Færslur

Háaleiti

“Að undanförnu hefur Háaleiti á Miðnesi oft borið á góma og varðan Kalka, sem þar stóð.
Hafa komið fram ýmsar sagnir í sambandi haaleiti-231við það, en hjer kemur ein, sem ekki hefur verið minst á og mun fáum kunn. Er hún tekin eftir frásögn Stefáns Filippussonar, en hann hefur hana eftir ömmu sinni, Þórunni Sigurðardóttur frá Steig.
Þegar Gísli Jónsson frá Hlíð í Skaftártungu og Þórunn Sigurðardóttir frá Steig bjuggu á Býarskerjum á Suðurnesjum, tóku sig til tveir menn að grafa í Háaleitisþúfu, því að almannarómur var, að þar væri fjársjóður fólginn. — Gengu og þær sögur, að þangað sæi stundum eld, og ekki þótti fýsilegt að vera þar einn á ferð í myrkri vegna reimleika. — Annar þessara manna var úr Höfnum, en hinn úr Keflavík. Sagt er að þeir hafi fundið í þúfunni kút með peningum. En áður en þeir kæmist á brott með kútinn kom að þeim draugur og rjeðist á þá. Varð þar harður aðgangur, en Keflvíkingurinn komst þó undan með kútinn meðan Hafnamaður var að glíma við draugsa. Leikar fóru svo að Hafnamaður komst úr klóm afturgöngunnar, en þá á hún að hafa sagt: „Jeg skal hitta þig þótt seinna verði.”
Leið nú og beið. En eitt sinn var þessi maður staddur í Keflavík, og ætlaði heim til sín suður í Hafnir undir kvöld. Var orðið dimmt af nótt áður en hann komst á stað, en nokkurt tunglsljós. Kunningi hans bauðst þá til að fvlgja honum suður á heiðina. Lögðu þeir svo á stað, en ekki höfðu þeir langt gengið er Hafnamaður sagði:
bolafotur-234„Nú þarftu ekki að fylgja mjer lengra. Jeg sje að maður er hjer á undan okkur. Mun jeg ná honum og fæ þá samfylgd.” Við þetta skildu þeir og fór Keflvíkingurinn heim til sín. En nokkuru seinna þetta sama kvöld voru drengir tveir frá Bolafæti í Ytri-Njarðvíkum sendir til að reka fje upp úr fjöru. Heyra þeir þá neyðaróp og að einhver biður guð ákaft að hjálpa sjer. Þetta heyrðu þeir hvað eftir annað. Urðu þeir þá hræddir og flýttu sjer heim, en þorðu ekki að segja frá þessu, því að þeir óttuðust að þeir yrðu þá sendir til að grenslast um þetta.
Þessa sömu nótt var Erlingur Benediktsson, hálfbróðir mömmu og stjúpsonur Gísla á Býjaskerjum, sendur til Reykjavíkur eltir meðulum. Var hann kominn inn fyrir Keflavik áður en dagur rann. Gekk hann þar með sjónum, því að þar var betri færð. Á leið hans varð síki eða grafningur, sem hann stökk yfir. En um leið og hann stekkur sjer hann að maður liggur þar í niðri. Erlingur dró hann þá upp úr og var maðurinn steindauður og allur rifinn og kraminn. — Lagði Erlingur líkið til og breiddi klút sinn yfir andlitið. Fór hann svo til næsta bæjar og sagði hvað hann hefði fundið.

