Tag Archive for: Hagakot

Búrfell

Í Listinni að lifa árið 2007 er grein eftir Sigurð Björnsson; „Gengið um Garðabæ„.

„Garðabær er hluti af Álftaneshreppi hinum forna, sem fyrst var skipt árið 1878 í Garðahrepp og Bessastaðahrepp. Síðar var Hafnarfjörður skilinn frá Garðahreppi og fékk kaupstaðarréttindi árið 1908. Þessi sveitarfélög heita nú Garðabær, Hafharfjarðarkaupstaður og Sveitarfélagið Álftanes.

Garðabær

Umhverfi og ásýnd Garðabæjar mótast að verulegu leyti af hrauninu, sem brann fyrir um það bil 7200 árum og rúmlega 3000 árum eftir að síðasta jökulskeiði lauk. Hraun þetta rann frá eldvarpinu Búrfelli, sem er suðvestan Heiðmerkur, 7,2 km í suðaustur frá Garðatorgi og 2,5 km norðaustur frá Helgafelli, sem er móbergsfjall myndað í eldgosi undir jökli á síðustu ísöld. Búrfellshraunið heitir ýmsum nöfnum eftir því hvar menn eru staddir hverju sinni, svo sem Smyrlabúðarhraun, Svínahraun, Vífilsstaðahraun, Urriðakotshraun, Garðahraun og Gálgahraun. Hluti Búrfellshrauns rann einnig vestar og heitir þar ýmsum nöfnum, sem ekki verða rakin hér, nema hvað Hafnarfjarðarhraunið er hluti þess.

Búrfell

Búrfell í Garðabæ.

Hér er því hvorki skortur á hraunum né örnefnum. Tómas Guðmundsson skáld komst snilldarlega að orði þegar hann sagði í kvæði sínu, Fjallganga: „Landslag yrði lítils virði, ef það héti ekki neitt.“
Mér er ætlað að rekja hér örnefni og greina frá kennileitum í Garðabæ frá fjöru og fram til fjalla. í bókinni Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar eftir Guðlaug Rúnar Guðmundsson er örnefnaskrá á 78 blaðsíðum svo ljóst má vera, að hér verður aðeins stiklað á stóru í stuttri grein. í þeirri bók geta þeir, sem áhuga hafa, aflað sér nánari fróðleiks um Garðabæ og örnefni þar.

Skógtjörn

Við Skógtjörn.

Mörk Garðabæjar og Álftaness liggja um tvær tjarnir, Lambhúsatjörn og Skógtjörn. Eiðin, sem áður skildu þessar tjarnir frá sjó, eru nú horfin í hafið, þannig að þær eru raunar báðar orðnar að vogum. Afrennsli frá Skógtjörn var til suðurs um Oddakotsós við miðbik tjarnarinnar og lágu hreppamörkin um ósinn. Vestan óssins var Hliðsnesið í Bessastaðahreppi með samnefndum bæ, og lá nesið til suðurs frá Álftanesinu. Hafið rauf eiðið norðan bæjarins og stóð hann þá á eyju, erfiðara varð um aðföng og róa þurfti með börnin á báti til þess að þau kæmust í Bjarnastaðaskóla.

Hliðsnes

Hliðsnes – loftmynd 2023.

Fyrstu jarðýturnar í eigu Íslendinga komu til landsins 1942 og eina þeirra, e.t.v. þá fyrstu, áttu bræðurnir Eyþór og Gunnar Stefánssynir frá Eyvindarstöðum á Álftanesi. Þeir voru fengnir með ýtuna til þess ýta upp í gamla ósinn og koma Hliðsnesinu í vegasamband inn í Garðahrepp. Bæjamörkin liggja hins vegar óbreytt, þar sem áður var ósinn suður úr Skógtjörninni. Hér er land allt hægt og sígandi að hverfa í hafið eins og sjá má af því, að bæði á botnum tjarnanna og úti fyrir ströndinni suður af Garðaholti og umhverfis Álftanes eru víða myndarlegir móhleifar, en mór myndast af gróðurleifum í mýrum inni á landi en aldrei í söltu vatni, enda engar gróðurlendur þar.

Álftanes

Álftanes – herforningaráðskort 1903. Hér sjást landamerkimum Skógtjörnina.

Á báðum þessum tjörnum er fjölskrúðugt fuglalíf, einkum vor og haust, þegar norðlægir farfuglar hafa þar viðkomu og er margæsin þar áberandi. Á eiðinu milli Lambhúsatjarnar og Skógtjarnar, hægra megin við veginn þegar ekið er út á Álftanes, er lágur hóll með tóftarbroti. Þarna stóð bærinn Selskarð. Sunnan við Selskarð og austur af Skógtjörninni, vestan Álftanesvegar, heitir Álamýri. Suð-austur frá Skógtjörn rís Garðaholtið. Vestan í holtinu standa Garðar, höfuðból og kirkjustaður frá fornu fari. Garðakirkja var aflögð árið 1914 og um miðja öldina var svo komið að aðeins stóðu eftir grjótveggirnir opnir fyrir veðri og vindum, gluggalausir og þaklausir. Til tals kom að brjóta veggina niður og nota í hafnargarð við Hafnarfjarðarhöfn.
GarðakirkjaÞví menningarslysi var þó forðað, sem betur fer, fyrir atbeina nokkurra góðra manna og þó einkum vegna atorku kvennanna í nýstofnuðu Kvenfélagi Garðahrepps, og fórnfúsra starfa þeirra. Þær endurreistu Garðakirkju og var hún vígð af séra Sigurbirni Einarssyni biskupi hinn 20. mars 1966.
Sunnan og vestan í Garðaholtinu er Garðahverfið. Þarna voru 25 býli og þurrabúðir árið 1868. Mörg þessi býli standa þar enn.
Nyrst i Garðahverfinu, niður undir Skógtjörn, eru Hausastaðir. Þar er minnisvarði um einn fyrsta vísi að reglulegu skólahaldi fyrir börn og unglinga hér á landi.

Hausastaðir

Hausastaðir – minnismerki.

