Tag Archive for: Hellugata

Fornugata

Í „Aðalskráningu fornleifa í sveitarfélaginu Ölfusi – Áfangaskýrsla I, 2015“ og í örnefnalýsingum fyrir Stakkavík og Vogsósa, má lesa eftirfarandi um hraunmarkaðar götur vestan Víðisands suðvestan Hlíðarvatns í Selvogi.

Fornugötur

Fornugötur.

Göturnar eru markaðar í helluhraunshelluna allt að apalhrauni Herdísarvíkurhrauns þar sem þær hverfa undir nýrra hraun. Ljóst er að mikil umferð hefur verið um þessa leið, enda helsta skreiðarflutningsleiðin frá sunnanverðum Reykjanesskaganum að Skálholtsstól til forna. Gatan eða göturnar á hraunhellunni vestan Víðisands hafa ýmist verið nefndar „Alfaraleið“, „Hellugata“ eða „Fornugötur“.

„Milli sjávar og Hlíðarvatns, þar vestur af, liggur klapparhraun mikið og slétt, kallast Hellur. Um Hellur liggja gamlar reiðgötur, enda var þarna um hinn gamla alfaraveg að ræða… Gata þessi er ekki eins glögg og hin neðri, en aftur á móti er hún vörðuð Helluvörðum allt austur á Víðisand,“ segir í örnefnalýsingu Stakkavíkur. Til er önnur lýsing sem segir frá ýmsum leiðum í nágrenni við Selvog.

Förnugötur

Alfaraleið/Fornugötur.

Þar er þessi leið kölluð Alfaraleið. Hún lá frá Vogsósum, yfir Ósinn á Vogsósavaði og síðan um Víðisand. Þar sem honum sleppir var farið um Hellur svonefndar og var þá hægt að fara bæði efri og neðri leið, og var sú neðri talin eldri, enda sennilega torfær í seinni tíð. Hún hverfur nánast í hraun skammt austan við Mölvík en sú efri stefnir meira í norðaustur, fyrst yfir fremur slétt hraun en svo um troðning yfir yngra hraun sem stundum er kallað Bruninn. Þá taka við Mölvíkurklappir, beint upp af Mölvík en vestan við þær er komið yfir í Herdísarvíkurland. Sá hluti leiðarinnar sem var skráður á vettvangi er vestan við Víðasand, Hellurnar svonefndu og einnig Mölvíkurklappir. Í Hellunum sjást bæði merki um efri og neðri leiðina.
Leiðin liggur um fremur slétt helluhraun. Bílfær vegur liggur niður til suðurs rúmlega 1 km vestur af Stakkavíkurtúni. Þegar komið er nálægt sjávarkampinum eru Hellurnar á vinstri hönd og sjást götur í þeim fast við veginn, í stefnu á tvö vörðubrot.

Fornugötur

Fornugötur – varða.

Þetta er efri leiðin. Hún er fremur óljós í fyrstu en sést þó sem stígur í helluhrauninu. Þegar nær dregur vörðunum verður hún skýrari en verður aftur óljós á kafla á milli þeirra en fjarlægð milli varða er um 120 m. Annars er hægt að rekja þennan stíg um 400 m til VNV. Má ætla að það hafi þurft talsverða umferð járnaðra hesta til að slíta hrauninu svo mjög, enda lítur gatan helst út fyrir að hafa verið meitluð í hraunið með verkfærum, víðast um 30 cm breið og allt að 5-7 cm djúp. Um 400 m VNV af upptökum verður gatan ógreinileg en aftur sést stígur í grónu landi uppundir Brunanum og virðist hafa legið meðfram honum til norðurs, vestan við upphlaðinn vegarspotta. Skammt norðar sveigir svo gatan nánast beint í vestur, um troðning gegnum Brunann sem hlýtur að hafa verið ruddur því hraunið er annars úfið mjög.

Fornugötur

Fornagata.

