Ætlunin var að fylgja Kjartani Óskarssyni, þaulkunnugum, eftir um strandlengjuna frá Þorlákshöfn að Nesi í Selvogi. Kjartan, sem fæddur er 1946, er uppalinn í Nesi í Selvogi, auk þess sem hann hefur gegnt vitavarðastarfi í Selvogsvita frá árinu 1962. Víst var að ýmislegt myndi bera á góma – og ekki allt fyrirséð.
Samhliða því að fylgja bergbrúninni var rakin gamla þjóðleiðin minni Þorlákshafnar og Selvogs. Hún er vörðuð svo til alla leiðina. Önnur gömul þjóðleið, Suðurleiðin, er allnokkru ofar í heiðinni, en ætlunin að ganga hana fljótlega frá Þorlákshöfn að Strandarhæð ofan við Selvog. Í Sögu Þorlákshafnar segir m.a.: „Gata lá frá Þorlákshöfn út í Selvog. Lá hún norðan undir klapparhól, sem ber við loft frá Þorlákshól séð. Á hól þeim stóðu Þrívörður. Þær eru nú fallnar. Nokkru norðar frá Þorlákshól í stefnu rétt sunnan við Selvogsheiði er stór varða, sem heitir Smalavarða, ekki við neina götu. Frá Þorlákshöfn í stefnu norðan við Hnúka á Selvogsheiði var götuslóði sem hét Lyngheiðarvegur. Við götuna upp að Hlíðarenda, en hún er litlu vestar en núverandi vegur, eru innan við Unubakka þrjú vörðubrot á klapparhól. Þær heita Hlíðarendavörður. Þær sjást greinilega frá veginum. Fleiri vörður eru meðfram götunni, samanber Hlíðarenda.“
Frá Þorlákshöfn út í Selvog voru áætlaðir 15 km, en þeir reyndust 16.7 þegar á leiðarenda var komið. Vilji menn göngutúr þótt regn sé á, þá má ætla að þessi leið sé heppilegust til þess arna af öllum kortsins leiðum, því að ströndin er vissulega stórfengleg í úðvaða brimi og slagveðri. En hættulaust er ekki þótt jafnlent sé, því að menn freistast til að skoða skúta og klettaskorur. Hvorugu var til að dreifa að þessu sinni, því hvorki rigndi né reyndu þátttakendur að stinga tám fram af bjargbrúninni – þótt oft hefði verið ærin tilefni til.
Þorlákshöfn á land að sjó, austan frá Miðöldu í Hraunsmörkum, vestur að Þrívörðum í Selvogsmörkum. Strandlengjan ofanverð austan við Þorlákshöfn er sendin. Elzta nafn á allri þessari sandströnd (austan Þorákshafnar) er Vikrarskeið, samanber Laxdælu, en heitir nú Skeið eða Skeiði, og Hraunsskeið enn austar.
Vestan Þorlákshafnar er ströndin í fyrstu grjótvarin, en utar tekur við standberg í sjó fram. Bergið er hæst ofan við Keflavík og Háaleiti, en þegar nær dregur Bjarnavík og Álum austan við Selvogsvita lækkar bergið til muna.
Í örnefnalýsingu fyrir Þorlákshöfn segir m.a. um þetta svæði: „Í nestánni fyrir sunnan Sporið er Hafnarvarða. Var hún hlaðin mjög stór, enda við hana miðaðar fiskileitir. Nú er hún hrunin að mestu, en viti, Þorlákshafnarviti, reistur við hlið vörðunnar. Frá Hafnarvörðu liggur ströndin í vestur, og hækkar smám saman. Vestan vörðunnar er vik nokkurt sem heitir Vörðukriki. Um fjöru verður þar dálítið lón. Það heitir Þanglón. Suðaustur frá Hafnarnesi, sem nefnt verður síðar, er blindsker eða grynning nokkuð frá landi, og heitir Kúla. Þar er um 12 faðma dýpi.
Vestur frá Hafnarvörðu, sem í daglegu tali var nefnd Varða, og oftast með greini, er mjög mikil stórgrýtisurð með sjónum vestur að Hafnarbergi. Stórgrýti þetta heitir Urðir. Klappabrún milli Urða og sjávar heitir Flesjar. Var það nafn einkum notað þegar við það voru miðuð fiskimið. Meðfram Urðum eru nokkur sker rétt upp við land. Aðeins eitt þeirra hefur nafn, það heitir Flesjasker. Það er rétt vestan við Vörðukrika.
