Tag Archive for: Hattvík.

Ísólfsskáli

Gengið var um Ísólfsskála, verminjarnar á og við Nótarhól ofan við Gvendarvör austan Rangagjögurs neðan Skálabótar, og haldið með ströndinni um Tranta, Hattvík og Kvennagöngubása út í Hraunsnes. Þaðan var gengið um Veiðibjöllunef og Mölvík í Katlahraun uns staðnæmst var við fjárskjólið þar uppi í hrauninu.

Hraunsnes

Hraunsnes – jarðmyndun.

Hraunið ofan við Hraunsnes, austan Ísólfsskála, nefnist Skollahraun, en hraunið ofan við Mölvík nefnist Leggjarbrjótshraun. Austar er Katlahraun. Samheiti á hraunum þessum er Ögmundarhraun (sbr. landakort), en eins og af nöfnunum sem og útliti má sjá er Ögmundarhraun fleiri en eitt hraun.
Á leiðinni var m.a. ætlunin að huga að fallegum brimkatli við ströndina, gati, sem sjórinn hafði brotið sig upp um allnokkuð ofan við ströndina og kíkja í sprungu, sem opnaðist nýlega í Katlahrauni. Ketillinn og gatið sáust vel í nýlegu yfirlitsflugi FERLIRs.
Umhverfið er eitt, en veðrið annað. Athyglin og skynjunin tengja hvorutveggja saman í heildir. Að þessu sinni hafði verið samið um ásýnilega sjávarágjöf, hvítfryssandi háöldur og skynjanlegt samstuð sjávar og strandar (átök Gyms og móður Jarðar) – svona að til auka enn á áhrif umhverfis og veðurs.

Mölvík

Í Mölvík.

Göngunni er hér lýst upp í vindinn, rangsælis við leiðina, sem gengin var – upphafið var því við fjárskjólið í Katlahrauni og endirinn við Ísólfsskála – til þess að auðveldara væri að sjá það sem fyrir augu bar á leiðinni. Svæði þetta er ótrúleg náttúrusmíð – ekki síst þegar veðrið fær að leika lausum hala.
Tillaga frá Náttúrfræðistofnun Íslands árið 2002 og síðar Umhverfisstofnun frá árinu 2004 hefur legið fyrir um að koma svæðinu á náttúruminjaskrá. Í umsögn stofnananna um svæðið segir m.a. að þar séu “fallegar og óvenjulegar hraunmyndanir og einstakar mannvistarleifar, svo greinilega yfirbugaðar af eldvirkni landsins. Á svæðinu eru jarðmyndanir, vatnafar, plöntur, dýr, vistkerfi, vistgerðir, búsvæði, landslag, víðerni, menningar- og söguminjar og fágætar náttúruminjar. Sumar þeirra eru í hættu. Katlahraun, sem er vestan Ögmundarhrauns, hefur runnið í sjó fram. Katlahraun er talsvert eldra en hið eiginlega Ögmundarhraun. Sama má segja bæði um Leggjarbrjótshraun og Skollahraun. Þarna eru mikil hraunflæmi, sérkennilegar hrauntjarnir og hellar. Áhrifaríkt er að koma að fyrrum byggð Í Húshólma í Ögmundarhrauni og sjá þar húsatóttir, sem hraunið rann yfir (1151). Á Selatöngum eru hlaðnar rústir eftir útræði fyrri alda. Þar eru friðlýstar fornminjar, líkt og gildir um minjarnar í Húshólma.”

Hraunsnes

Hraunmyndun í Hraunsnesi.