Troðningur þessi er 2-3 m breiður, gróinn í botni en nokkuð hlykkjóttur. Bruninn er sennilega um 400 m breiður en þar sem honum sleppir tekur aftur við eldra helluhraun, Mölvíkurklappir. Þar sést aftur gata í hrauninu og er hún mjög greinileg á 30-40 m kafla en fjarar út heldur vestar en um miðjar klappir. Er þá komið út undir merki móti Herdísarvík. Þar tekur aftur við yngra hraun og úfnara og sést þar troðningur í átt að Herdísarvíkurbænum. Þá er komið að neðri leiðinni um Hellur. Hún sést um 150 m suðvestan við vestari vörðuna á efri leiðinni og þaðan má rekja hana rúma 500 m til vesturs, ofan í kvos sem liggur A-V ofan við sjávarkamp. Þessi gata er víðast hvar dýpri og greinilegri en efri leiðin og allt að 10-15 cm djúp þar sem mest er.
Í kvosinni er mikið af rekavið og rusli sem sjór hefur borið á land. Þar sem henni sleppir er gatan orðin ógreinileg en þó má sjá grunnan stíg sem liggur áfram til vesturs nokkurn spöl, uns komið er að úfnu hrauni sem er ekki greiðfært nema varkárum göngumönnum og sennilega alveg ófært hrossum.

Fornugötur

Fornugata.

Þá hefur götunum um Hellur verið lýst. Leiðir voru ekki raktar á vettvangi á Víðasandi. Þess má geta að póstvegurinn í átt að Strönd hefur væntanlega fylgt þessari leið, þá hinni efri, en ekki sáust þó vörður við hana nema þær tvær sem áður var getið og eru suðvestan við Hlíðarvatn.
Póstvegurinn lá þó ekki yfir Ósinn á Vogsósavaði heldur á Eysteinsvaði sem er töluvert neðar. Þess má geta að þegar komið hefur verið yfir Brunann á austurleið virðist slóð hafa legið áfram beint í austur, heim að Stakkavík.“

„Vogsósavað var rétt við túngarðinn og eiginlega aðalvaðið,“ segir í örnefnalýsingu. Nú er ekki ljóst hvar nákvæmlega Vogsósavað var en þó er líklegt að það hafi verið vestur eða suðvestur af bæ, þar sem breidd er á ósnum hátt í 250 m suður af Vaðhól“.

Fornugata

Fornugata.

„Eysteinsvað var niður undir Ósnum ytri, þ.e. Ósvaðið syðra. Það var einnig kallað Póstvaðið,“ segir í örnefnalýsingu. Eysteinsvað var heldur ofar en kampurinn eða um 1,2 km SSV af bæ. Á þessum stað er dálítil beygja á Ósnum. Að sögn Þórarins Snorrasonar var Ósinn víða fær en þessi staður var valinn vegna þess að það gat verið sandbleyta bæði ofan og neðan við við Ósinn. Vaðið var einnig kallað Póstvað, enda lá póstvegurinn þar yfir og sjást hans greinileg merki austar.“

Vogsósar

Vogsósar og nálægar götur.

Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar um Vogsósa segir: „Ósinn nefnist lækurinn, sem rennur úr Hlíðarvatni til sjávar niður undan Vesturtúni. Hlíðarvatnsós er hann einnig nefndur og Ósinn innri, þar sem hann fellur úr vatninu. Vogsósaós er hann einnig nefndur. Mörg vöð eru á Ósnum, enda þótt hann sé eiginlega alls staðar fær. Nyrzt er Ósvaðið nyrðra eða Gamlavað niður undan Vaðhól. Þá var Vogsósavað rétt við túngarðinn og var eiginlega aðalvaðið. Niður undir Ósnum ytri var Ósvaðið syðra, sem einnig var kallað Eysteinsvað, líka Póstvaðið.

Heimild:
-Aðalskráning fornleifa í sveitarfélaginu Ölfusi – Áfangaskýrsla I, 2015.
-Ö-Stakkavík, Gísli Sigurðsson.
-Ö-Vogsósar, Gísli Sigurðsson.

