Færslur

Snorri

Björn Hróarsson skrifaði um “Hellaferðir” í Helgapóstinn, ferðablað, árið 1987.

Björn Hróarsson

Björn Hróarsson við Snorra.

“Ísland er eitt af merkari eldfjallalöndum jarðar og óvíða getur að líta jafn margar gerðir eldfjalla og hrauna.  hraununum er fjöldinn allur af hellum. Þeir eru af ýmsum stærðum og gerðum með strompum, afhellum, útskotum, fossum, veggsyllum, dropsteinum, hraunstráum og margs konar öðrum formum.
Þegar hraunár renna lengi í sömu stefnu myndast fyrst hrauntraðir og síðan í mörgum tilfellum hellar. Hraunið getur runnið langar leiðir í göngum undir storkinni hraunhellu. Þegar hraunrennslinu lýkur, slíkt getur bæði gerst er eldvirkni stöðvast eða ef hraunáin fær annan farveg, heldur streymið oft áfram niður göngin, þau tæmast og holrúm myndast. Ef þak holrúmsins er nægilega sterkt til að haldast uppi eftir kólnunina varðveitist hellirinn.

Víðgemlir

Í Víðgemli.

Margskonar hraunmyndanir eru í hellum og eitt af því sem gleður augað er dropasteinar sem myndast meðan hraunið er að storkna. Dropasteinar myndast hins vegar smátt og smátt vegna útfellingar efna eins og t.d. kaiks eða salts og finnast vart hér á landi. Ýmis form í hellum myndast við endurbráðnun hrauns. Slíkt gerist líklega vegna gasbruna við mikinn hita og þá lekur hið endurbráðna hraun oft niður veggi hellisins eða lekur niður úr loftinu og myndar stuttar keilulaga myndanir, gjarnan með glerjuðu yfirborði.

Dropsteinn

Dropsteinn í Snorra.

Í sumum heilum eru afar fagrar ísmyndanir sem eru hvað fegurstar eftir langa frostakafla síðla vetrar. Íssúlurnar geta orðið meira en mannhæðarháar. Vatnsdropar er falla úr hrauninu frá lofti hellisins frjósa er þeir koma niður í hellinn og ísdrjólar hlaðast upp. Er líður á sumarið og hlýnar bræða vatnsdroparnir sig inn í ísdrjólana, gera þá hola að innan og eyða þeim.

Í nágrenni höfuðborgarsvæðisins er fjöldi hella, enda Reykjanesskagi þakinn hraunum. Hraun á skaganum þekja yfir 1000 ferkílómetra og þar leynist fjöldi glæsilegra hella.
Þingvallasvæðið er einnig þakið hraunum er geyma nokkra skemmtilega hella. Hallmundarhraun, ofan byggða í Borgarfirði, hefur nokkra sérstöu meðal íslenskra hrauna, þar eru kunnir nokkrir stórir hellar. Stærstu og þekktustu hellarnir eru Víðgelmir, Surtshellir og Stefánshellir. Víðgelmir er talinn stærstur hraunhella á jörðinni, rúmmál hans er um 150.000 rúmmetrar sem samsvarar um 250 meðal einbýlishúsum.
Hraunmyndanir í hellum eru viðkvæmar og þola margar þeirra nær enga snertingu án þess að brotna. Samt eru flestir þeir hellar sem fundist hafa á liðnum árum alveg ósnortnir, þegar þeir finnast, þó þeir séu jafnvel 5.000—10.000 ára gamlir. Í hellunum er stöðugt veður, svipað hitastig árið um kring, alltaf logn og veðrun engin. Hellarnir haldast því óbreyttir þar til ferðafólk tekur að leggja leið sína þangað.

Tanngarðshellir

Tanngarðshellir.

Nær allir íslenskir hraunhellar sem frést hefur af eiga það sameiginlegt að vera stórskemmdir. Viðkvæmar hraunmyndanir hafa verið brotnar og fjarlægðar. Rusl af ýmsu tagi hlaðist upp og hellarnir sótast. Um þennan undraheim íslenskrar náttúru hefur umgengni verið með ólíkindum slæm. Hraunhellar eru hluti af viðkvæmustu náttúru Íslands. Þar má lítið út af bera til að valda skemmdum. Fjölmargir hellar eru þess eðlis að þeir verða aldrei opnaðir ferðafólki. Aðrir eru stórir og ekki eins viðkvæmir þó glæsilegir séu.
Glæsilegir hraunhellar eiga það sameiginlegt að þar er margt að skoða en hellarnir eru það stórir að lítil hætta er á skemmdum og í þessum hellum er lítið af viðkvæmustu hraunmyndununum.” – Björn Hróarsson

Heimild:
-Helgapósturinn, ferðablað 24.06.1987, Hellaferðir, Björn Hróarsson, bls. 14.

Arnarker

Arnarker.