Í Náttúruverndaráætlun Umhverfisstofnunar 2004-2008 er gert ráð fyrir að svæðið verði sett á náttúruminjaskrá. Í umsögn um umhverfismats um Suðurstrandaveg er þó látið sem svæðið sé allt á náttúrminjaskrá. Hvað sem því líður er hér í heild um bæði áhugavert og verðmætt svæði að ræða, einkum út frá framangreindum efnisþáttum.
Forstjóri Umhverfisstofnunar hefur sagt að eitt af mikilvægari verkefnum stofnunarinnar frá því að hún hóf starfsemi sína hinn 1. janúar 2003 sé m.a. að reka smiðshöggið á tillögu um náttúruverndaráætlun sem unnið hafði verið að um nokkra hríð í samræmi við lög nr. 44/1999, um náttúruvernd. Þar segir að
„maðurinn hefur nýtt sér auðlindir náttúrunnar frá örófi alda. Hann hefur reynt að móta náttúruna í viðleitni sinni til að brauðfæða sig og afkomendur sína. Athafnasaga mannsins er ekki samfelld sigurganga heldur endurspeglar hún, líkt og önnur saga mannsins, þróun þar sem mörg mistök hafa átt sér stað, þar sem menn hafa lent í blindgötu með framkvæmdir sínar, þær verið endurskoðaðar og nýjar leiðir reyndar þar til betri árangur náðist. Í upphafi var viðleitnin vanmáttug, en smám saman varð manninum meira ágengt við að móta náttúruna að sínu höfði. Margir telja að iðnbyltingin á miðri 19. öld marki upphaf þeirra gríðarlegu breytinga sem síðan hafa átt sér stað. En á síðustu öld varð nánast stökkbreyting þar sem saman fór gífurlega hröð fólksfjölgun og tæknibylting sem á sér enga hliðstæðu í sögu mannsins.

Hraunsnes

Í Hraunsnesi.

Í byrjun 21. aldar ræður maðurinn yfir verkfærum og þekkingu sem geta breytt og mótað náttúruna á örskömmum tíma með ófyrirsjáanlegum afleiðingum ef varúðar er ekki gætt, enda er tæknin orðin slík að auðvelt er að valda óbætanlegum skaða með vanhugsuðum aðgerðum. Það er eðlilegt þegar fólk sér þær breytingar sem hafa orðið á umhverfinu að margir vilji staldra við og spyrja um ávinning af þessum breytingum og hverju sé fórnað. Nýting náttúruauðlinda er undirstaða efnahagslegrar velferðar flestallra þjóða heims. Hins vegar eru það einnig eftirsóknarverð lífsgæði að mega njóta fjölbreyttrar náttúru.  Nýting náttúrugæða jarðar hefur margar hliðar. Síðarnefndu sjónarmiðunum hefur vaxið mjög ásmegin eftir því sem tækninni hefur fleygt fram, efni fólks hafa orðið meiri, og meiru hefur verið raskað. Það er hlutskipti þeirra sem sinna náttúruvernd að horfa til framtíðar og til þeirrar ábyrgðar sem við sem nú lifum berum á þeim heimi sem við skilum til komandi kynslóða. Óhjákvæmilega stangast hagsmunir annarrar nýtingar, fjárhagslegir eða félagslegir, stundum á við hagsmuni náttúruverndar. Þess vegna verða náttúruverndarmál oft átakamál. Það er ákaflega mikilvægt að rök, t.d. fyrir friðun lands, séu sett skilmerkilega fram og að þau séu aðgengileg almenningi jafnt og stjórnvöldum.“ Staðreyndin er því miður sú að of margt fólk hugsar lítið sem ekkert um umhverfi sitt og allt of margir hugsa yfirleitt ekki um nokkurn skapan hlut – nema kannski svolítið um þá sjálfa.

Mölvík

Í Mölvík.

