Tag Archive for: heimasel

Litlistekkur

Gengið var upp frá Breiðagerði með það að markmiði að skoða „Breiðgerðisstekk“ sbr. fornleifaskráningu fyrir Voga, sem og Litlastekk ofar í heiðinni. FERLIRsfélagar hafa um stund dundað sér við að skoða áreiðanleika fyrrum fornleifaskráninga á Vatnsleysuströnd. Ljóst er að margar fornleifar á svæðinu hafa enn ekki verið skráðar og sumar hinna skráðu minja verða að teljast í besta falli hæpnar með hliðsjón af dregnum ályktunum. Mikilvægt er að allar fornleifar séu skráðar og að þær séu rétt skráðar.

Hestaslóðin

Hestalóðin – Almenningsvegur.

Ofan Vatnsleysustrandarvegar var fyrst komið að „Hestaslóðinni“, sem Sesselja nefnir í bók sinni „Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-Keflavíkurvegarins); „Ofan syðstu sumarbústaðina í Breiðagerði er nokkuð áberandi varða og fast neðan hennar komum við á Hestaslóðina sem svo var nefnd“.
„Varðan er um 440 m sunnan við bæ, á fremur lágu holti í hraunmóa sem er að hluta gróinn. Varðan er ferköntuð í grunninn, er um 1 m á kant. Hún er um 1,5 m á hæð og sjást 8 umför hleðslu í henni. Hún hefur líklega verið endurhlaðin að hluta. Líklegt er að varðan hafi vísað Almenningsveginn“, segir í fornleifaskráningunni. Sú ályktun virðist, af öllum ummerkjum við nána skoðnun,  vera rétt.

Breiðagerðisstekkur

Breiðagerðisstekkur.

Í „Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla II“ frá árinu 2014 segir um framangreindan stekk: „Ofan Vatnsleysustrandarvegar er tóft, um 530 m sunnan við bæ. Tóftin stendur nokkuð hátt á grónum hól í hraunmóa. Tóftin virðist vera þrískipt og garðlag liggur frá henni til norðurs, líklega aðrekstrargarður. Tóftin er grjóthlaðin en gróin. Hún er um 10×6,5 m að stærð og snýr suðvestur-norðaustur. Með aðrekstrargarðinum er hún um 10×6,5 m að stærð. Hólf I er norðaustast í tóftinni. Það er um 1×3 m að innanmáli, snýr norðvestur-suðaustur. Op er inn í það úr norðvestri.

Breiðagerðisstekkur

Breiðagerðisstekkur – teikning.

Hólf II er samsíða hólfi I og skilur hæsti veggur tóftarinnar þessi tvö hólf að. Það er um 2×2,5 m að innanmáli, snýr norðvestur-suðaustur. Ógreinileg hleðsla er fyrir norðvesturenda þessa hólfs sem heldur áfram til norðurs og verður greinilegri. Óskýrt op er inn í hólf II, í norðurhorni þess. Hólf III er norðvestast í tóftinni. Í veggjum þess er einföld röð stórgrýtis. Það er um 2×1 m að innanmáli og snýr austur-vestur. Ekki sést skýrt op inn í það. Hólf II hallar lítillega til suðvesturs. Mesta hleðsluhæð tóftar er um 1 m og sjást 3 umför. Líklegt er að þessi tóft sé af stekk en til þess bendir helst fjarlægð frá bæ og gerð tóftarinnar.“

Breiðagerðisborg

Breiðagerðisborg – smalaskjól.

Á samliggjandi klapparholti eru jarðlægar hleðslur; mjög líklega leifar smalaskjóls. Lögun skjólsins sést þó enn, auk þess að það ber þess merki að hafa verið hlaðið af unglingi (smásteinahleðslan bendir til þess).

Augljóst er að framangreindur stekkur hafi verið hlaðinn upp úr eldri fjárborg. Neðstu lög hennar sjást allt umleikis. Líklega er verið að rugla þarna saman örnefnum þar sem segir í fornleifaskráningu fyrir Stærra-Knarrarnes um Borg; tóftir/stekk: „Upp af Vorkvíum er Krummahóll og var vörðubrot á honum.- Grasigróinn hóll, þýfður og svolítið toppmyndaður, er rétt suðaustan Krummahóls. Hann heitir Borg.