Fornugötur

Fornugötur (Alfaraleið/Hellugata).

Hellugata

Gengin var gamla þjóðleiðin milli Selvogs og Krýsuvíkur.

Hellugata

Ein Helluvarðanna.

Byrjað var við Helluvörðurnar á Hellum þar sem Stakkavíkurgatan kemur inn á leiðina. Þar er gatan djúpt mörkuð í helluhraunið eftir fætur, hófa og klaufir liðinna kynslóða og því auðvelt að fylgja henni þar sem hún beygir áleiðis að sjónum, upp á klapparhrygg og áfram niður og sunnan við hann. Annar angi götunnar liggur áfram til vesturs þar sem hún beygði áleiðis að sjónum, en sú leið er ekki eins mörkuð í landið. Götunar koma saman syðst við hrygg nýrra apalhrauns. Hún liggur inn á það, en hverfur síðan á u.þ.b. 300 m kafla þar sem sjórinn hefur náð að krafla í hana. Fjaran er þarna stórbrotin og talsverð látalæti í öldunni. Gatan kemur síðan aftur í ljós í grónum hraunbolla syðst í hrauninu og liggur þaðan áleiðis að Mölvíkurtjörn. Sjórinn hefur þó náð að kasta möl og grjóti yfir hana á smákafla.

Hellugata

Hellugata.

Austan við Mölvíkurtjörn er tóft, hugsanlega sjóbúð eða selstaða. Við hlið hennar er hlaðið gerði og garður að vestanverðu. Ofar, uppi á berginu ofan við vatnið, er fallin fjárborg eða gerði. Svæðið var rissað upp. Mölvíkurtjörnin sjál er falleg sem og aðstaðan umhverfis hana. Vatnið er ferskt. Engir þurrkgarðar eru sjáanlegir, en þó er ekki loku fyrir það skotið að fiskur hafi verið hertur eða þurrkaður á úfnu hrauninu sunnan við tóftina. Ekki er vitað til þess að minjarnar við Mölvíkurtjörn hafi verið skráðar á fornleifaskrá. Þarna er allnokkur reki og liggur gata niður að svæðinu, sennilega rekagata. Henni var fylgt til vesturs áleiðis að Herdísarvík. Þar sem gatan kemur inn á gamla akveginn frá Herdísarvík beygir hann upp í hraunið. Skammt vestan beygjunnar liggur Breiðabásstígur (gömul fjárgata að Breiðabáshelli) af honum til suðurs. Skammt vestar í mosahrauninu eru byrgi og þurrkgarðar svo kílómetrum skiptir.

Mölvíkurtjörn

Mölvíkurtjörn – sjóbúð.

Næst Gerðinu er gróið í kringum þá, en ekki ofan í hrauninu. bendir það til þess að nærgarðanir hafi verið meira notaðir, a.m.k. í seinni tíð útgerðar við Herdísarvík. Athyglisvert er að sum byrgin er svo til eins í laginu og byrgin undir Sundvörðuhrauni ofan við Grindavík, svonefnd „Tyrkjabyrgi“. Inni í gerðinu eru tóftir fjárhúsanna Langsum og Þversum. Sunnan við þau er Hlínargarðurinn, fallega hlaðinn og hefur að mestu staðist ágjöf sjávar, eins og honum var ætlað. Vestan við Þversum eru jarðlægar tóftir, en sjá má móta fyrir útlínum gerðis eða réttar. Niður við fjörubrún í Herdísarvíkurtjörninni mátti sjá hringlaga mannvirki með nokkrum steinum í miðjunni. Gæti verið seinni tíma handverk, en einnig fyrrum “steinavöllur” verbúðarmanna.

Herdísarvík

Herdísarvík – sjóbúðir.