Þessi skóli var starfræktur á vegum Thorkillisjóðsins árin 1791-1812, en sjóður sá varð til samkvæmt ákvæði í arfleiðslubréfi Jóns Þorkelssonar fyrrum skólameistara í Skálholti og átti hann að standa straum af skólahaldi fyrir fátækustu og mest þurfandi börn í Kjalarnesþingi.
Skammt suðaustur frá Garðakirkju stendur félagsheimilið Garðaholt, sem upphaflega var reist árin 1908-11 sem skóli og þinghús hreppsins. Aukið hefur verið við húsið nokkrum sinnum og hefur það í mörg ár þjónað sem samkomuhús bæjarins. Kvenfélagið sér um rekstur Garðaholts. Örskammt til vesturs frá Garðaholti, neðan við veginn til Hafnarfjarðar, stendir býlið Krókur, sem Garðabær á nú og rekur þar byggðasafn. Fyrri eigendur gáfu bænum húsin ásamt öllu innbúi.

Garðahverfi

Garðahverfi – bæir.

Efst á Garðaholtinu er fagur og mikill skógarreitur. Holtið var áður autt, grýtt og gróðurvana, því þarna næða norðanvindar. Árið 1955 fékk Sigurður Þorkelsson, skipasmiður, þarna land á leigu, girti það og hóf uppgræðslu og trjáplöntun. Hann byggði sér bústað ásamt konu sinni, Kristínu Gestsdóttur, sem nú er nýlátin. Þennan stað gerðu þau að þeim unaðsreit, sem þar er orðinn, og nefndu hann Grænagarð. Á Garðaholti er hringsjá, sem Rótarýklúbburinn í Görðum lét gera. Sigurður Björnsson, verkfræðingur, sá er ritar þessa grein, mældi á holtinu og hannaði hringsjána. Hún sýnir fjallahringinn, hæðir fjallanna og fjarlægðir frá Garðaholtinu. Á skífunni er sólúr.

Gálgaklettar

Gálgaklettar.

Nyrst í Garðahrauni, skammt frá Lambhúsatjörn, er hraungúll, sem klofnað hefur og myndar tvo kletta eða þrjá. Klettana notaði Bessastaðavaldið sem aftökustað þeirra ógæfumanna, sem þeir töldu dauðaseka að þeirra tíma reglum og lagabókstaf.

Gálgahraun

Í Gálgahrauni.

Klettarnir nefndust Gálgaklettar eða Gálgaklofningar og hraunið Gálgahraun. Austan Gálgahrauns er Arnarnesvogur. Nyrsta spýja Garðahraunsins skagar í mjóum tanga út milli Arnarnesvogar og Lambhúsatjarnar og heitir þar Eskines.
Suður frá Arnarnesvogi rís Hraunsholtið og austan þess rennur Hraunsholtslækur til sjávar. Hann á upptök sín í Vífilsstaðavatni og nefnist efri hluti hans Vífilsstaðalækur. Lækurinn rennur með hraunjaðrinum sunnan við Flatahverfið. Úti í hrauninu er stakur hóll er nefnist Hádegishóll, eyktamark frá bænum Hraunsholti, og er á bæjamörkum Garðabæjar og Hafnarfjarðar.

Wegenerstöpull

Wegenerstöpull – Wegenerstöpull er annar tveggja steinstöpla (svipaður stólpi var reistur í Öskjuhlíð) sem reistur var af Alfred Wegener, þýskum vísindamanni, hér á landi vafalaust til viðmiðunar til að sýna fram á landrekskenninguna sína. Stöpulinn reisti Wegener í aprílmánuði árið 1930. Árið 2000 voru settar plötur með söguágripi á stöpulinn. Stöpullinn er ferkantaður, steyptur og rúmlega 3 m hár. Flatarmál er 1 x 1 m. Hann stendur við gangstétt efst á götunni Hegranes við gatnamót Arnarnes og Hegranes.

Austan við Arnarnesvog er Arnarnesið. Þar sem nú skerast göturnar Arnarnes og Hegranes, stendur „Wegenersúlan“, einn þeirra mælingastöpla, sem þýski visindamaðurinn Alfred Wegener lét steypa vorið 1930 í þeim rilgangi að mæla gliðnun landsins og sanna þar með landrekskenningu sína um rek meginlandanna á jarðarkringlunni. Honum auðnaðist ekki að færa sönnur á þá kenningu, hann varð úti á Grænlandsjökli það sama ár. Kenning Wegeners hefur nú fyrir löngu verið sannreynd með þeim nákvæmu mælingaaðferðum, sem nú eru tiltækar. Flekamót liggja um jarðeldabelti Íslands og Austur- og Vesturland gliðna í sundur til jafnaðar um 2 sentímetra á ári hverju.

Hofsstaðir

Hofsstaðir í Garðabæ.

Upp frá Arnarnesvogi og ofan Hafnarfjarðarvegar var byggður fyrsti þéttbýliskjarninn í Garðahreppi og nefnist hverfið Silfurtún. Í suðvestur frá Silfurtúninu rís Hofsstaðahæðin með bænum Hofsstöðum. í Hofsstaðalandi, norður af bænum, er nú risin Vídalínskirkja og safnaðarheimilið Kirkjuhvoll. Örskammt austur af kirkjunni og bænum og við hliðina á nýjum Tónlistarskóla Garðabæjar hafa verið grafnar upp minjar um forna byggð, sem talin er vera frá landnámsöld. Þar hafa bæjaryfirvöld látið gera minjagarð og er allur frágangur til fyrirmyndar og bæði skemmtilegt og stórfróðlegt að kynna sér þá sögu, er þar býr að baki. Suður frá Hofsstöðum stóð býlið Hagakot. Bærinn stóð þar sem nú er Tjarnarflöt 10. Gatan dregur nafn sitt af seftjörn, sem fyrrum var í ofanverðu túninu.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – Gunnhildur.