Skoðuð voru hlaðin byrgi og garðar ofan við Gvendarvör. Um er að ræða svipaðar og hinar friðlýstu minjar og á Selatöngum, en þó minni í sniðum. Mannvirkin lýsa vel sögu fiskverkunarinnar, sem lýst er nákvæmlega í umfjöllun um skreið undir Fróðleikur hér á vefsíðunni (ath. megnið af fyrri vefsíðuskrifum er hulin um sinn).
Sker utan við ströndina skammt suðaustar nefnast Trantar og austan þeirra er Hattvíkin. Þar skammt austar eru Kvennagöngubásar, hin þokkalegasta lending. Þá tekur Hraunsnesið við, en það er smækkuð mynd af Dimmuborgum og Katlinum (Borgunum) í Katlahrauni. Þunnfljótandi hraun (Skollahraun) hefur runnið þar í „sjóketil“. Við það hafa myndast formfagrir hellulaga stöplar sem og hinar ótrúlegustu hraunmyndanir. Storknuð hraunhellan hefur síðan fallið niður og stöplarnir staðið eftir. Gerður hefur verið slóði út í nesið og hafa einhverjir verið að dunda sér við að fjarlægja hellurnar utan af stöplunum, sem er hin mesta eyðilegging á þessu fallega náttúrufyrirbæri, og nota í garða sína þar sem allt samhengi við þær skortir. Litbrigði og myndanir í klettum eru einstök í Hraunsnesi.

Mölvík

Mölvík – hellisgat.

Jón Guðmundsson frá Ísólfsskála sagði fyrir skömmu í samtali að áður hafi jafnan verið róið úr Gvendarvör og gert að á Nótarhól. Austan við hólinn eru rústir verkhúss. Trantar þar utan við væru í raun hrjúft hraun, sem stendur upp úr sjónum. Nafnið benti til þess að það hafi hrannast upp, tranað eða trantað sér upp og myndað strýtur. Austar væru Rangargjögur og Hattvík. Rangagjögur væri í raun stórmerkilegt. Best væri að skoða það á fjöru til að þá sjá megi það vel. Gjögrið er á milli Tranta og Hattvíkur. Bát rak þar inn í vitlausu veðri fyrir u.þ.b. 20 árum síðan, er Ísólfur bjó enn á Skála, og lenti inni í skorunni. Þar er bæði þröngt og hyldjúpt. Áhöfnin, einn maður, komst gangandi heim að bæ og bankaði upp á. Bátnum varð hins vegar ekki bjargað. Kista er kistulaga klettur vestarlega og miðsvæðis uppi í hrauninu. Frá Nótarhól sést vel yfir að Festarfjalli, Lambafelli, nær og Lambastapa neðan þess, niður við sjó. Ofan við Skála er Bjalli (Hjálmarsbjalli) og Lyngfellið ofan hans.
Heimastibás heitir þröngur klettabás skammt austar og Kvennagöngubásar eru þar austan við. Veiðibjöllunef, stundum nefnt Vondanef, var mið af sjó austan úr Hælsvík. Þá átti Veiðibjöllunef að bera í Langageira í Fiskidaldsfalli. Þessa lýsingu hafði Jón fengið frá Manga á Hrauni, en Jón gaf m.a. út rit um miðin utan við Grindavík á sínum tíma, en þau skrif voru bæði byggð á reynslu hans sjálfs og þeirra manna, sem þá voru þegar gengnir.

Mölvík

Mölvík.

Mölvíkin virðist ekkert sérstök, en fyrir fiskimennina var hún það svo sannarlega. Mölvíkurleirinn (slétt hraunið ofan við víkina) var afmarkaður af Skála-Mælifelli að vestan og með skoru upp í Lönguhlíð að austan. Utar, á sléttum botni, voru togmiðin, en góðan og mikinn fisk var að hafa á hrauninu í Mölvíkinni, einkum á veturna. Á sumrin var veitt alveg upp við fjöru (Þorskmið). Þar sem Geitarhlíð kemur í skarðið á Katlahrauni og hrauk í hrauninu ber í vestari Görnina á Núpshlíðar (lægð er liggur upp í grasi búna hliðina – undir Görninni er fjárból) er hraundrangur undir. Þar eru um 7 faðmar niður. Fiskurinn sest að við hraundranginn, sem er um hálfur annar metri á hæð, undir sjólínu. Fiskurinn sést og tók líka vel ef verið var að. Straumurinn leikur um dranginn og þar lá fiskurinn í vari (líkt og fé í hlíð).
Jón sagði að vörðurnar uppi í Skollahrauni, skammt frá þjóðveginum undir Slögu, austan við Löngukvos, nefndust Bárðarvarða, eftir gömlum einsetumanni á Skála er hélt þar til um vetur, og Bergsvarða (faðir Hinriks og Guðbergs). Í umsögn um Suðurstrandarveginn eru þær sagðar „gamlar vörður við forna þjóðleið“. Þær þjónuðu hins vegar ekki öðrum tilgangi en þeim að stytta byggjendunum stundir á og meðan var.

