Tag Archive for: Hásteinar

Nessel

Gengið var um Djúpudalahraun að Djúpudalaborg, þaðan upp í Nessel og áfram upp á Kvennagönguhól. Þá var haldið upp á Hellisþúfu og skoðaður Hellisþúfuhellir. Loks var gengið niður hæðina að vestanverðu, að klöppinni Fótalaus og staðnæmst við Imphólaréttina.

Djúpudalaborg

Djúpudalaborg í Selvogi.

Austurmörkin á Nesi lágu frá Þrívörðum við sjó, um Djúpudali og þaðan í Kálfahvamm í Geitfelli (Fálkaklett). Djúpudalaborgin er skammt frá mörkunum, vandlega hlaðin. Hana hefur átt að topphlaða, enda ber hún þess merki. Þessi fjárborg hefur að öllum líkindum þótt mikið og merkilegt mannvirki á sínum tíma, enda virðast menn hafa reynt að líka eftir henni annars staðar á landinu (sjá Þorbjarnastaðaborg).
NesDjúpudalir horfa mót suðri og eru mikil gróðurvin við efri brún sandflákana ofan við ströndina vestan Þorlákshafnar. Geldingahnappur, brönugrös, hvönn, bláklukka og fleiri villt blóm vaxa þar í hraunskjólunum. Bláberjalyngið er áberandi sem og kjarr og einir.
Allt land þarna fyrir vestan tilheyrði Nesi í Selvogi. Þar var, skv. jarðabók ÁM 1703, „jarðdýrleiki lx og so tíundast fjórum sinnum.“ Árið1397 var Mariukirkja í Nesi “…lofadur gropttur heimamönnum oc fátækum monnum. Árið 1508 hafði Þorvarður Erlendsson lögmaður til kaups við Kristínu Gottskálksdóttur Nes í Selvogi fyrir 60 hdr.

Nes

Jóhann Davíðsson með legstein úr Nesskirkjugarði.

Árið 1523 hafði Erlendur Þorvarðsson lögmaður fengið Skálholtskirkju Hof á Kjalarnesi í reikningsskap ýmissa kirkna, þ.á.m. Neskirkju sem “war komin ad nidurfalli” og lofaði “Erlindur at lata innstædu til neskirkiu.” Í desember 1525 lagði Erlendur Þorvarðsson Strönd og Nes í Selvogi “med þeim jordum sem þar til liggia” til kaups við Þórunni Stulladóttur og skyldi Þórunn vera helmingakona og hafa Nes fyrir 80 hdr og 40 kúgildi “nema hun villdi sialf helldur hafa jardernar Hlidarenda, Breidabolstad og Littllaland. allar fyrir lxxxxc.” 1595 er Grími Einarssyni dæmt Nes, 60 hdr, í arf eftir Guðbjörgu Erlendsdóttur föðurömmu sína. Búa í Nesi 2 Jónar, 2 Árnar, 2 Ormar, Hallur, Hróbjartur, Hafliði, Þorgeir, Einar, Sveinn og Gísli sbr. Sveitarbrag Jóns Jónssonar í Nesi.“

Nes

FERLIRsfélagar í Nesi.

Nes er austasta býli í Selvogi. Landamerki Ness að austanverðu, móti Þorlákshöfn og Hlíðarenda í Ölfusi eru þannig: Þrívörður, þrjár vörður á berginu milli Ness og Þorlákshafnar, þaðan í Dimmadalsklöpp á miðjum sandinum, og munu þar byrja mörkin móti Hlíðarendalandi; þaðan í Markhól í Djúpadalshrauni fyrir vestan Hlíðarendsfjallsenda, þaðan í Fálkaklett syðst í Geitafelli. Milli Ness og Bjarnastaða eru mörkin: Selós milli Selaskers og Stórhólms er fremsta mark, þaðan í Markasker, þaðan í garðsenda á kampinum milli túna Ness og Bjarnastaða, og þaðan í Unhól efst í túngarði, þaðan í Stóra-Hástein í Selvogsheiði fyrir neðan Hnúka, þaðan í Eystri-Kálfahvammsöxl í Geitafelli.