Drjúgan spöl fyrir austan er sagt að Vífill, leysingi Ingólfs Arnarsonar, hafi reist bæ sinn og nefndi Vífilsstaði. Á Vífilsstöðum var reist berklahæli árið 1910. Nokkru austar er svo Vífilsstaðavatnið, en sunnan við vatnið eru Dýjakrókar með uppsprettulindum. Þar er nú vatnsból Garðabæjar og Álftaness, en í vændum er að það verði aflagt innan skamms. Umhverfis vatnið liggur fjölfarinn göngustígur. Frá Vífilsstaðavatni rennur Vífilsstaðalækur, sem fyrr segir, og um mýri suður af Vífilsstöðum, sem nefnist Vatnsmýri. Austur frá Vífilsstöðum og norður af vatninu er hæð, sem nefnist Skyggnir. Smalaholtið rís norðaustan vatnsins, en sunnan þess er Vífilsstaðahlíð og nefndist hún áður Svínahlíð.

Arnarnes

Arnarnes (MWL).

Inn frá Arnarnesi gengur Arnarnesholt og þar fyrir austan er Nónhæð, nú innan bæjarmarka Kópavogs, en eftir að Garðabær og Kópavogur sömdu um breytt bæjamörk hinn 18. maí 1983 skiptir Arnarnesvegurinn nýi löndum inn eftir holtunum innan við Bæjarbraut. Sunnan holtsins rennur Arnarneslækur. Hann á upptök sín í Vetrarmýri, norðan Vífilsstaða, þar sem nú er golfvöllurinn, og rann þaðan norðan Dýjakróka í Stórakrók og niður í Arnarnesvog. Dýjakrókar voru á því svæði þar sem nú er iðnaðarhverfið við Iðnbúð.

Hnoðraholt

Hnoðri á Hnoðraholti.

Norðan Vetrarmýrar rís Hnoðraholt og dregur nafn sitt af Hnoðranum á norðurbrún holtsins, sem er brattur hóll með dritþúfu. Um Hnoðrann lá fyrrum markalínan milli Vífilsstaða í Garðahreppi og Hvammkots í Seltjarnarneshreppi, en Hvammkot nefndist síðar Fífuhvammur.

Smalaholt

Smalaholt – lágmynd.

Austur af Hnoðraholti er Leirdalur, sem fyrrum virðist að mestu hafa verið í eigu Vífilsstaða en hefur í áranna rás fallið til Fífuhvamms. Suður af Leirdal rís Smalaholtið, sem fyrr er nefnt. Suðaustur frá Smalaholti eru Kjóavellir. Þar er nú hesthúsabyggð.
Sunnan Kjóavalla og suðaustanvert við Vífilsstaðavatn rís Sandahlíðin, hæst hæða á þessum slóðum, 160 m yfir sjávarmáli. Þar uppi er fagurt útsýni til allra átta og blasa þar suðurfjöllin við göngumönnum. Norðan undir Sandahlíðinni er útivistar- og leikjavæði Skógræktarfélags Garðabæjar.

Grunnuvötn

Tóftir við Grunnuvötn.

Lægðin milli Sandahlíðar og Vífilsstaðahlíðar nefnist Grunnuvatnaskarð, en í suðaustur eru Grunnuvötn, tvær tjarnir, sem nú þorna upp á sumrum. Austan við Grunnuvötn rís hæð eða hóll, sem nefnist Arnarbæli, hefur einnig verið nefndur Arnarstapi og Arnarsetur. Á Arnarbæli eru landamörk milli Garðabæjar og Kópavogs og liggja þaðan suður í Húsfell. Suðvestan Grunnuvatna er hæð uppi á Vífilsstaðahlíðinni er nefnist Selás. Suðvestan undir Selási stóð Vífilsstaðasel. Þegar haldið er til suðurs frá Selási göngum við yfir Víkurholt, en þau eru tvö, og komum að Hjöllum. Hjallarnir er misgengisstallur, sem er allt að 60 m hár þar sem hann er hæstur sunnan undir Vífilsstaðahlíð.

Hjallar

Hjallar – misgengi.

Sprungan við rætur Hjallanna er nærri 5 km á lengd. Berggrunnurinn er grágrýti og hinn sami bæði uppi á Hjöllunum og á landinu, sem sigið hefur sunnan þeirra. Á Hjallabrún, sunnan við Víkurholt, lét Skógræktarfélag Reykjavíkur árið 1967 gera hringsjá, þar sem skoða má fjallahringinn. Næst eru Húsfell, Búrfell, Valahnúkar og Helgafell. Fjær blasa við Hengillinn, Vífilsfell, Bláfjöll, Þríhnúkar, Stóribolli eða Bollinn, Tvíbollar, og Syðstubollar. Vestan við Stórabolla er Kerlingarskarð en milli Tvíbolla og Syðstubolla er Grindarskarð, um það liggur Selvogsgata. Þar fyrir vestan komu Langahlíð, Hellutindar, Fjallið eina, Grænadyngja, Trölladyngja og Keilir.

Grásteinn

Grásteinn í Urriðakotshrauni.

Nú höldum við að nýju norður á móts við norðurenda Vífilsstaðahlíðar, er nefnist Hlíðarhorn. Uppi á Hlíðarhorni stendur varða, sem kallast Gunnhildur. Sjúklingar á Vífilsstöðum, þeir sem voru sæmilega rólfærir, gengu gjarnan upp að Gunnhildi, var haft til marks um heilsufar þeirra, að kæmust þeir þangað upp án þess að spýta blóði, þá væru þeir á batavegi og gætu jafnvel farið heim.

Gunnhildur

Gunnhildur.

Vestur frá Hlíðarhorni rís Urriðakotsholt og vestan undir því er Urriðakotsvatn, vestan þess eru svo Setbergshamar og Setbergsholt. Um þau holt liggja nú bæjamörk Garðabæjar og Hafnarfjarðar. Áður fyrr var Setbergshverfið í Garðabæ.
Sunnan við Urriðakotsvatn heitir Dýjamýri og sunnan hennar rís Flóðahjalli og syðsti og hæsti hluti þeirrar hæðar nefnist Klif. Sunnan við Klifið kemur svo önnur Sandahlíð, því þær eru tvær með sama nafni á þessum slóðum. Sunnan Urriðakotsholts og norð-austan Flóðahjalla eru Urriðakotsdalir, þar og allt suður undir Sandahlíð hefur regla Oddfellowa búið sér glæsilegan golfvöll. Sunnan þess golfvallar eru þrjár hæðir, sem nefhast Tjarnholt. Sunnan Tjarnholta hefst Reykjanesfólkvangur og þar þekur Smyrlabúðarhraun stórt svæði og nær suður að Smyrlabúð, sem er hæð á Hjallabrún, rúman kílómeter vestan Búrfells.

