Færslur

Hagakot

Í ritinu “Listin að lifa” frá árinu 2007 skrifar Sigurður Björnsson greinina “Gengið um Garðabæ”. Umfjöllun Sigurðar birtist annars staðar á vefsíðunni, en í greininni minnist hann m.a. í stuttu máli á Hagakot í Garðabæ. Nefnt kot, eða öllu heldur ábúendur þess, skyldi eftir sig allnokkrar minjar í Hafnarfjarðarhrauni, auk þess sem Hagakotsstígurinn, þ.e. hinn forni selsstígur frá Hofstöðum að seli bæjarins að Urriðavatni, lá um Hagakot.

Hagakot

Hagakot – Tjarnarflöt 10.

“Suður frá Hofsstöðum stóð býlið Hagakot. Bærinn stóð þar sem nú er Tjarnarflöt 10. Gatan dregur nafn sitt af seftjörn, sem fyrrum var í ofanverðu túninu.”
Í manntalinu 1703 eru 5 íbúar skráðir í Hagakoti; 1703: “hálflenda so kölluð, því það hefur ekki fyrirsvar nema til helmings á móts við lögbýlisjarðir.”
Konungseign. JÁM, III, 225.
1703: “Engjar litlar.” JÁM, III, 226.
Túnakort ekki til.

Hagakotsstígur

Hagakotsstígur. Urriðavatn framundan.

Hagakotsbær: “Býli í Garðahreppi, fyrrum Álftaneshreppi. Er nú í eyði [1964]. Átti sitt eigið tún, en beit í óskiftu Garðastaðalandi, fyrir fénað þann sem túnið framfleytti. Munmæli herma svo: Hagakot á utan túns, beit fyrir kýr í hafti og hest í stokk. Hagi er býli þetta nefnt í fornum bréfum Viðeyjarklausturs…Hagakotsbærinn: Stóð í túninu miðju, þar sér nú aðeins rústirnar,” segir í Skrá yfir örnefni og fiskimið. ,,Hagakot var jörð í Garðakirkjulandi…. Bæjarrústirnar eru horfnar með öllu.
Bæjarstæði Hagakots var þar sem nú er Tjarnarflöt 10.” segir í Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar. ,,Á móts við Brekkutögl liggur stígur út í hraunið, sem nefnur var Hagakotsstígur. Um hann var farið milli Urriðakots og Hagakots, en Hagakot var skammt norðan við Vífilsstaðalæk, en suður af Hofsstöðum”, segir í örnefnaskrá SP yfir Urriðakot.
Þar sem Hagakotsbærinn var áður er nú þétt og gróin byggð. Tjarnargata 10 er einbýlishús og bílskúr og er mikið af trjágróðri á lóðinni. Ekkert markar fyrir bæjarstæði Hagakots á yfirborði, þó leifar þess kunni að leynast undir sverði.”
2001: Bæjarrústir með öllu horfnar, þar er nú Tjarnarflöt 10. GRG, 102.

Í Tímanum 1970 segir frá Birni Konráðssyni, oddviti í Garðahreppi í nær þrjá áratugi. Í viðtali við hann segir Björn m.a. frá Hagakoti og nágrenni:

Björn Konráðsson

“Björn Konráðsson er seztur í helgan stein eftir langt og mikið dagsverk, rúmlega 75 ára að aldri, ern og hress í anda með hugann fullan af áhugamálum um Garðahreppsbyggðina og sístarfandi að hugðarefnum. Hann hefur haft fingurinn á slagæð þessarar byggðar allt hið hraða vaxtarskeið hennar og man tímana tvenna. Fáir hafa orðið vitni að og átt ríkari þátt í slíkum umskiptum sveitar sinnar.
Björn er Skagfirðingur að ætt, lagði ungur að árum leið sína til Noregs og kom þaðan búfræðingur frá Ási og réðst ráðsmaður að ríkisbúinu á Vífilsstöðum.
—Hvenær komst þú í Vífilsstaði, spyr ég Björn, þegar við erum setztir inn í stofu.
—Það var 1923. Berklahælið var þá tekið til starfa, sem kunnugt er og ríkisbúið við það stofnað, en lítið var farið að rækta. Þúfnabaninn frægi hafði þó komið þangað og ráðizt á mýrina vestan við bæjarásinn. Þetta er gamall vatnsbotn, mýrin mjög seig, og þurfti að ræsa hana fram. Það var ekki gert til hlítar í öndverðu, en síðar bætt um það.
Það kom í minn hlut að rækta tún úr umbroti þúfnabanans, og þetta varð gott tún, hefur gefið af sér margan hestburðinn. Það kól aldrei fyrr en 1952, en náði sér fljótt aftur, enda sáði ég í kalið.
— Hve stórt var búið á Vífilsstöðum, þegar þú tókst við, Björn?
— Bústofninn var einar 16 kýr og túnið gaf af sér um 200 hesta af íöðu. Síðar gáfu túnin af sér um 3 þús. hesta og auk þess voru tún ræktuð til beitar. Á þeim bletti, sem þetta hús stendur nú á hér á Flötunum, var einmitt kúabeit frá Vífilsstöðum framan af árum. Hér var kóngsjörð lítil, nefnd Hagakot. Þar var hætt búskap um 1920. Einnig var landið upp með læknum ræktað til beitar. Mest varð búið hjá mér um 70 kýr mjólkandi, auk geidneyta, svo að nær hundrað var í fjósi stundum. Ég fékk mjaltavélar 1928.
Bústofninn var lítið annað en kýrnar, aðeins lítið eitt af svínum og hænsn.
— En óræktað land Vífilsstaða, var það beitt?

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir og nágrenni 1954.

— Nei, það var snemma friðað, og síðan hefur mikið verið gróðursett af trjám í hlíðinni. Gróðurinn þar og í hrauninu hefur tekið ótrúlega miklum stakkaskiptum, og nú er hraunið orðið sannkallaður unaðsreitur með birkikjarri sínu, skjólbollum og hraunmyndum. Þessa lands getur fólkið hér í byggðinni nú notið, en ég treysti því til þess að verja það og vernda.
— Hve lengi hefur þú verið oddviti, Björn?
— Ég var kjörinn í hreppsnefnd hér 1931, og fer úr henni á þessu herrans ári 1970, svo að nú geturðu reiknað. Eru það ekki nær 40 ár? Oddviti var ég í 28 ár.”

Í Ísafold 1895 er Hagakot auglýst til leigu:

Hagakot

Hagakot – auglýsing 1895.

“Umboðsjörðin Hagakot í Garðahreppi, 8,3 hndr. að dýrleika eptir mati nýju mati, er laus til ábúðar í næstkomandi fardögum. Eptirgjaldið er; landskuld 40 álnir og leigur 20 álnir eptir smjörverði.
Umboðsmaður í Kjósar- og Gullbringusýslu, 14. desember 1895 – Franz Siemsen”

Í Ísafold 1896 er Hagakot aftur auglýst til útleigu:

Hagakot

Hagakot – auglýsing 1896.

“Umboðsjörðin Hagakot í Garðahreppi er laus til ábúðar í næstkæmandi fardögum. Eptirgjaldið er; landskuld 40 álnir og leigur 20 pd. smjörs.
Þeir, sem óska að fá ábúð á jörðu þessari, snúi sjer sem fyrst til mín sem umboðsmanns tjeðrar jarðar.
Skrifst. Kjósar- og Gullbringusýslu 17 des. 1896 – Franz Siemsen”

Í Ísafold 1898 er enn ein auglýsingin um leigu á Hagakoti:

“Hagakot í Garðahreppi, að dýrl. 8,3 hdr. n.m. Landskuld 40 álnir, leigur 20 pd. smjörs.
Skrifstofu Kjósar- og Gullbringusýslu 23. janúar 1898 – Franz Siemsen”

Lítill áhugi virðist vera á jörðinni enda ræktað landrými takmarkað. Svo fór, líkt og Björn lýsti, að jörðin lagðist í eyði um 1920.

