Tag Archive for: Hádegishólar

Hádegishóll[ar].

Í „Fornleifaskrá Kópavogs – Enduskoðuð 2019“, segir m.a. um rúst í Hádegishólum:

„Hádegishólar – rúst
Norðan undir malarvegi, um 60 m SSV af stupu á Hádegishól. Í holti.
Fífuhvammur (Hvammur/Hvammskot).

Rúst.

Hádegishóll

Hádegishóll – minjar.

4,5 x 8 m (NNV – SSA).
Veggir úr grjóti og torfi, um 1 – 1,5 m breiðir og 0,2 – 0,5 m háir. Tvö hólf eru á rústinni (A og B) og jafnvel það þriðja (C). Dyr eru á hólfi A til N og á hólfi C í sömu átt.
Gólf í hólfi B er niðurgrafið.
Hólf C er á kafla niðurgrafið og aðeins er veggur við hólfið norðanvert sbr. teikningu.
Rústin er vel gróin og víða sér í grjót.
Yfir rústina sunnaverða liggur nýlegur vegur og hylur hann austurgaflinn.
Í Örnefnaskrá (undir Hádegishól) segir að þarna við hólinn hefði verið brunnur og tættur sem gamlar sagnir hefðu verið til um. Svæðið fyrir neðan hólinn til NV hét Stekkatún, en mýrin norðan við hét Stekkatúnsmýri. Á Stekkatúni var fjárhús sem var rifið og fellt árið 1983. Rústin var rannsökuð árið 2018.“

Hádegishóll

Hádegishóll – minjar. Brunnur fremst.

Haustið 2018 voru rústir undir Hádegishólum rannsakaðar vegna stígagerðar í nágrenninu. (Bjarni F. Einarsson 2018).
Niðurstöðurnar bentu til þess að um stekk hafi verið að ræða frá 1550-1650. Vísbendingar voru um að eldri minjar væru að hluta undir stekknum og vestan við hann.

Kópavogur

Fífuhvammur/Hvammskot.

Í Jarðabókinni 1703 er fjallað um „Huammkot“, síðar Fífuhvamm. Þá var þar tvíbýli. Ekki er minnst á selstöðu, enda lítt tíundað um möguleg hlunnindi á þeim tíma frá Kópavogskotunum því miklar kvaðir hvíldu þá á þeim, bæði af hálfu Bessastaða og Viðeyjar, líkt og lesa má um í Jarðabókinni.

Ljóst er á ummerkjum við Hádegishól[a] að þar hefur verið selstaða fyrrum. Þegar líða tók á 19. öldina gæti selsstekkurinn hafa verið byggður upp úr eldri tóftum og hann síðan notaður sem heimasel um tíma. Framan við stekkinn sést móta fyrir brunni sem og jarðlægum tóftum skammt sunnan undir hólnum. Mannvirkin eru í skjóli fyrir austanáttinni, sem var dæmigert fyrir selstöður á þessu landssvæði fyrrum. Ástæða væri til að gaumgæfa svæðið betur m.t.t. framangreinds.

Heimildir:
-Fornleifaskrá Kópavogs – Enduskoðuð, Fornleifafræðistofan, Bjarni F. Einarsson – 2019.
-Bjarni F. Einarsson. Rúst undir Hádegishólum. Rúst 31:1 í Kópavogi, Gullbringusýslu. Skýrsla um rannsókn á skepnuhúsi. Fornleifafræðistofan. Reykjavík 2018.
-Örnefni í bæjarlandi Kópavogs. Jarðirnar Digranes, Fífuhvammur, Kópavogur og Vatnsendi. Guðlaugur R. Guðmundsson skráði og staðsetti örnefnin. Handrit. Örnefnastofnun. 1990.
-Jarðabókin 1703, ÁM og PV.

Hádegishóll

Hádegishóll – minjar.