Heiðmörk

Heiðmörk – tóft.

Suðvestan í Vífilsstaðahlíð hefur vaxið upp gróskumikill skógur sem er hluti Heiðmerkur. Í fyrstu var land Heiðmerkur aðeins innan Reykjavíkur. Sunnudaginn 25. júní 1950 var Heiðmörk opnuð almenningi við hátíðlega athöfn. Hinn 17. október 1957 jók Skógræktarfélag Reykjavíkur við upphaflegt svæði með samningi við stjórn ríkisspítalanna, sem leigði félaginu verulegt land frá Vífilsstöðum, m.a. Vífilsstaðahlíðina. Þessi hluti Heiðmerkur er innan Garðabæjar og 10. maí 1997 keypti bærinn það land af ríkinu.

Maríhellar

Maríuhellar.

Þarna er vinsælt útivistarsvæði og gönguleiðir í skjóli í norðannæðingi. Norður á móts við Hlíðarhorn er ekið inn í Heiðmörkina og liggur vegurinn um hraunið allt suður undir Hjalla. Þegar ekið er inn, þar sem áður var hlið á Heiðmerkurgirðingu, og upp á hraunkambinn verða Maríuhellar á vinstri hönd, rétt við veginn. Þetta voru fjárhellar frá Vífilsstöðum og Urriðakoti. Vestast í Maríuhellum er þröngur gangur niður í manngengan helli, sem liggur langt til norðurs undir Vífilsstaðahrauninu. Gegnt Maríuhellum, sunnan við veginn, er myndarlegur hraunhóll, Dyngjuhóll eða Hádegishóll, eyktamark frá Vífilsstöðum. Vestan undir miðri Vífilsstaðahlíðinni er bílastæði og grillaðstaða og í hlíðinni þar fyrir ofan er trjásýnireitur Skógræktarfélags Reykjavíkur, sem fróðlegt er að skoða. Göngustígur liggur frá Maríuhellum suður eftir hrauntungunni. Á móts við Tjarnholtin komum við að Selgjá, sem er grunn en nokkuð breið hrauntröð mynduð í Búrfellsgosinu. Nyrst í gjánni vestanverðri er Selgjárhellir. Upp við barma Selgjár hafa menn fundið margar vallgrónar seljarústir. Jarðabók 1703 greinir frá selstöðu þarna og virðast átta kóngsjarðir á Álftanesi hafa haft þar í seli. Þegar komið er suður á Hjallabrún sést, að

Selgjá

Selgjá – uppdráttur ÓSÁ.

Selgjá er í beinu framhaldi af Búrfellsgjá, og eru þær því í raun sama hrauntröðin. Búrfellsgjá er mjög áhugaverð hrauntröð frá Búrfellsgíg og er vel þess virði að ganga eftir henni suður í Búrfell og að skoða sköpunarverk náttúrunnar í leiðinni. Samfelldur hraunstraumur hefur runnið eftir gjánum báðum.

Búrfellsgjá

Búrfellsgjá.

Hér blasir við að þessi stórleikur náttúrunnar, myndun Hjallanna og landsigið sunnan þeirra, hefur orðið eftir að eldar brunnu í Búrfelli fyrir rúmlega 7000 árum. Sprungan, sem liggur yfir hraunið í misgengisstallinum milli Selgjár og Búrfellsgjár, heitir Hrafnagjá. Niðri á flötinni í Búrfellsgjá, sunnan Hrafhagjár, er Gjárrétt. Hér var lögskilarétt fram til 1920 en réttin var notuð eitthvað lengur. Gjárrétt var friðlýst árið 1964. Við hamravegginn norðan réttarinnar er Vatnsgjá, þar eru nokkur þrep niður í ágætt vatnsból. Nær miðja vegu milli Gjárréttar og Búrfells heita Garðaflatir. Kringlóttagjá er hrauntjarnarstæði sunnan við Búrfell, sem myndast hefur seint í Búrfellsgosinu. Góðan spöl suðvestur af Kringlóttugjá eru Mygludalir. Við sérstök veðurskilyrði myndast þarna eitthvað, sem líkist mygluskán, kynnu að vera kísilþörungar.

Mygludalir

Mygludalir. Valahnúkar fjær.

Suður af Húsfelli er sameiginlegt umráðasvæði Garðabæjar og Álftaness. Það nefndist fyrrum „Almenningsskógur Álptaneshrepps.“ Mörk Almenningsskógarins liggja frá Húsfelli suður á Hæstaholt á Dauðadölum og kallast markapunkturinn nú á seinni tímum Markraki. Af Markraka liggja mörkin til vesturs sunnanvert við Leirdalshöfða í Markrakagil í Undirhlíðum eða Melrakkaskarð. Þetta eru jafnframt austur- og suðurmörk Hafnarfjarðarkaupstaðar. Eins og nafnið „Almenningsskógur“ ber með sér var gróðurfar hér fyrrum allt annað en nú. Þarna óx gróskumikill skógur því sagnir herma, að úr honum hafi árlega verið fluttir hestburðir af trjám og hrísi til eldiviðar á Bessastöðum. í Leirdal milli Leirdalshöfða og Lönguhlíðar hefur Skógræktarfélag Garðabæjar hafið uppgræðslu og trjárækt.

Þríhnúkar

Þríhnúkar – þverskurður.

Austur- og suðurmörk Almenningsskógar Álftaneshrepps liggja af Húsfelli upp í Þríhnúka. Austasti hnúkurinn kallast Strompur og er innan stjórnsýslumarka Kópavogs. Hann er sérstætt náttúruundur. Hnúkurinn er hár og brattur klepragígur og í toppnum er brekka niður að gígopi um 10 m að þvermáli.

Þríhnúkagígur

Í Þríhnúkagíg.

