Tag Archive for: Helghóll

Helghóll

Innan lögsagnarumdæmis Grindavíkur eru fjölmörg örnefni er minna á álfatrú og huldufólkssögur. Eftirminnileg dæmi er álfhóllinn á vinnsluplani „Risikó“ (Þorbjörn) ofan við Svíragarð, sem fékk að halda sér þrátt fyrir þörfina á athafnarými við vinnslustöðina. Segja má því með sanni að hóllinn sá sé virðingarverð afstaða hlutaðeigandi til slíkra minja.
SkipsstígurEnn einn huldufólkshóllinn í Grindavíkurlandi er Helghóll. Fáir Grindvíkingar vita hvar hann er að finna, enda eðlilegt. Hóllinn hefur verið afgirtur frá bæjarbúum og flestum öðrum í u.þ.b. 60 ár þrátt fyrir að hann er ekki nema í rúmlega örskotsfæri frá höfuðbýlinu Járngerðarstöðum.
Í örnefnalýsingu Járngerðastaða segir m.a.: „Upp af Silfru voru Eldvörpin, en þau eru nú horfin því herinn sléttaði þau út. Vestur af þeim er Eldborg. Þar upp af er graslendi sem nefnt er Lágafellsheiði. Um hana lá vegurinn til Keflavíkur [Skipsstígur]. Þar vestur af er Bjarnafangi (S.T.) eða Bjarnafles. Þetta er klöpp rétt vestur eða norðvestur af Eldborg. Hjá henni er Litliblettur. Þá er Stóriblettur og Langhóll vestur af Eldvörpum.“
Þegar hér er komið er rétt að geta þess að örnefnalýsingin miðast fyrst og fremst við tvennt; annars vegar heimabæina á Járngerðarstöðum og hins vegar hina fornu þjóðleið til Njarðvíkur, Skipsstíginn. Stígurinn sá liggur upp frá Járngerðarstaða-bæjunum svo til í beina línu upp með vestanverðu Lágafelli. 

Byrgi

Meginhluti leiðarinnar þarna er innan mannheldrar girðingar loftskeytastöðvar sem verður hefur þar í alllangan tíma, svo langan að fæstir hafa farið þar um fótgangandi í næstum einn mannsaldur (sjá þó meira HÉR).
Þegar FERLIR leitaði eftir því við starfsmenn Kögunar, sem rekur fjarskiptastöðina nú, að fá að skoða svæðið á ný m.t.t. örnefnalýsingarinnar, var leyfi til þess góðfúslega veitt. Hafa ber í huga að á svæðinu er mörg viðkvæm svæði og beinlínis hættuleg. Það er því full ástæða til að virða allar takmarkanir, sem gilda um aðgang að því.

Helghóll

Helghóll.

Þegar inn fyrir girðinuna var komið var örnefnalýsingin dregin upp að nýju: „Norður af Eldvörpum er grashóll sem heitir Helguhóll og kringum hann eru grasivaxnar lágar, Helghólslág (S.T.) eða Helghólslautir. Hóllinn sjálfur er toppmyndaður, þar var sagt að hefði verið huldufólkskirkja. Upp af Helghól er Lágafell.“ Auk þess segir: „Austan við gamla veginn ofan túns skammt frá Silfru er Garðhúsahraun. Þar er nú mikið af trönum. Hraunkriki inn í Garðhúsahraunið austanvert heitir Leynir. Þá er Strókabyrgjahraun [þar sem grunnskólinn er núna]  þar sem er t.d. hús Guðsteins Einarssonar. Þar upp af er Svartikrókur vestan við hraunið en Kúadalur í hrauninu þar sem vegurinn liggur.
Eldvarpahraun tekur við vestan við Kúadal. Lágafellsheiði heitir Skipsstígureinkum austur af gamla Keflavíkurveginum en þegar komið er upp fyrir Lágall heitir vegurinn Skipsstígur, sem áður er nefnt. Norður af Lágafelli er svo Skipsstígshraun.“
Við skoðun á vettvangi var Helghóll augljós; toppmyndaður gróinn hóll neðan við Lágafell. Að vísu er hóllinn gróinn mót vestri og suðvestri, þ.e. þegar horft er á hann frá Skipsstígnum, en annars er hann klettóttur mót suðri og suðaustri og sendinn mót norðri. Beggja vegna eru hinar grónu lágar, sem fyrr er lýst. Gæs hafði komið sér vel fyrir undir hólnum og verpt í lágina, á öruggum stað – innan girðingar. Á hólnum hefur verið hlaðið byrgi, sennilega frá því fyrir tíma girðingarinnar og þá af refaskyttum. Ekki er langt að bíða að byrgið verði að fornleif því skv. skilgreiningu Þjóðminjalaga verða allar mannvistarleifar eldri en aldargamlar sjálfvirkt að fornleifum. Á það líka við um álfa- og huldufólkshóla eins og Helghól. Að vísu er þá ekki miðað við myndun hólsins heldur hvenær skráðar voru heimildir um slíkan átrúnað – sem verður að teljast sérkennilegt því álfar og huldufólk verða jú miklu mun eldri en menn.
Til gamans má geta þess að starfsmenn fjarskiptastöðvarinnar voru mjög áhugasamir um allan fróðleik um örnefni og minjar á svæðinu. Með góðri vitneskju og vitund þeirra má ætla að minni líkur verði á ómeðvituðu raski á slíkum stöðum í framtíðinni.
Frábært veður. Gangan tók 18 mín.

Heimild:
-Örnefnalýsing fyrir Járngerðarstaði.

Helghóll

Helghóll sunnan Lágafells.