Selvogur

Selvogur – kort.

Neshverfi eða Nestorfa var sameiginlegt heiti á Nesi og hjáleigum þar. Einnig var hverfið nefnt Austurvogur eða Austurvogshverfi.“ Árið 1840 segir m.a. að “á öllum þessum bæjum [Nes og 11 hjáleigur] liggja túnin saman, og er hverfi þetta kallað Austurvogur. Fyrir framan túnin er sjávarkampurinn, snýr á móti hafútsuðri. Allar þessar jarðir eru undirorpnar grófum sandágangi, so tún verða þá kolsvört eftir hvört austan- land- og útnorðan stórviðri. Af þessari orsök hafa þær stórum spillst og spillast árlega nokkuð.” Bærinn að Nesi stóð á Bæjarhól neðan við mitt tún. Þegar tvíbýli var í Nesi, voru bæirnir nefndir Austurnes og Vesturnes.“

Nes

Nes – legsteinn í kirkjugarði við Nes.

Heimild er um kirkju, Maríukirkju, í Nesi, sem fyrr segir. “Glergluggar .iij. austann a kirkiunni. glitadur alltaradvukur .ij. handklædi.” Fyrrum mun hafa verið kirkja í Nesi og staðið, þar sem nú er braggabygging, notuð síðast sem heygeymsla. Legsteinar komu upp, þegar grafið var fyrir þessu húsi, og munu þeir vera þarna á hlaðinu.“ FERLIR fann ekki fyrir löngu einn af þessum legsteinum, en aðrir höfðu verið fluttir á minjasafnið á Selfossi. Þessi eini legsteinn, er talinn hafa verið á leiði barns er dó úr svarta dauða og grafið var í kirkjugarðinum að Nesi, væntanlega með þeim síðustu er þar voru grafnir. Steinninn er enn við Nes og fær vonandi að vera þar um ókomna tíð.

Hellishæðahellir

Merkismenn við Hellishæðahelli.

Erlendur sterki er talinn hafa búið í Nesi og dó 1312. Járngerður, var Þórðardóttir Böðvarssonar og var kona Erlends, en Valgerður var dóttir þeirra og hefur Halfdan sennilega verið maður hennar. Finnur var sonur Bjarnar Hamra-Finnsonar, en Þóra hét systir Bjarna og var hún kona Þormóðs í Gufunesi. Það er óvíst að það sé sama Þóra og nefnd er í máld.
Erlingur Jonsson [sagdi] ad kirkian j Nesi skylldi eiga .vjc. j þwfulandi þar til sem hann leisti vr .ij. kugilldi .cc. vadmala .ijc. j vide. enn .xij. alnar fyrer .c. j leiguburd þar til sem leist er vr jordunni.
Í júlí 1523 hafði Erlendur Þorvarðsson lögmaður fengið Skálholtskirkju Hof á Kjalarnesi í reikningsskap ýmissa kirkna, þ.á.m. Neskirkju sem “war komin ad nidurfalli” og lofaði “Erlindur at lata innstædu til Neskirkiu.” Kirkjan lögð niður í Nesi 1706.

Nessel

Nessel – skúti.

Gengið var inn fyrir girðingu og að litlum hraunhól þar. Hóllinn reyndist holur að innan með sandi í botni. Hann hefur áreiðanlega orðið einhverju gott skjól. Selið er skammt ofar. Megintóftin er í jarðfalli, sem líklega hefur verið reft yfir, en er nú fallið. Tóftir við selið benda til þess að það sé mjög gamalt. Í heimildum segir að „spölkorn fyrir ofan Kvennagönguhól (að vestan) eru aðrir hraunhólar og kringum þá grösugar flatir. Þarna var Nessel, og sést enn fyrir tóftum þess. Selið er innan sandgræðslugirðingarinnar. Nú hafa verið reist fjárhús á móti selinu. Nessel er merkt norðan þjóðvegarins, en þar er samnefndur sumarbústaður.