Við lok gossins hefur bráðið hraunið runnið brott og við það myndast um 110 m djúpur hellir með lóðréttum veggjum. Þarna ber að fara með mikilli gát því hrasi maður í brekkunni ofan við gígopið og falli niður í hellinn þarf ekki að spyrja að leikslokum. Jón heitinn Jónsson, jarðfræðingur, nefndi hellinn Svartholið. Frá Þríhnúkum liggja mörk Almenningsskógarins í Bláfjallahorn, þ.e. suðurenda Bláfjalla, þaðan vestur í Litla-Kóngsfell, sem er, eins og segir í markalýsingu Krýsuvíkurlands 1890, „lág, mosavaxin eldborg umhverfis djúpan gíg á hægri hönd við þjóðveginn úr Selvogi til Hafnarfjarðar, örskammt frá veginum.“ Stórkonugjá er norðaustan við Kóngsfell. [Hér fer höfundur villu vegar því nefnt „Kóngsfell“ er hægra megin við gamla Kerlingarskarðsveginn úr Selvogi, ofan skarðsins, en það er ekki „Stóra-Kóngsfell“, eins og ætla mætti af lýsingunni. Það er miklu mun norðaustar og fjarri „gömlu götunni“. „Litla-Kóngsfell“ er gígur, hægra megin við „gömlu götuna“ á Grindaskarðsleiðinni frá Selvogi, allnokkru sunnar en „Kóngsfellið“. Þá er „Konungsfellið“, öðru nafni „Stóribolli“, efst í Grindarskörðum. Um þau lág Selvogsgatan, öðru nafni Grindaskarðavegur, fyrrum.]

Litla-Kóngsfell

Litla-Kóngsfell – Selvogsgatan.

Hér upphefst nokkur vandi. Markalýsingum fyrri tíma til vesturs frá Litla-Kóngsfelli ber ekki saman og deila menn um eignamörk. Landamerkjadómur frá 1971 og Hæstaréttardómur um sýslumörk frá 1996 eru misvísandi. Hér stangast hvað á annars horn. Óbyggðanefnd tók ekki, í úrskurði sínum hinn 31. maí 2006, afstöðu til ágreinings um staðarmörk sveitarfélaga og þar með ekki til þessa vanda. Bráðnauðsynlegt er að fá botn í málin, rugling þennan leiðréttan, og að ágreiningi verði rutt úr vegi. Læt ég svo lokið frekari bollaleggingum í bili.“  – Sigurður Björnsson, verkfræðingur.

Álftanes

Álftanes – Örnefnakort – ÓSÁ.

Heimild:
-Listin að lifa, 2. tbl. 01.06.2007, Gengið um Garðabæ, Sigurður Björnsson, bls. 44-47.

Kóngsfell

Kóngsfell.

Hagakot

Í ritinu „Listin að lifa“ frá árinu 2007 skrifar Sigurður Björnsson greinina „Gengið um Garðabæ“. Umfjöllun Sigurðar birtist annars staðar á vefsíðunni, en í greininni minnist hann m.a. í stuttu máli á Hagakot í Garðabæ. Nefnt kot, eða öllu heldur ábúendur þess, skyldi eftir sig allnokkrar minjar í Hafnarfjarðarhrauni, auk þess sem Hagakotsstígurinn, þ.e. hinn forni selsstígur frá Hofstöðum að seli bæjarins að Urriðavatni, lá um Hagakot.

Hagakot

Hagakot – Tjarnarflöt 10.

„Suður frá Hofsstöðum stóð býlið Hagakot. Bærinn stóð þar sem nú er Tjarnarflöt 10. Gatan dregur nafn sitt af seftjörn, sem fyrrum var í ofanverðu túninu.“
Í manntalinu 1703 eru 5 íbúar skráðir í Hagakoti; 1703: „hálflenda so kölluð, því það hefur ekki fyrirsvar nema til helmings á móts við lögbýlisjarðir.“
Konungseign. JÁM, III, 225.
1703: „Engjar litlar.“ JÁM, III, 226.
Túnakort ekki til.

Hagakotsstígur

Hagakotsstígur. Urriðavatn framundan.

Hagakotsbær: „Býli í Garðahreppi, fyrrum Álftaneshreppi. Er nú í eyði [1964]. Átti sitt eigið tún, en beit í óskiftu Garðastaðalandi, fyrir fénað þann sem túnið framfleytti. Munmæli herma svo: Hagakot á utan túns, beit fyrir kýr í hafti og hest í stokk. Hagi er býli þetta nefnt í fornum bréfum Viðeyjarklausturs…Hagakotsbærinn: Stóð í túninu miðju, þar sér nú aðeins rústirnar,“ segir í

Hagakot

Hagakot – loftmynd 2023.

Skrá yfir örnefni og fiskimið. ,,Hagakot var jörð í Garðakirkjulandi…. Bæjarrústirnar eru horfnar með öllu.
Bæjarstæði Hagakots var þar sem nú er Tjarnarflöt 10″ segir í Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar. ,,Á móts við Brekkutögl liggur stígur út í hraunið, sem nefnur var Hagakotsstígur. Um hann var farið milli Urriðakots og Hagakots, en Hagakot var skammt norðan við Vífilsstaðalæk, en suður af Hofsstöðum“, segir í örnefnaskrá SP yfir Urriðakot.
Þar sem Hagakotsbærinn var áður er nú þétt og gróin byggð. Tjarnargata 10 er einbýlishús og bílskúr og er mikið af trjágróðri á lóðinni. Ekkert markar fyrir bæjarstæði Hagakots á yfirborði, þó leifar þess kunni að leynast undir sverði.“
2001: Bæjarrústir með öllu horfnar, þar er nú Tjarnarflöt 10. GRG, 102.

