleðslur fyrir skúta í grónu jarðfalli. Varða er skammt frá því. Gróið er fyrir opið og birkihríslur loka honum að hluta. Skúti þessi er norðvestan við Smalaskála, „upp undir (gamla) vegi“. Hér gæti verið um svonefndan Smalaskálaskúta að ræða.
Þá var haldið áfram til suðausturs vestan Rauðamels, í áttina að Gvendarbrunnshæð. Gengið var yfir á Alfaraleiðina og henni síðan fylgt til vesturs uns komið var að Gvendarbrunni. Austar eru Draugadalir og vestar eru Löngubrekkur. Brunnurinn er, eins og fyrr var lýst, „stór hola í klöpp“. Umhverfis holuna er gróið gras og einhver tíma hefur verið þar varða, sem nú er fallin. Hleðsla undir girðinguna á mörkum Óttarsstaða og Straums liggur þarna upp hraunið. Norðvestan við brunninn, undir hæðinni, er vel gróið. Þar er Gvendarbrunnshellir. Nokkrar hleðslur eru fyrir skúta og þar hefur verið þokkalegt fjárskjól þótt það hafi verið mót suðri.
Hraunið þarna er stórbrotið, en tiltölulega auðvelt yfirverðar. Ekki er ólíklegt að á svæðinu kunni að leynast ýmislegt forvitnilegt. T.d. var gengið fram á rýmilegan skúta í hrauninu skammt norðvestan Smalaskála (Smalaskálahæðar). Hann er niðri í litlu jarðfalli. Í því vex myndarleg birkihrísla. Þegar farið var niður í jarðfallið og undir hrísluna kom opið í ljós. Fyrir innan er hið ágætasta skjól.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mín.