Hér áður fyrr var þyrping húsa á sjávarkambinum, en sjórinn hefur brotið þær. Þar var m.a. saltgeymsla, beitugeymsla og lýsisgeymsla. Áleitni sauðfjár við útróðramenn var mikil. Til marks um það, þá var stundum kind á „hverjum öngli“ við beitningageymsluna (ÁÓ).
Skoðaðar voru sjóbúðirnar austan Herdísarvíkurhússins, tóftir útihúsanna vestan við húsið og bæjarstæði gamla bæjarins sunnan við þær. Í tjörninni mátti m.a. sjá brotna myllusteina og fleira frá gamla bænum. Í framvegg gamla bæjarins sá í stoðholu í steini.

Herdísarvíkrugata

Herdísarvíkurgata.

Gengið var áfram vestur Herdísarvíkurgötu. Gatan er vel greinileg, en greinilega lítið gengin. Hún er vel vörðuð. U.þ.b. 500 metrum vestan við húsið skiptist gatan. megingatan heldur áfram til vesturs, en neðri gata stefnir til suðvesturs. Hún liggur áleiðis niður að Herdísarvíkurseli ofan við Seljabót. Þaðan liggur stígur til norðvesturs austan við selið og sameinast Hedísarvikurgötunni á ný neðan austurhorns Geitahlíðar, eins og komið verður að síðar.

Þúfutittlingshreiður og lóuhreiður með eggjum í voru barin augum á leiðini. Iðandi fuglalíf allt í kring. Miðja vegu er fallegur gróinn áningastaður í skjóli undir hraunkanti. Haldið var áfram vestur hraunið. Þegar komið var áleiðis upp á Klifhraunið mátti sjá greinilegan stíg liggja af götunni upp tiltölulega slétt hraun, áleiðis að Sængurkonuhelli, er minnst hefur verið á áður í leiðarlýsingum. Herdísarvíkurgatan er mjög falleg þar sem hún liðast í gegnum hraunið. Skammt austan sýslumarkanna liggur þjóðvegurinn yfir gömlu götuna.

Sýslusteinn

Sýslusteinn.

Farið var yfir þjóðveginn og götunni fylgt áfram framhjá Sýslusteini og áfram upp í gegnum apalhraunið vestan hans. Hann kemur út úr því við austurhlíð Geitahlíðar, u.þ.b. 500 metrum ofan við þjóðveginn. Gengið var niður með brúninni (en búið er að skemma götuna á kafla með gryfjum) og niður á veg. Skammt vestar kemur neðri stígurinn inn á megingötuna, eins og fyrr var minnst á. Við gatnamótin liggur gatan norður fyrir þjóðveginn og liðast síðan nær samhliða honum ofar í hlíðinni (neðst í Sláttudal) og vestur fyrir sæluhúsið undir Fjárskjólshraunsbrúninni. Þar hverfur gatan undir þjóðveginn, alveg upp undir Kerlingardal.

Dysjar Herdísar og krýsu

Dysjar Herdísar, Krýsu og smalans neðst í Kerlingadal.

Þar var götunni fylgt áfram upp að dysjum Herdísar og Krýsu (og smalans), upp hlíð vestan dalsins og áfram áleiðis upp að Deildarhálsi. Gatan er óvörðuð á þessum kafla svo sæta þarf lagi við að finna hvar hann liggur inn í hraunið austan undir Eldborginni. Þaðan er stígurinn greinilegur upp hálsinn. Efst á hálsinum er gengið í gegnum hraunskarð þar sem útsýni er yfir gömlu leiðina neðanverða, Krýsuvíkurheiðina og heim að Krýsuvíkurbæjunum.
Gengið var eftir götunni niður hálsinn, en síðan beygt til suðurs vestan hans og haldið að gömlu Eldborgarréttinni niður við þjóðveginn.
Gengnir voru 13 km á 5 klst og 31 mín. Veður var frábært – bjart og hlýtt.

Fornagata

Fornagata (Hellugatan).

Tag Archive for: Hellugata