Í Tímanum 1970 segir frá Birni Konráðssyni, oddviti í Garðahreppi í nær þrjá áratugi. Í viðtali við hann segir Björn m.a. frá Hagakoti og nágrenni:

Björn Konráðsson

„Björn Konráðsson er seztur í helgan stein eftir langt og mikið dagsverk, rúmlega 75 ára að aldri, ern og hress í anda með hugann fullan af áhugamálum um Garðahreppsbyggðina og sístarfandi að hugðarefnum. Hann hefur haft fingurinn á slagæð þessarar byggðar allt hið hraða vaxtarskeið hennar og man tímana tvenna. Fáir hafa orðið vitni að og átt ríkari þátt í slíkum umskiptum sveitar sinnar.
Björn er Skagfirðingur að ætt, lagði ungur að árum leið sína til Noregs og kom þaðan búfræðingur frá Ási og réðst ráðsmaður að ríkisbúinu á Vífilsstöðum.
—Hvenær komst þú í Vífilsstaði, spyr ég Björn, þegar við erum setztir inn í stofu.
—Það var 1923. Berklahælið var þá tekið til starfa, sem kunnugt er og ríkisbúið við það stofnað, en lítið var farið að rækta. Þúfnabaninn frægi hafði þó komið þangað og ráðizt á mýrina vestan við bæjarásinn. Þetta er gamall vatnsbotn, mýrin mjög seig, og þurfti að ræsa hana fram. Það var ekki gert til hlítar í öndverðu, en síðar bætt um það.
Það kom í minn hlut að rækta tún úr umbroti þúfnabanans, og þetta varð gott tún, hefur gefið af sér margan hestburðinn. Það kól aldrei fyrr en 1952, en náði sér fljótt aftur, enda sáði ég í kalið.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir og nágrenni 1954.

— Hve stórt var búið á Vífilsstöðum, þegar þú tókst við, Björn?
— Bústofninn var einar 16 kýr og túnið gaf af sér um 200 hesta af íöðu. Síðar gáfu túnin af sér um 3 þús. hesta og auk þess voru tún ræktuð til beitar. Á þeim bletti, sem þetta hús stendur nú á hér á Flötunum, var einmitt kúabeit frá Vífilsstöðum framan af árum. Hér var kóngsjörð lítil, nefnd Hagakot. Þar var hætt búskap um 1920. Einnig var landið upp með læknum ræktað til beitar.

Hagakot

Hagakot – auglýsing 1895.

Mest varð búið hjá mér um 70 kýr mjólkandi, auk geidneyta, svo að nær hundrað var í fjósi stundum. Ég fékk mjaltavélar 1928.
Bústofninn var lítið annað en kýrnar, aðeins lítið eitt af svínum og hænsn.
— En óræktað land Vífilsstaða, var það beitt?

— Nei, það var snemma friðað, og síðan hefur mikið verið gróðursett af trjám í hlíðinni. Gróðurinn þar og í hrauninu hefur tekið ótrúlega miklum stakkaskiptum, og nú er hraunið orðið sannkallaður unaðsreitur með birkikjarri sínu, skjólbollum og hraunmyndum. Þessa lands getur fólkið hér í byggðinni nú notið, en ég treysti því til þess að verja það og vernda.
— Hve lengi hefur þú verið oddviti, Björn?
— Ég var kjörinn í hreppsnefnd hér 1931, og fer úr henni á þessu herrans ári 1970, svo að nú geturðu reiknað. Eru það ekki nær 40 ár? Oddviti var ég í 28 ár.“

Í Ísafold 1895 er Hagakot auglýst til leigu:

Hagakot

Hagakot – auglýsing 1896.

„Umboðsjörðin Hagakot í Garðahreppi, 8,3 hndr. að dýrleika eptir mati nýju mati, er laus til ábúðar í næstkomandi fardögum. Eptirgjaldið er; landskuld 40 álnir og leigur 20 álnir eptir smjörverði.
Umboðsmaður í Kjósar- og Gullbringusýslu, 14. desember 1895 – Franz Siemsen“

Í Ísafold 1896 er Hagakot aftur auglýst til útleigu:

„Umboðsjörðin Hagakot í Garðahreppi er laus til ábúðar í næstkæmandi fardögum. Eptirgjaldið er; landskuld 40 álnir og leigur 20 pd. smjörs.
Þeir, sem óska að fá ábúð á jörðu þessari, snúi sjer sem fyrst til mín sem umboðsmanns tjeðrar jarðar.
Skrifst. Kjósar- og Gullbringusýslu 17 des. 1896 – Franz Siemsen“

Í Ísafold 1898 er enn ein auglýsingin um leigu á Hagakoti:

„Hagakot í Garðahreppi, að dýrl. 8,3 hdr. n.m. Landskuld 40 álnir, leigur 20 pd. smjörs.
Skrifstofu Kjósar- og Gullbringusýslu 23. janúar 1898 – Franz Siemsen“

Hagakot

Hagakot – herforingjakort 1919.

Lítill áhugi virðist vera á jörðinni enda ræktað landrými takmarkað. Svo fór, líkt og Björn lýsti, að jörðin lagðist í eyði um 1920.

Í Örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar segir um Hagakot:

„Hagakot, býli í Garðahreppi, fyrrum Álftaneshreppi. Hagi er býlið nefnt í skjali frá gömlum tímum.

Hagakot

Hagakot – stekkur.

Hagakotsbær stóð í Hagakotstúni því nær miðju, en það mun hafa fóðrað þrjár kýr eða þar um bil. Hagakotstúngarðar lágu að því austan, norðan og vestan. Hagakotstraðir lágu frá bænum vestanvert upp túnið í alfaraleiðina, sem lá rétt ofan við túnið. Hali eða Ranghali nefndist vesturhluti túnsins. Ofan eða bak við bæinn var Hagakotstjörn. Þangað var stundum sótt vatn. Á sumrum var hún gróin fergini. Hagakotsmýri lá neðan túnsins niður að Hagakotslæk, eins og lækurinn var kallaður, meðan hann rann meðfram landi býlisins. Beint niður undan bænum var vatnsbólið og vatnsgatan ofan frá bæ og þangað niður. Vestan túns var Vaðið yfir lækinn, þar sem hann nefndist Djúpilækur. Suðaustur frá túninu var Steinbrúin eða Stiklurnar yfir lækinn.

Hagakot

Hagakot – Hagakotshellir.