Austarlega á Urðum er mjög stór, flatur klettur, og hallast upp að minni klettum. Hann heitir Latur. Það fór mjög eftir veðri og sjó hve mörg áratog þurfti til að róa Lat fyrir Geitafell. Einstígur heitir þar sem ströndin hækkar, svo að verður hreint standberg, sem sjórinn hefur ekki náð að hlaða stórgrýti upp á, eins og hann hefur gert á Urðunum. Vestur frá Einstíg er Þorlákshafnarberg, eða Hafnarberg, en af heimamönnum oftast nefnt Berg. Það nær vestur að Keflavík. Austantil er Bergið með mörgum nefjum og básum, nafnlausum. En er vestar kemur, er langt á milli nefja og lítil[s]háttar fjara undir berginu. Þar heitir Langibás. Upp af miðjum Langabás er allstór varða um 200 til 300 metra frá sjó, á hól og er 18 m há. Hún heitir Langabásvarða. Vestan við Langabás er nef, sem í bókum og kortum er nefnt Hellrar og Hellranef, en ég hef ekki fengið það staðfest af kunnugum. Steindrangar tveir, um 1,5 m á lengd og um 0,5 m í þvermál, nefndir Bræður, lágu á Bergsbrúninni vestan við Hellranef. Annar þeirra reis upp á endann í ofsabrimi snemma á árinu 1918. Voru fiskileitir miðaðar við hann árum saman. En nú er hann aftur lagstur útaf. Nú verður allstór bás í bergið, og vestan hans nef sem heitir Þyrsklingsnef, en líka nefnt Tittlingsnef. Það er sama nefið og Hálfdan Jónsson nefnir Mávagnýpu í lýsingu Ölfushrepps 1703. Þessi tvö nef standa bæði á löpp yst og gat gegn um þau. Þau eru mjög lík að stærð og útliti. [Sjórinn færir steinbörg auðveldlega til á berginu. Á göngunni mátti sjá mörg þeirra, og sum mjög stór, sem eiga eftir að ferðast talsverða vegarleng innan skamms tíma]. Vestan við Þyrsklingsnef verður stórt vik inn í ströndina, allt vestur að Þrívörðum, sem eru í mörkum Þorlákshafnar og Selvogs. Vik þetta heitir Keflavík, og þó aðallega miðbik þess. Vestantil við Þyrsklingsnef heita Sigfjörur. Þar er svolítil fjara undir berginu, og verður að síga eftir því sem þar berst á land.
Fyrir vestan Sigfjörur er krosssprunginn klapparhóll fram á bergsbrúninni. Hann heitir Hlein. Ofan við Hlein eru nokkrir klapparhólar, en annars er Sandurinn jafnlendur. Vestan við Hlein, í sjálfri Keflavík í þrengri merkingu, lækkar ströndin, berg er ekki, og fært niður í fjöruna. Þar er allmikill fjörugróður. Vestantil á Keflavík eru nokkur smávik inn í ströndina. Þau heita í heild Básar. Sumir þeirra hafa nöfn, Bakkabás, Bjarnastaðabás, Þorgrímsstaðabás. Í Básunum höfðu ábúendur jarða þeirra sem nöfnin benda á, rétt til sölvatekju, segir Þórður J. Símonarson frá Bjarnastöðum, en rétt til að hirða smærri spýtur, fyrir að bjarga stærri reka undan sjó, segir Björn Sigurðsson, sem lengi var vinnumaður í Þorlákshöfn.“ Kjartan sagði ströndina, einkum bergið, gróft og harðgert. Þegar einstök svæði þess voru skoðuð í smærra samhengi virtist það töfrum hlaðið. Og það þrátt fyrir að bæði Þrívörðum og Hlein hefði nú verið raskað; þær fyrrnefndu af mönnum og þeirri síðarnefndu af sjávarguðinum og öldum hans.
