Gengið var um vestanvert Álftanes, norðan Skógtjarnar. M.a. var komið við í tóftum Litlabæjar, gengið út á Litlabæjartanga og síðan gengið með ströndinni innan við Sandskarð. Þar fyrir innan er t.d. Bakkakot og Bakkakotstjörn. Fyrir innan röðuðu kotin (Hákot, Gesthús, Sveinskot, Kekkjakot, Mýrarkot, Garðskot, Þóroddarkot, Grashús, Þórukot, Bjarnastaðir og Friðrikskot) sér í þétta þyrpingu fyrr á öldum.
Sá hluti Álftaness, sem tilheyrir landi Garðabæjar, afmarkast af vestanverðu af Skógtjörn. Í tjörninni gætir mikils munar flóðs og fjöru. Í Skógtjörn er fjölbreyttur gróður og dýralíf. Skógtjörn er mikilvægur viðkomustaður farfugla. Yfir vetrarmánuðina halda þar til endur og álftir. Í Lýsingu Garðaprestakalls 1842 segir Árni Helgason að sögur hermi að Skógtjörn og Lambhúsatjörn hafi fyrrum verið engi.
Þegar staðið er á Litlabæjartanga í svo “stórri sveit”, sem Álftanesið hefur verið í gegnum aldirnar með stjórnsýslusetrið Bessastaði innanborðs, með hafið á mót ströndinni og lífsblett smælingjans landmegin, verður ekki hjá því komist að velta lífi hins venjulega fólks fyrir sér hér fyrr á öldum. Nákvæm lýsing á búskapnum í Litlabæ er til frá því á ofanverðri nítjándu öld. Gísli Jónsson, alþingismaður, skrifaði þær og studdist við minnisblöð föðurs síns, Jóns Hallgrímssonar. Foreldrar Gísla fengu jörðina til ábúðar árið 1884 og bjuggu þar í tólf ár.
Í Litlabæ bjuggu 11 manns samkvæmt manntalinu 1890; hjón ásamt fimm börnum sínum, tveimur vinnumönnum og tveimur vinnukonum. “Þar hefur fjölskyldan verið í hörðum skóla. Þar hefur hún liðið sult, klæðleysi, sjúkdóma og fátækt. Þar hefur faðir minn margoft teflt á tæpasta vaðið í baráttu við æðisgengnar öldur, stórviðri, myrkur og byl.”
Lýsing Gísla gæti átt við svo til sérhverja fjölskyldu á Íslandi á þessum tíma.
Jörðinni og híbýlum þeirra lýsir Gísli svo: “Suðvestast á Nesinu, alveg fast að klettóttri ströndinni, er lítið kot. Litlibær heitir það, og ber nafn með rentu. Húsakynnin eru lítill torfbær, byggður í gömlum íslenskum bæjarstíl, með göflum og dyrum gegnt hafinu.
Þegar gengið er inn moldargöngin, er til vinstri handar þiljuð örlítil stofa með timburgólfi. Til hægri handar er moldareldhús, með hlóðum,… en óþiljað. Fyrir enda gangsins er stigi upp í baðstofu. Hún er tvö stafgólf, með súð og torfþaki. Þar er engin upphitun. Einn fjögurra rúðu gluggi er á stofugafli, en á hvorum enda baðstofu er einnig gluggi, en nokkru minni. Á eldhúsi er enginn gluggi, en birta fæst niður um víðan stromp, sme er beint yfir hlóðunum og tekur frá þeim allan reyk. Við norðurvegg eldhússins er gripahús. Er þar bás fyrir eina kú, stalldur fyrir einn hest, og stía fyrir sex kindur. Inn af því er heygarður til geymslu á fóðri, og op á milli svo að taka má heyið, án þess að fara út. Beint fram af gripahúsinu er safnþró, opin og óvarin. Við suðurvegg er hjallur, sem notaður er til geymslu og til að þurrka föt og fisk…
Túnið er lítið og þýft. Sjávarmegin er hár kambur af möl, sem brimið hefur sópað upp.
Þegar úfinn er sjór og brim er mikið í stórstaumum, gengur möl, sandur og sjávargróðurinn yfir kambinn og alla leið inn á túnið. Verður því að hreinsa það á hverju vori. Í sæmilegu ári gefur túnið af sér kýrfóður. Fyrir aðrar skepnur verður að afla heyja á annarra landi.”
Svo mörg voru þau orð – lýsing á dæmigerðum íslenskum bæ á nítjánu öld. Síðan eru liðin mörg ár – eða hvað?
Stundum er hollt að staldra við, setjast niður og rifja upp við hvaða kost forfeður okkar bjuggu við fyrir tiltölulega stuttu síðan. Árið 1910 -´20 voru helmingur allra húsa á Íslandi úr torfi og grjóti. Nú, 85 árum síðar, eru torfbæir ekki til (nema sem söfn). Hugsaðu um það – lesandi góður!
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín – en hugurinn reikaði á þeim tíma allt að 101 ár aftur í tímann, eða hér um bil.
Heimildir m.a.:
-Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar – 2002.
-Álftanesssaga – Anna Ólafsdóttir Björnsson – 1996.