Austan túns var barð, og þar var mótekja, nefndist Móbarð. Hagakotsmelar lágu vestan, ofan og austan túns, og þar um lá alfaraleiðin. Austan túns niður undan melunum var Torfmýrin. Um hana var talið, að lægi landamerkjalínan milli Hagakots og Vífilsstaða. Þar upp af var lægð, Grófin. Ofar í holtinu var Sérstakaþúfa, eða eins og hún var kölluð frá Hagakoti, Syðriþúfa. Aðrir töldu, að landamerkin lægju nokkru innar um svonefnda Nautalind eða Nautadrykk og þá um Mýrarblettinn.

Hagakot

Hagakot – loftmynd 1954.

Hagakotsstígur lá frá Vaðinu suður um hraunið, Svínahraun, að Urriðakoti. Því var stígurinn allt eins nefndur Urriðakotsstígur. Spölkorn úti í hrauninu var Hagakotshellir, lítill skúti, en þó skjól fyrir fé. Þar lengra úti á hrauninu var Hagakotshóll eða (?) Hádegishóll, eyktamark frá Hagakoti.

Þjóðjörðin Hagakot í Garðahreppi á tún sitt, hefur eftir fornri venju notað mýri fyrir neðan túnið og mótak í barði austur af túninu og beit í Garðakirkjulandi fyrir fénað þann, sem framfleytist af mýrinni og túninu.“

Öllu umhverfis túnstæði Hagakots fyrrum hefur nú verið umverft undir þarfir nútímans…

Heimildir:
-Listin að lifa, 2. tbl. 01.06.2007, Gengið um Garðabæ, Sigurður Björnsson, bls. 46.
-Manntalið 1703.
-Tíminn, 113. tbl. 24.05.1970, Hann var oddviti í Garðahreppi nær þrjá áratugi – Björn Konráðsson, bls. 14 og 22.
-Ísafold, 96. tbl. 21.12.1895, auglýsing, bls. 884.
-Ísafold, 89. tbl. 23.12.1896, auglýsing, bls. 858.
-Ísafold, 6. tbl. 02.02.1898, auglýsing, bls. 24.
-Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álftaneshreppi, 7; GRG, 102; Ö-Urriðakot SP, 4.
-Örnefnalýsing, Hagakot – Gísli Sigurðsson.
-Garðahraun Efra- Fornleifaskráning- og skýrsla. Antikva 2018.

Hagakot

Hagakot og nágrenni – herforingjakort 1919.

Garðahverfi

Í ritinu Harðjaxl réttlætis og laga 1924 skrifar „Gamall Garðhreppingur“ um „Átthagafræði Garðahrepps„. Um var að ræða verðlaunasamkeppni ritsins þar sem viðkomandi lýsir bæjum og ábúendum í Garðahreppi:

Hr. ritstjóri!

Lónakot

Lónakotsbærinn.

„Þegar eg las í blaði yðar Harðjaxl um hinn mikla framgang Harðjaxlsstefnunnar, sem ennþá er vitanlega mestur í höfuðborginni, datt mér í hug, að þegar þér farið að senda erindreka yðar út um sveitirnar, væri gott fyrir yður að vita nokkur deili á býlum þeim og bændum, þar sem erindrekar yðar fara um. Þess vegna sendi eg yður hér með stuttorða lýsingu á bæjarnöfnum og fleiru smávegis, í þeim hreppi, sem eg er tiltölulega kunnugastur í.
Syðsti bær hreppsins er Lónakot. þar bjó til skamms tíma Guðlaugur; var hann sveitarhöfðingi hinn mesti, og bætti jörð sína mjög, og fór vel með allar skepnur, sérstaklega sauðfé. En nú er hann fluttur til Hafnarfjarðar og mun það mest vera fyrir þá sök, að honum þótti of lítið útsvar lagt á sig í hreppnum. Nú býr í Lónakoti Þorsteinn frá Herdísarvík, sá sem ekki vildi dóttur þórarins. Er hann sagður búhöldur góður.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir.

Næsti bær fyrir innan Lónakot eru Óttarstaðir; þar er tvíbýli. Á öðrumum partinum býr Guðmundur strandamaður. þar bjó áður Guðjón, sem búnaðist best í Krýsuvík. Á hinum partinum býr Sigurður; var hann talinn góður bóndi áður en bílarnir komu. Skammt fyrir ofan Óttarstaði er býlið Eiðskot.
Þar búa bræður tveir, Sveinn og Guðmundur. Eru þeir smiðir góðir og gamlir skútumenn, en hafa nú í seinni tíð hneigst til sauða, eins og stórbóndinn á Hvaleyri. Einnig hafa þeir verið helstu skónálasmiðir hreppsins um mörg ár.
Nú kemur engin bygð. fyr en í Straumi. Þar bjó um langan aldur Guðmundur dýravinur. En nú er hann kominn til Hafnarfjarðar eins og Guðlaugur, og lifir þar á sauðfé sínu og guðs blessun. Bjarni skólastjóri hefir nú útibú í Straumi, og á margt auðfé. Þar er engum úthýst.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir – tilgáta (ÓSÁ).

Í inn-hraununum eru nú sex býli í eyði, sem búið hefir verið á til skamms tíma, en liggja nú flest undir Straum.
Helsta býlið af þessum sex voru Þorbjarnarstaðir. Þar bjó lengi Þorkell faðir Árna, Ingólfs og Geira. Og var honum að sögn bygt út fyrir þá sök, að hann þótti ekki gresja nóg skóginn.
Hann hafði mikla ást á geldingum, sérstaklega mislitum. Nú er hann kominn til fjarðarins eins og Laugi. Í Péturskoti, sem er eitt af eyðibýlunum, bjó eitt ár Ingólfur sonur Þorkels, en af því að hann gat ekki tekið með köldu blóði að hafa þar margt fé á litlu, fór hann þaðan, og er nú kominn í velsæluna í firðinum. Á eyðibýlinu Litla-Lambhaga bjó fyrir nokkru Brynjólfur, gamall vinur Þorkels. Mun hann hafa farið þaðan fyrir þá sök að honum þótti of lág landskuldin. Í Gerðinu hefir nú Þórarinn sumarbústað; er hann sami maðurinn sem snéri trollurunum aftur við Reykjanes í fyrra, þegar hann komst ekki í bæjarstjórnina í firðinum. Þá grétu Emil og Gísli. Í Stóra-Lambhaga, sem nú er ein af hjálendum Straums, bjó fyrir nokkru Guðjón, sem nú býr á Langeyri við Hafnarfjörð, faðir Magnúsar hugvitsmanns…

Ás

Ás – tilgáta ÓSÁ.