Strandlengjan frá Þorlákshöfn vestur á Selatanga er að mestu óröskuð og frábær gönguleið sem allt of fáir fara um. Í ljós koma að á þessari leið er fjölmargt að skoða, bæði falleg og merkileg náttúrufyrirbæri en einnig sögulegir staðir. Líklega má sjá á þessari leið allar útgáfur hraunreipa, sem til eru hér á landi, horfa á hvernig hvert litbreytilegt hraunlagið hefur hlaðist ofan á annað og sjórinn hefur náð að fletta ofan af þeim, hverju á fætur öðru, auk þess sem landnemaplöntur með öllum sínum litbrigðum setja skrúðugan svip á annars svarleitt basaltið. Þar er skarfakálið einkar áberandi, auk þess sem sáð hefur verið melgresi í sanflákana ofan bergsins. Það breytir litum líkt og annar gróður er hausta tekur.
Áður en lagt var stað var gott að rifja upp stutta sögn úr Þjóðsögum Jóns Árnasonar: “Þórir haustmyrkur nam Selvog og Krýsuvík. Það hefur verið seint á Landnámstíð, því fjölbyggt hefur verið orðið syðra eftir þeirri sögn, að fátækt fólk hafi flakkað í Selvog bæði utan með sjó og sunnan yfir fjall. Það þótti Þóri illt og setti því grindarhlið læst í Grindaskarð, en annað í það skarð, sem farið er úr Grindavík og upp á Siglubergsháls. Þar af skulu þessi örnefni vera dregin: Grindaskarð og Grindavík”. Þjósagan segir frá því að landnámsmaður í Selvogi hafi þurft að gera ráðstafanir til að verjast ágangi fólks, en seinni tíma ágangur – og öllu alvarlegri – átti eftir að herja á sveitina.
Sandurinn sem er á svæðinu ofan bergsins hefur að megninu til borist upp úr fjörunni austan byggðarinnar í Þorlákshöfn, en talið er að hluti áfoksefnanna sé komin frá Ölfusárós. Sandur hefur borist þaðan með austanvindi, vestur undir Selvogsheiðina og alla leið vestur í Selvog.
Eftir 1950 var byrjað að sá melgresi og bera á kambinn sem liggur með sjónum austur frá þorpinu. Kamburinn var þá grýttur og nokkuð sléttur í sjó fram. Melgresið fangaði megnið af sandinum sem barst upp úr fjörunni og með því móti byggðist upp mikill sjóvarnargarður sem nú bindur milljónir rúmmetra af sandi og stöðvar hann megnið af sandinum sem berst upp úr fjörunni svo sandskriðið vestur eftir er hætt að mestu. Hinsvegar er gríðarlegt magn af sandi á vestanverðu svæðinu frá því að sandburðurinn upp úr fjörunni var óheftur og á hann eftir að valda erfiðleikum á uppgræðslusvæðinu. Af ummerkjum, svo sem stefnu sandskafla og lögun steina sem sandfokið hefur slípað til, má ráða að meginstefna sandskriðsins sé til suðvesturs og út í sjó.
Upphaflega var sandsvæðið umhverfis Þorlákshöfn girt árið 1935. Lengd girðingarinnar var 21,8 km og friðaði hún um 7.800 ha. Umsjónaraðili er garðyrkjustjóri Þorlákshafnar. Landgræðslugirðingin náði frá Ölfusá að Nesvita í Selvogi. Hún lá til austurs frá Hamraendum, sunnan við Hraun og fyrir ofan sandana, neðan við Hlíðardalsskóla, Breiðabólsstað, Litlaland og Hlíðarenda, yfir Selvogsheiði og til sjávar austanvert við Nes í Selvogi.
Fyrstu árin þar á eftir voru litlar sem engar aðgerðir. Árið 1952 var hafist handa við gerð skjólgarða á leirunum austan við þorpið, því mesta sandfokið kom þaðan. Skjólgarðarnir drógu úr sandskriði en yfirborð landsins milli garðanna lækkaði svo nú er þar oftast vatn. Undanfarin á hefur einkum verið sá í nágrenni við fyrirhugaðan Suðurstrandarveg vestab Þorlákshafnar.