Gengið var á fótinn, upp á Kvennagönguhól. Honum tengist þjóðsaga. „Suður frá þjóðveginum liggja suðurslakkar, allt að Kvennagönguhól, sem er grasi gróinn hraunhóll.”

Hellholt

Hellholt – uppdráttur ÓSÁ.

Jafnframt segir að “Kvenna-Gaungu-Hólar á Selvogs-Heidi í Árness Sýsslu þángad géngu í Papiskri Óld, aldradar og veikar Kvennpersónur úr Selvogi, til ad festa sión á Krossmarki þvi, sem upp var Fest á Kaldadar-Ness-Kyrkiu, og þókti sér batna ef séd féngu; Hólarner eru 2, skaparans, enn ei Manna verk.” Um nafnið Kvennagönguhóll er ýmsar sagnir, sem Gísli Sigurðsson tilfærir í sinni skrá, og kannast Eyþór við þær allar: 1. Í kaþólskri trú var kross einn mikill í landi Kaldaðarness. Konur í Selvogi gengu þá oft á hól þennan, horfú til krossins og gerðu bænir sína. 2. Mikið útrlði var í Selvogi. Þar gerði oft þau veður, að ekki var lendandi. Var þá hleypt austur í Þorlákshöfn. Tækist lendingin vel, var veifa dregin á stöng. Fóru konur úr Selvognum á Kvennagönguhól að sjá, hvort veifa væri á lofti og menn þeirra lentir heilu og höldnu. 3. Í fyrndinni bjó tröllkona í hólnum. Hún reri nökkva sínum úr Keflavík undir bjargi. Aflann bar hún heim og gerði að honum á Kvennagönguhólaflöt. Ekki hefur annað heyrzt, en hún hafi verið Selvogsingum góður nágranni.“

Hellishæðahellir

Hellishæðahellir.

Haldið var enn á fótinn með Hnúkana á hægri hönd. Smám saman lagðist Selvogsheiðin yfir hægri vænginn, en framundan er slétt afgirt tún efst á hæðinni. Þar á er gróinn hraunhóll; Hellisþúfa. “Hellisþúfa er hraunhóll mikill í vestur frá Háaleiti og í honum Hellisþúfuhellir. Í hellinum var eitt sinn búið, og er einhver hleðsla úti fyrir. Sá mun hafa heitið Gísli, er þarna bjó. Ekkert vatn er þarna að hafa, það var sótt í belgjum í Flæðitjarnirnar niðri á Öldunum. Þetta var fyrir minni Eyþórs, en hann heyrði þetta sagt.“
Nú hallaði til vesturs. Gengið var að klöppinni Fótalaus ofan þjóðvegarins, skammt ofan við hrjálegan sumarbústað. Í örnefnalýsingu segir að „mörkin milli Ness og Bjarnastaða eru austan í [Stóra-Hásteini]. Þar við hann er klöpp, sem kölluð er Fótalaus, og var merki klappað í hana. Ókunnugt er um tildrög þessa nafns.“

Strandarhæð

Strandarhæð – Strandarborg.

Skammt neðar (suðvestar) er Imphólarétt. „Austur með þjóðveginum eru Imphólar, lágir grashólar. Þar var Imphólarétt, sem nú er farin.“ Að sögn Þórðar Sveinssonar frá Bjargi í Selvogi er Imphólarétt 8-900 metrum suðsuðaustan litla Hásteins.
Önnur rétt er undir litla Hásteini. Þjóðvegurinn liggur í gegnum hana miðja, svo sem algengt er um fornminjar hér á landi. Kosturinn við það er að fólk þarf ekki að stíga út úr bílunum til að virða mannvirkið fyrir sér. Á móti kemur að sárafáir, sem aka um þjóðveginn, og í gegnum réttina, hafa hugmynd um að þarna hafi verið rétt með öllu sem réttum tilheyrir með réttu.
Útlit og stærð réttarinnar sést enn vel og hleðslur marka lögun hennar. Að sögn Þórðar var þessi rétt hlaðin af Þórðarkotsmönnum eftir 1950. Hún var notuð fyrir rúning og flutning á fé með bílum.
Leitað verður nánari upplýsinga, bæði um réttina undir Hásteinum og Imphólarétt, sem enn á eftir að skoða.

Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 11 mín.

Heimild m.a.:
-http://www.bokasafn.is/byggdasafn

Imphólarétt

Imphólarétt.

Þorkelsgerðissel

Gengið var að Hásteini þar sem Kristófer Bjarnason, kirkjuvörður í Strandarkirkju, tók á móti þátttakendum. Með í för var einnig Guðmundur G. Þorsteinsson, hellafræðingur með meiru. Kristófer vísaði m.a. á Svarthól, sem er þarna vestan við Hástein (Hásteina).

Bjarnastaðasel

Bjarnastaðaból – uppdráttur ÓSÁ.

Undir Svarthól eiga að vera tóttir. Ætlunin var að skoða þær síðar. Þá lýsti Kristófer landamerkjum og fl. með vísan til væntanlegra selfunda á og við Selvogsheiði. Þessi ferð var sérstök að því leyti að ætlunin var að finna nokkra staði, a.m.k. einn þeirra hafði hingað til ekki verið merktur inn á kort og aðeins örfáir núlifandi menn vissu hvar væri að finna. Þá áttu fleiri uppgötvanir eftir að koma á óvart í ferðinni.

Á kortum er Bjarnastaðaból sagt vera við Hástein. Þar eru tóftir og hleðslur. Ekki er ólíklegt að þar hafi einhvern tíma verið selstaða. Upplýsingar höfðu borist um að selið frá Bjarnastöðum væri hins vegar mun ofar í heiðinni. Gengið var áleiðis þangað eftir áður gefinni leiðarlýsingu Snorra frá Vogsósum, með stefnu til norðausturs að Hnúkunum, en þar undir brekkunum, u.þ.b. kílómeter ofan við Háststein, átti Bjarnastaðaból að vera. Það reyndist líka vera þar. Uppi á og vestan undir hól áður en komið var að efsta hólinn undir brekkunum var stórt sel með allmörgum tóttum. Hlaðinn stekkur var vestan af selinu, einnig á hól.

Þorkelsgerðissel

Þorkelsgerðissel – uppdráttur ÓSÁ.

Suðvestan við Bjarnastaðaból, í svipaðri fjarlægð frá Hásteini, í norður frá honum, var gengið fram á Þorkelsgerðisból, einnig stórt sel með mögum tóttum. Stekkurinn var á hól skammt norðan við selið. Á kortum hefur Þorkelsgerðissel verið sýnt norðan til við Vörðufell, nálægt Eimubóli.

Eimuból

Eimuból – uppdráttur ÓSÁ.

Línan var tekin norður fyrir Vörðufell, um tveggja kílómetra leið, þar sem komið var að Eimubóli. Tóttirnar eru austan við stórt gróið jarðfall, en í því eru hellisop til suðurs og norðurs. Hlaðinn gerður er ofan og umhverfis opið. Í öðru jarðfalli skammt sunnar er gömul tótt og kví. Hellir þar í suður hefur verið notaður sem fjárhellir. Hleðsla er inn í honum miðjum. Op er upp úr þeim helli skammt sunnar. Að sögn Guðmundar eru Eimuhellar, eða Eimuhellir því um eina sundurslitna hraunrás er að ræða, um 400 metrar í heildina. Norðan við stóra jarðfallið er hlaðinn stekkur og einnig er hlaðinn lítill stekkur ofan á syðsta opinu, ofan við fjárhellinn.

Vindássel

Vindássel – Uppdráttur ÓSÁ.