baejarsker-231

Helt hann svo áfram för sinni til Reykjavíkur. En líkið, sem hann fann þarna, var af Hafnamanninum. Var það mál manna að Háaleitis-draugurinn hefði vilt um fyrir honum og elt hann þarna niður að sjó og drepið hann þar til að launa fyrir peningaránið.
Nú er að segja frá Erlingi að næstu nótt í sama mund kemur hann á heimleið að þessum stað. Var þá draugsi þar fyrir. En vegna þess að Erlingur var ramskygn gat draugurinn ekki vilt um fyrir honum, en elti hann fram á bjartan dag. Og upp frá þessu sótti draugurinn jafnan að Erlingi þegar skyggja tók. Sagði hann þá móður sinni frá þessu, þótt ekki væri vandi hans að segja mönnum frá því, sem fyrir hann bar. Þórunn amma mín sagði þá:
„Jeg skal láta þig fá tvo silfurhnappa, sem jeg á. Með þeim skaltu hlaða byssu þína. Og þegar dimmt er orðið skaltu fara út, og þar sem draugurinn getur ekki dulist fyrir þjer, skaltu skjóta á hann silfurhnöppunum og sjá hvernig fer.”
Erlingur var góð skytta og hafði margan sel skotið á Býaskerjum. Fór hann nú að ráðum móður sinnar og hlóð byssuna með silfurhnöppunum.
Var þess þá skammt að bíða að hann hitti draugsa og skaut á hann. En við það brá svo að kalka-243draugurinn hvarf og varð Erlingur hans aldrei var framar.”

Í örnefnaskrá frá Keflavík segir um vörðuna á Háaleiti: „Það voru til ýms örnefni hérna í heiðinni, nálægt þar sem Flugturninn er, þar var kallað Háaleiti og Ameríkanarnir þýddu þetta á sitt tungumál og kölluðu það High Lady, en þar var varða í gamla daga, sem kölluð var Kalka, hún var hvít á litinn. Hennar er getið í þjóðsögum, því þar voru peningar grafnir, m.a., og þar sáu menn loga og loga, þar sem peningarnir voru. Þegar að var komið, þá var allt slokknað“.

Heimildir:
-Lesbók Morgunblaðsins, 12. júní 1949, bls. 290.
-Örnefnaskrá Keflavík. Viðtal við Þorgrím Eyjólfsson um örnefni og fleira í Keflavík og nágrenni. Flutt 4. ágúst 1978.

Háaleiti

Háaleiti – Áki Granz.

Camp Turner

“Nálægt þrem kílómetrum í suðvestur frá Ytri-Njarðvíkum er melhrygur einn langur og lágur, sem kallaður er Háaleiti. Austan til á mel þessum er grasi gróin þúfa, og í kringum þúfuna er dálítil grasflöt.

haaleiti-233Eitt sinn bjó í Höskuldarkoti í Ytri-Njarðvíkum maður, sem Erlendur hét. Þetta ár var hjá Erlendi haustmaður og vetrarmaður Guðmundur nokkur Guðmundsson. Var hann sagður ógurlegt heljarmenni að burðum, að minnsta kosti þriggja til fjögra manna maki. Hann var kallaður Guðmundur klárt, en viðurnefni sitt fékk hann af því, sem nú skal greina. Þá er Guðmundur var ungur, gerðist hann eitthvað lítilsháttar brotlegur við friðhelgi eignarréttarins, en þó að brotið væri lítið, þá varð Guðmundur að hlíta dómi réttvísinnar og í orðsins fyllsta skilningi að kenna á vendi laganna. Var honum á manntalsþingi klappað 27 sinnum, en er því var lokið, sagði Guðmundur þessi minnilegu orð: “Þá er það nú klárt á þessari jörð, piltar”.

Upp frá því var hann alltaf kallaður Guðmundur klárt. En þá er Guðmundur minntist þessa atburðar síðar, fórust honum svo orð, að þetta hefðu verið mjúk meyjarklöpp, og mun það hafa verið sannleikur, því að sá, er verkið innti af hendi, sagði síðar svo frá, að hann hefði ekki þorað annað en haga því að vilja Guðmundar. Haust þetta gætti Guðmundur sauðfjár fyrir Erlend, húsbónda sinn; varð hann daglega að sækja féð seinni hluta dags suður í Hafnaheiði og Miðnesheiði, og varð hann því oft seinn fyrir um heimreksturinn.