Fyrstu árin eftir þetta átak var sáð melfræi í sjávarkambinn þar sem unnt var fyrir grjóti en hann var þá nokkuð sléttur í sjó fram. Ennfremur barst fræ frá varnargörðunum sem festi rætur í sjávarkambinum. Þarna hefur melgresið byggt upp einn merkasta sjó og sandvarnargarð hér á landi, margra metra háan, er bindur milljónir rúmmetra af foksandi.
Jafnframt því sem unnið hefur verið að því að stöðva fokið frá fjörukambinum og leirunum austan Þorlákshafnar, hefur verið lögð áhersla á sáningar næst þorpinu. Einnig hefur gróður verið styrktur við norðurjaðar áfoksgeirans, þ.e. á nyrsta hluta uppgræðslusvæðisins.
Árlegur kostnaður Landgræðslunnar við heftingu sandfoks umhverfis Þorlákshöfn hefur að meðaltali verið um tvær til fimm milljónir króna þar til 1996 og 1997 er kostnaður varð nærri 20 miljónir. Auk aðgerða Landgræðslu ríkisins hefur Ölfushreppur unnið að margháttuðum uppgræðsluaðgerðum í næsta nágrenni þorpsins.
Landgræðsla á sér langa sögu í Þorlákshöfn. Reyndar hafa verið ýmsar tegundir plantna og ólíkum aðferðum beitt við uppgræðsluna. Fyrir liggur því allgóð reynsla sem nú er unnið eftir. Hér verður aðeins drepið á nokkrar þeirra aðferða sem beitt hefur verið og árangur þeirra.
Án efa er melgresi sú tegund sem lang best dafnar á sand svæðinu. Engin planta heftir sandfok eins vel og melgresið, né stenst veðráttuna við suðurströndina betur. Melgresið safnar í sig foksandinum og myndar ýmist breiður eða melhóla. Sandlagið þykknar smásaman þar sem melgresið vex og verða hólarnir oft 3-5 m háir.
Yfirleitt kemur að því að hólarnir verða óstöðugir og vindur tekur að rífa sand úr hliðum þeirra og melgresið lætur undan síga.
Nauðsynlegt hefur reynst að bera áburð á melsáningar í nokkur ár eftir að sáð er. Einnig hefur þurft að bera árlega á þau svæði þar sem sandágangurinn er mestur, t.d. kambinn milli þorpsins og Ölfusárósar.
Árið 1989 var gerð tilraun með sáningu á 60 kg af lúpínufræi með TF-NPK. Fræinu var dreift á vestanverðu landgræðslusvæðinu. Flogið var með norðrurjaðri sandsvæðisins og síðan beygt til suðurs í átt að sjó. Fræið spíraði seint en lúpína er nú að breiðast út þar sem fræinu var dreift. Á síðustu árum hefur lúpínu verið plantað víða umhverfis Þorlákshöfn. Árangurinn af því er allgóður, en eftir á að koma í ljós hversu ört lúpínan breiðist út. Árið 2001 var gerð tilraun með að bera á 75 hektara, með dráttarvélum, út frá vegstæði Suðurstrandarvegar og skilaði sú dreifing góðum árangri þar sem áborið svæði var mun gróskumeira en óáborin svæði.
Kjartan upplýsti að fyrir tiltölulega fáum árum hefði ofanverð strandlengjan verið endalausir sandflákar, en eftir að svæðið var girt af og sáð hafði verið í það hefði orðið gerbreyting á.
Þegar leiðin er gengin eru framangreind þögul uppgræðslan annars vegar og hávaðasamt sæhljóðabergið hins vegar – hvorutveggja ágengir athyglisveiðarar. Ef báðir eru hunsaðir um stund má sjá ýmislegt, sem ella afmissist, s.s. hniðjur, rek og rekavið, einstaka fornfálegt leikfang, glerkúlur, plastkúlur, belgi, dufl og skótau frá ýmsum tímum.
Kjartan upplýsti að fyrir tiltölulega fáum árum hefði ofanverð strandlengjan verið endalausir sandflákar, en eftir að svæðið var girt af og sáð hafði verið í það hefði orðið gerbreyting á.