Breiðagerðisborg

Breiðagerðisstekkur/-fjárborg – uppdráttur ÓSÁ.

Svolítil lægð er milli Borgar og Krummhóls,“ segir í örnefnaskrá. „Rétt sunnan og ofan við vegamót Gamlavegar og Strandarvegar í Breiðagerði er Krummhóll með uppmjórri vörðu á og í framhaldi og upp af honum kemur svo Borg en það er langt holt nokkuð gróið og þar gæti hafa verið fjárborg fyrrum.“
Síðan er fjallað um beitahús og stekkjartóft, en ekki minnst á „borg“. Þessi lýsing á aftur á móti við um minjar í Sauðholtum ofan Minna-Knarrarness, en ekki nefnds stekks ofan Breiðagerðis. Hins vegar er augljóst, sem fyrr sagði, að stekkurinn sá á uppruna sinn í eldri fjárborg á tilteknum stað; „um 530 metrum sunnan við bæ“.

Breiðagerði

Breiðagerði – heiðargerði.

Ofar í heiðinni var gengið fram á fornt gerði utan í klapparhól. Hleðslurnar voru orðnar nær jarðlægar, en þó sást vel móta fyrir þeim. Þarna gæti hafa verið rúningsrétt fyrrum. Tóft þessi hefur ekki verið fornleifaskráð.

Miðsvegar í heiðinni er Litlistekkur. Í forleifaskráningu fyrir Breiðagerði segir: „Þar var í Heiðinni Litlistekkur og Breiðagerðisskjólgarður,“ segir í örnefnaskrá. „Fyrir ofan og austan Borg er stekkur sem heitir Litlistekkur,“ segir í bókinni Örnefni og gönguleiðir.

Litlistekkur

Litlistekkur.

Litlistekkur er um 1,1 km suðaustan við bæ. Stekkurinn er norðaustan undir allháum, grónum hraunhól, ofarlega í heiðinni. Dálítill grösugur kragi er umhverfis stekkinn og hólinn.
Svo virðist sem tvö byggingarstig séu í Litlastekk. Tvískipt grjóthlaðin stekkjartóft, B, virðist vera hlaðin inn í eldri gróna tóft, A, sem er um 9×6 m að stærð og snýr SSA-NNV. Í SSA-enda eldri tóftarinnar er eitt nokkuð skýrt en gróið hólf sem er um 1×1,5 m að innanmáli og snýr norðaustur-suðvestur. Ekki sést op á því. Tóft B er hlaðin inn í aðalrými tóftar A. Inngangur í tóft A virðist vera í norðurhorni. Mesta hæð veggja er um 1 m í SSA-enda.

Litlistekkur

Litlistekkur.

Tóft B er um 5×4,5 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Inngangur er á norðvesturgafli. Hólf I er um 2×3 m að innanmáli og snýr eins og tóft. Hólf II er um 1×3 m að innanmáli og er samsíða hólfi I. Opið er á milli hólfa í norðvesturenda tóftarinnar. Mesta hleðsluhæð er um 1 m og mest sjást 3 umför hleðslu.“

Litlistekkur ber ekki nafn með réttu. Þarna er greinilega um seinni tíma heimasel að ræða frá Breiðagerði. Vel er gróið í kringum stekkinn, einkum suðurhlutann. Þar virðist hafa verið búr tengt utanverðum stekknum. Stekkurinn sá er síst minni en þekkist í nærliggjandi stekkjum í heiðinni. Umfang og stærð stekkjanna markaðist jafnan af fjölda fjár frá einstökum bæjum á hverjum tíma.

Litlistekkur

Litlistekkur.

Þegar staðið er á ofanverðum hólnum er stekkurinn liggur norðlægt undir kallast staðsetningin greinilega á við stekkinn skammt vestar í Knarrarneslandi. Þar er líklegt að hafi einnig verið heimasel um tíma. Þarna á millum er hlaðinn varða á klapparhól, skammt ofar; landamerki jarðanna millum Digruvörðu ofan bæjar og vörðunnar á Knarrarnesklapparholti.