Selatangar

Gatvarða á rekagötunni við Selatanga.

Gengið var inn í Leggjarbrjótshraun með Mölvíkinni. Um er er að ræða fallegt útsýni út með ströndinni. Þegar komið var inn í Katlahraun var gengið niður í Borgirnar (Ketilinn) og þær bornar saman við myndun stöplana í Hraunsnesi. Um er að ræða nátengd fyrirbæri.
Haldið var norður um hraunið að hlöðnu fjárskjóli fólksins á Vigdísarvöllum. Féð þaðan vildi leita niður í fjörur Selatanga og var þá hlaðið fyrir skúta þarna í hrauninu því til skjóls. Helgi Einarsson, sem var með í för, sagði að skjólið hafi einnig verið notað eftir að forfeður hans frá Vigdísarvöllum flutti búferlum niður að Ísólfsskála. Helgi er mjög kunnugur örnefnum á svæðinu, auk þess sem hann hefur bæði gengið mikið um það og ástundað miðin út undan því.
Brimketillinn fannst ekki í særokinu, en gatið tilnefnda fannst skammt vestan við fallegan gatklett í Mölvíkinni. Rúmlega 20 metra langur sjávarhellir gengur inn undir ströndina, étið malbergið og hefur síðan brotið sér leið upp um grágrýtishelluna þegar sjórinn hefur ætt þar inn og þrýstingurinn verið orðinn of mikill. Þá var kíkt í sprunguna í Katlahrauni, en hún myndaðist í jarðskjálfta fyrir u.þ.b. tveimur árum. Hún hefur verið að stækka smám saman og er þegar orðin alldjúp. Hellir gæti leynst undir niðri. Ekki er ólíklegt að sjórinn leyti finni sér leið um síðar meir. Skoðaður var skúti í Katlahrauni skammt norðan við Rekagötuna, en svo virðist sem hlaðið hafi verið að hluta til fyrir opið. Skútinn rúmar vel nokkra menn.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Ísólfsskáli

Brimketill við Kvennagöngubása.

Nótarhóll

Gengið var um svæðið á ströndinni austan Ísólfsskála í fylgd Jóns Guðmundssonar frá Ísólfsskála (1921). Jón fræddi þátttakendur um örnefni á svæðinu sem og notagildi strandarinnar og mannvirkja, sem standa þarna skammt ofan við hana.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli.

Skálavör, stundum nefnd Bótin eða Börubót, er neðan við Ísólfsskála. Austar er Gvendarvörin, Trantar og Hattvík yst. Rangargjögur er skammt austar. Við gjögrin voru forn reka- og landamörk Grindavíkur og Selvogsþinga, en á seinni tímum hafa landamerki Ísólfsskála og Krýsuvíkur jafnan verið miðuð við klettinn Dágon við Selatanga.
Nótarhóll er ofan við Gvendarvör. Við hann eru allnokkur hlaðinn mannvirki, bæði garðar og byrgi. Hraunið nefnist Skollahraun.
Jón sagði að jafnan hafi verið róið úr Gvendarvör. Það hefðu gert þeir Brandur og Hjálmar, föðurbræður Jóns. Þeir gerðu út tvö skip. Oftast var unt að lenda í vörinni eða í Bótinni.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli.