Vestan Þorlákshafnar eru allt of sýnilegar minjar þriggja tilrauna með laxeldi og hörrækt. Starfsstöðvarnar standa þar nú sem minnismerki, ein af mörgum, um misheppnaðar mótvægisaðgerðir í atvinnumálum þjóðarinnar. Önnur slík minnismerki um allt land eru refabúin. Líklega verða virkjanir og orkuveitur önnur slík þegar til lengri framtíðar litið – því augljóst virðist, er gengið er um svæði það sem að ofan greinir, að orkuöflun framtíðarinnar verður fyrst og fremst með nýtingu frumefnanna, þ.e. lofts, ljóss og vinds. Þegar einhverjum gáfumanninum dettur það í hug munu spretta upp liltar heimilsorkustöðvar er gera munu hápsennumöstur og -jarðstrengi óþarft með öllu.
Jæja, við fyrrverandi Þrívörður var talið tilefni til að staldra við og skoða örnefnalýsingu austasta bæjarins í Selvogi, Ness. Þar segir m.a.: „Þá er komið að Þrívörðum, þar sem voru þrjár vörður á berginu á landamerkjum Selvogs og Þorlákshafnar. Þær eru nú horfnar. Um Þrívörður er bergið farið að lækka og hægt að ganga þar niður um skörð, en bunga er milli þeirra og Háaleitis. Fyrir austan Þrívörður tekur við Keflavík. Þar átti Hjallakirkja reka.
Vestar er Sigbás. Þar var eggja- og fuglatekja á bletti. Háaleiti er þar sem bergið er hæst. Á því var varða, sem lengi vel var haldið við af sjómönnum úr Þorlákshöfn. Varðan var höfð fyrir mið. Fyrir framan heita Forir eða Háaleitisforir. Þar var mikill fiskur og sótt þangað bæði úr Þorlákshöfn og Herdísarvik.“ Til gamans má geta þess að á Háaleiti trjónir nú háleitt markmið einhvers bílstjóra, sem (ekki) hefur náð lenga og skilið ökutækið þar eftir. Hlaðið hefur verið umhverfis það, væntanlega úr fyrrnefndu kennileiti.
„Austan við Bjarnavík er Viðarhellir undir berginu. Þar var mikill reki. Gat er í bergið yfir hellinum og hægt að síga niður í hann. Bjarnavík er allbreitt vik í bergið, og er djúpt þar. Eyþór heyrði sagt, að Bjarni riddari hefði haft þar legu fyrir skip.“
Viðarhellir sést ekki ofan af bergbrúninni, einungis frá sjó. Kjartan sagði færeyskan kútter hafa strandað í vikinu 1930. Þrjátíu manns hefðu verið um borð og hefðu nokkrir þeirra farist. Þá hafi mb. Helgi Hjálmarsson úr Reykjavík rekið þar upp nokkru seinni. Þrír menn hefðu verið um borð. Tveir, skipsstjórinn og óbreyttur, komust að Viðarhelli, en sá þriðji hvarf í hafið. Lík hans fannst við Eyrarbakka nokkru síðar. Hinir tveir gátu klifrað upp á bjargbrúnina og lögðu berfættir af stað til Þorlákshafnar. Annar þeirra, skipstjórinn, hefði fest fót sinn í fjörunni, en félagi hans aðstoðaði hann upp á bjargbrúnina og áfram til bæjarins. Félagar í björgunarsveitinni hefðu klifrað niður og skoðað hellinn, en slíkt væri ekki á færi aukvisa.
„Nokkuð austur af Bótum [Austari bót og Vestari bót] heita Gren (ft.). Þar var tófugren við kampinn. Þar eru klappir og urð, grenjalegt land. Heita Álar þar fyrir austan. Það eru geirar á milli klappa í fjöru, þang og þari í. Þar er útgrynni farið að minnka. Tekur bergið að lækka úr því, og engin fjara er undir. Nokkru austar en Álar er klettur fram í sjó, sem kallast Nípa.“
Ofan Ála, allangt ofan strandar, er stórt járndufl. Kjartan sagði það hafa rekið upp í fjöruna 1970. Þá hafi verið gerður leiðangur að því og verðmæti hirt af því. Líklega hefði verið um eitthvert Faxaflóaduflanna að ræða, sem slitnað hefði frá festum. Í óveðrinu mikla, sem gekk yfir þetta landssvæði árið 1991, hefði það flotið spölkorn inn á heiðina.