Báðir stekkirnir gefa sterklega til kynna að um heimasel hafi verið að ræða. Stekkirnir og aðliggjandi tóftir báru þess glögg merki að um slíkar minjar hafi verið um að ræða, væntanlega eftir að aflokinni selstöðunum í Breiðagerðis- og Knarrarnesseli ofar í heiðinni síðla á 19. öld.

Breiðagerðisstekkur

Breiðagerðisstekkur/-fjárborg.

Með breyttum búskaparháttum, tilkomu þéttbýlismyndunar og fækkun fólks í sveitum færðust selstöðurnar nær bæjunum. Í lok stekkjartímans, sem hafði tíðkast allt frá landnámi, færðust stekkirnir nær alfarið um stund að útjaðri heimajarðanna. Við tók afréttatímabilið, er enn þekkist. Allt þetta er reyndar saga út af fyrir sig, sem vel hefur áður verið tíunduð hér á vefsíðunni.

Mikilvægt er að gaumgæta búsetuminjar vorar í hinu sögulega samhengi – og ekki síður að kunna að staðsetja þær í því samhengi.

Frábært veður. Gangan tók 1. klst og 1 mín.

Heimildir:
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla II, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2014.
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-Keflavíkurvegarins), Sesselja G. Guðmundsdóttir, 2007.

Minna-Knarranes

Heimasel Minna-Knarrarness í Sauðholtum.

Minna-Knarrarnes

Á göngu FERLIRsfélaga í heiðinni ofan Vatnsleysustrandar, millum Auðnaborgar og Lynghólsborgar, ofan Knarrarness, rákust þeir m.a. á þrjár nálægar tóftir á grónum klapparhrygg, á svonefndu Sauðholti.

Krummhóll

Krummhóll – „vörðubrot“.

Getið er um Sauðholt í örnefnalýsingu Kristjáns Eiríkssonar fyrir Knarrarnes, sbr. „Upp af Vorkvíum er Krummhóll og var vörðubrot á honum. – Grasigróinn hóll, þýfður og svolítið toppmyndaður, er rétt suðaustan Krummhóls. Hann heitir Borg – Svolítil lægð er milli Borgar og Krummhóls. Lynghóll er vestur af Krummhól. Flatir eru ofan við Borgina og ofan þeirra Sauðholt (ft)“. Kristján getur ekki um tóftir í Sauðholtum.

Framangreind lýsing skýrir margt enn óskýrt á þessu svæði, auk þess að nauðsynlegt var að skýra það um betur. Vörðubrotið á Krummhól sést enn, Vorkvíar voru afgirtur gróinn blettur ofan við Hellur í landi Minni-Knarrarvogs. „Grashóllinn gróni“ er reyndar austan Krummhóls. Á honum er gömul fjárborg. Lynghóll er langt farri í suðvestri. Lýsing Kristjáns er þrátt fyrir framangreint ágæt ávísun á Sauðholtin. Hún vakti áhuga á nánari könnun á vettvangi.

Knarrarnes - refagildra

Knarrarnes – refagildra.

FERLIR gekk í framhaldinu með Birgi Þórarinssyni, húsbónda á Minni-Knarrarnesi, upp í heiðina á tilnefndu svæði. Birgir er þarna öllum hnútum kunnugur.

Eftir að hafa gengið að Digruvörðu, landamerkum Minni-Knarrarness og Ásláksstaða vestan yfir Vorkvíar og skoðuð tóft „brúsahússins“ við Gamlaveg ofan Hellu var staðnæmst við litla landamerkjavörðu á klapparhól ofan vegarins. Ljóst var að varðan sú var í sjónhendingu við Digruvörðu í línu upp heiðina að áberandi vörðu á Knarrarstaðaholti með beina stefnu í „Nyrðri-Keilisbróður“.

Minna-Knarranes

Minna-Knarrarnes – minnismerki um hund.