Tóttir eru skammt austan við Eimuból, Vindássel. Landamerki Eimu og Vindáss liggja í vörðu syðst á Vörðufelli og í vörðu á Hellholti. Frá Vindásseli mátti vel sjá gömlu réttina ofan á Vörðufelli.
Gengið var að Einbúa vestan Vörðufells. Um 200 metrum vestan við hólinn er gróið jarðfall. Niður í því er gamalt tófugreni. Guðmundur kannaði hraunrás, sem þar er og virtist hún ná eitthvað til norðurs og einnig til suðurs. Rásin mun verða skoðuð nánar síðar. Botninn í rásinni er hrjúfur. Loftið innan við munnann stendur á hraunsúlum.

Bjarnastaðaból

Stekkur í Bjarnastaðabóli.

Þá var gengið til norðurs í átt að Hraunhól í mið Svörtubjörg, vestan við Hellholt. Á meðan aðrir leituðu að tóttum, sem áttu að vera þar í slakka miðsvæðis, en þó vestar, kíkti Guðmundur í Bólið, helli austan í Hellholti. Við opið er lítil tótt og inni í hellinum eru miklar hleðslur. Í leiðinni var litið ofan í hraunrás suðvestan Hellholts, en hún reyndist vera um 10 metra löng. Nánar verður fjallað um Hellholtssvæðið í annarri FERLIRslýsingu.
Eftir nokkra leit fannst tóttin, sem nefnd hefur verið Strandarsel (Staðarsel) uns annað vitnast. Stór varða er á hæð austan við tóttina og liggur gömul leið úr suðri í átt að vörðunni, en sunnan hennar beygir gatan til vesturs að selinu. Suðvestan við tóttina er fallega hlaðinn stekkur.
Gengið var í átt að Hlíðarborg, en þar sunnan borgarinnar átti skv. lýsingu að vera önnur hlaðinn fjárborg, svonefnd Valgarðsborg. Hún var þar líka, hringlaga og hefur verið allnokkuð mannvirki á sínum tíma.
S

Hlíðarsel

Hlíðarsel – uppdráttur ÓsÁ.

vo gerðist hið furðulega. Á leið frá Valgarðsborg að Hlíðarborg í norðvestri gengu þátttakendur fram á stórt sel. Það er að öllum líkindum Hlíðarsel, en bein sjónlína er að frá selinu að bænum Hlíð norðan við Hlíðarvatn. Selið er efst í brúninni í austur séð frá Hlíð. Í örnefnalýsingu fyrir Hlíð er getið um Selstöðu frá Hlíð í Selbrekkum, sem eiga að vera skv. henni ofan við Vogsósaréttina við girðinguna austan við Hlíðarvatn. Ekki var að sjá nein merki um minjar þar, a.m.k. ekki að þessu sinni. Hér gæti verið um ónákvæma staðsetningu að ræða, en selstaðan hins verið sem hér getur.

Hlíðarborg

Hlíðarborg í Selvogi – síðar stekkur.

Skammt norðan við selið, handan girðingarinnar, er Hlíðarborg, mikið mannvirki vestan undir háum hraunhól. Niður með borginni til vesturs liggur greinileg gömul gata (Hlíðargata) áleiðis að Hlíð við Hlíðarvatn. Við hana eru litlar vörður og vörðubrot. Skammt norðar eru tóftir (borg o.fl.) undir Borgarskörðum.
Frá Hlíðarborg var gengið að hellinum Ána, en við op hans eru talsverðar hleðslur. Ennig er hlaðinn lágur garður skamma leið til suðurs frá hleðslunum.
Loks var haldið yfir að Vogsósaseli, sem er skammt austan við Vogsósaréttina. Selið eru tvær tóttir efst á hraunhrygg sunnan Vatnaása.
Ferðin var frábær. Veður einnig – hlýtt, stilla og sól. Gangan tók 5 klst og 11 mín.
Bjarnastaðasel

Bjarnastaðasel – uppdráttur ÓSÁ.