Ofan við Ála er Hvítisandur og Hvítasandshóll, að sögn Kjartans. Áður var þarna skeljasandur, en eftir að svæðið var ræktað upp hvarf hvíti liturinn að mestu. Ekki er að sjá skeljasandsfjöru í Álunum.
Ofan við Álana eru leifar af mb. Verði frá Reykjavík. Báturinn fór þar upp 1956, sennilega 18. febrúar. Fimm menn voru um borð. Þeir fórust allir. Lík tveggja bátsverja fundust, en leifar þriggja skipsverja hafa aldrei fundist, þrátt fyrir mikla leit dögum saman eftir slysið. Báturinn hafði verið í Þorlákshöfn, en farið þaðan í afleitu veðri, en líklega orðið fyrir vélarbilun og þá rekið upp á ströndina. Í óverðinu 1991 brotnaði hluti (skutur) bátsins og rak upp yfir kampinn. Kjölstykki má sjá þar skammt vestar.
Þegar komið var að Selvogsvita varð rödd Kjartans innilegri (honum þótti greinilega vænt um vitann). „Á Selvogstanga var reist 15 m há járngrind árið 1919. Á hana var látið 3,3 m hátt ljóshús og 200° díoptrísk 1000 mm linsa og gas-ljóstæki. Inn á milli hornstoða grindarinnar var komið fyrir steinsteyptri gashylkjageymslu en efst undir svölum var skýli utan um stiga upp í ljóshúsið. Vitinn var sömu gerðar og Stokksnesviti sem reistur var árið 1922. Eftir aðeins rúm 10 ár var vitinn orðinn svo ryðbrunninn að nauðsynlegt reyndist að byggja nýjan vita.
Árið 1930 var byggður 15,8 m hár vitaturn úr steinsteypu. Ári síðar voru sett á hann ljóshús, linsa og gasljóstæki járngrindarvitans og hinn nýi Selvogsviti tekinn í notkun. Árið 1987 voru veggir ljóshúss endurnýjaðir. Vitinn var raflýstur ári síðar og settur á hann radarsvari.“ Nú er ljós látið loga á vitanum af öryggisástæðum en radíósendir efst á honum er þó það sem mestu máli skiptir nú orðið.
Kjartan, sem er með lyklavöldin, opnaði hurð vitans. Innanvert birtust undraverkin. Eftir að hafa útskýrt hvernig þrívarin vörn hans virkaði var haldið upp grámálaða tréstiga, hvern af fætur öðrum. Fyrir fólk, sem gengið hafi 17 km, var það sumu þrekraun. Efst trjónaði „djásnið“, ljóskúpullinn, sem prýtt hafði gamla vitan utar á ströndinni. Sköpunarár hans varð 1917, komið á járngrind 1919 og síðan hífður upp í núverandi vitaturn 1930. Útsýnið úr turnkrónunni, yfir Hafnarberg annars vegar, og Selvog hins vegar er, er og verður eftirminnilegt.
Kjartan sýndi þátttakendum einkar áhugavert plagg – og sennilega einstakt núorðið. Á því stóð; „REGLUR um komur gesta í vita landsins: Vitaverðum er heimilt að veita gestum leyfi til að skoða vitann á tímabilinu frá því hálf stund er liðin frá sólaruppkomu þar til hálfri stundu fyrir sólarlag.
Gestir skulu, áður en þeir fara inn í vitann, rita nöfn sín, og heimili í gestabók vitans. Eigi mega þar koma fleiri en 3 gestir í senn. Skulu þeir, áður en en þeir ganga upp í vitann, þurrka vandlega af fótum sér á gólfmottunni; bannað er að rita eða roispa nöfn eða annað á veggi og rúður. Gæta ber og þess, að enginn snerti við nokkru því, er til vitatækjanna heyrir. Gestirnir mega ekki vera í blautum utanyfirfatnaði né hafa með sér stafi, regnhlífar, svipur eða annað því um líkt inn í vitann: Bannað er að reykja tóbak, svo og að hrækja, nema í hrákadalla. Neftóbak má eigi hafa um hönd í ljóskerinu. Hundar og kettir mega ekki koma inn í vitann.
Ölvuðum mönnum og óhreinlega til fara er bannað að koma í vitann.