haaleiti-234

Eitt kvöld snemma á jólaföstu var Guðmundur ekki kominn heim, þá er komið var langt fram á vöku. Fór Erlendur þá út að vita, hvort hann yrði ekki hans var, en er hann kom út fyrir túngarðinn, sér hann að allt féð er komið heim að görðum, en Guðmund sér hann hvergi. Hrópar Erlendur þá og kallar á hann en fær ekkert svar. Þykir Erlendi þetta kynlegt mjög, og telur víst, að eitthvað hafi orðið að honum. Bregður hann sér heim örskamma stund og leggur því næsta af stað að leita Guðmundar.
Tungl óð í skýjum, en jörð var alauð, svo að dimmt var úti og draugalegt. En er Erlendur kemur suður undir Háaleiti, sér hann í myrkrinu hilla undir mann, sem er að glíma við eitthvað. Erlendur gengur nú nær og sér, að þetta er Guðmundur, en ekki getur hann greint þann, sem hann var að glíma við; stóð hann þó á grasflötinni örskammt frá þeim. Verður Erlendi nú ósjálfrátt litið niður fyrir fætur sér og sér hann þá, að öll grasflötin er ein silfurpeningabreiða. Verður honum það nú, sem mörgum myndi verða, að honum þótti féð fýsilegt. Gleymir hann því alveg að hnýsast frekara í hagi Guðmundar og sópar saman peningunum í mesta ofboði, fyllir alla vasa og flýtir sér að því búnu sem mest hann má heim til bæjar aftur.

Bolafotur-2231

En nú er að segja frá Guðmundi klárt. Þá er hann kemur sunnan úr Stafnesshrauni, sér hann í myrkrinu einhverja hrúgu á Háaleitisþúfunni; dettur honum fyrst í hug, að þetta sé örn, en er hann er rétt kominn að þessu, hverfur það sjónum hans, en er í sama vetfangi komið upp á herðar honum. Nær Guðmundur samt handfestu á fjanda þessum, og kastar honum fram fyrir sig, en samstundis er hann kominn upp á herðar Guðmundi aftur. Á þessu gengur þannig alla nóttina, að jafnharðan sem Guðmundur kastar draugnum af sér, er hann kominn upp á herðar honum aftur. Loks er komið var að dögun, getur Guðmundur kastað óvætti þessari á klett einn, er áflogin höfðu borist að. Þar hvarf hún honum niður í jörðina, en sagði um leið með dimmri og draugslegri rödd: “Þig skal aldrei bresta peninga fyrir vín, fyrir brennivín”.
Þetta var það eina, sem Guðmundur heyrði til draugsins allan þann tíma, er þeir áttust við. Þá er Guðmundur var búinn að jafna sig eftir öll áflogin, var orðið bjart; tíndi hann þá saman nokkuð af peningunum, aðallega smápeningum, er Erlendur hafði skilið eftir í flýtinum. En seinna mun Erlendur þó hafa orðið að skila Guðmundi aftur nokkuru af peningunum.

haaleitisþufa-231

Guðmundur klárt var eftir þetta mörg ár í Kotvogi í Hafnahreppi. Sagðist honum svo frá viðureign sinni við drauginn að hann hefði verið háll eins og áll, – “en út yfir tók þó ólyktin; hún ætlaði mig alveg að drepa”, sagði Guðmundur.
Aldrei virtist Guðmundur eiga neina peninga til og jafnan var hann fátækur, en samt gat hann alltaf keypt vín. Meðan hann var í Kotvogi fór hann á hverjum laugardegi til Keflavíkur og koma þaðan alltaf klyfjaður af víni.
“Ketill, má eg skreppa inn fyrir móann, að sækja í einn ask?” sagði Guðmundur á hverjum laugardegi. Guðmundur drakk aldrei annað en 16 gráða romm, og blandaði það í púns í grautaraski sínum. Því talaði Guðmundur um að sækja í einn ask.
Guðmundur dó 1869, og sögðu menn, að vínnautn hefði flýtt fyrir dauða hans.”

Heimild:
-Rauðskinna I 23, Jón Thorarensen, bls. 42-46.

Háaleiti

Tröllin á Háaleiti.