Skammt austar var stölluð nútímavarða í lægð á millum skollóttra hraunhraunhóla. Birgir sagði að hann hefði leyft Ítala nokkrum, eftir hans þrábeiðni, að grafa dauðan hundinn hans þarna og auk þess að hlaða minnismerki hundinum til heiðurs. Birgir sagðist hafa verið fjarverandi þegar leyfið var veitt svo umfangið hafi komið honum á óvart er heim kom.

Haldið var áfram upp heiðina og staðnæmst við vörðubrotið á Krummhól. Auðljóst var að þarna hafði verið skjól refaskyttu fyrrum. Leifar af torfhlaðna skjólinu gáfu það til kynna, auk þess sem varðan virtist skjól fyrir skyttuna fyrir niðurkomu refsins beggja vegna ofanverðar klapparhæðar.

Minna-Knarrarnes

Krummhóll – „vörðubrot“.

Töldu viðstaddir líklegt, að fenginni reynslu, að hlaðna refgildru væri að finna í nágrenninu. Bæði var það vegna staðsetningar skjólsins með hliðsjón af landslaginu og tilkomu byssunnar á síðari tímum. Hafa ber í huga að refurinn hefur frá örófi alda fetað sömu slóðirnar fram og til baka eftir árstíðum. Forfeðrum vorum var kunnugt um það. Þeir hlóðu því gildrur í gegnum aldir á sömu slóðum og seinni tíma veiðimenn nýttu sér aðstöðuna með nýjum og nútímalegri áhöldum.

Eftir stutta göngu var gengið, að því er virtist fram á vörðubrot á klapparhrygg. Við nánari skoðun var þarna greinilega um forna hlaðna refagildru að ræða, þá 98. fundna og skráða á Reykjanesskaganum.

Minna-Knarrarnes

Minna-Knarrarnes – forn refagildra opinberuð um skamma stund.

Skv. Þjóðminjalögum má að vísu ekki hreyfa við fornleifum án heimildar Minjastofnunar, en þar sem reyndasti fornleifafræðingurinn á svæðinu var með í för, var ákveðið að sýna þátttakendum hleðslutæknina, innvolsið og lýsa tilgangi og tilurð þess fyrir viðstöddum. Að því loknu voru allir fyrrum steinar fjarlægðir ofan af innganginum og síðan settir nákvæmlega á sinn stað aftur.

Hlaðnar refagildrur eru mannvirki er komu hingað til lands með forfeðrum og -mæðrum vorum frá Noregi. Þær voru notaðar, sem fyrr sagði, allt umfram tilkomu skotvopna. Með tilkomu þeirra voru gildrurnar jafnan virkjaðar að vetrarlagi. Eftir því sem skotvopnin urðu algengari og betri lagðist gildrunotkunin af. Þeir síðustu manna er vitjuðu gildranna gengu illa um þær. Þeir rótuðu grjótinu ofan þeim án þess að laga til eftir sig. Þess vegna líta fornar refagildrur út líkt og fallnar vörður í augum nútíma fornleifafræðinga. A.m.k. hafa þær sjaldnast verið skráðar sem slíkar í nútíma fornleifaskráningum.

Refgildra

Refagildra – ÓSÁ.

Steinhlaðin refagildra felur í sér op, gang, farg, lokhellu og fyrirstöðu. Hér verður ekki eytt stöfum í að lýsa veiðiaðferðinni. Henni hefur áður verið lýst á vefsíðunni.

Skammt ofar var komið upp á Sauðholtin fyrrnefndu. Á þeim bar fyrir augu þrjár hlaðnar tóftir; fremst beitarhúsið framangreint, og ofar hlaðinn stekkur með aðtengdri tóft. Augljóslega var þarna um að ræða fyrrum heimasel frá Minna-Knarrarnesi, þrátt fyrir að minjarnar væru skráðar með Ásláksstöðum, næsta bæ að vestanverðu.
Stekkurinn og aðliggjandi tóft bárum þess merki að um heimasel hafi verið að ræða, væntanlega eftir að aflokinni selstöðinni í Knarrarnesseli ofar í heiðinni lokinni. Með breyttum búskaparháttum, tilkomu þéttbýlismyndunar og fækkun fólks í sveitum færðust selstöðurnar nær bæjunum. Það er reyndar saga út af fyrir sig, sem vel hefur áður verið tíunduð hér á vefsíðunni.