Þegar hinum svokölluðu Hraunabæjum sleppir, er næsti bær Þorgeirsstaðir. Þar nam land Þorgeir hinn sterki. Nú býr þar Brynjólfur frá Litla-Lambhaga. Er hann víst allgóður bóndi, en heldur þykir hann óheppinn með sauðfé nú í seinni tíð. Skammt frá Þorgeirsstöðum er býlið Stekkur. Þar býr Sigurður. Þykir hann gera það gott eftir atvikum. Næsti bær við Stekk er Ás. Þar býr Oddgeir sonur Þorkels; er það sami maðurinn sem ekki bauð sig fyrir hreppstjóra hérna um árið, en varð hreppstjóri samt, eg man ekki hvað lengi. Nú er höfuðbólið Setberg næsti bær. Þar býr nú Jóhannes Reykdal, og hefir mikið um sig. Þar bjuggu áður Halldór og Anna, sem margir kannast við.

Urriðakot

Urriðakot.

Næsti bær við Setberg er Urriðakot. Þar býr Guðmundur. Er hann tengdafaðir Björns bolsivikka í firðinum, og er sagt, að Guðmundur sé ekkert upp með sér af þeim tengdum.
Þá koma næst Vífilsstaðir. Þar er nú rekinn fyrirmyndar búskapur á kostnað ríkissjóðs, undir stjórn Þorleifs. Og mundi vart betur vera búið, þótt einstakur maður ætti. Og sýnir það, að ríkisrekstur á fullkominn tilverurétt, á hvaða sviði sem er, ef honum er viturlega stjórnað. En heldur þykir bændum útsvarið vera lágt á búinu.
Skammt fyrir neðan Vífilsstaði er Hagakot; það er nú í eyði, en beljur látnar slá túnið á sumrum.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir fyrrum.

Þá koma Hofstaðir. Þar býr nú Gísli, sá sem ekki vill komast í hreppsnefndina. Þar bjó áður Jakob faðir Gísla, vel metinn maður. Fyrir neðan Hofstaði er Arnarnes. Þar býr nú prestsekkja með sonum sínum. Og hefir hún meira álit á hærri stöðum en sumir hreppstjórar. Þá er næst Hraunsholt. Þar hefir lengi búið Jakob; er hann með betri bændum hreppsins, og helsti brautryðjandi hreppsins í kaupfélagsmálum. Og sérstaklega er sagt að hann hafi gengið upp, síðan farið var að slá slöku við að mæla fitumagnið í mjólkinni.

Krókur

Krókur.

Þá tekur við Garðahverfið, og er þá best að byrja á Garðastað. Þar býr prófastur Árni Björnsson, tengdafaðir Gunnlaugs stórkaupmanns. Þá er næst Nýibær. Þar býr Magnús, allgóður bóndi, en heldur er sagt að búskap hans hafi hrakað síðan bæjarfulltrúinn tók heimasætuna. Skamt upp af Nýjabæ er Krókur. Þar bjó lengi Björn faðir Guðmundar. Er sagt að Guðmundur sjái um að blikkkassinn hjá gjaldkeranum springi ekki af offylli. Fyrir neðan Krók eru Pálshús. Þar býr nú Guðjón hreppstjóri, sem ekki fékk Arnarnesið.

Garðahverfi

Pálshús.

Fyrir neðan Pálshús eru Dysjar. Þar er tvíbýli. Á öðrum partinum býr Magnús Brynjólfsson. Og er sagt að bærinn hjá honum leki enn, þó að hann kysi Björn. Á hinum partinum býr Guðjón, mágur Steingríms og Óla H. Skamt frá Dysjum er Bakki. Þar býr nú Kristinn Kristjánsson. Þar bjó áður Isak, sem á meinlausu hundana. Þá er Miðengi. Þar býr Gunnar, sláttumaður góður. Þar næst er Móakot. Þar býr Einar, bróðir Steins rithöfundar. Sonur Einars er Sigurður sá, sem engin hjúkrunarkona vill ganga með, jafnvel þó hún sé launuð af bæjarstjórn. Fyrir ofan Móakot er Háteigur. Þar býr Stefán, faðir Páls.

Garðahverfi

Hlíð.

Þá kemur næst Hlíð. Þar hefir til skamms tíma verið tvíbýli. Nú hefir alla jörðina Gísli Guðjónsson. Þá er næsti bær Grjóti. Þar býr nú sprenglærður búfræðingur með mikilli rausn.
Á Hausastöðum býr nú Valgeir Eyjólfsson, talinn gott búmannsefni. Fyrir neðan Hausaataði er Katrínarkot. Þar hefir lengi búið Jónína, gömul vinkona Guðjóns. Þá er norðasti bær hreppsins, Selskarð. Þar bjó til skamms tíma Þórarinn, sem margir Hafnfirðingar kannast við. En nú hafa þeir félagar Jón og Gísli keypt jörðina, og er sagt að þeir ætli að setjast þar að þegar þeir eru búnir að tapa svo miklu á akkorðunum, að þeir haldist ekki lengur við í firðinum. Og telja kunnugir, að það geti vart dregist lengur en fram á næsta vor, sérstaklega, ef þeir hafa uppskipun úr 14 trollurum í vetur.
Þess skal getið réttum hlutaðeigendum til hróss, að þeir hafa sett mjög öfluga girðingu á milli Álftaness og Garðahverfis. En þó Álftnesingurinn sé ekki árennilegur, mun eg ef til vill, ef eg sé mér færi, skjótast í gegnum hliðið á girðingunni og rita þá lítilsháttar um bændur þar og búalið.“ – Gamall Garðhreppingur.

Heimild:
-Harðjaxl réttlæstis og laga, 16. tbl. 04.12.1924, Átthagafræði Garðahrepps – verðlaunasamkeppni, bls. 2-3.

Garðahverfi

Garðahverfi.