Í Örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar segir um Hagakot:

“Hagakot, býli í Garðahreppi, fyrrum Álftaneshreppi. Hagi er býlið nefnt í skjali frá gömlum tímum.

Hagakot

Hagakot – herforingjakort 1919.

Hagakotsbær stóð í Hagakotstúni því nær miðju, en það mun hafa fóðrað þrjár kýr eða þar um bil. Hagakotstúngarðar lágu að því austan, norðan og vestan. Hagakotstraðir lágu frá bænum vestanvert upp túnið í alfaraleiðina, sem lá rétt ofan við túnið. Hali eða Ranghali nefndist vesturhluti túnsins. Ofan eða bak við bæinn var Hagakotstjörn. Þangað var stundum sótt vatn. Á sumrum var hún gróin fergini. Hagakotsmýri lá neðan túnsins niður að Hagakotslæk, eins og lækurinn var kallaður, meðan hann rann meðfram landi býlisins. Beint niður undan bænum var vatnsbólið og vatnsgatan ofan frá bæ og þangað niður. Vestan túns var Vaðið yfir lækinn, þar sem hann nefndist Djúpilækur. Suðaustur frá túninu var Steinbrúin eða Stiklurnar yfir lækinn.

Hagakot

Hagakot – stekkur.

Austan túns var barð, og þar var mótekja, nefndist Móbarð. Hagakotsmelar lágu vestan, ofan og austan túns, og þar um lá alfaraleiðin. Austan túns niður undan melunum var Torfmýrin. Um hana var talið, að lægi landamerkjalínan milli Hagakots og Vífilsstaða. Þar upp af var lægð, Grófin. Ofar í holtinu var Sérstakaþúfa, eða eins og hún var kölluð frá Hagakoti, Syðriþúfa. Aðrir töldu, að landamerkin lægju nokkru innar um svonefnda Nautalind eða Nautadrykk og þá um Mýrarblettinn.

Hagakot

Hagakot – Hagakotshellir.

Hagakotsstígur lá frá Vaðinu suður um hraunið, Svínahraun, að Urriðakoti. Því var stígurinn allt eins nefndur Urriðakotsstígur. Spölkorn úti í hrauninu var Hagakotshellir, lítill skúti, en þó skjól fyrir fé. Þar lengra úti á hrauninu var Hagakotshóll eða (?) Hádegishóll, eyktamark frá Hagakoti.

Þjóðjörðin Hagakot í Garðahreppi á tún sitt, hefur eftir fornri venju notað mýri fyrir neðan túnið og mótak í barði austur af túninu og beit í Garðakirkjulandi fyrir fénað þann, sem framfleytist af mýrinni og túninu.”

Öllu umhverfis túnstæði Hagakots fyrrum hefur nú verið umverft undir þarfir nútímans…

Heimildir:
-Listin að lifa, 2. tbl. 01.06.2007, Gengið um Garðabæ, Sigurður Björnsson, bls. 46.
-Manntalið 1703.
-Tíminn, 113. tbl. 24.05.1970, Hann var oddviti í Garðahreppi nær þrjá áratugi – Björn Konráðsson, bls. 14 og 22.
-Ísafold, 96. tbl. 21.12.1895, auglýsing, bls. 884.
-Ísafold, 89. tbl. 23.12.1896, auglýsing, bls. 858.
-Ísafold, 6. tbl. 02.02.1898, auglýsing, bls. 24.
-Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álftaneshreppi, 7; GRG, 102; Ö-Urriðakot SP, 4.
-Örnefnalýsing, Hagakot – Gísli Sigurðsson.
-Garðahraun Efra- Fornleifaskráning- og skýrsla. Antikva 2018.

Hagakot

Hagakot og nágrenni – herforingjakort 1919.