Minna-KnarrarnesÍ „Aðalskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla II“ segir undir skráningu Ásláksstaða: „Beitarhústóft; Tvískipt tóft er um 1,2 km suðaustan við bæ. Tóftin er á flatlendi ofan/suðvestan við gróinn og nokkuð grösugan lautarbolla. Dálítil brekka er til norðurs frá tóftinni.
Tóftin er grjóthlaðin og tvískipt og snýr nálega norður-suður. Hún er um 8,5×6 m að stærð. Mesta hæð veggja er um0,5 m og sjást 2 umför hleðslu. Vesturhluti tóftar er gróinn og sést ekki í hleðslur þar. Hólf I er nyrst í tóftinni, það er um 5×2,5 m að innanmáli og snýr austur-vestur. Ekki virðist vera veggur fyrir austurhlið hólfsins og er það því opið til þeirrar áttar. Hólf II er samsíða hólfi I en ógreinilegra. Það er um 5×1 m að innanmáli og snýr austur-vestur. Ekki sést op á því. Líklegt er að þarna hafi verið beitarhús en lag tóftarinnar, staðsetning hennar og fjarlægð frá bæ bendir allt til þess hlutverks.“

Minna-Knarrarnes

Minna-Knarrarnes – beitarhús.

Í fornleifaskráningunni fyrir Stærra-Knarrarnes segir: „Upp af Vorkvíum er Krummahóll og var vörðubrot á honum.- Grasigróinn hóll, þýfður og svolítið toppmyndaður, er rétt suðaustan Krummahóls. Hann heitir Borg. Svolítil lægð er milli Borgar og Krummhóls,“ segir í örnefnaskrá. „Rétt sunnan og ofan við vegamót Gamlavegar og Strandarvegar í Breiðagerði er Krummhóll með uppmjórri vörðu á og í framhaldi og upp af honum kemur svo Borg en það er langt holt nokkuð gróið og þar gæti hafa verið fjárborg fyrrum. Ofarlega í holtinu eru rústir af beitarhúsum, tvær tóftir hlið við hlið og ein þvert á þær.

Minna-Knarrarnes

Minna-Knarrarnes – stekkur (heimasel). Beitarhús efst t.h.

Aðeins neðar á holtinu er greinilega nýrri fjárhústóft. Rétt ofan og austan við efri rústirnar finnum við lítið vatnsstæði í klöpp, vel falið í viki norðan undir lágum hól,“ segir í Örnefnum og gönguleiðum. Allar þær minjar sem að framan eru nefndar eru skráðar saman og fleiri til en vatnsstæðið fannst ekki. Heimildum kemur ekki saman um örnefnið Borg. Í örnefnaskrá er það sagt vera grasigróinn, toppmyndaður hóll, en í bókinni Örnefni og gönguleiðir er það sagt vera holt. Niðurstöður vettvangskönnunar eru að örnefnið Borg eigi við um fjárborg sem hefur verið breytt í stekk á einhverjum tímapunkti. Þessar minjar hafa bókstafinn C í nánar umfjöllun hér fyrir neðan. Minjarnar eru um 1 km sunnan við bæ. Minjarnar eru sunnarlega á löngu og háu holti sem snýr norður-suður.

Minna-Knarrarnes

Minna-Kjarrarnes – heimasel.

Minjarnar eru á svæði sem er um 55×20 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur.
Nyrst á svæðinu er tóft A. Hún er grjóthlaðin en gróin. Hún er um 7×5 m að stærð, snýr suðaustur-norðvestur. Hún virðist vera einföld og er op á henni til norðvesturs. Mikið grjót hefur hrunið inn í hana og norðausturlangveggur hefur allur hrunið inn í tóftina. Mesta hleðsluhæð er um 0,5 m. Líklega er þessi tóft sú sem sögð er „nýrri fjárhústóft“ í tilvísun hér að ofan eða beitarhús.

Minna-Knarrarnes

Minna-Knarrarnes – búr.