Einhver vitaþjónanna skal ávallt vera gestunum í vitanum og ber honum að koma kurteislega fram við þá og skýra þeim frá öllu, sem þeir óska um vitafærin, en um fram það er honum ekki heimilt að veita óviðkomandi mönnum neina vitneskju um rekstur vitans.
Hverjum gesti ber að greiða vitaþjóninum 25 aura fyrir ómak hans.
Í stjórnarráði Íslands 3 maí 1910 – Björn Jónsson (vitundarvottur; Jón Hermannsson).“
Ekki er vita til þess að reglurnar frá 1910 hafi verið numdar úr gildi, enda kannski eins gott því bæði var hundur (tík) með í för, þátttakendur með stafi og engin gólfmotta til staðar.
„Á kampinum við Nesvita var bær, sem hét Snjóhús. Þegar hann man eftir, voru öll hús fallin, en kálgarðar voru í tóftunum, kallaðir Halldórsgarðar. Þar sem vitinn stendur, ganga klappir fram í sjó, og heitir þar Snjóhúsavarða. (Í skrá G. S. eru ýmsar myndir nafnsins tilfærðar: Snjóthús-, Snóthús-, Snjóhús-, Snjóshús- og Snjólfshúsvarða.) Eyþór man eftir vörðunni þarna; á henni var sundmerki. Selvogsviti var reistur fyrst framarlega á klöppunum, en síðar færður ofar, þangað sem hann stendur nú. Eldri vitinn var stálgrindarviti, en nýi vitinn er steyptur.
Skammt austan við Snjóhúsavörðu taka við klappir, og þar austur af eru Bætur. Þær eru þrjár, Vestastabót, Miðbót og Austastabót. Var talað um að fara „austur á Bætur“. Á Bótunum var skorið þang til eldsneytis og beitt fé.“
Snóthúsavarða er horfin, en enn má leifar af Fornagarði liggja að henni, en varðan átti að vera austurmörk garðsins. Innan hans,nær ströndinni, vestan vitans, er gróinn hóll, leifar Snjóthúss, eins af 10 kotbýlum í Neslandi (1703).
„Frá túngarði í Nesi liggur sjávarkampur austur að vita. Hlaðinn garður er á honum, en hann nær ekki alla leið.
Neshverfi eða Nestorfa var sameiginlegt heiti á Nesi og hjáleigunum þar. Einnig var hverfið nefnt Austurvogur eða Austurvogshverfi. Af bæjarstæðinu í Nesi er eitthvert fegursta útsýni í Selvogi. Bærinn stóð á Bæjarhól neðan við mitt tún. Þegar tvíbýli var í Nesi, voru bæirnir nefndir Austurnes og Vesturnes . Stundum voru þar fleiri bæir.
Fyrrum mun hafa verið kirkja í Nesi og staðið, þar sem nú er braggabygging, notuð síðast sem heygeymsla. Legsteinar komu upp, þegar grafið var fyrir þessu húsi, og munu þeir vera þarna á hlaðinu.“
Á leiðinni var gengið um Nestúnið, framhjá fyrrum bæjarstæði Litla-Leðurs og Stóra-Leðurs. Minjar síðarnefnda kotbýlisins er verulegar á meðan þess fyrrnefnda hafa verið „túnsléttaðar“. Vestar má sjá leifar Bartakots og Þórðarkots. Kjartan sagðist muna enn eftir baðstofunni í Þórðarkoti. Vestar er tóftir Klappar í Bjarnarstaðarlandi:
Að ofanverðu við Nes má sjá vörðuröð. Þar kemur fyrrnefnd gata frá Þorlákshöfn niður í Selvog. Venjulega tók um 4 klst að ganga leiðina, sem virðist furðu bein af þjóðleið að vera.
Að lokinni göngu bauð frú Sigríður, eiginkona Kjartans, þátttakendum í íslenska kjötsúpu á veitingastað þeirra hjóna í Selvogi. Þar voru málin og enn og aftur reifuð (meira síðar).
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.
Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Þorlákshöfn.
-Örnefnalýsing fyrir Nes.
-Vitar á Íslandi.
-Saga Þorlákshafnar.
-Kjartan Óskarsson.