Hann myndi eftir því að aðeins einu sinni hafi þeir þurft að snúa við og hleypa út í Nes, en annars gátu þeir alltaf lent við Gvendarvör. Ef slæmt var í sjó var þó jafnan lent í Bótinni (Börubót) neðan við sumarbústaðinn, þar sem sjóbúðin var og enn má sjá svolítil ummerki um.
Klöpp er í Gvendarvör, sker, slétt eins og bryggja. Þar var hægt að henda upp aflanum líkt og við lendinguna á Selatöngum. Hún var ástæða þess að garðarnir og byrgin voru hlaðin þar ofan við. Hörkuduglegir karlar frá Hafnarfirði réru með bræðrunum og voru þeir mikið fyrir vín. Einn þeirra (Guðmundur) var stundum sendur fótgangandi í Hafnarfjörð eftir brennivíni og taldi hann það alls ekki eftir sér.

Ísólfsskáli

Fiskbyrgi við Nótarhól.

Steinn einn mikill er á hlaðinu á Ísólfsskála. Hann datt eitt sinn úr bjallanum og lenti á höfði Guðmundar föður hans. Steinninn er um 400 pund og má að líkum láta hver áverkinn hefur verið. Afi hans, Guðmundur Hannesson, tók steininn upp af höfði hans og var sárið síðan heimasaumað. Margar sagnir eru til af Guðmundi Hannessyni. Fræg er sagan af honum er hann bar hreindýrskálf heim ofan af heiði alla leið úr Dyngjunni. Guðmundur stundaði mikið hreindýraveiðar við Hrútargjárdyngju. Salt bar hann frá Keflavík, 100 pund í hvorri hendi. Hann var og mikill veiðimaður.

Guðmundur og Agnes

Guðmundur og Agnes á Skála.

Reyndar var hann meira og minna á veiðum, ýmist að eltast við refi, seli eða hreindýr. Dýrin skaut hann eða veiddi á annan hátt, t.d. í gildrur. Eitt sinn skaut Guðmundur hval. Hann var þá með rennilóð framan við bæinn, í Skálabótinni, og hafði framhlaðning sinn, stóran og mikinn, tilbúinn í von um að eitthvert kvikyndi léti sjá sig. Skyndilega bar þar að hval og brá þá Guðmundur snöggt við, skaut hvalinn og dró hann á land.
Fiskverkunin fór fram á Nótarhól, en við hann var einnig mikið af sel.

Sloki

Sloki – fiskigarðar.

Byrgin og garðar notaðir til að þurrka fiskinn. Eitt húsið var notað til verkunarinnar. Veitt á færi, ekki önnur veiðifæri til þá. Dregið var helvíti mikið á stundum og fylltu þeir Hjálmar og Brandur stundum skip sín, einkum ef mikið var um sílfisk. Stundum var hann slíkur að einungis þurfti að róa út á lónið og mátti þá sjá fiskinn vaða þar um á yfrborðinu. Þá var líka mikið veitt.
Oftar en ekki voru fjölmargar skútur utan við Bótina. Stundum var róið út í þær og fengið kex í skiptum fyrir vettlinga og fleira vaðmáls og einstaka sinnum komu sjómemnirnir í land, einkum til að sækja vatn eða snjó. Eitt sinn taldi Jón á fjórða tug skútna þarna fyrir utan.

Byrgin og garðarnir austan við Skála hafa verið þar mjög lengi. Sama verkun fisksins var þar viðhöfð og á Selatöngum. Allt var nýtt, hausar, hryggir og þunnildi. Slorið var hins vegar stundum notað til að græða upp túnin á hrauninu og gekk það furðu vel.
Við Nótarhól eru langri garðar og fjölmörg byrgi, ágætar minjar um fiskverkun fyrri tíma.
Frábært veður. Birtan var einstök. Gangan tók 66 mín.

Nótarhóll

Byrgi á Nótarhól.