Um 40 m suðaustan við tóft A er gróin tóft B. Hún er einföld, um 4×4 m að stærð og er inngangur inn í hana úr austri. Mesta hæð veggja er um 0,5 m. Lítillega sést í grjót í norðausturhorni tóftarinnar. Til austurs frá tóftinni er greinilegur niðurgröftur eða renna sem virðist vera manngerð. Hún er um 6×3 m að innanmáli, snýr austur-vestur og mjókkar í austurenda. Mesta dýpt er um 0,3 m. Um 5 m austan við endann á rennunni er tóft C, meint stekkjartóft. Lögun tóftarinnar og örnefnið Borg bendir til þess að þarna hafi áður verið fjárborg. Annað dæmi um fjárborg sem virðist hafa verið breytt í stekk er t.d. Þórustaðaborg og Vatnabergsstekkur/Vatnaborg.

Tóftin myndar dálítinn hól og er orðin óskýr. Símastrengur hefur verið grafinn í gegnum hana og skemmt hana.

Minna-Knarrarnes

Minna-Knarrarnes – stekkur (heimasel).

Tóftin er nokkuð gróin þó enn sjáist í grjóthleðslur. Hún er um 9×12 m að stærð og snýr nálega austur-vestur. Hún skiptist í þrjú hólf en hólfin eru nefnd tóftir í tilvísun hér að framan. Hólf I er í norðvesturhorni. Það er um 1×3,5 m að innanmáli, snýr norður-suður. Inngangur er úr suðri. Hólf II er samsíða hólfi I. Það er um 1×2,5 m að innanmáli. Það snýr eins og hólf I og inngangur í það er einnig úr suðri. Hólf III er sunnan við hólf I og II og er um 4×1,5 m að innanmáli, snýr austur-vestur. Mesta hæð tóftar er um 1 m. Mest sjást 2 umför í innanverðum hleðslum. Gróin en grýtt tota liggur úr tóftinni til austurs sem er um 4 m löng og um 2 m á breidd. Mögulegt er að rekstrargarður hafi verið þar og inngangur inn í tóftina (hólf III) en það sést ekki lengur. Gryfja D er um 2 m suðaustan við tóft C. Hún er um 2×1,5 m að innanmáli, snýr suðvestur-norðaustur. Mesta dýpt er um 0,5 m. Ógreinilegar grjóthleðslur eru í innanverðum veggjum.“

Minna-Knarrarnes

Minna-Knarrarnes – beitarhús.

Um er að ræða áhugaverðan stað í hvívetna, ekki síst að teknu tilliti í sögulegu samhengi fyrrum búskaparhátta. Um er að ræða 423. þekkta selstöðuna á Reykjanesskaganum.

Í „Smáriti Byggðasafns Skagfirðinga“ um „Vitnisburð búsetuminja“ árið 2010 segir um beitarhús: „Beitarhús – sauðir voru langoftast hafði á beitarhúsum, allfjarri túnum. Stundum til fjalla. Þar sem var góð vetrarbeit, sem þýðir að þeim var beitt (látnir bíta gras) á meðan gaf á jörð, sem kallaða var.
Menn gengu á beitarhúsin alla daga eftir að farið var að hýsa féð, til að reka það til beitar. Ef haglaust var var hey gefið á garða. Í einstaka tilfellum voru hey geymd og tyrfð við húsin þannig að skepnur kæmust ekki í það, eða að menn báru hey í meis (rimlakassi úr tré) á bakinu til húsanna þá daga sem nauðsynlegt þótti að gefa á garðann.“

Beitarhús

Beitarhús ofan Knarrarness.

Í neðanverðri heiðinnni, ofan bæjanna við ströndina, er að öllu jöfnu tiltölulega snólétt og því er staðsetning beitarhússins vel skiljanleg. Augljóst er að „stekkurinn“ hefur verið notaður um alllangt skeið og eftir að beitarhúsið var byggt  því annars hefði grjótið verið tekið úr hleðslum stekksins við byggingu þess. Hvorutveggja hefur farið vel saman því um notkun hvors um sig voru á sitthvorri ártíðinni.

Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1.mín.

Heimildir:
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla II, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2014.
-Örnefnalýsing Kristjáns Eiríkssonar fyrir Knarrarnes.

Keilir

Keilir.